Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

899/2020. Úrskurður frá 20. maí 2020

Úrskurður

Hinn 20. maí 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 899/2020 í máli ÚNU 19120010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 14. desember 2019, kærði A f.h. Stapa ehf., afgreiðslu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að gögnum.

Með erindi, dags. 15. nóvember 2019, óskaði kærandi eftir upplýsingum um fjölda leyfa sem ráðuneytið og undirstofnanir þess hefðu veitt starfsmönnum sínum til stofnunar einkafyrirtækja frá árinu 1989. Jafnframt óskaði kærandi eftir afritum af slíkum leyfum ásamt leyfum starfsmanna til að gegna aukastörfum eða einstökum verkefnum á sama tímabili. Vísaði kærandi um þetta til 20. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að lokum óskaði kærandi upplýsinga um heimildir tiltekins starfsmanns Vegagerðarinnar til að starfa fyrir nokkur nafngreind fyrirtæki á tilteknu tímabili.

Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 22. nóvember 2019, segir að samkvæmt 7. gr. upplýsingalaga taki réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfi hjá aðilum sem lögin taki til ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Ráðuneytið telji umbeðin gögn varða starfssamband starfsmanna hjá aðilum sem falli undir lögin. Að auki séu gögn er varði aukastörf starfsmanna undirstofnana ráðuneytisins almennt ekki varðveitt í skjalasafni ráðuneytisins og af þeirri ástæðu sé ekki unnt að afhenda þau.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar segir kærandi að ósamræmi sé á milli framangreinds svars samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og fyrra svars þess, dags. 20. desember 2016, sem veitt var í tilefni af eldri fyrirspurn. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér sjónarmið kæranda um þetta en telur ekki tilefni til að rekja efni þeirra nánar í úrskurðinum.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu með bréfi, dags. 16. desember 2019, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 19. desember 2019, kemur fram að gögn er varði aukastörf starfsmanna undirstofnana ráðuneytisins sé almennt ekki að finna í skjalasafni ráðuneytisins. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að verða við beiðni um afhendingu slíkra gagna. Hins vegar sé rétt að benda kæranda á að beina megi fyrirspurn hvað þetta varði til hverrar stofnunar fyrir sig.

Hvað varði beiðni um gögn er varði aukastörf starfsmanna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vísar ráðuneytið til þess að beiðni kæranda sé mjög umfangsmikil og nái yfir langt tímabil. Samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga sé heimilt að hafna beiðni um afhendingu gagna ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni. Ráðuneytið telur beiðni kæranda falla undir ákvæðið hvað varði gögn vegna aukastarfa starfsmanna ráðuneytisins og því sé ekki unnt að verða við henni. Í bréfi ráðuneytisins til kæranda hafi láðst að geta um framangreindar forsendur hvað þetta varði og biðjist ráðuneytið velvirðingar á því.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 6. janúar 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 8. janúar 2020, segir að umsögn ráðuneytisins valdi vonbrigðum, kærandi hafi vonast til þess að ráðuneytið myndi leggja fram gögn fyrri staðhæfingum sínum til stuðnings varðandi það að nafngreindir starfsmenn hefðu haft leyfi Siglingastofnunar til þess að stofna tiltekið fyrirtæki og að lögð yrðu fram gögn sem staðfestu það að eigendur fyrirtækisins hefðu haft tilskilin leyfi til að vinna í einstökum verkefnum á vegum fyrirtækis síns, meðfram starfi sínu hjá opinberum stofnunum, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 og sambærilegt ákvæði í eldri útgáfu laga nr. 38/1954.

Varðandi þá ábendingu ráðuneytisins að beina megi fyrirspurn hvað þetta varðar til hverrar stofnunar fyrir sig segist kærandi vera búinn að reyna þá leið gagnvart Vegagerðinni. Það hafi verið neyðarúrræði að leita með málið til ráðuneytisins. Það sé skilningur kæranda að markmið upplýsingalaga nr. 140/2012 sé að tryggja það að almenningur hafi betri og skilvirkari aðgang að upplýsingum, sem liggi fyrir í stjórnsýslunni, hjá ráðuneytum og undirstofnunum þeirra, fremur en að þau séu tæki til handa stjórnsýslunni að skorast undan upplýsingagjöf. Og þar sem Vegagerðin heyri undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, en ekki öfugt, hafi kæranda þótt rétt að leita til ráðuneytisins með þau mál sem Vegagerðin hafi ekki talið sig geta veitt upplýsingar um, enda hafi ráðuneytið fellt hafnasvið Siglingastofnunar undir Vegagerðina árið 2013 og hefði það átt að tryggja að gögn Siglingastofnunar skiluðu sér til Vegagerðarinnar eða tryggja vörslu þeirra að öðru leyti.

Fram kemur að kærandi hafi upplýsingar um aukastörf tiltekinna starfsmanna. Hafi ráðuneytið ekki veitt þeim starfsmönnum leyfi til að starfrækja eigin atvinnurekstur á sama tíma og þeir gegndu störfum hjá ráðuneytinu og undirstofnunum, hljóti þeir að hafa gert það í leyfisleysi. Það geti tæplega hafa samræmst lögum nr. 70/1996 og eldri lögum nr. 38/1954. Til að auðvelda ráðuneytinu gagnaleitina, þá þrengi kærandi fyrirspurn sína til ráðuneytisins að fjórum tilteknum starfsmönnum og tveimur fyrirtækjum í þeirra eigu og hvort þessir aðilar hafi haft umrædd leyfi frá vinnuveitendum sínum.

Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er í fyrsta lagi deilt um rétt kæranda til upplýsinga um fjölda leyfa sem starfsmönnum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og undirstofnana þess voru veitt til til að stofna einkafyrirtæki á árunum 1989 til 2019. Í öðru lagi um rétt hans til þess að fá afrit af fyrrnefndum leyfum ásamt afritum af leyfum starfsmanna til aukastarfa eða einstakra verkefna. Í þriðja lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um heimildir tiltekins starfsmanns til að starfa fyrir einkafyrirtæki.

Sem fyrr greinir óskaði kærandi eftir upplýsingum um leyfi starfsmanna undirstofnana samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til að stofna einkafyrirtæki eða sinna aukastörfum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kvaðst, í bréfi til kæranda, dags. 22. nóvember 2019, og í umsögn til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 18. desember 2019, ekki hafa undir höndum gögn varðandi starfsmenn undirstofnana eða leyfi þeirra fyrir aukastörfum. Ráðuneytið benti kæranda þess í stað á að leita til undirstofnananna sjálfra varðandi þessar upplýsingar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar ráðuneytisins að gögn er varði starfsmenn undirstofnana séu ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða. Er þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

2.

Í beiðni sinni óskaði kærandi einnig eftir afritum af leyfum starfsmanna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til að stofna einkafyrirtæki eða sinna aukastörfum. Í hinni kærðu ákvörðun ráðuneytisins, dags. 22. nóvember 2019, er byggt á því að umbeðin gögn varði málefni starfsmanna, sem undanþegin séu upplýsingarétti almennings á grundvelli 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er þeim sem falla undir lögin skylt að veita almenningi, sé þess óskað, aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr laganna.

Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:

„Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.“

Í athugasemdum við ákvæði 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur meðal annars eftirfarandi:

„Ákvæði 7. gr. frumvarpsins er þannig upp byggt að í 1. mgr. er lögð til sú meginregla að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki almennt ekki til upplýsinga um þau málefni starfsmanna þeirra aðila sem falla undir ákvæði frumvarpsins, sbr. 2. gr., sem lúta að umsóknum um störf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. eru síðan ákveðnar og skýrt afmarkaðar undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna stjórnvalda, í 3. mgr. er heimild vegna upplýsinga um viðurlög sem æðstu stjórnendur hafa sætt, en í 4. mgr. eru undanþágur frá þessari reglu vegna starfsmanna einkaréttarlegra lögaðila í opinberri eigu, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Með þessu móti er fært að taka skýra afstöðu til þess hvaða upplýsingar um málefni starfsmanna lúti ákvæðum upplýsingalaga um aðgangsrétt og hverjar ekki.“

Í athugasemdum við 1. mgr. 7. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir eftirfarandi um orðasambandið „starfssambandið að öðru leyti“:

„Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum. Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að heimild til að veita aðgang að upplýsingum í slíkum málum taki einvörðungu til æðstu stjórnenda.“

Af framangreindu er ljóst að upplýsingar um ákvarðanir um leyfi einstakra starfsmanna til þess að gegna aukastörfum verða felldar undir orðasambandið „starfssambandið að öðru leyti“ í 7. gr. upplýsingalaga og eru gögn með slíkum upplýsingum þar með undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 4. tölul. 6. gr., sbr. 7. gr. upplýsingalaga. Hið sama á við um upplýsingar í málum varðandi heimildir starfsmanns til að ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996. Ráðuneytinu var því heimilt að synja beiðni kæranda um gögn er varða leyfi starfsmanna ráðuneytisins þess til að gegna aukastörfum og til að stofna einkafyrirtæki.

3.

Í beiðni til ráðuneytisins óskaði kærandi einnig eftir upplýsingum um fjölda leyfa sem starfsmönnum ráðuneytisins hafi verið veitt til þess að stofna einkafyrirtæki á árunum 1989 til 2019 og til þess að sinna aukastörfum eða einstökum verkefnum. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að slík samantekt, sé hana að finna í gögnum ráðuneytisins, verði ekki felld undir undanþáguákvæði 7. gr. upplýsingalaga enda veiti hún ekki upplýsingar um ákvarðanir í málum nafngreindra starfsmanna.

Hvorki í hinni kærðu ákvörðun né í umsögn ráðuneytisins er því haldið fram að slíkar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi í gögnum ráðuneytisins né er það rökstutt að öðru leyti af hverju ráðuneytinu sé ekki unnt að verða við þessum þætti í beiðni kæranda. Í umsögn ráðuneytisins er eingöngu vísað til þess með almennum hætti að afgreiðsla á beiðni kæranda taki svo mikinn tíma eða krefjist svo mikillar vinnu að ekki teljist af þeim sökum fært að verða við henni, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.

Ekki verður séð að ráðuneytið hafi tekið rökstudda afstöðu til þess hluta beiðni kæranda er laut að upplýsingum um fjölda leyfa, sem starfsmönnum hafa verið veitt, til þess að stofna einkafyrirtæki. Í þessu sambandi má t.d. benda á úrskurði nefndarinnar í málum 867/2020, 835/2019 og 745/2018. Því er það mat úrskurðarnefndarinnar að eins og atvikum er háttað í þessu máli hafi beiðni kæranda ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem nefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um að synja beiðni A, f.h. Stapa ehf., um afrit af leyfum starfsmanna ráðuneytisins til að stofna einkafyrirtæki og til að gegna aukastörfum.

Beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um fjölda veittra leyfa starfsmanna til þess að stofna einkafyrirtæki sl. 30 ár er vísað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Beiðni kæranda hvað varðar leyfi starfsmanna undirstofnana ráðuneytisins til að gegna aukastörfum eða stofna einkafyrirtæki er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

Sigríður Árnadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum