Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 39/2022. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 27. mars 2023
í máli nr. 39/2022:
Sýrusson hönnunarstofa ehf.
gegn
Ríkiskaupum og
Pennanum ehf.

Lykilorð
Örútboð. Rammasamningur. Útboðsskilmáli. Skaðabótaskyldu hafnað.

Útdráttur
R auglýsti örútboð vegna innkaupa á ráðstefnustólum fyrir H. Í útboðslýsingu kom m.a. fram að skilyrði væri að auðvelt væri að viðhalda áklæði á stólunum og nauðsynlegt að hægt væri að gera við áklæðið án þess að skipta baki eða setu út í heild. Tilboð P var valið. S kærði þá ákvörðun R að velja tilboð P, og krafðist þess að umræddur skilmáli útboðsgagna yrði felldur úr gildi. Í niðurstöðu kærunefndar útboðsmála var tekið fram að kærufrestur hefði verið liðinn að því er varðaði útboðsskilmálann og var kröfu S því vísað frá kærunefnd. Þá hafnaði kærunefnd að veita álit sitt á skaðabótaskyldu R, en S hefði boðið stól sem uppfyllti ekki kröfur útboðslýsingar og gat þar af leiðandi ekki komið til álita við innkaupin.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 4. nóvember 2022 kærði Sýrusson hönnunarstofa ehf. (hér eftir „kærandi“) örútboð Ríkiskaupa (hér eftir „varnaraðili“) f.h. Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. nr. 21791 auðkennt „Örútboð – Ráðstefnustólar fyrir Hörpu“.

Kærandi krefst þess að örútboðið verði stöðvað. Þá krefst kærandi þess að felldur verði úr gildi tiltekinn skilmáli örútboðsgagna um viðhald á áklæði á stól, auk þess sem kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Kærandi krefst einnig málskostnaðar.

Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 11. nóvember 2022 krefst varnaraðili þess að kröfu kæranda um niðurfellingu á umræddum skilmála örútboðsgagna verði vísað frá. Varnaraðili krefst þess jafnframt að öllum öðrum kröfum kæranda verði hafnað. Penninn ehf. krefst þess í athugasemdum sínum að hafnað verði kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar, enda hafi ekki verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögunum.

Með ákvörðun 16. desember 2022 hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu kæranda um að stöðva um stundarsakir örútboð varnaraðila.

Varnaraðili tilkynnti kærunefnd útboðsmála 21. desember 2022 að hann hygðist ekki leggja fram frekari athugasemdir í málinu og hið sama gerði Penninn ehf. 2. janúar 2023. Kærandi tilkynnti kærunefnd útboðsmála með tölvuskeyti 27. janúar 2023 að hann hygðist ekki leggja frekari athugasemdir í málinu.

Að beiðni kærunefndar útboðsmála 15. mars 2023 lagði Penninn ehf. fram vottorð um styrkleika áklæðis þess stóls sem félagið bauð, en það fórst fyrir að láta það fylgja með athugasemdum félagsins.

I

Hinn 27. september 2022 óskaði varnaraðili fyrir hönd Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss (hér eftir „Harpa“) eftir tilboðum í ráðstefnustóla, en um var að ræða örútboð innan rammasamnings nr. 04.02 um húsgögn, og giltu skilmálar rammasamningsins um örútboðið nema annað væri sérstaklega tekið fram. Innkaupin féllu undir flokk þrjú í rammasamningnum og var örútboðslýsingin send á seljendur innan þess hluta samningsins, alls sex seljendur, þ. á m. kæranda.

Í grein 1.3 í útboðslýsingu kom fram almenn lýsing verkefnisins. Þar kom fram að Harpa óskaði eftir tilboði í 1.200 ráðstefnustóla sem keyptir yrðu á tveimur árum. Harpa legði áherslu á stílhreina og tímalausa hönnun en meirihluti húsgagna í Hörpu væru íslensk hönnun. Stólarnir þyrftu að nýtast í sama rými og stólar sem fyrir væru og keyptir hefðu verið við opnun hússins. Þurftu stólarnir því að vera með sambærilegt útlit og núverandi stólar. Þá voru gerðar ítarlegri kröfur til umræddra stóla í útboðslýsingu, og sagði m.a. að „auðvelt skal vera að viðhalda áklæði, nauðsynlegt að hægt sé að gera við áklæðið án þess að þurfa að skipta baki/setu út í heild“. Einnig var gerð krafa um að áklæðið skyldi vera svart og úr slitsterku efni, eða „70.000-80.000 núningar á Martindale skala eða sambærilegum“. Í grein 1.4 í útboðslýsingu komu fram valforsendur, en þar sagði að tilboð yrðu metin á grundvelli innsendra gagna og að samið yrði við þann aðila sem fengi flest stig út úr mati samkvæmt matslíkani örútboðsins. Hagkvæmasta tilboðið yrði valið á grundvelli lægsta verðs að uppfylltum örútboðskröfum.

Samkvæmt grein 1.1.3 í útboðslýsingu var ekki heimilt að gera frávikstilboð. Þá kom fram í grein 1.2.8 að kaupandi myndi tilkynna um val tilboðs og veita fimm daga biðtíma og senda út póst um töku tilboðs að honum liðnum. Þegar tilboði væri tekið þá væri kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda.

Tilboð voru opnuð 17. október 2022 og bárust þrjú tilboð, þar af tvö frá kæranda. Annað tilboð kæranda nam 22.560.000 krónum, þar sem boðinn var Tipo staflanlegur stóll með heilbólstruðu sæti, en hitt tilboð kæranda nam 23.880.000 krónum, þar sem boðinn var Tipo 3m staflanlegur stóll. Penninn ehf. bauð stól með nafninu Hildur og nam tilboðsfjárhæð félagsins 35.982.000 krónum. Kostnaðaráætlun varnaraðila nam 32.240.000 krónum. Hinn 1. nóvember 2022 tilkynnti varnaraðili kæranda að tilboðum hans hefði verið hafnað sem ógildum, en við yfirferð tilboðsins hafi komið í ljós að stólarnir uppfylltu ekki kröfu í grein 1.3 í útboðslýsingu. Þann sama dag var tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka tilboði Pennans ehf.

Hinn 15. nóvember 2022 tilkynnti varnaraðili bjóðendum í hinu kærða útboði að eftir nánari skoðun hafi varnaraðili talið ljóst að lög nr. 120/2016 heimili kaupanda ekki að hafa biðtíma umfram skyldu í örútboðum. Því væri kominn á bindandi samningur milli varnaraðila og Pennans ehf.

II

Kærandi telur að krafa útboðsgagna, um að auðvelt skuli vera að viðhalda áklæði og nauðsynlegt sé að hægt sé að gera við áklæðið án þess að þurfi að skipta út baki/setu í heild, sé ólögmæt krafa og að fella ætti hana niður. Það geti ekki verið til hagræðingar fyrir Hörpu, þar sem stutta stund taki að skipta út áklæðinu á þeim stól sem kærandi hafi boðið. Kærandi hafi fengið þau svör að í Hörpu starfi saumakona sem stoppi í áklæðið á núverandi stólum, en núverandi stólar séu eldri útfærsla af þeim sem Penninn ehf. setti fram í tilboði sínu. Telur kærandi að það óeðlilegt því það hljóti að taka lengri tíma að sauma í áklæðið en að skipta því út með því að losa 2-4 skrúfur. Ljóst sé að það þurfi að taka áklæðið af stól Pennans ehf. og fara með í saumavél sem sé miklu meiri aðgerð en að skipta út setu eða baki sem sé í ábyrgð. Þá telji kærandi að kröfu um styrkleika ekki mætt í vöru Pennans ehf., en þegar saumað sé í netaefni þá geti áklæði ekki haft styrkleika upp á 70.000 núninga (e. rubs) á Martindale skala. Því sé eðlilegt að viðhald áklæðis sé með þeim hætti að styrkleiki eftir viðgerð uppfylli lágmarkskröfur sem settar hafi verið fram í útboðsgögnum, til dæmis með útskiptum.

Þá kveður kærandi að alvarlegir vankantar hafi verið á tilboði Pennans ehf. Stóllinn sem félagið hafi boðið sé einungis með 50.000 núninga á Martindale skalanum samkvæmt framleiðanda stólsins og uppfylli þar með ekki kröfu útboðsgagna um 70.000-80.000 núninga. Þá hafi upprunalegi stóllinn sem Harpa keypti kallast Magni og hafi verið framleiddur og bólstraður hér á landi. Í dag beri stóllinn nafnið Hildur og er framleiddur og bólstraður erlendis. Ljóst sé því að töluverðar breytingar hafi orðið á stólnum og telji kærandi jafnframt að áklæði stólsins í dag sé hitað til að koma áklæðinu á, og það sé nánast ógjörningur að koma því aftur á stólinn, sé það tekið af, nema með þar til gerðum tækjum á verkstæði. Hið nýja áklæði sé jafnframt svo sterkt og allt öðruvísi en á eldri stólnum og að það sé ómögulegt að stoppa í það á meðan það sé á stólnum. Því hafi varnaraðila borið að hafna tilboði Pennans ehf., en auk þess sem það hafi verið yfir kostnaðaráætlun varnaraðila. Tilboð kæranda hafi aftur á móti verið töluvert undir kostnaðaráætlun. Þá telur kærandi að það geti ekki samrýmst lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup að taka tilboði yfir kostnaðaráætlun þegar fyrir liggi mun lægra tilboð í sambærilega vöru. Slíkt hljóti að teljast mjög óábyrg meðhöndlun skattpeninga og það sé hlutverk varnaraðila og eftirlitsaðila að sjá til þess að vel sé farið með almannafé.

III

Varnaraðili kveður að hann hafi talið sér heimilt að veita biðtíma í örútboðinu þrátt fyrir orðalag 3. tölul. 2. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016, en varnaraðili hafi litið svo á að í ljósi markmiðs biðtíma í útboðum væri kaupendum heimilt að ganga lengra en lögin gera kröfu um. Hafi sú framkvæmd staðið óhögguð af kærunefnd útboðsmála um árabil. Við nánari skoðun á ákvæði 3. tölul. 2. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 þyki varnaraðila þó ljóst að kaupanda sé ekki í sjálfsvald sett hvenær biðtími eigi við heldur hafi það verið ákveðið af löggjafanum með setningu laganna. Í ákvæðinu segi að biðtími samkvæmt 1. mgr. gildi ekki við gerð samnings á grundvelli rammasamnings skv. 40. gr. eða gagnvirks innkaupakerfis skv. 41. laganna. Ákvæðið sé fortakslaust og ekki sé hægt að líta á ákvæðið sem heimildarákvæði. Ástæða fyrir þessu verklagi varnaraðila hafi verið að talið væri að hag kaupanda og bjóðenda í örútboðum væri betur borgið með því að hafa biðtíma, líkt og í hefðbundnum útboðum. Þá hefði kærunefnd útboðsmála tækifæri til þess að fella úr gildi ólögmætar og þar með ógildanlegar ákvarðanir kaupanda um val tilboðs, og hægt væri að koma í veg fyrir að samningur yrði gerður sem kærunefnd útboðsmála hefði ekki heimild til þess að fella úr gildi.

Varnaraðili krefst þess að með vísan til 1. mgr. 110. gr., sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016, að krafa kæranda um stöðvun samningsgerðar verði hafnað. Telur varnaraðili að lagaskilyrði 1. mgr. 110. gr. séu ekki uppfyllt. Um sé að ræða örútboð innan rammasamnings nr. RK 04.01 (Húsgögn). Rammasamningur þessi er samningur í skilningi 40. gr. laga nr. 120/2016 en samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 86. gr. sömu laga þá gildi biðtími ekki við gerð samnings á grundvelli rammasamnings samkvæmt 40. gr. Að mati varnaraðila verði að telja að hann hafi að einhverju leyti verið bundinn af tilkynningu sinni um val tilboðs og að samningsgerð hafi verið óheimil fram til 8. nóvember 2022 þrátt fyrir að réttaráhrif biðtíma eigi ekki við í málinu. Eðlilegt sé hins vegar að líta svo á að 9. nóvember 2022 hafi komist á bindandi samningur milli kaupanda og Pennans ehf. í skilningi 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016. Eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hafi komist á verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.

Varnaraðili telur að málatilbúnaður kæranda sé langt frá því að vera skýr. Það sé ekki lykilatriði hjá kaupanda hvort hægt sé að skipta út áklæði á stuttum tíma, líkt og kærandi byggi á, heldur þvert á móti sé að mati kaupanda hagkvæmara og umhverfisvænna að hægt sé að lagfæra stólana án þess að nauðsynlegt sé að skipta út baki eða setu í heild sinni. Sú ábyrgð sem kærandi hafi vísað til í kæru sinni vari aðeins í um fimm ár en kaupandi hafi notað núverandi ráðstefnustóla í meira en 10 ár. Góðan endingartíma stólanna megi m.a. rekja til þess að hægt hafi verið að lagfæra skemmdir á áklæðunum. Harpa sé með samning við verktaka sem sé lærður bólstrari og hafi hann gert við áklæði stólanna við góðan orðstír og sparað stofnuninni stórfé með framúrskarandi vinnu. Varnaraðili fái ekki séð hvernig kærandi komist að þeirri niðurstöðu að lagfæringar á stólunum rýri styrk þeirra eða gæði. Þvert á móti styðji þessi nálgun kaupanda við markmið íslenska ríkisins um umhverfisvænni innkaup.

Þá bendir varnaraðili á að ef kærandi hafi talið kröfu útboðsgagna, um að auðvelt skuli vera að viðhalda áklæði og nauðsynlegt væri að hægt sé að gera við áklæðið án þess að þurfi að skipta út baki/setu í heild, þá hafi kæranda verið í lófa lagið að gera athugasemd við kröfuna á fyrirspurnartíma útboðsins, sem hann hafi ekki gert. Það sé meginregla opinberra innkaupa að kaupandi skilgreini sjálfur sínar þarfir og hafi þar með forræði yfir þeim kröfum sem gerðar séu til tæknilegra eiginleika boðinna vara. Kærunefnd útboðsmála hafi ítrekað í úrskurðum sínum tekið fram að beina verði kæru sem varðar efni útboðslýsingar til kærunefndarinnar innan 20 daga frá því að kærandi vissi eða mátti vita um skilmála samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016. Þá hafi bjóðendur skamman frest til þess að kynna sér útboðsgögn eftir að þau hafi verið gerð aðgengileg og þar til kærufrestur vegna athugasemda sem varðar efni þeirra byrji að líða, sbr. t.d. úrskurð kærunefndar útboðsmála nr. 39/2021. Bjóðandi geti ekki borið því við eftir opnun tilboða að víkja beri skilmálum til hliðar, sbr. úrskurði kærunefndar í málum nr. 21/2020, 41/2020 og 7/2021. Hið kærða útboð hafi verið auglýst 27. september 2022 og tilboðsfrestur hafi runnið út 17. október. Kæra málsins hafi borist kærunefnd útboðsmála 4. nóvember 2022, og því hafi frestur til að gera athugasemdir við útboðsgögnin verið bersýnilega liðinn og því ber að vísa kröfunni frá kærunefnd útboðsmála.

Varnaraðili vísar jafnframt til þess að kærandi hafi komið á framfæri ábendingu eftir tilboðstíma og gert athugasemdir við að áklæði á stólnum sem Penninn ehf. hafi boðið hefði ekki styrkleika upp á 70.000 „rubs“ á Martindale skala. Varnaraðili hafi því óskað eftir upplýsingum frá Pennanum ehf. um þetta og fengið upplýsingar um að annað áklæði en hefðbundið áklæði og létu varnaraðila í té frekari skýringar, þ. á m. bækling, til staðfestingar á því að áklæðið stæðist þessa kröfu útboðsgagna. Kaupandi hafi talið skýringarnar fullnægjandi og að tilboð Pennans ehf. uppfyllti því ákvæði útboðsgagna um lágmarks fjölda núninga. Varnaraðili hafnar einnig þeirri staðhæfingu kæranda að ekki sé hægt að viðhalda áklæðinu á boðinni vöru Pennans ehf., en varnaraðili hafi skoðað stól Pennans ehf. ítarlega og talið ljóst að hægt sé að gera við áklæðið á sambærilegan hátt og gert hafi verið við þann stól sem nú þegar sé í notkun í Hörpu. Varnaraðili hafnar því jafnframt að honum hafi verið óheimilt að taka tilboði Pennans ehf. þar sem það hafi verið yfir kostnaðaráætlun. Í kafla 1.1 í útboðsgögnum kom fram að skýr áskilnaður kaupanda að hann myndi hafna öllum tilboðum yfir kostnaðaráætlun eða umfram fjárheimildir hans, en kaupandi hafi jafnframt áskilið sér rétt til að taka slíkum tilboðum ef tækist að útvega það fjármagn sem upp á vanti. Það hafi kaupanda tekist og tilboð Pennans ehf. hafi því verið hagkvæmasta tilboðið sem hafi uppfyllt allar kröfur örútboðsgagna.

Penninn ehf. vísar til þess að samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 sé ekki hægt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar samkvæmt 110. gr. sömu laga, en ekki sé heimilt að kveða á um samþykkisfrest í örútboðum innan rammasamninga. Þó svo að í útboðsskilmálum örútboðsins hafi komið fram að biðtími væri fimm dagar verður að ætla að þar sé um að ræða staðlaðan texta sem hafi enga lagalega þýðingu þar sem biðtími gildi ekki um örútboð. Vísar Penninn ehf. í þeim efnum til úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 50/2020. Það sé því álit Pennans ehf. að samningur hafi komist á þegar tilkynnt hafi verið um val á tilboði, sem hafi verið 1. nóvember. Þá vísar Penninn ehf. til þess að það sé skilyrði fyrir stöðvun samningsgerðar samkvæmt 110. gr. laga nr. 120/2016 að verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögunum við tiltekin innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Penninn ehf. telji að hvorki hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum né að hagsmunir kæranda séu þess eðlis að fallast beri á slíka kröfu. Kæra málsins hafi ekkert að geyma sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar kaupanda. Þá sé ágreiningslaust að stólar kæranda hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsins. Penninn ehf. vísar enn fremur til þess að kærandi hafi fullyrt að samkvæmt heimasíðu hönnuðar stólsins sem félagið hafi boðið komi fram að áklæði stólsins þoli aðeins 50.000 núninga á Martindale skala. Það eigi hins vegar aðeins við um þá útgáfu stólsins sem markaðssettur sé á meginlandi Evrópu, en Penninn ehf. selji stólinn með lítið eitt öðruvísi áklæði á stólnum sem þoli 70.000-80.000 núninga á Martindale skala. Fyrir liggi vottorð frá viðurkenndri prófunarstofu þar sem það sé staðfest og hafi þær upplýsingar verið sendar varnaraðilum í kjölfar athugasemda kæranda á eftir tilboðstíma. Loks telur Penninn ehf. að krafa kæranda sem snúi að þeim lið útboðsgagna, um að auðveld skuli vera að viðhalda áklæði stólanna og nauðsynlegt sé að hægt sé að gera við áklæðið án þess að skipta út baki/setu í heild, vera of seint fram komna. Kæranda hafi borið að bera fram kæru um þennan lið innan 20 daga frá því að útboðsgögnin hafi verið send honum, sem hafi verið 27. september 2022. Þess utan er Penninn ehf. ósammála þessari staðhæfingu kæranda og bendir á að stólar kæranda hafi ekki uppfyllt þetta skilyrði útboðsins.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Áður var fjallað um kærufrest í 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup og sagði í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi að þeim lögum að við opinber innkaup sé oft og tíðum sérlega mikilvægt að ekki sé fyrir hendi óvissa um gildi tiltekinna ákvarðana kaupanda, jafnvel þótt þær kunni að vera ólögmætar og leiða til bótaskyldu.

Málatilbúnaður kæranda lýtur að því að tiltekinn skilmáli örútboðsgagna sé ólögmætur og krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála felli niður þann skilmála. Kærunefnd útboðsmála hefur litið svo á að bjóðendur hafi skamman frest til að kynna sér útboðsgögn eftir að þau hafa verið gerð aðgengileg og þar til kærufrestur vegna athugasemda sem varða efni þeirra byrjar að líða, sbr. úrskurðir kærunefndar útboðmála í málum nr. 21/2020 og 41/2020. Telji bjóðandi í opinberum innkaupum tiltekinn skilmála útboðsgagna ólögmætan verður hann því að beina kæru til nefndarinnar innan kærufrests og getur ekki borið því við eftir opnun tilboða að víkja beri skilmálunum til hliðar, sbr. úrskurð kærunefndar útboðsmála í máli nr. 7/2021. Í máli þessu liggur fyrir að hið kærða örútboð var auglýst 27. september 2022 og voru útboðsgögn aðgengileg bjóðendum frá þeim sama degi. Fyrirspurnarfrestur var til 8. október og voru tilboð opnuð 17. október 2022. Strax frá upphafi lá fyrir sá skilmáli sem kærandi telur ólögmætan og komu ekki fram athugasemdir af hans hálfu við efni hans fyrr en við móttöku kæru þessa máls. Kæran var móttekin hjá kærunefnd útboðsmála 4. nóvember 2022 og var þá liðinn kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016. Verður því að vísa kröfu kæranda um niðurfellingu umrædds skilmála frá kærunefnd útboðsmála.

Kemur þá til skoðunar krafa kæranda um að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016. Í þeim efnum þarf því að taka til athugunar hvort um brot gegn nefndum lögum hafi verið að ræða.

Líkt og að framan greinir byggir kærandi á því varnaraðila hafi verið óheimilt að hafna tilboði kæranda þar sem það hafi ekki uppfyllt kröfu örútboðslýsingar um að auðvelt skuli vera að viðhalda áklæði, nauðsynlegt að hægt sé að gera við áklæðið án þess að skipta baki/setu út í heild, sbr. grein 1.3 í útboðslýsingu. Jafnframt hafi varnaraðila verið óheimilt að taka tilboði Pennans ehf., bæði þar sem tilboð félagsins hafi verið yfir kostnaðaráætlun og það hafi boðið stól sem uppfyllti ekki kröfu útboðslýsingar um styrkleika áklæðis.

Kaupendum er almennt játað nokkuð svigrúm við ákvörðun um það hvaða forsendur þeir leggja til grundvallar mati á tilboðum. Það svigrúm takmarkast þó af meginreglum opinberra innkaupa, svo sem að tryggja jafnræði fyrirtækja og stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri, sbr. 1. mgr. laga nr. 120/2016.

Í grein 1.3 í örútboðslýsingu kom fram almenn lýsing innkaupanna, svo sem áður hefur verið rakið. Þar koma fram ýmsar kröfur til þeirra stóla sem kaupandi hygðist kaupa. Meðal annars kom fram að það skyldi vera hægt að gera við áklæði stólanna án þess að skipta á áklæði í baki eða setu í heild. Ágreiningslaust er að stóllinn sem kærandi bauð fram mætir ekki þessari kröfu. Þegar af þeirri ástæðu kom tilboð kæranda ekki til álita við innkaupin. Verður því kröfu hans um álit á skaðabótaskyldu hafnað.

Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda, Sýrusson hönnunarstofu ehf., um að fella úr gildi skilmála örútboðsgagna um viðhald á áklæði á stól, er vísað frá kærunefnd.

Kröfu kæranda, um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila, Ríkiskaupa, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.


Reykjavík, 27. mars 2023


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadótti

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum