Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

1088/2022. Úrskurður frá 12. júlí 2022

Hinn 12. júlí 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1088/2022 í máli ÚNU 22010001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. janúar 2022, kærði A ákvörðun embættis landlæknis um að synja beiðni hans um aðgang að upplýsingum.

Með erindi til embættis landlæknis, dags. 2. desember 2021, óskaði kærandi eftir aðgangi að upplýsingum um spítalainnlagnir og fjölda legudaga vegna inflúensu, COVID-19 og aukaverkana bólusetninga á tilteknu tímabili. Beiðnin var nánar tilgreind í sex liðum og vörðuðu upplýsingar um:

  1. Spítalainnlagnir vegna COVID-19 frá upphafi, þ.e. frá áramótum 2019-2020, tímaskipt eftir mánuðum og eftir annars vegar innlögnum og hins vegar legudögum.
  2. Spítalainnlagnir vegna inflúensu síðustu fimm ár, frá 1. janúar 2017, tímaskipt eftir mánuðum og eftir annars vegar innlögnum og hins vegar legudögum.
  3. Spítalainnlagnir þar sem tilkynnt var um aukaverkun í kjölfar COVID-19 bólusetningar hjá viðkomandi frá upphafi, þ.e. frá áramótum 2020-2021, tímaskiptum eftir mánuðum og eftir annars vegar innlögnum og hins vegar legdögum.
  4. Spítalainnlagnir vegna aukaverkana af bólusetningum annarra en COVID-19 bólusetningum síðustu fimm ár, frá 1. janúar 2017, tímaskipt eftir mánuðum og eftir annars vegar innlögnum og hins vegar legudögum.
  5. Uppsafnaður heildarfjöldi innlagna og legudaga vegna COVID-19 frá upphafi, þ.e. frá áramótum 2019-2020, þ.m.t. heildarfjöldi innlagna þar sem sjúklingar voru lagðir á gjörgæslu og/eða tengdir við öndunarvél.
  6. Uppsafnaður heildarfjöldi tilfella þar sem tilkynnt var um aukaverkun í kjölfar COVID-19 bólusetningar hjá viðkomandi frá upphafi, þ.e. frá áramótum 2020-2021, eftir annars vegar innlögnum og hins vegar legudögum.

Í öllum tilvikum var óskað eftir upplýsingum sundurliðuðum út frá bólusetningum, þ.m.t. út frá lengd frá bólusetningu, svo og eftir því hvort viðkomandi hefðu afþakkað bólusetningu samkvæmt læknisráði eða ekki. Í liðum 5 og 6 var auk þess óskað eftir framangreindri sundurliðun að viðbættri sundurliðun eftir því hvort um væri að ræða undirliggjandi veikindi eða ekki og eftir fjölda sprauta bólusettra (ein, tvær eða þrjár sprautur). Loks var í liðum 3 og 6 jafnframt óskað sundurliðunar eftir því hvort innlagðir hefðu verið greindir með sjúkdóminn eða með jákvæða niðurstöðu á PCR prófi.

Kærandi tók fram í beiðni sinni að hann felldi sig við að fá upplýsingarnar afhentar í áföngum enda væri beiðnin umfangsmikil.

Í ákvörðun embættis landlæknis sem var send með tölvubréfi hinn 9. desember 2021 kom fram að beiðni kæranda væri synjað með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem ekki væri skylt að útbúa ný gögn til að verða við upplýsingabeiðni. Þá var einnig vísað til 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga um að heimilt væri að hafna beiðni þar sem meðferð hennar tæki svo mikinn tíma og krefðist svo mikillar vinnu að ekki væri fært að verða við henni. Væri embætti landlæknis og sóttvarnalæknis ómögulegt að útbúa öll þau gögn sem óskað væri eftir þar sem upplýsingar sem nauðsynlegt væri að vinna væru ekki í fórum embættisins. Loks kom fram í ákvörðun embættisins að ljóst væri af umfanginu að til þess að vinna hluta þeirra upplýsinga sem óskað væri eftir þyrfti að samkeyra heilbrigðisskrár sem landlæknir héldi samkvæmt 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og til þess að framkvæma slíka samkeyrslu þyrfti sérstaklega að óska eftir leyfi Persónuverndar samkvæmt reglum Persónuverndar nr. 811/2019, um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Yrði því að telja að við þær aðstæður, að forsenda þess að afhenda upplýsingar væri svo umfangsmikil samkeyrsla persónugreinanlegra gagna sem raun væri, styrkti enn fremur þá afstöðu embættisins að ekki væri hægt að verða við beininni vegna umfangs hennar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar tekur kærandi fram að hann telji embætti landlæknis hafa mistúlkað ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga enda bjóði sú túlkun upp á að hafna beri hvers kyns samantekt upplýsinga. Kærandi mótmælir því að 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga geti átt við um beiðni sína enda sé ákvörðun embættisins þar um ekki rökstudd.

Kærandi hafnar því að 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. geti átt við enda komi fram í 3. mgr. sama ákvæðis að áður en beiðni verði vísað frá beri að veita málsaðila leiðbeiningar og gefa honum færi á að afmarka beiðni sína nánar. Kæranda hafi hvorki verið leiðbeint né veitt færi á að afmarka beiðni sína frekar. Embættið hafi auk þess ekki greint kæranda frá því hvaða gögn væru til og hver ekki heldur einungis vísað almennt til þess að ekki væri unnt að útbúa öll umbeðin gögn þar sem þau væru ekki öll í fórum embættisins.

Í kæru eru dregnar í efa skýringar embættisins á umfangi fyrirhafnar á samkeyrslu upplýsinga svo og að leyfi Persónuverndar þurfi að koma til. Í lögum um landlækni og lýðheilsu komi fram að upplýsingar í skrám landlæknis skuli vera ópersónugreinanlegar og að persónuauðkenni skuli vera dulkóðuð.

Þá er vakin athygli á því að í 7. og 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu hafi landlæknir það hlutverk að tryggja gæði og eftirlit heilbrigðisþjónustunnar, m.a. með viðeigandi skráningum upplýsinga til árangursmælinga. Mikilvægt sé að allar íþyngjandi sóttvarnaaðgerðir sem feli m.a. í sér frelsissviptingu og aðrar langvarandi takmarkanir og lokanir séu vel rökstuddar og byggi á traustum og vísindalegum rökum og gögnum sem eigi að vera aðgengileg eða auðsótt af almenningi. Telur kærandi það vera ámælisvert að embættið reyni að komast hjá því að afhenda slík gögn og enn alvarlegra ef heilbrigðisyfirvöld virðist ekki styðjast við gögn sem þegar ættu að liggja fyrir.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt embætti landlæknis með erindi, dags. 3. janúar 2022, og embættinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að embættið léti úrskurðarnefndinni í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Með erindi landlæknis, dags. 18. janúar 2022, var óskað eftir frekari fresti til þess að skila umsögn um kæruna vegna mikilla anna hjá embættinu og var umbeðinn frestur veittur til 26. janúar s.á. Var kærandi upplýstur um það með erindi sama dag.

Umsögn landlæknis barst úrskurðarnefndinni með erindi, dags. 26. janúar 2022. Í umsögninni er áréttuð afstaða embættisins um að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og athugasemdum kæranda um að embættið hafi rangtúlkað umrædda málsgrein hafnað. Þá sé ljóst að um tímafreka vinnslu upplýsinga væri að ræða, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. laganna. Vinna við að útbúa þau gögn sem mögulega væri hægt að útbúa krefðist svo mikillar vinnu að ekki væri réttlætanlegt að leggja í hana auk þess sem sú vinna myndi bitna á annarri vinnu sem lægi á herðum embættisins í miðjum heimsfaraldri.

Í umsögninni kemur fram að umbeðnar upplýsingar, að því marki sem þær séu í vörslum embættisins, byggi á gögnum í heilbrigðisskrám sem haldnar séu samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Gögnin séu persónugreinanleg þó persónuauðkenni skuli dulkóðuð samkvæmt 3. mgr. sömu greinar. Því falli allar samkeyrslur gagna undir leyfisskyldu vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt reglum Persónuverndar nr. 811/2019.

Embætti landlæknis ítrekar í umsögn sinni að ómögulegt sé að útbúa megnið af þeim tölfræðiyfirlitum sem um ræðir þar sem upplýsingar í fórum embættisins nái ekki til allra umbeðinna breyta. Þannig geti embættið t.d. ekki samkeyrt gögn um innlagnir og fjölda legudaga vegna COVID-19 við bólusetningarstöðu. Nærtækara væri að óska eftir slíkum upplýsingum frá Landspítala sem hafi auk þess birt á heimasíðu sinni umfangsmiklar upplýsingar um innlagnir vegna COVID-19, m.a. eftir atvikum um bólusetningarstöðu innlagðra.

Beðist er velvirðingar á því að kæranda hafi ekki verið bent á þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi og hafa verið birtar opinberlega. Kemur fram að ýmsar tölulegar upplýsingar um COVID-19 sjúkdóminn, þ.m.t. um innlagnir og bólusetningar, séu aðgengilegar á vefsvæðinu covid.is. Þá séu ýmsar tölulegar upplýsingar um inflúensu að finna á vefsvæðinu landlaeknir.is.

Í umsögninni kemur fram að upplýsingar um innlagnir og annað tengt mögulegum aukaverkunum af bólusetningum séu ekki aðgengilegar embætti landlæknis. Tilkynningar um aukaverkanir berist Lyfjastofnun og ekki séu kóðar í sjúkraskrám eða gagnagrunnum embættisins sem hægt sé að samkeyra til að útbúa þau gögn sem óskað hafi verið eftir.

Loks kemur fram í umsögn embættisins að ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir séu byggðar á öllum fyrirliggjandi gögnum og í samstarfi við hlutaðeigandi aðila. Þannig byggi tillögur m.a. á gögnum erlendis frá og frá Landspítala sem hafi rekið göngudeild sem beri ábyrgð á umönnun þeirra sem greinist með COVID-19 á Íslandi. Því séu allar ákvarðanir byggðar á bestu fyrirliggjandi upplýsingum, m.a. um virkni bóluefna, fjölda innlagna og reynslu annarra þjóða af aðgerðum. Þá sé byggt á þróun faraldursins bæði hérlendis og erlendis og spám um mögulega framvindu. Ekki vaki fyrir embættinu að hindra aðgang að upplýsingum heldur sé um að ræða upplýsingar sem ekki sé á færi embættisins að afhenda í því formi sem óskað hafi verið eftir.

Umsögn embættis landlæknis var send kæranda til kynningar, dags. 27. janúar 2022, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með tölvubréfi hinn 11. febrúar 2022. Kærandi hafnar skýringum landlæknis á því að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi á því formi sem óskað hafi verið eftir. Bendir hann á að ekki sé hægt að synja beiðni um upplýsingar á tilteknu formi án þess að leiðbeina viðkomandi eða leggja til afgreiðslu á öðru formi. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort unnt hefði verið að afhenda hluta umbeðinna gagna heldur beiðni kæranda hafnað í heild sinni án frekari skýringa. Þá gerir kærandi athugasemdir við skýringar embættis landlæknis um að vinnsla beiðninnar sé of tímafrek. Eingöngu sé ætlast til að ákvæðinu sé beitt í undantekningartilvikum og þurfi þá að réttlæta beitingu þess með skýrum rökstuðningi og mati á umfangi þeirrar vinnu sem fara þurfi fram en það hafi ekki verið gert.

Niðurstaða

1.

Í málinu er deilt um afgreiðslu embættis landlæknis á beiðni kæranda um aðgang að nánar tilgreindum og sundurliðuðum upplýsingum um spítalainnlagnir og legudaga vegna COVID-19, inflúensu og aukaverkana bólusetninga á tilteknu tímabili.

Réttur kæranda til aðgangs að gögnum er reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt ákvæðinu er aðilum sem falla undir lögin skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.

Ákvörðun landlæknis er reist á því að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi hjá embættinu í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og jafnframt að meðferð beiðninnar útheimti svo mikinn tíma og vinnu að ekki sé fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. laganna. Þá er ákvörðunin reist á því til viðbótar að til þess að vinna hluta umbeðinna upplýsinga þurfi að samkeyra heilbrigðisskrár embættisins en til þess þurfi leyfi Persónuverndar samkvæmt reglum Persónuverndar nr. 811/2019, um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga.  

2.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga er meðal annars tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Upplýsingalög leggja því ekki skyldu á þá aðila sem falla undir lögin til þess að útbúa ný gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Úrskurðarnefndin tekur aftur á móti fram að þegar aðilum, sem falla undir gildissvið upplýsingalaga, berst beiðni um aðgang að upplýsingum ber þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. laganna, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.

Þegar svo háttar til að beiðni um aðgang að upplýsingum og gögnum nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt er að vinna upp úr fyrirliggjandi gögnum er því ekki sjálfgefið að unnt sé að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber stjórnvaldi að kanna hvort beiðandi óski aðgangs að gögnum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort hann vilji fá þau afhent, sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga og 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þegar umbeðnar upplýsingar er að finna í mörgum fyrirliggjandi gögnum ber eftir atvikum að afhenda aðila lista yfir mál og/eða málsgögn sem ætla má að beiðni hans geti beinst að í þeim tilgangi að hann geti tilgreint þau mál eða þau málsgögn sem hann óskar eftir aðgangi að, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 15. gr.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau, eða efni þess máls sem þau tilheyra, með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Samkvæmt 10. gr. eldri upplýsingalaga, nr. 50/1996, varð sá sem fór fram á aðgang að gögnum að tilgreina þau gögn máls sem hann óskaði eftir að kynna sér eða óska eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál, án þess að tilgreina einstök gögn þess. Með setningu laga nr. 140/2012 var dregið úr vægi umræddrar tilgreiningarreglu en sá sem óskar aðgangs að gögnum þarf eftir sem áður að tilgreina hvað það er sem hann óskar eftir að fá að kynna sér nógu skýrt til að unnt sé að verða við óskinni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 531/2014, 636/2016, 809/2019 og 1073/2022.

Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að tilgangurinn með umræddri breytingu á tilgreiningarreglunni hafi verið að auka upplýsingarétt almennings. Um það segir í frumvarpinu:

Byggjast tillögur frumvarpsins á því að sá sem óskar aðgangs að gögnum þurfi eftir sem áður að tilgreina það málefni (efni máls) sem hann óskar að kynna sér. Hann mun hins vegar ekki þurfa að tilgreina með nákvæmum hætti það tiltekna mál sem beiðni hans lýtur að. Sú skylda verður að meginstefnu til lögð á stjórnvöld, eða aðra sem beiðni um gögn beinist að, að finna þau gögn eða það mál sem efnislega fellur undir beiðni um aðgang að gögnum. Kröfur um tilgreiningu verða þannig í auknum mæli efnislegar, fremur en að þeim sem óskar aðgangs að gögnum verði gert að benda (formlega) á það afmarkaða mál sem beiðni hans lýtur að, […]. Ljóst er þó að slík regla verður, vegna sjónarmiða um skilvirkni og kostnað af stjórnsýsluframkvæmd, ekki lögð á stjórnvöld án takmarkana. Því er áfram gerð sú krafa að beiðni sé að lágmarki þannig fram sett að stjórnvaldi sé fært á þeim grundvelli að finna tiltekin mál eða málsgögn sem hægt er að afmarka upplýsingaréttinn við, með tiltölulega einföldum hætti. Til að hægt sé að afgreiða beiðni verður hún því að vera fram sett með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið þau mál sem lúta að því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um. Þá er gerð krafa um það að sá sem biður um aðgang að gögnum tilgreini þau eða efni þess máls sem þau tilheyra. Tilgreining gagna getur m.a. átt sér stað með því að tilgreina dagsetningu eða aðrar nægilegar upplýsingar um eðli gagnanna. Sé um fleiri en eitt mál að ræða sem fellur undir viðkomandi málefni er gert ráð fyrir að stjórnvald sendi beiðanda eftir atvikum lista yfir þau mál og biðji hann að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskar eftir aðgangi að.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður ekki annað séð af framangreindum athugasemdum en að þeim breytingum sem gerðar voru á upplýsingalögum, með tilkomu 15. gr. núgildandi laga, hafi meðal annars verið ætlað að laga upplýsingalögin að þeirri tækniþróun sem átt hefur sér stað hjá stjórnvöldum og öðrum aðilum sem gildisvið laganna nær til og lýsir sér í því að gögn í stjórnsýslunni eru í auknum mæli varðveitt í gagnagrunnum og umsýslukerfum. Úrskurðarnefndin telur mega ráða það af athugasemdum í frumvarpinu að þessar breytingar hafi verið gerðar í því augnamiði að aftra því að möguleikar almennings til aðgangs að upplýsingum myndu takmarkast samhliða því að stjórnvöld og aðrir aðilar sem heyra undir lögin færðu aukinn hluta af starfsemi í gagnagrunna og tölvukerfi. Af þeim sökum er sett það viðmið að stjórnvöld geti með tiltölulega einföldum hætti fundið það mál eða málsgögn sem beiðni lýtur að.

Umrædd viðmið hafa að mati úrskurðarnefndarinnar einnig þýðingu þegar tekin er afstaða til þess hvort gögn séu fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Eins og nefndin hefur tilgreint í fyrri úrskurðum sínum hefur hún almennt ekki forsendur til annars en að fallast á skýringar stjórnvalda um hvort gögn og upplýsingar séu fyrirliggjandi eða ekki.

3.

Af svörum embættis landlæknis verður ekki annað ráðið en að a.m.k. hluti umbeðinna upplýsinga liggi fyrir í kerfum og skrám embættisins. Það kemur raunar fram berum orðum í umsögn landlæknis til nefndarinnar. Þá verður ekki annað ráðið en að unnt sé að kalla upplýsingarnar fram með tiltölulega einföldum hætti og ekki verður séð að vinna við samantekt gagnanna sé frábrugðin eða eðlisólík þeirri vinnu sem upplýsingalög krefjast almennt af stjórnvöldum við afgreiðslu beiðna um upplýsingar. Í ljósi þessa getur úrskurðarnefndin ekki fallist á það að umbeðnar upplýsingar séu í heild sinni ekki fyrirliggjandi.

Í svörum embættisins til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að upplýsingarnar séu ekki tiltækar á því formi sem óskað var eftir eða flokkaðar með þeim hætti sem kærandi bað um. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að ákvörðun embættis landlæknis um rétt til aðgangs að gögnum á grundvelli upplýsingalaga er ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Um meðferð embættisins á slíkri beiðni gilda því auk upplýsingalaga, ákvæði stjórnsýslulaga, þ.m.t. leiðbeiningarskylda, rannsóknarregla og meðalhófsregla, sbr. 7., 10. og 12. gr. þeirra. Þessar reglur eru áréttaðar og endurspeglast í ákvæðum upplýsingalaganna. Þannig kemur fram í 3. mgr. 5. gr. þeirra að ef takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laganna ber að leiðbeina málsaðila og gefa honum færi á að afmarka beiðni sína nánar ef annars er ekki talið mögulegt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka beiðni til tiltekin gögn eða tiltekið mál. Ber þá að afhenda aðila lista yfir mál sem ætla má að beiðni hans geti beinst að í þeim tilgangi að hann geti tilgreint það mál þar sem hann óskar eftir aðgangi að gögnum.

Samkvæmt því sem áður er rakið svo og tilvitnaðra athugasemda úr frumvarpi því er varð að upplýsingalögum hér að framan er ljóst að það hvernig beiðni um aðgang að gögnum er fram sett getur eitt og sér ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu máls. Málsmeðferðarreglur upplýsingalaga og stjórnsýslulaga taka enda mið af því að málsaðili sem óskar aðgangs að gögnum á grundvelli laganna veit almennt ekki hvort og þá hvaða upplýsingar eru fyrirliggjandi hjá þeim aðila sem beiðnin beinist að eða í hvaða formi þær eru geymdar þegar beiðni er sett fram. Það kemur því í hlut þess aðila, sem beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga beinist að, að leggja mat á hana með hliðsjón af þeim gögnum sem eru fyrirliggjandi og eftir atvikum leiðbeina málsaðila um það hvaða gögn kunni að falla undir beiðnina, sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Gögn málsins bera það ekki með sér að kæranda hafi verið leiðbeint og honum veitt færi á að afmarka beiðni sína nánar, eftir atvikum á grundvelli lista yfir þau mál eða gögn sem ætla má að beiðni hans geti beinst að, sbr. 3. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin ítrekar að þótt umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi í heild sinni eða sundurliðaðar með þeim hætti sem beiðnin gerir ráð fyrir er ekki unnt að synja beiðninni í heild sinni á þeim grunni.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur beiðnin ekki hlotið þá málsmeðferð sem upplýsingalög gera kröfu um. Í ljósi þess að ekki verður séð að málsaðila hafi verið nægilega leiðbeint í samræmi við 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga kemur tilvísun embættis landlæknis til ákvæða 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. ekki til álita. Af þessu tilefni bendir úrskurðarnefndin á að nefndin hefur lagt á það áherslu að fram fari raunverulegt mat á þeirri vinnu sem nauðsynleg sé til að afgreiða beiðni og að gera verði strangar kröfur til þess að stjórnvald rökstyðji vandlega hvaða ástæður liggi til þess að ákvæðinu verði beitt, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum. nr. 1025/2021, 663/2016 og 551/2014. Loks fær úrskurðarnefndin ekki séð að ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eða reglur settar á grundvelli þeirra geti sjálfstætt staðið því í vegi að embætti landlæknis taki til þess afstöðu með rökstuddri ákvörðun, eftir atvikum að undangengnum leiðbeiningum til kæranda, hvort mögulegt sé að afmarka beiðnina við tiltekin mál eða gögn sem eru fyrirliggjandi hjá embættinu og þá hvort veittur skuli aðgangur að þeim og í hvaða mæli. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að fella ákvörðun embættis landlæknis úr gildi og vísa málinu aftur til embættisins til nýrrar og lögmætrar meðferðar og afgreiðslu.

Úrskurðarorð

Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 9. desember 2021, um að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum er felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka beiðnina til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

 

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum