Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 14. október 1993

Ár 1993, fimmtudaginn 14. október, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 2/1992:

Vegagerð ríkisins
gegn
Halldóru Ásmundsdóttur o.fl.

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með matsbeiðni, sem lögð var fram á fundi í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 16. mars 1993, óskaði Vegagerð ríkisins (eignarnemi) eftir því að Matsnefnd eignarnámsbóta framkvæmdi mat á bótum vegna efnistöku eignarnema í námu í Stóru Laxá í landi Hólakots, Hrunamannahreppi, Árnessýslu, en eigandi jarðarinnar er Halldóra Ásmundsdóttir og Einar Jónsson (eignarnámsþolar). Í matsbeiðninni kemur fram að samkomulag sé með aðilum um efnistökuna en ágreiningur um fjárhæð bóta fyrir efnið. Eignarnemi hefur haft aðgang að umræddri námu. Eignarnemi byggir eignarnámsheimild sína á X. kafla vegalaga nr. 6/1977.

II.

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipuðu í fyrstu þeir Ragnar Aðalsteinsson hrl., fyrrv. formaður nefndarinnar, auk Stefáns Svavarssonar endursk. og Ragnars Ingimarssonar verkfr., en formaður kvaddi tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. l. 11/1973. Eftir að skipunartíma fyrrv. formanns nefndarinnar lauk, þann 23. ágúst 1993, tók Helgi Jóhannesson núverandi formaður nefndarinnar hans sæti í máli þessu.

III.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá matsnefndinni þriðjudaginn 16. mars., en þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt greinargerð og fylgiskjölum. Leitað var sátta með aðilum, en án árangurs og var málinu frestað til framlagningar frekari gagna til fimmtudagsins 15. apríl 1993 og aftur þá til mánudagsins 24. maí 1993 er lögmaður eignarnámsþola lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og eignarnemi framhaldsgreinargerð. Sættir voru reyndar á ný án árangurs og var málinu frestað til að ljúka gagnaöflun og til vettvangsgöngu og munnlegs málflutnings. Málið var tekið fyrir fimmtudaginn 30. september 1993 þar sem aðilar lögðu fram frekari gögn og að framlagningu lokinni var gengið á vettvang og málið að því loknu munnlega flutt.

IV.

Málsatvik eru þau að eignarnemi hefur um margra ára skeið tekið efni úr landi eignarnámsþola og hefur aðilum allt til ársins 1992 tekist að semja um uppgjör vegna efnistökunnar. Á árinu 1992 tók eignarneimi 13.122 rúmm. af jarðefni úr áreyrum Stóru-Láxár í Hreppum, í landi Hólakots. Efnistakan sjálf fór fram með samþykki eignarnámsþola en hún fór fram u.þ.b. 2-300 metrum neðan brúar yfir Stóru-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi. Eins og áður segir er ekki deilt um heimildina til efnistökunnar né magn efnis sem tekið var, en aðila greinir hins vegar á um hvað séu hæfilegar bætur fyrir efnistökuna á árinu 1992.

V.

Af hálfu eignarnema er á því byggt, að efni það sem mál þetta varðar sé hvorki hæft til notkunar í steypumannvirki né við gerð bundins slitlags á veg. Eignarnemi hefur notað efnið í burðarlag vega.

Eignarnemi heldur því einnig fram að umrædd náma sé utan markaðssvæðis, þ.e. að ekki sé um markað fyrir efnið að ræða í nágrenni Hólakots, og að ásókn annarra aðila en eignarnema í efnið sé óveruleg. Sérstaklega bendir eignarnemi á að náman liggi of fjarri Flúðum, næsta þéttbýliskjarna, til að hún sé nýtt þaðan. Eignarnemi bendir einnig á að hann sé langstærsti efnisnotandinn á svæðinu. Eignarnemi telur það ljóst að kaup einstaka annarra aðila á litlu magni af efni úr námunni geti á engan hátt gefið tóninn um verðmæti efnisins, enda um mjög litla efnisþörf að ræða hjá þessum aðilum.

Eignarnemi bendir ennfremur á að óhagræði eignarnámsþola af efnistökunni sé óverulegt og að Stóra-Laxá sé framburðarmikil á og náman því næstum óþrjótandi þar sem áin endurnýi að mestu það sem tekið er. Af þessum sökum telur eignarnemi að ekki verði séð að efnistakan hafi á nokkurn hátt skert efnissölumöguleika landeigenda auk þess sem efnistakan hefur ekki á nein hátt spillt ræktunarmöguleikum á jörðinni.

Með vísan til framangreinds telur eignarnemi að eignarnámsþoli skuli fá bætur í samræmi við gjaldskrá eignarnema fyrir burðarlagsefni utan markaðssvæða þ.e. kr. 8 pr. rúmm. og vísar eignarnemi í þessu sambandi til orðsendingar nr. 12/1993 á framlögðu skjali nr. 20. Eignarnemi tekur einnig fram að uppgjör við eignarnámsþola vegna efnistöku fyrr á árum sem og uppgjör við aðra aðila í nágrenninu vegna efnistöku í öðrum námum hafi hingað til í öllu farið eftir orðsendingum frá eignarnema sjálfum og ekki sé hægt að sjá að aðstæður hafi breytst síðan þau uppgjör voru gerð.

VI.

Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að kr. 8 pr. rúmm. sé allt of lág fjárhæð fyrir efni það sem tekið hefur verið. Í fyrsta lagi sé náman á markaðssvæði sem sýnir sig í því að gerður hefur verið samningur við annan efnisnotanda um efnistöku úr námunni og sé í þeim samningi miðað við kr. 33 pr. rúmm., sbr. framlagt skjal nr. 15. Þá hafa af hálfu eignarnámsþola verið lögð fram gögn sem sýni að aðrir aðilar hafi keypt efni úr námunni og öðrum námum á svæðinu fyrir töluvert hærra verð en það sem eignarnemi býður fyrir efnið.

Þá er því einnig haldið fram af eignarnámsþola að efnið í námunni sé í raun notað sem steypuefni í mannvirki sem hljóti að gera það verðmætara en eignarnemi vilji vera láta.

Eignarnámsþoli bendi einnig á að gjaldskrá (orðsending nr. 12/1993) sú sem lögð hefur verið fram á skjali nr. 20 sé einhliða gjaldskrá sett af eignarnema og að óeðlilegt sé að fara í einu og öllu eftir því sem hann vill varðandi verðlagningu efnisins.

Þá bendir eignarnámsþoli á niðurstöðu Hrd. 1983 bls. 1538 varðandi rök fyrir hærra verði en því sem eignarnemi býður fram í máli þessu.

VII.

Svo sem áður er rakið hefur Matsnefnd eignarnámsbóta gengið á vettvang og kynnt sér aðsæður á staðum. Fallast ber á það með eignarnema að óhagræði eignarnámsþola af efnistökunni sé óverulegt og að efnisnáman sé mjög stór og nánast óþrjótandi miðað við þá efnistöku sem þar fer fram og endurnýjunar á efninu í formi framburðar Stóru-Laxár. Ekki verður séð að efnistakan hafi í för með sér náttúruspjöll eða áhrif á landgæði Hólakots. Þá eru aðstæður á efnistökustað með þeim hætti að þær eru einstaklega hagstæðar fyrir eignarnema og hefur efnistakan ekki krafist vegalagningar eða annars jarðrasks af hans hálfu.

Í framlögðu skjali nr. 5, sem hefur að geyma námulýsingu byggða á gögnum frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, kemur fram að efni úr námu þeirri sem um er rætt sé óhæft í þau steypumannvirki sem eignarnemi hefur byggt á svæðinu. Með vísan til þessa ber að fallast á það með eignarnema að efnið sé ekki hæft til notkunar í steypumannvirki. Þá liggur einnig fyrir að eignarnemi getur ekki nýtt efnið í bundið slitlag á veg, heldur einungis sem burðarlag vega og fyllingarefni.

Í framlögðu skjali nr. 21, sem hefur að geyma afrit kvittana vegna efniskaupa eignarnema úr öðrum námum á svæðinu, kemur fram að eignarnemi hefur greitt fyrir efni á svæðinu miðað við að hér sé ekki um markaðssvæði að ræða Fyrir liggur í málinu að malarnámur eru víða á svæðinu t.a.m. í enn meiri nálægt við næsta þéttbýliskjarna, Flúðir, en umrædd náma er. Ekki þykir sú efnissala sem fram hefur farið til annarra úr námunni geta gefið tóninn um markaðsverð, enda um tiltölulega litla sölu að ræða sem ætti, þrátt fyrir efnistöku eignarnema, að geta haldið áfram óbreytt. Með vísan til þessa verður að fallast á það með eignarnema að náman sé í raun utan markaðssvæða miðað við legu námunnar og ásókn í hana.

Ágreiningslaust er með aðilum, að efni það sem tekið var úr námunni á árinu 1992 hafi verið 13.122 rúmm. Ber að telja efni það sem tekið var úr námu Hólakots burðarlagsefni utan markaðssvæða. Að teknu tilliti til þess og hve mjög aðgengilegt efnið er fyrir eignarnema, svo sem áður er rakið, þykir hæfilegt gjald eignarnema fyrir hið tekna efni vera kr. 131.220,00 þ.m.t. virðisaukaskattur. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 130.000,00 auk virðisaukaskatts í málskostnað og allan kostnað af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta vegna málsins, samtals kr. 260.000.

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþolum, Halldóru Ásmundsdóttur og Einari Jónssyni sameiginlega kr. 131.220,00 þ.m.t. virðisaukaskattur, og kr. 130.000,00 auk virðisaukaskatts í málskostnað. Eignarnemi greiði ríkissjóði kr. 260.000,00 í kostnað af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum