Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 236/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 19. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 236/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23030060 og KNU23030061

 

Kæra [...] og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 15. mars 2023 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir M) og [...], fd. [...], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir K), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 14. mars 2023, um að synja þeim um framlengingu á vegabréfsáritunum til Íslands.

Af kæru verður ráðið að kærendur krefjist þess að fallist verði á beiðni þeirra um framlengingu á vegabréfsáritun til Íslands.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 með síðari breytingum, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins var kærendum veitt vegabréfsáritun til Íslands í 35 daga á tímabilinu 7. janúar 2023 til 25. febrúar 2023. Kærendur komu inn á Schengen-svæðið 8. janúar 2023. Hinn 20. janúar 2023 lögðu kærendur fram umsóknir um framlengingu á vegabréfsáritunum sínum hjá Útlendingastofnun. Á meðan þau hafi dvalið hér á landi hafi veðrið verið slæmt og þau hafi því ekki náð að skoða þá staði á landinu sem fyrirhugað hafi verið að skoða. Þau hafi viljað dvelja lengur hér á landi í þeim tilgangi að ferðast um landið og skoða áhugaverða staði. Um leið og því væri lokið myndu þau snúa aftur heim. Hinn 30. janúar 2023 synjaði Útlendingastofnun beiðni K um framlengingu á vegabréfsáritun til Íslands og 3. febrúar synjaði stofnunin beiðni M sama efnis. Með beiðni, dags. 7. febrúar 2023, kærðu kærendur framangreindar ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar og byggðu þá beiðni sína á heilsufarsgögnum. Hinn 28. febrúar 2023 felldi kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi og lagði fyrir stofnunina að taka mál kærenda til meðferðar á ný þar sem fyrir lægju gögn sem ekki höfðu legið fyrir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun.

Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 14. mars 2023, synjaði stofnunin að nýju beiðnum kærenda um framlengingu vegabréfsáritana til Íslands. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur hafi ekki fært sönnur á að til staðar væru óviðráðanlegar aðstæður eða mannúðarástæður sem kæmu í veg fyrir að þau gætu yfirgefið landið og Schengen-svæðið áður en gildistími vegabréfsáritana þeirra rynni út, sbr. 1. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Þá taldi Útlendingastofnun að aðstæður kærenda næðu ekki þeim alvarleikaþröskuldi að teljast mannúðarástæður.

Hinn 15. mars 2023 kærðu kærendur ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar. Hinn 16. mars 2023 bárust kærunefnd frekari gögn frá kærendum.      

III.    Málsástæður og rök kæranda

Í rökstuðningi sem fylgdi kæru kærenda kemur fram að þau hafi áhyggjur af stöðu mála og hvernig þau eigi að komast aftur til heimaríkis þegar vegabréfsáritanir þeirra séu runnar út. Þau vilji fara heim og hafi enga ástæðu til að dvelja lengur hér á landi. M þurfi að fara í frekari heilsufarsrannsóknir en muni halda þeim rannsóknum áfram í heimaríki. Hann hafi farið í rannsóknir 7. mars 2023 en niðurstöður liggi enn ekki fyrir. Þau hafi bókað flug til heimaríkis 5. apríl 2023 því það hafi verið eina mögulega flugið.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 ásamt reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Filippseyja þurfa vegabréfsáritun til Íslands. Samkvæmt gögnum málsins fengu kærendur útgefna vegabréfsáritun hingað til lands í 35 daga á tímabilinu 7. janúar 2023 til 25. febrúar 2023. Með beiðni, dags. 20. janúar 2023, óskuðu kærendur eftir framlengingu á vegabréfsáritunum sínum.

Í 1. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir segir að heimilt sé að framlengja gildistíma útgefinnar vegabréfsáritunar og/eða lengd dvalartíma sem hún heimilar hafi handhafi hennar fært sönnur á óviðráðanlegar aðstæður eða mannúðarástæður sem komi í veg fyrir að hann geti farið af yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en gildistími vegabréfsáritunarinnar eða dvalartíminn sem hún heimili rennur út. Í 2. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir segir svo að heimilt sé að framlengja gildistíma útgefinnar vegabréfsáritunar og/eða lengd dvalartíma sem hún heimilar hafi handhafi hennar fært sönnur á mikilvægar persónulegar aðstæður sem réttlæta framlengingu á gildistíma eða dvalartíma.

Með reglugerð um vegabréfsáritanir voru ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 810/2009 innleidd, sbr. 1. mgr. 43. gr. reglugerðarinnar. Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 810/2009 var gefin út handbók (e. Visa Code Handbook) þar sem fram koma nánari útskýringar á framkvæmd og beitingu reglugerðarinnar. Í handbókinni kemur m.a. fram að um mannúðarástæður, sbr. 1. mgr. 34. gr. reglugerðarinnar, geti verið að ræða t.d. þegar viðkomandi verður fyrir skyndilegum og alvarlegum veikindum sem valdi því að hann sé ófær um að ferðast. 

Í málinu liggja fyrir heilsufarsgögn frá kærendum. Þar kemur fram að kærendur hafi bæði farið í heilsufarsskoðun 16. janúar 2023 vegna háþrýstings. Blóðþrýstingur K sé orðinn eðlilegur en M sé í frekari rannsóknum hér á landi. Fyrir liggur læknisvottorð frá heilsugæslunni Urðarhvarfi, dags. 3. febrúar 2023, þar sem fram kemur að M sé í virkri meðferð á heilsugæslu vegna veikinda og þarfnist viðeigandi eftirfylgni og K þarfnist viðeigandi eftirfylgni á heilsugæslu vegna veikinda. Þá liggja fyrir móttökukvittanir frá læknavaktinni Háaleitisbraut, dags. 16. janúar 2023 og 26. janúar 2023 og beiðni um rannsókn hjá Sameind rannsóknarstofu fyrir M, dags. 3. febrúar 2023. Með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 1. mars 2023, var kærendum veitt tækifæri til að leggja fram frekari gögn sem tilgreindu við hvaða veikindi kærendur glíma og hvort þau séu ófær um að ferðast af heilsufarsástæðum. Kærendur lögðu fram læknisvottorð frá heilsugæslunni Urðarhvarfi, dags. 3. mars 2023, þar sem fram kemur að M sé í virkri meðferð á heilsugæslu vegna veikindi og þarfnist viðeigandi eftirfylgni. Ýmsar rannsóknir og uppvinnsla í máli hans sé í virkri vinnslu og sé ekki lokið, m.a. á heilsugæslu og Landspítala á næstu mánuðum. Með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 6. mars 2023, voru fyrri leiðbeiningar stofnunarinnar til kærenda ítrekaðar. Kærendur lögðu þá fram læknisvottorð frá heilsugæslunni Urðarhvarfi, dags. 7. mars 2023, þar sem fram kemur að M sé í virkri meðferð vegna veikinda og þarfnist viðeigandi eftirfylgni. Viðkomandi sé greindur með háþrýsting, skert sykurþol, stækkun hvekks/blöðruhálskirtils og kvíða. Uppvinnsla á sjúkdómunum sé í gangi og M sé í eftirliti á heilsugæslu og Landspítala. Áætla megi að M þurfi að bíða í nokkra mánuði eftir að komast til viðeigandi sérfræðinga og í þær rannsóknir sem því fylgi. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 15. mars 2023, var kærendum veittur frestur til að koma að frekari gögnum í málinu. Engin frekari heilsufarsgögn bárust.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda kemur fram að stofnunin hafi ítrekað óskað eftir því við kærendur að þau legðu fram læknisvottorð sem staðfesti að þau gætu ekki ferðast frá Íslandi vegna heilsufars síns. Í framlögðum heilsufarsgögnum sé ekkert kveðið á um að kærendur séu ófær um að ferðast af heilsufarsástæðum. Kærendur hafi því ekki fært sönnur á að til staðar væru óviðráðanlegar aðstæður eða mannúðarástæður sem kæmu í veg fyrir að þau gætu yfirgefið landið og Schengen-svæðið áður en gildistími vegabréfsáritana þeirra rynni út, sbr. 1. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Að mati kærunefndar eru framlögð gögn og þær málsástæður sem kærendur byggja á ekki þess eðlis að ástæða sé til að hnekkja mati Útlendingastofnunar á umsóknum þeirra um framlengingu á vegabréfsáritunum til landsins. Kærunefnd tekur undir það með Útlendingastofnun að framlögð heilsufarsgögn bendi ekki til þess að kærendur séu ófær um að ferðast til heimaríkis.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærendur hafi ekki fært sönnur á að til staðar séu óviðráðanlegar aðstæður eða mannúðarástæður sem komi í veg fyrir að þau geti yfirgefið landið og Schengen-svæðið, sbr. 1. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Verða hinar kærðu ákvarðanir um að synja kærendum um framlengingu á vegabréfsáritunum til landsins því staðfestar.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Þorsteinn Gunnarsson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum