Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 304/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 304/2017

Föstudaginn 8. september 2017

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. ágúst 2017, kærir A, ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að hafna greiðslu kostnaðar vegna mistaka starfsmanna sjóðsins.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi kveðst hafa óskað eftir veðlánaflutningi hjá Íbúðalánasjóði í tengslum við fasteignaviðskipti haustið 2016. Íbúðalánasjóður hafi samþykkt þá beiðni meðal annars með því skilyrði að veitt yrði bankaábyrgð. Kærandi hafi samið við Íslandsbanka um veitingu bankaábyrgðar og greitt ákveðna þóknun vegna ábyrgðar í 180 daga. Kærandi hafi átt að fá þóknunina endurgreidda hlutfallslega þegar veðflutningurinn væri um garð genginn. Kærandi tekur fram að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafi gert ákveðin mistök sem hafi leitt til þess að bankaábyrgðin hafi verið virk 129 dögum lengur en verið hefði ef engin mistök hefðu átt sér stað. Kærandi hafi því greitt hærri þóknun og farið fram á að Íbúðalánasjóður endurgreiddi þann kostnað sem sannarlega hlaust af þeim mistökum. Kærandi krefst þess að synjun Íbúðalánasjóðs á greiðslu kostnaðar vegna mistaka sjóðsins verði snúið við og sjóðnum gert að bæta umrætt tjón.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál getur málsaðili skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem hefur verið falið verkefni húsnæðisnefndar, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þær ákvarðanir stjórnvalda sem ekki eru teknar í skjóli stjórnsýsluvalds, til dæmis þær sem eru einkaréttarlegs eðlis, teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir.

Að mati úrskurðarnefndarinnar varðar mál kæranda ekki Íbúðalánasjóð sem stjórnvald. Að því virtu verður ekki séð að sjóðurinn hafi tekið stjórnvaldsákvörðun sem er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum