Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Mál nr. IRR14050225

 Ár 2015, þann 21. janúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR14050225

 

Kæra WOW Air ehf.

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 23. maí 2014 barst ráðuneytinu kæra WOW Air (hér eftir nefnt WOW) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli [M] og [D] (hér eftir nefnd M&D) nr. 10/2014 frá 11. mars 2014. Með ákvörðun Samgöngustofu var WOW gert að greiða M&D bætur að fjárhæð 400 evrur hvoru samkvæmt b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012, vegna seinkunar á flugi X9403 frá Keflavík til Parísar þann 16. ágúst 2013. Einnig var WOW talið hafa brotið gegn ákvæðum 14. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012, með því að upplýsa ekki M&D um réttindi þeirra samkvæmt reglugerðinni. Krefst WOW þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. M&D hafa ekki látið málið til sín taka við meðferð þess hjá ráðuneytinu og lítur ráðuneytið svo á sem í því felist að krafist sé staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

WOW annaðist flug X9403 sem áætlað var frá Keflavík til Parísar þann 16. ágúst 2013. Var áætlaður brottfarartími klukkan 6.40 en raunverulegur brottfarartími var klukkan 23.50. Er deilt um bótaábyrgð WOW vegna seinkunarinnar.

Hinn kærði úrskurður er svohljóðandi:

I.                    Erindi

Þann 2. september sl. barst Samgöngustofu kvörtun frá [M] og [D]. Þau (hér eftir nefnd kvartendur) áttu bókað far með flugi WOW air (WOW) nr. X9-403 frá Keflavík til Parísar. áætlaður brottfarartími var kl. 06:40 en raunverulegur brottfarartími var kl. 23:50. Í kvörtuninni kemur fram að kvartendum hafi ekki verið afhentar upplýsingar um réttindi farþega. Kvartendur krefjast skaðabóta vegna seinkunarinnar í samræmi við reglugerð EB nr. 264/2004.

II.                  Málavextir og bréfaskipti

Samgöngustofa sendi WOW kvörtunina til umsagnar með tölvupósti þann 10. október og ítrekaði kröfu um umsögn þann 5. desember. Þann 17. janúar sl. barst svar frá WOW.

„Að morgni 16. ágúst 2013 rakst hleðslubíll frá afgreiðsluaðila WOW air utan í hreyfilhlíf A320 vélar sem er í rekstri félagsins með þeim afleiðingum að dæld myndaðist. Tæknistjóri og viðhaldsdeild mat tjónið svo að vélin væri ekki flughæf fyrr en skipt hefði verið um hreyfilhlíf.

Hlífina var hægt að fá frá Bretlandi en vegna stærðar var ekki hægt að flytja hlífina nema með sérstakri fraktvél til landsins og kom hún með hlutinn til Keflavíkur að morgni 17 ágúst. Eftir að viðgerð hafði farið fram var flugvélin tilbúin til flugs aftur, en það var ekki fyrr en næstum 48 tímum eftir að óhappið átti sér stað.

Ljóst var strax að morgni 16. ágúst að þetta myndi leiða til mikillar röskunar á flugum félagsins eða allt þar til flugvélin væri flughæf að nýju. Félagið fór strax í að leita af leiguvél til að lágmarka þá seinkun sem varð á áætlun félagsins en því miður fannst engin leiguflugvél með svo stuttum fyrirvara og því var ekkert annað í stöðunni en að nýta okkur eigin flugvélar og þá með seinkun á flestum flugum. Þau flug sem urðu fyrir hvað mestri seinkun voru:

16AUG X9-404/405 KEF-CDG-KEF

16AUG X9-445/446 KEF-AMS-KEF

Ofangreind flug fóru í seinkun sem var á bilinu sjö til tólf klukkustundir en öðrum flugum þessa tvo daga seinkaði á bilinu frá einni klukkustund til þriggja klukkustunda. Allt flug var komið á áætlun 48 tímum eftir óhappið, eða frá morgni 18. ágúst.

Félagið gerði allt sem hægt var, eftir bestu getu, til að aðstoða þá farþega sem urðu fyrir töfum vegna þessara óhapps. Farþegum var bæði boðið upp á hressingu á flugvöllum sem og gistingu á hótel meðan beðið var, ef töfin var löng. Tölvupóstur var einnig sendur á alla farþega sem og skilaboð í síma.

Við hjá WOW air teljum að umrædd töf falli ekki undir bótaskyldu skv. EU 261/2004 og vísum í eftirfarandi.:

Flugfélag er ekki skaðabótaskylt í ófyrirsjáanlegum og ótrúlegum (e. extraordinary circumstances) atvikum sem hefðu geta átt sér stað þrátt fyrir allar varúðarráðstafanir. Á fundi EU National Enforcement Bodies (NEB) í apríl s.l. var gefin út leiðbeinandi listi um hvað getur verið túlkað sem „extraordinary circumstances“. Þar segir:

„Damage to the aircraft primary or secondary structure (e.g. metallic or composite structure) caused by third parties on the ground prior to the departure of a flight requiring immediate assessment and/or repair. For example a collision between an airport vehicle and an aircraft.“

Kvartanda var send umsögn WOW Air til umsagnar 20. janúar en svar barst ekki.

III.               Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998, eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Um réttindi farþegavegna seinkunar á flugi er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er Flugmálastjórn Íslands (nú Samgöngustofa) sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað um í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram með skýrum hætti að flugrekandi skuli greiða bætur skv. 7. gr. reglugerðarinnar vegna tafa eða seinkunar eins og átt getur við þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009, í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð EB nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Af þessu leiðir að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, eiga rétt á bótum skv. 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þetta dómafordæmi var staðfest með dómi Evrópudómstólsins í máli C-11/11 og hefur nú einnig verið lögfest með 6. gr. reglugerðar nr. 1048/2012.

Loftferðalög nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 er réttur farþega til skaðabóta skv. 7. gr. reglugerðarinnar sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs og ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07 Friederike Wallentin-Hermann v Alitalia og almennar meginreglur um túlkun lagaákvæða.

Kvartendur áttu bókað far með flugi WOW X9-403 frá keflavík til Parísar. Fyrir liggur að rúmlega 17 klst. seinkun varð á fluginu. Í umsögn WOW er vísað til þess að seinkun flugsins sé að rekja til þess að hleðslubíl undirverktaka WOW á Keflavíkurflugvelli hafi verið ekið á eina af þeim Airbus 320 flugvélum, sem nýttar eru í áætlunarflug hjá félaginu, Vélin hafi dældast og þarfnaðist hún því viðgerðar. Hafi þetta valdið þessari seinkun á flugi kvartenda. WOW telur að um óviðráðanlegar aðstæður sé að ræða og vísar máli sínu til stuðnings til lista sem byggir á niðurstöðu fundar framkvæmdaraðila með reglugerð EB nr. 261/2004 (EU National Enforcement Bodies (NEB)) 14. apríl sl.

Að því er tilvísun í lista framkvæmdaraðila með reglugerð EB nr. 261/2004 (EU National Enforcement Bodies) varðar vill Samgöngustofa benda á að skýrt og greinilega er tekið fram að sá listi er ekki bindandi. Samgöngustofa leggur sjálf mat á það hvort óviðráðanlegar aðstæður séu fyrir hendi.

Álitaefnið í þessu máli snýr að því hvort að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið fyrir hendi skv. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Í 3. mgr. er tekið fram að flugrekanda beri ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Í 14. gr. aðfararorða reglugerðar EB nr. 261/2004 er fjallað um óviðráðanlegar aðstæður.  Segir þar að óviðráðanlegar aðstæður geti t.a.m. skapast af völdum ótryggs stjórnmálaástands, veðurskilyrða sem samræmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs, öryggisáhættu, ófullnægjandi flugöryggis og verkfalla sem hafa áhrif á starfsemi flugrekandans. Eins og að framan segir er loftferðalögum nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Sé flugi aflýst eða mikil seinkun verður á brottför þess er meginreglan sú að farþegar eigi rétt til skaðabóta skv. 7. gr. reglugerðarinnar. Ákvæði 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, þar sem fram kemur að flugrekanda beri ekki skylda til að greiða skaðabætur sé flugi aflýst vegna óviðráðanlegra aðstæðna, sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir, er undantekning frá þeirri meginreglu sem túlka verður þröngt. Evrópudómstóllinn hefur túlkað hugtakið óviðráðanlegar aðstæður í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 í nokkrum dómum sínum, þar á meðal mál máli c-549/07 Friederike Wallentin-Hermann v Alitalia. Þar taldi dómstóllinn  að við túlkun á því, hvort óviðráðanlegar aðstæður væru fyrir hendi eða ekki, bæri m.a. að gera greinarmun á því, hvað teldist hluti af venjulegri starfsemi flugrekanda og hvað ekki. Til þess að atvik teldist til óviðráðanlegra aðstæðna yrði það að falla utan þess sem talið yrði til venjulegrar starfsemi flugrekanda. Bilun í hreyfli þurfi því ekki að valda því að flugrekandi sé undanþegin frá því að greiða skaðabætur. Það myndi hins vegar vera niðurstaðan ef aðstæðurnar eigi rætur að rekja til atvika sem ekki séu hluti af venjulegri starfsemi flugrekanda. Þar undir gæti t.d. fallið hulinn framleiðslugalli eða tjón af völdum skemmdar- eða hryðjuverks.

Samgöngustofa lítur svo á að starf tengt hleðslu farangurs í flugvélar sé þáttur í venjulegri starfsemi flugrekanda. Leggja verður áherslu á að 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 mælir fyrir um bótaskyldu nema sýnt sé fram á að ekki hefði verið hægt að afstýra aðstæðum jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samgöngustofa telur að þáttur í því að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 hljóti að fela í sér að tryggja að staðið sé að starfsemi í kringum hleðslu flugvéla, með fullnægjandi hætti. Óhappið sem hér olli hinnu umdeildu seinkun átti sé stað vegna mannlegra mistaka starfsmanns á vegum WOW. Ekki þykir rétt að láta farþega bera hallann af því. Vísar Samgöngustofa einnig í þá túlkunarreglu neytendaréttar að skýra beri allan vafa neytanda í hag. Það er því niðurstaða Samgöngustofu að WOW beri að greiða kvartendum 400 evrur á mann skv. b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Samgöngustofa bendir einnig á að í 13. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 er tekið fram að þegar starfandi flugrekandi greiðir skaðabætur eða uppfyllir aðrar skuldbindingar samkvæmt þeirri reglugerð skuli ekkert ákvæði reglugerðarinnar túlkað þannig að það takmarki rétt hans til að krefjast skaðabóta frá hvaða einstaklingi sem er, þ.m.t. þriðju aðilum, í samræmi við gildandi lög.

Það er lykilatriði til að farþegar geti nýtt rétt sinn og tekið afstöðu til þeirra valkosta sem eiga að standa þeim til boða, að þeir séu upplýstir um rétt sinn eins og skylt er skv. 14. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1048/2012. Í kvörtuninni kemur fram að WOW hafi ekki afhent kvartendum skriflegar reglur um skaðabætur og aðstoð eins og skylt er. Er það mat Samgöngustofu að WOW hafi ekki uppfyllt skyldu sína skv. 14. gr. gagnvart kvartendum og hafi með því athafnaleysi brotið gegn skýru orðalagi ákvæðisins.

Ákvörðunarorð:

WOW air skal greiða hvorum kvartanda bætur að upphæð 400 evrur skv. b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

WOW air hefur brotið gegn ákvæðum 14. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012, með því að upplýsa ekki kvartendur um réttindi sín samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004. Þeim fyrirmælum er beint til WOW air að félagið fari að ákvæðum 14. gr. reglugerðarinnar eftir því sem við á gagnvart hverjum farþega.

 

III.       Málsástæður WOW, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra WOW barst ráðuneytinu með bréfi dags. 21. maí 2014 og var móttekin þann 23. sama mánaðar.

Í kæru er á það bent að akstursfæriband á vegum afgreiðsluaðila á Keflavíkurflugvelli hafi rekist utan í hreyfilhlíf flugvélarinnar sem annast hafi átt flug X9-403 frá Keflavík til Parísar þann 16. ágúst 2013. Hafi áreksturinn haft bein áhrif á það flug. Hafi WOW leitað leiða til að lágmarka röskun á áætlunum félagsins en ekki hafi reynst mögulegt að finna leiguvél með svo skömmum fyrirvara. Hafi fluginu seinkað um 17 klukkustundir og hafi þá verið notast við aðra vél. Er frá því greint að farþegum hafi verið tilkynnt um seinkunina á skjám í flugstöðinni og í hátalakerfi. Hafi starfsfólk WOW í flugstöðinni veitt farþegum upplýsingar eftir því sem þær lágu fyrir og send hafi verið tölvuskeyti og skilaboð í síma farþega. Hafi farþegar þannig verið upplýstir um rétt þeirra og WOW gert allt til að draga úr óþægindum þeirra. Telur WOW niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar ranga og að hún byggist á staðhæfingum sem eigi ekki við rök að styðjast auk þess sem lagagrundvöll skorti.

WOW vísar til þess að um flugafgreiðslu gildi tiltekin lög og reglur sem m.a. SGS hafi eftirlit með að sé fylgt. WOW sé flugvallarnotandi í skilningi reglugerðar um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum nr. 1186/2012 og hafi starfsleyfi sem flugrekandi. Hafi WOW hins vegar ekki tilskildar heimildir til að stunda flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvellim, m.a. hlaðafgreiðslu, en til þess þurfi samþykki SGS, sbr. 14. gr. reglugerðarinnar. Sé því rangt að líta svo á að hlaðafgreiðsla sé þáttur í venjulegri starfsemi flugrekanda þar sem lög og reglur mæli fyrir um að þetta séu aðskildir þættir. WOW hafi keypt þessa þjónustu af lögaðilanum APA ehf. (Airport Associates) en akstursfæribandið sé samkvæmt lögregluskýrslu skráð á afgreiðsluaðilann IGS ehf. Séu bæði þau fyrirtæki veitendur flugafgreiðslu í skilningi reglugerðar nr. 1186/2012 og hafi fengið samþykki sem slíkir frá SGS. Séu hvorki APA né IGS tengd WOW og sama eigi við starfsmann sem stýrði ökutækinu þegar áreksturinn varð. Sé því óhrekjanlegt að starfsmaður á vegum annars lögaðila hafi valdið árekstrinum. Þá er á það bent að Isavia hafi sett sérstakar reglur sem gildi um flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Einnig séu í gildi öryggisreglur fyrir Keflavíkurflugvöll þar sem m.a. sé að finna reglur um akstur á flughlaði. Megi WOW ganga út frá því að lögaðili sem annist flugafgreiðslu uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til starfans og að eftirlit með starfseminni sé fullnægjandi. Sé rangt að halda því fram að WOW hafi verið til þess bært að grípa til einhverra ráðstafana. Sé það á verksviði annarra að tryggja að staðið sé að starfsemi í kringum hleðslu flugvéla með fullnægjandi hætti. Geti flugrekendur ekki borið hlutlæga bótaábyrgð á tjóni sem valdið er af viðkomandi veitanda flugafgreiðslu. Telur WOW ljóst að flugafgreiðsla, þ.m.t. hlaðafgreiðsla, sé ekki þáttur í venjulegri starfsemi flugrekenda og að WOW hafi verið fyrirmunað að gera ráðstafanir í tengslum við hlaðafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli umfram það að fylgja settum lögum og reglum sem notandi flugafgreiðslunnar. Hafi óhappið sem valdið hafi umræddri seinkun orðið vegna mistaka starfsmanns á vegum annars lögaðila sem hafi engin tengsl við WOW. Sé því útilokað að leggja skaðabótaskyldu á WOW. Þá sýni þetta að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti.

Í kæru er á það bent að WOW hafi ekki heimildir til annars en að haga starfsemi sinni eftir því sem gildandi lög og reglur mæli fyrir um. Því sé vandséð hvernig WOW hafi átt að vera mögulegt að afstýra því að starfsmaður annars lögaðila skyldi aka akstursfæribandi á loftfarið.  Gera verði þá kröfu til stjórnvalda að rökstutt sé með hvaða hætti WOW hefði getað afstýrt þessum aðstæðum. Engan slíkan rökstuðning sé að finna í hinni kærðu ákvörðun. Þar sé hins vegar vísað í dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-549/07. Þar hafi verið fjallað um flókna vélarbilun sem orsakaðist ekki af því að þriðji aðili ók ökutæki á loftfarið og sé fordæmisgildið því takmarkað. Er ítrekað að flugafgreiðsla sé ekki hluti af venjulegri starfsemi WOW og félagið hafi ekki heimild til slíkrar starfsemi. Þá taki dómstóllinn fram að óviðráðanleg atvik séu m.a. atvik sem lúti ekki stjórn flugrekandans. Einnig taki dómstóllinn fram að það verði ekki lagt á flugrekanda að grípa til aðgerða sem myndu þýða ólíðandi fórnir af hans hálfu í ljósi getu hans á þeim tímapunkti til að koma í veg fyrir aðstæðurnar sem leiddu til seinkunarinnar. Hafi WOW ekki verið mögulegt að grípa til aðgerða til að afstýra árekstrinum. Mæli hvorki lög né reglur fyrir um hlutlæga bótaábyrgð WOW. Þá er á það bent að M&D hafi verið upplýst um rétt þeirra og þá aðstoð sem þeim stóð til boða.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 30. maí 2014.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi dags. 20. júní 2014. Í umsögninni kemur fram að SGS fallist ekki á röksemdir WOW og telji að ekki hafi verið um að ræða slíkar óviðráðanlegar aðstæður að flugrekanda sé ekki skylt að greiða skaðabætur. Er á það bent að dæld á flugvél vegna utanaðkomandi hlutar, eins og hlaðafgreiðslubíls, sé eitthvað sem allir flugrekendur geti átt von á að gerist. Það verði því að teljast hluti af venjulegri starfsemi flugrekanda og gera verði þær kröfur að hann geti brugðist hratt við þeim aðstæðum. Vísar SGS til ákvörðunar Flugmálastjórnar Íslands nr. 16/2012 sem staðfest hafi verið af ráðuneytinu. Þá vísar SGS til þeirrar meginreglu neytendaréttar að skýra beri allan vafa neytanda í hag. Einnig bendir SGS á 13. gr. reglugerðar EB nr. 261/2014 þar sem tekið er fram að þegar starfandi flugrekandi greiðir skaðabætur eða uppfyllir aðrar skuldbindingar samkvæmt þeirri reglugerð skuli ekkert ákvæði reglugerðarinnar túlkað þannig að það takmarki rétt hans til að krefjast skaðabóta frá hvaða einstaklingi sem er, þ.m.t. þriðju aðilum, í samræmi við gildandi lög. Verði flugrekandi fyrir tjóni eða töfum vegna athafnar eða athafnaleysis þriðja aðila verði hann að gera sitt tjón upp við þann aðila óháð lögbundnum réttindum farþega. Telur SGS að ekki hafi verið um að ræða óviðráðanlegar aðstæður í skilningi reglugerðar EB nr. 261/2004. Bendir SGS á að þótt litið yrði svo á sem um óviðráðanlegar aðstæður hefði verið að ræða þegar atvikið átti sér stað hafi það ekki víxlverkan á það atvik sem um ræðir. Þessu til stuðnings megi benda á ákvörðun nr. 12/2011 sem staðfest hafi verið af ráðuneytinu. Þá bendir SGS á að orðalag 2. mgr. 14. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sé skýrt. Skuli flugrekandi afhenda farþega sem lendir í a.m.k. tveggja klukkustunda seinkun skriflegar reglur um skaðabætur og aðstoð í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Að mati SGS sé ekki fullnægjandi að senda tölvupóst eða vísa almennt til þess að á flugvöllum sé séð til þess að upplýsingarnar séu aðgengilegar. Sé það mat SGS að WOW hafi ekki uppfyllt skyldu sína samkvæmt 14. gr. gagnvart M&D.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 7. júlí 2014 var WOW gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum SGS. Bárust þau ráðuneytinu með bréfi WOW dags. 22. júlí 2014.

Í andmælum sínum bendir WOW á að staðreynd málsins sé sú að flug M&D hafi tafist þar sem akstursfæriband á vegum annars lögaðila hafi rekist utan í hreyfilhlíf flugvélarinnar. Ekki hafi verið um víxlverkun að ræða líkt og haldið sé fram í umsögn SGS heldur hafi áreksturinn haft bein áhrif á flug M&D. Þá er á það bent að starf tengt hleðslu farangurs í flugvélar sé ekki þáttur í venjulegri starfsemi flugrekanda og ekki hafi verið um starfsmann á vegum WOW að ræða. hafnar WOW túlkun SGS og bendir á að dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-549/07 styðji í engu túlkun stofnunarinnar. Telur WOW útilokað að komast að þeirri niðurstöðu að það sé venjulegur þáttur í starfsemi flugrekanda að utanaðkomandi hlutir dældi flugvélar, jafnvel þegar þær eru kyrrstæðar á flugvelli og umræddur hlutur sé akstursfæriband sem stýrt er af starfsmanni annars lögaðila.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 7. júlí 2014 var M&D gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfum til aðila málsins dags. 18. ágúst 2014 var tilkynnt að málið væri tekið til úrskurðar.

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins

Krafa WOW lýtur að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi þar sem um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða. Hafa sjónarmið WOW verið rakin hér að framan. M&D hafa ekki látið málið til sín taka við meðferð þess hjá ráðuneytinu og lítur ráðuneytið svo á sem í því felist að krafist sé staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun SGS fjallar reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar er SGS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita er fjallað í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerðina þannig að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi samkvæmt 6. gr. eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Liggur þannig fyrir að verði farþegar fyrir þriggja tíma seinkun á flugi eða meira sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekandans kvað á um geta þeir átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.

Fyrir liggur að ástæða seinkunar á flugi X9-403 frá Keflavík til Parísar þann 16. ágúst 2013 var til komin vegna þess að hleðslubíll frá afgreiðsluaðila WOW á Keflavíkurflugvelli rakst utan í hreyfilhlíf flugvélar þeirrar sem annast átti umrætt flug. Við það myndaðist dæld á flugvélina og viðhaldsdeild mat það svo að flugvélin væri ekki flughæf fyrr en skipt hefði verið um hreyfilhlíf. Í hinni kærðu ákvörðun kemst SGS að því að starf tengt hleðslu farangurs í flugvélar sé þáttur í venjulegri starfsemi flugrekanda og að flugrekanda beri að tryggja að staðið sé að hleðslu flugvéla með fullnægjandi hætti. Hafi óhappið orðið vegna mistaka starfsmanns WOW og þyki ekki rétt að láta farþega bera hallann af því. Þá beri að skýra allan vafa neytanda í hag. WOW byggir hins vegar á því að óhappinu hafi verið valdið af starfsmanni þriðja aðila og ber því við að um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða.

Ráðuneytið bendir á að samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er með reglugerðinni leitast við að auka neytendavernd með því að skýra réttindi farþega og kveða á um meðferð kvartana með það fyrir augum að einfalda málsmeðferð og auðvelda úrlausn mála. Þá bendir ráðuneytið á að það er meginregla samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 að farþegar eigi rétt á skaðabótum verði þeir fyrir aflýsingu eða mikilli seinkun á flugi. Sönnunarbyrði fyrir því að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið uppi hvílir alfarið á flugrekandanum og ber honum að sýna fram á að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir aflýsinguna eða seinkunina. Takist sú sönnun ekki ber flugrekandinn hallann af þeim sönnunarskorti. Þar sem reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt. Þá bendir ráðuneytið á að í dómi Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07, hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að tæknilegt vandamál eitt og sér teljist ekki óviðráðanlegar aðstæður sem réttlæti niðurfellingu á skyldu til greiðslu skaðabóta. Í því sambandi vísaði dómstóllinn í 14. inngangslið reglugerðar EB nr. 261/2004 þar sem fram kemur að slíkar aðstæður geti t.a.m. skapast af völdum ótryggs stjórnmálaástands, veðurskilyrða sem samrýmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs, öryggisáhættu, ófullnægjandi flugöryggis og verkfalla sem hafi áhrif á starfsemi flugrekandans. Verði að telja það hluta af venjulegri starfsemi flugrekanda að leysa tæknileg vandamál sem koma í ljós við viðhald eða stafa af vanrækslu á viðhaldi. Ef aðstæður eiga hins vegar rætur að rekja til atvika sem eru ekki hluti af venjulegri starfsemi flugrekanda sé hann undanþeginn frá því að greiða skaðabætur.

Ráðuneytið lítur svo á sem starfsemi tengd hleðslu flugvéla sé óhjákvæmilegur þáttur í rekstri flugrekanda og gildi einu þótt slík þjónusta sé keypt af þriðja aðila. Af þessum ástæðum falli einnig óhöpp sem tengjast slíkri starfsemi eða notkun tækja sem nauðsynleg eru til að annast starfsemina undir venjulega starfsemi flugrekenda en ekki undir óviðráðanlegar aðstæður, sbr. það sem að framan er rakið. Með vísan til þessa er það mat ráðuneytisins að WOW hafi ekki tekist sönnun þess að um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða sem leiddu til seinkunar á flugi X9-403. Eiga M&D því rétt á skaðabótum að fjárhæð 400 evrur hvort sbr. b-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Þá tekur ráðuneytið undir það með SGS að WOW hafi ekki kynnt farþegum réttindi sín með fullnægjandi hætti. Komi þannig fram með skýrum hætti í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 að flugrekandi skuli afhenda farþega sem lendir í a.m.k. tveggja klukkustunda seinkun skriflegar reglur um skaðabætur og aðstoð í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og hafi þess ekki verið gætt af hálfu WOW.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum