Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 220/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 220/2020

Fimmtudaginn 27. ágúst 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. maí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2020, um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 24. mars 2020. Meðfylgjandi umsókn kæranda var skólavottorð þar sem fram kom að kærandi stundaði 10 f-eininga nám við B. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað á grundvelli 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. maí 2020. Með bréfi, dags. 5. maí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 30. júní 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júlí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að honum hafi verið synjað um atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að hafa misst vinnuna. Kærandi sé í tveimur fögum í fjarnámi sem hafi ekki áhrif á möguleika hans til að vinna. Kærandi geti byrjað strax að vinna en hann hefði haldið að það væri ágætt að stunda nám með vinnu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið lúti meðal annars að 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að hver sá sem stundi nám í skilningi c-liðar 3. gr. laganna teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum. Fram komi í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna að þrátt fyrir framangreint ákvæði geti atvinnuleitendur í háskólanámi átt rétt til atvinnuleysisbóta að nánari skilyrðum uppfylltum. Í máli kæranda hafi ekki verið um að ræða nám á háskólastigi og eigi undanþágur 2. og 3. mgr. laganna því ekki við. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið skráður í nám á framhaldsskólastigi. Af þessu verði að álykta að meginregla sú sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. eigi við í tilviki kæranda.

Ljóst sé af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar árið 2006 sé í umfjöllum um 52. gr. frumvarpsins tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, hvort sem um sé að ræða dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám. Auk þessa sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt undanþáguheimild 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 geti sá sem stundi nám talist tryggður sé námið hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 4. gr. reglugerðar nr. 1224/2015 sé fjallað um námssamninga. Vinnumálastofnun sé með 4. gr. reglugerðarinnar veitt heimild til að gera námssamning við atvinnuleitendur. Samkvæmt framangreindu sé það skilyrði fyrir því að geta sótt nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir atvinnumissi áður en hann óski eftir samningi, sbr. b-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Þar sem kærandi hafi stundað nám þegar hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta eigi framangreind undanþága ekki við í hans máli. Kærandi eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hann stundi nám og því hafi stofnuninni borið að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Óumdeilt er að kærandi var skráður í og stundaði nám við B þegar hann sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta. Þá er óumdeilt að nám kæranda var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Úrskurðarnefndin telur að nám kæranda falli undir skilgreiningu c-liðar 3. gr. laganna, enda er um að ræða nám á framhaldsskólastigi. Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 átti við um kæranda, þ.e. hann stundaði nám í skilningi laganna. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma ekki til skoðunar þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að hafna umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. apríl 2020, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum