Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 2017

Úrskurður í máli nr. SRN18010072

Ár 2019, þann 30. janúar, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN18010072

 

Kæra Icelandair

á ákvörðun

Samgöngustofu

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 18. janúar 2018 barst ráðuneytinu kæra Icelandair Group hf. (hér eftir nefnt IA) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli X (hér eftir nefnd farþegarnir) nr. x/2017 frá 19. október 2017. Með ákvörðun Samgöngustofu var IA gert að greiða farþegunum bætur að fjárhæð 600 evrur hvorum samkvæmt c-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012, vegna seinkunar á flugi FI7814 frá Orlando til Boston og áfram með flugi FI630 frá Boston til Keflavíkur þann 8. september 2016. Seinkaði brottför flugsins frá Orlando um 73 mínútur sem varð til þess að farþegarnir misstu af fluginu frá Boston til Keflavíkur. Krefst IA þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Farþegarnir krefjast staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum áttu farþegarnir bókað far með flugi FI7814 frá Orlando til Boston og áfram með flugi FI630 frá Boston til Keflavíkur þann 8. september 2016. Annaðist flugfélagið JetBlue flugið frá Orlando til Boston. Báðir flugmiðarnir voru hins vegar bókaðir hjá IA og á sama bókunarnúmeri. Seinkaði brottför flugsins frá Orlando um 73 mínútur sem varð til þess að farþegarnir misstu af fluginu frá Boston til Keflavíkur og komu því á áfangastað í Keflavík degi síðar en upphaflega var áætlað. Er deilt um bótaábyrgð IA vegna seinkunarinnar.

Hinn kærði úrskurður er svohljóðandi:

  1. Erindi

    Þann 6. desember 2016 barst Samgöngustofu (SGS) kvörtun frá AM Praxis ehf. f.h. X (kvartendur). Kvartendur áttu bókað far með flugi FI7814 frá Orlando til Boston og áfram með flugi FI630 frá Boston til Keflavíkur þann 8. september 2016. Flugfélagið, JetBlue (JB), framkvæmdi flug nr. FI7814 frá Orlando til Boston en báðir flugmiðar voru bókaðir hjá IA á sama bókunarnúmeri. Brottför flugsins frá Orlando seinkaði um 73 mínútur sem varð til þess að kvartendur misstu af fluginu frá Boston til Keflavíkur. Kvartendur komu til Keflavíkur degi síðar en upphaflega áætlað var. Kvartendur telja sig eiga rétt á skaðabótum frá IA þar sem flugmiðarnir voru báðir keyptir á sama bókunarnúmeri hjá IA og því sé viðskiptasamband þeirra við það félag.

    Í kvörtuninni kemur fram að IA hafni kröfu kvartenda um skaðabætur þar sem JB hafi verið starfandi flugrekandi á flugi nr. FI7814 þann 8. september 2016. Það félag sé því ábyrgt fyrir greiðslu skaðabóta vegna röskunar flugsins.

    Kvartendur fara fram á skaðabætur úr hendi IA samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

  2. Málavextir og bréfaskipti

    Samgöngustofa sendi IA kvörtunina til umsagnar með tölvupósti þann 8. desember 2016. Í svari IA sem barst Samgöngustofu þann 21. desember sl. kemur fram að samkvæmt Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega geti farþegi átt rétt á skaðabótum samkvæmt 7. gr. verði röskun eða niðurfelling á flugi. Beri þá starfandi flugrekandi „operating carrier“ ábyrgð á greiðslu skaðabóta. Þann 8. september 2016 hafi kvartendur átt bókað innanlandsflug í Bandaríkjunum með JetBlue (B61152) – FI flugnúmer (FI7814). Flug B61152 hafi verið í 73 mínútna seinkun sem hafi orðið til þess að umræddir farþegar hafi misst af Icelandair flugi FI630 (BOS-KEF) og hafi því þurft að gista eina nótt í Boston. IA hafi þegar bent kvartendum á að starfandi flugrekandi flugsins frá Orlando til Boston hafi valdið seinkuninni en flug IA hafi verið á tíma. Seinkunin hafi því verið algjörlega óviðráðanleg fyrir Icelandair.

    Samgöngustofa sendi kvartanda svar IA til umsagnar þann 21. desember 2016. Í svari kvartanda sem barst Samgöngustofu sama dag ítreka kvartendur að viðskiptasamband þeirra hafi verið við Icelandair. Flugin hafi verið keypt hjá því félagi á sama bókunarnúmeri samanber gögn meðfylgjandi kvörtun.

  3. Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998, eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

 

Um réttindi flugfarþega er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er Samgöngustofa sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað um í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram með skýrum hætti að flugrekandi skuli greiða bætur skv. 7. gr. reglugerðarinnar vegna tafa eða seinkunar eins og átt getur við þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009, í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð EB nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Af þessu leiðir að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, eiga rétt á bótum skv. 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þetta dómafordæmi var staðfest með dómi Evrópudómstólsins í máli C-11/11 og hefur nú einnig verið lögfest með 6. gr. reglugerðar nr. 1048/2012.

Loftferðalög nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 er réttur farþega til skaðabóta skv. 7. gr. reglugerðarinnar sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs og ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07 Friederike Wallentin-Hermann v Alitalia og almennar meginreglur um túlkun lagaákvæða.

Kvartendur áttu bókað far með flugi nr. FI7814 frá Orlando til Boston og þaðan áfram með flugi nr. FI630 frá Boston til Keflavíkur þann 8. september 2016. Bæði flugin voru keypt á sama bókunarnúmeri hjá IA.

Álitaefni þessa máls er hvort að IA sé skaðabótaskylt vegna seinkunar sem varð á flugleiðinni frá Orlando til Boston, sem framkvæmd var af flugrekandanum JB, en seinkunin varð til þess að kvartendur misstu af áframhaldandi flugi frá Boston til Keflavíkur.

Þegar mál varða seinkun ber samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 að taka mið af komutíma farþega á lokaákvörðunarstað. Lokaákvörðunarstaður er samkvæmt reglugerðinni ákvörðunarstaðurinn sem skráður er á farmiðann þegar honum er framvísað við innritunarborðið eða, þegar um er að ræða bein tengiflug, síðasti ákvörðunarstaður ferðarinnar. Í þessu sambandi er mikilvægt að greina á milli tilvika þar sem farþegi er bókaður í fleiri en eitt flug á sama bókunarnúmeri, þ.e. bókun farþega inniheldur millilendingu, og tilvika þar sem farþegi hefur sjálfur bókað tvö eða fleiri aðskilin flug með mismunandi bókunum.

Fyrir liggur að kvartendur í máli þessu voru bókaðir á sama bókunarnúmeri frá Orlando til Boston og þaðan áfram til Keflavíkur. Keflavík var því lokaákvörðunarstaður kvartenda en vegna seinkunarinnar komu kvartendur þangað degi síðar en upphafleg bókun þeirra hjá IA gerði ráð fyrir.

Samgöngustofa telur samkvæmt framansögðu ljóst að IA hafi borið að koma kvartendum á lokaákvörðunarstað í Keflavík og félagið því skaðabótaskylt vegna seinkunar á komu þeirra þangað á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012. Þessu til stuðnings vísar Samgöngustofa í forúrskurð Evrópudómstólsins frá 26. febrúar 2013 (Air France SA v. Heinz-Gerke Folkerts og Luz-Tereza Folkerts) þar sem fram kemur að flugrekandi sé bótaskyldur vegna seinkunar á lokaákvörðunarstað, þrátt fyrir að koma á tengiflugvöll hafi verið innan marka reglugerðarinnar.

Samgöngustofa fellst á það með kvartendum að viðskiptasamband þeirra sé við IA en áréttar einnig að reglugerð EB nr. 261/2004 takmarkar ekki rétt IA til þess að krefjast skaðabóta frá öðrum aðila, þ.m.t. þriðju aðilum, í samræmi við gildandi lög.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða Samgöngustofu að kvartendur eigi rétt á skaðabótum samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Ákvörðunarorð:

Icelandair ber að greiða hvorum kvartanda fyrir sig bætur að upphæð 600 evrur skv. c-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

 

III.      Málsástæður IA, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra IA barst ráðuneytinu með tölvubréfi mótteknu þann 18. janúar 2018.

Í kæru kemur fram að IA líti svo á að annar flugrekandi hafi borið ábyrgð á því að flugi FI7814 seinkaði um 73 mínútur og að atvik málsins falli ekki innan gildissviðs EB reglugerðar nr. 261/2004 þar sem málið varði innanlandsflug í Bandaríkjunum.

IA vísar til þess að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 3. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 liggi fyrir að brottfararstaður eða komustaður flugs þurfi að vera innan Evrópska efnahagssvæðisins svo það falli innan gildissviðs reglugerðarinnar. Ákvörðun SGS varði hins vegar flug á milli Orlando og Boston með JetBlue. Liggi því fyrir að flugið hafi að öllu leyti verið utan Evrópska efnahagssvæðisins og með bandarískum flugrekanda. Geti því ekki stofnast til bótaskyldu á grundvelli reglugerðarinnar. Þá geti seinkun flugsins ekki talist aflýsing í skilningi 5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt dómafordæmum þurfi flugi að seinka meira en um þrjár klst. en líkt og fram komi í ákvörðun SGS hafi aðeins verið um 73ja mínútna seinkun að ræða. Þá tekur IA fram að þær skyldur sem hvíli á flugfélögum samkvæmt EB reglugerð nr. 261/2004 hvíli aðeins á starfandi flugrekanda. Komi þetta skýrt fram í 7. lið inngangsorða reglugerðarinnar. Bendir IA á að þrátt fyrir að tvö flugfélög hafi með sér samstarf um gagnkvæma útgáfu flugmiða fyrir hvort annað geti það ekki leitt til þess að skyldur reglugerðarinnar teygist yfir á önnur flugfélög heldur en starfandi flugrekanda hverju sinni. JetBlue hafi verið starfandi flugrekandi flugsins sem seinkaði um 73 mínútur og fái það ekki staðist að IA verði látið sæta ábyrgð vegna seinkunarinnar.

Þá tekur IA fram að einnig reyni á a-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar varðandi gildissvið reglugerðarinnar. Óumdeilt sé í málinu að farþegarnir hafi ekki mætt til innritunar flugs FI630 á þeim tíma sem IA hafi mælt fyrir um. Geti því ekki komið til þess að IA verði gert skylt að greiða farþegunum skaðabætur enda séu atvik af þessu tagi undanskilin gildissviði reglugerðarinnar. Getur IA þess að félagið kunni að hafa borið ábyrgð á því að farþegarnir kæmust endanlega á áfangastað líkt og rakið sé í ákvörðun SGS. Sú ábyrgð byggist hins vegar á samningssambandi en ekki reglugerð EB nr. 261/2004. Hafi SGS ekki heimild til að beina íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að IA vegna þess konar samningsábyrgðar. IA hafi axlað þá ábyrgð með því að færa farþegana yfir á næsta flug milli Boston og Keflavíkur.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 22. janúar 2018.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi mótteknu 14. febrúar 2018. Í umsögninni kemur fram að SGS telji að flug FI7814 frá Orlando til Boston falli undir gildissvið reglugerðar EB nr. 261/2004 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 3. gr., þ.e. að IA hafi annast flugið þó svo að félagið hafi fengið annan flugrekanda til að sjá um raunverulegt flug þess. Hafi flugið verið á vegum IA en félagið sé flugrekandi sem falli undir gildissvið reglugerðarinnar. Megi jafna því við að flugrekandi í bandalaginu hafi annast flugið þar sem um hafi verið að ræða tengiflug til að koma farþegunum á leiðarenda til flugvallar í aðildarríki. Telur SGS að ekki skipti máli gagnvart farþegunum að annar flugrekandi, JetBlue, hafi annast flugið sem tengiflug í heildarflugferð farþeganna frá Orlando til Keflavíkur. Hafi flugið verið á vegum IA og samningssambandið við það félag. Hvíli því bótaábyrgð á grundvelli reglugerðarinnar á IA en ekki undirverktökum, þjónustuaðilum eða öðrum flugrekendum sem IA hafi fengið til að framkvæma umrætt flug. Þá telur SGS rétt að líta til 118. gr. loftferðalaga þar sem fjallað sé um flutninga sem framkvæmdir eru af öðrum en samningsbundnum flytjanda. Beri að heimfæra seinni málslið 2. mgr. 118. gr. á IA, þ.e. að félagið teljist flytjandi allan loftflutninginn þó svo að annar flugrekandi hafi framkvæmt hluta loftflutningsins. Ákvæði 118. gr. sé að finna í X. kafla loftferðalaga en þar sé einnig að finna 126. gr. c sem myndi m.a. lagastoð reglugerðar EB nr. 261/2004. Það að IA teljist flytjandi samkvæmt X. kafla, sbr. 118. gr., styðji einnig að IA teljist flytjandi í skilningi reglugerðarinnar. Með forúrskurði Evrópudómstólsins frá 26. febrúar 2013 í máli C-11/11 hafi verið leyst úr álitaefnum sem vörðuðu bótaskyldu vegna seinkana í flugferðum með beinum millilendingum. Í því máli hafi farþegarnir átt bókaða flugferð frá Bremen til Asuncion, með beinum millilendingum í París og Sao Paulo. Seinkun hafi orðið á flugi frá Bremen til Parísar sem hafi valdið því að farþegarnir hafi misst af fluginu til Sao Paulo. Hafi farþegarnir verið bókaðir í annað flug þangað. Vegna seinkunar á komu til Sao Paulo hafi farþegarnir misst af flugi þaðan til Asuncion. Hafi heildarseinkun á komu þangað verið 11 klukkustundir. Að mati dómsins eigi að meta bótaskyldu vegna seinkunar á grundvelli reglugerðarinnar við seinkun á lokaákvörðunarstað ef um flugferð er að ræða sem inniheldur bein tengiflug. Við mat á því hvort flug teljist beint tengiflug hafi SGS lagt til grundvallar að í sömu bókun og undir sama bókunarnúmeri komi fram þau flug sem um ræðir. Þá séu flugin tengd í tíma með það að markmiði að koma farþega á lokákvörðunarstað. Í h-lið 2. gr. reglugerðarinnar sé síðan að finna skilgreiningu á lokaákvörðunarstað. Til þess ákvæðis hafi einnig verið vísað í framangreindu máli. Af gögnum málsins megi sjá að um hafi verið að ræða flugferð frá Keflavík til Orlando með millilendingu í Boston og heimferð frá Orlando til Keflavíkur með millilendingu í Boston. Ef flug FI630 og FI7184 hefðu hins vegar verið pöntuð á grundvelli sjálfstæðra bókana ættu farþegarnir ekki rétt til skaðabóta. Að sama skapi hefðu farþegarnir ekki átt rétt til skaðabóta ef flugi FI7184 hefði seinkað vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Þá telur SGS að ekki sé hægt að horfa á flug FI630 frá Boston til Keflavíkur sem sjálfstætt flug í viðskiptasambandi farþeganna og IA. Órjúfanleg tengsl hafi verið milli flugs FI630 og flugs FI7184 þar sem síðar nefnda fluginu hafi verið ætlað að koma farþegunum til millilendingarflugvallar svo þeir gætu komist á lokaákvörðunarstað. Flug FI630 myndi því einungis einn legg í heildarferðalagi til lokaákvörðunarstaðar. Þar sem flugin hafi verið bókuð saman sem þáttur í heildstæðu flugferðalagi á vegum IA frá Orlando til Keflavíkur falli flug FI7184 undir ákvæði b-liðar 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar og 118. gr. loftferðalaga. Sé því um bótaskylda seinkun að ræða.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 13. mars 2018 var IA gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum SGS. Bárust þau ráðuneytinu með tölvubréfi IA mótteknu 6. apríl 2018.

Í andmælum IA kemur fram að félagið telji ljóst að í b-lið 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sé vísað til starfandi flugrekanda. Skilgreining á því hugtaki komi fram í b-lið 2. gr. reglugerðarinnar þar sem segi að flugrekandi sé sá sem starfar í flugrekstri, eða hyggst gera það, samkvæmt samningi við farþega eða fyrir hönd annars einstaklings eða lögpersónu sem gert hefur samning við þennan farþega. Ætti því ekki að vera nokkrum vafa undirorpið að JetBlue hafi verið starfandi flugrekandi í flugi FI7814 þrátt fyrir að samningssamband þess félags við farþegana hafi átt sér stað í gegnum aðra lögpersónu. Verði vart hjá því komist að líta til inngangsorða reglugerðarinnar þar sem segi að kvaðirnar sem henni fylgja skuli hvíla á starfandi flugrekanda eða þeim sem hyggst hefja flugrekstur, hvort sem hann hyggist nota eigið loftfar, nýta sér tómaleigu eða þjónustuleigu eða annars konar fyrirkomulag. Mótmælir IA því að 118. gr. loftferðalaga hafi áhrif á túlkun hugtaksins „flugrekandi sem annast viðkomandi flug“ í b-lið 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Komi það skýrt fram í reglugerðinni sjálfri og inngangsorðum hennar að þarna sé vísað til starfandi flugrekanda og það sé sá flugrekandi sem skuli bera þær kvaðir sem fjallað er um í reglugerðinni. Telur IA það andstætt EES rétti ef gildissvið reglugerðarinnar yrði teygt út hér á landi með þeim hætti að bótaskylda vegna seinkunar á flugi yrði lögð á hendur annarra en starfandi flugrekanda viðkomandi flugs, enda skuli túlkun og beiting sameiginlegra reglna vera samræmd á EES-svæðinu. Sé það skýrt bæði af texta og markmiði reglugerðarinnar að þær kvaðir sem þar er fjallað um verði einungis lagðar á hendur starfandi flugrekanda. Það að láta íslenskt flugfélag bera ábyrgð á seinkun innanlandsflugs í Bandaríkjunum, sem framkvæmt sé af bandarísku flugfélagi, standist því ekki skoðun.

Varðandi tilvísun SGS til dóms Evrópudómstólsins í máli C-11/11 telur IA það vera grundvallarmun á því máli og málinu sem hér er til umfjöllunar, að þar hafi seinkað flugi með evrópskum flugrekanda þar sem bæði brottfararstaður og áfangastaður viðkomandi flugs hafi verið innan evrópska efnahagssvæðisins. Í þessu máli sá staðan gjörólík þar sem bæði brottfararstaður og áfangastaður flugsins hafi verið í Bandaríkjunum og starfandi flugrekandi bandarískt flugfélag. Mótmælir IA því að dómurinn hafi fordæmisgildi í málinu. Að mati IA sé það grundvallaratriði í málinu að sú seinkun sem farþegarnir urðu fyrir hafi átt sér stað vegna flugs innan Bandaríkjanna þar sem starfandi flugrekandi hafi verið bandarískt fyrirtæki. Hvort sem talið verði að um sé að ræða beint tengiflug eða ekki geti gildissvið reglugerðarinnar ekki náð til slíks flugs. Þá telur IA að túlkun SGS víki frá samræmdri túlkun reglugerðarinnar sem almennt sé viðhöfð innan evrópska efnahagssvæðisins. Sé reynt að teygja ábyrgð á hendur IA vegna flugs sem flogið hafi verið af bandarískum flugrekanda í máli þar sem óumdeilt sé að seinkunin hafi verið hinum bandaríska flugrekanda um að kenna en ekki IA. Sé bótaskylda ekki til staðar í málinu.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 13. mars 2018 var farþegunum gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Með tölvubréfi farþeganna dags. 28. mars 2018 ítrekuðu þeir að flugin hafi verið keypt hjá IA á sama bókunarnúmeri og viðskiptasamband farþeganna hafi verið við IA. Við mat á bótaskyldu beri að miða við seinkun á lokaákvörðunarstað.

 

IV.      Niðurstaða ráðuneytisins

Krafa IA er sú að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi þar sem hið umdeilda flug falli ekki innan gildissviðs EB reglugerðar nr. 261/2004 þar sem annar flugrekandi hafi borið ábyrgð á seinkuninni. Farþegarnir krefjast staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun SGS fjallar reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar er SGS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita er fjallað í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerðina þannig að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi samkvæmt 6. gr. eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Liggur þannig fyrir að verði farþegar fyrir þriggja tíma seinkun á flugi eða meira sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekandans kvað á um geta þeir átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.

Fyrir liggur að farþegarnir keyptu farmiða af IA frá Orlando til Boston og þaðan með tengiflugi til Keflavíkur á sama bókunarnúmeri. Var viðskiptasamband farþeganna þannig alfarið við IA. Telur ráðuneytið að líta beri svo á að ferð farþeganna hafi hafist í Orlando og lokaákvörðunarstaður ferðarinnar verið Keflavík í skilningi 2. gr. reglugerðarinnar, enda komi þar fram að lokaákvörðunarstaður sé síðasti ákvörðunarstaður ferðarinnar þegar um bein tengiflug er að ræða. Styðst framangreint við niðurstöðu Evrópudómstólsins frá 7. mars 2018 í sameinuðum málum C-274/16, C-447/16 og C-448/16. Telur ráðuneytið því að umrætt flug falli undir gildissvið reglugerðar EB nr. 261/2004 og líta beri svo á að IA teljist flugrekandi í skilningi b-liðar 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Fyrir liggur að farþegarnir komu um sólarhring síðar til Keflavíkur en áætlað var. Var ástæðan sú að flugi þeirra frá Orlando til Boston seinkaði um rúmar 70 mínútur sem varð til þess að farþegarnir misstu af fluginu frá Boston til Keflavíkur. Liggur ekkert fyrir um að sú rúmlega sólarhrings seinkun sem varð á komu farþeganna til Keflavíkur hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar. Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat ráðuneytisins að ekki sé unnt að líta öðru vísi á en svo að IA beri ábyrgð á seinkuninni.

Með þessum athugasemdum er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, sbr. ákvæði c-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum