Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 665/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 665/2021

Mánudaginn 11. apríl 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 10. desember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar B, dags. 3. nóvember 2021, um að hafa ekki frekari afskipti af og loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, D

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn, D er X ára gamall en hann er sonur kæranda og E. Foreldrar drengsins fara með sameiginlega forsjá.

Í greinargerð um könnun málsins, dags. 3. nóvember 2021, kemur fram að foreldrar hafi mætt á fund vegna tilkynningar, dags. 14. maí 2021. Farið hafi verið yfir efni tilkynninga sem borist hafi vegna meints ofbeldis föður. Foreldrar eru í forsjárdeilu fyrir dómstólum. Fram kemur að sálfræðingur hafi rætt við drenginn í leikskóla hans og var ekki talin ástæða til frekari afskipta barnaverndar af málinu og lagt til að því yrði lokað. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 3. nóvember 2021, var málinu lokað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 10. desember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarnefndarinnar barst úrskurðarnefndinni með bréfi þann 7. janúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. janúar 2022, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust þann 24. janúar 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. janúar 2022, voru athugasemdir kæranda sendar barnaverndarnefndinni til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála ógildi ákvörðun Barnaverndarnefndar B. Kærandi telur í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um ofbeldi af hálfu föður og skýrslu dómkvadds matsmanns, sem aflað hafi verið í forsjármáli hennar gegn fyrrverandi eiginmanni sínum og barnsföður, að barnaverndarnefnd hafi ekki verið rétt að loka málinu. Kærandi krefst þess að ákvörðun barnaverndarnefndar verði af þessum sökum felld úr gildi.

Kærandi byggir meðal annars á því að áður hafi verið ljóst við meðferð barnaverndarnefndar á málefnum sona hennar að líklegt væri að faðir hafi beitt annan drenginn, D, ofbeldi. Drengurinn hafi ítrekað sagt frá því að faðir hans væri að meiða sig og hafi frásögn hans verið stöðug. Komu þessar upplýsingar einnig fram í viðtali barnaverndar við drenginn á sínum tíma líkt og rakið verður.

Einnig sé byggt á því að það sé ályktun dómkvadds matsmanns í matsgerð, sem aflað hafi verið fyrir Héraðsdómi F, að gögn og upplýsingar bendi til þess að frásagnir drengjanna um að verið væri að meiða þá af hálfu föður séu sannar. Þess ber að geta að fleiri en ein tilkynning hafi borist til barnaverndarnefndar á árinu 2021 vegna frásagna drengjanna af ofbeldi af hálfu föður, til að mynda af hálfu leikskóla barnsins.

Faðir barnanna sé I og uppalinn í annarri menningu og sýn hans á barnauppeldi sé mjög frábrugðin því sem tíðkast hérlendis, til dæmis varðandi það hvað má og hvað ekki. Hann hafi alist upp við að líkamlegt ofbeldi væri hluti af hefðbundnu uppeldi. Systkinabörn hans séu enn tuskuð til. Þurfti kærandi að taka það sérstaklega fram við föðurfjölskylduna að slíkt væri alls ekki í boði gagnvart þeirra börnum.

Drengirnir hafi minnst á það eftir að hafa verið hjá föður sínum að hann hóti þeim að læsa þá inni á klósetti ef þeir haga sér illa. Þeir nota um það I setningu […]. Þeir hefðu hvergi getað lært þessa setningu nema hjá föður sínum, enda ekki í samskiptum við neinn annan […]mælandi. Eldri drengurinn, G, hafi haft orð á því að pabbi væri góður við sig en væri vondur við D. Sá yngri, D, tali um að pabbi meiði sig oft. Þegar hann sé beðinn um að útskýra kveðst hann vera klipinn en hann hafi einnig nefnt að hann hafi verið sleginn. Þá sé saga um að faðir þeirra hafi slegið og rifið í hár G þegar hann var yngri, til dæmis varð slíkt atvik í fjölskylduboði í viðurvist fjölda vitna.

Þegar drengirnir koma heim eftir pabbahelgar geta dagarnir verið mjög erfiðir. Yngri drengurinn, D, sé þá mjög reiður við móður sína, taki skapofsaköst og meiði bæði hana og bróður sinn. Hann biður ítrekað um að þurfa ekki að fara aftur til föður síns og biður um að geta alltaf átt heima hjá móður sinni. Hann vilji ekki heldur eiga í samskiptum við föður sinn símleiðis. Hann kveður föður sinn oft meiða sig og að hann sé oft klipinn af föður sínum. D hafi greint frá þessu í leikskólanum og hafi barnaverndarnefnd verið gert viðvart en málið hins vegar fellt niður hjá nefndinni án skýringa. Eldri drengurinn, G, hafi einnig orð á því að faðir meiði D, en ekki sig.

Sú ákvörðun Barnaverndarnefndar B um að loka málinu sé stjórnvaldsákvörðun og bar nefndinni því að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við meðferð málsins. Kærandi vísi sérstaklega til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga en hún telji það fara gegn reglunni að málið hafi ekki verið rannsakað tilhlýðilega og aðstæður ekki kannaðar til hlítar áður en ákveðið var að loka málinu, án þess að aðhafast frekar. Þá átelur kærandi að þrátt fyrir að fram hafi komið í tilkynningu af hálfu leikskóla að drengurinn hafi tjáð starfsmönnum að faðir hans hafi slegið hann í andlitið hafi ekki verið rætt með fullnægjandi hætti við drenginn af hálfu barnaverndarnefndar. Vakin sé athygli á því að í viðtali fulltrúa barnaverndar við G þann 29. júní 2021 kom fram að D liði ekki vel hjá föður sínum og hann langaði ekki til að fara þangað. Faðir hans væri vondur við hann og klipi hann. Ekki hafi verið fengnar nánari skýringar á þessu. Þá hafi komið fram í viðtali við D að það væri ekki gaman hjá föður hans þar sem hann væri að meiða, klipi hann í hendina. Hann útskýrði að faðir hans klipi hann fast í hendina og aðspurður sagði hann föður sinn alltaf vera vondan. Ekki hafi verið fengnar nánari skýringar á þessu af hálfu starfsmanns barnaverndar. Þá séu jafnframt rangfærslur í samantekt um viðtal við móður, enda sé þar ekki rétt eftir henni haft um að hún telji að faðirinn sé ekki að beita drenginn ofbeldi heldur einungis að aga hann.

Af framangreindu verði að telja ljóst að Barnaverndarnefnd B hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt stjórnsýslulögum til að rannsaka málið og ásakanir um ofbeldi í garð barnanna sjálfstætt og með ítarlegum hætti áður en ákvörðun var tekin. Verður að sama skapi ekki talið að hagsmunir barnanna hafi verið hafðir í fyrirrúmi við töku umræddrar ákvörðunar í samræmi við markmið barnalaga og barnaverndarlaga.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um miðjan maí 2020 hafi barnaverndarnefnd borist tilkynning frá leikskóla yngri bróðurins um að hann hafi sagt að pabbi hans væri vondur og slægi hann. Voru þá foreldrar skilin að skiptum en fóru bæði með forsjá. Tekin hafi verið ákvörðun um könnun málsins sem fór þannig fram að rætt var við drenginn og foreldra hans hvort í sínu lagi og að lokum hafi verið óskað eftir umsögn frá leikskóla. Drengurinn sagði að það væri gaman hjá báðum foreldrum sínum, sagði aðspurður að enginn væri vondur við sig og að honum fyndist gaman þegar pabbi hans sækti hann í leikskólann og færi með honum út að leika ásamt eldri bróður sínum. Í viðtali við móður kom fram að drengurinn hefði sagt henni að faðir hans slægi hann. Hún teldi þó að hann væri ekki að beita hann ofbeldi heldur að aga hann. Faðir væri alinn upp við harðræði og hefði oft sýnt ofbeldishegðun gagnvart henni en ekki drengjunum. Faðir þverneitaði í viðtali við barnaverndarstarfsmenn að hann slægi drenginn, kvaðst vita að það væri bannað á Íslandi þó að hann hefði verið alinn upp við það í I. Í umsögn leikskóla kom fram að drengurinn ætti til að bíta, klóra eða slá til annarra barna og væri almennt mjög krefjandi og hafði það einnig komið fram í máli foreldranna beggja. Að mati barnaverndarstarfsmanna hafði ekkert komið fram við könnun málsins sem benti til þess að drengurinn væri beittur ofbeldi og var málinu því lokað.

Tilkynningar hafi borist vorið 2021 frá leikskóla og móðurömmu og móðurafa drengjanna. Höfðu tilkynnendur áhyggjur af því að faðir drengjanna beitti þann yngri harðræði og líkamlegu ofbeldi. Var þar meðal annars lýst deilum foreldra vegna áhuga drengsins á að klæða sig í bleik föt og vera með sítt hár. Faðir hefði illa þolað þennan áhuga drengsins, látið hendur standa fram úr ermum þegar hann var með drenginn í umgengni, og látið klippa hann án samráðs við móður og losað sig við fötin. Ágreiningur hafi verið á milli foreldra um þessa hluti og gengu á milli þeirra ásakanir þar sem faðir sakaði móður um að hún og amma drengjanna væru að hvetja börnin til að hata hann. Á þessum tíma voru málefni fjölskyldunnar, þ.e. móður og barna, til meðferðar í H, sem sé samvinnuverkefni fagfólks […] í B, og vinnur fagfólk skóla og félagsþjónustu saman að stuðningi og þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Máli fjölskyldunnar hafi verið vísað þangað vegna erfiðleika drengsins, en hann eigi í erfiðum samskiptum við fólk, bæði jafnaldra sína og sér eldra fólk og hafi verið gripið til ýmissa ráðstafana til að aðstoða hann og fjölskyldu hans við að ná tökum á vandanum. Meðal annars hafi verið sótt um PMT foreldrafærninámskeið og óskað eftir þjónustu ýmissa sérfræðinga, svo sem sálfræðings og taugalæknis, auk þess sem móður var boðin tilsjón á heimilið.

Málið hafi verið rækilega kannað af starfsmönnum barnaverndarnefndar. Rætt hafi verið við báða foreldra, upplýsinga leitað hjá skóla, auk þess sem rætt hafi verið við drengina. Þegar málið hafi verið til meðferðar hið fyrra sinnið ræddu starfsmenn við yngri drenginn og í síðara skiptið fór sálfræðingur barnaverndar í leikskólann til að tala við báða bræðurna. Sá yngri sagði að faðir hans klipi hann stundum fast í hendina og að eldri bróðir hans meiddi hann stundum þegar þeir væru úti að leika.

Meginskilyrði barnaverndarlaga nr. 80/2002 fyrir afskiptum barnaverndarnefndar er að líkamlegri og andlegri heilsu barns og þroska sé hætta búin. Eftir könnun málsins hafi það verið niðurstaða starfsmanna nefndarinnar að þær aðstæður væru ekki fyrir hendi í þessu tilviki og aðbúnaður bræðranna ekki með þeim hætti að hann kallaði á inngrip barnaverndar, þótt ljóst væri að drengirnir byggju ekki við allra ákjósanlegustu aðstæður. Þeir færu til að mynda ekki varhluta af ósætti foreldra sinna og deilum og augljóst að yngri drengurinn ætti við alvarlega hegðunarerfiðleika að stríða. Fjölskyldan, þ.e. móðir og börn, nytu stuðnings fagfólks skóla og félagsþjónustu og að mati barnaverndarnefndar hefði nefndin ekki yfir að ráða úrræðum sem betur gætu gagnast fjölskyldunni á þessi stigi og hafi málinu því verið lokað. Harðvítugar deilur foreldra drengjanna um forsjá þeirra séu til meðferðar fyrir dómstólum. Þau bera sakir hvort á annað, móðir sakar föður um ofbeldi gagnvart yngri drengnum og faðir sakar móður um vanrækslu. Í kæru sé vitnað til skýrslu dómkvadds matsmanns í forsjármáli foreldra. Áréttað skal að barnaverndarnefnd hefur ekki aðgang að gögnum eða upplýsingum sem lögð eru fram hjá dómstólum í forsjármálum og það sé ekki hlutverk barnaverndar að blanda sér í málarekstur af því tagi.

Í lok nóvember 2021 barst tilkynning varðandi yngri drenginn frá leikskóla hans. Þar hafi komið fram að leikskólastarfsmenn hefðu miklar áhyggjur af hegðun hans, hann meiði önnur börn ítrekað og stundum sé starfsfólk með áverka eftir að hann klípur það eða bítur. Ýmis konar hegðunarerfiðleikar aðrir séu nefndir, meðal annars af kynferðislegum toga. Mál hans hafi nú verið tekið til könnunar á ný hjá barnaverndarnefnd og verður kappkostað að finna orsök vanda barnsins, meðal annars sé beðið eftir að hann komist í greiningu þar sem margt í hegðun hans bendir til að um sé að ræða ADHD. Rætt verði við báða foreldra, leikskólastarfsmenn og drenginn sjálfan og ákvörðun tekin um framhald málsins að því loknu.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn, D, er rúmlega X ára gamall sonur kæranda. Foreldrar drengsins fara með sameiginlega forsjá. Mál drengsins hefur verið til meðferðar Barnaverndarnefndar B frá því um miðjan maí 2020 þegar tilkynning barst frá leikskóla um meint ofbeldi föður gagnvart drengnum. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar B, dags. 3. nóvember 2021, var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls sem hófst vegna nafnlausrar tilkynningar sem barst barnaverndarnefndinni 14. júní 2021.

Kærandi telur í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um ofbeldi af hálfu föður og skýrslu dómkvadds matsmanns, sem aflað hafi verið í forsjármáli, að ekki hafi verið rétt að loka málinu. Kærandi telur líklegt að faðir hafi beitt drenginn ofbeldi, enda hafi drengurinn ítrekað sagt frá því að faðir hans væri að meiða sig. Þá telur kærandi að Barnaverndarnefnd B hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti og að aðstæður hafi ekki verið kannaðar til hlítar áður en ákveðið var að loka málinu.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnaverndarnefnd B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum drengsins og því hafi borið að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.

Samkvæmt gögnum málsins er ágreiningur á milli foreldra drengsins um forsjá drengsins til meðferðar dómstóla. Ákvörðun Barnaverndarnefndar B um að loka málinu virðist meðal annars byggja á því að kærandi og börn hennar hafi fengið stuðning fagfólks en að mati barnaverndarnefndarinnar hefði hún ekki yfir að ráða úrræðum sem betur gætu gagnast fjölskyldunni á þessu stigi og hefði málinu því verið lokað. Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að mál drengsins hafi verið tekið til könnunar að nýju hjá barnaverndarnefndinni en ekki liggi fyrir ákvörðun um framhald málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga skal í kjölfar könnunar máls meta þörf barns fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggja fyrir gögn sem benda til þess að þörf sé á áætlun um meðferð máls, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga, og eftir atvikum beiting úrræða til hagsbóta fyrir drenginn.

Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið tímabært að loka máli drengsins þar sem sterkar vísbendingar eru um að drengurinn sé þvert á móti enn í erfiðri stöðu.

Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að í 3. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga, sem tók gildi 1. janúar 2022, er nýtt ákvæði sem kveður á um að sé grunur um að barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða alvarlegu líkamlegu eða andlegu ofbeldi, ber barnaverndarþjónustu að óska eftir þjónustu Barnahúss við könnun málsins.

Með vísan til alls framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun og vísa málinu til nýrrar meðferðar Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B, dags. 3. nóvember 2021, um að loka máli vegna drengsins, D, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndarnefndar B.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum