Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 19/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. júní 2021
í máli nr. 19/2021:
Atendi ehf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Metatron ehf.

Lykilorð
Kröfu um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar hafnað.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar vegna útboðs á uppfestibúnaði fyrir lýsingu og viðburðarbúnað,, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 4. júní 2021 kærir Atendi ehf. útboð Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 15063 auðkennt „Uppfestibúnaður fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi „samþykkt kærða og/eða innkaupa- og framkvæmdaráðs Reykjavíkurborgar frá 27. maí sl. að ganga að tilboði Metatron ehf.“ í hinu kærða útboði. Jafntframt er þess krafist að kærunefnd stöðvi gerð samnings við Metatron ehf. á grundvelli útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sem komist hafi á með kæru, verði aflétt og að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til þeirrar kröfu varnaraðila að aflétta stöðvun hins kærða útboðs.

Í janúar 2021 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í uppfestibúnað fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll. Í grein 0.1 í útboðsgögnum kom fram að varnaraðili myndi setja búnaðinn upp en bjóðandi sjá um prófanir og gagnsetningu. Þá kom fram að um almennt útboð væri að ræða sem auglýst væri á EES- svæðinu. Í grein 0.8 kom fram að samið yrði við þann aðila sem ætti hagkvæmasta gilda tilboðið á grundvelli lægsta verðs. Í tæknilýsingu útboðsgagna voru gerðar tilteknar kröfur til boðins búnaðar. Í grein 2.1 kom fram að „[u]ppbygging og efni í tröss skal vera sambærileg því sem kemur fram í „Fylgiskjal 2 – viðmiðunarbúnaður, truss bitar“.“ Í grein 2.1.3 kom meðal annars fram að bjóðandi skyldi útvega mótordrifnar keðjur til hæðarstjórnunar á truss kerfi. Skyldu mótorarnir búnir mjúkræsingu og stoppi til að minnka álag á loftafestingar. Þá skyldu mótordrifin búin samkeyrslubúnaði sem samstilli hæð trussa, jafni álag í keyrslu og sjái til þess að hvert truss sé híft lárétt hverju sinni. Í grein 2.1.4 kom eftirfarandi fram: „Verktaki skal útvega vogir (Load Cell) fyrir hverja festingu á burðartruss. Búnaðurinn skal vera útbúinn með augum til tengingar við festingar í lofti og mótors fyrri truss kerfi. Fylgja skyldi með hverri vog breytir sem gefur út 0-10V eða 4-20mA merki til ytra stjórnkerfis verkkaupa. Gæðakröfur. Vogin skal vera af gerðinni „S beam load cell“, IP65 og vera með nákvæmi upp á 0,05%. Vogin skal vera gerð fyrir bolta af stærðinni M12. Merkjabreytir skal vera gerður fyrir 4 eða 5 víra vog og vera með 2 óskgildi. Sjá nánari kröfur í Fylgiskjal 4 – Viðmiðunarbúnaður, vogir.“

Tilboð voru opnuð 26. febrúar 2021. Samkvæmt skýrslu opnunarfundar bárust tilboð frá sex fyrirtækjum. Var tilboð Metatron ehf. lægst að fjárhæð og tilboð Exton ehf. næstlægst. Tilboð kæranda var næst hæst að fjárhæð. Með tölvubréfi 8. apríl 2021 var bjóðendum tilkynnt að varnaraðili hefði ákveðið að taka tilboði Exton ehf. í útboðinu, en fyrirtækið hefði átt lægsta gilda tilboðið í útboðinu. Kærandi og Metatron ehf. kærðu þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála með kærum mótteknum 13. og 19. apríl 2021, sbr. mál nr. 12/2021 og 14/2021 sem nú eru til úrlausnar hjá kærunefnd. Á fundi innkaupa- og framkvæmdaráðs varnaraðila 6. maí 2021 var samþykkt erindi umhverfis- og skipulagssviðs um að falla frá fyrri ákvörðun um val á tilboði lægstbjóðanda í hinu kærða útboði. Á fundi ráðsins 27. maí 2021 var samþykkt að gengið yrði að tilboði Metatron ehf. í útboðinu og var bjóðendum tilkynnt um það með tölvubréfi sama dag.

Kærandi byggir að meginstefnu á því að tilboð Metatron ehf. fullnægi ekki kröfum greina 2.1.3 og 2.1.4 í útboðsgögnum. Er meðal annars byggt á því að þar sem mótor fyrir truss kerfi sé með innbyggðri vog fullnægi hún ekki kröfu útboðsgagna um að vera með augu til tengingar milli lofts og mótors auk þess sem hún sé ekki gerð fyrir bolta af stærðinni M12. Varnaraðili byggir að meginstefnu á því að boðin búnaður Metatron ehf. fullnægi öllum kröfum útboðsgagna.

Niðurstaða

Mál þetta er á frumstigum, gagnaöflun er ólokið og aðilar eiga þess enn kost að koma á framfæri athugasemdum. Hér á undan hefur verið lýst kröfum sem gerðar voru til boðins búnaðar í útboðsgögnum. Með hliðsjón af orðalagi greina 2.1.3 og 2.1.4 í útboðsgögnum þykir mega miða við, á þessu stigi máls, að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að í þessum greinum hafi komið fram ófrávíkjanlegar lágmarkskröfur til boðins búnaðar hvað varðar mótordrif og vogir fyrir truss kerfi. Af grein 2.1.4 verður meðal annars ráðið að vogir fyrir truss kerfi skyldu vera útbúnar með augum til tengingar við festingar í lofti og mótor fyrir truss kerfi og að þær skyldu gerðar fyrir bolta af stærðinni M12. Þá verður ekki annað séð en að þessi lýsing útbúnaðar hafi verið ítrekuð í svörum varnaraðila við fyrirspurnum sem bárust við útboðið, sbr. viðauka 1 við útboðsgögnin, dags. 5. febrúar 2021. Af greinargerð varnaraðila og Metatron ehf. má ráða að boðnar vogir Metatron ehf. hafi ekki verið útbúnar með augum til tengingar við festingar í lofti og mótor og þar af leiðandi ekki gerðar fyrir bolta af stærðinni M12, þar sem sá mótor sem fyrirtækið hafi boðið hafi verið með innbyggðri vog. Hafa þannig verið leiddar verulegar líkur að því að boðinn búnaður Metatron ehf. hafi ekki fullnægt kröfum greinar 2.1.3 í útboðsgögnum samkvæmt orðalagi hennar. Verður því að telja, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að kærandi hafi leitt verulegar líkur að broti gegn lögunum sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar, sem komst á með kæru í máli þessu, er því hafnað.

Ákvörðunarorð:

Kröfu varnaraðila, Reykjavíkurborgar, um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar útboðs nr. 15063 auðkennt „Uppfestibúnaður fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll“, er hafnað.


Reykjavík, 23. júní 2021

Reimar Pétursson (sign)

Kristín Haraldsdóttir (sign)

Auður Finnbogadóttir (sign)

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum