Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 409/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 2. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 409/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080016

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik og málsmeðferð

Þann 8. október 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júní 2020, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu og Venesúela (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. október 2020. Þann 19. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. 392/2020, dags. 13. nóvember 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Þann 7. desember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Þann 11. mars 2021 hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 112/2021. Þann 9. ágúst 2021 barst kærunefnd að nýju beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjali.

Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún telur að ákvörðun í máli sínu hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum. 

Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að kærunefnd útlendingamála hafi í samráði við kæranda óskað eftir því þann 9. desember 2020 að framkvæmt yrði sálfræðimat á kæranda. Nokkrum mánuðum síðar hafi niðurstöður sálfræðimatsins legið fyrir þar sem fram hafi komið að klínískt mat benti til kvíða- og þunglyndiseinkenna og áfallastreitueinkenna. Í vottorðinu hafi því þó verið haldið fram að kærandi ætti ekki við alvarlegan sálrænan vanda að stríða, þrátt fyrir að niðurstöður matsins hafi bent til hins gagnstæða. Í úrskurði kærunefndar, dags. 11. mars 2021, hafi nefndin vísað til framangreindra sjónarmiða og hafnað endurupptökubeiðni kæranda. Nú sé komið í ljós að um hafi verið að ræða innsláttarvillu í vottorðinu. Í leiðréttu vottorði, sem kærandi hafi nú lagt fram, hafi […], sálfræðingur, staðfest að kærandi glími við alvarlegan sálrænan vanda. Þannig sé ljóst að fyrri úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess sé krafist endurupptöku á máli kæranda.

III.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 8. október 2020 var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að hún telji ákvörðun kærunefndar hafa byggst á ófullnægjandi upplýsingum. Um hafi verið að ræða innsláttarvillu í sálfræðimati sem kærunefnd hafi byggt ákvörðun sína á en nú hafi sálfræðingur kæranda staðfest í nýju og leiðréttu vottorði að kærandi glími við alvarlegan sálrænan vanda.

Ásamt endurupptökubeiðni lagði kærandi fram sömu skýrslu, dags. 22. febrúar 2021, og lá fyrir þegar kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda hinn 11. mars 2021. Einungis hefur hluta setningar verið breytt í niðurstöðukafla skýrslunnar. Í fyrri útgáfu skjalsins, sem lagt var fram hinn 3. mars 2021, kom m.a. fram að „[k]línískt mat og sjálfsmatskvarðar bentu til kvíða- og þunglyndiseinkenna og áfallastreitueinkenna en ekki til alvarlegs sálræns vanda.“ Í síðari útgáfu skjalsins, sem lagt var fram hinn 9. ágúst 2021, hefur framangreindri setningu verið breytt í „[k]línískt mat og sjálfsmatskvarðar bentu til kvíða- og þunglyndiseinkenna og áfallastreitueinkenna og er því að glíma við alvarlegan sálrænan vanda.“ Að mati kærunefndar bar framangreind breyting ekki með sér að um innsláttarvillu hafi verið að ræða og óskaði kærunefnd því eftir frekari upplýsingum frá sálfræðingi kæranda. Í svari hennar, sem barst kærunefnd hinn 25. ágúst 2021, kom m.a. fram að um mistök hafi verið að ræða við gerð fyrri skýrslunnar og að síðari skýrslan endurspeglaði rétta greiningu á högum kæranda.

Líkt og fram kemur í úrskurðum kærunefndar frá 8. október 2020 og 11. mars 2021 lágu fyrir upplýsingar við meðferð máls kæranda um að hún glími við kvíða, áhyggjur, svefnleysi og hjartsláttartruflanir og hafi leitað á bráðamóttöku á Landspítala þar sem hún hafi m.a. fengið róandi lyf. Þá var það mat kærunefndar í fyrri endurupptökuúrskurði nefndarinnar að framangreind skýrsla með niðurstöðum sálfræðimatsins hafi aðeins haft að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um andlega heilsu kæranda og hafi aðeins verið til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hennar hjá nefndinni. Í hinni leiðréttu skýrslu, líkt og í fyrri skýrslunni, kemur m.a. fram að það sé fyrst og fremst óvissa varðandi framtíð kæranda og fjölskyldu hennar sem valdi henni vanlíðan, depurð og streitu. Það sé mat sálfræðingsins að ef kærandi búi við öryggi og fyrirsjáanleika þá geti hún skapað sér gott líf. Kærunefnd lítur svo á að ekkert sé því til fyrirstöðu að kærandi muni geta búið við öruggar og fyrirsjáanlegar aðstæður í Kólumbíu. Kærunefnd telur að þrátt fyrir framangreind heilsufarsgögn, sem bendi til þess að andlegri heilsu kæranda hafi hrakað frá því úrskurðað var í máli kæranda, sé ekki um að ræða nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Í úrskurði kærunefndar, dags. 8. október 2020, fjallaði kærunefnd um heilbrigðiskerfið í Kólumbíu og lagði nefndin til grundvallar að kæranda stæði til boða geðheilbrigðisþjónusta þar í landi. Slík heilbrigðisþjónusta væri að mestu tryggð með sjúkratryggingakerfi landsins og meiri hluti fólks sem glími við andleg veikindi þurfi ekki að greiða fyrir slíka þjónustu.

Með vísan til alls framangreinds verður því ekki talið að mati kærunefndar að framangreind leiðrétting á skýrslunni hefði haft áhrif á efnislega niðurstöðu nefndarinnar í máli kæranda. Því er það mat kærunefndar að framangreindar upplýsingar bendi ekki til þess að úrskurður kærunefndar, dags. 8. október 2020, hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum í skilningi 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum