Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20heilbrig%C3%B0isr%C3%A1%C3%B0uneytis

Úrskurður nr. 9/2023

Úrskurður nr. 9/2023

 

Föstudaginn 21. apríl 2023 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 3. mars 2023, kærði […] (hér eftir kærandi), kt. […], meint brot embættis landlæknis á stjórnsýslulögum við málsmeðferð og meintrar ákvörðunar um að hunsa úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1088/2022.

 

Kærandi krefst þess að embætti landlæknis afhendi honum öll umbeðin gögn í samræmi við umræddan úrskurð. Krefst kærandi þess einnig að landlæknir verði ávíttur eða a.m.k. áminntur fyrir að hunsa og vanvirða stjórnsýsluúrskurð. Þá fer kærandi fram á að ráðherra taki sjálfur umrædd gögn til skoðunar þar sem ætla megi að þau stangist verulega á við það sem sóttvarnayfirvöld hafi fullyrt um meinta nauðsyn og gagnsemi bólusetninga við COVID-19.

 

Hvað kæruheimild varðar vísar kærandi til stjórnsýslulaga.

 

I. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi, þann 2. desember 2021, óskað eftir tilteknum upplýsingum frá embætti landlæknis um veikindi vegna COVID-19, einkum m.t.t. bólusetningarniðurstöðu. Embætti landlæknis hafi synjað beiðninni en kærandi skotið synjuninni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Með fyrrgreindum úrskurði nefndarinnar hafi ákvörðun embættis landlæknis verið felld úr gildi. Eftir úrskurðinn hafi kærandi gert ítrekaðar tilraunir til að fá gögnin afhent. Þann 6. desember 2022 hafi embætti landlæknis svarað kæranda með sömu skýringum og fram hafi komið í upphaflegu svari embættisins. Kærandi byggir á því að í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál beri embætti landlæknis að afhenda þau gögn sem hann óskaði eftir. Embættið hafi ítrekað tafið málið og borið fyrir sig ótrúverðugar afsakanir til að koma sér hjá því að veita umbeðin gögn. Lokasvar embættisins hafi verið rýrt og afstaða embættisins skýr um að það vilji ekki að þessi gögn verði gerð opinber. Með háttseminni hafi embætti landlæknis hunsað og vanvirt stjórnsýsluúrskurð, sem ráðherra verði að bregðast við. Að mati kæranda sé jafnframt tilefni til að ráðherra kynni sér gögnin þar sem þau stangist verulega á við það sem landlæknir og sóttvarnayfirvöld hafi hingað til haldið fram um meintan árangur og nauðsyn bólusetninga við COVID-19.

 

II. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kæru á málsmeðferð og „ákvörðun“ embættis landlæknis vegna beiðni um upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Hefur ráðuneytið til skoðunar hvort taka beri kæruna til meðferðar. Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1088/2022 er rakið að kærandi hafi óskað eftir ýmsum upplýsingum frá embætti landlæknis um spítalainnlagnir og fjölda legudaga vegna inflúensu, COVID-19 og aukaverkana bólusetninga á tilteknu tímabili. Var beiðnin tilgreind í sex liðum. Embætti landlæknis synjaði beiðninni þann 9. desember 2021 á þeim grundvelli að embættinu væri ekki skylt að útbúa ný gögn til að verða við upplýsingabeiðni, auk þess sem meðferð beiðninnar tæki svo mikinn tíma og krefðist svo mikillar vinnu að ekki væri fært að verða við henni. Eins og áður greinir var ákvörðunin felld úr gildi, en með úrskurðinum var lagt fyrir embætti landlæknis að taka beiðnina til nýrrar og lögmætrar meðferðar. Var það mat úrskurðarnefndarinnar að beiðni kæranda hefði ekki hlotið þá málsmeðferð sem upplýsingalög geri kröfu um.

 

Í málinu liggja fyrir samskipti kæranda við embætti landlæknis í kjölfar úrskurðarins. Eftir að hafa gert reka að því að fá gögnin afhent barst kæranda svar frá embætti landlæknis þann 6. desember sl. þar sem greint var frá því að erindið hefði verið tekið til meðferðar hjá embættinu. Ljóst væri að mörgum atriðum yrði ekki svarað nema með leyfisskyldri samkeyrslu gagnagrunna sem hefðu að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Lyfjastofnun kynni einnig að hafa undir höndum gögn um aukaverkanir í tengslum við COVID-19 og inflúensu. Því gæti verið skynsamlegt fyrir kæranda að leita þangað.

 

Kærandi hefur kært málsmeðferð embættis landlæknis í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsinga mál og síðastnefnt svar embættis landlæknis til ráðuneytisins. Ráða má af kæru að hún sé byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ráðuneytið telur ljóst að samskipti kæranda við embætti landlæknis, sem hann hefur lagt fram, og svar embættisins þann 6. desember 2022, lúti eingöngu að áframhaldandi beiðni kæranda um upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga. Sé þannig um að ræða nýja málsmeðferð í máli sem tekið var fyrir hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál í úrskurði nr. 1088/2022. Ákvarðanir stjórnvalda um að synja beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum eru bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Sé kærandi ósáttur við lyktir málsins hjá embætti landlæknis er honum bent á að bera málið aftur undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Samkvæmt framangreindu liggur ekki fyrir stjórnvaldsákvörðun sem unnt er að kæra til ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga eða annarra laga á málefnasviði ráðuneytisins. Verður kærunni því vísað frá ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru kæranda, dags. 3. mars 2023, er vísað frá ráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum