Hoppa yfir valmynd
%EF%BF%BD%EF%BF%BDrskur%EF%BF%BD%EF%BF%BDarnefnd%20um%20lei%EF%BF%BD%EF%BF%BDr%EF%BF%BD%EF%BF%BDttingu%20ver%EF%BF%BD%EF%BF%BDtrygg%EF%BF%BD%EF%BF%BDra%20fasteignave%EF%BF%BD%EF%BF%BDl%EF%BF%BD%EF%BF%BDna

Úrskurður nr. 562/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 562/2015



Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 517/2015; kæra A og B, dags. 22. maí 2015 Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 19. ágúst 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var 2.354.456 kr. og var sú fjárhæð birt kærendum 11. nóvember 2014. Kærendum var þann 15. febrúar 2015 tilkynnt um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á kröfu banka X nr. 1 sem glatað hafði veðtryggingu sinni.

Kærendur gerðu athugasemd til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, þann 10. apríl 2015. Var henni svarað 18. sama mánaðar. Þann 17. maí 2015 tilkynnti ríkisskattstjóri kærendum að frestur þeirra til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar rynni út 23. maí 2015.

Með kæru, dags. 22. maí 2015, hafa kærendur kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að kærendur mótmæli harðlega ráðstöfun leiðréttingar til banka X vegna tapaðs veðs. Kærendur segja leiðréttinguna í eðli  sínu varða lækkun höfuðstóls lána vegna fasteignar að M götu en ekki lána vegna óskylds reksturs. Þau lánaviðskipti sem vísað sé til hafi átt sér sér stað vegna fasteigna félagsins H ehf. og reksturs sama aðila. Reksturinn hafi verið bifreiðaviðgerðir. Þau viðskipti hafi á engan hátt snert fasteignina að M götu. H ehf. hafi orðið gjaldþrota og skiptalok verið árið 2010. Kærandi A hafi einnig orðið gjaldþrota og skiptalok verið 2012. Þá hafi kærandi B ein löngu verið orðin eigandi að fasteigninni að M götu með samþykki veðhafa. Kærendur vísa til þess að samkvæmt núgildandi lögum um gjaldþrotaskipti fyrnist kröfur í kjölfar gjaldþrots á tveimur árum frá lokum skipta. Kröfuréttur banka X hafi því fallið niður við sama tímamark. Kærendur vísa til hluta af texta tölvubréfs frá banka X, dags. 22. maí 2015, þar sem segi: „Bankanum er þrátt fyrir það heimilt að halda lengur til haga innan eigin kerfa upplýsingum (afskriftaskrá og viðskiptasögu) um hinar töpuðu kröfur, svo sem til að meta lánshæfi o.fl.“ Kærendur byggja á að það sé augljóslega allt annar handleggur. Kærendur vísa til þess að talsverð tölvubréfasamskipti við banka X liggi fyrir og kærendur séu tilbúnir til að áframsenda þau ef óskað verði eftir þeim upplýsingum.

Úrskurðarnefndin óskaði þann 3. september 2015 eftir umsögn banka X um það hvort krafa bankans á hendur kæranda A væri fyrnd. Einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvort bankanum væri kunnugt um það að krafa bankans á hendur kærendum hafi tengst atvinnurekstri kæranda A.

Svar bankans barst þann 8. september 2015. Þar kom fram að bú kæranda A hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 2. febrúar [2010]. Veðsett eign,  fasteign að N götu (skv. veðskulda- og tryggingarbréfum), hafi verið seld 15. desember 2010. Í veðið, sem hafi verið í eigu kæranda sjálfs, hafi m.a. verið lýst kröfu skv. 7.000.000 kr.  verðtryggðu skuldabréfi, útgefnu af kæranda þann 11. febrúar 2009. Samkvæmt lánsumsókn hafi tilgangur lántökunnar verið að greiða upp eigin yfirdrátt kæranda á hlaupareikningi 2 og vanskil hans skv. viðskiptamannayfirliti, dags. 3. desember 2008. Þann 27. febrúar 2009 hafi verið þinglýst áritun á tryggingarbréf um að það tryggði einnig skuldir H ehf. Ekkert hafi komið upp í kröfuna á hendur kæranda við uppboðið, enda hafi fyrri veðréttir tæmt verðmæti eignarinnar. Hafi kröfunni af þeim sökum verið lýst við gjaldþrotaskiptin. Samkvæmt 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 142/2010, fyrnist lýstar kröfur á hendur þrotamanni á 2 árum frá lokum skipta sem hafi verið þann 15. apríl 2011 í tilviki kæranda A. Umsögn banka X fylgdu afrit skuldabréfs, lánsumsóknar, viðskiptamannayfirlits, tryggingabréfs og áritun, sem og kröfulýsingar í söluandvirði og þrotabú.

Umsögn banka X var send kærendum þann 10. september 2015. Var kærendum gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði sem þau teldu ástæðu til innan 7 daga frá dagsetningu erindisins. Ella mættu kærendur búast við því að úrskurðarnefndin tæki mál þeirra til meðferðar eins og það lægi fyrir. Kærendur svöruðu erindi úrskurðarnefndarinnar þann 21. september 2015. Tóku þau fram að svör frá banka X sýndu að þær skuldir sem bankinn hafi hermt upp á kæranda A hafi eingöngu tengst atvinnurekstri hans. Eignin að M götu hafi verið veðsett Y sjóði að fullu og hafi því aldrei getað orðið raunhæft veð til banka X. Kærendur tóku fram að af hálfu banka X hafi ítrekað verið viðurkennt að allar kröfur á hendur kæranda A hafi fallið niður tveimur árum eftir gjaldþrot.

Þann 18. september 2015 óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu banka X til þess hvort bankinn teldi að rétt hefði verið að skrá niðurfærslu, sbr. 8. gr. l. 35/2014 vegna kröfu nr. 1, vegna hinnar staðfestu fyrningar, frekar en að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð inn á hana skv. 11. gr. sömu laga eins og ákvörðun ríkisskattstjóra gerði ráð fyrir. Svar bankans barst samdægurs og staðfesti bankinn að hann teldi það rétt. Kærendur voru upplýst um að það með erindi, dags. 22. september 2015.

 

II.

 

Skilja verður kæru sem svo að kærendur krefjist ráðstöfunar á leiðréttingarfjárhæð, án tillits til frádráttar vegna kröfu banka X, inn á íbúðarlán þeirra sem hvíli á fasteign að M götu. Útreiknuð leiðrétting lána kærenda nam samtals 2.638.116 kr. Þá voru dregnar frá 283.660 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, en kærendur hafa ekki gert athugasemd við þann frádráttarlið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu fyrndist lán banka X nr. 1 þann 15. apríl 2013. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skyldi leiðréttingarfjárhæð kærenda ráðstafað inn á það lán.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarri ráðstöfun eignar eftir 1. janúar 2008. Af umfjöllun um 8. gr. í greinargerð með frumvarpi með lögum nr. 35/2014 kemur fram að ákvæðið eigi við um nauðungarsölu. Síðan segir þar: „Hið sama gildir þegar söluverð eignar í almennri sölu nægir ekki til greiðslu áhvílandi veðskulda og einnig þegar kröfuhafar hafa leyst til sín yfirveðsettar eignir. Hafi umsækjandi þannig þegar fengið felldar niður fasteignaveðkröfur umfram verðmæti eignar í kjölfar nauðungarsölu, sölu á almennum markaði eða í kjölfar eignaráðstöfunar í skuldaskilum við lánveitanda er talið rétt að slík niðurfelling komi til frádráttar leiðréttingu skv. 7. gr. frumvarpsins.“

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að með annarri ráðstöfun eignar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 sé m.a. átt við sölu eða aðra eignaráðstöfun sem framkvæmd hefur verið í tengslum við gjaldþrot umsækjanda og leitt hefur til þess að fasteignaveðlán hans hefur glatað veðtryggingu. Fasteignaveðkröfur sem glatað hafa veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, teljast endanlega niðurfelldar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 og dragast frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. laganna, sé fyrningarfrestur skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. liðinn á samþykktardegi ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Ef fyrningarfrestur fasteignaveðkröfu, sem glatað hefur veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, er ekki liðinn á framangreindu tímamarki, skal leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 9. gr. laga nr. 35/2014 fyrst ráðstafað til að lækka slíkar kröfur skv. 1. mgr. 11. gr. laganna enda hafi krafan ekki verið endanlega felld niður.

Skilyrði fyrir því að kröfur séu dregnar frá útreiknaðri leiðréttingu lána samkvæmt 8. gr. laga nr. 35/2014 eru að kröfurnar séu niðurfelldar. Nánari skýringu er að finna í umfjöllun um 8. gr. í greinargerð með frumvarpi með lögum nr. 35/2014: „Rétt er að taka fram að hér er eingöngu átt við fasteignaveðkröfur umsækjanda sem hafa verið felldar niður að fullu gagnvart honum og eru ekki bókfærðar hjá kröfuhafa sem krafa á skuldarann og þannig hvorki á kröfuvakt né annarri vöktun. Hafi fasteignaveðkröfur á hinn bóginn ekki verið endanlega felldar niður gagnvart skuldara samkvæmt framansögðu koma þær ekki til frádráttar leiðréttingu. Leiðréttingu skv. 7. gr. frumvarpsins skal undir slíkum kringumstæðum þá fyrst ráðstafað til lækkunar á kröfum sem glatað hafa veðtryggingu með framangreindum hætti, líkt og nánar er rakið í skýringum með 11. gr. frumvarpsins.“ Í lögum nr. 35/2014 er þannig gert að skilyrði að krafa hafi verið fasteignaveðlán sem hafi glatað veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar eftir 1. janúar 2008 og að krafan hafi verið endanlega felld niður. Ekki er þar gerður greinarmunur á hvort niðurfelling er gerð vegna fyrningar eða annarra ástæðna, s.s. ákvörðunar viðkomandi kröfuhafa. Þvert á móti virðist vera gert ráð fyrir því að niðurfellingin geti verið vegna fyrningar, sbr. umfjöllun um 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014.

Í ljósi umsagnar banka X, dags. 18. september 2015, er óumdeilt að fasteignaveðkrafa bankans nr. 1 hefur verið endanlega felld niður vegna fyrningar. Jafnframt er ljóst af umsögn banka X að krafan er ekki tilkomin vegna atvinnurekstrar kæranda. Endanleg niðurfelling umrædds fasteignaveðláns, að fjárhæð 8.530.781 kr. þann 22. desember 2010, skal dregin frá útreiknaðri leiðréttingu samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, enda hefur fjárhæð hennar ekki verið mótmælt. Því er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán bankans nr. 1 er ekki í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda.

Við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar hafa verið lögð fram gögn sem hafa ekki sætt efnisúrlausn hjá ríkisskattstjóra. Með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 er kæran send ríkisskattstjóra til nýrrar efnismeðferðar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni ásamt gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum