Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20heilbrig%C3%B0isr%C3%A1%C3%B0uneytis

Úrskurður nr. 11/2019

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 11/2019

Föstudaginn 18. október 2019 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með tölvubréfi, mótt. 9. apríl 2019, kærði A, hér eftir nefndur kærandi, synjun landlæknis frá 2. apríl 2019 um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi.

I. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. apríl 2019, var óskað eftir umsögn Embættis landlæknis um kæruna og öllum gögnum varðandi málið. Með erindi embættisins, dags. 2. maí 2019, var óskað eftir fresti til að skila umsögn og var hann veittur til 31. maí 2019. Kærandi var upplýstur um frestinn með bréfi, dags. 9. maí 2019. Hinn 16. maí 2019 barst umsögn embættisins, dags. 10. maí 2019, ásamt gögnum málsins og voru þau gögn send kæranda til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 17. maí 2019. Hinn 24. maí 2019 bárust athugasemdir með tölvupósti frá kæranda sem voru sendar embættinu til kynningar með bréfi ráðuneytisins sama dag. Með tölvupósti 29. maí 2019 tilkynnti embættið að það myndi ekki koma á framfæri frekari athugasemdum. Loks var kæranda tilkynnt með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. júlí 2019, að fyrirsjáanlegar væru tafir á afgreiðslu máls hans.

Hinn 26. ágúst 2019 sendi kærandi viðauka við athugasemdir sínar í málinu og var viðaukinn sendur embættinu til kynningar. Með tölvupósti 11. september 2019 óskaði ráðuneytið eftir frekari gögnum sem bárust 18. september 2019 og voru þau framsend kæranda sama dag.

Með tölvupóstum kæranda, dags. 13. ágúst, 4. september, 1. október og 11. október 2019, óskaði hann eftir upplýsingum um stöðu málsins og var honum svarað samdægurs.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi er hjúkrunarfræðingur að mennt frá X, ríki utan Evrópu. Hann hefur búið á Íslandi síðan í september 2016 og lært íslenskt mál og menningu.

Kærandi kveðst hafa starfað sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi frá 1. júní 2017 á b-deild Z þar sem hann tók lífsýni úr mönnum fyrir ýmsar rannsóknir. Starfið náði meðal annars til töku blóðsýna úr sjúklingum sem voru í reglulegri athugun og alvarlega veikum. Stundum sinnti hann sjúklingum sem fóru í bráðalost eða hjartastopp, og eru til skrár um það á deildinni.

Þegar reynsluárinu lauk sótti kærandi um endurnýjun á tímabundnu starfsleyfi og hafi að mati kæranda tekið óeðlilega langan tíma að fá svör. Kærandi kveðst aldrei hafa fengið ástæður fyrir töfinni, þrátt fyrir fjölda símtala og tölvupósta. Að endingu fékk kærandi starfsleyfi til þriggja mánaða. Þegar kærandi hafi spurst fyrir um af hverju hann fengi þriggja mánaða leyfi hafi honum verið sagt að sækja um á ný að þeim loknum. Hann hafi spurt á ný um ástæðu þess en aldrei fengið svör.

Að þessum þremur mánuðum liðnum hafi kærandi sótt um starfsleyfi á ný. Að þessu sinni voru meiri tafir og enn meiri þögn þegar hann spurðist fyrir um stöðu málsins. Telur kærandi að embættið sé í störfum sínum ógagnsætt og fari í manngreinarálit. Eftir margar ítrekanir fékk kærandi að lokum svör og hafi honum verið sagt að hann hefði átt að starfa á deild sem hjúkrunarfræðingur en ekki sem starfsmaður á b-deild. Kærandi hafi þá spurt í fyrsta lagi af hverju honum hafi ekki verið sagt frá þessu fyrr en að loknu einu ári og þremur mánuðum, en embættið hafi greinilega verið meðvitað um það hvar hann vann. Honum hafi ekki verið svarað. Í öðru lagi spurði kærandi af hverju aðrir hjúkrunarfræðingar væru að vinna á b-deild og af hverju honum væri ekki heimilt að gera slíkt hið sama. Þeirri spurningu hafi heldur ekki verið svarað. Kærandi hafi jafnframt ýtt undir sjónarmið sín með þeirri staðreynd að starf hjúkrunarfræðinga sé ekki einskorðað við það að vinna á deild heldur einnig til dæmis í flugvélum, apótekum, á rannsóknarstofum, í blóðbönkum, á tæknideildum og mörgum öðrum stöðum. Þeirri spurningu hafi heldur ekki verið svarað. Loks greinir kærandi frá því að hefði hann vitað að þetta væri reglan hefði hann byrjað fyrir löngu síðan á einhverri tiltekinni deild og klárlega innan þessa eins árs og þriggja mánaða tímabils sem hann var með starfsleyfi.

Vegna þessa uppnáms í tengslum við starfsleyfið missti kærandi af sumarleyfi sínu þar sem dvalarleyfi hans hafði runnið út. Að lokum var kæranda veitt sex mánaða starfsleyfi. Kærandi nýtti tímabilið frá október til 14. desember til að sækja um og starfa hjá d-deild en kláraði ekki að fullu reynslutímann. Kærandi þurfti að taka sér leyfi vegna þess að hann var bæði undir líkamlegu og tilfinningalegu álagi. Kærandi kom aðeins aftur til starfa til að segja að hann gæti ekki haldið áfram að vinna þar lengur.

Kærandi sótti um starf á c-deild Z áður en tímabundið starfsleyfi hans rann út.

Þegar kærandi sótti um endurnýjun á starfsleyfinu hafi embættið synjað umsókninni og byggt þá synjun að mestu leyti á ástæðu sem hafi verið að rekja til frammistöðu kæranda á d-deild Z. Kærandi telur það rangt að sá stutti tími sem hann starfaði á d-deildinni, um það bil tvo mánuði og 14 daga, sé notaður til að leggja mat á þann tíma sem hann hafði starfsleyfi, sem var samtals eitt ár og 9 mánuðir. Kærandi heldur því fram að ef honum hefði verið tjáð í upphafi að ófullnægjandi væri að hann starfaði sem hjúkrunarfræðingur á b-deild Z hefði hann leitað að þeirri deild sem hefði passað fyrir hann strax í upphafi. D-deildin er sérhæfð og krefjandi deild sem geti reynst mjög vandasamt að passa inn í þegar viðkomandi umönnunaraðili á deildinni sé á sama tíma á barmi taugaáfalls. Kærandi telur þessa meðferð á sér vera rangláta og fela í sér mismunun.

Kærandi bendir á að hann hafi fengið staðfestingu á menntun sinni frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands enda uppfyllir hjúkrunarfræðinámskrá X þá staðla sem gilda í Bretlandi og Evrópu.

Kærandi telur að það fyrirkomulag að útgáfa og endurnýjun á starfsleyfi hjúkrunarfræðings sé byggt að öllu leyti á stuðningsyfirlýsingum og meðmælum sé ekki 100% hlutlægt og huglægt. Kærandi krefst því endurskoðunar á ákvörðun embættisins.

III. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn Embættis landlæknis, dags. 10. maí 2019, er reifuð meðferð þessa máls þar sem kærandi sótti um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur með umsóknum, dags. 31. október 2016, 5. apríl 2018, 13. ágúst 2018 og 26. febrúar 2019.

Umsókn kæranda var send hjúkrunarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands 2. mars 2017 til umsagnar líkt og embættinu er skylt að gera, sbr. 4. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, nr. 512/2013, áður en starfsleyfi er veitt á grundvelli menntunar utan Íslands skv. 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, og barst embættinu umsögn 19. apríl 2017. Umsagnaraðili hafi talið í niðurstöðu sinni að kærandi uppfyllti skilyrði þess að fá íslenskt hjúkrunarleyfi, að undanskilinni staðfestingu á íslenskukunnáttu, en án hennar gæti kærandi ekki fengið íslenskt hjúkrunarleyfi. Kærandi hafi skilað inn viðbótargögnum 28. apríl 2017 sem hafi verið námsferilsyfirlit frá Háskóla Íslands um grunndiplómu í íslensku sem annað mál, hagnýtt nám.

Í kjölfar framangreindrar umsagnar hafi kæranda í þrígang verið veitt tímabundið hjúkrunarleyfi fyrir tiltekin tímabil, fyrst 4. maí 2017–4. maí 2018, svo 11. júní 2018–11. september 2018 og að lokum 4. september 2018–4. mars 2019. Fram kemur af hálfu Embættis landlæknis að markmiðið með því að veita kæranda tímabundin leyfi hafi verið að leiða í ljós hvort hann gæti í starfi sýnt fram á að hann hefði hæfni og getu til að sinna sjúklingum svo að öryggi þeirra væri tryggt. Umsagnir frá vinnuveitendum kæranda hafi ekki staðfest það með óyggjandi hætti.

Embætti landlæknis hafi með ákvörðun sinni, dags. 2. apríl 2019, synjað umsókn kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur.

Fjallað sé um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis hjúkrunarfræðings í 3. gr. reglugerðar nr. 512/2013 þar sem fram kemur að veita megi starfsleyfi þeim sem lokið hafa BS-prófi í hjúkrunarfræði frá hjúkrunarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands eða heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Þá komi fram í 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að heimilt sé að veita starfsleyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

Í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 34/2012 sé kveðið á um heimild landlæknis til útgáfu tímabundins starfsleyfis til heilbrigðisstarfsmanna með erlent próf eða nám frá ríki þar sem ekki er í gildi samningur um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina. Ekki sé í gildi slíkur samningur milli Íslands og X, ríkis utan Evrópu. Þá kemur fram í 4. mgr. 11. gr. sömu laga að handhafi tímabundins starfsleyfis skuli starfa undir stjórn og eftirliti heilbrigðisstarfsmanns sem hefur ótímabundið starfsleyfi í viðkomandi grein heilbrigðisfræða.

Embætti landlæknis vísar til þess að í 8. gr. reglugerðar nr. 512/2013 komi fram ákveðnar faglegar kröfur og ábyrgð sem lögð sé á hjúkrunarfræðinga og að embættið taki meðal annars mið af þessu ákvæði þegar metin sé hæfni og geta hjúkrunarfræðings þegar tímabundið starfsleyfi rennur út og tekin sé ákvörðun um það hvort veita eigi viðkomandi áframhaldandi leyfi til að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Við slíkt mat séu umsagnir vinnuveitanda lagðar til grundvallar.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 2. apríl 2019, rakti embættið umsagnir sem bárust frá vinnuveitendum kæranda. Í umsögn frá deildarstjóra á C hafi komið fram að kærandi hafi ekki haft grunnþekkingu sem hjúkrunarfræðingur á þeim tíma sem hann var starfandi þar og að hann hafi ekki náð að sinna starfinu sem skyldi. Tekið var fram að hann hafi verið ráðinn sem starfsmaður, en hann hafi ekki haft hjúkrunarleyfi á þeim tíma.

Í umsögn deildarstjóra við Z hafi komið fram að kærandi hafi sýnt mikla færni og hæfni við sýnatökur og leitað væri til hans ef illa gengi að taka sýni. Hann var sagður fróðleiksfús, tilbúinn að læra og mjög vinnusamur. Hann var einnig sagður rólyndur og að hann sýndi sjúklingum og samstarfsfólki kurteisi og væri vel liðinn af þeim.

Í umsögn frá d-deild Z hafi komið fram að hann hafi sinnt sjúklingum af alúð og sýnt samstarfsfólki kurteisi. Hann hafi verið ráðinn samkvæmt starfslýsingu hjúkrunarfræðings B og hafi átt að setja fram hjúkrunaráætlun, skipuleggja, veita og skrá hjúkrun og bera ábyrgð á þeirri hjúkrun sem hann veitti. Jafnframt hafi komið fram í umsögninni að hann hafi ekki virst ná nægilega góðum tökum á þeim vinnubrögðum sem óskað var eftir að hann tileinkaði sér á deildinni, en starfsemi deildarinnar væri viðkvæm og krefðist mikillar nákvæmni, ábyrgðartilfinningar og árvekni í starfi. Þá var aðlögunartími kæranda ekki talinn vera í samræmi við aðra nýráðna hjúkrunarfræðinga og að hann hafi ekki áunnið sér traust til að sinna starfinu sjálfstætt samkvæmt starfslýsingu.

Að sögn Embættis landlæknis bentu umsagnirnar til þess að kærandi hafi ekki náð að sýna fram á hæfni sína og getu til að sinna hjúkrunarstörfum en hann hafi náð tökum á ákveðnum verkum eins og til dæmis blóðsýnatökum. Almennt hafi komið fram í umsögnum að íslenska væri góð hjá kæranda nema þegar kæmi að flóknari samskiptum við samstarfsfólk.

Í hinni kærðu ákvörðun rakti embættið ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 512/2013 og taldi með vísan til 2. og 4. mgr. og alls framangreinds að kærandi uppfyllti ekki skilyrði þess að hljóta starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur og synjaði umsókn hans.

IV. Athugasemdir kæranda

Í athugasemdum kæranda frá 24. maí 2019 við umsögn Embættis landlæknis vísar hann til þess að embættið hafi sagt að fyrsta starfsleyfi sé veitt til eins árs og litið sé á það sem reynslutíma. Í kjölfar þess sé mögulegt að gefa út starfsleyfi til lengri tíma, jafnvel ótímabundið. Kærandi telur vandamálið vera það að hann hafi starfað við blóðsýnatöku frá því hann fékk fyrsta tímabundna starfsleyfið, og að embættið og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hafi haft vitneskju um það, en kærandi hafi ekki verið upplýstur um að hann hefði starfað á röngum stað fyrr en kom að endurnýjun starfsleyfisins, eftir að hafa haft það í þrjá mánuði.

Að lokum hafi kærandi fengið sex mánaða starfsleyfi til að réttlæta veru sína á deildinni, sem hann hafi samþykkt að gera.

Kærandi hafi þurft að gefa eftir sitt árlega orlof til að halda áfram störfum, en raunin hafi verið sú að hann hafi verið uppgefinn bæði andlega og líkamlega vegna starfsleyfismálsins og yfir því að hafa þurft að sleppa orlofinu. Eftir að hafa starfað á deildinni í einn mánuð og 14 daga hafi kærandi ákveðið að taka árlega orlofið sitt þar sem hann hafi ekki verið sáttur við fylgikvilla líkamlegs og andlegs álags sem hafi haft áhrif á gæði vinnu hans. Eftir að orlofinu lauk hafi kærandi ekki getað starfað áfram á d-deild og hafi því hafið störf á c-deild þar til tímabundna starfsleyfið rann úr gildi.

Kærandi telur ósanngjarnt að Embætti landlæknis hafi byggt mat á hæfni hans einvörðungu á reynslutíma hans, sem var einn og hálfur mánuður, sem litaðist af fylgikvillum streitu. Hann hefði haft góð meðmæli frá c-deild, þrátt fyrir að hafa aðeins starfað þar í minna en mánuð.

Kærandi óskar þess að endurmat fari fram á umsókn hans og að honum verði veitt sama tækifæri og öðrum erlendum hjúkrunarfræðingum til að starfa á deildinni með ársstarfsleyfi á meðan hann hafi, fyrir eigin mistök, unnið frekar á b-deild. Kærandi telur að ef þetta hefði verið leiðrétt fyrr hefði hann ekki lent í þessari stöðu. Kærandi kveðst tilbúinn að undirgangast fagleg hæfnispróf, bæði verkleg og fræðileg, til að leggja mat á hæfni hans.

Kærandi telur að hann hafi aðeins fengið samtals einn mánuð og 14 daga til að sanna hæfni sína sem hjúkrunarfræðingur, í stað eins árs.

V. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að ákvörðun Embættis landlæknis frá 2. apríl 2019 um að synja kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Kærandi fer fram á að ráðuneytið snúi við ákvörðun embættisins og að lagt verði fyrir embættið að veita sér starfsleyfi. Embættið telur að kærandi uppfylli ekki skilyrði þess að geta fengið starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi.

Í 5. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til heilbrigðisstarfsmanna. Á grundvelli ákvæðisins hafa verið settar reglugerðir um hvaða skilyrði umsækjandi þarf að uppfylla til að hljóta starfsleyfi. Um hjúkrunarfræðinga gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, nr. 512/2013, með síðari breytingum.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis skv. 2. gr. hennar að umsækjandi verður að hafa lokið BS-prófi í hjúkrunarfræði, annaðhvort frá hjúkrunarfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands eða heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri. Í 3. mgr. 3. gr. er kveðið á um heimild til þess að veita umsækjendum starfsleyfi sem hafa lokið sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES-svæðisins eða Sviss að því tilskildu að stofnunin sé viðurkennd sem slík, þ.e. að stofnunin sé viðurkennd bæði af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og þess ríkis þar sem námið var stundað. Í 4. mgr. 3. gr. er vísað til 12. gr. reglugerðarinnar um frekari skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Kærandi hefur menntun frá X, ríki utan Evrópu og fyrir liggur að ekki er í gildi gagnkvæm viðurkenning á faglegri menntun og hæfi milli Íslands og X, sbr. 3. mgr. 3. gr., og því verður að líta til skilyrða 12. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 512/2013 er áskilið að umsækjandi sem kemur frá ríki utan EES og Sviss og sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, skuli leggja fram tiltekin gögn um sig, menntun sína og önnur gögn sem landlæknir telur að séu nauðsynleg vegna útgáfu starfsleyfis. Í 3. mgr. er heimilað að gera þá kröfu að umsækjandi hafi kunnáttu í íslensku og þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf og annarri löggjöf sem nauðsynlegt er að kunna skil á við störf sem hjúkrunarfræðingur, í því skyni að stuðla að öryggi og samskiptum við sjúklinga. Ef ekki hefur verið sýnt fram á að nám umsækjanda uppfylli kröfur skv. 1. mgr. 3. gr., að mati landlæknis og með tilliti til starfsreynslu, hefur landlæknir heimild til að krefjast þess að umsækjandi taki sérstakt próf, sem skipulagt er af viðeigandi menntastofnun í samráði við landlækni, til að sýna fram á að viðkomandi búi yfir nauðsynlegri faglegri þekkingu og hæfni sem krafist er af hjúkrunarfræðingi, sbr. 4. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar.

Í umsögn hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands um umsókn kæranda, dags. 19. apríl 2017, kom fram, líkt og fyrr greinir, að kærandi hafi uppfyllt skilyrði þess að fá starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi, að því undanskildu að staðfesting lá ekki fyrir á íslenskukunnáttu og án þess gæti hann ekki fengið íslenskt hjúkrunarleyfi. Fyrir liggja gögn sem varpa ljósi á íslenskukunnáttu kæranda. Annars vegar brautskráningarskírteini kæranda, dags. 24. júní 2017, um að hann hafi lokið grunndiplómu í íslensku sem annað mál, hagnýtt nám frá Háskóla Íslands, og hins vegar viðurkenningarskjal þar sem staðfest er að kærandi hafi vorið 2018 lokið sérstöku námskeiði í íslensku sem haldið hafi verið fyrir Z og verið hluti af Íslenskuskóla Z. Efni þess hafi verið byggt á daglegum og starfstengdum orðaforða. Bæði skjölin bera með sér að Embætti landlæknis hafi fengið þau afhent 21. ágúst 2018 og hafi því legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Ráðuneytið telur að með þessum gögnum hafi kærandi lagt fram sönnun á íslenskukunnáttu sinni, en ekki verður ráðið að embættið hafi lagt sérstakt mat á þau og hvort að með þeim hafi kærandi lagt fram fullnægjandi staðfestingu á íslenskukunnáttu sinni.

Í hinni kærðu ákvörðun rakti Embætti landlæknis 8. gr. reglugerðar nr. 512/2013, sem mælir fyrir um faglegar kröfur og skyldur hjúkrunarfræðinga, og byggði svo niðurstöðu sína meðal annars á því að kærandi uppfyllti ekki ákvæði þeirrar greinar og geti því ekki fengið starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi.

Embættið vísaði til þess í umsögn sinni að við mat á hæfni og getu hjúkrunarfræðings, þegar tímabundið starfsleyfi viðkomandi rennur út og tekin er ákvörðun um hvort veita eigi viðkomandi áframhaldandi starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur, taki embættið meðal annars mið af 8. gr. fyrrgreindrar reglugerðar og leggi umsagnir vinnuveitanda til grundvallar slíku mati. Embættið taldi að umsagnir þær sem vinnuveitendur kæranda hefðu veitt bentu til þess að kærandi hefði síður náð að sýna fram á hæfni sína og getu til að sinna hjúkrunarstörfum en hann hefði náð tökum á ákveðnum verkum eins og til dæmis blóðsýnatökum. Almennt hafi komið fram í umsögnum að íslenska væri góð hjá kæranda nema þegar kæmi að flóknari samskiptum við samstarfsfólk.

Hvorki er vísað til 8. gr. reglugerðarinnar í 3. gr. né 12. gr. hennar og af því leiðir að ekki er heimilt að byggja synjun á umsókn um starfsleyfi á ákvæðinu, enda mælir ákvæðið aðeins fyrir um almennar starfsskyldur hjúkrunarfræðings en ekki skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur. Heimilt er að gera þá kröfu til kæranda að hann hafi kunnáttu í íslensku, sbr. 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar, líkt og fyrr greinir, en ekki verður ráðið af hinni kærðu ákvörðun að sérstakt mat hafi verið lagt á þau gögn sem kærandi lagði fram til að sýna fram á íslenskukunnáttu sína, en mikilvægi þessa er undirstrikað í ljósi þess að skortur á staðfestingu á íslenskukunnáttu var það eina sem stóð í vegi fyrir því að hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hefði komist að þeirri niðurstöðu í umsögn sinni að kærandi uppfyllti skilyrði þess að fá starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Þá er einnig heimilt, líkt og fyrr greinir, að leggja fyrir tiltekna umsækjendur um starfsleyfi próf sem sýni fram á að þeir búi yfir faglegri þekkingu og hæfni sem krafist er af hjúkrunarfræðingi, ef embættið telur að nám viðkomandi uppfylli ekki kröfur skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Verður af framangreindum sökum að ógilda hina kærðu ákvörðun þar sem hún byggir á röngum grundvelli og vísa til nýrrar málsmeðferðar hjá embættinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Embættis landlæknis frá 2. apríl 2019, um að synja kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur, er felld úr gildi og vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá Embætti landlæknis að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna og þeirra sjónarmiða sem koma fram hér að framan.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum