Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsmál nr. 6/2014, úrskurður 30. júlí 2015

Ár 2015, fimmtudaginn 30. júlí, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 6/2014

Landsnet hf.

gegn

Eiganda Landakots     

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnemi er Landsnet hf. kt. 580804-2410, Gylfaflöt 9, Reykjavík

Eignarnámsþoli er Margrét Guðnadóttir, kt.070729-3779, Rofabæ 29, Reykjavík.

 

Málsmeðferð nefndarinnar

Með bréfi dagsettu 14 mars 2014 óskaði eignarnemi eftir heimild til umráðatöku verðmætis í landi Landakots á Vatnsleysuströnd svo og að metnar yrðu hæfilegar bætur sem eignarnema bæri að greiða eignarnámsþola vegna eignarnáms.

Nefndin hélt fund með lögmönnum aðila 2. maí 2015 þar sem lögð var fram beiðni eignarnema ásamt fylgiskjölum. Var eignarnámsþola að svo búnu veittur frestur til greinargerðar til 21. maí 2014. Greinargerð ásamt fylgiskjölum bárust formanni 20. maí 2014 en voru lögð fram á fundi nefndarinnar 12. júní 2014 en á þeim fundi fluttu lögmenn fram sjónarmið sín varðandi beiðni um frestun málsmeðferðar og umráðatöku. Nefndin fór á vettvang 30. júní 2014 ásamt lögmönnum og aðilum og kynnti sér aðstæður. Með úrskurði nefndarinnar 29. júlí 2014 var kröfu eignarnámsþola um frestun málsmeðferðar hafnað og eignarnema heimilað að taka umráð hins eignarnumda. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 13. maí 2015 var úrskurður nefndarinnar felldur úr gildi. Nefndinni barst greinargerð eignarnámsþola 4. maí 2015 Með bréfi dagsettu 18. maí sl. kröfðust eignarnámsþolar í málum nr. 4-8/2014 þess að málum þeirra fyrir matsnefnd eignarnámsbóta yrði frestað ótiltekið þar til leyst hefði verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum. Með bréfi eignarnema dagsettu 22. maí 2015 var kröfu þessari mótmælt. Matsnefndin ákvað að áður ákveðinn málflutningur um bætur vegna eignarnáms 2. Júní 2015 færi fram og þann dag fluttu lögmenn aðila fram sjónarmið sín um frestun málsmeðferðar og fjárhæð eignarnámsbóta og var málið að svo búnu tekið til úrskurðar.

Skýrsla stýrihóps um flugvallarkosti á Höfuðborgarsvæðinu frá 25. júní 2015 barst nefndinni sama dag og í framhaldi af því óskaði lögmaður eignarnámsþola  eftir því að honum gæfist kostur á því að gera grein fyrir áhrifum niðurstaðna hennar á eignarnámsmatið. Var honum veittur frestur til þess og barst viðbótargreinargerð eignarnámsþola nefndinni 28. júlí sl. Sjónarmið eignarnema um þetta efni bárust nefndinni sama dag.

 

Kröfur og sjónarmið eignarnema

Eignarnemi hefur farið þess á leit að Matsnefnd eignarnámsbóta meti hæfilegar bætur sem eignarnema beri að greiða eignarnámsþolum og hæfilegt endurgjald vegna kostnaðar þeirra.

Enn fremur að kröfu eignarnámsþola um frestun másmeðferðar verði hafnað.Vísar eignarnemi til þess að með fyrrnefndri ákvörðun hafi Landsneti hf. verið heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) á landi undir 418 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 27 metra langan og 6 metra breiðan vegslóða og 1 burðarmastur, sbr. yfirlitskort á fylgiskjali 1 við framlagða eignarnámsbeiðni Landsnets hf., dags. 20. febrúar 2013. Eignarnámið sé heimilað til ótímabundinna afnota fyrir Landsnet hf. Um ákvörðun bóta fari samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973. Í þessu skyni skuli eftirfarandi kvöð verða þinglýst á jörðina Landakot (landnr. 130865), að teknu tilliti til fjölda burðarmastra:

1.         Landsneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um land jarðarinnar Landakots, landnr. 130865 samtals 418 metra langa 220 kV rafmagnslínu, svokallaða Suðurnesjalínu 2, ásamt því að reisa 1 burðarmastur til að bera línuna uppi. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til. Er heimild vegna háspennulínunnar og annarra réttinda samkvæmt yfirlýsingu þessari ótímabundin og sú kvöð sem lega mannvirkja þessara setur á jörðina óuppsegjanleg af hálfu landeiganda eða rétttaka hans.

2.         Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, sem er að jafnaði 46 metra breitt undir og við línuna. Landsnet hf. eða þeir, sem það felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum og rafmagnslínunni í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. Landsneti hf. er heimilt að leggja samtals 27 metra langan vegslóða og 6 metra breiðan að línunni og meðfram henni og halda slóðanum við eftir því sem þörf krefur. Mega mannvirki þessi standa í landinu ótímabundið og óátalið af eigendum og ábúendum jarðarinnar.

3.         Landsnet hf. eða þeir, sem fyrirtækið felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að helgunarsvæði rafmagnslínunnar og ljósleiðara í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda, sem og vegna viðhalds, eftirlits og endurnýjunar síðar.

 

Eignarnemi, Landsnet hf., hefur ákveðið að nýta sér án tafar eignarnámsheimild sína og vísist um hana að öðru leyti til ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um eignarnám, dags. 24. febrúar 2014, hér eftir vísað til sem heimildar Landsnets hf. til eignarnáms.

Hvorki hafi náðst samkomulag við eiganda jarðarinnar Landakots, eignarnámsþola, um umráðatöku né bætur vegna hinna afmörkuðu afnota Landsnets hf. af landi hennar sem í eignarnámsheimildinni felast.

 

Af hálfu eignarnema er kröfu eignarnámsþola um frestun málsmeðferðar fyrir nefndinni mótmælt. Eignarnema hafi verið heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám í landi jarðar eignarnámsþola vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) með ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, frá 24. febrúar 2014,

Í 1. gr. laga nr. 11/1973 sé gildissvið laganna einskorðað við ákvörðun bóta vegna eignarnáms sem heimilað sé í lögum. Skuli Matsnefnd eignarnámsbóta skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða eigi samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.

Af orðalagi í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð óbreytt að lögum nr. 11/1973 segi um eignarnema að „Honum má ekki íþyngja með óhóflegri greiðslubyrði vegna eignarnáms og ekki má eignarnám tefja um of framkvæmdir eignarnema.“

Af þessu sé ljóst að ekki beri síður að taka tillit til lögvarinna hagsmuna og málefnalegra sjónarmiða eignarnema við ákvarðanir matsnefndar eignarnámsbóta og meta verði málflutning eignarnámsþola fyrir matsnefndinni út frá mælikvarða stjórnsýsluréttar um málefnalega umfjöllun og lögmæt sjónarmið, s.s. annars vegar nauðsyn eignarnema á þeim réttindum sem um sé að tefla og hins vegar hagsmuni eignarnámsþola með tilliti til umfangs eignarnámsins og óhagræðis sem hann hafi af því. Þannig hljóti umfjöllun og málflutningur eignarnámsþola, með vísan í 1. gr. laga nr. 11/1973, að miðast fyrst og fremst við ágreining um eignarnámsbætur. Tilvísan til 1.          mgr. 72. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, vísi og til þessa, þ.e.a.s. að fullt verð komi fyrir réttindi sem eignarnámsþoli hafi að lögum verið skyldaður til að láta af hendi.

Eignarnámsþoli hafi alfarið sett sig upp á móti framkvæmdinni Suðurnesjalínu 2 og sé þeirrar skoðunar að frekar eigi að ráðast í aðrar framkvæmdir en þá sem eignarnemi hefur á grundvelli raforkulaga valið, undirbúið um fjölda ára m.a. með mati á umhverfisáhrifum og skipulagsvinnu og að auki fengið leyfi Orkustofnunar fyrir. Allt séu þetta lögbundnir ferlar þar sem hagsmunaaðilar og almenningur hafi átt þess kost að láta í ljós afstöðu sína til framkvæmdarinnar. Eignarnemi hafi bent á að framkvæmdin Suðurnesjalína 2, 220 kV, sé alls ekki sú sama og eignarnámsþoli hafi gert kröfu um að ráðist verði í, þ.e.a.s. að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörðu. Eignarnámsþoli hafi þó þannig tekið undir að nauðsyn sé á styrkingu hins almenna raforkukerfis á Suðurnesjum.

Af málflutningi eignarnámsþola mætti helst ráða að um væri að ræða eignarnám þar sem þeir væru sviptir eign sinni að fullu, en því fari víðs fjarri í þessum málum. Tjón eignarnámsþola sé takmarkað og sé á svæði sem þegar hafi verið valið sem mannvirkjabelti um Reykjanes.

Eignarnemi hafi náð samningum við meiri hluta landeigenda á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 um framkvæmdina. Staðhættir í landi eignarnámsþola séu þannig að jarðir þeirra liggi frá Vatnsleysuströndinni og langt upp í fjallgarða á Reykjanesskaga. Jarðirnar þveri þannig allar almennar leiðir til og frá Reykjanesi, hvort sem það séu samgöngur eða aðrir innviðir þjóðfélagsins. Fara verði um land þessara jarðeigenda og þar af leiðandi hvíli á þeim rík samfélagsleg skylda til að heimila nauðsynlegar framkvæmdir samfélagsins í landi þeirra eins og staðhættir séu í landi eignarnámþola.

Eignarnemi hafi nú þegar fengið leyfi lögbundins leyfisveitanda og eftirlitsaðila samkvæmt raforkulögum, Orkustofnunar, vegna framkvæmdarinnar Suðurnesjalína 2.

Því er hafnað af hálfu eignarnema að eignarnám það sem hér er fjallað um sé gífurlega íþyngjandi fyrir eignarnámsþola. Hér sé um almenna skerðingu á eignarréttindum að ræða í almannaþágu sem komi með sama hætti við eignarnámsþola og aðra landeigendur og almenning á svæðinu. Undirbúningstími framkvæmda sé langur og lengist sífellt. Málsmeðferðarreglur hafi orðið flóknari á síðustu árum og kæruferli lengist. Eignarnemi hafi í hvívetna fylgt þeim reglum og lögum sem honum beri.

Þau dómsmál sem eignarnámsþolar hafi höfðað snúist að meginstefnu um hvort réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt við töku stjórnvaldsákvarðana. Eignarnemi telur að svo sé og bendir á að stjórnvaldsákvörðun verði að vera haldin verulegum annmörkum til að dómstólar hafi vald til að ógilda þær. En jafnvel þótt dómstóll kunni að telja að í einhverju tilviki hafi orðið misbrestur á undirbúningi eða töku stjórnvaldsákvörðunar og mistök gerð, útiloki það ekki að ný ákvörðun, sambærileg sé tekin. Slík niðurstaða kynni að tefja framkvæmdir en alls ekki sé unnt að halda því fram, líkt og eignarnámsþoli gerir, að félli niðurstaða  dómsmála þeim í hag yrði skilyrðislaust hætt við áform um framkvæmdina í landi þeirra.

Fyrir aðalkröfu eignarnámsþola sé ekki lagastoð og því beri að hafna henni eða vísa frá Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Um mat á bótum segir að eignarnemi telji að markaðsverð þess lands sem hér um ræðir sé mjög lágt. Ef markaðsverð sé ekki talið vera til staðar þá er einnig á það bent af hálfu eignarnema að telja verði notagildi þess lands sem meta skal mjög lítið fyrir eignarnámsþola, ef nokkuð. Hvort sem notaður sé mælikvarði um markaðsvirði eða not eignarnámsþola af eigninni sé niðurstaðan ávallt sú að eignarnámsþola beri mjög hóflegar eignarnámsbætur.

Eignarnemi hafi boðið eignarnámsþola bætur sem miðast hafi við að fullt verð fyrir hvern hektara hins eignarnumda lands væri 1.050.000 krónur. Taldi eignarnemi það ríflega boðið og umfram raunverulegt markaðsverðmæti landsins. Því tilboði hafi verið hafnað en sjónarmiðum eignarnámsþola um hvað hann telji fullar bætur er mótmælt. Eignarnemi telur að framangreint tilboð sitt, sem byggi á samningum, sé mun hærra verð en markaðsverð hins eignarnumda og krefst þess að litið verði framhjá samningstilboðinu og bætur metnar mun lægri af hálfu matsnefndar eignarnámsbóta en eignarnemi hafi boðið fram í samningaviðræðum við eignarnámsþola.

Öllum sjónarmiðum eignanámsþola sem lúti að því að krefjast bóta fyrir stærra landsvæði vegna háspennulínunnar en gert er í útreikningum eignarnema sé hafnað. Í ljósi þessa sé minnt á að gera verði þá kröfu til eignarnámsþola að hann færi sönnur fyrir kröfugerð sem byggist á sjónarmiðum um að eignarnámsþoli bíði sérstakt tjón umfram aðra þá landeigendur sem séu í sambærilegri stöðu, með hliðsjón af almennum sönnunarreglum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

 

Af hálfu eignarnema sé byggt á almennum eignarréttarreglum, fyrst og fremst þeim sjónarmiðum sem gildi um eignarnám. Í íslenskum lögum sé ekki að finna almennar reglur um það hvernig meta skuli verðmæti eigna sem tekin eru eignarnámi en um framkvæmd eignarnáms gildi lög nr. 11/1973. Í löggjöfinni megi þó finna ýmis ákvæði um sjónarmið sem hafa beri í huga varðandi fjárhæð eignarnámsbóta við eignarnám, svo sem 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, 140. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, 5. mgr. 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, sbr. og til hliðsjónar 3. mgr. 30. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.

Við ákvörðun bóta vegna eignarnáms hafi einkum þrenns konar sjónarmið komið til álita, þ.e.a.s. söluverð, notagildi og enduröflunarkostnaður á útvegun sambærilegrar eignar. Að mati eignarnema eigi sjónarmið um enduröflunarkostnað ekki við í þessu máli.

Við bótaákvörðun sé það meginregla að eignarnámsþoli geti krafist þess verðs sem ætla megi að fengist fyrir eign við frjálsa sölu á markaði. Markaðsvirði ráðist að jafnaði af þeim notum eða arði sem hafa megi af eign. Í þeim tilvikum sem markaðsvirðið endurspegli ekki þau not (arð) sem hafa megi af viðkomandi eign eða eignin gangi hreinlega ekki kaupum eða sölum, er eignarnámsþoli talinn eiga rétt á bótum á grundvelli þeirra nota sem hafa má af eigninni.

Eignarnemi telur að markaðsverð þess lands sem meta skal sé mjög lágt. Ef það sé ekki til staðar þá er einnig á það bent af hálfu eignarnema að telja verði notagildi þess lands sem meta skuli fyrir eignarnámsþola mjög lítið, ef nokkuð. Þannig telur eignarnemi að hvort sem notaður sé mælikvarði um markaðsvirði eða not eignarnámsþola af eigninni sé niðurstaðan ávallt sú að eignarnámsþola beri mjög lágar bætur.

Hagsmunir eignarnema og samfélagsins alls af landnotkun séu ríkir en not eignarnámsþola af hinu eignarnumda landi takmörkuð. Þá beri að geta þess að í samkomulagi aðila og eignarnámsheimild sé einvörðungu gert ráð fyrir ótímabundnum afnotarétti en ekki beinum eignarrétti eignarnema. Þannig hafi eignarnámsþoli full umráðaréttindi yfir landi sínu, en verði þó að hlíta þeim kvöðum sem gildi vegna helgunarsvæðis háspennulínanna.

Orðalag 72. gr. stjórnarskrárinnar að „fullt verð“ komi fyrir eign sem tekin er eignarnámi vísi til réttarstöðu eignarnámsþola en ekki eignarnema.  Meta þurfi fjárhagslegt og raunverlegt tjón eignarnámsþola út frá almennum skaðabótareglum og hlutlægum grundvelli. Ófjárhagslegt tjón, líkt og miskabætur, séu ekki andlag mats.

Þegar metin séu verðmæti hinna eignarnumdu réttinda verði almennt að hafa til hliðsjónar þau not sem eignarnámsþoli  hafi af eigninni.  Í íslenskum rétti hafi verið talið að bætur beri að miða við tjón eignarnámsþola en ekki þann hagnað sem eignarnemi kunni að öðlast. Þannig eigi bætur til eignarnámsþola að miðast við sannanlega og eðlilega notkun hans af eigninni nú.

Um áhrif kvaðar og skerðingu á eignarrétti segir eignarnemi að Matsnefnd eignarnámsbóta hafi í nálega tvo áratugi fylgt þeirri reglu við ákvörðun eignarnámsbóta vegna háspennulína að meta til fulls miðað við metið hektaraverð viðkomandi áhrifasvæðis, það landsvæði sem fari undir möstur og slóða. Meginkvöðin sé hins vegar vegna byggingabanns, sem nái til svæðis undir hinum þremur háspennuleiðum á milli tveggja mastra sem bera þær uppi.

Þær framkvæmdir sem hér sé vitnað til séu fyrst og fremst framkvæmdir við Búrfellslínu 3, sem fram hafi farið skömmu fyrir síðustu aldamót, framkvæmdir við Sultartangalínu 3 á árunum 2003-2004, en báðar þessar háspennulínur liggi frá Þjórsár- Tungnaársvæði og til höfuðborgarsvæðisins, og framkvæmdir við Fljótsdalslínur 3 og 4, sem liggi frá Fljótsdalsstöð og að álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Allar þessar háspennulínur hafi verið reistar fyrir flutningsgetu á 420 kV spennu og séu því stærstu háspennulínur á landinu. Umfang Suðurnesjalínu 2 og Kolviðarhólslínu 2 verði talsvert minna, enda reistar fyrir flutningsgetu á 220 kV spennu. Að auki sé mastursgerð Suðurnesjalínu 2 svonefnd röramöstur og séu landnot undir mastur verulega minni en í 420 kV háspennulínum.

Hvað varði byggingabann og línuhaf sem sé á milli mastra sé ljóst að eignarnámsþola séu ekki meinuð öll afnot landsins en þau megi ekki fara í bága við þær kvaðir sem háspennulínunum fylgi. Vegna þessa hafi verið talið rétt að leggja til grundvallar að bætur séu reiknaðar þannig að þær nemi 2/3 hlutum hektaraverðs fyrir land sem er kvaðasett vegna byggingabanns. Við ákvörðun bóta vegna Fljótsdalslínu 3 og 4, þar sem línurnar fóru á löngum köflum um fjalllendi og óbyggð svæði, hafi matsnefndin lagt til grundvallar að á slíkum svæðum væru bætur miðaðar við hektaraverð. Í tilboði eignarnema til eignarnámsþola hafi verið miðað við að fyrir helgunarsvæði væri greidd fjárhæð er næmi 2/3 hlutum þeirrar fjárhæðar sem lögð var til grundvallar sem hektaraverð.

Eignarnemi telur að fylgja ber eldri fordæmum um endurgjald fyrir afnotaréttindi og kvaðir vegna háspennulína í flutningskerfi eignarnema, að teknu tilliti til minna umfangs Suðurnesjalínu 2. Þó telji eignarnemi að við matið eigi að taka til skoðunar, sökum legu lands eignarnámsþola og lítilla landnota, hvort frekar eigi að miða við hina lægri hlutfallsreglu eða helming hektaraverðs, þegar bætur vegna byggingabanns eru metnar.

Kröfu af hálfu eignarnámsþola um frekari bætur en sem hér hafi verið lýst og eignarnemi hafi að fullu bætt, sé hafnað af hálfu eignarnema, þar á meðal kröfum um bætur vegna verðfalls á eign vegna sjónrænna áhrifa háspennulínunnar.

Eignarnemi vísar frekar um þennan þátt til dóms Hæstaréttar í máli nr. 404/2009, sem kveðinn var upp 25. mars 2010, sem og dóms Hæstaréttar í máli nr. 18/1995, sem kveðinn var upp 16. janúar 1997.

Um verðmæti hins eignarnumda segir að eignarnemi hafi náð samningum við meiri hluta landeigenda á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 um framkvæmdina. Telja verði í ljósi núverandi landnýtingar hins eignarnumda lands að landið sé mjög verðlítið, auk þess sem eftir því sem næst verði komist liggi ekki fyrir að nokkur sérstök afnot hins eignarnumda séu fyrirsjáanleg svo langt sem litið verði til framtíðar.

Eignarnemi tekur fram að hann telji að líta megi til mála nr. 11 og 12/2009 hjá Matsnefnd eignarnámsbóta, er varðað hafi framkvæmdir eignarnema við 132 kV jarðstreng frá Nesjavöllum að Geithálsi. Landið hafi verið nálægt Geithálsi og mun aðgengilegra en land það sem hér um ræði. Þá telur eignarnemi að í þessu máli hafi niðurstaða í máli matsnefndar nr. 8/1991 fullt fordæmisgildi.

Um lagarök vísast til 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 24. febrúar 2014. Að því er snertir málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu vísast til laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Þá er vísað til meginreglna og lagasjónarmiða í eignarrétti um mat á bótum vegna eignarnáms.

 

Í viðbótargreinargerð eignarnema frá 28. júlí 2015 segir m.a. að sá flugvöllur sem hugmynd sé um að reisa í landi Hvassahrauns kæmi þvert á bæði núverandi og fyrirhugaða loftlínu. Nefndinni hafi verið ljóst að fyrirhugað sé að reisa Suðurnesjalínu 2 á þeim stað sem flugvöllurinn er nefndur. Sú staðreynd að nefndin telji Hvassahraun bæði raunhæfan kost, sem og þann ódýrasta, þrátt fyrir að byggja þyrfti flugvöllinn þvert á núverandi og fyrirhugaða línu, sem þá væri búið að reisa, staðfesti að bygging háspennulínu á þessu svæði valdi engri verðmætisrýrnun eða eyðileggingu lands. Þvert á móti staðfesti skýrslan að tilkoma Suðurnesjalínu 2, samhliða núverandi Suðurnesjalínu 1, skerði í engu notkunarmöguleika landsins sem geti talist raunhæfir. Þetta sé meginatriði og breyti þannig í engu þeim sjónamiðum sem þegar hafi komið fram í gögnum og málflutningi fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Í skýrslunni komi fram að meðal undirbúningsframkvæmda almennt sé að færa háspennulínur og kemur fram að í Hvassahrauni þyrfti að setja loftlínur í jörð og af því myndi hljótast nokkur undirbúningskostnaður.

Af framangreindu sé ljóst að framkvæmdin Suðurnesjalína 2 hafi engin áhrif á það hvort Hvassahraun geti verið kostur fyrir slíka framkvæmd eða aðrar. Ef landnot breytist sé mjög líklegt að línurnar verði einfaldlega færðar, hvort sem um verði að ræða íbúabyggð, flugvöll eða annan iðnað. Í þessu tilviki liggi fyrir að forsenda framkvæmdarinnar sé sú að línurnar verði færðar. Það sé þá gert á kostnað framkvæmdaraðilans eins og skýrt komi fram í skýrslunni. Því sé ekki rétt að meta landið nú á þeim forsendum að línurnar takmarki eða komi í veg fyrir aðra nýtingu á landinu eða hreinlega eyðileggi landið, svo sem haldið sé fram af eignarnámsþolum. Ekki sé heldur eðlilegt að líta svo á að flugvallarskýrslan leiði til hækkunar bóta, þegar ljóst sé að flugvöllur i Hvassahrauni yrði byggður án tillits til staðsetningar línanna.

Sú staðreynd að Hvassahraun hafi verið valið sem skásti kosturinn fyrir innanlandsflugvöll sem kunni að þróast í millilandaflugvöll, staðfesti einnig að almennt sé litið svo á að litlar sem engar líkur séu á því að íbúðabyggð eða önnur byggð þróist á svæðinu næstu áratugi. Höfundar skýrslunnar hafa óhjákvæmilega valið land Hvassahrauns þar sem mjög ósennilegt sé að byggð fari að þrengja að flugvellinum næstu áratagi. Það staðfesti sjónarmið eignarnema um þetta, sem alltaf hafi verið haldið fram.

Þá skipti máli að hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni er ein nokkurra hugmynda um staðsetningu flugvallar og sú sem nefndin telur vænlegastan miðað við ákveðnar forsendur. Langur vegur sé hins vegar frá því að um sé að ræða hugmynd sem líta megi á sem líklega framkvæmd. Að minnsta kosti sé jafn líklegt að ekkert verði nokkurn tíma af framkvæmdinni. Hugmynd um framkvæmd sem þessa, sem miðað sé við að geti kannski orðið af eftir mörg ár eða áratugi, hafi engin áhrif á verðmæti lands í dag. Sem dæmi megi nefna að þess hafi ekki séð stað, þrátt fyrir umræður um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma og mögulegar bætur fyrir vatnsréttindi að jarðaverð á svæðinu hafi tekið þrátt fyrir hugmyndir um virkjunina. Sömu sögu sé að segja um jarðaverð á Norðausturlandi, þar sem rætt hafi verið í nokkur ár um mögulega stórskipahöfn eða þjónustuhöfn fyrir olíuvinnslu. Þessar hugmyndir, hafi að engu leyti haft áhrif á landverð á svæðinu, enda of margir óvissuþættir til staðar.

Miklu nær er að lita svo á að hugmyndin um stóran alþjóðaflugvöll hafi valdið því að nýtingarmöguleikar landsins séu takmarkaðir þangað til ljóst verði hvort af framkvæmdinni verður. Bygging háspennulína sé ef til vill ein þeirra framkvæmda sem óhætt sé að ráðast í án tillits til hugmyndarinnar, enda ljóst að línurnar verði færðar ef til framkvæmda komi. Hugmyndin skerði hins vegar möguleika landeigenda til þess t.d. að þróa landið undir sumarhúsabyggð, svo sem þeir hafi sjálfir nefnt sem kost. Sama gildi um deiliskipulagða íbúðabyggð, þótt sá kostur sé mjög óraunhæfur. Alþjóðaflugvöllur og sumarbústaðaland sé nýting á landi sem ekki fari saman og fyrir liggi að val á nýjum flugvelli tengist því að núverandi innanlandsflugvöllur þyki óheppilega staðsettur innan um blandaða íbúabyggð. Því séu líkur til þess, að hafi hugmyndin einhver áhrif á landverð Hvassahrauns og nærliggjandi jarða yfir höfuð, sé það til lækkunar frekar en hitt.

Flugvallarskýrslan sýni einnig að það yrði mun meiri sóun á verðmætum en ella að leggja jarðstreng á svæðinu heldur en að byggja loftlínu, ef af hugmyndinni yrði. Hvort sem lagður yrði jarðstrengur nú eða loftlína byggð, þyrfti að færa mannvirkið þegar framkvæmdir hæfust við flugvöllinn. Því nær sem það sé gert tímamarki stofnkostnaðar, því kostnaðarsamara yrði að leggja línuna í jörð núna umfram það að byggja hana í lofti. Ítrekað sé þó að allar hugmyndir um flugvallargerð séu á frumstigi og verði ekki að veruleika á næstunni.

Þá er til þess vísað að m.a. um landverð vegna flugvallarbygginga og skaðabætur vegna flugvallarbygginga, gildi lög. Þannig sé í 58. gr. loftferðalaga, nr. 60/1998, heimild til eignarnáms vegna flugvallagerðar og í 63. og 64. gr. laganna sé fjallað um skaðabætur vegna tjóns sem aðrir telji sig verða fyrir vegna starfsemi þeirra. Í öllum tilvikum séu bætur metnar á hefðbundin hátt samkvæmt þeim sjónarmiðum sem gildi um mat á eignarnámsbótum. Verði af slíkum framkvæmdum sé ljóst að samningar við landeigendur taki mið af slíkum lagaákvæðum, enda heyri flugvallagerð til mikilvægra innri stoðkerfa samfélagsins líkt og flutningskerfi raforku og hvíli á sjónarmiðum um öryggi og heill almennings í landinu.

Loks er nefnt að eignarnámsþolar tefli fram sjónarmiðum sem séu í mótsögn hvert við annað. Því sé haldið fram að framkvæmdin takmarki möguleika til annarrar nýtingar en um leið sé einnig fjallað um áhrif náttúru, sem önnur nýting hafi jafnt áhrif á. Í skýrslu svonefndrar Rögnunefndar sé bent á að umhverfisáhrif framkvæmda á svæðinu séu lítil og takmarkist að mestu við áhrif á eldhraun en af hálfu eignarnámsþola hefur mikið verið fjallað um umhverfisþætti og mikið gert úr áhrifum framkvæmdarinnar Suðurnesjalína 2 á þá.

 

Kröfur og sjónarmið eignarnámsþola

Aðallega er þess krafist að máli þessu verði í heild sinni, frestað ótiltekið þar til leyst hafi verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum.

Þá gerir eignarnámsþoli þá kröfu fyrir matsnefnd eignarnámsbóta að eignanema, Landsneti hf., verði gert að greiða félaginu bætur að fjárhæð 696.100.340 krónur.

Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi eignarnema.

Eignarnámsþoli krefst þess aðallega að máli þessu verði frestað ótiltekið þar til leyst hafi verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum. Samhliða máli eignarnámsþola séu rekin fjögur sambærileg mál á sama svæði á hendur m. a. Landsneti og íslenska ríkinu vegna eignarnámsákvörðunar ráðherra.  Vísa þeir til þess að mál þetta eigi rætur sínar að rekja til þeirra áforma eignarnema að reisa svokallaða Suðurnesjalínu 2 í lofti. Lagning línunnar sé hluti af verkefninu „Suðvesturlínur“ sem, samkvæmt fullyrðingum eignarnema, hafi það markmið að byggja upp raforkuflutningskerfi til framtíðar á Suðvesturlandi.

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, sé eignarrétturinn friðhelgur. Engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Þá sé ljóst af dómaframkvæmd Hæstaréttar að ef unnt sé að ná markmiði framkvæmdar, sem feli í sér skerðingu á eignarrétti, með ásættanlegum hætti með mismunandi leiðum beri að velja þann kost sem sé minnst íþyngjandi fyrir þann sem skerðing bitni á (meðalhófsregla), sbr. dóm Hæstaréttar frá 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008.

Lagaskilyrði eignarnáms, s.s. um almenningsþörf o.fl., séu matskennd og teygjanleg og hvíli réttmæti eignarnámsins á túlkun á umræddum lagaskilyrðum. Vegna séreðlis eignarnáms sé þó eðlilegt að gera strangar kröfur til ákvarðana ráðherra, þar sem um „mjög íþyngjandi stjórnarathafnir er að ræða“.  Ákvörðun ráðherra um eignarnám sé stjórnvaldsákvörðun og gildi slíkra ákvarðana sé háð almennum reglum um stjórnarathafnir. Dómstólar hafi, í samræmi við 60. gr. stjórnarskrárinnar, vald til þess að ógilda stjórnvaldsákvarðanir ef þeim er áfátt að formi eða efni til. Dómstólar hafi því endanlegt úrskurðarvald um hvort skilyrði séu til eignarnáms.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms komi fram það grundvallarskilyrði fyrir því að eignarnám verði framkvæmt að lagaheimild sé til eignarnámsins.  Þá komi fram í 17. gr. laganna að heimilt sé að leita úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti þess. Í ljósi þess hversu íþyngjandi ákvörðun um eignarnám sé megi ekki leika nokkur vafi á því að eignarnámsheimildin sé skýr og ótvíræð. Séu af þeim sökum mörg dæmi þess í framkvæmd að matsnefndin fresti máli ótiltekið á meðan rekið sé dómsmál um lögmæti eignarnámsins.

Með vísan til framangreinds sé ljóst að það sé á ábyrgð matsnefndarinnar að kanna hvort lagaheimild sé til eignarnámsins.  Þótt það verði ekki lagt í hendur matsnefndarinnar að skera úr um gildi eignarnámsins sé augljóst að málshöfðanir eignarnámsþola séu hvorki tilefnislausar né órökstuddar. Þvert á móti séu í stefnum eignarnámsþola færð fram málefnaleg rök og málsástæður fyrir ógildingu ákvarðana stjórnvalda sem dómstólar þurfi að taka efnislega afstöðu til.  Það sé því a.m.k. uppi vafi um að eignarnámsheimildin sé lögmæt.

Þá verði að hafa í huga að ákvörðun um eignarnám sé gríðarlega íþyngjandi, eins og áður er rakið, og er endanlegt úrskurðarvald um lögmæti eignarnámsins í höndum dómstóla. Enn fremur sé ljóst að þær framkvæmdir sem eignarnemi ætli sér að ráðast í muni koma til með að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á jarðeignir eignarnámsþola. Yrði það vægast sagt fráleit staða ef máli þessu yrði fram haldið, eignarnemi tæki við umráðum jarðeigna eignarnámsþola og hæfi framkvæmdir og dómstólar myndu síðan komast að þeirri niðurstöðu að eignarnámið væri reist á ólögmætum grundvelli. Væri þá þegar yfirstaðið óafturkræft jarðrask á jörðum eignarnámsþola á grundvelli ólögmætrar eignarnámsheimildar.

Í framangreindu sambandi verði einnig að hafa í huga að í áðurnefndum dómsmálum sé ekki útilokað að eignarnámsþoli muni afla sér mats dómkvaddra matsmanna eða að dómurinn, sem væntanlega verði skipaður sérfróðum meðdómendum, vilji ganga á vettvang til þess að skoða aðstæður og meta hvort lagning línunnar í jörð sé raunhæfur kostur. Eðli máls samkvæmt verði því landsvæðið sem mögulega fari undir loftlínurnar að vera óhreyft. Verði umráðin fengin og hinar óafturkræfu framkvæmdir hafnar komi það til með að spilla sönnunarstöðu eignarnámsþola í viðkomandi dómsmálum sem og grundvelli hlutlægs síðari samanburðar á lagningu línunnar á umræddu svæði í jörð og í lofti. Slíkt væri að sjálfsögðu með öllu ólíðandi.

Með vísan til framangreinds telji eignarnámsþoli sýnt að fresta verði máli þessu fyrir matsnefndinni ótiltekið á meðan mál um gildi eignarnámsákvarðana ráðherra eru rekin fyrir dómi.

 

Um bætur vegna eignarnámsins er af hálfu eignarnámsþola einkum vísað til eftirfarandi sjónarmiða.

Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 segi að fullt verð skuli koma fyrir eign sem eignarnám er gert í. Í 1. mgr. 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003 segi að náist ekki samkomulag við landeiganda vegna framkvæmda geti ráðherra heimilað að tekið sé eignarnámi land, landgæði, mannvirki og önnur réttindi að því leyti sem nauðsyn beri til. Ráðherra geti heimilað fyrirtækinu að framkvæma eignarnámið og ber það allan kostnað af eignarnáminu.

Við mat á því hvað teljist vera fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar sé hefðbundið að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignar, notagildi hennar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Því sjónarmiði beri að beita sem telst hagstæðast fyrir eignarnámsþola.

Af hálfu eignarnámsþola sé þess í fyrsta lagi krafist að fjárhæð eignarnámsbóta í þessu máli miðist við að hektaraverð sé 38 milljónir króna en því til viðbótar komi síðan bætur fyrir almenna verðrýrnun jarðarinnar. Að því er varði bætur fyrir rask og óheftan umferðarrétt sé gerð krafa um 3 milljónir króna í bætur.

Um frekari rökstuðning fyrir fjárhæð bóta vísar eignarnámsþoli til eftirfarandi:

a)  Landnotkun

Eignarnámsþoli byggi á því að við ákvörðun bóta verði að miða við möguleika á framtíðarnýtingu landsins. Er í þessu sambandi vísað sérstaklega til dóms Hæstaréttar í máli nr. 220/1982 (Ásgarður). Minnt sé á í þessu samhengi að eignarnám sé þvingunaraðgerð og eignarnámsþoli þannig sviptir möguleika á að koma landi sínu í verð þegar markaðsaðstæður eru heppilegar. Í eignarnámsfræðum sé talað um að eignarnámsþoli eigi að fá að njóta svokallaðrar biðvonar þegar þannig standi á. Í Danmörku sé t.d. viðurkennt að markaðsvirðið ákvarðist ekki einungis af núverandi notkunarmöguleikum heldur einnig af eftirvæntingum um breytingar sem gefi möguleika á arðbærari nýtingu. Slíkar væntingar skuli bæta við eignarnám í Danmörku svo lengi sem möguleiki sé á breytingunum í nánustu framtíð. Það hafi því ekki meginþýðingu við verðmatið hvernig landið sé eða hafi verið nýtt til dagsins i dag. Það sem skipti máli séu nýtingarmöguleikar þess til framtíðar litið.

Eignarnámsþoli byggi á því að verðmæti hins eignarnumda lands sé bundið við einstaka staðsetningu þess í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Hið eignarnumda land sé allt á láglendi og nærri þéttbýli Hafnarfjarðar. Ef litið sé til framtíðarþróunar byggðar á höfuðborgarsvæðinu sé ljóst að landið sunnan og vestan Hafnarfjarðar, einkum í átt að ströndinni, sé eitt vænlegasta byggingarland sem til sé á svæðinu og kjörlendi fyrir íbúðabyggð og atvinnustarfsemi. Fyrirséð sé að miðja höfuðborgarsvæðisins muni flytjast sunnar og vestar en nú er. Að mati eignarnámsþola sé það einungis tímaspursmál hvenær land á þessum slóðum verði skipulagt sem byggingarland. Land eignarnámsþola sé því á jaðri framtíðar byggingarlands höfuðborgarsvæðisins og ljóst að til lengri tíma litið verði í það mikil ásókn. Að mati eignarnámsþola séu landgæði því með þeim hætti að meta skuli landið sem byggingarland.

b) Almenn verðrýrnun jarðarinnar

Af hálfu eignarnámsþola er á því byggt að Suðurnesjalína 2 hafi í för með sér almenna verðrýrnun umfram helgunarsvæði línunnar. Í íslenskum rétti sé almennt viðurkennt að eignarnámsþoli eigi ekki aðeins rétt á bótum fyrir hina eignarnumdu eign heldur sé eignarnema skylt að bæta allt það fjárhagslega tjón sem sé að rekja til eignarnámsins.  Þar undir falli t.d. verðfall á eign sem eignarnámsþoli haldi eftir þegar hluti eignar sé tekin eignarnámi. Bent er á að í dómi Hæstaréttar frá 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 (Þjórsártún), hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að landeigandi ætti rétt á bótum fyrir land í allt að 250 metra fjarlægð frá miðlínu vegar langt umfram skilgreint veghelgunarsvæði.  Í þessu samhengi bendir eignarnámsþoli á að sjónræn og önnur neikvæð áhrif af 220 kV loftlínu teygi sig margfalt lengra en samskonar áhrif af vegi, enda um að ræða gríðarlega mikið og áberandi mannvirki.  Að mati eignarnámsþola sé því eðlilegt og sanngjarnt að miða við 1% verðrýrnun á a.m.k. 2000 metra breiðu áhrifasvæði í kringum loftlínuna, þó að frádregnu 46 metra helgunarsvæði. Eignarnámsþoli telji því áhrifasvæði umfram helgunarsvæði vera 1954 metra breitt. Innan kröfugerðar eignarnámsþola rúmist þó bætur vegna verðrýrnunar á landinu öllu.

Með hliðsjón af framansögðu sé í bótakröfu eignarnámsþola innifalin krafa vegna þeirrar almennu verðrýrnunar sem eignarnámsþoli telji að tilvist 220 kV loftlínu í landi þeirra hafi í för með sér.

Um frekari rökstuðning fyrir almennri verðrýrnun vísar eignarnámsþoli til eftirfarandi:

Eignarnámsþoli vekur sérstaka athygli nefndarinnar á því að lega línunnar um land hennar  sé þannig að hún kljúfi landið og skapi með því óhagræði við umferð og nýtingu jarðarinnar.  Hafi þetta þær afleiðingar að land sem eignarnámsþoli haldi eftir nýtist verr en ella.

Eignarnámsþoli bendir á að sjónræn áhrif af línunni séu til þess fallin að rýra verðmæti jarðarinnar allrar. Loftlínur hafi verulega neikvæð áhrif á ásýnd, landslag og upplifun á svæðinu. Í þessu tilfelli séu áhrifin sérstaklega neikvæð með hliðsjón af því að línan muni að mestu liggja um fallega og ósnortna náttúru. Línunni sé ætlað að liggja um mosagróin nútímahraun sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. frá 1. júlí 2015 a-lið 2. mgr. 57. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Náttúruspjöll á landi með línuvegum og mastrastæðum séu gífurleg og flest óafturkræf. Í þessu samhengi geri eignarnámsþoli sérstaka kröfu um að litið verði til skemmda á náttúru landsins, en þau spjöll hafi án efa leitt til þeirrar niðurstöðu að landið sé verðminna en ella.

Máli sínu til stuðnings vísar eignarnámsþoli til umsagnar Umhverfisstofnunar vegna Suðurnesjalínu 2, dags. 25. júní 2009, en þar segi að ein helstu umhverfisáhrif af lagningu Suðvesturlína séu á landslag og að á heildina litið muni fyrirhugaðar framkvæmdir fela í sér aukinn sýnileika háspennulína. Undir þessi sjónarmið taki Skipulagsstofnun í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum vegna Suðurnesjalínu 2. Þar sé komist að þeirri niðurstöðu að neikvæðustu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði „sjónræn áhrif og áhrif á landslag“. Telji Skipulagsstofnun að heildaráhrif fyrirhugaðra framkvæmda m.t.t. þessara umhverfisþátta verði óhjákvæmilega „verulega neikvæð“.

Auk sjónrænna áhrifa muni línan valda varanlegum óþægindum sökum hávaða frá henni bæði af völdum veðurs og gneistunar. Vindgnauð geti myndast við ákveðnar aðstæður, þ.e. vindhraða og stefnu, þegar vindurinn blási í gegnum möstrin. Hávaði af rafrænum uppruna skapist auk þess af háum rafsviðsstyrk við yfirborð leiðara. Hávaði þessi muni hafa í för með sér veruleg óþægindi fyrir eignarnámsþola og leiða til verðrýrnunar á landinu.

Í framangreindu samhengi bendir eignarnámsþoli á mótmæli íbúa og fasteignaeigenda í Vallahverfi í Hafnarfirði, sem búi í nágrenni við háspennulínur Landsnets, við umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 í Hafnarfirði. Í undirritaðri yfirlýsingu hópsins hafi þess verið krafist að allar háspennulínur í hverfinu yrðu lagðar í jarðstreng eða fjarlægðar.  Fram komi í yfirlýsingunni að loftlínurnar muni „hafa verulega neikvæð áhrif á útivist, útsýni og hljóðvist í Vallahverfinu og hafa áhrif til lækkunar fasteignaverðs...“.

Vert sé að geta þess að þau áhrif sem íbúar Vallahverfisins í Hafnarfirði hafi kvartað yfir stafi af 132 kV háspennulínu, en lína sú sem fyrirhugað er að reisa í landi eignarnámsþola er bæði hærri og spennumeiri, eða 220 kV. Af því leiði að bæði sjón- og hljóðmengun verði meiri í landi eignarnámsþola, en þekkt sé að með aukinni spennu fylgi aukin hljóð.

Þá bendir eignarnámsþoli á að ólíkt mörgum öðrum mannvirkjum fylgi því beinlínis hætta að vera í námunda við háspennt mannvirki. Manneskja sem sé í jarðsambandi og komi of nærri leiðara eigi á hættu að fá í sig raflost. Vísað sé til þess Landsnet hafi látið vinna sérstakar varúðarreglur um vinnu sem unnin er undir og í námunda við háspennuvirki.

Þá hafi löngum verið umdeilt hvort áreiti af raf- og segulsviði háspennulína geti ógnað heilsufari manna.  Í kringum háspennulínur sé  styrkur raf- og segulsviðs mestur undir þeim miðjum, þar sem leiðarar komi næst jörðu, mitt á milli mastra. Þó að ekki sé hægt að fullyrða af eða á um þá heilsufarsógn sem af raf- og segulsviði háspennulína stafar sé ljóst að fólk forðist að vera nærri slíkum mannvirkjum.

Eignarnámsþoli bendir á að á því svæði sem fyrirhugað er að leggja Suðurnesjalínu 2 liggi nú þegar Suðurnesjalína 1 (132 kv). Gert sé ráð fyrir að Suðurnesjalína 2 verði lögð samsíða henni í landi eignarnámsþola, þ.e. að jafnaði verði 50 metrar á milli miðlína Suðurnesjalínu 1 og Suðurnesjalínu 2. Meðalhæð mastra í Suðurnesjalínu 2 sé rúmir 22 metrar en til samanburðar sé meðalhæð mastra í Suðurnesjalínu 1 um 16,5 m. Nálægð línanna hvor við aðra muni valda því að þær verði enn meira áberandi en ella og hafa þannig neikvæð samlegðaráhrif á verðmæti landsins. Vakin er athygli á því að í fyrrnefndum úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta frá 1. júlí 1999 var tilkoma loftlínu talin til þess fallin að rýra verðmæti jarðarinnar allrar vegna sjónrænna áhrifa frá línunni, jafnvel þó að í landinu væri önnur eldri lína.

Eignarnámsþoli bendir á að ef af framkvæmdunum verði muni þau verða fyrir verulegu raski og óþægindum á framkvæmdatímanum öllum. Lagning Suðurnesjalínu 2 sé umfangsmikið verkefni sem krefjist þess m.a. að ryðja þurfi hraun, steypa djúpar undirstöður, reisa gríðarhá möstur, leggja línuvegi samhliða línunni o.s.frv. Ljóst sé að verkið muni taka langan tíma og að til þess þurfi fjölda vinnuvéla og vinnumanna með tilheyrandi raski og ónæði.

Eignarnámsþoli telji enn fremur að líta verði til þess rasks sem fyrirsjáanlegt sé að framkvæmdatíma loknum. Landsneti beri í samræmi við lög og reglugerðir skylda til að hafa reglulegt eftirlit og viðhald með háspennulínum. Línulögninni fylgi aukinheldur sú kvöð, að Landsnet, eða þeir sem það felur slík störf, skuli hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum, rafmagnslínunni og helgunarsvæði hennar í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmd, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. Í 22. gr. raforkulaga nr. 65/2003 segi að hafi aðili rétt til umferðar eða framkvæmda á eignarlandi á grundvelli laganna þá geti landeigandi krafist bóta vegna tjóns sem hann verður sannanlega fyrir af þeim sökum vegna röskunar eða skemmda á landi, mannvirkjum og öðrum eignum. Náist ekki samkomulag um bætur skuli ákveða þær með eignarnámsmati.

Þá vitnar eignarnámsþoli til úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta frá 29. mars 2006 í máli nr. 9/2005, og 23. október 2009 í máli nr. 4/2009  en með hliðsjón af þeim úrskurðum megi sjá að kröfur eignarnámsþola séu að öllu leyti hóflegar. Standi engin haldbær rök til þess að úrskurða beri matsþolum bætur sem séu lægri en krafa þeirra hljóði upp á.

 Vísað er til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn. Þá vísast, eftir því sem við á, til ákvæða raforkulaga nr. 65/2003 svo og laga nr. 11/1973.

 

Skýrsla stýrihóps um flugvallarkosti á Höfuðborgarsvæðinu frá 25. júní sl. barst nefndinni sama dag og í framhaldi af því óskaði lögmaður eignarnámsþola  eftir því að honum gæfist kostur á því að gera grein fyrir áhrifum niðurstaðna hennar á eignarnámsmatið.  Umbeðinn frestur var veittur og viðbótargreinargerð eignarnámsþola barst nefndinni 28. júlí 2015 og segir þar m.a. að megin niðurstaða skýrslunnar  sé   sú   að   sá flugvallarkostur sem hafi mesta þróunarmöguleika sé Hvassahraun.  Eignarnámsþolar byggja á því að áform um tugmilljarða framkvæmdir í landi Hvassahrauns hafi stórkostleg áhrif á verðmæti lands á svæðinu. Samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar myndi flugvöllur í landi Hvassahrauns ekki aðeins sinna innanlandsflugi heldur einnig alþjóðaflugi. Flugumferð á Íslandi hafi aukist stöðugt undanfarin ár, meðal annars vegna sífelldrar fjölgunar ferðamanna. Spá um farþegafjölda á áætlunarflugvöllum, sem byggir á sögulegum gögnum bend til þess að um 1-2% árleg fjölgun geti orðið til ársins 2025 við óbreyttar aðstæður.

Niðurstaða skýrslunnar sé sú að stofnkostnaður flugvallar yrði á bilinu 22,3 til 51,4 milljarðar eftir því hvaða forsendur séu lagðar til grundvallar. Blasi við að áform um svo gífurlega umfangsmiklar framkvæmdir hafi stórkostleg áhrif á landverð á öllu svæðinu. Ýmis konar starfsemi byggist upp samhliða flugvöllum. Í þessu sambandi megi til dæmis nefna aðstöðu slökkviliðs og löggæslu, hótelstarfsemi, veitingastarfsemi, farþegaflutninga, farmflutninga og bílaleigur. Slík starfsemi geti verið afar umfangsmikil og leggi því undir sig mikið landrými. Ljóst sé því að fyrirhuguð flugvallarstarfsemi muni leiða til aukinnar eftirspurnar eftir landi á svæðinu sem muni óhjákvæmilega leiða til verðhækkunar á því.

Fyrst og fremst sýni niðurstaða stýrihópsins að hagnýtingarmöguleikar lands á svæðinu séu afar miklir öndvert við það sem eignarnemi hafi haldið fram. Áform um byggingu flugvallar hafi gífurleg áhrif á landverð á svæðinu. Rétt sé að taka fram að óhjákvæmilegt sé að notast við sama mælikvarða á landverð á svæðinu óháð því hvaða hugmyndir landeigendur hafi um nýtingu svæðisins til framtíðar. Þannig hafi sumir jarðeigendur í nágrenni Hvassahrauns lagt mikla áherslu á að halda landi jarða sinna ósnortnu. Það færi hins vegar gegn ríkum sanngirnisrökum ef komist væri að þeirri niðurstöðu að sú afstaða einstakra jarðeigenda ætti að leiða til þess að land þeirra væri bætt eftir öðrum mælikvörðum en hjá þeim sem vilji hagnýta land sitt með öðrum hætti.

Ljóst sé að verðhækkanir á landinu vegna fyrirhugaðs flugvallar leiði til þess að óhagræðið af fyrirhuguðum háspennulínum verði ennþá meira en áður hafi verið talið og samhliða verði tjón matsþola þeim mun umfangsmeira. Umrætt flugvallarstæði sé á sama svæði og fyrirhugað er undir háspennulínur. Af þessu sjáist að bygging nýrrar háspennulínu í landi Hvassahraun hafi beinlínis neikvæð áhrif á hugmyndir um byggingu flugvallar í landi jarðarinnar. Brýnt sé að matsnefnd eignarnámsbóta taki fullt tillit til framangreinds við ákvörðun eignarnámsbóta enda væri það í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sem og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 34/1944 sem mælir fyrir um að fullt verð skuli koma fyrir eign sem tekin er eignarnámi.

Eignarnámsþolum sé ljóst að skýrslan feli í sér tillögu en ekki skuldbindandi ákvörðun að lögum. Engu að síður hafi skýrslan þau áhrif að væntingar skapist um hagnað af því að fjárfesta í landinu þar sem yfirgnæfandi líkur séu á því að flugvöllur verði byggður á þessu svæði.

Samandregið verði að telja að miklar líkur standi til þess að flugvöllur verði lagður í Hvassahrauni á næstu árum. Það gefi auga leið að áform um tugmilljarða framkvæmdir í Hvassahrauni hafi mikil áhrif á verðmæti lands á svæðinu. Sé þess krafist að matsnefnd eignarnámsbóta taki fullt tillit til þess við ákvörðun bóta fyrir land í málum 4—8/2014, þ.e. fari svo að matsnefnd fresti ekki umræddum málum ótiltekið samanber þá kröfu sem sett hefur verið fram.

 

NIÐURSTAÐA

Matsnefndin fór á vettvang hinn 30. júní 2014, er krafa eignarnema um umráðatöku og krafa eignarnámsþola um frestun málsins var til meðferðar hjá nefndinni, og kynnti sér aðstæður.

 

Eignarnámsþoli hefur enn á ný krafist þess að máli þessu verði frestað ótiltekið en eignanemi hefur mótmælt þeirri kröfu og krafist þess að nefndin meti bætur til eignarnámsþola samkvæmt reglum laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Samkvæmt meginreglu stjórnsýsluréttar um skilvirka málsmeðferð ber matsnefnd eignarnámsbóta að leysa úr kröfu eignarnema eins fljótt og kostur er, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þau sjónarmið sem eignarnámsþoli hefur fært fram því til stuðnings að matsnefnd beri að fresta málunum, í stað þess að taka þau til efnislegrar meðferðar og kveða upp í þeim úrskurð að lokinni gagnaöflun, lúta að lagalegum skilyrðum fyrir eignarnámi samkvæmt lögum nr. 11/1973. 

Fyrir nefndinni er til úrlausnar að ákvarða bætur fyrir eignarnám þar sem fyrir liggur ákvörðun stjórnvalds sem til þess er valdbært, að eignarnema sé heimilt að beita eignarnámi, og á það ekki undir nefndina að taka afstöðu til þess hvort sú ákvörðun er gild og ekki þykja slíkir annmarkar á henni að valdi frestun meðferðar nefndarinnar á máli þessu. Breytir hér engu þótt eignarnámsþolar hafi höfðað mál fyrir dómstólum til ógildingar ákvörðunar ráðherra eða Orkustofnunar. Samkvæmt þessu verður þeirri kröfu eignarnámsþola að máli þessu verði frestað hafnað.

 

Hið metna í landi Landakots er mosagróið hraun. Í skjólgóðum lautum og víðar er að finna fallegan villtan blómgróður.

Við mat þetta verður litið til þess hvert sé líklegt söluverðmæti lands þess sem hér er tekið eignarnámi. Er þá litið til gagna um sölu lands sem nefndinni eru tiltækar og aðilar hafa gert grein fyrir í málatilbúnaði sínum svo og úrskurða nefndarinnar sjálfrar. Þess ber að gæta að land jarðarinnar er þegar klofið af Suðurnesjalínu 1 og Reykjanesbraut. Er því ekki tekið tillit til þessa atriðis hér.

Kemur fyrst til álita hvert sé hæfilegt matsverð fyrir hvern hektara lands sem fer undir möstur og vegslóða. Við mat þetta er litið til staðsetningar landsins og þess að ekki hefur verið skipulögð byggð í landinu og hún reyndar fjarri því svæði sem hér er til umfjöllunar og enn fremur þess að Suðurnesjalína 1 og Suðurnesjalína 2 liggja sunnan Reykjanesbrautar en byggð á svæðinu öll norðan hennar milli sjávar og Reykjanesbrautar. Þykir hæfilegt verð fyrir hvern hektara sem fer undir möstur og vegi vera ein og hálf milljón króna. Leiðir það til þeirrar niðurstöðu að bætur til eignarnámsþola vegna lands undir möstur þ.e. 0,0375 ha. á eina og hálfa milljón króna séu 56.250 krónur og vegna vega þ.e. 0,0162 ha á eina og hálfa  milljón króna séu 24.300 krónur.

Þá kemur til úrlausnar hverjar séu hæfilegar bætur vegna svæðis þess sem byggingabann nær til og telur nefndin að miða beri við 2/3 af verði hvers hektara sem fer undir möstur og vegi enda eru mörg fordæmi fyrir því í sams konar málum. Er það ein milljón króna fyrir hvern hektara eða 1,9228 ha á eina milljón króna og bætur vegna þessa liðar því 1.922.800 krónur.

Loks er til þess að líta að lagning línunnar er til þess fallin að rýra verðmæti stærra svæðis en eignarnámið og byggingabannið nær til  vegna sjónrænna áhrifa af línunni. Einnig er það álit nefndarinnar að fólk forðist að vera nærri slíkum mannvirkjum, vegna ótta um áhrif á heilsufar sem stafa kunni frá seguláhrifum vegna raflínanna.  Telur nefndin að á svæði í allt að 200 metra fjarlægð frá miðju til hvorrar handar frá línunni eða 400 metra breiðu bili, að frádregnu 46 metra breiðu svæði sem byggingabannið nær yfir, gæti áhrifa sem rýri verðmæti lands á þessu svæði. Er um þetta að líta til dóms Hæstaréttar í máli nr. 349/2004 (Þjórsártún). Eignarnámið nær til 46 metra breiðs svæðis þar sem er byggingabann sem hér að framan hefur verið metið. Því til viðbótar kemur 354 metra breitt svæði þ.e. 400 metrar að frádregnum 46 metrum þar sem nefndin telur að til komi verðrýrnun sem nemi 10% af fullu verði eða 150.000 krónum á hektara. Heildarbætur vegna þessa nema 2.219.580 krónum  (14,7972 ha á 150.000 krónur).

 

Samkvæmt öllu framansögðu telur nefndin að hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna eignarnáms þessa vera 4.222.930 krónur. Þá ber eignarnema að greiða eignarnámsþola 1.250.000 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og 900.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

  

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Landsnet hf., greiði eignarnámsþola, eiganda Landakots 4.222.930 krónur og 1.250.000 krónur í málskostnað.

Eignarnemi greiði 900.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum