Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 24. maí 2006

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 6/2006.

                                  Vegagerðin

                                   gegn

                                   Einari Gunnarssyni

                                   og db. Einars Oddssonar

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Benedikt Bogasyni, héraðsdómara og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Með bréfi dagsettu 7. apríl 2006 beiddist eignarnemi, sem er Vegagerðin Borgartúni 5 og 7 Reykjavík, þess með vísan til 46. gr. vegalaga nr. 45/1994 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms að Matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur vegna efnistöku til vegagerðar úr farvegi Norðurár í landi Flatatungu og Tungukots, Akrahreppi, í Norðurárdal í Skagafirði.

Eignarnemi er Vegagerðin, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík.

Eignarnámsþolar eru Einar Gunnarsson, kt. 260466-4109, Flatatungu og db Einars Oddssonar.

Eignarnámið beinist að jarðefni til vegagerðar úr landi Flatatungu og Tungukots sem eiga land að Norðurá og þar með rétt til efnistöku úr áreyrum Norðurár.

Tilefni eignarnámsins eru yfirvofandi framkvæmdir eignarnema við endurbyggingu Hringvegar um Norðurárdal í Skagafirði samkvæmt svokallaðri veglínu M. Framkvæmdin er liður í bættu vegasambandi á Hringvegi og á milli byggðarlaga á Norðurlandi. Núverandi vegur á 15 km kafla um Norðurárdal er hættulegur og þarfnast endurbóta.

Útboð framkvæmda var auglýst hinn 20. mars. sl. og voru tilboð opnuð hinn 18. apríl sl. Um er að ræða lagningu 14,4 km vegarkafla frá Kjálkavegi að Heiðarsporði, byggingu brúar á Norðurá og steyptra stokka á Kotá og Króká. Verkið skal hefja samkvæmt samþykktri verkáætlun en farg á vegarstæði skal komið á fyrir 1. nóvember 2006. Byggingu brúa og lagningu bundins slitlags skal lokið 20. ágúst 2007. Verklok eru áætluð 1. nóvember 2007.

Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda hefur farið fram í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Skipulagsstofnun féllst á framkvæmdir með úrskurði dags. 14. maí 2003 og staðfesti umhverfisráðherra úrskurðinn hinn 16. febrúar 2004.

Akrahreppur hefur gefið út framkvæmdaleyfi vegna lagningar vegarins, sbr. samþykkt hreppsnefndar Akrahrepps hinn 2. maí 2005.

Ekki hefur orðið samkomulag með aðilum um greiðslu bóta vegna eignarnámsins með samkomulagi 10. desember 2005 veittu eignarnámsþolar heimild til framkvæmda samkvæmt nánari tilhögun sem þar er lýst.

Andlag eignarnáms og tilboð eignarnema sundurliðast sem hér segir:

Efnistaka:

Burðarlagsefni:                         8.500 m3                          204.000 kr.

Fyllingarefni:                           57.400 m3                          459.200 kr.

Grjót                                     14.000 m3                          392.000 kr.

Samtals efni:                                                                 1.055.200 kr.

 

Lögmaður eignarnámsþola hefur fyrir hönd þeirra gert þá kröfu að bætur fyrir fyllingarefni verði 50 kr./m3, burðarlagsefni 125 kr./m3 og efni úr grjótnámu 175 kr./m3. Ennfremur krefst hann bóta vegna ótilgreindra fyrirsjáanlegra og ófyrirsjáanlegra þátta að fjárhæð 750.000 kr. Loks er krafist útlagðs kostnaðar vegna hagsmunagæslu vegna útgáfu framkvæmdaleyfis og við gerð fyrirliggjandi samninga við Vegagerðina að fjárhæð 393.925 kr., þ.m.t. vsk.

 

Eignarnemi greiddi að ósk lögmanns eignarnámsþola 550.000 kr. vegna áfallins kostnaðar af hagsmunagæslu vegna Flatatungu og Tungukots.

 

 

Sjónarmið eignarnema um fjárhæð bóta.               

Eignarnemi gerir þá kröfu að bætur fyrir jarðefni til vegagerðar verði að hámarki ákvarðaðar í samræmi við tilboð eignarnema sem gerð er grein fyrir hér að framan með því fráviki, að boðnar eru hærri bætur fyrir grjót úr námu í landi Flatatungu

Efnistaka:

Burðarlagsefni:                         8.500 m3                          204.000 kr.

Fyllingarefni:                           57.400 m3                          459.200 kr.

Grjót                                     14.000 m3                          560.000 kr.

Samtals efni:                                                                 1.223.200 kr.

Loks er þess krafist að til frádráttar úrskurðuðum bótum og málskostnaði komi innborgun eignarnema að fjárhæð 550.000 kr.

Ennfremur er þess krafist að eignarnámsþola verði ákvarðaður hæfilegur málskostnaður sem taki mið af umfangi og tímalengd málsmeðferðar fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Loks er þess krafist að til frádráttar úrskurðuðum bótum og málskostnaði komi innborgun eignarnema að fjárhæð 550.000 kr.

 

Almennt.

Af hálfu eignarnema er á því byggt, að bætur til eignarnámsþola geti aldrei numið hærri fjárhæð en sannað fjárhagslegt tjón hans sé af eignarnáminu. Eignarnámsþoli verði sem líkast settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Miða eigi bætur við sannað fjárhagslegt verðmæti hins eignarnumda á matsdegi miðað við staðgreiðslu. Til frádráttar bótum eigi að koma hagsbætur þær, sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim, sem eru tilefni eignarnámsins. Í máli þessu verði að taka sérstakt tillit til kostnaðarsamra mótvægisaðgerða sem eignarnemi hafi undirgengist og muni annast og kosta. Af hálfu eignarnema er litið svo á að tilboð hans feli í sér að fullar bætur eru greiddar fyrir hið eignarnumda land og jarðefni sem og vegna tímabundins átroðnings vegna framkvæmdanna. Viðbótarbætur vegna jarðrasks og átroðnings tryggi eignarnámsþolum skaðleysi af völdum eignarnámsins og þar með verði uppfyllt skilyrði X. kafla vegalaga nr. 45/1994 og 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullar bætur.

Til stuðnings kröfum sínum og sjónarmiðum varðandi ákvörðun bóta, sem nánar eru reifuð hér síðar, vísar eignarnemi til vegalaga nr. 45/1994, einkum ákvæða X. kafla laganna. Vísað er til laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Ennfremur er vísað til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum. Vísað er til hefðbundinna skýringa á þessum lagaákvæðum og til almennra ólögfestra reglna og viðurkenndra sjónarmiða um ákvörðun eignarnámsbóta.

 

Bætur fyrir jarðefni til vegagerðar.

Eignarnemi byggir á vinnureglum um landbætur o.fl., sem notaðar eru til viðmiðunar við greiðslu fyrir jarðefni til vegagerðar. Þar sé gerður greinarmunur á efni eftir gæðum, þ.e. hvort efni sé nýtanlegt í fyllingar, burðarlag eða bundið slitlag. Ennfremur sé gerður greinarmunur á því hvort efni sé tekið innan eða utan markaðssvæða.

Eignarnemi byggir á því að um sé að ræða efnistöku utan markaðssvæða. Ekki sé um að ræða stöðuga og verulega eftirspurn eftir jarðefni til mannvirkjagerðar í landi Flatatungu og Tungukots. Af þeim sökum séu boðnar bætur miðaðar við verð utan markaðssvæða skv. vinnureglunum.

Eignarnemi hafi fengið grjót úr námunni í landi Flatatungu í gegnum árin, einkum til notkunar við viðhald rofvarnar meðfram vegi á áreyrum Héraðsvatna.  Hafi verið greiddar 30 kr./m3 fyrir efnið á sínum tíma. Eru framboðnar bætur miðaðar við 40 kr./m3, m.a. með hliðsjón af fyrirliggjandi úrskurði í máli nr. 5/2003 (Horn, Helgafellssveit). Er á því byggt að ekki sé um markað að ræða fyrir grjót úr námunni og vísað til þeirra sjónarmiða sem fram koma í umræddum úrskurði. Þess megi geta að eignarnemi hyggist ekki sækjast eftir efni þarna vegna grjótvarnar meðfram Þverárfjallsvegi við Sauðárkrók, sem fyrirhugað sé að leggja á næstu misserum,  heldur verði nýtt grjótnáma skammt frá Sauðárkróki, nær verkstað.

Sérstök sjónarmið eigi við um ákvörðun bóta fyrir hið eignarnumda jarðefni með tilliti til þeirrar stöðu sem eignarnemi hafi sem langstærsti efnisnotandinn á landsbyggðinni fjarri stærri þéttbýlisstöðum. Eignarnámsþoli myndi ekki geta selt jarðefni til annarra en Vegagerðarinnar í sama mæli og því sé eðlilegt að verð til eignarnema sé lægra en aðrir kunni að vera tilbúnir til að greiða fyrir minna magn úr öðrum námum á svæðinu. Á það sjónarmið hafi m.a. verið fallist í úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta.

Eignarnemi bendir á að yfirdrifið magn jarðefna sé að finna í áreyrum Norðurár. Áin beri stöðugt fram efni og endurnýist þannig efnistökumöguleikar. Kjósi eignarnámsþoli þrátt fyrir allt að standa fyrir efnistöku á áreyrum og freisti þess að selja öðrum en vegagerðinni sé ljóst að eignarnámið takmarki á engan hátt möguleika hans til þess þar sem nægt jarðefni verði eftir og það endurnýi sig með framburði Norðurár.

Eignarnemi beri ríkari skyldur en aðrir efniskaupendur til að ganga frá námum og jafna allt rask vegna efnistöku og beri að taka tillit til þess að almennir efniskaupendur þurfi yfirleitt ekki að sjá um frágang námu nema sérstaklega sé um það samið. Efnistaka úr áreyrum Norðurár sé kostnaðarsamari en ella vegna þeirra ströngu skilyrða um framkvæmd verksins sem sett hafi verið í úrskurði vegna mats á umhverfisáhrifum og útfærð séu í samkomulagi eignarnema og veiðifélaga á svæðinu. Af þeim sökum verði því ekki haldið fram að efnið sé aðgengilegt. Enn fremur verði að ætla að sömu takmarkanir yrðu, kæmi til efnissölu eignarnámsþola úr áreyrunum. Vinnsla efnis úr áreyrum Norðurár sé af þessum sökum óhagkvæm fyrir aðra en eignarnema. Aðrir efnisvinnslumöguleikar en til notkunar á staðnum í vegagerð séu því mjög takmarkaðir.

Eignarnemi vísar til framlagðra gagna um verðmæti hins eignarnumda. Engin hlunnindi séu metin af námuréttindum í fasteignamati. Varðandi mat á verðmæti hins eignarnumda er einnig vísað til úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta um venju sem skapast hafi við bótaákvörðun í sambærilegum málum. Er t.d. til hliðsjónar vísað til úrskurðar í máli nr. 7/2000 (Selvellir). Í því máli var sami eignarnámsþoli á ferð og svipaðar aðstæður að því leyti að ekki var um sölumöguleika á jarðefni að ræða í því tilviki. Benda megi einnig á úrskurð í máli nr. 10/2004, og úrskurði frá árinu 2003 vegna lagningar Snæfellsnesvegar um Kolgrafarfjörð, mál 2 og 3/2003. Þó sé rétt að hafa í huga að í tilvitnuðum málum sé um að ræða efnistöku úr aðgengilegum námum og því eðlilegt að lægri bætur verði metnar í þessu máli.

Eignarnemi vísar samkvæmt framangreindu til áralangrar venju í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta við mat á jarðefni til vegagerðar, sem komin sé nokkur festa á.

Kröfugerð eignarnámsþola sé úr öllu samhengi við eðlilegt mat á verðmæti hins eignarnumda og fjártjón eignarnámsþola af eignarnáminu. T.d. sé krafist sambærilegra bóta fyrir lakasta efnið og greitt hafi verið fyrir efni úr Sléttuá við Reyðarfjörð, sbr. úrskurð nr. 6/2005. Ólíku sé hér saman að jafna þar sem mikil og stöðug efnissala fari fram úr Sléttuánni til mannvirkjagerðar á Reyðarfirði og nágrenni en engin eða mjög lítil  sala á efni fari fram úr Norðurá auk þeirra erfiðu aðstæðna við efnistökuna sem að framan greini.

Með vísan til framangreinds áréttar eignarnemi tilboð sitt um bætur fyrir jarðefni úr áreyrum Norðurár í landi Egilsár.

 

Bætur fyrir jarðrask, átroðning og ófyrirséðan kostnað vegna framkvæmda í landi Flatatungu og tungukots, sbr. kröfugerð lögmanns eignarnámsþola:

Eignarnemi byggir á því að mótvægisaðgerðir, sem hann hafi undirgengist að kröfu sveitarstjórnar og með samkomulagi við eignarnámsþola, muni að fullu vega upp á móti hugsanlegum neikvæðum áhrifum framkvæmda á land Flatatungu og Tungukots. Með gerð varnargarða sé komið í veg fyrir að nýtt vegarstæði valdi auknu landbroti í landi Flatatungu og Tungukots. Ekki verði séð að framkvæmdir muni valda skaða skv. þessum kröfulið eignarnámsþola. Engar bætur beri því að meta samkvæmt honum.

Að lokum varðandi þennan þátt áréttar eignarnemi að venju samkvæmt sé allt jarðrask jafnað og sáð í sár á grónu landi en það séu lagalegar skyldur eignarnema skv. ákvæðum vegalaga nr. 45/1994 og náttúruverndarlaga.

 

Kröfur og sjónarmið eignarnámsþola.

Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa um að bætur til handa þeirra vegna eignarnáms verði metnar að minnsta kosti að fjárhæð 8.853.200 krónur.

Jafnframt er krafist málskostnaðar

Í 1. mgr. i.f. 72. gr. stjórnarskrárinnar segi að fullt verð skuli koma fyrir hlut sem eignarnám er gert í. Samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna sé rétt, við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi stjórnarskrárákvæðisins, að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi eignarinnar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Því sjónarmiði sem telst hagstæðast fyrir eignarnámsþola beri að beita.

 

1.         Efni.

Fyrirhuguð efnistaka eignarnema á landi eignarnámsþola nemi samtals 79.900 m3.  Efni úr grjótnámu nemi 14.400 m3, fyllingarefni nemi 57.400 m3 og burðarlagsefni nemi i 8.500 m3.  Í bréfi frá 29. júlí 2004, hafi eignarnemi boðið kr. 28 pr. m3 af grjóti, kr. 14 pr. m3 af burðarlagsefni og kr. 7 pr. m3 af fyllingarefni.  Í kröfugerð samkvæmt greinargerð bjóði eignarnemi hinsvegar kr. 40 pr. m3 af grjóti, kr. 24 pr. m3 af burðarlagsefni og kr. 8 pr. m3 af fyllingarefni.  Á 10 mánuðum og af óútskýrðum ástæðum hafi efni úr grjótnámu hækkað um 40%, burðarlagsefni um 60% en fyllingarefni um innan við 15%.  Sambærilegar tölur eignarnámsþola, sbr. bréf hans frá 27. janúar s.l., nemi kr. 170 pr. m3 af grjóti, kr. 125 pr. m3 af burðarlagsefni og kr. 50 pr. m3 af fyllingarefni.

Tvö atriði yfirgnæfi önnur í málatilbúnaði eignarnema.  Annars vegar haldi hann því fram að efnistökusvæðið sé utan markaðssvæða og hins vegar miði hann einingaverð við heimatilbúna skrá sína, nokkurskonar aðilaskýrslu, og virðist raunar halda því fram að komin sé á einhverskonar venja um að miða við þann grundvöll.  Hvorug þessara forsendna eigi við nokkur rök að styðjast.

Hvað fyrra atriðið varði miði sú umfjöllun og fullyrðingar allar við að ekki sé fyrir að fara á Skagafjarðarsvæðinu öðrum efniskaupanda en eignarnema. Það liggi í augum uppi að efnistaka í landi eignarnámsþola eigi sér stað á markaðssvæði.  Þurfi ekki annað en að líta til staðsetningar jarðarinnar í þjóðbraut í Akrahreppi.  Nokkrir aðilar hafi á síðustu misserum falast eftir efni úr námum í landi Flatatungu/Tungukots, og megi þar nefna sveitarfélagið og einkaaðila í Skagafirði.  Ekki fái staðist að efnisnámur séu utan markaðssvæða án þess að sú fullyrðing sé rökstudd með nokkrum marktækum hætti og án þess að skilgreind séu mörk markaðssvæðis í viðkomandi landshluta. 

Hvað verðskrá eignarnema varði skuli það sérstaklega áréttað að það fái hvorki staðist reglur stjórnsýsluréttar né þá sérstöku vernd eignarréttinda sem 72. gr. stjskr. og 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu er ætlað að vernda að leggja með einhverjum hætti til grundvallar gagn sem stafar frá eignarnema sjálfum. Er á það bent að um matsnefnd gildi óskorað rannsóknarregla 10. gr. og jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Telji nefndin þannig ekki nægilega upplýst af gögnum málsins hvert markaðsvirði lands á svæðinu sé beri henni að efna til sjálfstæðrar rannsóknar þar að lútandi og niðurstaðan verði þess utan að taka tillit til jafnræðisreglu 11. gr. laganna.

Í greinargerð eignarnema sé síðan haldið fram úreltum sjónarmiðum í þá veru að vegna þess að eignarnemi sé langstærsti eða eini efniskaupandinn á svæðinu beri að lækka það endurgjald sem honum beri að greiða.  Sömu ættar séu sjónarmið í þá veru að vegna mikils magns jarðefna á svæðinu beri að virða slíkt til lækkunar ákvörðuðum bótum.  Sjónarmiðum í þessa veru sé algjörlega hafnað í eignarnámsframkvæmd og tjói eignarnema ekki að vísa í þessu sambandi almennt til einhverrar meintrar viðurkenningar í úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta án þess að tilgreina einstök dæmi. Sá málatilbúnaður sé fráleitur að þær skyldur sem á eignarnema séu lagðar um frágang og umgengni að lögum og á grundvelli umhverfismats þess sem fram fór í aðdraganda vegalagningarinnar eigi að leiða til lækkunar efnisverðs til eignarnámsþola.     

Hvað verðforsendur eignarnema varði veki það athygli að þrátt fyrir borubrattar yfirlýsingar um eitthvað sem hann kallar áralanga venju í úrskurðum Matsnefnd eignarnámsbóta teflir hann eingöngu fram fjórum úrskurðum nefndarinnar, engum yngri en þriggja ára.  Eignarnámsþolar fullyrða að þessa fjóra úrskurði hafi eignarnemi sérstaklega valið, en aðra ekki, vegna þess að þeir falli best að því augljósa markmiði hans að skrúfa verðið til eignarnámsþola niður svo sem frekast sé unnt.  Þá skuli minnt á það að á síðustu tíu mánuðum hafi verðforsendur eignarnema breyst með óútskýrðum hætti þannig að slitlagsefni hafi hann hækkað um 40%, burðarlagsefni um 60% en fyllingarefni um innan við 15%.  Sýni þetta, auk annars, augljóslega fram á að þrátt fyrir yfirlýsingar annars efnis þá sé ekki við neina ákveðna eða fastmótaða venju að styðjast við verðákvörðun efnis.

Af hálfu eignarnámsþola er síðan vísað til samninga og úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta á síðustu tveimur árum svo og mats dómkvaddra manna.

Að öllu þessu virtu sé eðlilegt að miða við í grunninn að eignarnemi greiði kr. 50 pr. m 3 af fyllingarefni og er þá horft til samandreginna niðurstaðna af því sem gerst hafi á sl. tveimur árum , almennrar verðþróunar og síðast en ekki síst gríðarlegrar hækkunar jarðaverðs á síðustu misserum, sem augljóslega hafi áhrif á verðmæti og verðmyndun þeirra náttúruauðlinda sem á jörðinni finnast, í þessu tilviki jarðefna.  Í úrskurðum Matsnefndarinnar frá 1. júní 2005, hafi verið miðað við kr. 50 pr m 3, en eðlilegt sé að sú fjárhæð taki breytingum í samræmi við byggingavísitölu.  kr. 50 : 312,8 (júní 2005) x 329,4 (maí 2006) geri það kr. 53.-  Eignarnámsþolar fallist á að verð burðarlagsefnis og slitlagsefni taki síðan hlutfallslega mið af verðforsendum eignarnema.  Hann miði í greinargerð við að burðarlagsefni sé þrisvar sinnum verðmætara en fyllingarefni og geri það þá kr. 159 pr. m 3.  Slitlagsefni sé síðan fimm sinnum verðmætara en fyllingarefni samkvæmt forsendum eignarnema sem geri þá kr. 265 pr. m 3.  Þessar viðmiðunartölur séu nokkru hærri en þau verð sem eignarnámsþolar miði við í bréfi sínu frá 27. janúar sl. Það helgist eðli málsins samkvæmt af því að á þeim tímapunkti hafi eignarnámsþolar verið reiðubúnir til þess að gefa nokkuð eftir í þeirri von að ná samningum við eignarnema án þess að málið færi í eignarnámsferil. Allt að einu fallist eignarnámsþolar á að matsnefndinni verði ætlað nokkuð svigrúm til mats innan marka þeirra talna sem annarsvegar hafi verið miðað við í bréfinu frá 27. janúar og hinsvegar endanlegri kröfugerð skv. greinargerð þessari.  Ýtrasta krafa um bætur vegna efnis nemi þá samtals kr. 7.446.500.- (53 x 72.500/159 x 8.500/265 x 8.500)

 

2.         Jarðrask, átroðningur, tímabundin óþægindi og frágangur.

Ljóst sé að eignarnámsþolar og þeir aðilar sem frá honum leiða rétt á jörðinni verði á framkvæmdatímanum fyrir stórkostlegum óþægindum og ónæði vegna vegagerðarinnar.  Þó svo náðst hafi samkomulag um tilhögun nokkurra þátta fari því fjarri að þar með verði eignarnámsþolar skaðlausir vegna framkvæmdanna.  Mikil umferð þungavinnuvéla og flutningabíla muni verða um áreyrar og annað land jarðarinnar, m.a. vegna efnisnáms.  Samgöngutruflanir séu fyrirsjáanlegar vegna fyrirkomulags vegatengingar við þjóðveg 1. Þá sé nauðsynlegt að minna á það að eignarnámsþolar hafi nú árum saman þurft að verja hagsmuni sína vegna vegalagningarinnar.  Af öllu þessu leiði og hafi leitt ófyrirséðan kostnað sem ekki fáist eingöngu bættur með málskostnaðarákvörðun.  Hins vegar sé búskapur ekki lengur stundaður á jörðinni þannig að ekki komi til þess að bæta þurfi sérstaklega það ónæði og truflun sem þeir verði fyrir.

Af hálfu eignarnema sé af lítt rökstuddum ástæðum ekki fallist á það að greiða bætur sérstaklega vegna þessa.  Í þessu sambandi sé unnt að líta til nýlegra úrskurða matsnefndar í málum þar sem um verulega minni röskun hafi verið að ræða.  Í máli nr. 3/2004 frá 29. september 2004, nr. 33, hafi bætur vegna þessa þáttar verið ákvarðaðar kr. 300.000.-; í máli nr. 10/2004 frá 31. mars 2005,  hafi bætur vegna þessa þáttar verið ákvarðaðar kr. 100.000.-; í máli nr. 2/2005 frá 1. júní 2005 hafi bætur vegna þessa þáttar verð ákvarðaðar kr. 100.000.- og í máli nr. 6/2005 frá 1. júní 2005, hafi bætur vegna þessa þáttar verið ákvarðaðar kr. 400.000.-

Að þessum niðurstöðum virtum og að teknu tilliti til umfangs þeirrar framkvæmdar sem hér um ræði, sem og verðþróunar telja eignarnámsþolar eðlilegt að bætur vegna þessa þáttar nemi 750.000 krónum.

Samandregið telji eignarnámsþolar að við ákvörðun bóta beri að líta til framkominna sjónarmiða um bætur vegna efnistöku úr námum að fjárhæð kr. 8.103.200.- og jarðrasks, átroðnings og tímabundinna óþæginda og óhagræðis að fjárhæð kr. 750.000.-  Nemi þetta samtals framsettum kröfum eignarnámsþola um lágmarksbætur að fjárhæð kr. 8.853.200.-

 

NIÐURSTAÐA

Jarðirnar Flatatunga og Tungukot eru í mynni Norðurárdals í Skagafirði. Eignarnemi mun taka efni í landi jarðanna svo sem að framan greinir. Við mat á bótum fyrir efni er litið til fyrri úrskurða nefndarinnar, upplýsinga um viðskipti með jarðefni, þar með talið verðmæti ýmissa flokka þess, eftir því sem gögn liggja fyrir um. Efnisnámur í landi jarðarinnar eru á áreyrum og í árkeilum þar sem finna má gnægð efnis sem endurnýjast sífellt við framburð Norðurár og þveráa hennar á svæðinu. Fram hjá því verður heldur ekki litið að ef ekki kæmu til aðgerðir eignarnema er þess vart að vænta að mikið efni væri selt úr námum þessum. Hins vegar telur nefndin að efni þetta sé á jaðri markaðssvæðis og þannig innan þess en ekki utan. Þá verður að líta til hagræðis eignarnema af því að geta tekið efni nærri verkstað. Að öllu þessu virtu telur nefndin bætur til eignarnámsþola vegna efnistöku úr námum í landi Flatatungu og Tungukots  hæfilega ákvarðaðar þannig að fyrir fyllingarefni beri eignarnámsþolum 861.000 krónur (15 kr. x 57.400) og fyrir burðarlagsefni 425.000 krónur (50 kr. x 8.500) eða samtals  1.286.000 krónur.

Um töku grjóts úr námu í landi eignarnámsþola er þess að gæta að hér er um að ræða sprengt grjót og að lítið er um slíkar námur á þessu svæði. Lítur nefndin svo á að grjótið sé á almennu markaðssvæði enda kemur fram í gögnum málsins að eignarnámsþoli seldi grjót til hafnargerðar á Sauðárkróki fyrir þremur árum úr námu sinni. Bætur vegna þessa liðar þykja hæfilega ákvarðaðar 980.000 krónur (70 kr. x 14.000).  

Eignarnámsþolar krefjast bóta fyrir jarðrask, átroðning, tímabundin óþægindi og frágang. Nefndin telur að ekki komi til álita að meta bætur vegna framkvæmdarinnar við vegarlagninguna sjálfa enda vegurinn ekki lagður um land eignarnámsþola. Að hinu leytinu er til þess að líta að af sjálfu leiðir að verð á efni hlýtur að taka mið af því að ýmis konar umferð og tímabundið rask kemur til meðan á efnisöflun stefndur. Þykja því ekki efni til að meta frekari bætur til eignarnámsþola en þegar hefur verið gert.

Samkvæmt framansögðu ákvarðast bætur til eignarnámsþola í máli þessu samtals 2.266.000 krónur.

Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþola 677.440 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og 525.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu. Það athugast að eignarnemi hefur greitt eignarnámsþolum í þessu máli, málum nr. 5 og 7/2006 og Veiðifélagi um Norðurá samtals 1.650.000 krónur ósundurgreint upp í kröfur þeirra.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, Einari Gunnarssyni og db Einars Oddssonar 2.266.000 krónur og  677.440 krónur í málskostnað.

            Eignarnemi greiði 525.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

                                                                       Allan V. Magnússon

                                                                       Benedikt Bogason

                                                                       Vífill Oddsson 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum