Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 14. mars 1986

Ár, 1986, föstudaginn 14. mars, var í Matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Vegagerð ríkisins
                  gegn
               Einari Hafsteini Árnasyni

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með beiðni dags. 5. nóvember 1984 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 og laga nr. 11/1973 farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði bætur vegna skerðingar á landi Brekku í Bessastaðahreppi, sem yrðu við endurbætur á Álftanesvegi. Eigandi Brekku er Einar Hafsteinn Árnason. Í beiðninni kom fram, að eignarnemi teldi land Brekku skerðast um 935 m² vegna endurlagningar Álftanesvegar.

Tekið var fram af hálfu matsbeiðanda, að hann hefði með bréfi dags. 9. júlí 1984 farið fram á leyfi til framkvæmda í landi Brekku vegna umræddrar vegagerðar, en samkomulag hafi ekki tekist við eignarnámsþola. Var þess farið á leit við Matsnefndina, að hún heimilaði eignarnema að taka þá þegar umráð landsins, þótt mati væri ekki lokið, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefndinni fimmtudaginn 15. nóvember 1984. Af hálfu eignarnema mætti Gunnar Gunnarsson hdl., en eignarnámsþoli var sjálfur mættur. Á fundi þessum voru bókuð mótmæli eignarnámsþola gegn því, að eignarnema yrði heimilað að hefja framkvæmdir á landinu. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Ágreiningsefnið var síðan tekið til úrskurðar. Laugardaginn 8. desember 1984 kvað Matsnefndin upp úrskurð, þar sem fallist var á kröfu eignarnema um að hann fengi þá þegar að hefja framkvæmdir við vegalagninguna, þótt verðmætamati á landinu væri ekki lokið.

Næst var málið svo tekið fyrir í Matsnefndinni föstudaginn 28. febrúar 1986. Umboðsmenn aðila lögðu fram frekari gögn. Sátt var reynd með aðilum, en án árangurs. Fór þá fram munnlegur málflutningur og málið að því loknu tekið til úrskurðar.

II.

Svo sem fyrr segir var í upphaflegri matsbeiðni við það miðað, að land Brekku mundi skerðast um 935 m². Í greinargerð eignarnema dags. 25. febrúar 1986 er talið að skerðingin nemi 991 m². Er það í samræmi við nýjan uppdrátt, sem lagður hefur verið fram í málinu. Telur eignarnemi þessa breytingu stafa af nákvæmari mælingu á landinu en ekki því, að tekið hafi verið meira land en gert var ráð fyrir í matsbeiðninni. Framkvæmdum er lokið og hefur hin nýja mæling ekki verið vefengd tölulega af eignarnámsþola, en hins vegar hefur hann lýst þeirri skoðun sinni, að eignarnámið geti ekki náð til stærra lands en greint hafi verið í upphafi.

III.

Um verðmæti þess lands, sem eignarnámið beinist að, hefur eignarnemi einkum bent á eftirtalin atriði:

1.   Eignarnemi bendir á, að í 1. mgr. 30. gr skipulagslaga segi, að sé land í einkaeign og eigandi óski að því eða hluta þess verði breytt í byggingarlóðir samkvæmt gildandi skipulagi, skuli sveitarstjórn slíkt heimilt, enda láti landeigandi endurgjaldslaust af hendi við sveitarfélagið til almenningsþarfa, til dæmis gatna, leikvalla o.s.frv., sem svari til 1/3 af heildarflatarmáli þeirra byggingarlóða, sem heimild sveitarstjórnar nær til. Lega Álftanesvegar sé í samræmi við skipulagsuppdrátt og gera megi ráð fyrir, að land meðfram veginum verði í framtíðinni skipulagt sem byggingarland. Eignarnemi lítur svo á, að tilvitnað lagaákvæði eigi einnig við um vegi, sem séu forsenda þess að byggð geti risið á tilteknu landi, og telur því að landeigendurnir eigi að láta endurgjaldslaust af hendi land undir Álftanesveg. Beri að hafa þetta í hug við verðmætamat á landinu.

2.   Eignarnemi telur það meginreglu í íslenskum bótarétti, að tjónþoli skuli fá tjón sitt bætt og meira ekki. Gildi hið sama um eignarnámsbætur og vísar eignarnemi sérstaklega til 3. mgr. 61. gr. laga nr. 6/1977 um það, að við mat beri að taka sérstakt tillit til þess, ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð og 29. gr. 4. mgr. skipulagslaga nr. 19/1964 um að við ákvörðun bóta vegna skipulagsaðgerða skuli taka tillit til þeirrar verðhækkunar, sem þær hafa í för með sér á viðkomandi eign og að engar bætur skuli greiða, ef verðhækkun er jafnmikil eða meiri en bótaskylt tjón.

3.   Eignarnemi telur, að vegna þróunar þjóðfélagsins, bæði hér og erlendis, hafi stöðugt meira borið á þeim sjónarmiðum, að þörfin fyrir aukna vernd almennings verði stöðugt brýnni gegn stórkostlegum og óeðlilegu gróða einstaklinga, sem eingöngu verði til sökum óhjákvæmilegs eignarnáms í tengslum við ýmiss konar framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga í þágu alls almennings. Þessarar tilhneigingar verði einnig áþreifanlega vart í lagasetningu og dómaframkvæmd með ýmsu móti. Bendir eignarnemi á lög nr. 65/1976 og norsk lög frá 26/1 1973 um bætur fyrir eignarnámstöku á fasteignum, en þar séu eftirfarandi meginreglur settar fram til viðmiðunar:

a)   Verðlagning miðist við notkun fasteignar, er beiðni um eignarnám kemur fram.

b)   Taka beri tillit til breytinga á notkun eignar, sem eðlilegt sé að reikna með eftir aðstæðum á staðnum, en með hliðsjón af þeirri starfsemi eða þeim tilgangi, sem notkun eignarinnar hefur verið tengd.

c)   Ekki beri að taka tillit til möguleika á verðhækkun eignar í framtíðinni.

d)   Ekki beri heldur að taka tillit til þess, þótt eignarnemi hefði viljað kaupa eignina hærra verði vegna sérstakra þarfa hans, ef eignarnámsheimild hefði ekki verið fyrir hendi.

e)   Ekki beri að meta verðbreytingar, sem leiða af tilgangi eða markmiði eignarnámstökunnar, né heldur af framkvæmdum eða starfsemi, hvorki þegar gerðum eða fyrirhuguðum, sem eru í tengslum við eignarnámstökuna.

f)   Heimilt sé að taka tillit til þess, ef framangreindar reglur leiða til verulega lægra matsverðs á eign en almennt gildi um hliðstæðar eignir í héraðinu og þá miðað við venjulega notkun þeirra og með hliðsjón af reglum a-e hér að framan. Í slíku tilviki beri ekki að taka tillit til verðhækkana, sem stafa af opinberum framkvæmdum eða fyrirhuguðum áformum hins opinbera um notkun lands.

Eignarnemi telur, að við verðmætamat verði að hafa í huga, að ekki liggi fyrir deiliskipulag af því landi, sem hér um ræðir. Þótt líklegt megi telja, að land þetta verði skipulagt sem byggingarland í framtíðinni, sé með öllu óvíst hvenær það verður, enda hafi eftirspurn eftir lóðum á Álftanesi minnkað mjög. Á meðan svo sé, sé landið arðlítið fyrir landeigendur.

Eignarnemi bendir á, að í fasteignamati sé land Brekku metið á kr. 2.44 pr. m² og sama mat sé á landi Sviðholts og Kirkjubrúar, en kr. 2.85 pr. m² í Þórukoti. Eignarnemi hefur lagt fram gögn um sölur á landi. Hann vísar til afsals dags. 5. apríl 1977 varðandi ræmu af Arnarnesi vestan Hafnarfjarðarvegar og telur, að umsamið verð þar miðað við hækkun byggingarvísitölu mundi nú samsvara kr. 98.48 pr. m². Jafnframt bendir hann á, að í því tilviki hafi verið skertar skipulagðar byggingarlóðir, sem voru til sölu á frjálsum markaði. Ennfremur, að fulltrúar landeigenda hafi sýnt fram á, að landeigendur hefðu lagt sveitarfélaginu til endurgjaldslaust meira en 40% af Arnarneslandi vestan Hafnarfjarðarvegar. Eignarnemi bendir á, að samkvæmt afsali dags. 22. ágúst 1980 hafi Kópavogskaupstaður keypt Fífuhvammsland við verði, sem hækkað til samræmis við hækkun á byggingarvísitölu mundi nú nema kr. 20.78 pr. m². Hinn 21. maí 1982 hafi Garðabær keypt spildu úr landi Hraunkots og mundi verð samkvæmt þeim samningi reiknað með sama hætti nema kr. 49.00 pr. m² nú. Hinn 10. febrúar 1983 hafi Reykjavíkurborg keypt landspilduna Grafarholtsblett 9 í Reykjavík og verð samkvæmt þeim samningi væri nú kr. 67.00 per. m² hækkað í samræmi við byggingarvísitölu. Reykjavíkurborg hafi hinn 2. júní 1983 keypt landspilduna Selásblett 4a í Reykjavík og verð reiknað með sama hætti mundi nú vera kr. 26.40 pr. m². Samkvæmt kaupsamningi dags. 10. desember 1985 hafi verð á landi úr jörðinni Úlfarsfelli I, Mosfellssveit, verið kr. 20.00 og kr. 40.00 pr. m² og samkvæmt kaupsamningi dags. sama dag hafi verð á landspildunni Víðimýri í Mosfellsssveit verið kr. 40.00 pr. m². Loks vísar eignarnemi til sölu á landi í suðurhlíðum Keldnaholts og telur grunnverð þar um kr. 60.00 pr. m².

Eignarnemi vísar til yfirmatsgerðar 16. nóvember 1973 um verðmæti landspildu úr fasteigninni Selásbletti 1a í Reykjavík og telur verð samkvæmt þeirri matsgerð hækkað í samræmi við byggingarvísitölu væri nú kr. 85.12 pr. m². Loks bendir eignarnemi á úrskurð Matsnefndar eignarnámsbóta 25. mars 1980 um verðmæti lands á Álftanesi og telur verð samkvæmt því mati hækkað eins og vísitala byggingakostnaðar hefur hækkað, samsvara nú kr. 52.50 pr. m².

Eignarnámsþoli hefur gert þá kröfu, að eignarnema verði gert að greiða honum bætur , sem séu "hæsta fáanlegt verð fyrir lóðir á þessu svæði". Kveðst hann rökstyðja kröfu sína með því, að "í náinni framtíð hefði ég þetta land til ráðstöfunar á fullu verði, ef ég ætti það þá". Þá hefur hann krafist málskostnaðar sér til handa.

IV.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 28. febrúar 1986 eftir munnlegan málflutning. Sátt hafði verið reynd með aðilum, en árangurslaust.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977, en þar segir, að hver landeigandi sé skyldugur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og að álitið verði, að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Svo sem fyrr er rakið telur eignarnemi land það, sem tekið hefur verið af eignarnámsþola, vera 991 m², en ekki 935 m², eins og greint var í matsbeiðninni. Hér er um að ræða leiðréttingu á útreikningi en ekki breytta kröfugerð í raun, og verður ekki fallist á það sjónarmið eignarnámþola, að eignarnemi sé með einhverjum hætti bundinn við lægri töluna. Verður lagt til grundvallar, að landið sé 991 m², enda hafa brigður ekki verið á það bornar.

Landið er ræktað tún og hefur undanfarið verið nýtt sem slíkt. Landsvæðið er skipulagsskylt og hefur aðalskipulag verið staðfest. Gera verður ráð fyrir að nýting landsins í framtíðinni verði sú, að það verði nýtt sem byggingarlóðir, enda ekki önnur nýting þess arðvænlegri. Verður því með vísan til almennra reglna um ákvörðun eignarnámsbóta og með hliðsjón af meginreglum 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 að leggja þessa nýtingu landsins til grundvallar matsbótum, svo sem eignarnámsþoli krefst. Verður þá jafnframt almennt að hafa hliðsjón af ákvæði 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

Matsnefndin hefur eftir föngum kynnt sér verð á lóðum á Álftanesi. Telja verður, að land það, sem hér um ræðir, sé heppilegt byggingarland, þótt eftirspurn eftir lóðum nú sem stendur muni ekki veruleg.

Þegar tekið er tillit til alls þess, sem að framan greinir, er það niðurstaða nefndarinnar, að hæfilegar bætur úr hendi eignarnema til eignarnámsþola nemi kr. 75.000.-.

Rétt þykir skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 7.000.- í málskostnað.

Þá er rétt samkvæmt 11. gr. sömu laga, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 42.000.-.

Úrskurð þennan hafa kveðið upp Jóhannes L.L. Helgason hrl., varaformaður nefndarinnar, og matsmennirnir Báður Daníelsson, verkfræðingur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem varaformaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls samkvæmt 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola, Einari Hafsteini Árnasyni, kr. 75.000.- og kr. 7.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi nefndarinnar kr. 42.000.-.

 Ár 1986, föstudaginn 14. mars, var í Matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Vegagerð ríkisins
                  gegn
               Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested

og kveðinn upp í því svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

I.

Með beiðni dags. 11. júlí 1984 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla laga nr. 6/1977 og laga nr. 11/1973 farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði bætur vegna skerðingar á landi jarðarinnar Vatnsenda í Elliðavatnshverfi, sem yrðu vegna lagningar Arnarnesvegar um landið. Telur eignarnemi þessa skerðingu vera 3.230 m² umfram eldra vegarstæði, sem sé 1.630 m². Eigandi Vatnsenda er Magnús Sigurðsson Hjaltested.

Í beiðninni var þess óskað, að Matsnefndin heimilaði matsbeiðanda að taka umráð landsins, þótt mati væri ekki lokið, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Ekki kom til þess, að nefndin þyrfti að úrskurða um þetta atriði, þar sem samkomulag varð með aðilum um það, að vegarlagningin skyldi fara fram, þótt mati væri ekki lokið. Vegagerðinni er nú lokið. Af hálfu matsbeiðanda hefur Gunnar Gunnarsson, hdl. farið með málið, en af hálfu eignarnámsþola Þórólfur Kristján Beck, hrl.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefndinni 23. ágúst 1984. Í framhaldi af fundi þeim gengu Matsnefndarmenn á vettvang ásamt fulltrúum aðila. Hinn 5. september 1984 var málinu frestað um óákveðinn tíma til gagnaöflunar og greinargerða aðila um verðmæti landsins. Hinn 28. febrúar 1986 fór fram munnlegur málflutningur og að því loknu var málið tekið til úrskurðar, enda höfðu sáttatilraunir ekki borið árangur.

II

Um verðmæti lands þess, sem tekið er eignarnámi, hefur eignarnemi einkum bent á eftirfarandi:

1.   Eignarnemi bendir á, að í 1. mgr. 30. gr skipulagslaga segi, að sé land í einkaeign og eigandi óski að því eða hluta þess verði breytt í byggingarlóðir samkvæmt gildandi skipulagi, skuli sveitarstjórn slíkt heimilt, enda láti landeigandi endurgjaldslaust af hendi við sveitarfélagið til almenningsþarfa, til dæmis gatna, leikvalla o.s.frv., sem svari til 1/3 af heildarflatarmáli þeirra byggingarlóða, sem heimild sveitarstjórnar nær til. Lega Arnarnesvegar sé í samræmi við skipulagsuppdrátt og gera megi ráð fyrir, að land meðfram veginum verði í framtíðinni skipulagt sem byggingarland. Eignarnemi lítur svo á, að tilvitnað lagaákvæði eigi einnig við um vegi, sem séu forsenda þess að byggð geti risið á tilteknu landi, og telur því að landeigendurnir eigi að láta endurgjaldslaust af hendi land undir Arnarnesveg. Beri að hafa þetta í hug við verðmætamat á landinu.

2.   Eignarnemi telur það meginreglu í íslenskum bótarétti, að tjónþoli skuli fá tjón sitt bætt og meira ekki. Gildi hið sama um eignarnámsbætur og vísar eignarnemi sérstaklega til 3. mgr. 61. gr. laga nr. 6/1977 um það, að við mat beri að taka sérstakt tillit til þess, ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð og 29. gr. 4. mgr. skipulagslaga nr. 19/1964 um að við ákvörðun bóta vegna skipulagsaðgerða skuli taka tillit til þeirrar verðhækkunar, sem þær hafa í för með sér á viðkomandi eign og að engar bætur skuli greiða, ef verðhækkun er jafn mikil eða meiri en bótaskylt tjón. Telur eignarnemi vafalaust, að Arnarnesvegur komi til með að hækka verðmæti Vatnsendalands og að vegurinn sé í raun forsenda þess, að skipuleg byggð geti risið á svæðinu. Hljóti slík vegagerð almennt að eiga að njóta þess, að land, sem fer til slíkra nota, sé metið lægra verði eða jafnvel látið af hendi endurgjaldslaust, svo sem línur séu gefnar um í skipulagslögum.

3.   Eignarnemi telur, að vegna þróunar þjóðfélagsins, bæði hér og erlendis, hafi stöðugt meira borið á þeim sjónarmiðum, að þörfin fyrir aukna vernd almennings verði stöðugt brýnni gegn stórkostlegum og óeðlilegum gróða einstaklinga, sem eingöngu verði til sökum óhjákvæmilegs eignarnáms í tengslum við ýmiss konar framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga í þágu alls almennings. Þessarar tilhneigingar verði einnig áþreifanlega vart í lagasetningu og dómaframkvæmd með ýmsu móti. Bendir eignarnemi á lög nr. 65/1976 og norsk lög frá 26/1 1973 um bætur fyrir eignarnámstöku á fasteignum, en þar séu eftirfarandi meginreglur settar fram til viðmiðunar:

a)   Verðlagning miðist við notkun fasteignar, er beiðni um eignarnám kemur fram.

b)   Taka beri tillit til breytinga á notkun eignar, sem eðlilegt sé að reikna með eftir aðstæðum á staðnum, en með hliðsjón af þeirri starfsemi eða þeim tilgangi, sem notkun eignarinnar hefur verið tengd.

c)   Ekki beri að taka tillit til möguleika á verðhækkun eignar í framtíðinni.

d)   Ekki beri heldur að taka tillit til þess, þótt eignarnemi hefði viljað kaupa eignina hærra verði vegna sérstakra þarfa hans, ef eignarnámsheimild hefði ekki verið fyrir hendi.

e)   Ekki beri að meta verðbreytingar, sem leiða af tilgangi eða markmiði eignarnámstökunnar, né heldur af framkvæmdum eða starfsemi, hvorki þegar gerðum eða fyrirhuguðum, sem eru í tengslum við eignarnámstökuna.

f)   Heimilt sé að taka tillit til þess, ef framangreindar reglur leiða til verulega lægra matsverðs á eign en almennt gildi um hliðstæðar eignir í héraðinu og þá miðað við venjulega notkun þeirra og með hliðsjón af reglum a-e hér að framan. Í slíku tilviki beri ekki að taka tillit til verðhækkana, sem stafa af opinberum framkvæmdum eða fyrirhuguðum áformum hins opinbera um notkun lands.

Eignarnemi telur, að við verðmætamat verði að hafa í huga, að ekki liggi fyrir deiliskipulag af þeim hluta Vatnsendalands, sem Arnarnesvegur er nú lagður um. Þó líklegt megi telja, að land þetta verði skipulagt sem byggingarland í framtíðinni, sé með öllu óvíst, hvenær það verði. Meðan svo sé, sé landið arðlaust fyrir landeiganda og hafi hann ekki á undanförnum árum haft af því sýnileg not.

Eignarnemi telur, að sömu grundvallarsjónarmið eigi að liggja að baki fasteignamati og eignarnámsmati og hljóti fasteignamat því að vera til verulegrar viðmiðunar við ákvörðun eignarnámsbóta. Til viðmiðunar bendir hann á, að óskipt Vatnsendaland, 171,9 ha. sé metið á kr. 683.000.- eða tæpar kr. 0.40 hver m². Vatnsendablettur 180, Brú við Skyggni, sé metinn á kr. 9.80 hver m² og land á Vatnsendahæð í eigu Landsíma Íslands sé metið á kr. 5.20 hver m².

Eignarnemi hefur lagt fram gögn um sölur á landi. Hann vísar til afsals dags. 5. apríl 1977 varðandi ræmu af Arnarnesi vestan Hafnarfjarðarvegar telur, að umsmið verð þar miðað við hækkun byggingarvísitölu myndi nú samsvara kr. 66.17 hver m². Jafnframt bendir hann á, að í því tilviki hafi verið skertar skipulagðar byggingarlóðir, sem hafi verið til sölu á frjálsum markaði. Ennfremur, að fulltrúar landeigenda hafi sýnt fram á, að landeigendur höfðu lagt sveitarfélaginu til endurgjaldslaust meira en 40% af Arnarneslandi vestan Hafnarfjarðarvegar. Eignarnemi bendir á, að samkvæmt afsali dags. 22. ágúst 1980 hafi Kópavogskaupstaður keypt Fífuhvammsland við verði sem hækkað til samræmis við hækkun á byggingarvísitölu mundi nú nema kr. 13.96 hver m². Hinn 21. maí 1982 hafi Garðabær keypt spildu úr landi Hraunsholts og mundi verð samkvæmt þeim samningi reiknað með sama hætti nema kr. 32.92 hver m² nú. Hinn 10. febrúar 1983 hafi Reykjavíkurborg keypt landspilduna Grafarholtsblett 9 í Reykjavík og verð samkvæmt þeim samningi væri nú kr. 45.00 hver m² hækkað í samræmi við hækkun byggingarvísitölu. Loks að Reykjavíkurborg hafi hinn 2. júní 1983 keypt landspilduna Selásblett 4a í Reykjavík og verð reiknað með sama hætti mundi nú vera kr. 17.74 hver m².

Eignarnemi vísar til yfirmatsgerðar 16. nóvember 1973 um verðmæti landspildu úr fasteigninni Selásblett 1a í Reykjavík og telur verð samkvæmt þeirri matsgerð hækkað í samræmi við byggingarvísitölu væri nú kr. 57.27 hver m². Loks bendir eignarnemi á úrskurð Matsnefndar eignarnámsbóta 25. mars 1980 um verðmæti á Álftanesi og telur verð samkvæmt því mati hækkað eins og vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað samsvara nú kr. 35.28 hver m².

Allar framangreindar verðtölur eignarnema eru miðaðar við verð í nóvember 1984, er umboðsmaður hans ritaði greinargerð sína.

Af hálfu eignarnámsþola eru gerðar eftirtaldar kröfur:

1.   Að hver fermeter í landi því, sem tekið er eignarnámi verði metinn á kr. 600.- og fylgi sú fjárhæð lánskjaravísitölu frá desember 1985 til matsdags.

2.   Að eignarnámið verði ekki aðeins látið ná til þeirra 3.230 m², sem eignarnemi krefst, heldur taki það til landspildu, sem umboðsmaður eignarnámsþola hefur afmarkað á uppdrætti og er alls ca. 1.5 ha. að stærð.

3.   Jafnframt er þess krafist að eignarnámið verði einnig látið ná til landspildu þeirrar úr Vatnsendalandi, sem liggur norðan vegarstæðis þess, sem land er tekið undir og austan Elliðaáa, en landspilda þessi er ca. 15,2 ha. að stærð samkvæmt uppdrætti sem gerður var af Vegagerð ríkisins. Til vara var gerð krafa um, að verðrýrnun á spildu þessari verði metin eignarnámsmati. Við munnlegan flutning málsins var fallið frá fyrri lið þessa kröfuliðs, en jafnframt ítrekuð krafa um, að matið tæki til verðrýrnunar á landspildu þessari.

Eignarnámsþoli telur, að samkvæmt 67. grein stjórnarskrárinnar eigi eignarnámsþoli rétt á fullu verði fyrir land sitt, þ.e. gangvirði eða raunverði þess á frjálsum markaði. Er það meginkrafa, að greiða beri bætur fyrr land þetta miðað við að það sé verðlagt sem byggingarland og nýtingarhlutfall þess svipað og þar sem best gerist í Breiðholti. Sérstaklega er lögð áhersla á það, að skipulag á landsvæði geti ekki orðið allsráðandi um, hvernig ákveða skuli bætur fyrir tiltekna bletti, t.d. að bæta skuli lægri fjárhæðum land undir vegi og græn svæði en t.d. land sem skipulagt er undir byggingarland. Hin rétta viðmiðun sé meðalgangverð á byggingarlandi á því svæði, sem um sé að tefla, þ.e. Reykjavíkursvæðinu, að teknu tilliti til þess, hvað af landinu telst byggingarhæft og að teknu tilliti til einstakra gæða, sem í landinu liggja t.d. ef um sjávarlóðir er að ræða eða eins og í þessu tilfelli fagurt og einstakt land á bökkum Elliðaánna, en landinu fylgi veiðiréttur eða innlausnarrétttur á veiðirétti í Elliðaám. Eignarnámsþoli bendi á eftirtalin atriði, sem hann telur að áhrif eigi að hafa á matið:

a)   Meta verði landið miðað við að hann gæti reist þarna hótel fyrir erlenda laxveiðimenn.

b)   Að um sé að ræða afhendingu ævarandi gæða, sem opinberir aðilar geti haft tekjur af um alla framtíð.

c)   Reykjavíkurborg geti hvenær sem hún vill breytt skipulagi á svæðinu.

d)   Land undir vegarstæði á einum stað skapi í sama mæli aukna möguleika fyrir borgina að nýta annað land borgarinnar undir byggingar.

e)   Land þetta sé þegar í háu verði sem byggingarland vegna staðsetningar sinnar í næsta nágrenni Breiðholts og Seláss. Breyti vegalagning sú, sem hér um ræðir engu þar um.

f)   Sá vegarspotti, sem nú sé lagður, komi Vatnsendalandi eigi í umferðarsamband við eitt né annað.

g)   Engin flóðahætta sé á þeirri landspildu sem hér um ræðir.

Af hálfu eignarnámsþola hefur verið lagður fram kaupsamningur um land í Kópavogi úr landi Fífuhvamms. Telur hann sölu þá samsvara kr. 538.- hver m² og telur, að land það sé síst verðmeira en land það sem hér sé um fjallað. Þá telur hann mat dómkvaddra matsmanna á bótum vegna lagningar vatnsæðar á vegum Reykjavíkurborgar og Vatnsveitu Reykjavíkur um land Vatnsenda leiða til svipaðrar niðurstöðu.

Eignarnámsþoli rökstyður annan kröfulið sinn með þeim hætti, að á vegarspotta þeim sem málið varðar, séu tvenn gatnamót. Landspildur þær, sem falli inn í horn þau, sem vegamótin mynda, verði með öllu ónýtanleg og eðlilegt sé að hornspildur tilheyri vegarstæðinu sem slíku. Með vísan til þessa sé gerð krafa um að eignarnámið verði einnig látið ná til svæðis þess, sem afmarkað hefur verið sérstaklega á uppdrætti og er samtals ca. 1 hektari að stærð umfram það, sem undir veginn fer.

Þriðja kröfulið sinn rökstyður eignarnámsþoli með því, að með lagningu vegar verði aðgangur mjög heftur að landspildu þeirri, 15,2 ha. að stærð, sem liggur norðan og austan vegarspottans. Verði landspilda þessi illnýtanleg. Fara verði yfir eina mestu umferðaræð landsins, þar sem ökuhraði verði mikill. Við það bætist, að ekki sé vitað, hvenær brú verði byggð yfir Elliðaárnar. Ekki liggi neitt fyrir að göng verði gerð undir veginn, enda muni slíkt vera þar mjög dýr framkvæmd.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og skoðað land það, sem hér um ræðir. Landið er grýtt og óræktað. Vegarspotti sá sem um er að ræða, er lagður ofan á eldra vegarstæði, en tekur meira rúm en hann gerði. Land á þessum stað er í verulegri flóðahættu og nú síðast í febrúar s.l. urðu þarna flóð, svo að ekki stóð annað upp úr en vegurinn, sem er hærri en landið umhverfis. Það er ekki sýnilegt að land þarna verði nýtt sem byggingarland í náinni framtíð og ekki meðan ekki hafa verið gerðar ráðstafanir til að bægja frá flóðahættu, en þær yrðu mjög kostnaðarsamar. Verður að telja allt óljóst um framtíðarnot þessa lands, þótt líklegast sé, að það yrði nýtt til útivistar að einhverju tagi.

Um stærð þess lands, sem eignarnámið nær til, er það að segja, að af hálfu eignarnema er krafist 3230 m² svo sem fyrr er greint. Krafa eignarnámsþola um það, að eignarnámið nái til stærra landsvæðis vegna þess, að land nýtist ekki í næsta nágrenni vegarins vegna horna, sem á honum eru er það að segja, að ekki verður séð, að skylda verði lögð á eignarnema um að taka viðbótarland. Vegamót þau, sem mál þessa snýst um, koma í stað vegamóta, sem þarna voru fyrir og liggja inn á landi eignarnámsþola með þeim hætti, að ekki verður sagt, að skildir séu eftir lítt nothæfir skikar.

Af hálfu eignarnámsþola þykja ekki hafa verið leidd rök að því, að verðrýrnun verði á þeirri spildu, 15,2 ha., sem liggur norðan vegarstæðisins og eru því ekki efni til að taka kröfu hans að því leyti til greina.

Samkvæmt framansögðu er það skoðun Matsnefndarinnar, að matið hljóti að taka einvörðungu til þeirra 3230 m², sem krafist er af eignarnema.

Þegar tekið er tillit til alls þess, sem að framan greinir, er það niðurstaða nefndarinnar, að hæfilegar bætur úr hendi eignarnema til eignarnámsþola nemi kr 165.000.-.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 þykir rétt, að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 35.000.- í málskostnað.

Þá er rétt samkvæmt 11. gr. sömu laga, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 42.000.-.

Úrskurð þennan hafa kveðið upp Jóhannes L.L. Helgason hrl., varaformaður nefndarinnar, og matsmennirnir Báður Daníelsson, verkfræðingur, og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem varaformaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls samkvæmt 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, kr. 165.000.- og kr. 35.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi nefndarinnar kr. 42.000.-.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum