Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 531/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 531/2022

Fimmtudaginn 1. desember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. nóvember 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála þá meðferð sem hann kveðst hafa orðið fyrir í viðtali hjá Vinnumálastofnun í maí 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. nóvember 2022 og greindi þar frá viðtali sem hann var boðaður til í maí 2022 á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á B. Kærandi mótmæli þeirri meðferð/einelti sem hann hafi orðið fyrir þegar hann hafi verið leiddur um vinnusvæði Vinnumálastofnunar sem sé í sama húsnæði og sveitarfélagið. Kærandi mótmæli einnig ákvörðunum Vinnumálastofnunar frá 1. júní og 7. september 2022 vegna umsókna C um ráðningarstyrk. Þá rekur kærandi samskipti sín við starfsmenn Vinnumálastofnunar í október 2022. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 29. nóvember 2022, var Vinnumálastofnun upplýst um kæruna og óskað var eftir upplýsingum um hvort fyrir lægi einhver kæranleg ákvörðun frá maí 2022 til og með þeim degi er kæra barst nefndinni. Svar barst samdægurs um að svo væri ekki.    

II.  Niðurstaða

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá segir í 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Af kæru má ráða að kærandi sé ekki að kæra tiltekna stjórnvaldsákvörðun sem Vinnumálastofnun hefur tekið á grundvelli laga nr. 54/2006. Úrskurðarnefndin hefur þegar úrskurðað í málum C vegna umsókna fyrirtækisins um ráðningarstyrk og kemur það ágreiningsefni því ekki til skoðunar í máli þessu. Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum