Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Nr. 103/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 103/2018

Fimmtudaginn 14. júní 2018

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Kópavogsbæjar, dags. 13. mars 2018, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Kópavogsbæ fyrir febrúar mánuð 2018 á grundvelli 15. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Umsókn kæranda var tekin fyrir á teymisfundi þann 7. mars 2018 og var synjað með með vísan til þess að hún væri í hjónabandi en gagnkvæm framfærsluskylda væri á milli hjóna, sbr. 1. gr. reglnanna og hjúskaparlaga nr. 31/1993. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs Kópavogsbæjar sem tók málið fyrir á fundi þann 12. mars 2018 og staðfesti synjunina. Sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 15. mars 2018. Með bréfi, dags. 19. mars 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, mótteknu 4. apríl 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar um fjárhagsaðstoð hafi verið hafnað á þeim grundvelli að hún væri gift og maki hennar framfærsluskyldur. Kærandi telur að sú niðurstaða feli í sér brot gegn mörgum lagagreinum, þar á meðal tilgangi 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Kærandi tekur fram að hún sé að ganga frá skilnaði við eiginmann sinn en það muni taka tíma þar sem hann láti ekki hafa upp á sér og því þurfi að fara með málið fyrir dómstóla. Eiginmaður hennar sé búsettur í öðru landi og kæri sig ekki um, né geti verið til staðar fjárhagslega fyrir hana og börn þeirra. Kærandi óskar eftir að mál hennar verði skoðað með tilliti til aðstæðna hennar og með það að leiðarljósi að vernda börn hennar frá frekari áföllum. Að mati kæranda eigi ákvæði um fjárstuðning hjóna ekki við þegar hjónaband sé brotið upp.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar er tekið fram að kæranda hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð í formi styrks þar sem hún væri í hjónabandi og vísað til framfærsluskyldu hjóna. Í ljósi sérstakra aðstæðna hafi verið samþykkt að bjóða kæranda lán vegnar sérstakra erfiðleika til að brúa bil fram til þess að hún fengi atvinnu eða framfærslueyri frá maka. Þá hafi verið samþykkt í velferðarráði að veita kæranda sérstaka aðstoð vegna barna. Það sé mat velferðarsviðs Kópavogsbæjar að afgreiðsla í málinu hafi verið eðlileg og í samræmi við bæði reglur sviðsins og lög.

Kópavogsbær vísar til þess að kærandi sé í hjónabandi með manni sem hún hyggist sækja um skilnað frá en hjón séu framfærsluskyld hvort við annað. Við skilnað að borði og sæng þurfi að taka afstöðu til þess hvort annað hjóna skuli greiða hinu framfærslueyri eða lífeyri, enda sé hin gagnkvæma framfærsluskylda á milli hjóna við lýði allt fram til þess að lögskilnaður sé veittur. Komi í ljós ágreiningur um greiðslu framfærslueyris eða lífeyris úrskurði sýslumaður því máli. Í ljósi framangreinds þyki velferðarsviði Kópavogs rétt að fjárhagsaðstoð sé veitt í formi láns þar til sýslumaður hafi tekið afstöðu til þess hvort eiginmanni kæranda beri að greiða henni framfærslueyri.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir febrúar 2018.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð í formi styrks var synjað á grundvelli 15. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð þar sem hún væri í hjónabandi og gagnkvæm framfærsluskylda væri á milli hjóna, sbr. 1. gr. reglnanna og samkvæmt hjúkskaparlögum. nr. 31/1993. Í ljósi sérstakra aðstæðna samþykkti Kópavogsbær að veita undanþágu frá reglunum og bauð kæranda lán vegna sérstakra erfiðleika samkvæmt 29. gr. reglnanna, að fjárhæð 120.000 kr.

Í 15. gr. framangreindra reglna kemur meðal annars fram að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðist við grunnfjárhæð 181.500 kr. Framfærslugrunnur hjóna og fólks í sambúð sé 290.400 kr. Í 2. mgr. 15. gr. reglnanna er vísað til þess að frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragist skattskyldar tekjur, sbr. 17. gr. Samkvæmt 17. gr. reglnanna koma allar tekjur einstaklings og sambúðaraðila, í þeim mánuði sem sótt er um, til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar og einnig tekjur mánuðinn á undan ef tekjur þann mánuð eru hærri en 300.000 kr. Tekjuviðmiðið á ekki við þegar einstaklingur ber sannanlega ekki húsnæðiskostnað. Í þeim tilvikum koma allar tekjur í umsóknarmánuði og mánuðinum á undan til frádráttar við ákvörðun upphæðar fjárhagsaðstoðar.

Í máli þessu virðist ágreiningslaust að kærandi og eiginmaður hennar hafi slitið samvistum. Þá liggur fyrir að eiginmaður kæranda er búsettur erlendis og framfærir hann hvorki hana né börn þeirra. Þá liggja ekki fyrri gögn í málinu sem sýna fram á að tekjur kæranda eða eiginmanns hennar séu umfram viðmið 17. gr. framangreindra reglna. Að svo stöddu telur úrskurðarnefndin að ekki sé lagagrundvöllur til þess að synja kæranda um fjárhagsaðstoð í formi styrks enda uppfylli hún skilyrði a. liðar 1. mgr. 2. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 13. mars 2018, um synjun á umsókn A, er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum