Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 276/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. júlí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 276/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU21040007 og KNU21040006

                                                                                                                  

Kæra [...]

[...]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. apríl 2021 kærðu einstaklingar er kveðast heita [...] og vera fædd [...], (hér eftir K) og [...] og vera fæddur [...], (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 19. mars 2021, um að synja kærendum og börnum þeirra, [...], [...], (hér eftir A), [...], f.d. [...], (hér eftir B), [...], (hér eftir C), og [...], f.d. [...], (hér eftir D), öll ríkisborgarar Íraks, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt staða flóttafólks með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefjast kærendur þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 74. gr. laga um útlendinga. Vísað er til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu eigi maki útlendings sem njóti alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.             Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur og börn þeirra sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 21. júlí 2020. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun, m.a. hinn 3. nóvember 2020, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 19. mars 2021, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála hinn 6. apríl 2021 ásamt fylgigögnum. Kærunefnd barst greinargerð kærenda hinn 26. apríl 2021. Þá bárust kærunefnd gögn og upplýsingar frá kærendum hinn 21. maí, 7. júní og 25. júní 2021. Kærendum fæddist sonur að nafni [...] hinn [...].

III.       Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar M að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda kom fram að tekin hefðu verið viðtöl við A og B. Börnin C og D hafi verið svo ung að árum að ekki hafi verið talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Kærendum og börnum þeirra var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kærenda

Kærendur vísa til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, dags. 4. mars 2021, hvað varðar málavexti og upplýsingar um aðstæður í heimaríki. Kemur þar m.a. fram að M hafi greint frá því í viðtali að hann og fjölskylda hans hafi búið í Bagdad þar til þau hafi yfirgefið heimaríki sitt. Hann hafi sótt hjúkrunarfræðinám í skóla sem tilheyrði flokki Saddam Hussein, þ.e. Ba‘ath-flokknum. Þá hafi hann starfað sem hjúkrunarfræðingur og gert að sárum hermanna í valdatíð Saddam Hussein. Bræður M hafi einnig unnið fyrir stjórn Saddam Hussein, ýmist sem öryggisverðir eða bílstjórar. M hafi starfrækt einkarekna lækningastofu í Írak þar til hann hafi séð sig nauðugan til að loka stofunni í kjölfar hótana sem honum hafi borist vegna starfs síns. Árið 2005 hafi hann hafið störf að nýju sem bráðaliði og hjúkrunarfræðingur fyrir sérsveitir írakska hersins. Nokkrum mánuðum síðar hafi hann verið á leið til K með peninga fyrir húsaleigu en þá hafi hann verið eltur af tveimur bifreiðum og orðið fyrir skoti. M hafi síðan hafið störf fyrir FPS (e. Facilities Protection Service) sem póstmaður en á þeim tíma hafi öryggisástand í landinu farið versnandi. Hann hafi orðið vitni að sprengjuárásum og séð lík á götum úti og hafi fjölskyldan því ákveðið að flýja til Sýrlands. Þaðan hafi þau farið til Ungverjalands og að lokum til Svíþjóðar. Árið 2011 hafi fjölskyldan verið endursend frá Svíþjóð til Íraks. Við komuna til Íraks hafi M verið tekinn afsíðis, yfirheyrður og spurður hvort hann tengdist stjórn Saddam Hussein. M hafi neitað því en greint frá tengslum bræðra sinna við Ba‘ath-flokkinn. Hafi M þá verið numinn á brott og hann pyndaður. Hann hafi verið í haldi þar til í byrjun árs 2012 þegar hann hafi verið látinn laus við landamæri Sýrlands fyrir tilstuðlan bróður hans. Þar hafi M hitt fjölskyldu sína og hafi þau farið saman aftur til Ungverjalands. M kvaðst ekki eiga fjölskyldumeðlimi í Írak. Þá kvaðst hann óttast stjórnvöld í Írak og um öryggi barna sinna. Hann sé fullviss um að hann verði drepinn í Írak, verði af endursendingu þeirra þangað. Þá kemur fram að K hafi greint frá því í viðtali að hún og börn þeirra hafi verið í felum hjá fjölskyldu hennar í Bagdad eftir að M hafi verið numinn á brott. Hún hafi ekki vitað um afdrif hans og hafi haldið sig mestmegnis innandyra af ótta. Hún óttist um líf M í Írak. Þá óttist hún um öryggi og velferð barna sinna, þ. á m. yngsta barns þeirra sem sé ríkisfangslaust, verði þau endursend til Íraks. Börn þeirra þekki ekki lífið í Írak og kunni hvorki að lesa né skrifa arabísku.

Kærendur gera ýmsar athugasemdir við hinar kærðu ákvarðanir, þ. á m. við umfjöllun Útlendingastofnunar um að fjölskyldan hafi stuðningsnet í Bagdad. Þá gera kærendur athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnun um að misræmi sé í framburði M milli viðtala hjá sænskum og íslenskum yfirvöldum. M hafi ekki greint frá því í viðtali hjá sænskum yfirvöldum að hafa verið í Ungverjalandi og hafi tímalína frásagnar hans því ekki staðist. Sjá megi af viðtali við hann að öll þau atriði sem Útlendingastofnun hafi óskað skýringa á hafi verið borin upp af fulltrúa sænsku útlendingastofnunarinnar, en ekki af honum sjálfum. Þá sé samræmi í frásögnum kærenda í viðtölum hér á landi og hafi þau lagt fram gögn þeim til stuðnings. Að lokum telja kærendur, í ljósi þess að þau hafi orðið fyrir ofbeldi í miklum mæli í heimaríki, að það sé varla hægt að líta svo á að það hafi verið tilviljunarkennt. Kærendur telji það frekar benda til þess að þau eigi á hættu að verða fyrir árásum eða ofsóknum þar í landi, mögulega vegna tengsla þeirra við Ba‘ath-flokkinn.

Kærendur krefjast þess aðallega að M verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. d- lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. M hafi starfað sem bráðaliði fyrir írakska herinn í valdatíð Saddam Hussein og hafi hann orðið fyrir alvarlegum ofsóknum er fjölskyldan hafi verið endursend af sænskum stjórnvöldum til Íraks árið 2011. Þá hafi bræður hans starfað fyrir Ba‘ath-flokkinn, ýmist sem öryggisverðir eða bílstjórar. Þá geti hann ekki fært sér í nyt vernd stjórnvalda, enda séu þau fullkomlega ófær um að veita íbúum landsins vernd gegn ofsóknum vopnaðra aðila, sbr. b- og c- lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Hvað varðar K og börn kærenda er byggt á 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu eigi maki útlendings sem njóti alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

Til vara krefjast kærendur þess að þeim og og börnum þeirra verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þau eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í heimaríki vegna stöðu M. Þá eigi þau á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar í landi þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Kærendur vísa m.a. til þess að Útlendingastofnun hafi, með ákvörðunum dags. 23. nóvember 2020, komist að þeirri niðurstöðu að fjölskylda frá Bagdad ætti rétt á viðbótarvernd þar sem líkur væru á því að þeim gæti stafað ógn af tilviljunarkenndu ofbeldi þar í borg. Hafi Útlendingastofnun áður talið óvissu um öryggisástandið í Bagdad vera grundvöll fyrir veitingu viðbótarverndar eigi það einnig við núna, enda hafi ástandið í borginni ekki breyst til batnaðar. Umræddar ákvarðanir hafi verið birtar tæpum tveimur vikum eftir efnisleg viðtöl við kærendur og nokkuð löngu eftir að þau hafi lagt fram umsóknir sínar um alþjóðlega vernd. Töf á vinnslu umsókna kærenda megi ekki rekja til þeirra en ljóst sé að töfin hafi haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir þau. Kærendur telji ljóst að um sé að ræða breytta stjórnsýsluframkvæmd og að Útlendingastofnun hefði borið að uppfylla formreglur stjórnsýsluréttarins um breytingar á slíkri framkvæmd.

Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim og börnum þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærendur byggja á því að þau, og þá sérstaklega K, hafi ríka þörf fyrir vernd af heilbrigðisástæðum. Hún sé haldin miklum kvíða og sofi illa. Þá verði að líta til hagsmuna barna kærenda og frásagna þeirra um vanlíðan sem þau hafi upplifað í Ungverjalandi síðastliðin ár. Auk þess verði að taka sérstakt tillit til ástands mála í Írak vegna Covid-19 og er í því samhengi vísað til frétta um mannskæðan bruna á sjúkrahúsi í Bagdad. Kærendur telja að bruninn leiði til þess að heilbrigðiskerfið í Bagdad sé verr statt, a.m.k. tímabundið, og að um sé að ræða bakslag fyrir baráttuna við Covid-19. Yfir ein milljón manna hafi smitast af veirunni í Írak og skortur hafi verið á lyfjum og sjúkrarúmum í faraldrinum. Þá er ítrekað að Útlendingastofnun hafi ranglega lagt til grundvallar að M eigi þrjá bræður sem búi í Bagdad en hið rétta sé að hann eigi enga fjölskyldu þar lengur. Þá sé einnig rangt að foreldrar K hafi fasta búsetu í Bagdad. Af þessum sökum telja kærendur að rökstuðningur Útlendingastofnunar hvað varðar synjun á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða falli um sjálfan sig. Í hinni kærðu ákvörðun vísi stofnunin til heimildar þar sem segi berum orðum að fjölskyldur með börn muni að öllum líkindum þurfa utanaðkomandi stuðning fjölskyldumeðlima, stórfjölskyldu eða ættbálks til að búa við fullnægjandi skilyrði í borginni. Telji kærendur því ljóst að þau uppfylli skilyrði þess að vera veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn sem væru til þess fallin að sanna á þeim á deili og leysti stofnunin því úr auðkenni þeirra á grundvelli trúverðugleikamats. Að mati Útlendingastofnunar þótti ekki ástæða til að draga í efa að kærendur og börn þeirra hafi verið búsett í Bagdad og að þau séu írakskir ríkisborgarar. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að draga í efa það mat Útlendingastofnunar og er því lagt til grundvallar að kærendur og börn þeirra séu ríkisborgarar Íraks. Að öðru leyti eru auðkenni þeirra óljós.

Réttarstaða barna kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir  að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·         2020 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 30. mars 2021);

·         2019 Report on International Religious Freedom - Iraq (U.S. Department of State, 10. júní 2020);

·         Annual Report of the U.S. Commission on International Religious Freedom. 2021 (U.S. Commission on International Religious Freedom, USCIRF, apríl 2021);

·         Country Fact Sheet. Iraq. (IOM, UN Migration, 2019);

·         Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, janúar 2021);

·         Country of Origin Information Report - Iraq - Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);

·         Country of Origin Information Report - Iraq: Internal Mobility (European Asylum Support Office, febrúar 2019);

·         Country of Origin Information Report - Iraq: Key socio-economic indicators for Baghdad, Basra and Erbil (European Asylum Support Office, september 2020);

·         Country of Origin Information Report - Iraq - Security situation (EASO, 1. mars 2019);

·         Country of Origin Information Report - Iraq: The Protest Movement and Treatment of Protesters and Activists (European Asylum Support Office, október 2020);

·         Country of Origin Information Report - Iraq - Security Situation (EASO, Október 2020);

·         Country Policy and Information Note – Iraq: Actors of protection (UK Home Office, desember 2020);

·         Country Policy and Information Note - Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);

·         Country Policy and Information Note - Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, maí 2020);

·         Country Policy and Information Note - Iraq: Religious minorities (UK Home Office, október 2019);

·         Country Policy and Information Note - Iraq: Medical and healthcare provision (UK Home Office, janúar 2021);

·         Country Policy and Information Note – Iraq: Sunni Arabs (UK Home Office, janúar 2021);

·         DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 17. ágúst 2020);

·         Education in Iraq. Impact of Covid-19, protests, and pre-existing crises on needs (Acaps, nóvember 2020);

·         Factsheet on the EU Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST LEX-Iraq) (European Union External Action Service, EEAS, janúar 2014);

·         Freedom in the World 2021 - Iraq (Freedom House, 3. mars 2021);

·         Human Rights Violations and Abuses in the Context of Demonstrations in Iraq, October 2019 to April 2020 (UNAMI og OHCHR, ágúst 2020);

·         International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);

·         Irak: Situasjonen for personer som har jobbet for utenlanske selskaper (Landinfo, 7. apríl 2016);

·         Iraq: Apostasi og ateisme (Landinfo, 29. ágúst 2018);

·         Irak: Basisinfo (Landinfo, 28. september 2018);

·         Iraqi Nationality Law (National Legislative Bodies, 7. mars 2006);

·         Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);

·         Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);

·         Mahdi Army (Stanford, Center for International Security and Cooperation, síðast uppfært maí 2019);

·         Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);

·         Thematic report: The Security Situation in Iraq July 2016-November 2017 (version 4.0) (Migrationsverket, 18. desember 2017);

·         UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);

·         The World Factbook – Iraq (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 15. júní 2021);

·         World Report 2021 – Iraq (Human Right Watch, 13. janúar 2021);

·         Vefsíða Stanford háskólans – Mapping Militant Organizations. Mahdi Army (http://web.stanford.edu/group/mappingmilitants/cgi-bin/groups/view/57, sótt 20. maí 2021) og

·         Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 8. júlí 2021)

Írak er lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá janúar 2018 kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Í skýrslu EASO frá nóvember 2018 kemur fram að samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafi hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá kemur fram í skýrslu UNHCR frá 2019 að dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda hafi framið mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Í skýrslu EASO frá 2019 er fjallað um aukin yfirráð yfirvalda í Írak í kjölfar þess að sigur hafi verið unninn á Daesh. Fram kemur að íröksk yfirvöld geti, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklinga, almennt veitt fullnægjandi vernd í Bagdad og í suðurhluta landsins. Þá kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2020 að öryggi í Bagdad og nærliggjandi svæðum sé tryggt af írakska hernum, lögreglunni, hersveitum PMF (e. Popular Mobilization Forces) og ýmsum sjía hersveitum.

Í skýrslu EASO frá október 2020 kemur fram að fjölmenn mótmæli hafi brotist út í Bagdad og fáeinum öðrum héröðum Írak hinn 1. október 2019. Mótmælendur hafi m.a. kallað eftir kerfisbundnum breytingum, efnahagsumbótum, samfélagslegu réttlæti, fleiri störfum fyrir ungt fólk og aðgerðum gegn spillingu. Þáverandi forsætisráðherra Íraks, Adel Abdel Mahdi, hafi sagt stöðu sinni lausri hinn 1. desember 2019 vegna mótmælanna og hafi tekið um fimm mánuði að mynda nýja ríkisstjórn. Þrátt fyrir að mótmælin hafi, að mestu leyti, farið friðsamlega fram hafi yfirvöld brugðist við með harkalegum og jafnvel banvænum aðgerðum, s.s. notkun táragass og skotvopna gegn mótmælendum. Samkvæmt skýrslu UNAMI og OHCR frá 2020 hafi 487 mótmælendur látið lífið og 7715 hlotið áverka vegna þátttöku þeirra í mótmælunum. Þá hafi fjöldi mótmælenda verið handteknir og hafi hluti þeirra greint frá því að hafa orðið fyrir illri meðferð í haldi. Yfirvöld hafi gripið til aðgerða til að hafa uppi á aðilum sem hafi horfið í kjölfar mótmælanna en hafi ekki dregið aðila sem hafi gerst sekir um óhóflega og ólöglega notkun valds gegn mótmælendum til ábyrgðar.

Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytis frá árinu 2021 má ráða að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Í upplýsingaskýrslu EEAS frá árinu 2014 kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2013 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins, svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 7000 opinberir starfsmenn undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í skýrslu EASO frá 2021 kemur fram að fljótlega eftir fall Ba‘ath-flokksins árið 2003 hafi íröksk yfirvöld ráðist í fjölda lagalegra ráðstafana til að koma í veg fyrir að flokkurinn kæmist aftur til valda (e. de-Baathification process). 400 þúsund her-, lögreglu-, og opinberum starfsmönnum hafi verið sagt upp störfum í maí 2003. Þessar ráðstafanir hafi valdið sundrung í írökskum stjórnmálum. Sjía stjórnmálaflokkar hafi stutt við þessar ráðstafanir en súnní stjórnmálaflokkar hafi litið á þetta sem aðgerðir af hálfu yfirvalda til að koma í veg fyrir að þeir tækju þátt í störfum á vegum hins opinbera. Greint hafi verið frá því að íröksk yfirvöld vísi enn í lög er sett hafi verið til að afvæða Ba‘ath-flokkinn í þeim tilgangi að gera súnníta vanhæfa til að gegna opinberum störfum. Írakska stjórnarskráin, sem hafi verið sett árið 2005, leggi bann við starfsemi Ba‘ath-flokksins. Þá hafi lög verið samþykkt árið 2016 sem kveði á um að flokknum sé óheimilt að starfrækja hvers konar stjórnmálalega-, menningarlega-, samfélagslega- eða annars konar starfsemi. Í framangreindri skýrslu EASO kemur fram að almennir meðlimir Ba‘ath-flokksins eigi almennt á lítilli hættu að verða fyrir ofsóknum í Írak. Það geti þó oltið á einstaklingsbundnum aðstæðum aðila, s.s. hvort hann hafi lýst yfir stuðningi við flokkinn opinberlega, gegnt háttsettri stöðu innan flokksins, verið lögreglu- eða hermaður í valdatíð Saddam Hussein eða hafi tengsl við Daesh

Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá apríl 2016 kemur fram að aðstæður í Írak á árunum 2005 til 2011 fyrir einstaklinga sem unnu fyrir erlenda aðila, svo sem bandaríska herinn, hafi verið áhættusamar, sérstaklega á árunum frá 2005 til 2008, og hafi þeim einkum staðið ógn af hersveitum sjía múslíma. Hafi ástandið skánað til muna eftir að bandarískar hersveitir yfirgáfu landið árið 2011. Þá kemur fram að frá þeim tíma fylgi ekki lengur sama hætta því að vinna fyrir erlenda aðila. Í dag séu það helst írakskir hermenn sem starfi náið með erlendum hersveitum sem geti átt á hættu hótanir eða ofbeldi vegna þeirra starfa, en það séu þó ekki hersveitir sjía múslíma sem ráðist á þá heldur Daesh. Í skýrslu EASO frá mars 2019 kemur fram að nú á dögum einbeiti hersveitir sjía múslíma sér að því að berjast gegn þeirri ógn sem stafi af Daesh. Af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá maí 2012 má ráða að einstaklingar sem unnu fyrir erlendar hersveitir hafi þá verið í hættu. Af skýrslu flóttamannastofnunarinnar frá maí 2019 verður hins vegar ekki ráðið að þessi hópur sé í slíkri hættu að þörf sé á alþjóðlegri vernd.

Í skýrslu bandarísku utanríkisráðuneytisins frá 2020 um trúfrelsi kemur fram að íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslímar og flestir þeirra séu sjía-múslímar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslímar en um 15% íbúa séu súnní-múslímskir Kúrdar og 24% súnní-múslimískir arabar. Sjía-múslimar séu ráðandi í suður- og austurhlutum landsins auk þess sem flestir íbúar höfuðborgarinnar Bagdad séu sjía-múslimar. Íbúar norður- og vesturhluta landsins séu flestir súnní-múslimar sem og íbúar miðsvæðisins, þó að undanskilinni Bagdad. Íslam, kristni, sabaean-mandean, jasídi og íslam séu einu trúarbrögðin sem geti verið tilgreind á írökskum skilríkjum, en skilríki útgefin árið 2016 og síðar beri ekki með sér hverrar trúar handhafi sé. Í skýrslu Landinfo frá 2018 kemur fram að í íröksku samfélagi séu einstaklingar skilgreindir út frá þeim trúarhópum sem þeir fæðist inn í og að litið sé með vanþóknun á trúleysi. Þá kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að það hafi verið einstök tilvik í Írak þar sem meðlimir trúarlegra minnihlutahópa hafi verið beittir ofbeldi eða drepnir, þ. á m. í Bagdad, en þau tilvik megi ekki alltaf rekja til trúarbragða viðkomandi. Þá hafi meðlimir trúarlegra minnihlutahópa einnig sætt mismunun, m.a. vegna þess að þeir hafi ekki fylgt samfélagslega viðurkenndum hefðum um hegðun á almannafæri eða klæðaburð.

Í framangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 kemur fram að stjórnarskrá Íraks tryggi ríkisborgurum aðgang að heilbrigðiskerfi landsins. Heilbrigðiskerfið í Írak hafi sætt gagnrýni, m.a. fyrir skort á starfsfólki, lyfjum og almennu aðgengi. Þá sé aðgangur að heilbrigðisþjónustu takmarkaður og mismunandi eftir landsvæðum. Meiri hluti heilsugæslustöðva og almennra sjúkrahúsa séu staðsett í þéttbýli og geti ríkisborgarar þar sótt sér heilbrigðisþjónustu, m.a. geðheilbrigðisþjónustu, gegn vægu gjaldi. Þá sé einkarekin heilbrigðisþjónusta í miklum vexti í landinu auk þess sem ýmis frjáls félagasamtök vinni með stjórnvöldum, einkum í Bagdad og Erbil, að því að tryggja aðgengi fyrir fólk á innri flótta sem og fólk sem snýr til baka til Íraks eftir að hafa flúið heimaríki sitt að heilbrigðisþjónustu.

Í skýrslu Alþjóða fólksflutningsstofnunarinnar (IOM) frá árinu 2019 kemur fram að yfirvöld tryggi að öll börn eigi rétt á endurgjaldslausri menntun frá sex ára aldri. Börn sem hafi stundað nám erlendis þurfi að framvísa skólaskírteinum frá þarlendum skólum og fá þau vottuð af menntamálaráðuneyti Íraks til að fá námið metið. Fjölskyldur sem snúi aftur til Íraks eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd í öðrum löndum geti sótt um aðstoð hjá stofnuninni við enduraðlögun. Í skýrslu EASO frá árinu 2020 kemur fram að það séu ýmsar hindranir að aðgengi að menntun fyrir börn á innri flótta og börn sem séu búsett á svæðum sem hafi verið undir stjórn Daesh. Þá hafi lokun skóla vegna Covid-19 faraldursins haft áhrif á aðgengi barna að menntun í Írak.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Aðalkrafa kærenda er byggð á því að M tilheyri sérstökum þjóðfélagshópi í heimaríki þar sem hann hafi starfað sem hjúkrunarfræðingur og bráðaliði fyrir írakska herinn í valdatíð Saddam Hussein. Í því samhengi er lögð áhersla á að hann hafi orðið fyrir ofsóknum og pyndingum í kjölfar þess að sænsk stjórnvöld hafi endursent hann og fjölskyldu hans til Íraks árið 2011. Þá er á því byggt að M eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna stöðu bræðra sinna innan Ba‘ath-flokksins. Bræður hans hafi starfað fyrir flokkinn, ýmist sem öryggisverðir eða bílstjórar. Hvað varðar K og börn kærenda er byggt á 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu eiga maki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

Kærendur hafa lagt fram umtalsvert magn af gögnum sem þau telja styðja við frásagnir sínar. Í mörgum tilvikum er um að ræða ljósmyndir og skjáskot af gögnum og er því ekki mögulegt fyrir kærunefnd að kanna áreiðanleika þeirra eða uppruna. Þá telur kærunefnd óvíst hvernig framlögð gögn eigi að styrkja grundvöll umsóknar kærenda eða þá hvernig þau tengist persónubundnum aðstæðum þeirra. Til að mynda eru lögð fram skjáskot af skýrslu og frétt af sænskum miðli sem kærendur kveða að sé vegna mannráns bróður M í Írak árið 2019. Þá er því haldið fram í greinargerð að M hafi framvísað gögnum er sýni fram á að einum bræðra M hafi verið rænt og að aðrir hafi verið myrtir. Því til stuðnings hefur kærandi lagt fram ljósmyndir af legsteinum sem hann kveður vera legsteina föður hans og bræðra. Í viðtali M hjá Útlendingastofnun greinir kærandi frá því að elsta bróður hans hafi verið rænt og hann hafi síðar fundist illa útleikin eftir pyndingar. Hann hafi síðar látist á sjúkrahúsi af völdum hjartaáfalls. Fjölskyldan hafi ekki vitað hverjir hafi staðið að baki þessu og óttast um öryggi sitt. Þá greindi M frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 3. september 2020, að móðir hans, faðir og tveir bræður hafi látist í heimaríki af völdum hjartaáfalls. Er því hér um ákveðið ósamræmi að ræða á milli greinargerðar frá talsmanni kærenda og frásagnar M af atburðum í heimaríki. Í greinargerð til Útlendingastofnunar var einnig byggt á því að M hafi unnið fyrir bandaríska herinn eftir fall stjórnar Saddam Hussein. Af viðtali við M verður hins vegar ekki séð að hann hafi greint frá því.

Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa að M sé hjúkrunarfræðingur að mennt og hafi starfað sem slíkur í heimaríki. Í framlögðum gögnum kemur hins vegar ekkert fram sem styður við frásagnir kærenda um störf M fyrir írakska herinn, tengsl hans eða bræðra hans við Ba‘ath-flokkinn eða fangelsisvist hans í heimaríki. Þá hafa kærendur, líkt og að framan er rakið, ekki lagt fram gögn sem eru til þess fallin að sanna á þeim deili og verður því ekki af gögnunum ráðið að skjáskot af skýrslum, ljósmyndir og frétt eigi við um kærendur eða fjölskyldumeðlimi M.

Kærendur hafa að öðru leyti ekki fært fram trúverðug gögn sem þykja til þess fallin að styðja við frásagnir þeirra af þeim atvikum sem þau hafa lagt til grundvallar umsóknum sínum um alþjóðlega vernd. Í ljósi frásagna kærenda sjálfra um að ætlaðar ofsóknir hafi átt sér stað á árunum 2003 til 2012 er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærendur leggi fram einhver gögn sem leiði að því líkur að þau eigi á hættu ofsóknir af hálfu meintra ofsóknaraðila í heimaríki.

Meðal gagna málsins eru gögn frá sænskum útlendingayfirvöldum vegna umsóknar M um alþjóðlega vernd þar í landi. Í viðtali við M hjá sænsku útlendingastofnun (s. Migrationsverket), dags. 2. febrúar 2020, kemur m.a. fram að hann hafi hafið störf hjá menningarmálaráðuneyti Íraks hinn 1. október 2005. Hann hafi hætt störfum í ráðuneytinu í kjölfar skotárásar sem hann hafi orðið fyrir hinn 10. mars 2006 og hafi opnað læknastofuna sína aftur í maí 2006. Stuttu síðar hafi honum verið rænt af Mahdi vígasveitunum og hafi hann verið í haldi þeirra þar til í desember 2006. Eftir að hann hafi verið látinn laus hafi hann haldið sig í felum á hinum ýmsu stöðum í Bagdad þar til hann hafi flúið Írak hinn 16. mars 2008.

Frásögn M í umræddu viðtali stangast í meginatriðum á við frásögn hans og K í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Í tölvubréfi, dags. 18. mars 2021, og greinargerð til kærunefndar kemur fram að M hafi ekki greint sænskum yfirvöldum frá því að hann og fjölskylda hans hafi dvalið í Ungverjalandi. Sú tímalína sem hann hafi dregið upp af flótta sínum í viðtalinu í Svíþjóð markist af því og sé ekki rétt. Frásögnin, eins og hún birtist í því viðtali, sé því að hluta til ónákvæm og ekki sönn. Kærunefnd fellst ekki á framangreinda skýringu kærenda, enda varðar ósamræmi í framburði M ekki einungis tímalínu atburða, heldur einnig atvinnu hans, meinta ofsóknaraðila og flótta frá heimaríki. Það liggur því fyrir að M veitti, við umsókn sína um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, stjórnvöldum þar í landi upplýsingar sem stangast á við upplýsingar sem hann hefur síðar veitt stjórnvöldum hér á landi. Megi líta svo á að um sé að ræða nýja frásögn frá M sem hann hefur auk þess ekki getað stutt með haldbærum gögnum. Það er mat kærunefndar að framangreint dragi úr trúverðugleika frásagnar hans og að gera verði ríkari kröfur til sönnunar á þeirri frásögn sem hann ber nú fyrir sig.

Kærunefnd telur ekki ástæðu til þess, m.a. í ljósi sögu Íraks, að draga í efa að einhverjir fjölskyldumeðlimir M hafi látið lífið eða verið rænt og að kærendur hafi orðið fyrir hótunum og ofbeldi af hálfu ótilgreindra aðila á árunum 2003 til 2012. Kærunefnd telur hins vegar ekkert hafa komið fram í málinu sem gefi til kynna að það hafi verið á grundvelli tengsla M eða bræðra hans við Ba‘ath-flokkinn. Líkt og að framan er rakið eiga almennir meðlimir Ba‘ath-flokksins almennt séð ekki á hættu ofsóknir í Írak. Það geti þó oltið á persónubundnum aðstæðum einstaklings, s.s. hvort hann hafi lýst yfir opinberum stuðningi við flokkinn, gegnt háttsettri stöðu innan flokksins, verið her- eða lögreglumaður í valdatíð Saddam Hussein eða hafi tengsl við Daesh. Kærendur bera því við að M hafi starfað fyrir írakska herinn í valdatíð Saddam Hussein en hafa, sem fyrr segir, ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur til kynna að M hafi opinberlega lýst yfir stuðningi við flokkinn eða hafi tengsl við Daesh. Þá er þess að geta að löggjöf um afvæðingu Ba‘ath-flokksins hefur komið harðar niður á súnnítum en sjítum, en M kveðst vera sjía múslimi. Þá er ekki að sjá að það hafi haft áhrif á atvinnumöguleika M hjá írökskum stjórnvöldum að hann hafi verið hermaður í valdatíð Saddam Hussein, enda kveðst hann hafa starfað sem hjúkrunarfræðingur í sérveitum írakska hersins í þrjá mánuði árið 2005 og síðar sama ár fyrir póstþjónustu írakskra stjórnvalda. Samkvæmt framansögðu er því ekki unnt að leggja til grundvallar í málinu að kærendur og börn þeirra eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Írak á grundvelli tengsla M eða bræðra hans við Ba‘ath-flokkinn. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að þau hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki sínu af öðrum ástæðum.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar kemur fram að íbúum Bagdad standi almennt raunhæf vernd yfirvalda til boða, þurfi þeir á slíkri aðstoð að halda. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærendur og börn þeirra eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda, telji þau sig þurfa þess.

Hvað varðar vísun kærenda í greinargerð til Útlendingastofnunar til ákvarðana stofnunarinnar sem þau telja sambærilegar sínu máli þá tekur kærunefnd fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Líkt og að framan greinir komu A og B í viðtal hjá Útlendingastofnun en börn kærenda voru talin svo ung að árum að óþarft væri að taka viðtal við þau. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni þeirra samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barnanna nægilega komið á framfæri með framburði A og B, kærenda og hagsmunagæslu talsmanns. Kærunefnd telur, að teknu tilliti til ákvæða í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnaverndarlögum nr. 80/2002, að engin rök standi í vegi fyrir því að börn kærenda fylgi foreldrum sínum aftur til heimaríkis þeirra. Kærunefnd horfir m.a. til þess að börnin eru í fylgd móður sinnar og föður sem eru að mestu heilsuhraust og vinnufær og njóta stuðnings þeirra. Í írökskum lögum um ríkisborgararétt frá árinu 2006 kemur fram að einstaklingur teljist vera írakskur ríkisborgari ef hann á írakskan föður eða írakska móður. Börn kæranda teljist því, samkvæmt framansögðu, vera írakskir ríkisborgarar. Þá bendi gögn ekki til annars en að fjölskyldan geti búið saman í heimaríki þeirra og að börnum kærenda standi til boða grunnskólamenntun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnanna, að það sé þeim fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og rakið er að framan hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er brothætt eða óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh samtakanna, eða þeim svæðum þar sem Daesh er enn við völd. Þá telur Flóttamannstofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimaborg kærenda og barna þeirra, Bagdad, er á öruggu svæði í Írak. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærendur og börn þeirra. 

Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að leggja ekki til grundvallar að kærendur og börn þeirra eigi á hættu ofsóknir í heimaríki. Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir til þess að íröksk yfirvöld geti almennt veitt fullnægjandi vernd í Bagdad. Öryggi í Bagdad og nærliggjandi svæðum sé tryggt, m.a. af írakska hernum, lögreglunni og hersveitum PMF. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærendur séu í raunverulegri hættu á að sæta dauðarefsingu eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka í heimaríki þeirra. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til skýrslna um aðstæður í heimaríki kærenda, að þeim standi til boða vernd og aðstoð lögreglu í Bagdad, telji þau sig þurfa á slíkri aðstoð að halda. Kærunefnd telur að ekki sé ástæða til að ætla að sá órói sem einkennt hefur Bagdad frá því að fjölmenn mótmæli gegn yfirvöldum hófust þar í borg árið 2019 sé af þeim toga að hann raski framangreindu mati.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barna þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga á maki eða sambúðarmaki einstaklings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Þar sem hvorki kærendur né börn þeirra hafa hlotið alþjóðlega vernd þá eru skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt og kröfum kærenda á grundvelli ákvæðisins af þeim sökum hafnað. 

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í umræddum athugasemdum kemur einnig fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Meðal gagna málsins eru göngudeildarnótur frá Göngudeild sóttvarna, dags. 28. til 31. ágúst 2020. Kemur þar fram að M hafi fengið ráðleggingar um að hreyfa sig reglulega þar sem hann sé of þungur. M hafi greint frá því að hann sé með sykursýki og hafi átt erfitt með svefn. Þá hafi hann, í ljósi fjölskyldusögu sinnar, áhyggjur af hjarta sínu. Þá kemur fram að K sé almennt heilbrigð en að púlsinn hennar hafi mælst frekar hraður og hafi henni verið ráðlegt að fá tíma hjá heilbrigðislækni til að láta skoða það frekar. Þá eru í málinu komunótur frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, dags. 18. til 24. febrúar 2021. Kemur þar fram að K, sem hafi verið barnshafandi, hafi komið á fæðinga- og kvensjúkdómadeild hinn 18. febrúar 2021 og greint frá því að henni hafi liðið illa og átt erfitt með svefn. Hún hafi verið óörugg með stöðu sína og kvíðin yfir því að fá ekki dvalarleyfi á íslandi. Þá hafi hún kvartað undan hóstaköstum. K hafi komið á fæðinga- og kvensjúkdómadeild aftur hinn 24. febrúar 2021 í fylgd M. Hafi hún greint frá því að jarðskjálftar hafi vakið upp hjá henni slæmar minningar um sprengingar í heimaríki. Henni hafi liðið illa vegna þeirra og kastað upp. Hjartsláttur og lífsmörk hafi verið í eðlilegu horfi og hafi henni verið ráðlegt að hvíla sig og reyna að drekka vel. Samkvæmt framlögðum gögnum fæddist kærendum sonur að nafni [...] hinn [...]. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur annað til kynna en að hann sé almennt heilsuhraustur.

Að teknu tilliti til framlagðra heilsufarsgagna er það mat kærunefndar að kærendur séu ekki í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa. Þá telur kærunefnd, að teknu tilliti til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að kærendum standi til boða aðgangur að heilbrigðisþjónustu í heimaríki, m.a. geðheilbrigðisþjónustu.

Krafan byggist auk þess á því að kærendur hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra almennra aðstæðna í Írak. Mannréttindabrot séu viðvarandi í Írak og þarlend yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Í þessu sambandi vísa kærendur einnig til grundvallarreglu barnaréttar um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ákvarðanir séu teknar um málefni þess.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kærenda, þ. á m. skýrslum UNHCR, EASO, breska innanríkisráðuneytisins og dómi áfrýjunardómstóls Bretlands frá desember 2019 (SMO, KSP & IM), verður ráðið að Bagdad sé almennt örugg fyrir almenna borgara. Vinnufærir einstaklingar með fullnægjandi skilríki, t.d. einhleypir súnnítar eða hjón án barna, eigi almennt auðvelt með að snúa aftur til borgarinnar eftir búsetu erlendis. Aftur á móti geti fjölskyldur með börn þurft utanaðkomandi stuðning fjölskyldumeðlima, stórfjölskyldu eða ættbálks (e. external support) til að búa við fullnægjandi skilyrði í borginni. Til að mynda geti reynst erfitt fyrir fjölskyldur með börn að fá félagslega- og heilbrigðisaðstoð. Þá geti slíkur stuðningur reynst nauðsynlegur við leit að atvinnu- og húsnæði.

Í greinargerð kærenda til kærunefndar kemur fram að þau eigi enga fjölskyldu í Írak. Foreldrar og systkini K séu að jafnaði búsett í Tyrklandi og systkini M í Svíþjóð, Jórdaníu og Tyrklandi. Þá séu foreldrar M og aðrir bræður hans látnir. Með tölvubréfi, dags. 10. júní 2021, var kærendum leiðbeint um að leggja fram gögn framangreindu til stuðnings. Hinn 25. júní barst kærunefnd ýmsar ljósmyndir sem kærendur kveða að séu af fjölskyldumeðlimum sínum í Tyrklandi og Svíþjóð sem og af skilríkjum systkina þeirra í Tyrklandi. Þá kom fram að framburður kærenda um búsetu fjölskyldumeðlima sinna hafi verið stöðugur alla málsmeðferðina. Líkt og að framan er rakið hafa kærendur ekki lagt fram gögn sem eru til þess fallin að sanna á þeim deili og verður því ekki af ljósmyndunum ráðið að þau eigi við um fjölskyldumeðlimi kærenda. Þá er þess að geta að ljósmyndir sem kærendur kveða að séu af skírteinum systkina K í Tyrklandi eru í raun af vegabréfsáritunum fyrir ferðamenn sem voru gefnar út til 30 daga í Bagdad hinn 27. september 2020. Með vísan til framangreinds, og að teknu tilliti til heildstæðs mats á trúverðugleika frásagna kærenda, þykja umræddar ljósmyndir ekki til þess fallnar að styðja við frásagnir þeirra um búsetu fjölskyldumeðlima sinna. Verður því ekki fallist á að kærendur eigi ekki fjölskyldumeðlimi í heimaríki sínu sem geti stutt við þau varðandi húsnæði og framfærslu fyrst um sinn eftir endurkomu þeirra þangað.

Sem fyrr segir gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kærenda til kynna að ríkisborgarar Íraks geti leitað aðstoðar og verndar

yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Þá verður af gögnum málsins ekki annað ráðið annað en að kærendur og börn þeirra séu almennt við góða heilsu og að börnin hafi aðgang að heilbrigðis- og skólakerfi landsins.

Að teknu tilliti til alls framangreinds telur kærunefnd að félagslegar aðstæður kærenda og barna þeirra við endurkomu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barna þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og börn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda og barna þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda og barna þeirra þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd 21. júlí 2020 ásamt börnum sínum. Eins og að framan greinir hefur umsókn þeirra og barna þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kærendum og börnum þeirra því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærendur og börn þeirra eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kærenda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra.

Athygli er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur og börn þeirra að hverfa af landi brott. Kærendum og börnum þeirra er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children are affirmed. The appellants and their children are requested to leave the country. The appellants and their children have 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                                    Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum