Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um áminningu

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 7. september 2020, frá [A ehf.], [B, lögmanni], f.h. [ C ehf.], útgerð [D], þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. ágúst 2020, um áminningu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með ítrekunaráhrifum samkvæmt 19. gr. sömu laga.

 

Kærandi vísar til kæruheimildar í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en kæruheimild er að finna í 18. gr. laga nr. 57/1996.

 

Kröfur kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Fiskistofu, dags. 26. ágúst 2020, verði felld úr gildi.

 

Málsatvik

Fiskistofa sendi kæranda bréf, dags. 29. apríl 2020, þar sem tilkynnt var um að mál hans væri til meðferðar, en í skýrslu eftirlitsmanns frá 25. apríl 2020 hafi hann við eftirlit úti á Tjörnesi orðið var við brottkast á bolfiskum frá bátnum [D]. Í kjölfarið voru lagðar fram myndbandsupptökur eftirlitsmanns. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum og rökum áður en Fiskistofa tæki afstöðu til meintra brota. Var því bréfi svarað af hálfu kæranda með bréfi, dags. 9. júní 2020, þar sem því er hafnað að bolfiski hafi verið varpað í sjóinn og að útilokað sé að ráða það af umræddum myndböndum. Með ákvörðun, dags. 26. ágúst 2020, tók Fiskistofa stjórnvaldsákvörðun um að veita kæranda áminningu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með ítrekunaráhrifum samkvæmt 19. gr. sömu laga.

 

Stjórnsýslukæra barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 7. september 2020, á grundvelli 18. gr. laga nr. 57/1996. Frekari gögn bárust frá kæranda með tölvupósti, dags. 14. september og 16. október 2020. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna og gögnum málsins með tölvupósti, dags. 9. október 2020. Umsögn Fiskistofu ásamt gögnum barst með erindi, dags. 19. október 2020. Frekari gögn bárust frá kæranda með tölvupósti, dags. 18. desember 2020. Ráðuneytið óskaði með tölvupósti, dags. 19. apríl 2021, eftir umsögn Fiskistofu um viðbótargögnin. Með erindi Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 3. maí 2021, var ráðuneytinu send ákvörðun Fiskistofu frá sama degi um afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar um áminningu.

 

Er málið því tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

 

Forsendur og niðurstöður

I.  Kærufrestur.

Ákvörðun Fiskistofu um áminningu var dags. 26. ágúst 2020. Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996 og er kærufrestur einn mánuður frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu, dags. 7. september 2020. Kæran barst því innan tilskilins frests.

 

II. Afturköllun ákvörðunar

Í áðurnefndu erindi Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 3. maí 2021, um afturköllun á ákvörðun Fiskistofu frá 26. ágúst 2020 um að veita kæranda áminningu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með ítrekunaráhrifum samkvæmt 19. gr. sömu laga, segir að frá byrjun árs 2021 hafi orðið breyting á stjórnsýsluframkvæmd Fiskistofu í málum sem varða brottkast. Telur Fiskistofa rétt að taka mið af þeim breytingum í þessu máli sem eru málsaðila til hagsbóta. Fiskistofa afturkallaði ákvörðun sína með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofa sjávar, með síðari breytingum, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu um viðurlög samkvæmt lögunum. Ákvæðið verður að skýra með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum. Kæruheimild í 18. gr. laga nr. 57/1996 byggir samkvæmt því á því að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta sem beinlínis reynir á við úrlausn tiltekins máls sem kært er til ráðuneytisins.

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þessa máls en samkvæmt því verður stjórnsýslukæru í máli þessu vísað frá.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru [C ehf.] er vísað frá.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum