Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 20. júlí 1994

Ár 1994, mánudaginn 20. júní, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 1/1993

Vegagerð ríkisins
gegn
Pétri Guðmundssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Úrskurð þennan kveða upp Helgi Jóhannesson hdl., formaður Matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt matsnefndarmönnunum Ragnari Ingimarssyni, verkfræðingi og Kristni Gylfa Jónssyni, viðskiptafræðingi og bónda, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. 2. mgr. 2. gr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni sem lögð var fram í Matnsnefnd eignarnámsbóta þann 16. september 1993, óskaði Vegagerð ríkisins (eignarnemi), með vísan til 54. gr. vegalaga nr. 6/1977, eftir því að Matsnefnd eignarnámsbóta framkvæmdi mat á bótum vegna efnistöku í landi Hrauns, Fljótahreppi, Skagafjarðarsýslu, en eigandi jarðarinnar er Pétur Guðmundsson (eignarnámsþoli), kt. 280723-2239. Efnismagn það sem óskað er mats á nemur samtals 13.536 rúmm.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá matsnefndinni fimmtudaginn 16. september 1993, en þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt greinargerð og fylgiskjölum. Leitað var sátta með aðilum, án árangurs, og var málinu frestað til 5.október 1993. Þriðjudaginn 5. október 1993 var málið tekið fyrir að nýju og lögðu aðilar fram skjöl. Sættir reyndar á ný, en án árangurs og málinu frestað til framlagningar frekari gagna, en jafnframt var ákveðið að fara á vettvang þann 11. október 1993. Þann 11. október 1993 fór matsnefndin ásamt aðilum á vettvang og skoðaði aðstæður og reyndi sættir með aðilum, sem ekki tókst og var málinu því frestað til 5. nóvember 1993 svo sem áður hafði verið ákveðið. Þann 5. nóvember var málið tekið fyrir að nýju og lagði eignarnámsþoli fram gögn af sinni hálfu, auk þess sem sættir voru reyndar án árangurs. Við fyrirtekt málsis þá lýsti lögmaður eignarnámsþola því yfir að frostþíðupróf á efni úr námunni yrðu ekki tilbúin fyrr en eftir 3 mánuði. Af þessum sökum var málinu frestað til 4. mars 1994. Föstudaginn 4. mars 1994 var málið tekið fyrir að nýju. Á fundinum upplýsti lögmaður eignarnámsþola að umbj. hans hafi átt við veikindi að stríða og hafi því ekki gefist tækifæri til þeirrar gagnaöflunar sem til stóð. Samþykkt að fresta málinu til 19. apríl 1994 til framlagningar gagna af hálfu eignarnámsþola. Þriðjudaginn 19. apríl 1994 var málið tekið fyrir að nýju og lagði þá lögmaður eignarnámsþola fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Sættir voru reyndar án árangurs og málinu því frestað til munnlegs málflutnings til 2. júní 1994. Þann 2. júní 1994 var málið svo tekið fyrir og flutt munnlega fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

IV. Málavextir:

Málsatvik eru í stuttu máli þau að eignarnemi tók á árinu 1993 13.536 rúmm. af möl úr landi Hrauns. Efnið var notað til vegagerðar af hálfu eignarnema og var efnið notað í burðarlag og til gerðar bundins slitlags á Siglufjarðarveg. Efnið var tekið með samþykki eignarnámsþola, þrátt fyrir að samkomulag hefði ekki tekist um verð fyrir það, og var efnið tekið úr fjörukambi er skilur Miklavatn frá hafi. Efnistakan fór fram við ósinn þar er Miklavatn rennur til sjávar, en hluti því efni sem tekið var, hafði áður verið mokað upp úr ósnum af hálfu Laxeldisstöðvarinnar Miklalax hf. sem reglulega hreinsar upp úr ósnum efni sem þangað berst með sjávarföllum, í því skyni að fyrirbyggja að ósinn stíflist, en slíkt myndi valda vatnsborðshækkun í Miklavatni.

V. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er á því byggt að samkomulag hafi orðið með eignarnema og eignarnámsþola að leggja fyrir Matnsefnd eignarnámsbóta að meta bætur vegna efnistökunnar, þar sem samkomulag tókst ekki um verð fyrir efnið.

Eignarnemi hefur notað megnið af efninu í efsta burðarlag og að hluta til í bundið slitlag. Eignarnemi er tilbúinn til að greiða fyrir allt efnið eins og um efni í bundin slitlög utan markaðssvæða væri að ræða, eða 16 kr. pr. rúmm. samkvæmt orðsendingu eignarnema nr. 12/1993 sem lögð hefur verið fram í málinu. Nefnd orðsending hefur að geyma verðskrá þá er eignarnemi styðst við varðandi greiðslur til landeigenda fyrir efnistöku og eignarnám á landi. Eignarnemi tekur þó fram að meginhluti efnisins hafi í raun verið notað í burðarlag, sem einungis séu greiddar kr. 8 pr. rúmm. samkvæmt orðsendingunni.

Eignarnemi bendir á að fjarlægð námunnar frá þéttbýlisstöðum geri það að verkum, að möguleikar landeigenda á að selja efni úr námunni séu litlir og því sé náman ekki á markaðssvæði. Eignarnemi telur að engin eftirspurn sé eftir mölinni frá öðrum aðilum sem valdi því að hún geti ekki talist þau verðmæti sem eignarnámsþoli vill meina.

Þá bendir eignarnemi á að mikið magn efnis sé í landi eignarnámsþola og að nýtt efni berist stöðugt að landi með hafinu auk þess sem möguleikar séu á að vinna 30- 60.000 rúmm. af sambærilegu efni annar staðar í landi eigarnámsþola eða í Höðnuvík sem er vík örlítið norðar en efnistakan fór fram.

Eignarnemi bendir ennfremur á, að af hálfu eignarnema sé verið að greiða öðrum bændum á svæðinu fyrir möl samkvæmt orðsendingu eignarnema, og að það efni sé ekki síðra en efni það sem til umfjöllunar er í máli þessu. Því séu engin rök fyrir því að greiða eignarnámsþola í máli þessu hærra verð fyrir efnið en öðrum.

VI. Kröfur og sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er sú krafa gerð að málinu verði vísað frá Matnsfnd eignarnámsbóta, sæti það ekki frávísun ex officio. Verði málinu ekki vísað frá eru þær efniskröfur gerðar, að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþola kr. 80,00 fyrirhvern tekinn rúmmetra efnis, þ.m.t. virðisaukaskattur. Þá er þess krafist að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþola hæfilegan málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti og útlagðan ferðakostnað lögmanns eignarnámsþola.

Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að það sé rangt sem fram kemur í matsbeiðni, að eignarnámsþoli hafi veitt eignarnema umráð námu þeirrar er efnið var tekið úr. Eignarnámsþoli heldur því fram að á því stigi sem malartakan fór fram hafi aldrei verið talað um eignarnám og því sé um venjuleg kaup að ræða í skilningi kaupalaga, en ekki eignarnám og við ákvörðun kaupverðs eigi því að líta til 5. gr. kaupalaga nr. 39/1922. Þá telur eignarnámsþoli að ekki hafi verið staðið að viðskiptum þessum með formlegum hætti, sem gera verður kröfu til í samræmi við lög um eignarnám, heldur hafi verið falast eftir efninu með þeim hætti sem tíðkanlegur er í frjálsum viðskiptum manna. Af þessum sökum telur eignarnámsþoli að vísa beri málinu frá matsnefndinni.

Sem rök fyrir kröfum sínum, sæti málið ekki frávísun, bendir eignarnámsþoli á að náma sú sem efnið var tekið úr hafi að geyma úrvals steypuefni. Þá bendir eignarnámsþoli á að náman sé innan markaðssvæðis og hafi eignarnámsþoli m.a. gert samning við Vélaleiguna Bás sf. á Siglufirði um sölu malar úr námunni fyrir kr. 80,00 pr. rúmm. með virðisaukaskatti. Eignarnámsþoli hefur lagt fram afrit af samningi milli hans og Vélaleigunnar BÁS sf. á Siglufirði dags. 01.11.93. vegna efniskaupanna.

Eignarnámsþoli bendir einnig á að hann hafi verið að selja efni til verkefnis á Siglufjarðarflugvelli á kr. 64 pr. rúmm. auk virðisaukaskatts (þ.e. 79,68 kr. með virðisaukaskatti). Eignarnámsþoli bendir á að verð þetta sé miðað við að keypt sé mikið magn í einu og að verð á einstökum bílhlössum úr námunni sé mun hærra.

Eignarnámsþoli heldur því fram að Siglufjörður sé snauður af góðu efni til mannvirkjagerðar og að eignarnemi sækist mjög eftir efni þessu vegna gæða þess. Þá heldur eignarnámsþoli því fram að Ólafsfjörður sé einnig efnissnauður og vegalengd þar á milli ekki mikil, þótt vegasamband hamli viðskiptum í bili.

Eignarnámsþoli mómælir að orðsending nr. 12/1993 hafi nokkur áhrif á niðurstöðu máls þessa. Þarna sé um innanhúsplagg frá eignarnema að ræða og að ekkert liggi fyrir um að samráð hafi verið haft við Búnaðarfélag Íslands um gerð verðskrárinnar, svo sem þar er haldið fram. Þá bendir eignarnámsþoli á að Búnaðarfélag Íslands hafi ekki umboð frá eignarnámsþola til neinna verðákvarðana um eignir hans.

VII. Álit matsnefndar:

Svo sem að framan er rakið gerir eignarnámsþoli þá kröfu að máli þessu verði vísað frá Matsnefnd eignarnámsbóta, vísi nefndin því ekki þaðan ex officio. Eignarnemi byggir heimild sína til efnistökunnar á 53. gr. vegalaga nr. 6/1977 svo sem fram kemur í greinargerð eignarnema sem liggur frammi í málinu. Samkvæmt 54. gr. vegalaga ber að ákvarða bætur fyrir eignarnám með mati samkvæmt lögum um eignarnám, náist ekki samkomulag um bæturnar. Fallast ber á það með eignarnema að hann hafi fengið leyfi til malarnámsins hinn 1. júlí 1993, enda er það staðfest í greinargerð eignarnásþola. Að þessu virtu þykir ljóst að eignarnemi hefur neytt lögmætrar heimildar sinnar til eignarnáms á möl þeirri er tekin var úr námu eignarnámsþola. Við fyrirtekt máls þessa þann 5. október 1993 lýstu aðilar málsins því yfir að þeir væru sammála um að Matnsnefnd eignarnámsbóta færi með mál þetta. Krafa eignarnámsþola um frávísun kom ekki fram fyrr en í greinargerð sem lögð var fram þann 19. apríl 1994, en það var sjötta fyrirtekt málsins hjá matnsnefndinni. Með vísan til framanritaðs þykja ekki liggja fyrir ástæður til að vísa máli þessu frá Matnsnefnd eignarnámsbóta.

Svo sem rakið var hér að framan hefur Matnsnefnd eignarnámsbóta farið á vettvang og skoðað aðstæður. Ljóst virðist að sú efnistaka sem farið hefur fram í námunni hefur ekki haft afgerandi áhrif á námuna eða umhverfið. Efnið virðist hafa verið tekið í og við ós Miklavatns, án þess þó að raska verulega malarkambinum er skilur að Miklavatn og hafið. Ekkert liggur fyrir um að æðarvarp á svæðinu hafi spillst við efnistökuna.

Eignarnemi mótmælir ekki að efnið í námunni geti verið nýtanlegt sem steypuefni. Af hálfu eignarnámsþola hafa verið lögð fram skjöl sem sýna m.a. samning hans við steypustöð á Siglufirði er sé tilbúin til að greiða kr. 80,00 pr. rúmm. fyrir efni úr námunni. Þá liggja frammi skjöl í málinu er sýna efnissölu úr námunni til annarra aðila gegn verulega hærra gjaldi en eignarnemi er tilbúinn til að greiða fyrir efnið.

Þrátt fyrir að eignarnemi hafi sýnt fram á að um einhverja sölu hefur verið að ræða úr námunni, verður ekki séð að malarnáman sé á markaðssvæði, né að efnistaka eignarnema úr námunni hafi á nokkurn hátt skert tekjumöguleika eignarnámsþola með sölu til annarra aðila úr henni. Nægilegt efni virðist vera á svæðinu og ljóst að a.m.k. ennþá berst töluvert af efni að landi með sjávarföllum, hvað sem síðar kann að verða. Ekkert liggur fyrir um efnisþörf steypustöðvarinnar á Siglufirði, þrátt fyrir að matsnefndin hafi sérstaklega óskað eftir þeim upplýsingum við fyrirtekt málsins þann 5. nóvember 1993. Telja verður að sú efnissala sem fram hefur farið hingað til úr námunni sé tilfallandi efnissala og að efnistaka eignarnema úr námunni hafi ekki haft áhrif á tekjumöguleika eignarnámsþola svo sem að framan greinir.

Ekki þykir tækt að líta á Ólafsfjörð sem raunhæfan efniskaupanda á svæðinu, sérstaklega m.t.t. ástands vega þangað. Þar að auki liggur ekkert fyrir í málinu um efnisþörf eða áhuga á efniskaupum þaðan.

Af hálfu eignarnema kemur fram að efni það sem tekið var úr námu eignarnámsþola var notað í burðarlag og til slitlagsgerðar á Siglufjarðarvegi. Ljóst er að efnisnáma eignarnámsþola er mun nær þeim vegi en aðrar námur á svæðinu og því augljóst hagræði af því fyrir eignarnema að taka efni úr námunni. Þá er aðkoma og aðgengi að námunni góð og kostnaður við efnistökuna sjálfa því í lágmarki. Ber að taka tillit til þessa við ákvörðun eignarnámsbótanna.

Með vísan til alls framanritaðs þykja hæfilegar bætur fyrir þá 13.536 rúmm. af möl sem teknir hafa verið úr landi eignarnámsþola vera kr. 270.720- þar með talinn virðisaukaskattur. Að auki skal eignarnemi greiða eignarnámsþola málskostnað kr. 180.000- auk virðisaukaskatts, kr. 44.100-, og útlagðs kostnaðar, kr. 12.650-, samtals kr. 236.750- og allan kostnað af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta vegna málsins, samtals kr. 437.950-.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola Pétri Guðmundssyni, kt. 280723-2239, kr. 270.720 þ.m.t. virðisaukaskattur, og kr. 236.750- í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur og útlagður kostnaður. Eignarnemi greiði ríkissjóði kr. 437.950- í kostnað vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

_____________________________
Helgi Jóhannesson hdl.

____________________________      ___________________________
Ragnar Ingimarsson, verkfr.         Kristinn Gylfi Jónsson vskfr. og bóndi


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum