Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 465/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 465/2020

Miðvikudaginn 21. apríl 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru 28. september 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. september 2020 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hennar vegna ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2019. Með bréfi, dags. 14. september 2020, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum á árinu 2019, hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 732.929 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfinu var kærandi krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. september 2020. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 16. október 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 12. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar fyrir því að tilteknar greiðslur kæranda frá Svíþjóð skertu ellilífeyrisgreiðslur hennar frá stofnuninni. Viðbótargreinargerð barst með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 1. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski eftir endurskoðun á ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2019.

Í kæru greinir kærandi frá því að tekjur hennar á árinu 2019 hafi verið eftirfarandi:

Launatekjur: 804.000 SEK

Almennur ellilífeyrir: 189.144 SEK

Lífeyrissjóðsgreiðslur: 381.924 SEK

Tekjur frá séreignarlífeyrissjóði: 14.592 + 150.519 + 54.453 +32.059 + 47.006 + 57.392 + 32.080 = 388.101 SEK,

Arður: 278.165 SEK

Greiðslur frá sjóðum: 82 SEK

Frádráttur hafi verið 43.973 SEK vextir af lánum

Kærandi vilji benda á að ellilífeyrir hennar í Svíþjóð sé lægri en þeirra sem hafi búið þar alla ævi. Kærandi hafi verið X árs gömul þegar hún hafi flutt til Svíþjóðar X. Kærandi hafi unnið frá vori X á Íslandi þangað til hún hafi flutt til Svíþjóðar. Kærandi hafi spurst fyrir um af hverju hún hafi ekki fengið fullan ellilífeyri í Svíþjóð og hafi henni verið sagt að vegna samstarfs Norðurlandanna fengi hún mismuninn frá Íslandi. Kærandi hafi haldið að lífeyristekjur úr séreignarsjóði skipti ekki máli.

Ellilífeyrir kæranda frá sænska ríkinu sé 189.144 SEK. Allar aðrar lífeyrissjóðtekjur séu safn peninga sem hún hafi borgað af sínum launum í þau yfir X ár sem hún hafi unnið í Svíþjóð og það eigi ekki að hafa áhrif á ellilífeyri.

Ellilífeyrinn frá Íslandi eigi að brúa muninn á því sem kærandi fái borgað frá X árs aldri í Svíþjóð og þess sem hún hefði fengið þar ef hún hefði unnið allt lífið í Svíþjóð. Sá munur sé það sem hún hafi unnið sér inn þessi ár sem hún hafi unnið á Íslandi. Það sé ekki hægt að þurrka þau ár út.

Sundurliðun tekna sé óskiljanleg, kærandi sé ekki með neina vexti eða verðbætur. Aftur á móti sé hún með frádrátt vegna lánavaxta. Kærandi spyr hvaðan Tryggingastofnun fái töluna fyrir „Iðgjald í lífeyrissjóð“.

Farið sé fram á skýringar á flestum tölum sem stofnunin hafi notast við ákvörðunina, þær séu svo til allar rangar. Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki borgað sem svari 382.297 ISK í iðgjald í lífeyrissjóð. Í öðru lagi fái kærandi ekki sem svari 11.944.064 ISK í lífeyrissjóðstekjur, réttum tölum hafi verið greint frá hér að framan. Í þriðja lagi fái kærandi ekki sem svari 220.000 ISK í séreignarsjóð, greint hafi verið frá réttri fjárhæð hér að framan. Í fjórða lagi fái kærandi ekki sem svari 2.405.800 ISK í vexti og verðbætur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um ofgreiddar bætur í uppgjöri.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ávinnist full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár á aldursbilinu 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Kærandi fái blandaðan lífeyri bæði frá Íslandi og Svíþjóð og reiknist íslenskur búsetuellilífeyrir 38,52% hjá kæranda hér á landi.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé mælt fyrir um endurreikning lífeyrisréttinda, og sé 7. mgr. ákvæðisins svohljóðandi:

„Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðslu ársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.“

Í 8. tölul. 1. gr. laga um almannatryggingar séu tekjur nánar skilgreindar. Í ákvæðinu kemur eftirfarandi fram: „Tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað telst ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum; einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.“

Að auki sé að finna ákvæði í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum.

Í 2. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram: „Tekjur: Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.“

Í 6. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram: „Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal endurreikna bótafjárhæðir ársins á grundvelli þeirra upplýsinga.“

Í 9. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram varðandi ofgreiddar bætur: „Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt er dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar eru til grundvallar bótaútreikningi reynast hærri en tekjuáætlun skv. 4. gr. gerði ráð fyrir og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Lífeyrisréttindi séu tekjutengd og séu réttindi síðan ákvörðuð út frá tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar skila inn til Tryggingastofnunar og beri þeir sjálfir ábyrgð á að áætlun sé sem næst raunverulegum tekjum þeirra. Lögð sé áhersla á að tekjuáætlanir séu sem nákvæmastar svo að ekki komi til ofgreiðslu eða vangreiðslu við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta á hverju almanaksári. Greiðsluþegar geti svo hvenær sem er breytt sínum tekjuáætlunum rafrænt inn á „Mínum síðum” hjá Tryggingastofnun.

Í tekjuáætlun, sem kærandi hafi sent til Tryggingastofnunar vegna tekjuársins 2019, hafi einungis verið gefinn upp hluti tekna sem kærandi hafði á árinu 2019.

Í tillögu að tekjuáætlun fyrir árið 2019 sé skipting tekna og lífeyrissjóðstekna sett fram á eftirfarandi hátt, en upplýsingarnar séu unnar út frá þeim skattaupplýsingum sem liggi fyrir hjá sænskum og íslenskum skattyfirvöldum.

Atvinnutekjur: SEK 804.000

(Frítekjumark er 100.000 IKR á atvinnutekjur en ekki á lífeyrisgreiðslur)

Lífeyrissjóðstekjur: SEK 959.172 (hefur áhrif á útreikning)

Lífeyrissjóðstekjur: IKR 542.067 (íslenskur lífeyrissjóður hefur áhrif á útreikning)

Fjármagnstekjur: SEK 185.443 (hefur áhrif á útreikning)

Fjármagnstekjur: IKR 1.200.000 (hefur áhrif á útreikning)

 

Í tekjuáætlun, sem hafi verið send Tryggingastofnun þann 13. desember 2018, hafi einungis verið gefinn upp lítill hluti af þeim erlenda lífeyri sem kærandi hafi fengið greiddan eða sem nemi 186.804 SEK. Samkvæmt sænsku skattframtali „Skatteverket“ er taki til launa og allra tekna fyrir árið 2019, komi hins vegar fram að kærandi fái erlendan lífeyri sem nemi 790.632 SEK (allmän pension och tjänestepension m.m) + 168.537 SEK (privat pension og livränta) í erlendan lífeyri, auk launatekna upp á 804.000 SEK (lön, förmåner, skjukpenning m.m). Þessar upphæðir hafi ekki verið settar inn í upprunalegu tekjuáætlun frá kæranda.

Í tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2019, sem kærandi hafði sent Tryggingastofnun, hafi tekjuupplýsingarnar verið ónákvæmar og einungis getið um hluta þeirra. Ekki hafi verið veittar upplýsingar um allar greiðslur lífeyris frá Svíþjóð og einungis hafi lítill hluti af hinum erlenda lífeyri verið gefinn upp á tekjuáætluninni. Að auki hafi heldur ekki verið getið til um laun kæranda upp á 804.000 SEK. Við árlegt uppgjör hjá Tryggingastofnun, sem sé framkvæmt eftir að endanlegar tölulegar upplýsingar á sænsku skattframtali kæranda komi fram, hafi myndast talsverður mismunur við uppgjör og yfirferð tekna, eða mismunur sem hafi numið 732.929 kr.

Tryggingastofnun framkvæmi endurútreikning og samanburð greiðslna og réttinda á hverju ári miðað við endanlegar upplýsingar sem komi fram í skattframtali viðkomandi einstaklings. Við uppgjör 2019 hafi komið í ljós mismunur upp á 732.929 kr. í skuld. Mismunur þessi sé tilkominn vegna þess að á sænsku skattframtali kæranda hafi komið í ljós að kærandi hafði haft 959.172 SEK í lífeyrisgreiðslur og að auki 804.000 SEK í atvinnutekjur sem ekki hafi verið getið um í upphaflegri tekjuáætlun kæranda.

Það sé kærandi sjálf sem beri ábyrgð á útfyllingu tekjuáætlunar sinnar á hverju ári og geti hún breytt henni ef á þurfi að halda hvenær sem sé á vefsvæði Tryggingastofnunar „Mínar síður“. Tryggingastofnun leggi ríka áherslu á að greiðsluþegar fylli vandlega út tekjuáætlun sína svo að ekki komi til ofgreiðslna í uppgjöri síðar.

Tryggingastofnun bjóði upp á mörg greiðsluúrræði fyrir viðskiptavini sína til að koma til móts við þá ef rangar upplýsingar á tekjuáætlun hafi orsakað ofgreiðslu hjá viðkomandi.

Tryggingastofnun hafi þegar boðið kæranda upp á að frádráttur af greiðslum verði 59.824 kr. á mánuði frá 1. nóvember 2020 vegna þeirrar ofgreiðslu sem hafi myndast og þar til skuldin verði að fullu endurgreidd.

Þau gögn sem liggi fyrir í máli þessu sé tekjuáætlun fyrir árið 2019 frá kæranda, auk staðfestingar á skilum á tekjuáætlun. Þá liggi fyrir tillaga að tekjuáætlun 2019, auk bréfs um tryggingaferil í Svíþjóð E 205, en kærandi njóti réttar hér á landi sem nemi 38,52% af búsetulífeyri. Einnig liggi fyrir sænskt skattframtal 2020 vegna tekna ársins 2019 frá „Skatteverket“ í Svíþjóð og samanburður greiðslna og réttinda og niðurstaða endurreiknings, auk innheimtubréfs frá Tryggingastofnun, dagsettu 11. september 2020.

Tryggingastofnun starfi eftir lögum um almannatryggingar og þar sé skýrt kveðið á um að einstaklingar ávinni sér rétt til almannatrygginga með því að eiga lögheimili hér á landi og sé réttur kæranda til búsetulífeyris 38,52%.

Samkvæmt 16. gr. almannatryggingalaga komi fram að Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda. Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Við endurreikning sé Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli endurreikna bótafjárhæðir ársins á grundvelli þeirra upplýsinga. Endanlegar upplýsingar hafi verið ljósar þegar skattframtal frá Svíþjóð hafi borist Tryggingastofnun og endanlegt uppgjör hafi þá farið fram.

Með vísan til ofangreinds telji Tryggingastofnun að uppgjör og endanlegur útreikningur hafi verið framkvæmdur á réttan hátt og að kærandi hafi ekki upplýst Tryggingastofnun um allar tekjur sínar og lífeyri frá Svíþjóð í tekjuáætlun sinni eins og beri að gera lögum samkvæmt.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar segir að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi óskað eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar fyrir því annars vegar að „allmän pension och tjänstepension“ og hins vegar „privat pension och livränta“ skerði ellilífeyri kæranda hjá stofnuninni.

Við útreikning og yfirferð tekna hjá stofnuninni sé miðað við erlendar tekjuupplýsingar eins og þær birtist á skattframtali viðkomandi einstaklings. Til áréttingar séu bæði „allmän pension och tjänstepension, privat pension och livrenta“  flokkaðar sem lífeyrissjóður í tekjuflokkun hjá stofnuninni. Þær séu sambærilegar við lífeyrissjóðstekjur hér á landi, það er að segja áunnin lífeyrisréttindi á vinnumarkaði. 

Svo virðist sem kæra þessi sé frekar andmæli við uppgjör en kæra um ofgreiddar bætur í uppgjöri. Ef kærandi hefði andmælt uppgjörinu á sínum tíma hefði stofnunin getað boðið henni að senda inn nánari gögn um „privat pension og livrenta“ til að geta metið eðli þeirra frekar. Stofnunin hafi hins vegar ekki verið að flokka „privat pension og livrenta“ sem séreignarsjóð þar sem ákveðin skilyrði þurfi að vera uppfyllt varðandi þær greiðslur og einnig komi þessar upplýsingar ekki nægjanlega vel fram á skattframtali kæranda. En telji kærandi umræddar greiðslur vera séreignarlífeyri verði hún að upplýsa Tryggingastofnun um slíkt þar sem ekki sé hægt að sjá af innsendum gögnum sem kærandi hafi sent að svo sé og heldur ekki af erlendu skattframtali hennar. 

Eins og fram hafi komið í fyrri greinargerð Tryggingastofnunar hafi kærandi ekki upplýst um allar tekjur í tekjuáætlun og einungis hluti af þeim endanlegum tekjum, sem kærandi hafi haft, hafi verið gefinn upp. Kærandi ber þar af leiðandi hallann af því að hafa ekki upplýst Tryggingastofnun um allar sínar tekjur á tekjuáætlun. 

Að öðru leyti vísi Tryggingastofnun til fyrri greinargerðar í málinu og til reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum. Til tekna samkvæmt þeirri reglugerð teljist tekjur eins og þær séu skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2019.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri á árinu 2019. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur meðal annars fram að til tekna skuli telja endurgjald fyrir hvers konar vinnu, eftirlaun og lífeyri, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar, ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýst um greiðslur ársins 2019 með bréfi, dags. 7. janúar 2019, og þá tekjuáætlun vegna ársins 2019 sem lá til grundvallar greiðslunum. Í tekjuáætluninni var gert ráð fyrir 2.422.474 kr. í erlendan lífeyri og Tryggingastofnun meðhöndlaði erlendan lífeyri með sama hætti og lífeyrissjóðstekjur. Kærandi gerði engar athugasemdir við þá tekjuáætlun. Í endurreikningi Tryggingastofnunar, sem byggðist á íslensku og sænsku skattframtali kæranda vegna ársins 2019, var gert ráð fyrir launatekjum að fjárhæð 9.557.416 kr., iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð 328.297 kr., lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð 11.944.064 kr., tekjum úr séreignarsjóði að fjárhæð 220.000 kr. og fjármagnstekjum að fjárhæð 3.505.800 kr., sameiginlegum með maka. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar var sú að kærandi hafi ekki átt rétt á neinum greiðslum það árið og því hafi ofgreiðsla ársins verið að fjárhæð 732.929 kr. á árinu 2019, að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að tekjur ársins 2019 voru mun hærri en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun. Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við endurreikning Tryggingastofnunar og telur að flestar tölurnar, sem stofnunin hafi miðað við, séu rangar. Kærandi gerir þó engar athugasemdir við þær launatekjur sem Tryggingastofnun miðar við í endurreikningnum. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 1205/2018 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2019 var efra tekjumark ellilífeyris 6.916.133 kr. á ári. Í því felst að ellilífeyrir fellur niður ef tekjur eru umfram þá fjárhæð. Óumdeilt er að launatekjur kæranda voru töluvert umfram þá fjárhæð á árinu 2019. Því er ljóst að kærandi átti ekki rétt á ellilífeyrisgreiðslum á árinu 2019 þegar af þeirri ástæðu að launatekjur hennar voru umfram efra tekjumark ársins.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um uppgjör og endurreikning á tekjutengdum bótum ársins 2019.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A á árinu 2019, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum