Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 23. janúar 1992

GreinMATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA
         
            
               Úrskurður
               uppkveðinn 23. janúar 1992
               í eignarnámsmálinu nr. 15/1991

               Hafnarfjarðarkaupstaður
               gegn
               Smára Haukssyni
               og Svanhildi M. Jónsdóttur.

I.   Skipan matsnefndar

   Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur, og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. heimild í 2. gr. 2 mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Aðilar.

   Eignarnemi er Hafnarfjarðarkaupstaður, en eignarnámsþolar eru Smári Hauksson, Fífuseli 36, Reykjavík, og Svanhildur M. Jónsdóttir, Efstasundi 49, Reykjavík.

III. Matsbeiðni.

   Matsbeiðni bæjarlögmanns Hafnarfjarðarkaupstaðar er dags. 4. desember 1991.

IV. Andlag eignarnáms og tilefni.

   Tilefni eignarnáms er, að ræktunarlóðin nr. 976 á svonefndum Öldum við Kaldárselsveg í Hafnarfirði eða staðfestu skipulagi og hamlar að sögn eignarnema senn framkvæmdum á svæðinu. Lóðin sem eignarnámið beinist að er erfðafestuland 16.000 m2 að stærð og eiga eignarnámsþolar hvor um sig 13,493% eða samtals 25,986% réttindi yfir lóðinni, en eignarnemi á sjálfur 73,014% réttinda í eigninni. Réttindin eru í óskiptri sameign.

V. Eignarnámsheimild.

   Eignarnemi vísar til 24. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 um heimild til eignarnáms.

   Eignarnámsþolar gera ekki athugasemd við eignarnámsheimildina sem slíka, en telja sig hafa samið við eignarnema um að hann greiddi bætur skv. mati dómkvaddra matsmanna, en ekki skv. mati matsnefndar eignarnámsbóta. Um þann ágreining einan er fjallað í þessum úrskurði matsnefndar.

VI. Kröfur eignarnámsþola.

   Kröfur eignarnámsþola eru þær að eignarnámsbeiðni eignarnema verði vísað frá matsnefnd eignarnámsbóta og eignarnemi verði úrskurðaður til að greiða eignarnámsþolum málskostnað og vexti af honum.

VII. Kröfur eignarnema.

   Kröfur eignarnema eru þær að matsnefndin meti bætur til eignarþolanna fyrir eignarnám á 26,986% hluta ræktunar lóðarinnar nr. 976 á Öldum við Kaldárselsveg.

VIII. Málsmeðferð.

   Svo sem áður segir er matsbeiðni eignarnema dags. 4. desember 1991 og fylgdu henni 7 fylgiskjöl sem merkt hafa verið nr. 2-8. Litlu eftir móttöku matsbeiðni og fylgiskjala barst formanni matsnefndar bréf frá lögmanni eignarnámsþolanna, Kristni Sigurjónssyni hrl., dags. 7. desember 1991 þar sem fram kom að lögmaðurinn teldi að gert hefði verið samkomulag milli aðila þess efnis að dómkvaddir matsmenn mætu bætur til handa eignarnámsþolum og spurðist fyrir hvort rétt væri að erindi hefði borist matsnefnd eignarnámsbóta frá eignarnema. Með bréfi lögmanns eignarnámsþolanna voru nokkur fylgiskjöl. Formaður matsnefndar ritaði lögmanninum bréf hinn 9. desember 1991 og boðaði til fundar í málinu hinn 9. janúar 1992, en jafnframt var lögmanni eignarnema tilkynnt um þann fund. Á fundinum 9. janúar 1992 voru skjöl málsins lögð fram, en þar kom fram að lögmaður eignarnema mótmælti því að samið hefði verið um aðra málsmeðferð en fyrir matsnefnd eignarnámsbóta um ákvörðun bóta. Matsnefndin ákvað að taka ágreining þennan til sérstakrar meðferðar og úrskurðar og var aðilum gefinn kostur á að skila greinargerðum og koma sjónarmiðum sínum um málflutning á fundi 16. janúar 1992. Á þeim fundi lögðu lögmenn aðila fram greinargerðir og frekari gögn og gerðu munnlega grein fyrir sjónarmiðum sínum.

IX. Málsatvik.

   Samkvæmt samningi milli bæjarstjórans í Hafnarfirði og Sigurðar Guðmundssonar dags. 18. mars 1944 og mótteknum til þinglesturs hinn 20. mars 1944, þá var Sigurði Guðmundssyni skv. ályktun bæjarstjórnar á fundi 7. júní 1932 leigð á erfðafestu 16.000 m2 lóð efst á Öldum meðfram Kaldárselsvegi. Lóðin var leigð til að byggja á henni hús og mannvirki svo og til ræktunar. Hún var leigð til erfðafestu og hafði leiguliði rétt til að selja og veðsetja afnotarétt sinn ásamt mannvirkjum, en við sölu hafði bæjarstjórnin forkaupsrétt. Ársleiga var 4% af virðingaverði lóðarinnar eftir mati fasteignarnefndar eða kr. 75. Leiguliði skildi greiða alla skatta og gjöld til hins opinbera er lögð kunnu að verða á erfðafestulóðir sem gjaldstofn. Samkomulag þetta er ótímabundið og í því eru engin uppsagnarákvæði. Lóðin fellur þó aftur til eigenda án uppsagnar ef leiguliði flytur öll hús af lóðinni eða fellir þau niður á einhvern hátt og greiðir eigi lóðargjaldið.

   Núverandi eigendur ofangreindra réttinda eru eignarnemi að 73,014% en eignarnámsþolar að 26,986%. Ekki er upplýst á hvern hátt aðilar eru komnir að réttindum sínum í málinu.

   Samkvæmt upplýsingum eignarnema eru lönd umhverfis greinda lóð einnig erfðafestulönd og hafa réttindin verið keypt með samningum erfðafestuhafanna og er flestum samningum lokið. Samningaviðræður hafa farið fram við eignarnámsþola en mikið hefur borið milli þeirra um bætur. Þegar ljóst var að ekki tækjust samningar um bætur kröfðust eignarnámsþolar þess að réttindin yrðu seld á uppboði til slita á sameign en fyrir uppboðsréttinn lögðu uppboðsbeiðendur álit Árna Stefánssonar hrl. í Hafnarfirði þess efnis að ræktunarlóðin væri ekki skiptileg með eðlilegum hætti í réttum eignarhlutföllum. Lögmaður eignarnema andmælti framgangi uppboðsins. Taldi hann ekki fullreynt að ekki næðist samkomulag um verð á eignarhlutanum og gat þess síðan að næðist ekki samkomulag gætu aðilar fallist á að dómkvaddir matsmenn mætu þessa eignarhluta. "Að öðrum kosti yrði bæjarsjóður að taka þessa eignarhluta eignarnámi." Á uppboðsfundi 16.10.1991 lagði lögmaður eignarnámsþola fram yfirlýsingu þess efnis að hann fyrir hönd eignarnámsþola féllist á yfirlýsingu eignarnema þar sem væri lýst yfir að bæjarsjóður Hafnarfjarðar féllist á, að dómkvaddir verði matsmenn sem meti eignarhlutana og bæjarsjóður leysti eignarhlutana til sín og þá væntanlega skv. forkaupsréttarákvæði sem væri í 2. lið samningsins um lóðin frá 18. mars 1944.

   Á uppboðsfundi 21. október 1991 gerði lögmaður eignarnema eignarnámsþolum tilboð um bætur að fjárhæð kr. 669.290.-, sem væri sambærilegt verði sem bæjarsjóður hefði keypt aðrar lóðir leigðar á erfðafestu til ræktunar. Jafnframt var óskað eftir gagntilboði. Lögmaður uppboðsþola lýsti því yfir að hann myndi eftir atvikum koma með gagntilboð. Á uppboðsfundi 25. október 1991 höfnuðu eignarnámsþolar boði eignarnema en lögmaður þeirra kveðst halda sig við fyrri kröfu, þ.e. að hann samþykki málsástæður gagnaðila, þ. e. að tilkvaddir verði 2 óvilhallir matsmenn til að meta eignina til verðs. Jafnframt lagði hann fram afrit af matsbeiðni dags. 24. október 1991. Í framhaldi af þessu lét lögmaður eignarnema bóka að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði muni taka eignarhlutann eignarnámi. Lögmaður uppboðsbeiðanda, eignarnámsþolanna, lýsti þá því yfir að hann hæfi uppboðsréttarmálið. Uppboðsréttarmálið var hafið.

   Hinn 1. nóvember 1991 var beiðni um dómkvaðningu matsmanna frá eignarnámsþolum tekin fyrir á bæjarþingi Hafnarfjarðar. Lögmaður eignarnema lagði fram samþykkt bæjarráðs um eignarnám og mótmælti dómkvaðningu, sem hann teldi óþarfa. Án þess að dómari tæki afstöðu til mótmælanna dómkvaddi hann tvo menn til að framkvæma hið umbeiðna mat.

   Á fundi bæjarráðs hinn 31.10.1991 var samþykkt að taka eignarhlutana eignarnámi skv. heimild í 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og var sú ákvörðun samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 5. nóvember 1991. Þetta var eignarnámsþolum tilkynnt með bréfi eignarnema dags. 4. desember 1991.

X. Sjónarmið eignarnámsþola.

   Sjónarmið eignarnámsþola eru í þessum þætti málsins þau, að í uppboðsgreinargerð lögmanns Hafnarfjarðarkaupstaðar í uppboðsmálinu hafi komið fram tilboð um að dómkvaddir matsmenn mætu bætur til handa eignarnámsþolum fyrir réttindin og mannvirkin. Eignarnámsþolarnir hafi samþykkt það tilboð og þar með hafi komist á bindandi samningur. Heimilt sé að semja um aðra málsmeðferð heldur en fyrir matsnefnd eignarnámsbóta við ákvörðun bóta fyrir eignarnám og það hafi verið gert.

XI. Sjónarmið eignarnema.

   Eignarnemi byggir kröfu sína um það að frávísunarkröfu verði hafnað á því, að ekkert samkomulag um málsmeðferð hafi komist á milli aðila. Þegar krafa um uppboð og slit á sameign hafi komið fram hafi hann talið að þrjár leiðir kæmu til greina og ein þeirra hafi verið dómkvaðning matsmanna til að meta bætur, en að auki hafi komið til greina að aðilar sendu sjálfir eða eignarnemi legði málið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Þetta hafi lögmanni eignarnámsþola mátt vera ljóst frá upphafi. Þá hafi hann og mótmælt dómkvaðningu matsmanna af þessum ástæðum, en hann hafi áður í lok uppboðsréttarmeðferðarinnar verið búinn að tilkynna að beðið yrði um eignarnám og með því hafi hann átt við að málið færi til meðferðar hjá matsnefnd eignarnámsbóta.

XII. Álit matsnefndar.

   Það er meginregla íslensks réttar, að um mat á bótum vegna eignarnáms skuli fara eftir ákvæðum laga nr.11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Matsnefnd eignarnámsbóta telur jafnframt, að aðilum sé heimilt á bindandi hátt að semja um aðra málsmeðferð.

   Matsnefndin hefur að virtum framlögðum gögnum málsins og með hliðsjón af málflutningi aðila hér fyrir nefndinni komist að þeirri niðurstöðu, að eignarnámsþolar hafi ekki sýnt fram á hafi komist bindandi samningur með aðilum þess efnis að ákveða skildi bætur fyrir hluta eignarnámsþolanna í réttindum yfir ræktun á landinu með öðrum hætti en mati skv. lögum nr. 11/1973. Matsnefndin telur, að sá málsaðili eignarnámsmáls, sem ber fyrir sig að aðilar hafi samið um aðra málsmeðferð hafi sönnunarbyrðina um að bindandi samningur þar að lútandi hafi komist á. Matsnefndin telur að eignarnámsþolum hafi ekki tekist að sýna fram á að eignarnemi hafi skuldbundið sig til að sæta annarri málsmeðferð og skiptir hér engu máli hvort eignarnámsþolar eða talsmaður þeirra hafi verið í góðri trú eða ekki.

   Með hliðsjón af ofangreindu hafnar matsnefnd eignarnámsbóta kröfu eignarnámsþola um frávísun málsins frá matsnefndinni og tekur málið til efnismeðferðar.

   ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu eignarnámsþolanna um frávísun málsins er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum