Hoppa yfir valmynd

Mál 3/2015.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 13. ágúst 2015

í máli nr. 3/2015:

Efsti Hóll ehf.

All Iceland Tours ehf.

og

Aldey ehf.

gegn

Strætó bs.

og

Ný-Tækni ehf.        

Með kæru 25. mars 2015 kæra Efsti Hóll ehf., All Iceland Tours ehf., Björn Páll Angantýsson, Aldey ehf. og Ferðaglaður ehf. ákvörðun Strætó bs. um að samþykkja framsal á réttindum og skyldum Kynnisferða ehf., samkvæmt rammasamningi um tilfallandi akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna, til Ný-Tækni ehf. Kröfur kærenda eru að kærunefnd útboðsmála lýsi rammasamning milli varnaraðila óvirkan. Þá er þess krafist að nefndin beini því til varnaraðila Strætó bs. að halda örútboð meðal annarra rammasamningshafa um þá þjónustu sem felst í áðurnefndum samningi, en til vara að akstursþjónusta samkvæmt samningnum verði boðin út að nýju. Jafnframt er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila Strætó bs. gagnvart kærendum og kærendum verði úrskurðaður málskostnaður.

Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við kæruna og bárust þær 10. apríl 2015 frá varnaraðila Strætó bs. sem krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað og kærendum gert að greiða málskostnað. Kærendur gerðu athugasemdir við greinargerð varnaraðila 28. apríl 2015 og féllu frá kröfum gegn Birni Páli Angantýssyni og Ferðaglaðs ehf. Kærunefnd útboðsmála gaf varnaraðilum kost á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerð kærenda og bárust þær frá einungis varnaraðila Strætó bs. 4. júní 2015. Kærendur lögðu lokaathugasemdir sínar fram 18. júní 2015.

I

Í júní 2014 stóð varnaraðili Strætó bs. fyrir samningskaupum nr. 13261 „Akstursþjónusta fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna“. Innkaupin voru auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og skiptust í tvennt, annars vegar A hluta „Reglubundin akstursþjónusta“ og hins vegar B hluta „Tilfallandi akstursþjónusta“. Samkvæmt kafla 0.2.2 í samningskaupagögnum bar þátttakendum að skila ýmsum gögnum með tilboðum sínum, m.a. ársreikningum og öðrum gögnum sem sýndu fram á fjárhagslegt hæfi. Einnig starfs- og rekstrarleyfum og öðrum tilskildum leyfum til reksturs hópferðaþjónustu og fólksflutninga í atvinnuskyni eða leigubílaaksturs. Auk þess skyldi leggja fram lista yfir verkefni þátttakenda, eigenda eða starfsmanna síðustu tíu ár sem sýndu að eigendur eða starfsmenn hefðu a.m.k. þriggja ára samfellda reynslu af sambærilegri þjónustu. Þá bar að skila skrá yfir rekstrarvagna sem fyrirhugað var að nota við þjónustuna. Í fylgiskjali 1 með samningskaupagögnum voru svo ítarlega tilgreindar ýmsar kröfur til bifreiða sem notaðar yrðu til að sinna akstursþjónustunni. Tekið var fram að varnaraðili Strætó bs. áskildi sér rétt til þess að vísa frá umsóknum frá þátttakendum sem ekki skiluðu umbeðnum gögnum. Kafli 0.2.7 nefndist hæfi umsækjenda og þar var vísað til þeirra gagna sem skila átti samkvæmt kafla 0.2.2. og sérstaklega áréttað mikilvægi þess að þær upplýsingar yrðu greinargóðar og nákvæmar. Í kafla 1.2.2 komu fram kröfur til bifreiðastjóra sem sinntu þjónustunni og þar var m.a. áskilið að þeir hefðu gild, tilskilin réttindi til aksturs, óflekkað mannorð og aldrei hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.

Samningskaupin fóru þannig fram að umsóknir voru metnar með hliðsjón af hæfiskröfum á grundvelli þeirra gagna sem skila átti samkvæmt kafla 0.2.2 í útboðsgögnum. Hæfir þátttakendur voru valdir til viðræðna um tillögur og lausnir á akstri fatlaðs fólks. Á því stigi var m.a. rætt um kröfur til bifreiða, tíma- og verkáætlun og verð. Að viðræðum loknum skiluðu þátttakendur lokatillögu ásamt verðtilboði. Mat á lokatillögum fór þannig fram að verð gilti 90%, gæði rekstrarvagna 8% og gæði þjónustu 2%.

Í kafla 0.3.2 kom fram að samningstími yrði frá 1. janúar 2015 til og með 31. desember 2019. Í kafla 0.3.11 í útboðsgögnum sagði að akstursaðila væri óheimilt að fela undirverktökum að annast akstur en heimilt væri að fela undirverktökum að annast ýmsa stoðþjónustu eins og viðhald bifreiða og þrif. Í sama kafla kom fram að akstursaðila væri óheimilt, án skriflegs, fyrirfram samþykkis varnaraðila Strætó bs., að láta annan aðila ganga inn í tilboð sitt eða taka við skyldum sínum að nokkru eða öllu leyti.

            Hinn 1. september 2014 fengu þátttakendur staðfestingu á því að gerður yrði rammasamningur við 18 bjóðendur um akstursþjónustu samkvæmt B hluta samningskaupanna um tilfallandi akstursþjónustu. Meðal þeirra sem samið var við var kærandinn All Iceland Tours ehf. Kærendurnir Efsti Hóll ehf. og Aldey ehf. voru ekki meðal þeirra sem gerður var samningur við en urðu síðar samningsaðilar á grundvelli framsals réttinda og skyldna frá upphaflegum samningsaðilum. Þá var fyrirtækið Kynnisferðir ehf. einnig meðal upphaflegra aðila rammasamningsins.

Akstur samkvæmt samningunum hófst 1. janúar 2015. Í janúarmánuði 2015 óskuðu Kynnisferðir ehf. eftir samþykki varnaraðila Strætó bs. fyrir því að fyrirtækið framseldi réttindi og skyldur samkvæmt rammasamningi félagsins til varnaraðila Ný-Tækni ehf. Síðastnefnda fyrirtækið tók ekki þátt samningskaupaferlinu og var þar af leiðandi ekki rammasamningshafi. Varnaraðili Strætó bs. lét meta hæfi varnaraðila Ný-Tækni ehf. og niðurstaða þess mats var að fyrirtækið teldist hæfur samningsaðili. Samningur um yfirtöku varnaraðila Ný-Tækni ehf. á samningsskyldum Kynnisferða ehf. var undirritaður 11. febrúar 2015. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að öðrum rammasamningshöfum hafi verið tilkynnt formlega um téð framsal.

II

Kærendur segja að 12. mars 2015 hafi þeim borist til eyrna með óformlegum hætti að réttindi og skyldur Kynnisferða ehf. samkvæmt rammasamningi við varnaraðila Strætó bs. hefðu verið framseld til varnaraðila Ný-Tækniehf. Kærendur byggja á því að óheimilt hafi verið að framselja réttindi og skyldur samkvæmt rammasamningnum til annarra en þeirra sem farið hefðu í gegnum samningskaupaferlið og uppfyllt öll skilyrði samningskaupanna. Kærendur telja að þegar ljóst hafi verið að Kynnisferðir ehf. féllu frá aðild sinni að rammasamningnum hefði átt að fara fram nýtt útboð á þeirri akstursþjónustu sem samningurinn kvað á um, annað hvort örútboð meðal rammasamningshafa eða alveg nýtt útboð. Kærendur telja þessa niðurstöðu fá stoð í 1., 32. og 34. gr. laga um opinber innkaup. Kærendur telja að kafli 0.3.11 í samningskaupagögnum, sem heimili rammasamningshafa að framselja samning sinn, eigi fyrst og fremst við þegar einstaklingar vilji færa akstursþjónustuna í félag í sinni eigu.

Kærendur fullyrða að varnaraðili Ný- ehf. hafi ekki þurft að uppfylla þá skilmála og skilyrði sem þátttakendur í samningskaupaferlinu þurftu að uppfylla og með því hafi verið brotið gegn jafnræði aðila. Þannig hafi varnaraðili Ný-Tækni ehf. ekki þurft að leggja fram öll þau gögn sem gerð var krafa um í kafla 0.2.2 í samningskaupagögnum, hvorki um félagið sjálft né um gæði bifreiða. Þá hafi ekki legið fyrir að allir starfsmenn fyrirtækisins hafi upfyllt þau skilyrði sem starfsmönnum rammasamningshafa bar að uppfylla. Kærendur telja að ekki hafi verið sýnt fram á að lífeyrisiðgjöld varnaraðila Ný-Tækni ehf. séu í skilum, fyrirtækinu hafi ekki verið gert að skila árshlutauppgjöri vegna ársins 2014 og ársreikningur vegna 2013 sé ekki endurskoðaður. Þá sýni ársreikningur ársins 2013 að engin starfsemi hafi verið í fyrirtækinu og það rekið með tapi. Einnig virðist sem viðskiptasaga stjórnenda hafi ekki verið könnuð en stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins, við undirritun samnings, hafi verið dæmdur í Svíþjóð árið 2007 fyrir vanskil á opinberum gjöldum. Varnaraðili Ný-Tækni ehf. hafi ekki haft rekstrarleyfi ti fólksflutninga þegar það var samþykkt sem framsalshafi. Auk þess sé engin reynsla hjá fyrirtækinu og skráður tilgangur þess hafi verið tölvu- og hugbúnaðarþjónusta þegar samningur um framsal hafi verið undirritaður. Engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni að starfsmenn fyrirtækisins uppfylli skilyrði samningskaupagagna.

Kærendur gera sérstakar athugasemdir við þau ökutæki sem varnaraðili Ný-Tækni ehf. ætli að nota við þjónustuna. Þegar samningur var undirritaður hafi ein bifreið verið skráð á fyrirtækið en samningurinn hafi gert ráð fyrir að fyrirtækið hefði allt að 20 bifreiðar til reiðu. Samkvæmt tíma- og verkáætlun hafi verið gert ráð fyrir að sex rekstrarvagnar yrðu komnir í umferð sjö dögum eftir undirritun samnings og ekki síðar en fjórtán dögum síðar. Næstu níu vikurnar eftir undirritun samningsins hafi verið gert ráð fyrir að alls fjórtán bifreiðar bættust við. Raunin hafi verið sú að einungis átta bifreiðar hafi verið í eigu eða umráðum varnaraðila Ný-Tækniehf. þegar fresturinn var liðinn. Þær bifreiðar sem varnaraðili Ný-Tækni ehf. hafi tilgreint uppfylli auk þess ekki gildandi lög og reglur, þær hafi ekki fengið skoðun eftir breytingar og auk þess liggi ekki fyrir viðeigandi leyfi fyrir bifreiðarnar og umráðamenn þeirra.

III

Varnaraðili Strætó bs. byggir á því að kæran sé of seint fram komin og því beri að vísa henni frá nefndinni. Einn upphaflegra kærenda hafi fengið tölvupóst frá varnaraðila 12. febrúar 2015 þar sem hann hafi verið upplýstur um samþykki varnaraðila Strætó bs. við framsalinu. Vitneskja eins kærenda hljóti að jafngilda vitneskju þeirra allra og þannig hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra var borin undir nefndina 25. mars 2015. Þá hafi öllum kærendum verið kunnugt um skilmála samningskaupagagna en þar hafi verið að finna heimild til framsals í grein 0.3.11. Kærufrestur hafi þannig byrjað að líða við móttöku kærenda á samningskaupagögnum í júní 2014.

            Varnaraðili Strætó bs. byggir á því að innkaupaferlinu hafi lokið með tilkynningu um val á samningsaðilum. Ákvörðun um framsalið sé því ekki hluti af innkaupaferlinu heldur aðeins ákvörðun um framkvæmd rammasamnings sem þegar sé kominn á. Framsalið hafi átt fulla stoð í samningskaupagögnum og rammasamningnum. Í grein 0.3.11 í samningskaupagögnum hafi framsal samnings­skuldbindinga verið heimilað til „annarra aðila“ en af því leiði að heimildin sé ekki einskorðuð við þá aðila sem þegar hefðu farið í gegnum samningskaupaferlið. Þá bendir varnaraðili á að tveir kærenda, Efsti-Hóll ehf. og Aldey ehf., séu handhafar rammasamnings á grundvelli framsals frá upphaflegum þátttakendum í samningskaupaferlinu. Auk þess hafi rammasamningshafinn Haraldur Örn Arnarsson óskað eftir samþykki varnaraðila Strætó bs. fyrir framsali til Ferðaglaðs ehf., sem var meðal upphaflegra kærenda í málinu. Framsalinu hafi aftur á móti verið hafnað þar sem Ferðaglaður ehf. fullnægði ekki kröfum samningskaupagagna.

            Varnaraðili Strætó bs. telur að kröfur kærenda um að nýtt útboð hafi átt að fara fram eigi enga stoð í skilmálum samningskaupanna eða lögum. Veitutilskipunin hafi gilt um innkaupin en ekki lög um opinber innkaup. Kærendur geti því ekki byggt kröfur sínar á 32. og 34. gr. laga um opinber innkaup. Þá hafnar varnaraðili Strætó bs. því að varnaraðilinn Ný-Tækni ehf. hafi ekki þurft að uppfylla sömu skilyrði og þátttakendur í samningskaupaferlinu. Óskað hafi verið eftir öllum viðeigandi gögnum og upplýsingum frá fyrirtækinu áður en samþykki fyrir framsalinu var veitt. Mat á hæfi fyrirtækisins hafi verið með sama hætti og mat á hæfi þátttakenda í samningskaupaferlinu.

Ástæðan fyrir því að ekki séu tiltæk gögn um lífeyrissjóðsiðgjöld varnaraðila Ný-Tækni ehf. sé að fyrirtækið hafi ekki haft launamenn á skrá. Þá taldi varnaraðili Strætó bs. nægjanlegt að ársreikningur fyrir árið 2013 væri áritaður af bókhaldsþjónustu og vísar til þess að sams konar staðfesting hafi talist fullnægjandi í samningskaupaferlinu, m.a. hjá þeim sem framseldi réttindi sín til kæranda Efsta Hóls ehf. Þá hafi könnun á viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda verið valkvæð og nægjanlegt hafi verið að uppfylla þær kröfur sem fram komu í kafla 0.2.7 í samningskaupagögnum. Skilyrði um almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga hafi ekki verið hæfisskilyrði fyrir þátttakendur. Almennt geri varnaraðili Strætó bs. ráð fyrir að þeir sem taki að sér akstursþjónustu uppfylli viðeigandi lagalegar skyldur. Þær athugasemdir sem kærendur hafi við lagareglur á sviði fólksflutninga heyri undir Samgöngustofu en ekki kærunefnd úboðsmála. Þó er tekið fram að varnaraðilinn Ný-Tækni ehf. hafi lagt fram umsókn um rekstrarleyfi áður en framsalið átti sér stað og sé handhafi slíks leyfis frá 11. maí 2015. Eigendur fyrirtækisins hafi starfað við leigubílaakstur um árabil og m.a. sinnt verkefnum fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra á undanförnum árum. Þá hafnar varnaraðili Strætó bs. því að breyta þurfi skráningu hópbifreiðar sem breytt sé til þess að hún geti flutt farþega í hjólastól. Þess beri einnig að geta að samningskaupagögn hafi ekki áskilið að bifreiðastjórar uppfylltu kröfur kafla 1.2.2 fyrir undirritun samnings, nægjanlegt sé að uppfylla kröfurnar meðan þjónustan sé veitt.

            Varnaraðili Strætó bs. telur að ekkert þeirra tilvika sem talin séu upp í 2. mgr. 100. gr. a laga um opinber innkaup nái til framsals á réttindum og skyldum samkvæmt samningi og þannig sé ekki hægt að lýsa samninginn óvirkan.

IV

Um innkaup varnaraðila Strætó bs. á akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna gilti tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu (veitutilskipunin), sbr. reglugerð nr. 755/2007 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti. Samkvæmt 2. mgr. 91. gr. laga um opinber innkaup er hlutverk kærunefndar útboðsmála að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunar 2004/17/EB sem þar er vísað til. Er nefndin því bær til að fjalla um kæruna.

            Svo sem áður greinir lýtur kæran að ákvörðun varnaraðila Strætó bs. um að heimila varnaraðilanum Ný-Tækni ehf. að taka við réttindum og skyldum Kynnisferða ehf. samkvæmt áðurlýstum rammasamningi. Ekki var um það að ræða að birt væri opinberlega tilkynning um gerð samnings við Ný-Tækni ehf. Verður upphaf kærufrests því ekki miðað við slíka tilkynningu, svo sem gert er ráð fyrir í 2. tölulið 1. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013. Þótt fyrir liggi að einn upphaflegra kærenda hafi fengið vitneskju um téð framsal 12. febrúar 2015 er ekki fram komið að svo hafi átt við um aðra kærendur. Hafa varnaraðilar þannig ekki sýnt fram á að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var móttekin hjá nefndinni 25. mars 2015.

V

Að íslenskum rétti gildir sú meginregla að aðili að gagnkvæmum samningi getur almennt ekki losnað undan skyldum sínum nema með samþykki gagnaðila. Er það þannig jafnan háð samþykki gagnaðila ef aðili slíks samnings óskar eftir því að nýr aðili komi að fullu í stað hans. Hvorki í lögum um opinber innkaup, eða þeim gerðum EES-samningsins sem þar er vísað til, koma fram sérstakar takmarkanir á heimild opinberra aðila til að samþykkja aðilaskipti að samningum sem þeir hafa gert á grundvelli reglna um opinber innkaup. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laganna gildir sú regla um gerð einstakra samninga á grundvelli rammasamnings að þá skal aðeins gera við fyrirtæki sem upphaflega voru aðilar rammasamnings. Þetta ákvæði verður ekki skýrt svo rúmt að það sé því til fyrirstöðu að nýr aðili komi í stað annars á grundvelli einkaréttarlegs framsals rammasamnings sem fram fer með samþykki kaupanda.

Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að reglur um opinber innkaup leggi ekki bann við aðilaskiptum að opinberum samningum, enda séu slík aðilaskipti ekki andstæð þeim markmiðum opinberra innkaupa sem fram koma í 1. gr. laganna. Hins vegar leiðir af reglum um opinber innkaup að gæta ber jafnræðis fyrirtækja við ákvörðum um hvort aðilaskipti skuli heimiluð að samningi sem gerður hefur verið á grundvelli reglna um opinber innkaup. Verður nýr aðili samnings þannig að fullnægja öllum kröfum upphaflegra útboðsskilmála, þ.á m. um fjárhagslega og tæknilega getu, án þess skyldum aðila samkvæmt samningi sé haggað. Aðilaskipti að samningi mega þannig aldrei leiða til þess að við skyldum viðsemjanda kaupanda taki fyrirtæki sem af einhverjum ástæðum hefði borið að vísa frá upphaflegu innkaupaferli. Þá mega aðilaskipti að samningi ekki leiða til þess að breytingar séu gerðar á grundvallaratriðum samnings, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 76. gr. laga um opinber innkaup.

            Samkvæmt framangreindu verður ekki á það fallist að varnaraðilanum Strætó bs. hafi verið óheimilt að heimila framsal téðs rammasamnings af hálfu Kynnisferða ehf. Var slík heimild til framsals til samræmis við almennar reglur og áréttuð í grein 0.3.11 í samningskaupagögnum, svo sem áður greinir. Hins vegar bar téðum varnaraðila að kanna hvort varnaraðilinn Ný-Tækni ehf. uppfyllti allar skilmála upphaflegs rammasamningsútboðs.

            Í málinu liggur fyrir að Ný-Tækni ehf. breytti tilgangi sínum úr „önnur þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni“ í „önnur bókunarþjónustu og starfsemi tengd ferðaþjónustu“ 17. febrúar 2015. Þá fékk fyrirtækið rekstrarleyfi til fólksflutninga 17. mars 2015 en samningur um aksturinn við varnaraðilann Strætó bs. var undirritaður 11. febrúar 2015 og tók strax gildi. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðilinn Ný-Tækni ehf. hafi ekki haft yfir tilskildum rekstrarvögnum að ráða þegar fyrirtækið tók við skyldum Kynnisferða ehf. eða haft nauðsynleg leyfi til starfseminnar. Þá lá ekki fyrir hvaða starfsmenn myndu sinna þeirri þjónustu sem hér var um að ræða. Eins og stöðu fyrirtækisins var háttað á þeim tíma sem því var ætlað að taka við skyldum Kynnisferða ehf., telur nefndin því bersýnilegt að það hafi ekki uppfyllt skilyrði upphaflegs rammasamningsútboðs þannig að það hafi mátt verða nýr aðili rammsamningsins í stað Kynnisferða ehf. Braut varnaraðilinn Strætó bs. þannig gegn jafnræðisreglu laga um opinber innkaup með að samþykkja aðilaskipti að samningnum með þeim hætti sem áður er gerð grein fyrir.

VI

Hvað sem líður áðurlýstu broti varnaraðilans Strætó bs. verður ekki litið svo á að gerður hafi verið nýr samningur án undanfarandi lögmæts innkaupaferils þannig að heimildir til að lýsa samninginn við varnaraðilann Ný-Tækni ehf. óvirkan geti átt við.  Jafnframt liggur fyrir að ólögmæti umræddrar ákvörðunar varnaraðilans Strætó bs. getur ekki haggað við gildi framsalsins til Ný-Tækni ehf., sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 100. gr. laga um opinber innkaup.

            Kærendur eru þegar aðilar að rammasamningi um þá þjónustu sem hinn kærði samningur lýtur að. Verður því ekki talið að kærendur hafi orðið fyrir tjóni við að undirbúa tilboð eða taka þátt í útboði þannig að þeim beri bætur úr hendi varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga um opinber innkaup. Hins vegar er ekki útilokað að brot varnaraðilans Strætó bs. hafi leitt til þess að kærendur hafi orðið af viðskiptum á grundvelli rammasamningsins. Telur nefndin af þessum ástæðum rétt að láta uppi á skaðabótaskyldu varnaraðilans, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði. Er með þeirri niðurstöðu engin afstaða tekin til nánara umfangs tjóns kærenda.

Eftir atvikum málsins þykir rétt að varnaraðili Strætó bs. greiði kærendum sameiginlega málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

Úrskurðarorð:

Það er álit kærunefndar útboðsmála að varnaraðili Strætó bs. sé skaðabótaskyldur gagnvart kærendum, Efsta Hóli ehf., All Iceland Tours ehf. og Aldey ehf., vegna samnings við Ný-Tækni ehf. 11. febrúar 2015, um tilfallandi akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna. Að öðru leyti er kröfum kærenda hafnað.

Varnaraðili Strætó bs. greiði kærendum sameiginlega 800.000 krónur í málskostnað.

                       Reykjavík, 13. ágúst 2015.

                                                                                       Skúli Magnússon

                                                                                       Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                       Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum