Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 31. júlí 1995

Mánudaginn 31. júlí 1995 var Í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms tekið fyrir matsmálið nr. 5/1995

Akureyrarbær
gegn
Birgi Steindórssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta;

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson, hdl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 2. júní 1995, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 23. júní 1995 fór Akureyrarbær, kt. 410169-6229, Geislagötu 9, Akureyri, þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að hún mæti hugsanlega verðrýrnun á fasteigninni Bakkahlíð 13, Akureyri, eign Birgis Steindórssonar, kt. 041040-3949, Bakkahlíð 13, Akureyri, vegna breytinga á aðalskipulagi Akureyrar þess efnis, að veita heimild fyrir byggingu bensínstöðvar á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar, en á þessu svæði hafði áður verið gert ráð fyrir útivistarsvæði. Matsbeiðandi, Akureyrarbær, vísar í matsbeiðni sinni til 29. gr., sbr. 19. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

Í úrskurði þessum nefnist Akureyrarbær eignarnemi, en Birgir Steindórsson eignarnámsþoli, þrátt fyrir að um eiginlegt eignarnámsmál sé ekki að ræða, en aðilar lýstu því yfir við fyrstu fyrirtöku málsins að þeir væru sammála um að mál þetta væri rekið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 12. júní 1995. Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum og að því búnu var gengið á vettvang og aðstæður skoðaðar. Aðilar lýstu því yfir við fyrirtökuna að þeir sættu sig við skipan matsnefndarinnar í máli þessu og að þeir féllust á að mál þetta ætti undir Matsnefnd eignarnámsbóta. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. júlí 1995.

Föstudaginn 14. júlí 1995 var málið tekið fyrir. Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Þá lagði eignarnemi einnig fram gögn. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings til 21. júlí 1995.

Föstudaginn 21. júlí 1995 var málið tekið fyrir. Sættir voru reyndar án árangurs. Þá fór fram munnlegur flutningur málsins og var það að því búnu tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema kemur fram að með bréfi dags. 7. apríl 1993 hafi Olíuverslun Íslands hf. óskað eftir lóð undir bensínstöð á Akureyri, nánar tiltekið á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar. Niðurstaða viðræðna Olíufélags Íslands hf. og eignarnema varð sú að hefðbundin vinna fór fram af hálfu skipulagsstjórans á Akureyri með það að markmiði að fá fram afstöðu bæjaryfirvalda um hvort að lóð yrði veitt undir bensínstöð á fyrrgreindum stað. Hugmyndin kallaði á breytingu á aðalskipulagi og varð því að leita til Skipulags ríkisins, auglýsa fyrirhugaða breytingu og kalla eftir athugasemdum bæjarbúa og annara sem teldu sig hafa hagsmuna að gæta. Undirbúningsvinna þessi hefur nú öll farið fram og hefur eignarnámsþoli gert bótakröfu að fjárhæð kr. 4.500.000- á hendur eignarnema vegna framangreindra breytinga á aðalskipulagi Akureyrarbæjar.

Eignarnemi hafnar því alfarið að breyting á aðalskipulagi bæjarins á umræddri lóð valdi því að fasteign eignarnámsþola rýrni í verði. Eignarnemi telur engin gögn liggja fyrir sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að eignarnámsþoli verði fyrir tjóni af völdum skipulagsbreytingarinnar og gerir þá kröfu að eignarnámsþola verði ekki ákvarðaðar neinar bætur vegna hennar.

Eignarnemi bendir á að lóð sú sem til umræðu er sé í úðjaðri þess svæðis sem samkvæmt aðalskipulagi er skipulagt sem útivistarsvæði. Lóðin sé í raun mjög lítill hluti þess svæðis og liggi auk þess á mótum tveggja af aðal umferðaræðum Akureyrar, þ.e. Hlíðarbrautar og Borgarbrautar, en báðar þessar götur séu aðal tengibrautir milli norður- og suðurhluta bæjarins. Eignarnemi heldur því fram að lengi hafi legið ljóst fyrir að á þessu svæði gæti orðið um mjög mikla og þunga umferð að ræða.

Eignarnemi vísar því á bug að fyrirhuguð bensínstöð valdi auknum óþægindum vegna umferðar í nágrenninu þar sem fyrir hafi legið að þarna yrðu ein fjölförnustu gatnamót á Akureyri í framtíðinni og fyrirhuguð verslunar- og þjónustulóð hafi engin, eða a.m.k. hverfandi áhrif til aukningar í því sambandi. Þá bendir eignarnemi á að fjarlægðin frá lóðinni að húsi eignarnámsþola sé veruleg og að ekkert liggi fyrir um að heimild verði veitt fyrir nætursölu í umræddri bensínstöð.

Eignarnemi heldur því fram að fyrirhuguð bensínstöð muni hafa mjög óveruleg áhrif á útsýni eignarnámsþola, enda sé gert ráð fyrir lágreistum byggingum á lóðinni, ekki blokkum eða háhýsi. Þá sé einnig ljóst að gerðar verði strangar kröfur til frágangs á lóðinni. Þá bendir eignarnemi á að gert sé ráð fyrir trjágróðri í kringum fyrirhugaða bensínstöð sem valdi því að sjónmengun verði mjög óveruleg.

Þá vísar eignarnemi á bug þeirri staðhæfingu eignarnámsþola að umrædd breyting á aðalskipulagi bæjarins lýsi "hringlandahætti", þar sem aðalskipulagi sé fyrst og fremst ætlað að vera stefnumótun viðkomandi sveitafélags um landnotkun, gatnakerfi, þróun byggðar o.s.frv., en gert sé ráð fyrir því, t.d. í gr. 2.5. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, að skipulagið sé endurskoðað t.d. vegna nýrra sjónarmiða sem komi fram.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþoli gerir þær kröfur að honum verði ákvarðaðar bætur vegna þeirrar verðrýrnunar sem hann telur verða á fasteign sinni vegna skipulagsbreytinga á horni Borgarbrautar og Hlíðarbrautar. Þá er þess krafist að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 200.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað vegna máls þessa. Eignarnámsþoli byggir kröfu sína til bóta á 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964. Auk þess byggir eignarnámsþoli kröfu sína á almennum bótasjónarmiðum.

Eignarnámsþoli heldur því fram að fleiri munu leggja leið sína um svæðið vegna fyrirhugaðrar bensínstöðvar heldur en verið hefði ef svæðið væri áfram nýtt sem opið útivistarsvæði. Eignarnemi telur að gera megi ráð fyrir bílaþvottastöð og söluskála á lóðinni sem hvorutveggja fylgi aukin umferð. Þá telur eignarnámsþoli að bensínstöðinni og söluskála í tengslum við hana geti fylgt samkomustaður fyrir unglinga um helgar með viðeigandi hávaða, en á Akureyri hefur viðgengist að hafa verslanir á bensínstöðvum opnar til kl. 04:00 eftir miðnætti. Þá bendir eignarnámsþoli einnig á að bensínstöðvum fylgi gjarna ólykt auk þess sem rusl sé líklegt til að fjúka þaðan yfir á lóðir í nágrenninu þ.m.t. lóð hans.

Eignarnámsþoli bendir ennfremur á að með tilkomu bensínstöðvarinnar spillist útsýni úr húsum í nágrenninu verulega. Þá megi gera ráð fyrir ljósamengun vegna auglýsingaskilta sem ávallt fylgi bensínstöðvum. Þá telur eignarnámsþoli að fylla þurfi upp verulegt svæði til að ná grunnfleti lóðarinnar sléttum og í lágréttri línu miðað við Hlíðarbraut, en þetta komi til með að valda verulegu jarðraski og óprýði.

Eignarnámsþoli vísar þá til þess að útivistarsvæðið við Glerá minnki með tilkomu bensínstöðvarinnar en slíkt hafi óneitanlega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem búa í nærliggjandi hverfum.

Eignarnámsþoli telur að skipulagsbreytingin sem um er fjallað í máli þessu sé veruleg breyting þar sem það hljóti að teljast veruleg breyting á skipulagi að breyta útivistarsvæði í svæði fyrir verslun og þjónustu. Eignarnámsþoli telur að slíkar breytingar á skipulagi gefi vafasamt fordæmi. Eignarnámsþoli kveður skipulagsbreytinguna lýsa "hringlandahætti" í framkvæmd skipulagsins.

Eignarnámsþoli heldur því fram að atvinnurekstur eins og bensínsala, sem fylgi mikil umferð og tilheyrandi hávaði og mengun, hafi í för með sér neikvæð áhrif á sölumöguleika og verð íbúðarhúsnæðis á nágrenninu. Eignarnemi vísar í þessu sambandi til skýrslu Péturs Jósefssonar fasteignasala sem lögð hefur verið fram í málinu. Eiganrnámsþoli bendir á að sömu sjónarmið komi fram í matsgerð Tryggva Pálssonar fasteignasala sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Eignarnámsþoli telur með vísan til framanritaðs að sölumöguleikar fasteignarinnar Bakkahlíð 13 muni spillast verulega eftir að umrædd bensínsala verður reist. Eiganrnámsþoli telur ljóst að hyggist hann selja fasteign sína geti hann, vegna nálægðar við bensínstöðina, vænst þess að það muni taka mun lengri tíma og hann fái mun lægra verð fyrir hana en ella.

VI. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur svo sem kom fram í kafla III. hér að framan gengið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Þá hafa verið lögð fyrir nefndina gögn í tengslum við málið sem nefndin hefur kynnt sér ítarlega. M.a. hefur verið lögð fram greinargerð með aðalskipulagsbreytingu vegan fyrirhugaðrar bensínstöðvar á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar. Í greinargerðinni kemur m.a. eftirfarandi fram:

"Skipulagsbreytingin felur í sér að gert verður ráð fyrir 4.000 m² lóð fyrir bensínstöð á svæðinu. Jafnframt er breytt mörkum friðlands/útivistarsvæðis í samræmi við lóðarmörk hennar. Lögð verður áhersla að vandað verði til allra mannvirkja á lóðinni þar sem um er að ræða áberandi stað í nánd mikilvægra útivistarsvæða og gönguleiða. Við hönnun mannvirkja skal taka fullt tillit til umhverfissjónarmiða hvað varðar landformun, efnisval og útlit. Byggingar skýli og önnur hugsanleg mannvirki skulu vera vönduð og látlaus og þannig fyrir komið að falli vel að umhverfinu. Við litaval skal forðast æpandi liti eða litasamsetningar. Lóðin skal aðlöguð aðliggjandi landhæðum og skal hæðarmunur á lóðarmörkum leystur innan lóðarmarka. Gera skal ráð fyrir gróðurbelti meðfram öllum lóðarmörkum."

Við úrslausn máls þessa miðar matsnefndin við að farið verði að framangreindum skilyrðum við uppbyggingu lóðarinnar. Ekkert liggur fyrir um að nætursala verði á svæðinu.

Matsnefndinni þykir ljóst að umrædd lóð undir bensínstöð á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar komi til með að liggja við tvær af megin umferðaræðum Akureyrarbæjar í framtíðinni. Þá liggur fyrir að fyrirhuguð lega Borgarbrautar, m.a. meðfram lóð eignarnámsþola, hefur lengi legið fyrir og breytir skipulagsbreytingin nú engu þar um. Matsnefndin telur ljóst að íbúar Bakkahlíðar sem eiga lóð að Borgarbraut muni verða fyrir töluverðum óþægindum af umferð um Borgarbraut þegar hún verður fullgerð og umferð hleypt á hana. Hús eignarámsþola stendur auk þess að Hlíðarbraut að vestanverðu og kemur því til með að standa á horni tveggja mikilla umferðaræða á Akureyri. Nefndin telur að fyrirhuguð bensínstöð á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar komi ekki til með að hafa þá viðbótarbreytingu í för með sér fyrir útlit og umferð um svæðið, að það valdi verðrýrnun á fasteign eignarnámsþola.

Með vísan til framanritaðs er kröfu eignarnámsþola um bætur hafnað. Eiganrnemi skal með vísan til 11. gr. l. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms greiða eignarnámsþola kr. 90.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 226.325- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Við ákvörðun málskostnaðar í máli þessu hefur verið höfð hliðsjón af því að samhliða máli þessu var matsmálið nr. 4/1995 rekið fyrir matsnefndinni og þykir nefndinni sýnt að vinna við málin hefur nýst í meðferð þeirra beggja fyrir nefndinni, enda sami talsmaður eignarnámsþola í báðum málunum.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum eignarnámsþola um bætur er hafnað. Eignarnemi, Akureyrarbær, greiði eignarnámsþola, Birgi Steindórssyni, kt. 041040-3949, Bakkahlíð 13, Akureyri, kr. 90.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað vegna máls þessa. Þá greiði eiganrnemi kr. 226.325- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

____________________________________
Helgi Jóhannesson, formaður

______________________________      ______________________________
Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur         Stefán Tryggvason, bóndi

Mánudaginn 31. júlí 1995 var Í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms tekið fyrir matsmálið nr. 4/1995

Akureyrarbær
gegn
Eiríki Jónssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta;

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson, hdl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 2. júní 1995, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 23. júní 1995 fór Akureyrarbær, kt. 410169-6229, Geislagötu 9, Akureyri, þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að hún mæti hugsanlega verðrýrnun á fasteigninni Bakkahlíð 7, Akureyri, eign Eiríks Jónssonar, kt. 051045-4679, Bakkahlíð 7, Akureyri, vegna breytinga á aðalskipulagi Akureyrar þess efnis, að veita heimild fyrir byggingu bensínstöðvar á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar, en á þessu svæði hafði áður verið gert ráð fyrir útivistarsvæði. Matsbeiðandi, Akureyrarbær, vísar í matsbeiðni sinni til 29. gr., sbr. 19. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

Í úrskurði þessum nefnist Akureyrarbær eignarnemi, en Eiríkur Jónsson eignarnámsþoli, þrátt fyrir að um eiginlegt eignarnámsmál sé ekki að ræða, en aðilar lýstu því yfir við fyrstu fyrirtöku málsins að þeir væru sammála um að mál þetta væri rekið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 12. júní 1995. Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum og að því búnu var gengið á vettvang og aðstæður skoðaðar. Aðilar lýstu því yfir við fyrirtökuna að þeir sættu sig við skipan matsnefndarinnar í máli þessu og að þeir féllust á að mál þetta ætti undir Matsnefnd eignarnámsbóta. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. júlí 1995.

Föstudaginn 14. júlí 1995 var málið tekið fyrir. Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Þá lagði eignarnemi einnig fram gögn. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings til 21. júlí 1995.

Föstudaginn 21. júlí 1995 var málið tekið fyrir. Sættir voru reyndar án árangurs. Þá fór fram munnlegur flutningur málsins og var það að því búnu tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema kemur fram að með bréfi dags. 7. apríl 1993 hafi Olíuverslun Íslands hf. óskað eftir lóð undir bensínstöð á Akureyri, nánar tiltekið á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar. Niðurstaða viðræðna Olíufélags Íslands hf. og eignarnema varð sú að hefðbundin vinna fór fram af hálfu skipulagsstjórans á Akureyri með það að markmiði að fá fram afstöðu bæjaryfirvalda um hvort að lóð yrði veitt undir bensínstöð á fyrrgreindum stað. Hugmyndin kallaði á breytingu á aðalskipulagi og varð því að leita til Skipulags ríkisins, auglýsa fyrirhugaða breytingu og kalla eftir athugasemdum bæjarbúa og annara sem teldu sig hafa hagsmuna að gæta. Undirbúningsvinna þessi hefur nú öll farið fram og hefur eignarnámsþoli gert bótakröfu að fjárhæð kr. 3.000.000- á hendur eignarnema vegna framangreindra breytinga á aðalskipulagi Akureyrarbæjar.

Eignarnemi hafnar því alfarið að breyting á aðalskipulagi bæjarins á umræddri lóð valdi því að fasteign eignarnámsþola rýrni í verði. Eignarnemi telur engin gögn liggja fyrir sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að eignarnámsþoli verði fyrir tjóni af völdum skipulagsbreytingarinnar og gerir þá kröfu að eignarnámsþola verði ekki ákvarðaðar neinar bætur vegna hennar.

Eignarnemi bendir á að lóð sú sem til umræðu er sé í úðjaðri þess svæðis sem samkvæmt aðalskipulagi er skipulagt sem útivistarsvæði. Lóðin sé í raun mjög lítill hluti þess svæðis og liggi auk þess á mótum tveggja af aðal umferðaræðum Akureyrar, þ.e. Hlíðarbrautar og Borgarbrautar, en báðar þessar götur séu aðal tengibrautir milli norður- og suðurhluta bæjarins. Eignarnemi heldur því fram að lengi hafi legið ljóst fyrir að á þessu svæði gæti orðið um mjög mikla og þunga umferð að ræða.

Eignarnemi vísar því á bug að fyrirhuguð bensínstöð valdi auknum óþægindum vegna umferðar í nágrenninu þar sem fyrir hafi legið að þarna yrðu ein fjölförnustu gatnamót á Akureyri í framtíðinni og fyrirhuguð verslunar- og þjónustulóð hafi engin, eða a.m.k. hverfandi áhrif til aukningar í því sambandi. Þá bendir eignarnemi á að fjarlægðin frá lóðinni að húsi eignarnámsþola sé veruleg og að ekkert liggi fyrir um að heimild verði veitt fyrir nætursölu í umræddri bensínstöð.

Eignarnemi heldur því fram að fyrirhuguð bensínstöð muni hafa mjög óveruleg áhrif á útsýni eignarnámsþola, enda sé gert ráð fyrir lágreistum byggingum á lóðinni, ekki blokkum eða háhýsi. Þá sé einnig ljóst að gerðar verði strangar kröfur til frágangs á lóðinni. Þá bendir eignarnemi á að gert sé ráð fyrir trjágróðri í kringum fyrirhugaða bensínstöð sem valdi því að sjónmengun verði mjög óveruleg.

Þá vísar eignarnemi á bug þeirri staðhæfingu eignarnámsþola að umrædd breyting á aðalskipulagi bæjarins lýsi "hringlandahætti", þar sem aðalskipulagi sé fyrst og fremst ætlað að vera stefnumótun viðkomandi sveitafélags um landnotkun, gatnakerfi, þróun byggðar o.s.frv., en gert sé ráð fyrir því, t.d. í gr. 2.5. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, að skipulagið sé endurskoðað t.d. vegna nýrra sjónarmiða sem komi fram.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþoli gerir þær kröfur að honum verði ákvarðaðar bætur vegna þeirrar verðrýrnunar sem hann telur verða á fasteign sinni vegna skipulagsbreytinga á horni Borgarbrautar og Hlíðarbrautar. Þá er þess krafist að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 200.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað vegna máls þessa. Eignarnámsþoli byggir kröfu sína til bóta á 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964. Auk þess byggir eignarnámsþoli kröfu sína á almennum bótasjónarmiðum.

Eignarnámsþoli heldur því fram að fleiri munu leggja leið sína um svæðið vegna fyrirhugaðrar bensínstöðvar heldur en verið hefði ef svæðið væri áfram nýtt sem opið útivistarsvæði. Eignarnemi telur að gera megi ráð fyrir bílaþvottastöð og söluskála á lóðinni sem hvorutveggja fylgi aukin umferð. Þá telur eignarnámsþoli að bensínstöðinni og söluskála í tengslum við hana geti fylgt samkomustaður fyrir unglinga um helgar með viðeigandi hávaða, en á Akureyri hefur viðgengist að hafa verslanir á bensínstöðvum opnar til kl. 04:00 eftir miðnætti. Þá bendir eignarnámsþoli einnig á að bensínstöðvum fylgi gjarna ólykt auk þess sem rusl sé líklegt til að fjúka þaðan yfir á lóðir í nágrenninu þ.m.t. lóð hans.

Eignarnámsþoli bendir ennfremur á að með tilkomu bensínstöðvarinnar spillist útsýni úr húsum í nágrenninu verulega. Þá megi gera ráð fyrir ljósamengun vegna auglýsingaskilta sem ávallt fylgi bensínstöðvum. Þá telur eignarnámsþoli að fylla þurfi upp verulegt svæði til að ná grunnfleti lóðarinnar sléttum og í lágréttri línu miðað við Hlíðarbraut, en þetta komi til með að valda verulegu jarðraski og óprýði.

Eignarnámsþoli vísar þá til þess að útivistarsvæðið við Glerá minnki með tilkomu bensínstöðvarinnar en slíkt hafi óneitanlega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem búa í nærliggjandi hverfum.

Eignarnámsþoli telur að skipulagsbreytingin sem um er fjallað í máli þessu sé veruleg breyting þar sem það hljóti að teljast veruleg breyting á skipulagi að breyta útivistarsvæði í svæði fyrir verslun og þjónustu. Eignarnámsþoli telur að slíkar breytingar á skipulagi gefi vafasamt fordæmi. Eignarnámsþoli kveður skipulagsbreytinguna lýsa "hringlandahætti" í framkvæmd skipulagsins.

Eignarnámsþoli heldur því fram að atvinnurekstur eins og bensínsala, sem fylgi mikil umferð og tilheyrandi hávaði og mengun, hafi í för með sér neikvæð áhrif á sölumöguleika og verð íbúðarhúsnæðis á nágrenninu. Eignarnemi vísar í þessu sambandi til skýrslu Péturs Jósefssonar fasteignasala sem lögð hefur verið fram í málinu. Eiganrnámsþoli bendir á að sömu sjónarmið komi fram í yfirlýsingu Hermanns R. Jónssonar fasteignasala sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Eignarnámsþoli telur með vísan til framanritaðs að sölumöguleikar fasteignarinnar Bakkahlíð 7 muni spillast verulega eftir að umrædd bensínsala verður reist. Eiganrnámsþoli telur ljóst að hyggist hann selja fasteign sína geti hann, vegna nálægðar við bensínstöðina, vænst þess að það muni taka mun lengri tíma og hann fái mun lægra verð fyrir hana en ella.

VI. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur svo sem kom fram í kafla III. hér að framan gengið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Þá hafa verið lögð fyrir nefndina gögn í tengslum við málið sem nefndin hefur kynnt sér ítarlega. M.a. hefur verið lögð fram greinargerð með aðalskipulagsbreytingu vegan fyrirhugaðrar bensínstöðvar á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar. Í greinargerðinni kemur m.a. eftirfarandi fram:

"Skipulagsbreytingin felur í sér að gert verður ráð fyrir 4.000 m² lóð fyrir bensínstöð á svæðinu. Jafnframt er breytt mörkum friðlands/útivistarsvæðis í samræmi við lóðarmörk hennar. Lögð verður áhersla að vandað verði til allra mannvirkja á lóðinni þar sem um er að ræða áberandi stað í nánd mikilvægra útivistarsvæða og gönguleiða. Við hönnun mannvirkja skal taka fullt tillit til umhverfissjónarmiða hvað varðar landformun, efnisval og útlit. Byggingar skýli og önnur hugsanleg mannvirki skulu vera vönduð og látlaus og þannig fyrir komið að falli vel að umhverfinu. Við litaval skal forðast æpandi liti eða litasamsetningar. Lóðin skal aðlöguð aðliggjandi landhæðum og skal hæðarmunur á lóðarmörkum leystur innan lóðarmarka. Gera skal ráð fyrir gróðurbelti meðfram öllum lóðarmörkum."

Við úrslausn máls þessa miðar matsnefndin við að farið verði að framangreindum skilyrðum við uppbyggingu lóðarinnar. Ekkert liggur fyrir um að nætursala verði á svæðinu.

Matsnefndinni þykir ljóst að umrædd lóð undir bensínstöð á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar komi til með að liggja við tvær af megin umferðaræðum Akureyrarbæjar í framtíðinni. Þá liggur fyrir að fyrirhuguð lega Borgarbrautar, m.a. meðfram lóð eignarnámsþola, hefur lengi legið fyrir og breytir skipulagsbreytingin nú engu þar um. Matsnefndin telur ljóst að íbúar Bakkahlíðar sem eiga lóð að Borgarbraut muni verða fyrir töluverðum óþægindum af umferð um Borgarbraut þegar hún verður fullgerð og umferð hleypt á hana. Nefndin telur hins vegar að fyrirhuguð bensínstöð á horni Hlíðarbrautar og Borgarbrautar komi ekki til með að hafa þá viðbótarbreytingu í för með sér fyrir útlit og umferð um svæðið, að það valdi verðrýrnun á fasteign eignarnámsþola.

Með vísan til framanritaðs er kröfu eignarnámsþola um bætur hafnað. Eiganrnemi skal með vísan til 11. gr. l. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms greiða eignarnámsþola kr. 90.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 226.325- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Við ákvörðun málskostnaðar í máli þessu hefur verið höfð hliðsjón af því að samhliða máli þessu var matsmálið nr. 5/1995 rekið fyrir matsnefndinni og þykir nefndinni sýnt að vinna við málin hefur nýst í meðferð þeirra beggja fyrir nefndinni, enda sami talsmaður eignarnámsþola í báðum málunum.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum eignarnámsþola um bætur er hafnað. Eignarnemi, Akureyrarbær, greiði eignarnámsþola, Eiríki Jónssyni, kt. 051045-4679, Bakkahlíð 7, Akureyri, kr. 90.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað vegna máls þessa. Þá greiði eiganrnemi kr. 226.325- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

____________________________________
Helgi Jóhannesson, formaður

______________________________      ______________________________
Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur         Stefán Tryggvason, bóndi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum