Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 303/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 303/2019

Miðvikudaginn 16. október 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, dags. 11. júlí 2019, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. maí 2019 um að fresta greiðslum barnalífeyris vegna náms.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 30. ágúst 2018, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris vegna náms frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. október 2018, var umsókn kæranda samþykkt fyrir tímabilið 1. september 2018 til 31. janúar 2019. Með rafrænni umsókn, móttekinni 18. janúar 2019, sótti kærandi um áframhaldandi greiðslur. Með bréfi, X 2019, óskaði stofnunin eftir skólavottorði frá kæranda. Tvær nýjar rafrænar umsóknir, mótteknar X og X 2019, bárust Tryggingastofnun. Með bréfum Tryggingastofnunar, dags. X og X 2019, var ítrekað óskað eftir framlagningu skólavottorðs. Gögn bárust frá náms- og starfsráðgjafa C með bréfi, dags. X 2019, og tölvupósti X 2019. Með bréfi, dags. 6. maí 2019, var áframhaldandi greiðslum barnalífeyris vegna náms frestað þar til nýrri önn væri lokið á þeim grundvelli að kærandi hafi sannanlega ekki stundað fullt nám og skilyrði greiðslna vegna náms væru því ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. júlí 2019. Með bréfi, dags. 22. júlí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. ágúst 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Gerð er sú krafa að ákvörðun Tryggingastofnunar um að samþykkja ekki áframhaldandi greiðslur barnalífeyris til kæranda verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi stundað nám í C undanfarin ár en námið hafi ekki gengið vel síðastliðnar tvær annir sökum líkamlegra og andlegra veikinda hennar. Vegna þess hafi hún ekki getað sótt tíma og próf eins og ætlað sé. Kærandi hafi þó gert sitt besta til að sinna náminu og hafi metnað fyrir því að ljúka því. Kærandi hafi verið í góðum samskiptum við námsráðgjafa í skólanum sem hafi skilað inn erfiðleikavottorði fyrir hana sem eigi að staðfesta þá námserfiðleika sem hún glími við. Kærandi hafi veikt fjárhagslegt bakland og hafi sjálf ekki getað stundað vinnu samhliða námi sökum sinna veikinda. Greiðslur barnalífeyris skipti kæranda því miklu máli svo að hún geti stundað nám og séð sér farborða.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla stofnunarinnar á umsókn um áframhaldandi greiðslu barnalífeyris vegna náms.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. maí 2019, hafi áframhaldandi greiðslu barnalífeyris til kæranda verið frestað en ekki synjað eins og haldið sé fram í kæru. Ekki hafi verið talið að kærandi hafi sannanlega stundað fullt nám á haustönn 2018 og því hafi skilyrði greiðslna barnalífeyris vegna náms ekki verið uppfyllt og því hafi áframhaldandi greiðslum verið frestað.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar séu látnir og enn fremur ef foreldrar séu ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Tryggingastofnun meti sönnun um skólavist og starfsþjálfun. Skilyrði sé að námið og þjálfunin taki að minnsta kosti sex mánuði hvert ár.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 140/2006, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára, segi að Tryggingastofnun meti sönnun um skólavist og starfsþjálfun og skuli ungmenni framvísa staðfestum gögnum frá skóla ásamt yfirliti yfir fyrri námsárangur í upphafi hverrar annar. Skilyrði sé að ungmenni stundi sannanlega nám og að námið eða þjálfunin taki að minnsta kosti sex mánuði hvert ár.

Í 6. gr. reglugerðarinnar segi að við mat á umsókn skuli Tryggingastofnun taka tillit til allra aðstæðna umsækjanda, félagslegra sem efnahagslegra, sem áhrif geti haft á það hvort samþykkja skuli umsókn eða hafna henni. Að jafnaði skuli miðað við að umsækjandi sé í fullu námi. Heimilt sé að víkja frá þessu skilyrði ef um sé að ræða hægfara nám eða sérstaka erfiðleika nemandans, svo sem efnahagslegan eða félagslegan vanda.

Í 7. gr. reglugerðarinnar segi að ef í ljós komi að ungmenni hafi ekki stundað fullt nám eða uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum sé heimilt að fresta afgreiðslu áframhaldandi barnalífeyris þar til sex mánaða námstíma sé náð.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. október 2018, hafi verið samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri vegna náms til 31. janúar 2019. Þann 18. janúar 2019 hafi stofnuninni borist rafræn umsókn kæranda um framlengingu greiðslna en skólavottorð hafi vantað og hafi kæranda verið sent bréf þess efnis, dags. X 2019. Tvær nýjar umsóknir hafi borist, dags. X og X 2019, en í bæði skiptin hafi vantað skólavottorð og hafi verið óskað eftir þeim með bréfum, dags. X og X 2019.

Bréf hafi borist frá náms- og starfsráðgjafa C, dags. X 2019, þar sem staðfest hafi verið að kærandi væri skráð í X einingar í dagskóla. Þá hafi komið fram í bréfinu að veturinn hafi verið kæranda afar erfiður. Þar sem engar upplýsingar hafi borist um námsframvindu haustannar 2018 hafi verið óskað eftir þeim upplýsingum með tölvupósti til skólans X 2019 og samdægurs hafi komið upplýsingar um að kærandi hafi lokið X einingum á haustönn 2018.

Í reglugerð nr. 140/2006 segi að við mat á umsókn um barnalífeyri vegna náms skuli að jafnaði miða við að umsækjandi sé í fullu námi. Tryggingastofnun hafi miðað við að fullt nám í framhaldsskóla sé að jafnaði 30-34 einingar á önn. Í reglugerð segi síðan að heimilt sé að víkja frá þessu skilyrði ef um sé að ræða hægfara nám eða sérstaka erfiðleika nemandans.

Samkvæmt innsendum gögnum og gögnum sem hafi fylgt kæru sé ljóst að kærandi glími við erfiðleika. Hins vegar komi fram í innsendum gögnum að á haustönn 2018 hafi kærandi verið skráð í X einingar en einungis lokið X einingum. Það hafi því verið mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki sannanlega stundað fullt nám og skilyrði til greiðslu barnalífeyris vegna skólanáms væri því ekki uppfyllt. Í ljósi þess ákvað Tryggingastofnun að fresta áframhaldandi greiðslu barnalífeyris til kæranda með bréfi, dags. 6. maí 2019, sbr. heimild í 7. gr. reglugerðar nr. 140/2006. Í bréfinu hafi komið fram að kæranda væri velkomið að senda inn gögn um námsframvindu vorannar 2019 þegar henni væri lokið, en engin slík gögn hafi borist stofnuninni og þau hafi ekki fylgt með kæru til úrskurðarnefndar.

Eftir að beiðni um greinargerð Tryggingastofnunar hafi borist hafi kæranda einnig verið gefinn kostur á því með bréfi, dags. 9. ágúst 2019, að senda inn gögn um námsframvindu vorannar 2019 en engin gögn hafi borist.

Tryggingastofnun telji að þrátt fyrir að um einhverja erfiðleika kæranda sé að ræða þá hafi hún ekki sannanlega verið að stunda nám sitt á haustönn 2018 með vísan til framanritaðs. Þá hafi engin gögn borist um námsframvindu vorannar 2019, þrátt fyrir beiðni þar um, og því sé ekki ástæða til að breyta fyrri ákvörðun stofnunarinnar um frestun á áframhaldandi greiðslu barnalífeyris vegna náms til kæranda fyrir vorönnina 2019.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. maí 2019, þar sem greiðslum barnalífeyris vegna náms var frestað með þeim rökum að kærandi hafi ekki sannanlega stundað fullt nám og því hafi skilyrði til greiðslu barnalífeyris vegna náms ekki verið uppfyllt.

Um barnalífeyri vegna menntunar er fjallað í 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. málsl. 3. gr. laga um félagslega aðstoð er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir eru látnir og enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. segir að Tryggingastofnun meti sönnun um skólavist og skólaþjálfun og að skilyrði sé að námið og þjálfunin taki að minnsta kosti sex mánuði hvert ár. Í 6. málsl. sömu greinar segir að Tryggingastofnun geti frestað afgreiðslu barnalífeyris þar til sex mánaða námstíma er náð. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þess.

Reglugerð nr. 140/2006, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára, hefur verið sett með framangreindri lagaheimild. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir að við mat á umsókn skuli Tryggingastofnun taka tillit til allra aðstæðna umsækjanda, félagslegra sem efnahagslegra, sem áhrif geti haft á það hvort samþykkja skuli umsókn eða hafna henni. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar skal umsækjandi vera í fullu námi en heimilt er að víkja frá því skilyrði ef um sé að ræða hægfara nám eða sérstaka erfiðleika nemandans, svo sem efnahagslegan eða félagslegan vanda. Ákvæði 7. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Ungmenni sem sækir um áframhaldandi greiðslu barnalífeyris samkvæmt þessari reglu­gerð skal við upphaf annar leggja fram staðfestingu um ástundun náms á þeirri önn sem lokið er og greitt hefur verið vegna. Komi í ljós að ungmenni hafi ekki stundað fullt nám eða að öðru leyti uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum er heimilt að fresta afgreiðslu áfram­haldandi barnalífeyris þar til sex mánaða námstíma er náð.“

Í bréfi D, náms- og starfsráðgjafa C, dags. X 2019, segir:

„Það staðfestist hér með að [kærandi] er nemandi hér við skólann og hefur verið síðan X. Hún er skráð í X einingar í dagskóla. Þessi vetur hefur verið henni afar erfiður og ef óskað er eftir nánari upplýsingum er hægt að hafa samband við undirritaða.“

Í tölvubréfi D frá X 2019 til Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lokið X einingum á haustönn 2018.

Meðfylgjandi kæru var læknisvottorð E, dags. X 2019, þar sem segir meðal annars:

„Vegna líkamlegra og geðrænna veikinda náði [kærandi] ekki að sækja tíma og próf eins og hún hafði ætlað.

Hún náði því ekki tilskyldum námsárangri þetta árið.

Hún er nú í bata og er aftur skráð á Haustönn í C nú X2019

[…]“

Byggt er á því í kæru að vegna líkamlegra og andlegra veikinda kæranda hafi henni ekki gengið vel síðastliðnar tvær annir, hún hafi ekki sterkt fjárhagslegt bakland og skipti því greiðslur barnalífeyris hana miklu máli svo að hún geti stundað nám og séð sér farborða. Fyrir liggur að Tryggingastofnun tók ákvörðun um að fresta greiðslum barnalífeyris vegna náms á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki sannanlega stundað fullt nám á haustönn 2018 og því væru skilyrði til greiðslna barnalífeyris vegna náms ekki uppfyllt.

Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi einungis X einingum í framhaldsskóla á haustönn 2018 og því telur úrskurðarnefndin ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt það skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 140/2006 um að vera í fullu námi. Aftur á móti er heimilt að víkja frá skilyrðinu um fullt nám ef um er að ræða hægfara nám eða sérstaka erfiðleika nemandans, svo sem efnahagslegan og félagslegan vanda. Í bréfi D, náms- og starfsráðgjafa C, dags. X 2019, kemur fram að veturinn hafi verið kæranda afar erfiður. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin lágu engar aðrar upplýsingar fyrir um erfiðleika kæranda. Úrskurðarnefndin telur að framangreindar upplýsingar hafi gefið Tryggingastofnun tilefni til að afla nánari upplýsinga um við hvaða erfiðleika kærandi glímdi. Stofnunin gerði það ekki, þrátt fyrir að í fyrrgreindu bréfi frá X 2019 var sérstaklega tekið fram að hægt væri að hafa samband við D ef óskað væri nánari upplýsinga. Stofnunin óskaði eingöngu eftir upplýsingum um fjölda lokinna eininga á haustönn 2018. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst þegar Tryggingastofnun tók hina kærðu ákvörðun, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni bárust frekari upplýsingar um erfiðleika kæranda. Í kæru kemur fram að kærandi hafi veikt fjárhagslegt bakland og þá koma fram upplýsingar í kæru og læknisvottorði E, dags. X 2019, um að kærandi glími við líkamleg og andleg veikindi. Engar upplýsingar liggja þó fyrir um við hvaða líkamlegu og andlegu veikindi kærandi glímir. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar til þess að unnt sé að meta hvort kærandi hafi glímt við sérstaka erfiðleika í skilningi 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 140/2006.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að rétt sé að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til nánari rannsóknar og mats á því hvort skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 140/2006 um sérstaka erfiðleika hafi verið uppfyllt í tilviki kæranda.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. maí 2019, um frestun greiðslna barnalífeyris vegna náms, er því felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fresta greiðslum barnalífeyris vegna náms til A, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum