Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20matv%C3%A6li%20og%20landb%C3%BAna%C3%B0

Staðfesting á ákvörðun Matvælastofnunar um höfnun á innflutningi á 358 búrfuglum vegna smits

Stjórnsýslukæra

Með erindi, dags. 14. maí 2018, kærði [A] lögmaður, f.h. [B ehf.] ákvörðun Matvælastofnunar dags. 26. mars 2018 um að hafna innflutningi á 358 búrfuglum vegna smits.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests. 

 

Krafa

Þess er krafist að ákvörðun Matvælastofnunar verði felld úr gildi eða afturkölluð.

 

Málsatvik

Málsatvikum er lýst á þann hátt að þann 14. febrúar 2018 hafi kærandi flutt inn 358 búrfugla til landsins. Var þeim komið fyrir í einangrunarstöð kæranda þar sem þeir áttu að dvelja í fjórar vikur. Í eftirliti Matvælastofnunar dags. 28. febrúar 2018 kom í ljós að fimm fuglar höfðu drepist það sem af var einangrunartímanum en það hafði ekki verið tilkynnt til stofnunarinnar líkt og skylda bar til. Áréttað var við starfsfólk að tilkynna um öll veikindi og dauða fugla í sóttkvínni til Matvælastofnunar. Þann 8. mars 2018 tilkynnti starfsmaður kæranda Matvælastofnun um óværu á einum kanarífugli sem hafði drepist í einangrun. Samdægurs var fuglinn afhentur tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum sem greindu sníkjudýrið Ornithonyssus sylvarium (einnig þekktur sem norræni flugmítillinn) í fuglinum. Var þetta í fyrsta sinn sem mítillinn greindist á Íslandi en um 12.000 mítlar og 12.000 egg fundust á fuglinum. Í kjölfarið voru rannsakaðir þrír lifandi fuglar úr sóttkvínni sem höfðu nærst illa og voru holdlitlir. Á tveimur þeirra fundust alls fimm tegundir mítla. Þá leiddi krufning í ljós lungna- og loftpokabólgu og æxli hjá einum fugli, maga- og garnakvillar hjá öðrum og æxli og nýrnahnoðrabólga hjá þriðja.

Kannaður var sá möguleiki að meðhöndla fuglana með það að markmiði að útrýma mítlunum og aflétta sóttkvínni. Var það þó mat Matvælastofnunar að þær aðferðir sem notaðar eru til þess að greina mítilinn á lifandi fuglum væru ekki nægilega næmar til að unnt væri að sannreyna útrýmingu mítilsins að meðhöndlun lokinni. Þar með taldi stofnunin að ekki væri mögulegt að tryggja að smit bærist ekki til annarra fugla í landinu. Kæranda var tilkynnt um fyrirhugaða höfnun á innflutningi þann 14. mars 2018 en var jafnframt gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri. Ákvörðun Matvælastofnunar um höfnun á innflutningi á fuglunum var tilkynnt til kæranda þann 26. mars 2018 og áhersla lögð á að fuglarnir yrðu sendir aftur úr landi, annað hvort til útflutningslands eða annars móttökuríkis. Skyldi útflutningur fara fram eigi síðar en þann 3. apríl 2018, ellegar yrðu fuglarnir aflífaðir þann 4. apríl 2018. Eftir að andmælafrestur var liðinn sendi fyrirsvarsmaður kæranda ný andmæli til Matvælastofnunar hinn 28. mars 2018. Var þá frestur til útflutnings framlengdur til 16. apríl 2018.

Þann 15. apríl lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku málsins á þeim forsendum að nýjar upplýsingar lægju fyrir. Taldi kærandi að Matvælastofnun hafi ekki gætt nægilega að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. 

Var þeirri beiðni hafnað þann 11. maí 2018 af Matvælastofnun og var þá frestur til útflutnings framlengdur til 29. maí, ellegar yrðu fuglarnir aflífaðir eigi síðar en kl. 14:00 þann 31. maí 2018.

Með bréfi, dags. 11. maí 2018, var ákvörðun Matvælastofnunar frá 26. mars 2018, um að hafna innflutningi á 358 búrfuglum vegna smits kærð til ráðuneytisins. Þá var óskað eftir frestun réttarháhrifa meðan kæran var til meðferðar. Hinn 24. maí 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins auk annarra gagna sem stofnunin taldi varða málið og veitti frest til 8. júní 2018. Var þó óskað eftir að sjónarmið stofnunarinnar um frestun réttaráhrifa bærust eigi síðar en 29. maí 2018. Umsögn Matvælastofnunar vegna frestunar réttaráhrifa barst ráðuneytinu þann 29. maí 2018 og kemur þar fram að stofnunin horfi fyrst og fremst til smitvarna og dýravelferðar varðandi mat á frestun réttaráhrifa. Þó gengið sé út frá því að smit berist ekki út úr einangrunaraðstöð þá aukist líkurnar á slíku eftir því sem lengri tími líði. Taldi stofnunin að ef fallist yrði á beiðni kæranda um frest á réttaráhrifum væri ástæða til að kanna á ný aðbúnað og heilsufar fuglanna og ganga úr skugga um að velferð þeirra yrði ekki ógnað með lengri dvöl við aðstæðurnar. Þann 30. maí 2018 féllst ráðuneytið á þá kröfu kæranda að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan kæran væri til meðferðar á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samhliða þeirri ákvörðun var því beint til Matvælastofnunar að kanna aðbúnað og heilsufar fuglanna þannig að velferð þeirra yrði ekki ógnað með lengri dvöl. Þann 11. júní 2018 barst ráðuneytinu greinargerð kæranda vegna stjórnsýslukærunnar sem var send til Matvælastofnunar þann 12. júní 2018. Umsögn Matvælastofnunar vegna málsins barst ráðuneytinu þann 21. júní 2018. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnarinnar. Engin andmæli bárust frá kæranda.

Þann 27. júní 2018 bárust ráðuneytinu viðbætur við stjórnsýslukæru kæranda sem og afrit af bréfi Matvælastofnunar til kæranda dagsett þann sama dag. Í erindi Matvælastofnunar kom meðal annars fram að fuglar höfðu endurtekið drepist í sóttkvínni en kærandi hafði, dags. 24. júní, staðfest afföll sem samsvaraði rúmlega 37% og að stórum hluta fuglanna hafi þegar verið fargað. Hafi einnig komið í ljós við skoðun Matvælastofnunar að margir fuglar höfðu verið frystir og því ekki tækir til krufningar. Fram kemur í bréfi Matvælastofnunar að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um dauða og/eða veikindi fuglanna í sóttkví. Með því að fara leynt með fugladauðann hafi kærandi komið í veg fyrir að rannsókn á orsökum hárrar dauðatíðni gæti farið fram. Vísaði Matvælastofnun þess að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis, sem og leiðbeiningaskjali útgefnu af Matvælastofnun sem kæranda var afhent, bar kæranda að tilkynna ef upp kæmu veikindi eða slys hjá fugli í sóttkví og skyldi hann vera krufinn. Benti Matvælastofnun einnig á að ef í ljós kæmi að skilyrðum reglugerðarinnar hafi ekki verið framfylgt í hvívetna falli innflutningsleyfið samstundis úr gildi, og dýrin sem eiga í hlut verði send úr landi sé þess kostur eða aflífuð, sbr. 9. gr. reglugerðarinnar. Þá kom fram í bréfi Matvælastofnunar til kæranda þann 27. júní 2018 að stofnunin hygðist tilkynna kæranda um að innflutningsleyfið væri brottfallið og allir þeir búrfuglar sem komið hafi til landsins þann 14. febrúar 2018 yrðu aflífaðir. Kæranda var veittur frestur til þess að veita andmæli vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar, Matvælastofnun benti þó á að vegna aðstæðna væri ekki hægt að veita langan andmælafrest var því einungis veittur frestur til andmæla til kl. 14:00 sama dag. Í viðbótum kæranda við stjórnsýslukæruna gerði kærandi athugasemd við þann skamma tíma sem Matvælastofnun veitti kæranda til andmæla á fyrirhugaðri ákvörðun, að sögn kæranda voru einungis veittar 16 mínútur í andmælafrest.

Í ljósi framangreinds tilkynnti ráðuneytið með bréfi, dags. 28. júní 2018, að það hefði til skoðunar að eigin frumkvæði hvort ástæða væri til að afturkalla fyrri ákvörðun ráðuneytisins, dags. 30. maí 2018, um frestun réttaráhrifa. Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum áður en tekin yrði ákvörðun. Umsögn kæranda barst þann 2. júlí 2018. Í kjölfarið var óskað eftir sjónarmiðum Matvælastofnunar sem bárust þann 3. júlí 2018. Með bréfi dags. 3. júlí 2018 tilkynnti ráðuneytið kæranda að fyrri ákvörðun um frestun réttaráhrifa væri afturkölluð. Í bréfi ráðuneytisins er tekið fram að síðan ákvörðun um frestun réttaráhrifa var tekin höfðu yfir hundrað fuglar drepist. Ekki hafi verið mögulegt að komast að því hvað olli dauða meirihluta þeirra þar sem þeim hafi verið fargað vegna mistaka kæranda. Ráðuneytið tók undir þau rök Matvælastofnunar að 37% afföll gætu ekki talist eðlileg og að líkur væru á að smitsjúkdómur hafi orsakað þau, enda engar haldbærar upplýsingar eða gögn sem gátu bent til annars. Taldi ráðuneytið í ljósi hinna nýju upplýsinga sem bárust og þeirra breyttu aðstæðna að forsendur ákvörðunarinnar, dags. 30. maí 2018, um frestun réttaráhrifa voru brostnar. Var því fyrri ákvörðun ráðuneytisins um frestun réttaráhrifa afturkölluð og í kjölfarið var umræddum fuglum fargað.

 

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að umrædd ákvörðun Matvælastofnunar verði felld úr gildi eða afturkölluð. Þá telur kærandi að Matvælastofnun hafi borið að endurupptaka ákvörðun sína frá 26. mars 2018 á grundvelli nýrra gagna. Vísar kærandi til þess að hann hafi aflað álitsgerðar frá þýskum lækni sem telji umrætt sníkjudýr vel meðhöndlanlegt til útrýmingar. Kærandi telur jafnframt að Matvælastofnun hafi hvorki gætt að rannsóknarskyldu sinni né meðalhófs þegar tekin var ákvörðun um að hafna innflutningi og gera kröfu um að fuglarnir yrðu sendir úr landi ella aflífaðir. Vísar kærandi til þágildandi 15. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra, en þar er lögð sú skylda á Matvælastofnun að ef upp komi alvarlegur smitsjúkdómur í sóttvarna- eða einangrunarstöð skuli gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að hefta útbreiðslu hans. Sé heimild til að aflífa dýr skv. ákvæðinu óumdeild en samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sé Matvælastofnun jafnframt skylt að beita öðrum og vægari ráðstöfunum séu skilyrði fyrir hendi. Þá vísar kærandi til þess að umræddir fuglar njóti verndar samkvæmt lögum nr. 55/2013 um velferð dýra en samkvæmt 7. gr. laganna er kveðið á um að aðili sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti beri að veita því umönnun eftir föngum. Vísar kærandi einnig til 14. gr. laganna að umráðamanni sé skylt að vernda dýr gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu.

Kærandi telur að dauðsföll sumra fugla í sóttkví hafi mátt rekja til tómlætis af hálfu Matvælastofnunar sem hafi verið eftirlitsaðili með sóttkvínni. Hafi fuglunum aldrei verið veitt nein læknismeðferð þótt það hafi ekki getað farið framhjá eftirlitsaðilum að eitthvað hafi hrjáð fuglana. Hafi önnur dauðsföll orsakast vegna innbyrðis átaka fuglanna enda aðstæður í sóttkví ekki ákjósanlegar til langtímadvalar.

Kærandi telur að Matvælastofnun hafi strax í upphaf þessa máls viðurkennt úrræðaleysi og þekkingarleysi á umræddum mítli. Hafi stofnunin m.a. haldið því fram að hann hefði aldrei fundist á Íslandi og að útrýma þyrfti honum þar sem veruleg hætta stafaði af honum og hafi sérstaklega verið vísað til mögulegs fjárhagslegs tjóns, sem alifuglabændur á Íslandi kynnu að verða fyrir. Telur kærandi að þær fullyrðingar Matvælastofnunar gangi í berhögg við niðurstöðu vísindagreinar þar sem fram komi að mítillinn sé talinn landlægur fyrir löngu síðan enda talinn berast með farfuglum til landsins.

Fram kemur í stjórnsýslukæru að leitast hafi verið eftir álitsgerð frá fuglasjúkdómafræðingi frá Þýskalandi. Hafi hann útskýrt trygga meðhöndlunarleið á símafundi með Matvælastofnun, sem kærandi sat einnig, auk þess að leggja áherslu á að það væri andstætt viðurkenndum meginreglum og sjónarmiðum um dýravernd um allan heim að aflífa heilbrigð gæludýr að ástæðulausu. Hafi hann einnig lagt áherslu á að mítillinn væri landlægur á Íslandi með farfuglum, meðhöndlun væri auðveld en tímafrek og að veita ætti öllum fuglunum meðferð þar sem í raun hafi verið um heilbrigða fugla að ræða þótt mítillinn kynni að hafa borist á þá. Hafi ekki verið um að ræða eiginleg veikindi eða sjúkdóm, heldur sníkjudýr sem sygi blóð úr fuglum þar til blóðleysi drægi þá til dauða.

Kærandi bendir einnig á að Matvælastofnun beri fyrir sig lagaákvæði sem eigi við um smitsjúkdóma en ekki sníkjudýr. Hafi Matvælastofnun hins vegar í engu sinnt skýrum fyrirmælum sama ákvæðis sem kveður á um að gera skuli hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að hefta útbreiðslu smitsjúkdóms. Í því hljóti að felast að beitt sé þekktum og viðurkenndum aðferðum við að reyna að útrýma slíkri óværu áður en til þeirra öfga sé gripið að senda dýr úr landi eða aflífa þau. Hafi Matvælastofnun borið það fyrir sig að útilokað væri að sannreyna að mítlinum hafi verið útrýmt þótt meðhöndlun færi fram og því ekki fallist á beitingu viðurkenndra aðferða til útrýmingar mítilsins.

Bendir kærandi á að málið snúi að velferð dýra. Meginregla laga nr. 55/2013 um velferð dýra komi fram í 1. gr. þar sem kveðið sé á um að markmið laganna sé að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr séu skyni gæddar verur. Hafi fuglarnir sem um ræðir ekki notið þeirra verndar sem kveðið er á um í 1. gr. fyrrnefndra laga.

 

Sjónarmið Matvælastofnunar

Með bréfi þann 21. júní 2018 veitti Matvælastofnun umsögn sína vegna stjórnsýslukærunnar. Byggir Matvælastofnun á því að málið snúist um innflutning dýra og sé hann bannaður samkvæmt 2. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra. Þó sé ráðherra og/eða Matvælastofnun heimilt að víkja frá því banni að uppfylltum ströngum skilyrðum. Markmiðið með þeim skilyrðum sé að vernda íslenska dýrastofna og koma í veg fyrir að nýir dýrasjúkdómar berist til landsins. Vísar stofnunin einnig til þágildandi reglugerðar nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis og þágildandi reglugerðar nr. 432/2003 um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr en er þar nánar kveðið á um skilyrði vegna innflutnings gæludýra. Ef sjúkdómur greinist hjá dýrum í einangrun skulu yfirvöld grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu hans. Ákvörðun Matvælastofnunar frá 26. mars 2018 um höfnun á innflutning umræddra búrfugla, hafi verið byggð á áður gildandi 15. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra. Var þar kveðið á um að komi upp alvarlegur smitsjúkdómur í sóttvarna- eða einangrunrastöð skuli gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að hefta útbreiðslu hans, m.a. fella dýr, ef nauðsyn krefur, og stöðva dreifingu erfðaefnis þaðan.

Matvælastofnun vísar á bug áliti kæranda að undurbúningi innflutnings hafi verið ábótavant af hálfu Matvælastofnunar. Um þá málsástæðu kæranda að lagaákvæði um smitsjúkdóma eigi ekki við um sníkjudýr vísar Matvælastofnun til 4. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Sé þar dýrasjúkdómur skilgreindur sem smitsjúkdómur sem orsakast af völdum örvera eða sníkjudýra, efnaskiptasjúkdómur, erfðasjúkdómur, eitranir og aðrir sjúkdómar sem lögin kveða á um. Séu smitsjúkdómar einnig skilgreindir sem sjúkdómur eða smit sem beint eða óbeint geti borist frá einu dýri til annars eða milli manna og dýra. Sé sá skilningur sem kærandi leggi til hliðsjónar ekki í samræmi við skýran lagatexta. Telur Matvælastofnun að ef lög nr. 25/1993 yrðu túlkuð á þann hátt að þau næðu ekki yfir sníkjudýr myndi löggjöfin ekki ná til alvarlegra sjúkdóma sem til séu komnir vegna sníkjudýra og gæti valdið óbætanlegum skaða hérlendis.

Matvælastofnun bendir einnig á að stofnunin hafi kannað til hlítar möguleikann á að meðhöndla fuglana með það fyrir augum að útrýma mítlinum. Aðferðir til þess að greina mítilinn séu þó ekki nægilega nákvæmar til þess að hægt sé að sannreyna útrýmingu og þar með tryggja að smit berist ekki til íslenskra dýra með innflutningnum. Það álit sérfræðings sem kærandi aflaði styðji þessa niðurstöðu, vísar Matvælastofnun því til stuðnings til símafundar með [D] og kæranda. Í fundargerð kemur fram að meðhöndlun fugla gegn O. Sylvarium væri tímafrek, rannsóknir um næmi lyfsins sem notað hefur verið gegn mítlinum ivermectins hefði ekki farið fram og að sannreyning útrýmingar væri erfið.

Matvælastofnun mótmælir því að hafa ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni og að yfirdýralæknir hafi hafnað meðferð á fuglunum þrátt fyrir að fyrir lægju upplýsingar um meðferðarmöguleika. Bendir Matvælastofnun á að aflað var gagna um sníkjudýrið í fjölda vísindagreina og leitað upplýsinga hjá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði dýralækninga og sníkjudýra. Sé það einnig á ábyrgð kæranda að gæta að heilsu og velferð fuglanna í sóttkví. Matvælastofnun hafi einungis eftirlit með innflutningum. Bendir stofnunin á að þekkt sé að fuglar sem smitaðir séu af O. sylvarium geti verið einkennalausir. Ef tekið sé mið af magni mítla og eggja sem greindust á kanarífuglinum, þ.e. um 12.000 mítlar og um 12.000 egg, séu líkur á að smit hafi náð að dreifa sér meðal fuglanna í sóttkví kæranda. Mismunandi tegundir skrautfugla séu auk þess misnæmar fyrir smiti, svo og fuglar innan sömu tegundar.

Bendir Matvælastofnun á að í eftirlitsheimsóknum stofnunarinnar til kæranda hafi kærandi ekki óskað eftir heimild til þess að kalla til dýralækni til að meta heilsufarsástand fuglanna fyrr en 4. júní 2018. Hafi sú heimild verið veitt þann 21. júní 2018. Kemur fram í umsögn Matvælastofnunar að dýralæknir hafi ekki verið kallaður til af hálfu kæranda til þess að skoða fuglana þegar umsögnin var veitt.

Matvælastofnun vísar til þess að stofnuninni beri skylda til þess að framfylgja löggjöf um innflutning dýra og koma í veg fyrir að með innfluttum dýrum berist nýir smitsjúkdómar sem séu hættulegir íslenskum dýrum. Tilgangur með þeim skilyrðum sem gilda um innflutning dýra sé að draga úr áhættunni á smiti og gegnir einangrun í því samhengi mikilvægu hlutverki. Sé sníkjudýrið, hinn svokallaði norræni fuglamítill sem greindist í fugli í sóttkví kæranda, hinn mesti skaðvaldur í alifuglarækt í Norður-Ameríku. Bendir Matvælastofnun á að rannsóknir hafi verið framkvæmdar í Evrópu á síðastliðnum einum til tveimur áratugum sem benda til þess að mítillinn gæti verið að ná sér á strik þar á meðal skrautfugla og villtra fugla. Ástæða sé til að vera uggandi yfir möguleikanum á því að hann berist í alifuglarækt. Bendir stofnunin á að jafnvel þótt til séu lyf sem dregið geti úr smitálagi og einkennum, sé framboð lyfja sem gefa megi afurðagefandi dýrum takmarkað. Auk þess sé lyfjaónæmi mítilsins vaxandi vandamál. Geti því meðhöndlun ekki tryggt útrýmingu mítilsins og fæli innflutningur á slíkum forsendum í sér áhættu sem Matvælastofnun telji óásættanlega.

Við meðferð málsins barst ráðuneytinu þær upplýsingar að kærandi hafi ekki tilkynnt Matvælastofnun um dauða og/eða veikindi fugla í sóttkví. Kæranda ber skylda samkvæmt reglugerð nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis, sem og leiðbeiningaskjali útgefnu af Matvælastofnun sem kæranda var afhent, að tilkynna ef upp koma veikindi eða slys hjá fugli í sóttkví og skuli hann vera krufinn. Ber kæranda einnig að framfylgja ákvæðum reglugerðar nr. 935/2004 en ef komi í ljós að skilyrðum hennar hafi ekki verið framfylgt í hvívetna falli innflutningsleyfið samstundis úr gildi, og dýrin sem eiga í hlut verði send úr landi sé þess kostur eða ella aflífuð.

 

Forsendur og niðurstaða

Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 26. mars 2018, um að hafna innflutningi á 358 búrfuglum vegna smits í sóttkví.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra, er meginreglan sú að óheimilt er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Þó er heimilt að veita undanþágu frá því banni undir ströngum skilyrðum en markmið með þeim er að vernda íslenska dýrastofna og koma í veg fyrir að nýir dýrasjúkdómar berist til landsins. Ákvörðun Matvælastofnunar frá 26. mars 2018, er byggð á áður gildandi 15. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra. Var þar kveðið á um að komi upp alvarlegur smitsjúkdómur í sóttvarna- eða einangrunarstöð skuli gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að hefta útbreiðslu hans, m.a. fella dýr ef nauðsyn krefur, og stöðva dreifingu erfðaefnis þaðan.

Með vísan til umsagnar Matvælastofnunar tekur ráðuneytið undir það sjónarmið stofnunarinnar að ekki hafi verið færð fram gögn sem sýna fram á að hægt sé að útrýma umræddum fuglamítli. Verður einnig að horfa til þess að hér er um að ræða hagsmuni sem löggjafinn hefur tekið afstöðu til, að mikilvægt sé að vernda, m.a. að heilbrigði dýra sé tryggt með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins.

Vísar ráðuneytið einnig til þess að um 37% fuglana sem komu til landsins höfðu drepist í júní 2018 og var stór hluti þeirra ekki tilkynntur til Matvælastofnunar af hálfu kæranda. Því er ekki hægt að komast að því hvað olli dauða þeirra fugla þar sem þeim var fargað eða þeir frystir af hálfu kæranda. Að mati ráðuneytisins verður að taka undir það sjónarmið Matvælastofnunar að gera megi ráð fyrir því að rekja megi dauðsfall fuglana til smitsjúkdóms. Ekki hafa verið lögð fram haldbær gögn eða upplýsingar sem benda til annars. Þvert á móti hefur verið sýnt fram á ýmis sjúkdómseinkenni hjá hluta fuglanna sem hafa líklegast leitt til dauða þeirra, þ.e. hjá þeim fuglum sem hægt var að rannsaka. Geta fuglar sem smitaðir eru af umræddum mítli einnig verið einkennalausir.

Ráðuneytið getur ekki fallist á það sjónarmið kæranda að Matvælastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu né gætt að meðalhófsreglu við meðferð málsins. Líkt og fram hefur komið í gögnum málsins gerði Matvælastofnun athugun á því hvort hægt væri að útrýma umræddum mítli en mat það svo að ekki væri hægt að sýna fram á neina fullnægjandi meðferð til þess. Þær aðferðir sem notaðar eru til þess að greina mítilinn á lifandi fuglum voru ekki taldar nægilega næmar til að unnt sé að sannreyna útrýmingu mítilsins að meðhöndlun lokinni. Er þar með ekki hægt að tryggja að smit berist ekki til annarra fugla í landinu, en samkvæmt 15. gr. laga nr. 54/1990 ber Matvælastofu að gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til þess að hefta útbreiðslu smitsjúkdóms sem upp kemur í einangrunarstöð.

Í viðbótum kæranda við stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu 27. júní 2018 mótmælir kærandi hinum skamma andmælafresti sem honum var veittur vegna ákvörðunar Matvælastofnunar um að farga umræddum fuglum vegna brots kæranda á reglum í sóttkví. Líkt og fyrr hefur verið greint taldi Matvælastofnun að ekki væri hægt að veita langan andmælafrest vegna stöðu málsins og var kæranda því einungis veittur frestur til 14:00 þann sama dag, eða um 16 mínútur. Ráðuneytið getur séð ástæðu þess að Matvælastofnun gat ekki veitt langan andmælafest m.t.t. þeirra sérstöku aðstæðna en telur þó að 16 mínútur sé óraunhæfur tími til þess að geta uppfyllt málsmeðferðarreglu stjórnsýsluréttar um andmælarétt málsaðila samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Með vísan til alls framan ritaðs staðfestir ráðuneytið ákvörðun Matvælastofnunar dags. 26. mars um höfnun á innflutningi á 358 búrfuglum. Af öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið að ekki þurfi að ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra hefurekki áhrif á niðurstöðu málsins.

 

Beðist er velvirðingar á töfum málsins.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 26. mars 2018, um höfnun á innflutningi á 358 búrfuglum vegna smits, er hér með staðfest.

 

 

 

 

 

 

 

           


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum