Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um synjun á úthlutun á viðbótaraflaheimildum í makríl

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [A], f.h. [B ehf.], dags. 18. október 2021, um synjun Fiskistofu á úthlutun á viðbótarheimildum í makríl skv. reglugerð nr. 725/2020, um ráðstöfun 4.000 lesta af viðbótaraflaheimildum í makríl, fyrir skipin [C], [D] og [E].

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Kröfur kæranda

Ráða má af kæru að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Fiskistofu, dags. 24. september 2021, verði felld úr gildi og að áðurnefnd þrjú skip fái úthlutað viðbótaraflaheimildum í makríl skv. reglugerð nr. 725/2020.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með tilkynningu, dags. 6. september 2021, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu, auglýsti Fiskistofa sérstaka makríl úthlutun til skipa í A flokki, þar sem boðin voru til kaups allt að 4.000 tonn af viðbótaraflaheimildum í makríl samkvæmt reglugerð nr. 725/2020 þar sem hvert kíló myndi kosta 3,17 kr. Sagði í tilkynningu að úthlutun færi fram 16. september 2021 og yrði aflamarkinu skipt jafnt milli umsækjenda sem uppfylltu skilyrði reglugerðarinnar.

Kærandi sendi Fiskistofu tölvupóst þann 8. september 2021 og sagðist ekki hafa séð tilkynningu um sérstaka úthlutun á makríl fyrir árið í flokki B líkt og hafði verið undanfarin ár. Kærandi hafði rekist á auglýsinguna fyrir A flokk og vildi forvitnast um hvort að hægt yrði að sækja um fyrir B flokk, og óskaði eftir 50 tonna úthlutun sbr. reglugerð nr. 725/2020 á skipin [C], [D] og [E].

Með ákvörðun dags. 24. september 2021 synjaði Fiskistofa kæranda um úthlutun þar sem skipin uppfylltu ekki skilyrði reglugerðarinnar. Þá kom fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Kæra barst ráðuneytinu, dags. 18. október 2021.

Þann 26. október 2021 sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið Fiskistofu afrit af stjórnsýslukærunni og óskaði eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna ásamt gögnum sem málið varðaði, einkum umsóknum kæranda um úthlutun og afriti af þeim stjórnvaldsákvörðunum sem um ræðir.  Þann 7. nóvember 2021 bárust gögn í málinu frá Fiskistofu en bið varð á umsögn. Þann 30. nóvember 2021 var beiðni ráðuneytisins ítrekuð og einnig 22. desember 2022. Þann 1. febrúar 2022 voru verkefni sjávarútvegs færð í nýtt matvælaráðuneyti sem tók við málinu. Þann 14. mars 2022 var beiðni ráðuneytisins enn ítrekuð. Umsögn Fiskistofu barst dags. 29. mars 2022. Þann 4. apríl 2022 var umsögnin send kæranda til athugasemda. Athugasemdir kæranda bárust 5. apríl 2022.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Í stjórnsýslukæru kemur fram að kærandi hafði verið í sambandi við Fiskistofu varðandi úthlutun á viðbótarheimildum í makríl, þar sem Fiskistofa úthluti viðbótarheimildum til fiskiskipa samkvæmt reglugerð nr. 725/2020.  Segir að kærandi hafi fengið synjun á umsóknum sínum vegna áðurnefndra þriggja skipa. Kærandi segir að samkvæmt sínum skilningi á reglugerðinni þá falli þessi skip undir 2. gr. reglugerðarinnar og ættu því að fá úthlutun.

Í umsögn Fiskistofu, sem barst 29. mars 2022, segir að um úthlutun viðbótarheimilda í makríl gildi reglugerð nr. 725/2020, um ráðstöfun 4.000 lesta af viðbótaraflaheimildum í makríl. Segir m.a. að heimilt sé að úthluta allt að 4.000 lestum af viðbótaraflaheimildum í makríl ár hvert til skipa í B flokki gegn greiðslu gjalds. Ekkert skip geti fengið úthlutað viðbótaraflaheimildum fyrr en skip hafi veitt 75% af úthlutuðu aflamarki í makríl. Takmörkunin gildi ekki fyrir skip sem fá úthlutað 30 tonnum af aflamarki í makríl eða minna. Segir að úthlutun viðbótaraflaheimilda í annað sinn eða síðar sé bundin því skilyrði að skip hafi veitt a.m.k. 50% af áður úthlutuðum viðbótaraflaheimildum. Í umsögninni segir að stofnunin leggi þann skilning í ákvæði reglugerðarinnar að gerð sé krafa um að skip hafi veitt tiltekið magn af áður úthlutuðum aflaheimildum áður en skipi sé heimilt að fá úthlutað viðbótaraflaheimildum skv. reglugerðinni. Gildir sú krafa einnig um aflaheimildir sem fluttar eru frá fyrra ári. Fiskistofa telji því að einungis sé heimilt að úthluta viðbótarheimildum af makríl til skipa í B flokki sem veitt hafa 75% af úthlutuðu aflamarki eða til skipa sem eru með minna en 30 tonn af aflamarki í makríl eftir úthlutun að teknu tilliti til aflamarks sem flutt var frá fyrra ári. Fram kemur í umsögn að við mat á umsóknum um viðbótaraflaheimildir sé litið til þess hvort skip uppfylli framangreind skilyrði.

Segir í umsögn Fiskistofu að makríl vertíðin 2021 hafi byrjað seint og makríllinn hafi ekki gengið inn á grunnslóð. Þannig hafi verið lítil sem engin veiði hjá bátum í B flokki. Í ljósi þessa hafi Fiskistofa ekki auglýst úthlutun úr pottinum fyrr en í september 2021 og hafi þá þeirri auglýsingu verið beint til skipa í A flokki. Auglýst hafi verið eftir umsóknum með tilkynningu, dags. 6. september 2021, á vef Fiskistofu og hafi umsóknafrestur verið gefinn til 13. september 2021. Umsókn kæranda barst með tölvupósti dags. 8. september 2021, þar sem sótt var um fyrir þrjú áðurnefnd skip kæranda sem öll voru skráð í B flokki. Kemur fram að Fiskistofa hafi tekið umsóknir kæranda til skoðunar. Var umsókn kæranda metin á grundvelli skilyrða sem fram koma í 2. og 3. gr. reglugerðarinnar, þ.e. skilyrða sem gilda um úthlutun til B flokks skipa. 

Segir í umsögn að skipið [E] hafi fengið úthlutað 184.489 kg. í makríl á árinu 2021. Samkvæmt gögnum Fiskistofu var allt aflamark í makríl flutt af skipinu í tveimur millifærslum, dags. 23. júní 2021, nr. 5316928 og 5316925. Skipið [E] uppfyllti því ekki skilyrði 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 725/2020, til að fá úthlutað viðbótarheimildum í makríl.

Segir í umsögn að skipið [D] hafi ekki fengið úthlutað makríl á árinu 2021. Skipið var með skráð 60.871 kg. af aflamarki í makríl sem flutt var af fyrra ári, þar af 50.000 kg. viðbótaraflaheimildir sem úthlutað var á skipið skv. reglugerð nr. 725/2020 á árinu 2020. Engar landanir af makríl voru skráðar á skipið á árinu 2021 og uppfyllti skipið því ekki skilyrði 3. gr. reglugerðar nr. 725/2020, til að fá úthlutað viðbótaraflaheimildum í makríl.

Segir í umsögn að skipið [C] hafi fengið úthlutað 300 kg. af aflamarki í makríl á árinu 2021, 52.194 kg. voru flutt frá árinu 2020, þar af 50.000 kg. viðbótaraflaheimildir sem úthlutað var skv. reglugerð nr. 725/2020 á árinu 2020. Engar landanir af makríl voru skráðar á skipið á árinu 2021 og uppfyllti skipið því ekki skilyrði 3. gr. reglugerðar nr. 725/2020, til að fá úthlutað viðbótarheimildum í makríl.

Rökstuðningur og niðurstaða

I.

Stjórnsýslukæra í máli þessu, sem er byggð á 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 18. október 2021, sem er innan kærufrests. Er málið því tekið til efnismeðferðar í matvælaráðuneytinu.

 

II.

Í 10. gr. b. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er fjallað um viðbótaraflaheimildir í makríl ár hvert. Þar segir að ráðherra sé heimilt að ráðstafa allt að 4.000 lestum af aflaheimildum í makríl til skipa í B flokki. Hvert skip á kost á að fá úthlutað aflaheimildum í makríl gegn gjaldi sem á hverjum tíma skal nema sömu fjárhæð og veiðigjald fyrir makríl. Eftir 15. september ár hvert sé ráðherra heimilt að ráðstafa því sem eftir er til fiskiskipa í A flokki gegn sama gjaldi. Segir að ráðherra skuli setja nánari reglur um framkvæmd úthlutunar. Á þeim grundvelli hefur ráðherra sett reglugerð nr. 725/2020, um ráðstöfun 4.000 lesta af viðbótaraflaheimildum í makríl. Í 2. gr. reglugerðarinnar segir:

Heimilt er að úthluta allt að 4.000 lestum af viðbótaraflaheimildum í makríl ár hvert til skipa í B-flokki gegn greiðslu gjalds. Úthluta skal allt að 50 lestum í senn. Ekkert skip getur fengið úthlutað viðbótaraflaheimildum fyrr en skip hefur veitt 75% af úthlutuðu aflamarki í makríl. Þessi takmörkun gildir ekki fyrir skip sem fá úthlutað 30 tonnum af aflamarki í makríl eða minna.

Í 3. gr. reglugerðarinnar segir svo að úthlutun viðbótaraflaheimilda samkvæmt reglugerðinni í annað sinn eða síðar er bundin því skilyrði að skip hafi veitt a.m.k. 50% af áður úthlutuðum viðbótaraflaheimildum. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir að Fiskistofa annist úthlutun viðbótaraflaheimilda gegn greiðslu gjalds á grundvelli umsókna og skal úthluta aflaheimildum vikulega á grundvelli umsókna sem borist hafa undanfarandi viku. Þá segir í 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar að Fiskistofa skuli birta vikulega á vefsíðu sinni upplýsingar um magn makríls sem til ráðstöfunar er.

 

III.

Einungis er heimilt að úthluta viðbótarheimildum af makríl til skipa í B flokki sem hafa veitt 75% af úthlutuðu aflamarki eða til skipa sem fá úthlutað 30 tonnum eða minna. Úthlutun viðbótaraflaheimilda samkvæmt reglugerðinni í annað sinn eða síðar er bundin því skilyrði að skip hafi veitt a.m.k. 50% af áður úthlutuðum viðbótaraflaheimildum. Skip kæranda [C], [D] og [E] féllu undir að vera skip í B flokki. Fiskistofa tók umsóknir kæranda til skoðunar. Umsóknir kæranda voru metnar á grundvelli skilyrða sem fram koma í 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 725/2020 sem gilda um úthlutun til B skipa.

Engar landanir af makríl voru skráðar á skipið [E] á árinu 2021. Hafði allt aflamark verið flutt af skipinu í júní 2021 og uppfyllti það því ekki skilyrði úthlutunar um viðbótarheimildir sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Engar landanir af makríl voru skráðar á skipið [D] á árinu 2021, sem hafði flutt viðbótaraflaheimild frá fyrra ári. Uppfyllti það því ekki skilyrði úthlutunar um viðbótarheimildir, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Engar landanir af makríl voru skráðar á skipið [C] á árinu 2021, sem hafði flutt viðbótaraflaheimild frá fyrra ári. Uppfyllti það því ekki skilyrði úthlutunar um viðbótarheimildir, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Ljóst að skip kæranda áttu ekki rétt á úthlutun á viðbótarheimildum í makríl skv. reglugerð 725/2020, um ráðstöfun 4.000 lesta af viðbótarheimildum í makríl á árinu 2021. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun Fiskistofu, dags. 24. september 2021, um synjun á úthlutun viðbótarheimilda í makríl.

Ráðuneytið telur þó að það hefði verið æskilegt að Fiskistofa auglýsti sérstaklega úthlutun á viðbótaraflaheimildum í makríl sem stæði til boða skipum í B flokki á árinu 2021 áður en kom að auglýsingu um úthlutun til skipa í A flokki. Byggir það á því að stofnunin hafi auglýst með þeim hætti áður. Þá hefur ráðuneytið ekki séð að á árinu 2021 hafi Fiskistofa birt upplýsingar vikulega á vefsíðu sinni um magn makríls sem til ráðstöfunar var, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 725/2020. Þrátt fyrir þessar aðfinnslur sem komið hafa í ljós við rannsókn málsins þykir ljóst að umrædd skip sem sótt var um viðbótarheimild fyrir uppfylltu ekki skilyrði reglugerðarinnar um úthlutun og hafa þessi atriði ekki áhrif á niðurstöðu í málinu. Er því beint til Fiskistofu að birta framvegis upplýsingar skv. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar með skýrum hætti og auglýsa mögulega úthlutun á viðbótaraflaheimildum til skipa í B flokki, sbr. þá framkvæmd sem verið hefur. Ef ætlunin er að breyta þeirri framkvæmd þyrfti að tilkynna sérstaklega þeim aðilum sem ætla má að breytingin hafi áhrif á og ættu rétt á viðbótarheimildum skv. reglugerðinni.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 24. september 2021, um synjun á úthlutun viðbótarheimilda í makríl til skipanna [C], [D] og [E].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum