Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 412/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 412/2020

Miðvikudaginn 21. apríl 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. ágúst 2020, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. mars 2010, frá 1. júní 2009 til 31. maí 2012. Kærandi sótti um lífeyri frá öðru EES ríki með umsókn, dags. 12. mars 2010. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. febrúar 2011, var kæranda bent á að samkvæmt beiðni frá C þyrfti hún að senda stofnuninni sundurliðaða læknaskýrslu, E 213 IS, til að hægt væri að ljúka vinnslu umsóknar um örorkulífeyri í D. Kærandi sótti á ný um lífeyri frá D með umsókn 24. september 2017. Með bréfi, dags. 20. mars 2018, upplýsti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um að til að ljúka umsókn hennar um örorkulífeyri þyrfti hún samkvæmt beiðni E í D að fá frá lækni útfyllt E 213 IS og senda stofnuninni sem myndi svo framsenda það til D. Með bréfi F, dags. 18. nóvember 2019, til Tryggingastofnunar var upplýst um réttindi kæranda til greiðslna frá D frá 1. júní 2009. Með bréfi til kæranda, dags. 12. desember 2020, var kæranda tilkynnt um að hún ætti rétt á fullum framtíðarútreikningi á Íslandi frá 1. júní 2014. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. desember 2019, var kærandi upplýst um að í kjölfar framangreindra upplýsinga um greiðslur frá D hefði bótaréttur ársins 2019 verið endurreiknaður. Einnig var kærandi upplýst um að fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð 1.940.660 kr. sem hafi verið skuldajafnað með inneignum úr endurreikningi á greiðslum frá 1. júní 2014 til 31. desember 2018. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019, dags. 22. maí 2020, var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.143.409 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Þar sem Tryggingastofnun hafði áður skuldajafnað inneign, sem hafi myndast vegna leiðréttingar á framtíðarútreikningi á Íslandi frá 1. júní 2014, var engin krafa til innheimtu. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun, dags. 11. janúar 2021, þar sem skuldajöfnun inneigna var endurgreidd og framkvæmdur nýr endurreikningur og var kæranda tilkynnt um kröfu að fjárhæð 1.140.591 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 23. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. október 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 3. nóvember 2020. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 9. desember 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnunar ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. desember 2020. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 21. janúar 2021, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. janúar 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 4. febrúar 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnunar ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að Tryggingastofnun hafi með bréfi, dags. 22. maí 2020, tilkynnt kæranda um að niðurstaða endurreiknings tekjutengdra greiðslna árið 2019 hafi verið 1.854.454 kr. og að mismunur hafi verið 1.148.329 kr. Því næst segi að áætlaðar skuldir að fjárhæð 1.143.409 kr. eftir skatta hafi verið teknar með í endurreikninginn. Tryggingastofnun segi að þessar skuldir hafi myndast vegna breytinga á árinu 2019.

Vegna leiðréttingar á búsetuskerðingu á árinu 2019 hafi kærandi fengið bréf þess efnis á „Mínar síður“ að greiðslur myndu berast til hennar vegna þessa. Kærandi hafi aftur á móti ekki fengið allar þær greiðslur sem hún hafi átt að fá þar sem Tryggingastofnun hafi beitt svokallaðri skuldajöfnun. Með bréfi, dags. 23. desember 2020, hafi kæranda verið tilkynnt um að „borist hafi E í D um greiðslur frá júní 2009.“ Hvorki kærandi né umboðsmaður hennar viti hvað Tryggingastofnun hafi borist frá þessari stofnunun, kærandi hafi margsinnis bent Tryggingastofnun á að E í D hafi ekkert með örorkulífeyri og örorkumat að gera.

Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri árið 2009 með aðstoð félagsráðgjafa á vegum G. Kærandi hafi talað litla sem enga íslensku og hafi ekki þekkt íslenska almannatryggingakerfið. Óljóst sé hvað hafi komið fram í umsókn kæranda um örorkulífeyri og hvaða gögn hafi fylgt með umsókninni þar sem hvorki sé hægt að nálgast gögn né umsóknir frá þeim tíma á „Mínum síðum“. Kærandi hafi treyst því að félagsráðgjafinn og Tryggingastofnun myndu aðstoða og leiðbeina henni vegna umsóknarinnar þar sem hún hafi verið í sýnilegri þörf fyrir aðstoð. Umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi verið samþykkt og hafi búsetuhlutfall verið ákveðið í framhaldinu. Eins og gefi að skilja þurfi einstaklingar, sem ekki hafi verið búsettir á Íslandi eða komi frá öðrum löndum, aðstoð og leiðbeiningar þess efnis að þeir geti átt rétt á lífeyrisgreiðslum frá öðru landi. Sérstaklega þegar litið sé til þess að búsetuskerðingum sé beitt á Íslandi. Í mörg ár hafi kærandi ekki vitað að hún ætti rétt á lífeyrisgreiðslum frá D. Félagsráðgjafinn sem hafi aðstoðað kæranda hafi hætt störfum og enginn annar starfsmaður virðist hafi tekið við máli hennar. Kærandi hafi treyst því að sveitarfélagið sem hafi aðstoðað hana og Tryggingastofnun myndu standa rétt að umsókn hennar um örorkulífeyri og tryggja að umsókn um lífeyrisgreiðslur frá öðru landi færu í réttan farveg, þ.e.a.s. ef hún ætti rétt á lífeyrisgreiðslum frá öðru landi.

Augljóst sé að kærandi hafi í fjölda ára ekki fengið neinar greiðslur frá D og hafi verið með lágmarksgreiðslur frá Tryggingastofnun miðað við 40,23% búsetuhlutfall. Kærandi hafi talið að það væru réttar greiðslur og að þannig væri fullur örorkulífeyrir á Íslandi. Eftir ábendingu frá kunningja kæranda um að greiðslunar væru verulegar lágar hafi hún kannað málið hjá Tryggingastofnun á árinu 2016 og hafi þá komið í ljós að eitthvað hafi misfarist á árunum 2009-2011. Í kjölfarið hafi tekið við athugun á rétti kæranda á lífeyrisgreiðslum frá D. Athygli sé vakin á því að það ferli hafi tekið þrjú ár (2016-2019), bæði vegna vinnubragða og málsmeðferðar Tryggingastofnunar og vinnubragða heilbrigðiskerfisins. Frá upphafi hafi ekki verið rétt staðið að málum kæranda, um sé að ræða ítrekuð mistök, óvönduð og í raun ámælisverð vinnubrögð Tryggingastofnunar. Í kæru er vísað til gagna og tölvupóstsamskipta sem kærandi hafi ritað til að varpa betra ljósi á hvernig ferlið hafi gengið fyrir sig. Mistökin séu meðal annars þau að Tryggingastofnun hafi ítrekað sent gögnin til rangrar stofnunar í D, þrátt fyrir að kærandi hafi ítrekað bent á að heimilifangið væri ekki rétt og heitið á stofnuninni væri ekki rétt.

Vegna veikinda heimilislæknis kæranda hafi það tekið hann nærri heilt ár að gera E 213 vottorð fyrir hana. Umboðsmaður kæranda velti fyrir sér hvort Tryggingastofnun hefði ekki átt að aðstoða kæranda frekar vegna þessara miklu tafa læknisins í ljósi þess að það hafi skipt kæranda afar miklu máli að ferlinu yrði flýtt þar sem bæði almannatryggingakerfið sem og heilbrigðiskerfið hafi í fjölda ára brugðist skyldum sínum gagnvart kæranda.

Grundvöllur kæru sé sá að kærandi hafi fengið ofgreiðslukröfu vegna eingreiðslu frá D sem hafi verið greidd á árinu 2019. Tryggingastofnun hafi reiknað eingreiðsluna sem tekjur á árinu 2019, þrátt fyrir að það liggi fyrir að greiðslan sé vegna áranna 2009-2019. Hefði Tryggingastofnun gætt að réttri málsmeðferð, aðstoðað og leiðbeint kæranda frá byrjun (árið 2009) með að sækja um lífeyrisgreiðslur frá D og séð til þess að það tæki ekki þrjú ár að sækja rétt hennar, með því að gæta að því að senda gögnin til réttrar stofnunar, væri kærandi ekki í þessari stöðu. Auk þess hefði umsókn hennar um heimilisuppbót og uppbót á lífeyri ekki verið synjað. Það sé ekki réttlætanlegt að kærandi þurfi að lúta því að vegna endurtekinna mistaka og óvandaðra vinnubragða Tryggingastofnunar hafi hún farið á mis við rétt sinn til ákveðinna greiðslutegunda, auk þess sem hún þurfi að greiða ofgreiðslukröfu vegna ársins 2019.

Umboðsmaður kæranda hafi sent nokkrar fyrirspurnir til Tryggingastofnunar vegna kæranda en engin svör hafi borist.

Eins og áður segi hafi kærandi fengið bréf frá Tryggingastofnun, dags. 23. desember 2019, þess efnis að borist hafi greiðsla í júní 2019 frá stofnun í D. Fyrr í mánuðinum, þ.e. 12. desember 2019, hafði kærandi fengið ákvörðun vegna endurskoðunar á búsetuhlutfalli og greiðslur tengdar þeirri leiðréttingu. Tryggingastofnun hafi tekið þá ákvörðun að skuldajafna hluta af greiðslunum sem hún hafi fengið vegna leiðréttingarinnar til að greiða ofgreiðslukröfu vegna ársins 2019. Umboðsmaður kæranda fái ekki skilið af hvaða ástæðum kærandi hafi ekki verið upplýst um að ofgreiðslukrafa hafi myndast vegna ársins 2019 en að uppgjör og endurreikningur vegna ársins 2019 færi ekki fram fyrr en á árinu 2020.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 7. desember 2020, kemur fram að í greinargerð Tryggingastofnunar segi að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum. Bent sé á að kærandi vissi ekki og hafi ekki getað vitað að greiðslan kæmi á árinu 2019, enda hafi hún átt að vera löngu búin að fá þær greiðslur, ef rétt hefði verið staðið að málum. Jafnframt hafi kærandi verið ómeðvituð um að lífeyrisgreiðslur frá D hefðu áhrif á örorkulífeyrisgreiðslur sem hún fengi greiddar á Íslandi.

Tryggingastofnun vísi sérstaklega í 7. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar þar sem fram komi að stofnunin skuli endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Þrátt fyrir að þetta komi fram í ákvæðinu segi það á engan hátt til um að stofnuninni hafi verið heimilt að skuldajafna að fullu áður en til árlegs uppgjörs kæmi.

Tryggingastofnun segi að stofnuninni sé skylt að innheimta ofgreiddar bætur. Bent sé á að skyldan til að innheimta ofgreiddar bætur veiti Tryggingastofnun ekki sjálfkrafa heimild til að skuldajafna og því skorti ákvörðunin um að skuldajafna lagastoð og stofnuninni sé þar með óheimilt að skuldajafna inneign kæranda sem hafi myndast vegna leiðréttingar á búsetuhlutfalli.

Í greinargerðinni segi að það hafi verið búið að áætla kröfu að fjárhæð 1.940.660 kr. sem einhverra hluta vegna hafi ekki verið rétt upphæð. Kærandi átti sig ekki á hvernig þessi tala sé tilkomin og hvernig hún hafi verið áætluð. Óskað sé eftir nánari skýringum á þessari fjárhæð.

Jafnframt segi í greinargerð stofnunarinnar að inneignum úr endurreikningi á greiðslum frá 1. júní 2014 til 31. desember 2018 (endurreiknað búsetuhlutfall) hafi verið skuldajafnað við kröfuna. Gerð sé athugasemd við að þetta virðist hafa verið gert áður en endanleg krafa hafi verið gerð.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi að kærandi hafi fyllt út umsókn um lífeyri frá öðru EES ríki þann 12. mars 2010 og að kæranda hafi verið sent bréf, dags. 25. febrúar 2011, þess efnis að til að ljúka vinnslu umsóknarinnar þyrfti að berast E 213 læknisvottorð en að slíkt vottorð hafi aldrei borist frá kæranda. Það liggi í augum uppi að ýmsar ástæður geta búið að baki því að slíkt vottorð hafi ekki borist. Tryggingastofnun hafi borið að kanna það sérstaklega og fylgja málinu eftir, sbr. leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Á þessum tíma hafi kærandi ekki talað og varla skilið íslensku. Hún hafi því ekki getað kynnt sér efni bréfsins og hefði þar af leiðandi ekki getað vitað til hvers væri ætlast af henni. Auk þess hafi kærandi aldrei fengið sent bréf með bréfpósti heldur hafi bréfið verið birt á „Mínum síðum“ að sögn kæranda. Kærandi hafi ekki vitað hvað „Mínar síður“ hjá Tryggingastofnun hafi verið og hafi þar af leiðandi ekki getað vitað af bréfinu og hafi ekki getað kynnt sér efni bréfsins.

Félagsráðgjafi, sem hafi aðstoðað kæranda að sækja um örorkulífeyri, hafi látið af störfum og málinu hafi ekki verið fylgt eftir. Kærandi hafi talið að umsóknin hafi verið í réttum farvegi og hafi hún talið í fjölda ára að umsóknin, sem hún hafi fyllt út 12. mars 2010 ásamt félagsráðgjafanum, væri eina eyðublaðið sem fylla þyrfti út til að sækja rétt erlendis frá. Kærandi hafi ekki vitað hvernig almannatryggingarkerfið á Íslandi væri og hafi henni einnig verið ókunnugt um að á Íslandi væru svokallaðar búsetuskerðingar. Kærandi hafi verið fullviss um að hún væri að þiggja fullar örorkulífeyrisgreiðslur í fjölda ára en ekki skertar vegna búsetu. Hún hafi verið í góðri trú um að bæði félagsráðgjafinn á vegum H og Tryggingastofnun hefðu gengið frá umsókn hennar um örorkulífeyri í D og að jafnframt væri hún að fá réttar greiðslur á Íslandi.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi að ekki sé óvenjulegt að umsóknarferlið geti tekið tvö ár. Þessu sé mótmælt þar sem það teljist ekki vera eðlilegur tími að það geti tekið tvö til þrjú ár. Tryggingastofnun geti ekki firrað sig ábyrgð á því hversu langan tíma hafi tekið að aðstoða kæranda vegna umsókna um örorkulífeyri í D. Í því samhengi sé vísað í rökstuðning í kæru.

Tryggingastofnun segi í greinargerðinni að kærandi hefði vel getað leitað til annars læknis. Bent sé á að upphaflega hafi kærandi treyst þessum lækni til að útbúa vottorðið fyrir sig, enda hennar læknir og hafi þekkt hennar sjúkrasögu. Tryggingastofnun ætti að vera það ljóst hversu miklu skipti að vandað sé til læknisvottorða og þá sérstaklega þegar litið sé til þess að lagt yrði mat á vottorðið af læknum og öðrum þar til bærum aðilum í D sem hvorki þekktu sjúkrasögu kæranda né þá andlegu og líkamlegu kvilla sem hafi hrjáð hana í langan tíma. Enn fremur beri að nefna, eins og sjá megi í tölvupóstsamskiptum kæranda og læknisins, að hún hafi oftar en einu sinni spurt hvort hún ætti að leita til annars læknis en hann hafi óskað eftir að halda áfram að aðstoða hana með vottorðið, þrátt fyrir að eiga í vandkvæðum með að ljúka við það vegna veikinda. Að endingu hafi ófullnægjandi vottorð verið sent til D. Það væri óskandi að Tryggingastofnun hefði aðstoðað kæranda frekar varðandi vandkvæði vegna vottorðsins og jafnframt ekki mælst til þess og tjáð kæranda að vottorðið sem sent var myndi „alveg duga.“

Tryggingastofnun segi að það sé bagalegt að tengiliðastofnun Tryggingastofnunar í D hafi ekki sinnt hlutverki sínu, þrátt fyrir ítrekanir. Tryggingastofnun geti ekki og sé ekki heimilt að varpa ábyrgðinni yfir á stofnun í öðru landi. Óskað sé eftir nánari útskýringum á þessum ítrekunum, um hvaða stofnun ræði sem ítrekanir hafi verið sendar til og afriti af þeim.

Tryggingastofnun telji að það hafi verið heimilt að skuldajafna inneignum sem hafi stofnast vegna endurreiknings á búsetuhlutfalli kæranda. Einnig telji Tryggingastofnun að skuldajöfnun hafi verið heimil áður en formlegt uppgjör hafi farið fram. Tryggingastofnun segi að það hafi verið gert kæranda til þæginda. Þetta séu ekki haldbær rök fyrir ólögmætri framkvæmd. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að skuldajafna inneign kæranda skorti lagastoð og skipti þar engu hvað stofnunin telji vera hentugt að gera til að auka þægindi kæranda.

Tryggingastofnun hafi enga heimild til þess að skuldajafna kröfum einstaklinga á móti ofgreiðslukröfum. Í lögum nr. 150/2007 um almannatryggingar sé sérstök, afmörkuð heimild í 2. og 3. mgr. 55. greinar. Í ákvæðinu komi skýrt fram hvernig stofnunin geti skuldajafnað í þessum tilvikum.

Samkvæmt ákvæðinu sé ekki heimilt að skuldajafna allri fjárhæðinni í einu heldur sé Tryggingastofnun aldrei heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum, nema samið sé um annað. Sá skuldajöfnuður sem stofnun hafi beitt sé því bæði án lagastoðar en auk þess í beinni andstöðu við lagareglur. Það sé algerlega skýrt að Tryggingastofnun hafi enga heimild til þess að beita skuldajöfnuði með öðrum og rýmri hætti en fram komi í lagaákvæðinu. Það eigi sérstaklega við þar sem niðurstaðan sé íþyngjandi fyrir borgarann.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi að stofnunin hafi „litið svo á að endurreikningurinn á búsetuhlutfalli kæranda væri endurskoðun á rétti kæranda en ekki regluleg framfærsla hans og því heimilt að skuldajafna inneignum við ofgreiðslukröfuna“. Með vísan til framangreindra raka þá séu skýrar reglur til staðar og stofnun hafi enga heimild til þess að „líta svo á“ að eitthvað annað gildi en lagareglur.

Auk þess sé það röng fullyrðing hjá Tryggingastofnun að um sé að ræða „endurskoðun á rétti kæranda en ekki regluleg framfærsla hans“. Engin stoð sé fyrir því að gera slíkan greinarmun og láta hann síðan verða grundvöll að íþyngjandi ákvörðun. Aðalatriðið sé þó að þessi atriði séu órjúfanlega tengd. Örorkulífeyrir og tengdar greiðslur séu regluleg framfærsla kæranda. Ákvörðun Tryggingastofnunar um búsetuhlutfall hafi áhrif á upphæð örorkulífeyris og þar með áhrif á framfærslu kæranda.

Með því að skerða búsetuhlutfall kæranda hafi Tryggingastofnun skert framfærslu kæranda með ólögmætum hætti í mörg ár. Leiðréttingin á búsetuhlutfalli kæranda sé leiðrétting á ólögmætri skerðingu stofnunarinnar á framfærslu kæranda.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 4. febrúar 2021, kemur fram að samkvæmt Tryggingastofnun hafi verið ákveðið að falla frá umræddri skuldajöfnun. Líkt og komi fram í fyrri athugasemdum sé ítrekað að stofnuninni sé óheimilt að skuldajafna inneignum endurreiknaðs búsetuhlutfalls og skipti þar engu hvort um áætlaða eða endanlega kröfu sé að ræða.

Fram komi einnig að ekki hafi ekki fundist afrit af þeim bréfum (ítrekunum) sem send hafi verið til stofnana í D frá þeim tíma sem kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri. Gerð sé athugasemd við að stofnunin eigi ekki afrit af bréfum sem stofnunin segist hafa sent til D frá þeim tíma sem kærandi hafi sótt fyrst um örorkulífeyri. Tryggingastofnun beri að sýna fram á það að hún hafi sent ítrekanir til stofnana í D og þá sérstaklega þegar litið sé til þess að Tryggingastofnun segi í greinargerð sinni að það sé bagalegt að tengiliðastofnun í D hafi ekki sinnt hlutverki sínu í fjölda ára.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2019.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljast tekjur samkvæmt II. kafla um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2019 hafi kærandi verið með örorkulífeyrisgreiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 1.143.409 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2020 vegna tekjuársins 2019 og við upplýsingar um erlendar tekjur árið 2019, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega ásamt upplýsingum frá erlendum stofnunum um tekjur erlendis, ef um þær sé að ræða.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 17. janúar 2019. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að kærandi væri eingöngu með 9.096 kr. í vexti og verðbætur. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar.

Í nóvember 2019 hafi Tryggingastofnun borist upplýsingar frá D um að kærandi hafi á árinu 2019 fengið greidda eingreiðslu lífeyris fyrir árin 2009 til og með 2019. Tryggingastofnun hafi sent kæranda bréf þann 23. desember 2019 þar sem henni hafi verið tilkynnt að bótaréttur ársins hefði verið endurreiknaður í ljósi þessara upplýsinga. Í bréfinu hafi komið fram að gert væri ráð fyrir því að kærandi hafi fengið 48.236 EUR í lífeyrissjóðstekjur (379,81 EUR á mánuði frá 1. júní 2009, sbr. upplýsingar úr E 210 vottorði) og 9.096 kr. í vexti og verðbætur. Samkvæmt E 210 vottorði virðist kærandi þó hafa fengið hærri lífeyrissjóðsgreiðslur greiddar árið 2019 en þó hafi verið ákveðið að miða við þessa fjárhæð.

Einnig hafi komið fram í bréfinu að búið væri að áætla kröfu að fjárhæð 1.940.660 kr., sem einhverra hluta vegna hafi ekki verið rétt fjárhæð. Rétt fjárhæð kröfu sé 1.143.409 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Inneignum úr endurreikningi á greiðslum frá 1. júní 2014 til 31. desember 2018 (endurreiknað búsetuhlutfall) hafi verið skuldajafnað við kröfuna, eins og fram komi á hreyfingaryfirliti kröfu.

Í maí 2020 hafi árið gert upp. Við bótauppgjör ársins 2019 hafi komið í ljós að kærandi hafði haft 6.623.768 kr. í lífeyrissjóðstekjur (48.236 EUR á genginu 1 EUR = 137,32 ISK) og 90 kr. í vexti og verðbætur.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið sú að kærandi hafði fengið greitt á árinu 1.854.454 kr. en hefði átt að fá greitt 706.125 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 1.143.409 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu, sem hafi verið mynduð áður og uppgreidd.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum, eða öðrum tekjum eins og erlendum tekjum sem upplýsingar berast um erlendis frá.

Í kæru sé fullyrt að kærandi hafi í mörg ár ekki vitað af því að hún ætti rétt á lífeyrisgreiðslum frá D og það hafi skort á hjálp og leiðbeiningar frá Tryggingastofnun vegna þessa. Það hafi ekki verið fyrr en árið 2016 sem kærandi hafi leitað til Tryggingastofnunar til að kanna rétt sinn á hugsanlegum greiðslum frá D. Það hafi tekið þrjú ár að fá niðurstöðu þaðan og telji kærandi það hafa verið alltof langan tíma og að ekki hafi verið staðið rétt að því ferli, meðal annars vegna þess að ekki hafi verið óskað eftir upplýsingum frá réttri stofnun í D og að læknir kæranda hafi verið lengi að aðstoða hana með E 213 læknisvottorð.

Kærandi hafi fengið greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun frá 1. júní 2009 sem afgreiddur hafi verið með bréfi, dags. 1. mars 2010. Kærandi hafi fyllt út umsókn um lífeyri frá öðru EES-ríki 12. mars 2010 sem hafi verið send verið til D 9. apríl 2010, E 204 vottorð. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2011, hafi kærandi verið upplýst um að til að ljúka vinnslu umsóknar um örorkulífeyri D þyrfti að berast E 213 læknisvottorð. Slíkt vottorð hafi aldrei borist frá kæranda og því hafi umsóknin aldrei verið afgreidd í D.

Kærandi hafi 24. september 2017 fyllt aftur út umsókn um lífeyri frá öðru EES-ríki og hafi hún verið send til D 15. desember 2017, E 204 vottorð. Í nóvember 2019 hafi Tryggingastofnun borist 2019 E 210 vottorð frá D þar sem komið hafi fram upplýsingar um að kærandi hafi fengið samþykktan og greiddan lífeyri frá D frá 1. júní 2009.

Því sé ljóst að það sé ekki rétt að kærandi hafi ekki vitað af rétti sínum fyrr en árið 2016. Umsókn um erlendan lífeyri hafi verið fyllt út af kæranda og send út árið 2010 en þar sem gögn hafi ekki borist frá henni hafi ekki verið hægt að ljúka við þá umsókn. Umsóknarferlið hafi farið aftur af stað árið 2017 þegar kærandi hafi skilað inn nýrri umsókn um erlendan lífeyri og það að ferlið hafi tekið tvö ár sé ekki óvenjulegt í slíkum málum, enda oft sem senda þurfi nánari upplýsingar og/eða gögn á milli landa. Það hafi ekki flýtt fyrir umsóknarferlinu að læknir kæranda hafi verið lengi að skrifa E 213 læknisvottorð til að senda til D en kærandi hefði alltaf getað leitað til annars læknis með erindi sitt til að fá það fyrr í gegn. Varðandi það að Tryggingastofnun hafi sent umsóknina til rangrar stofnunar í D sé sú stofnun, sem umsóknin hafi verið send til, tengiliðastofnun Tryggingastofnunar í D og taki við slíkum umsóknum og sjái um að koma þeim í ferli á réttum stöðum. Það sé bagalegt að sú stofnun hafi ekki sinnt því hlutverki, þrátt fyrir ítrekanir, en Tryggingastofnun hafi ekkert boðvald yfir þeirri stofnun og því ekki á færi Tryggingastofnunar að hlutast til um þau mál. Að lokum hafi Tryggingastofnun sent beiðnina til fleiri stofnana í D til að reyna að koma málinu í réttan farveg og hafi svar borist í nóvember 2019 eins og greint hafi verið frá.

Kærandi sé ósátt við að inneignir vegna endurreiknings á búsetuhlutfalli hennar hafi verið teknar upp í áætlaða kröfu vegna ársins 2019 og að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um þá kröfu.

Með bréfi, dags. 23. desember 2019, hafi kæranda verið tilkynnt um ofgreiðslukröfuna, þó að eins og áður segi hafi verið um ranga fjárhæð að ræða í bréfinu. Einnig hafi komið fram í bréfinu að inneignum vegna endurreiknings á búsetuhlutfalli kæranda hefði verið skuldajafnað við kröfuna. Kærandi hafði með bréfi, dags. 12. desember 2019, verið tilkynnt að búsetuútreikningur hennar hefði verið endurreiknaður frá 1. júní 2014 og í bréfum, dags. 23. desember 2019, séu niðurstöður fyrir hvert ár tilgreindar. Í þeim sjáist að inneignum fyrir árin 2015 og 2016 hafi verið ráðstafað upp í ofgreiðslukröfuna. Þar sem ofgreiðslukrafan hafi myndast í lok árs 2019 og yrði að öllum líkindum sú sama þegar uppgjör ársins færi fram í maí 2020, eins og raunin hafi orðið, hafi til þæginda fyrir kæranda verið ákveðið að láta inneignirnar ganga upp í kröfuna. Þá hafi verið litið svo á að endurreikningur á búsetuhlutfalli kæranda væri endurskoðun á rétti kæranda en ekki regluleg framfærsla hennar og því hafi verið heimilt að skuldajafna inneignunum við ofgreiðslukröfuna, eins og gert sé þegar uppgjör fari fram.

Að lokum hafi kærandi óskað eftir því að kannað yrði hvort að það myndi koma henni betur að láta dreifa lífeyrisgreiðslunum frá D á rétt tekjuár. Tryggingastofnun hafi kannað þann möguleika með því að endurreikna bætur kæranda frá árinu 2009 og sé niðurstaðan sú, með fyrirvara, að kærandi yrði líklega ofgreidd fyrir öll árin og heildarskuldin yrði svipuð og hún sé fyrir árið 2019. Kærandi þurfi því að meta þann möguleika að fara slíka leið og leita upplýsinga hjá Skattinum um hvort slíkt sé yfirhöfuð mögulegt þar sem umræddar tekjur komi ekki fram á skattframtali kæranda.

Með vísan til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. janúar 2021, kemur fram að stofnunin hafi ákveðið að falla frá skuldajöfnuninni á inneignum vegna endurreiknaðs búsetuhlutfalls upp í kröfu vegna greiðslna frá D þar sem um áætlaða kröfu hafi verið að ræða. Eins og sjá megi á gögnum málsins hafi kæranda verið endurgreidd sú inneign sem skuldajafnað hafi verið upp í kröfuna. Þá hafi stofnunin gert nýjan endurreikning fyrir kæranda fyrir árið 2019 ásamt því að senda kæranda innheimtubréf vegna kröfunnar. Að öðru leyti sé vísað til fyrri greinargerðar stofnunarinnar varðandi endurreikninginn.

Í athugasemdum kæranda sé óskað eftir skýringum á áætlaðri fjárhæð kröfu sem getið hafi verið um í bréfi, dags. 23. desember 2019, þ.e. kröfu að fjárhæð 1.940.660 kr. Eins og komið hafi fram í fyrri greinargerð stofnunarinnar hafi verið um að ræða ranga fjárhæð, aldrei hafi verið mynduð krafa að þessari fjárhæð því að krafan hafi verið að 1.143.409 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Hreinlega hafi verið um mistök að ræða í þessu bréfi.

Óskað hafi verið eftir nánari skýringum á þeim ítrekunum sem sendar hafi verið til D, til hvaða stofnana þær hafi verið sendar og afriti af þeim. Meðfylgjandi séu afrit af E 001 vottorðum sem send hafi verið ásamt afriti af bréfi sem sent hafi verið ásamt gögnum til eftirfarandi stofnana í D (því miður hafi afrit af bréfunum sjálfum ekki fundist sem hafi farið til stofnananna):

[...]

Að öðru leyti vísi Tryggingastofnun til fyrri greinargerðar sinnar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2019.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda tekjuáætlun, dags. 17. janúar 2019, vegna ársins 2019 þar sem gert var ráð fyrir 9.096 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út í samræmi við þær tekjuforsendur. Í kjölfar eingreiðslu frá F í D frá júní 2009 var kæranda tilkynnt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. desember 2020, um breytingu á tekjuáætlun á grundvelli framangreindra upplýsinga. Í þessari nýju tekjuáætlun sem Tryggingastofnun útbjó var gert ráð fyrir lífeyri að fjárhæð 48.236 evrur og sömu fjármagnstekjum og áður. Samkvæmt gögnum málsins var inneignum úr uppgjörum áranna 2015 og 2016 skuldajafnað við kröfu sem hafði myndast vegna framangreindra tekna.

Samkvæmt upplýsingum frá íslenskum skattyfirvöldum og F vegna tekjuársins 2019 reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda vera 6.623.768 kr. og fjármagnstekjur 90 kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2019 leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 1.143.409 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 var sú að kærandi átti eingöngu rétt á örorkulífeyri og aldurstengdri örorkuuppbót, auk orlofs- og desemberuppbótar.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að tekjur ársins 2019 voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun var um að ræða umtalsverðar lífeyrissjóðstekjur sem eru tilkomnar vegna eingreiðslu vegna tekjuáranna 2009 til 2019. Kærandi gerir hvorki athugasemdir við þá afstöðu Tryggingastofnunar að um lífeyrissjóðstekjur sé að ræða né þá fjárhæð eingreiðslunnar sem stofnunin miðar við og því telur úrskurðarnefndin að ekki sé ágreiningur um framangreint. Fyrir liggur að tekjur úr lífeyrissjóði eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. hafa lífeyrissjóðstekjur hvorki áhrif á grunnlífeyri né aldurstengda örorkuuppbót, sbr. einnig 1. mgr. 21. gr. laga um almannatryggingar. Lífeyrissjóðstekjur hafa aftur á móti áhrif á sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu og tekjutryggingu, sbr. 22. gr. laga um almannatryggingar og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Ljóst er að Tryggingastofnun hefur dregið til baka ákvörðun sína um að skuldajafna inneignum á móti kröfu vegna endurreiknings ársins 2019 og því er ekki lengur ágreiningur um það atriði. Af kæru má aftur á móti ráða að kærandi fari fram á að lífeyristekjur hennar frá D hafi ekki áhrif á endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar vegna ársins 2019. Kærandi byggir meðal annars á því að málsmeðferð Tryggingastofnunar hafi verið ábótavant.

Kærandi heldur því fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni í kjölfar þess að hún hafi ekki orðið við ábendingum stofnunarinnar í bréfi, dags. 25. febrúar 2011, um að leggja fram sundurliðaða læknaskýrslu, E 213. Kæra sú, sem hér er til meðferðar, lýtur einungis að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 22. maí 2020 og því kemur hugsanlegur skortur á leiðbeiningum eða rannsókn á fyrri stigum málsins ekki til skoðunar.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við hversu langan tíma umsóknarferlið um greiðslur frá D hafi tekið. Byggt er á því að Tryggingastofnun hafi ítrekað sent gögn til rangrar stofnunar í D og að það hafi tekið heimilislækni kæranda nærri heilt ár að gera E 213 vottorð fyrir hana. Úrskurðarnefndin fellst á að umsóknarferlið hafi tekið langan tíma en telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að óhæfilegar tafir hafi verið hjá Tryggingastofnun. Tryggingastofnun byggir á því að skjölin hafi verið send á viðeigandi tengistofnun í D og úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að vefengja þær upplýsingar. Hin kærða ákvörðun verður því ekki felld úr gildi með vísan til framangreindar málsástæðu kæranda.

Kærandi fer fram á að leiðrétting á lífeyrissjóðstekjum, sem greiddar voru á árinu 2019, hafi ekki áhrif á endurreikning Tryggingastofnunar á tekjutengd bótaréttindi hennar nema að hluta vegna framangreinds árs. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags skulu tekjur sem aflað er erlendis og eru ekki taldar frá hér á landi sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Úrskurðarnefndin horfir til þess að umræddar tekjur voru greiddar kæranda á árinu 2019 og tilheyra þess vegna því ári þó svo að um sé að ræða leiðréttingu vegna fyrri ára. Þar sem tekjurnar koma ekki fram á skattframtali kæranda telur úrskurðarnefndin að Tryggingastofnun sé heimilt að dreifa tekjunum á viðkomandi ár berist beiðni þar um frá kæranda. Úrskurðarnefndin telur þó rétt að benda kæranda á að það hefur í för með sér að endurreikna yrði þá greiðslur stofnunarinnar til kæranda vegna þeirra ára. Tryggingastofnun greinir frá því að heildarskuldin yrði væntanlega svipuð og hún sé fyrir árið 2019.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2019.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum