Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 16/2018. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10. október 2018
í máli nr. 16/2018:
L3 Communications UK Limited
gegn
Isavia ohf. og
Smiths Heimann GmbH

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 10. september 2018 kærir L3 Communications UK Limited útboð Isavia (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Explosive Detection System [...]“. Kærandi krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í hinum kærðu innkaupum sem tilkynnt var kæranda 31. ágúst sl. Jafnframt krefst kærandi þess að lagt verði fyrir kaupanda að taka á nýjan leik ákvörðun um val tilboðs. Til vara er gerð krafa um að kærunefnd láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefst frávísunar málsins eða að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá er þess krafist að stöðvun innkaupaferlisins, sem komst á með kæru í máli þessu, verði aflétt. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við síðastnefndri kröfu varnaraðila en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í febrúar 2018 auglýsti varnaraðili fyrrgreind innkaup á skimunarvélum og tilheyrandi búnaði á Keflavíkurflugvelli, einnig vísað til sem „sprengjuleitarbúnaðar“ í gögnum málsins, ásamt rekstri búnaðarins og viðhaldi. Fjögur fyrirtæki uppfylltu lágmarkskröfur til þess að taka þátt í samningaviðræðum um fyrirhuguð kaup og var þeim gefinn kostur á að skila inn frumtilboði. Í kjölfarið fóru fram samningaviðræður við bjóðendur og var tveimur þeirra gefinn kostur á að skila lokatilboði á grundvelli útboðsskilmála sem gefnir voru út í júlí 2018. Í útboðsskilmálum kom meðal annars fram að mat tilboða skyldi fara fram á grundvelli ákveðinna valforsendna sem hver um sig hafði ákveðið vægi. Þannig kom fram að tækni- og öryggiseiginleikar boðinna tækja skyldu vega 35%, samþætting við farangurskerfi 5%, rekstur og viðhald 25%, samfélagslegir þættir 5% og hagkvæmni 30%. Einstökum valforsendum var jafnframt skipt í undirþætti sem var með sama hætti gefið ákveðið vægi. Einnig var gert ráð fyrir því að einkunn fyrir hverja valforsendu yrði gefin á grundvelli svara bjóðenda við tilteknum spurningum kaupanda sem fram komu í viðaukum við útboðsgögn. Þar var jafnframt að finna aðferðarfræði við einkunnagjöf fyrir hverja spurningu. Þá kom fram að mat á tilboðum í samræmi við framangreindar valforsendur væri í höndum fulltrúa varnaraðila og mat færi fyrst um sinn fram hjá hverjum og einum fulltrúa um sig. Í kjölfarið skyldi fara fram heildstætt mat allra matsaðila og sérstaks samræmingaraðila á tilboðum bjóðenda í sérstakri valnefnd með það að markmiði að ná samstöðu um einkunnagjöf. Með bréfi 31. ágúst 2018 tilkynnti varnaraðili kæranda að hann hygðist ganga til samninga við Smiths Heimann GmbH að loknum 10 daga biðtíma. Kom fram að tilboð Smiths Heimann GmbH hefði fengið 77,87% í heildareinkunn en tilboð kæranda 77,58% í heildareinkunn. Jafnframt var upplýst hver einkunn kæranda hefði verið fyrir hvern lið og forsendur fyrir þeirri einkunnagjöf. Með bréfi 9. september 2018 mótmælti kærandi einkunnagjöf varnaraðila í tilteknum atriðum.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að val varnaraðila á tilboði í hinu kærða útboði eigi sér ekki fullnægjandi stoð í útboðsskilmálum þar sem valnefnd á vegum varnaraðila hafi ýmist misskilið eða rangtúlkað ýmislegt í tilboði kæranda. Hafi kærandi því fengið lægri einkunn en ella og þar með ekki verið talinn eiga hagstæðasta tilboðið. Gerir kærandi einkum athugasemd við mat varnaraðila vegna þriggja tiltekinna spurninga sem lutu að því hvernig tryggja ætti lágmarksþjónustu við boðinn búnað, hvernig standa ætti að fyrirhuguðum samskiptum og samræmingu kæranda sem þjónustuaðila búnaðarins við varnaraðila, öryggisverði o.fl. og um samstarf kæranda við varnaraðila og aðra verktaka á hans vegum. Af hálfu varnaraðila er sjónarmiðum kæranda mótmælt og á því byggt að val tilboðs hafi að í öllum atriðum grundvallast á útboðsskilmálum og því ákvörðun tekin um að velja hagkvæmasta tilboð.

Niðurstaða

Ágreiningur í máli þessu snýr fyrst og fremst að einkunnagjöf varnaraðila vegna tiltekinna þátta í lokatilboði kæranda. Áður hefur verið lýst helstu ákvæðum útboðsgagna um valforsendur útboðsins og hvernig mat samkvæmt þeim skyldi fara fram, en kærandi hefur ekki gert athugasemdir við þessi ákvæði útboðsgagna. Af skýringum varnaraðila og gögnum málsins að öðru leyti verður ekki annað ráðið en að mat varnaraðila á tilboði kæranda hafi farið fram í samræmi við þær forsendur og viðmið sem lýst var í útboðsgögnum. Þá verður ekki annað séð en að varnaraðili hafi gætt jafnræðis og lagt málefnaleg sjónarmið til grundvallar við það mat. Er því ekki fram komið að varnaraðili hafi farið út fyrir það svigrúm til mats sem hann hafði við mat á tilboðum samkvæmt framangreindu. Eins og málið liggur nú fyrir nefndinni verður því ekki talið að kærandi hafi leitt verulegar líkur að því að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup við mat á tilboði kæranda, sbr. 107. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Verður því að fallast á kröfu varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sem komst á með kæru í máli þessu, verði aflétt.

 Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar vegna útboðs varnaraðila Isavia ohf. auðkennt „Explosive Detection System [...]“,

Reykjavík, 10. október 2018

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum