Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsmál nr. 9/2014, úrskurður 4. febrúar 2015

Ár 2015, miðvikudaginn 4. febrúar, er í Matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 9/2014

Landsnet hf.

gegn

db. Þórhalls Vilmundarasonar, Þorvaldi Gylfasyni 

og Baldri og Guðrúnu Vilmundarbörnum.

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, dómstjóri, og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum Magnúsi Leopoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnemi er Landsnet hf. kt. 580804-2410, Gylfaflöt 9, Reykjavík

Eignarnámsþolar eru Ragnheiður Torfadóttir, kt. 010537-2239 v/db. Þórhalls Vilmundarsonar, kt. 290324-099, Ingólfsstræti 14, Reykjavík, Þorvaldur Gylfason, kt. 180751-7699, Lindargötu 33, Reykjavík, Guðrún Vilmundardóttir, kt. 250174-2919, Mímisvegi 2, Reykjavík og Baldur Hrafn Vilmundarson, kt. 180881-3879, Mímisvegi 2, Reykjavík.

 

Málsmeðferð nefndarinar

Með bréfi dagsettu 14 mars 2014 óskaði eignarnemi eftir heimild til umráðatöku verðmætis í landi Sjónarhóls á Vatnsleysuströnd.

Nefndin hélt fund með eignarnámsþolum og lögmanni eignarnema 27. nóvember sl. þar sem lögð var fram beiðni eignarnema ásamt fylgiskjölum. Var eignarnámsþolum að svo búnu veittur frestur til greinargerðar til 8. janúar 2015 til framlagningar greinargerðar. Þá var eignanema veittur frestur til 12. desember 2014 til framlagningar greinargerðar. Greinargerð eignarnema ásamt fylgiskjölum bárust formanni 12. desember 2014 en voru lögð fram á fundi nefndarinnar 16. janúar 2014. Á þeim fundi mættu eignanámsþolarnir Ragnheiður Torfadóttir f.h. db Þórhalls Vilmundarsonar og Guðrún Vilmundardóttir en eignarnámsþolarnir Baldur Vilmundarson og Þorvaldur Gylfason höfðu forföll. Fram kom af hálfu eignarnámsþola að þær væru andvígar umráðatöku. Ragnheiður kynnti nefndinni sjónarmið meðaðila sinna um þetta efni í tölvubréfi 22 janúar sl. Þar sem var umráðatöku var andmælt en ekki fór fram flutningur né heldur voru lagðar fram greinargerðir af hálfu eignarnámsþola um þetta.

 

Kröfur eignarnema

Með bréfi dagsettu 14 mars sl. barst Matsnefnd eignarnámsbóta beiðni Landsnets hf. um að fyrirtækinu yrði heimilað að taka umráð verðmætis í landi Sjónarhóls á Vatnsleysuströnd, sem taka á eignarnámi skv. ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 24. febrúar sl.

Vísar eiganarnemi til þess að með fyrrnefndri ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 24. febrúar 2014, hafi Landsneti hf. verið heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) á landi undir 254 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, sbr. yfirlitskort á fylgiskjali 1 við framlagða eignarnámsbeiðni Landsnets hf., dags. 20. febrúar 2013. Eignarnámið sé heimilað til ótímabundinna afnota fyrir Landsnet hf. Um ákvörðun bóta fari samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973. í þessu skyni skuli eftirfarandi kvöð verða þinglýst á jörðina Sjónarhól (landnr. 130881), að teknu tilliti til fjölda burðamastra:

1.         Landsneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um land jarðarinnar Sjónarhóll, landnr. 130881 samtals 254 metra langa 220 kV rafmagnslínu, svokallaða Suðurnesjalinu 2. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til. Er heimild vegna háspennulinunnar og annarra réttinda samkvæmt yfirlýsingu þessari ótímabundin og sú kvöð sem lega mannvirkja þessara setur á jörðina óuppsegjanleg af hálfu landeiganda eða rétttaka hans.

2.         Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, sem er að jafnaði 46 metra breitt undir og við línuna. Landsnet hf. eða þeir, sem það felur slik störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum og rafmagnslínunni í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endumýjun síðar. Mega mannvirki þessi standa í landinu ótímabundið og óátalið af eigendum og ábúendum jarðarinnar.

3.         Landsneti hf. er heimilt að leggja ljósleiðara í jörðu meðfram rafmagnslínunni í eldri línuvegi. Sú kvöð fylgir að allt verulegt jarðrask kringum legu strengsins er óheimilt nema í samráði við og undir eftirliti Landsnets hf. Ljósleiðarinn skal að öðru leyti lúta sömu kvöðum og réttindum og rafmagnslínan.

Eignarnemi, Landsnet hf., hefur ákveðið að nýta sér án tafar eignarnámsheimild sína og vísist um hana að öðru leyti til ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um eignarnám, dags. 24. febrúar 2014, hér eftir vísað til sem heimildar Landsnets hf. til eignarnáms.

Um frekari afmörkun eignarnámsins tekur eignarnemi fram að það nái bara til frmangreindra þinglýstra eigenda jarðarinnar Sjónarhóls eða 66,66% eigenda jarðarinnar sem taki til samtals 27,1953% hluta þeirra réttinda sem Landsnet þurfi í óskiptu landi jarðarinnar vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Samningar hafi náðst við 2 aðra eigendur  jarðarinnar, og aðra eigendur að hinu óskipta landi Ásláksstaðahverfis (jörðin Ytri-Ásláksstaðir landnr. 130825), vegna 72,8047% þeirra réttinda sem Landsnet þurfi á að halda.

Hvorki hafi náðst samkomulag við framangerinda eigendur 27,1953% óskiptra réttinda jarðarinnar Sjónarhóls, eignarnámsþola, um umráðatöku né bætur vegna hinna afmörkuðu afnota Landsnets hf. af landi þeirra sem í eignamámsheimildinni felast. Eignarnemi hafi nú í höndum heimild til eignarnáms og sé þvi að lögum heimil umráðataka en eftir sé matsferli til ákvörðunar á þeim bótum sem matsnefnd eignarnámsbóta telji hæfílegar. Hagsmunir eignarnema af því að fá umráð hins eignamumda lands séu brýnir. Þannig sé brýnt að hefja framkvæmdir sem fyrst og þegar á þessu ári. Eðlilegt sé því að umráðataka fari fram þar sem ella sé þörf á því að málsmeðferð við ákvörðun bóta taki mjög skamman tíma.

Ljóst sé að eignarnemi hafi með samningum við landeigendur umráð stærsta hluta þess landsvæðis sem háspennulínan eigi að liggja um. Með eignarnámsheimildum, dags. 24. febrúar 2014, hafi eignarnemi fengið heimild til eignarnáms þess landsvæðis sem ekki hafi náðst samningar um og hafi því nú heimildir að lögum til alls þess landsvæðis sem nýta þurfi undir framkvæmdina Suðurnesjalínu 2. Eignarnemi hafi þannig aflað sér nauðsynlegra heimilda og sé brýnt að hefja framkvæmdir við fyrsta tækifæri, en að sjálfsögðu eftir að framkvæmdaleyfisferli er lokið og það liggur fyrir.

Eins og fram komi í heimild Landsnets til eignarnáms hafi skýrsla um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið send Skipulagsstofnun 10. ágúst 2009. Skipulagsstofnun hafi fallist á mat Landsnets hf. á umhverfisáhrifum en sett ákveðin skilyrði, sbr. álit Skipulagstofnunar um mat á umhverfísáhrifum vegna Suðvesturlínu, dags. 17. scptember 2009.

Jörðin Sjónarhóll tilheyri Sveitarfélaginu Vogum. Í aðalskipulagi þess fyrir árin 2008-2028, sem staðfest hafi verið hinn 23. febrúar 2010, sé gert ráð fyrir háspennulínum meðfram núverandi háspennulínu (Suðurnesjalínu 1). Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélaganna Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar sé einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni.

Með ákvörðun Orkustofnunar, 5. desember 2013, hafi Landsneti hf. verið veitt leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, í samræmi við 2. mgr. 9. gr. raforkulaga.

Sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13.-15. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010.

Ljóst sé að eignarnemi, Landsnet hf., hafi nú nýtt sér heimild til eignarnáms og muni ekki hverfa frá því, sbr. 15. gr. laga nr. 11/1973. Þá megi einnig vænta þess að mat verði umfangsmikið með vísan til 2. mgr. 14. gr. laganna, en um það megi vísa til þess að í heimild til eignarnáms sé fjallað um að málið sé umfangsmikið enda um að ræða 9 jarðir og fjölda landeigenda. Því kunni yfirráðataka á grundvelli 13. gr. laganna að valda mjög mikilli óvissu um framkvæmdatíma, en ítrekað sé að framkvæmdin hafi verið í undirbúningi um árabil og verulegir hagsmunir eignarnema séu fólgnir í umráðatöku nú þegar, sbr. umfjöllun að framan um áætlanir eignarnema og nauðsyn hans á því að ráðast í framkvæmdir þegar á þessu ári.

Krefjist eignarnámsþolar þess að Matsnefnd eignarnámsbóta ákveði hæfilega tryggingu fyrir væntanlegum bótum, sbr. ákvæði 1. mgr. 14. gr. laganna, muni eignarnemi reiða fram slíka tryggingu enda með henni tryggðir þeir hagsmunir sem Matsnefnd eignarnámsbóta sé ætlað að lögum að fjalla um, þ.e.a.s. hæfilegar bætur vegna eignarnáms framangreindra landsréttinda.

Með vísan til framangreinds sé þess farið á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að Landsneti hf. verði, á grundvelli 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms, nú þegar fengin umráð þeirra réttinda, sem eignarnámið tekur til, þar sem brýnt sé að framkvæmdir við háspennulínuna, Suðurnesjalínu 2, geti hafist sem fyrst og miklir hagsmunir í húfi, bæði hvað varði afhendingaröryggi raforku sem og fjárhagslegir hagsmunir eignarnema og samfélagsins alls.

 

Kröfur eignarnámsþola og sjónarmið þeirra

Í þessum þætti málsins mótmæla eignarnámsþolar því að eignanema verði heimilað að taka umráð hins eignarnumda.

 

Andsvör og sjónarmið eignarnema

Með ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 24. febrúar 2014, hafi eignarnema, Landsneti hf. verið heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám í landi jarða eignarnámsþola vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2).

Eignarnemi hafi ákveðið að nýta sér án tafar eignarnámsheimild sína eins og Matsnefndeignarnámsbóta hafi verið gert kunnugt um í framangreindum beiðnum frá 14. mars 2014.

Fyrir liggi eignarnámsákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, frá 24. febrúar 2014,  og hvíli hún á heimild í 23. gr. raforkulaga. Eignarnemi hafi á grundvelli 4. gr. laga nr. 11/1973 sent beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta um að mat fari fram og teljist hann þar með hafa neytt eignarnámsheimildar sinnar. Ekki sé neinn vafi um lagaheimild til eignarnámsins enda hafi Matsnefnd þegar tekið málið fyrir á fundi 27. nóvember sl., sbr. og 5. gr. lag nr. 11/1973.

Í 1. gr. laga nr. 11/1973 sé gildissvið laganna einskorðað við ákvörðun bóta vegna eignarnáms sem heimilað er í lögum. Skuli Matsnefnd eignarnámsbóta skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða eigi samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.

Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð óbreytt að lögum nr. 11/1973 (23. mál á 93. löggjafarþingi 1972 - þskj. 23),. sé fjallað um tilurð lagasetningarinnar og markmið hennar. Ljóst sé að meginviðfangsefni laganna sé að ákveða hvaða skilyrðum eignarnemi þurfi að fullnægja um greiðslu eða tryggingu eignarnámsbóta áður en hann fái umráð eignarnumins verðmætis. Eignarnemi hafi kynnt eignarnámsþolum ítarlega þau réttindi sem nauðsynleg séu vegna framkvæmdar með margvíslegum gögnum. Eignarnámsþolar séu því vel upplýstir um umfang eignarnámsins og eigi þess kost að koma með gögn og rök fyrir bótakröfum sínum.

Í greinargerðinni sé fjallað almennt um framkvæmd mats á eignarnámsbótum og þar komi fram að við setningu laga um framkvæmd eignarnáms megi að sjálfsögðu ekki einblína á hagsmuni eignarnámsþola, heldur verði að taka hæfilegt tillit til hagsmuna eignarnema. Segi svo orðrétt: „Honum má ekki íþyngja með óhóflegri greiðslubyrði vegna eignarnáms og ekki má eignarnám tefja um of framkvæmdir eignarnema.“

Af þessu sé ljóst að ekki beri síður að taka tillit til lögvarinna hagsmuna og málefnalegra sjónarmiða eignarnema við ákvarðanir matsnefndar eignarnámsbóta.

Samkvæmt 2. gr. laga um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004, hafi fyrirtækið það hlutverk að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003. Landsnet hf. beri ábyrgð á rekstri og kerfisstjórnun raforkukerfisins á Íslandi, sbr. sérstaklega 8. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Fyrirtækið hafi eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki og skuli það byggja upp flutningskerfi raforku á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku, sbr. sérstaklega 9. gr. laganna. Flutningskerfi raforku sé einn mikilvægasti þáttur innviða þjóðfélagsins, sbr. 1. gr. raforkulaga en þar er kveðið á um að markmið laganna sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.

Vísað er til eignarnámsákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 24. febrúar 2014 um nánari rök Landsnets hf. fyrir framkvæmdinni Suðurnesjalína 2 og þeirra sjónarmiða sem ákvörðunin byggi á.

Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið send Skipulagsstofnun hinn 10. ágúst 2009. Skipulagsstofnun hafi fallist á mat Landsnets hf. á umhverfisáhrifum en setti ákveðin skilyrði, sbr. álit Skipulagstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna Suðvesturlínu, dags. 17. september 2009.

Með ákvörðun Orkustofnunar, dags. 5. desember 2013, hafi Landsneti hf. verið veitt leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, í samræmi við 2. mgr. 9. gr. raforkulaga.

Í aðalskipulagi þeirra sveitarfélaga sem framkvæmdin nær til, Hafnarfjarðar, Sveitarfélagsins Voga, Reykjanesbæjar og Grindavíkur er gert ráð fyrir framkvæmdinni. Sótt var samtímis um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13.-15. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, til þessara fjögurra sveitarfélaga hinn 7. maí 2014.

Eignarnemi hafi náð samningum við meiri hluta landeigenda á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 um framkvæmdina. Staðhættir í landi eignarnámsþola séu þannig að jarðir þeirra liggi frá Vatnsleysuströndinni og langt upp í fjallgarða á Reykjanesskaga. Jarðirnar þveri þannig allar almennar leiðir til og frá Reykjanesi, hvort sem það séu samgöngur eða aðrir innviðir þjóðfélagsins. Fara verði um land þessara jarðeigenda og þar af leiðandi hvílir á þeim rík samfélagsleg skylda til að heimila nauðsynlegar framkvæmdir samfélagsins í landi þeirra eins og staðhættir séu í landi eignarnámþola.

Framkvæmdin fari um langan veg og um jarðir margra. Jafnræði sé með eignarnámsþolum og þeim landeigendum sem samið hafi um framkvæmdina. Áhrif séu sambærileg á landi sem ekki sé óskipulagt og óbyggt. Jarðir eignarnámsþola sem annarra séu nú þegar þveraðar af mannvirkjabelti sem á sé tvöföld og upplýst Reykjanesbraut og Suðurnesjalína 1, en Suðurnesjalína 2 verði samhliða henni og fjær Reykjanesbraut. Mikið óbyggt land sé norðan Reykjanesbrautar sem sé óskipulagt. Nýting landsins sé ekki fyrirsjáanleg í náinni framtíð.

Framkvæmdin útiloki ekki að tjón sé metið, loftlínur séu þess eðlis og reyndar sé hægt að rífa þær og flytja, en því fylgi að sjálfsögðu kostnaður. Engin rök mæli með því að beðið sé með framkvæmd sem eignarnemi beri ábyrgð á og sem valdi eignarnámsþola engri röskun á eignarráðum eða notum hans af fasteign sinni. Hér sé um takmörkuð og ótímabundin afnotaréttindi að ræða.

Eignarnemi hafi nú þegar fengið leyfi lögbundins leyfisveitanda og eftirlitsaðila samkvæmt raforkulögum, Orkustofnunar, vegna framkvæmdarinnar Suðurnesjalína 2.

Því er hafnað af hálfu eignarnema að eignarnám það sem hér er fjallað um sé gífurlega íþyngjandi fyrir eignarnámsþola. Hér sé um almenna skerðingu á eignarréttindum að ræða í almannaþágu sem komi með sama hætti við eignarnámsþola og aðra landeigendur og almenning á svæðinu. Undirbúningstími framkvæmda sé langur og lengist sífellt. Málsmeðferðarreglur hafi orðið flóknari á síðustu árum og kæruferli lengist. Eignarnemi hafi í hvívetna fylgt þeim reglum og lögum sem honum beri.

Eignarnámsþolar andmæli því að eignarnema verði fengin umráð hinna eignarnumdu réttinda, sem feli í sér almenna kvöð á land þeirra vegna raforkuflutnings í almannaþágu. Eignarnemi vísi eftir atvikum til umfjöllunar í matsbeiðni sinni og til umfjöllunar hér að framan um skýringu og túlkun á eignarnámsreglum og ákvæðum laga nr. 11/1973, þar sem mörg sömu sjónarmið eigi við um kröfu eignarnema þess efnis að hafnað verði bæði aðalkröfu eignarnámsþola um frestun máls og varakröfu um neitun umráðatöku.

Ákvæði 14. gr. laga m. 11/1973 eigi hér beinlínis við og eignarnemi telur ekkert því til fyrirstöðu að sett sé trygging fyrir hugsanlegum eignarnámsbótum.

Í fyrrnefndri greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 11/1973 segi um 13. og 14. gr:

 „Rétt þykir að lögfesta þá meginreglu að eignarnemi geti ekki krafízt þess að fá umráð þess verðmætis sem eignarnám beinist að fyrr en hann hefur innt af hendi eignarnámsbætur. Oft er eignarnema þó nauðsynlegt að fá umráð eignarnumins verðmætis, áður en mat og afgreiðsla bóta getur farið fram. Einnig getur verið erfitt eða jafnvel útilokað að ákveða eignarnámsbætur fyrirfram eða tiltekna liði eignarnámsbóta. Er mælt fyrir um það í 14. gr. frumvarpsins, hvernig með skuli fara í slíkum tilvikum“.

 

Eignarnemi minnir á fyrri umfjöllun um að tillit beri að taka til réttmætra hagsmuna hans.

Hagsmunir eignarnema af því að fá umráð hins eignarnumda lands séu brýnir enda knýjandi nauðsyn að ráðist sé í framkvæmdir sem fyrst. Eignarnámsþolar hafi hins vegar ekki sýnt fram á í hverju hagsmunir þeirra, að halda umráðum hins eignarnumda svæðis þar til matsferli er lokið, felist að öðru leyti en því að þeir vilja ekki veita almenna kvöð til þess að framkvæmdin megi fara um land þeirra og freista þess að sú afstaða þeirra hljóti náð fyrir dómstólum. Um það hefur Matsnefnd eignarnámsbóta ekkert úrlausnarvald að lögum. Verði ekki fallist á umráðatökubeiðni eignarnema er sjálfsögð og eðlileg krafa hans, sem Matsnefnd eignarnámsbóta ber að verða við, að matsferli verði lokið á mjög skömmum tíma.

Brýnt sé að hefja framkvæmdir sem fyrst og þegar á þessu ári. Endurspeglist sú brýna nauðsyn í þeim miklu hagsmunum sem í húfi séu, bæði hvað varðar afhendingaröryggi raforku sem og fjárhagslega hagsmuni eignarnema og samfélagsins alls. Eðlilegt sé því að umráðataka fari fram og sé sú krafa í fullu samræmi við störf og venjur matsnefndar eignarnámsbóta.

 

NIÐURSTAÐA

Eignarnámsþolar hafa krafist þess að matsnefndin fresti meðferð máls þessa þar til úrlausn dómsmála þeirra er höfðuð hafa verið liggur fyrir.

Fyrir nefndinni er til úrlausnar að ákvarða bætur fyrir eignarnám þar sem fyrir liggur   ákvörðun stjórnvalds sem til þess er valdbært, að eignarnema sé heimilt að beita eignarnámi, og á það ekki undir nefndina að taka afstöðu til þess hvort sú ákvörðun er gild eða ekki eða haldin slíkum annmörkum að valdi frestun meðferðar nefndarinnar á máli þessu. Breytir hér engu þótt eignarnámsþolar hafi höfðað mál fyrir dómstólum til ógildingar ákvörðunar ráðherra eða Orkustofnunar. Samkvæmt þessu verður þeirri kröfu eignarnámsþola að máli þessu verði frestað hafnað.

Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms segir að þótt mati sé ekki lokið, geti Matsnefnd heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis sem taka á eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir sem eru tilefni eignarnámsins. Ef krafa kemur fram um það af hálfu eignarnámsþola, skal eignarnemi setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum. Ákveður Matsnefnd trygginguna.

Eignarnámsþolar mótmæla því að heimild þessari verði beitt eins og hér stendur á enda eigi hún einungis að koma til álita í undantekningartilvikum.

Í gögnum þeim sem fram hafa verið lögð af eignarnema kemur fram að flutningsgeta um núverandi raflínu sé fullnýtt.  Af gögnum þessum verður ráðið að lagning Suðurnesjalínu 2 sé bæði ætlað að tryggja öruggan flutning raforku frá raforkuverum á Reykjanesi inn á meginflutningsnet stefnda Landsnets hf. og einnig flutning raforku til Suðurnesja. Til framtíðar litið muni lagning línunnar einnig skapa forsendur fyrir flutningi raforku frá mögulegum framtíðarvirkjunum á svæðinu. Til þess sé að líta að á Reykjanesi eru nú tvær jarðvarmavirkjanir sem framleiða samtals 175 MW. Er það meira en heildarnotkun raforku á Reykjanesi og því er stór hluti þeirrar orku fluttur um Suðurnesjalínu 1 til höfuðborgarsvæðisins. Þetta getur þó breyst ef núverandi áform um orkufrekan iðnað á svæðinu ná fram að ganga. Ekki liggja fyrir gögn um að núverandi fyrirkomulag hafi valdið stefnda Landsneti hf. sérstöku óhagræði, svo sem í samningsgerð við stórnotendur eða framkvæmd samninga, eða leitt til tjóns eða jafnvel hættu fyrir samfélagið. Engu að síður verður að telja hafið yfir vafa að við núverandi aðstæður sé afhendingaröryggi raforku á Reykjanesi ábótavant. Þannig er ljóst að slái Suðurnesjalína 1 óvænt út vegna bilunar á svæðinu mun algjört rafmagnsleysi verða þar. Við slíkar aðstæður munu virkjanir á svæðinu ekki geta séð því fyrir raforku þar sem ómögulegt er að reka jarðvarmavirkjanir í svonefndum eyjarekstri sökum eðliseiginleika þeirra. Líklegt sé að við slíka truflun myndu þær leysa út og yrði ekki mögulegt að ræsa þær aftur fyrr en rafmagnstenging kæmist á að nýju frá meginflutningskerfinu. Að öllu þessu virtu verður fallist á það mat eignarnema Landsnets hf. að þörfin á að bæta tengingu þess svæðis sem hér um ræðir við meginflutningskerfi stefnda sé ekki einungis nauðsynleg vegna langtímasjónarmiða, heldur sé hún einnig aðkallandi til skemmri tíma litið. Telja má ljóst að mat á bótum vegna eignarnáms á nauðsynlegum landsréttindum eignarnámsþola kann að reynast flókið og tímafrekt. Er því fyrirsjáanlegt að bygging Suðurnesjalínu 2 kann að dragast umtalsvert ef Landsneti hf. er synjað um tafarlausa umráðatöku. Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af eðli þeirrar skerðingar sem fyrirhuguð er á fasteignaréttindum eignanámsþola, verður á það fallist að efnislegum skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 hafi verið fullnægt og verður fallist á þá kröfu eignarnema sem byggir á framangreindri grein að honum verði þegar fengin umráð hins eignarnumda.

Eignarnámsþolar hafa sett fram kröfu um að eignarnema verði gert að setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum. Verður sú krafa tekin til greina og eins og hér stendur á þykir við þá ákvörðun mega m.a. líta til kostnaðar við að koma hinu eignarnumda í samt lag reynist þess þörf.

Samkvæmt öllu framansögðu er eignarnema heimilt að taka umráð hins eignarnumda gegn tryggingu til eignarnámsþola sem telst hæfilega ákvörðuð þrjár milljónir króna.

Þá verður eignarnema gert að greiða 300.000 króna í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins.

 

 ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnema, Landsneti hf. er heimiluð umráðataka í landi Sjónarhóls á landi undir 254 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti. gegn tryggingu að fjárhæð þrjár milljónir króna.

 Eignarnemi greiði 300.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins.

 

Allan V. Magnússon

 

Magnús Leopoldsson

 

Vífill Oddsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum