Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20heilbrig%C3%B0isr%C3%A1%C3%B0uneytis

Úrskurður nr. 17/2020

I. Beiðni um undanþágu.

Með tölvupósti, dags. 17. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá Menntaskólanum í tónlist um undanþágu frá 5. gr. auglýsingar nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sbr. 6. gr., fyrir útskriftarnema.

Bent er á það að í hljóðfæraprófum séu einungis viðstaddir nemandinn sem þreytir prófið, einn prófdómari, meðleikari eða meðleikarar nemandans, kennari nemandans og einn fulltrúi stjórnar skólans. Mögulega gætu kennari og fulltrúi skólans sleppt því að vera viðstaddir. Nokkur munur sé á fjölda meðleikara nemenda eftir brautum. Á klassísku brautinni sé oftast aðeins um að ræða einn meðleikara (píanó) en í rytmísku deildinni sé um hljómsveitir að ræða, þ.e. oftast 4–5 meðleikarar og stundum hljóðmaður. Heildarfjöldi viðstaddra sé því á bilinu 3–10 eftir því hvers eðlis prófið sé og hvaða ákvarðanir verði teknar. Prófin fari fram í rúmgóðum sal þar sem vel sé hægt að tryggja mjög gott bil milli allra viðstaddra.

Þá sé bent á að einn möguleiki væri að tónleikarnir færu fram án áheyrenda, þ.e. útskriftartónleikar. Viðstaddir væru þá aðeins sömu aðilar og taldir eru upp hér að framan. Tónleikarnir yrðu teknir upp á vídeó. Einnig væri hægt að halda tónleika en með takmörkuðum áheyrendafjölda og tilskilinni fjarlægð milli stóla.

Loks sé bent á að kennsla í Menntaskólanum í tónlist sé með talsvert öðru sniði en kennsla í öðrum menntaskólum. Meginþungi kennslunnar sé í formi einkatíma þar sem í flestum tilfellum séu aðeins tveir aðilar viðstaddir; nemandi og kennari. Í vissum tilfellum sé einnig um einn meðleikara að ræða. Beiðnin lýtur því einnig að því að fá undanþágu vegna einkatíma útskriftarnema. Einnig mætti hugsa sér að ganga lengra og óska eftir undanþágu fyrir alla einkatíma skólans, þó þannig að kennarar gætu valið hvort þeir vildu kenna í fjarkennslu eða í eigin persónu.

Rök Menntaskólans í tónlist séu þau að útskriftarnemar skólans geti ekki lokið námi sínu nema með því að taka framangreind próf og halda tónleika. Á útskriftinni velti meðal annars mögulegt framhaldsnám sem margir útskriftarnemar hyggja á erlendis næsta vetur. Sumir umræddra nemenda þurfi bæði að taka próf og halda tónleika.

Þá er bent á að almennir tónlistarskólar á vegum Reykjavíkurborgar séu opnir en með skerta starfsemi. Í þeim skólum verði væntanlega haldin próf eins og hér sé lýst nema að til komi frekari tilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum eða Reykjavíkurborg um algerar lokanir skólanna. Þá sé rétt að benda á að rytmísk deild Menntaskólans í tónlist starfar í Rauðagerði 27 þar sem Tónlistarskóli FÍH starfar einnig, en þar sé opið.

Útskriftarnemar Menntaskólans í tónlist séu 32 í ár. Undanþága vegna þeirra sé forgangsatriði. Allmargir aðrir nemendur skólans hyggja á ýmis hljóðfærapróf á vormánuðum. Telji heilbrigðisyfirvöld ofangreind próf ekki fara gegn markmiðum opinberra sóttvarna væri annar möguleiki að halda slík próf fyrir aðra nemendur skólans sem þess óska, jafnvel þótt skólinn verði lokaður að öðru leyti. Kennarar kenni í gegnum samskiptaforrit en próf geti ekki farið fram með þeim hætti.

II. Umsagnir.

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sóttvarnasviðs Embættis landlæknis um undanþágubeiðnina. Í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir meðal annars eftirfarandi:

„Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar nr. 216/2020, er mjög skýr en fram kemur í 5. gr. hennar að framhalds- og háskólum skal lokað. Fjarkennslu skal sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda.

Samkvæmt beiðni skólans er óskað eftir undanþágu vegna hljóðfæraprófs, útskriftartónleika og einkatíma útskriftarnema. Fái nemendur ekki undanþágu þá mun það leiða til þess að þeir geti ekki lokið námi og ekki er hægt að framkvæma próf með fjarkennslu.

Með því að heimila undanþágu frá auglýsingu á skólastarfi vegna farsóttar á þeim grundvelli að lokun skólans í langan tíma geti leitt til þess að nemendur geti ekki lokið námi sínu á þessari önn mun setja fordæmi fyrir alla verknámsskóla á landinu og þá með þeim hætti að markmið auglýsingarinnar nái ekki fram að ganga. Skólahald tekur bæði til bóklegs og verklegs náms og uppi hafa verið ýmsar tillögur um með hvaða hætti skuli að leysa verknámsþátt í þessum einstöku aðstæðum sem heimurinn er í.

Með vísan til jafnræðis, þess fordæmis sem ákvörðunin mögulega felur í sér og að aðrar lausnir eru hugsanlegar leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að beiðninni verði hafnað. Ráðuneytið vill um leið hvetja skóla til að leita annarra leiða til að tryggja námsmat á lokaverkefnum nemenda þar sem það er unnt, sem og sinna endurskipulagi kennslu er skólar opna að nýju til að ná fram því að útskrifa nemendur sína að uppfylltum gæðakröfum námsins. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“

Af hálfu sóttvarnasviðs Embættis landlæknis kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá hafi verið tekin afstaða til sambærilegrar beiðni sem lokið var með úrskurði í máli nr. 008/2020. Þar hafi komið fram að þótt beiðnin væri vissulega skiljanleg og hagsmunir verknámsnema umtalsverðir yrði ekki séð af umsókninni að þeir gætu vegið þyngra en þeir almannahagsmunir sem ákvörðun um takmörkun skóla væri ætlað að vernda. Í þeim efnum var meðal annars minnt á að ákvörðunin undanskildi ekki verknám frá lokun framhaldsskóla. Því gæti sóttvarnalæknir ekki mælt með því að undanþágan yrði veitt.

III. Niðurstaða.

Í 5. gr. auglýsingar nr. 216/2020 segir að framhalds- og háskólum skuli lokað og fjarkennslu skuli sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda. Samkvæmt 6. gr. auglýsingar nr. 216/2020 getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana.

Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu samkvæmt ákvæðinu þarf því meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík setji í hættu ráðstafanir til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum.

Þá telur ráðuneytið, í ljósi auglýsingar nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, að undanþága yrði almennt ekki veitt nema með þeim skilyrðum sem gilda um takmörkun á samkomum. Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstaklega þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila. Umsóknin er einkum byggð á sjónarmiðum sem eiga við um flest allt verknám, enda er Menntaskólinn í tónlist verknámsskóli á framhaldsskólastigi, en ekki tónlistarskóli utan kerfis sem nær yfir mörg skólastig. Þrátt fyrir að ráðuneytið geti fallist á að takmörkun skólahalds í framhaldsskólum komi almennt þyngra niður á verknámi en bóknámi telur ráðuneytið ekki unnt að veita undanþágu á þeim grundvelli eingöngu, enda kynni það að leiða til þess að veita þyrfti fjölda nemenda sambærilega undanþágu í verknámsskólum um allt land. Hefur ráðuneytið ekki fallist á slíkar undanþágur, sbr. meðal annars úrskurði ráðuneytisins nr. 8/2020, 12/2020 og 13/2020. Þrátt fyrir að tónlistarskólum utan kerfis sé heimilt að sinna einkatímum í tónlist þar sem fjarkennslu verði ekki komið við eru þau tilvik ekki sambærileg við mál Menntaskólans í tónlist, enda falla umræddir skólar að miklu leyti undir grunnskólastig sem um gilda aðrar reglur. Það er því mat ráðuneytisins að það samræmist ekki markmiðum þeirra opinberu sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til að veita umbeðnar undanþágur. Ráðuneytið minnir á ákvæði 1. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar þar sem segir að fjarkennslu skuli sinnt eftir því sem unnt er, svo sem varðandi einkakennslu.

Undanþágubeiðninni er því hafnað.

ÁKVÖRÐUNARORÐ

Beiðnum Menntaskólans í tónlist um undanþágur frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, vegna hljóðfæraprófa, útskriftartónleika og einkakennslu er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum