Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20jafnr%C3%A9ttism%C3%A1la

Mál nr. 19/2020 - Úrskurður

Mál nr. 19/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Jafnréttisstofu

 

Jöfn meðferð á vinnumarkaði. Ráðning í starf. Hæfnismat.

Kærandi sem er 69 ára karlmaður kærði ráðningu 52 ára karlmanns í stöðu sérfræðings hjá kærða og byggði á því að honum hefði verið mismunað á grundvelli aldurs og hann því ekki notið jafnrar meðferðar. Kærunefndin taldi að menntunar- og hæfniskröfur kærða vegna starfsins hefðu verið málefnalegar. Í úrskurði nefndarinnar var fjallað um mat kærða á kæranda og þeim karlmanni sem starfið hlaut. Var það niðurstaða nefndarinnar að óhaggað stæði það mat kærða að karlinn sem ráðinn hefði verið í umrætt starf hefði staðið kæranda framar. Samkvæmt því hefðu ekki verið leiddar líkur að því að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli aldurs þegar ráðið var í starfið, sbr. 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 22. desember 2020 er tekið fyrir mál nr. 19/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 8. október 2020, kærði A ákvörðun Jafnréttisstofu um að hafna umsókn hans um ráðningu í stöðu sérfræðings. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Jafnréttisstofa brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 13. október 2020, óskaði nefndin eftir skýringum kæranda á því hvernig hann teldi að honum hafi verið mismunað samanborið við þann einstakling sem starfið hlaut. Með bréfi kæranda, dagsettu 19. október 2020, barst svar við bréfi kærunefndar þar sem hann taldi að aldur væri sennilegasta skýringin. Kærandi var 69 ára er ráðið var í stöðu sérfræðings hjá kærða en sá sem var ráðinn var rétt tæpra 52 ára gamall.
  4. Kæran ásamt fylgigögnum hennar og svari kæranda, dagsett 19. október 2020, var kynnt kærða með bréfi kærunefndarinnar, dagsettu 23. október 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 4. nóvember 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 12. nóvember 2020. Þá bárust kærunefndinni viðbótargögn frá kærða sem voru send kæranda með bréfi nefndarinnar, dagsettu 16. nóvember 2020.
  5. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 19. nóvember 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. nóvember 2020. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda með bréfi, dagsettu 20. nóvember 2020, vegna þeirra viðbótargagna sem bárust frá kærða og voru þær sendar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 23. nóvember 2020. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 26. nóvember 2020, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 27. nóvember 2020. Með sama bréfi var kærandi upplýstur um að málið væri tekið til úrlausnar og var kærði jafnframt upplýstur um það með bréfi nefndarinnar sama dag.

     

    MÁLAVEXTIR

  6. Kærði auglýsti laust til umsóknar starf sérfræðings 14. ágúst 2020. Í auglýsingunni kom fram að í boði væri krefjandi starf í frjóu umhverfi sérfræðinga á sviði jafnréttis- og mannréttindamála þar sem reyni á öguð vinnubrögð, ábyrgð og sjálfstæði. Tekið var fram að kærði annist stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Helstu verkefni starfsins voru talin: Umsjón með fræðslu og upplýsingastarfsemi um jafnréttismál á gildissviði laga nr. 10/2008, 85/2018 og 86/2018; verkefnastýring og þátttaka í innlendum og erlendum samstarfsverkefnum; þátttaka í öðrum verkefnum sem falla undir starfsemi stofnunarinnar. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirfarandi hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; þekking á sviði kynja- og jafnréttismála, sbr. gildissvið ofangreindra laga; þekking/reynsla af verkefnastjórnun; mjög góð færni í íslensku í ræðu sem riti; góð kunnátta í ensku; metnaður og vilji til að ná árangri; frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum og greiningar- og skipulagshæfni; hæfni til að miðla upplýsingum með skipulögðum og skýrum hætti.
  7. Alls bárust 39 umsóknir um starfið. Farið var yfir umsóknir og umsóknargögn með hliðsjón af fyrir fram skilgreindum matsviðmiðunum og að því loknu var ákveðið að boða 13 umsækjendur í starfsviðtöl. Kærandi var ekki þar á meðal. Að endingu var ákveðið að bjóða einum umsækjendanna, karli, starfið sem hann þáði.
  8. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni. Með bréfi kærða, dagsettu 30. september 2020, var kæranda veittur umbeðinn rökstuðningur. Þá óskaði kærandi eftir nánari skýringum á samanburði umsækjenda og svaraði kærði þeirri beiðni með bréfi, dagsettu 6. október 2020, þar sem útskýrður var nánar sá matsrammi sem notast hafði verið við í ráðningarferlinu.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  9. Kærandi byggir á því að hann hafi staðið ágætlega undir þeim hæfniskröfum sem kærði tilgreindi í auglýsingu um starf sérfræðings á grundvelli eftirfarandi rökstuðnings.
  10. Kærandi segir að hæfnisþátturinn háskólamenntun sem nýtist í starfi hafi gilt 20% og gefin hafi verið að lágmarki fjögur stig fyrir grunngráðu. Kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi í samræmi við það báðir fengið fjögur stig.
  11. Sá sem hafi fengið starfið hafi lokið meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2014 og eins árs námi í áætlanagerð nokkrum árum síðar. Kærandi hafi lokið cand.psych. prófi árið 1976, sem sé jafngilt flestum doktorsprófum á sínum tíma, og cand. mag. gráðu í samfélagsvísindum árið 1982. Kærandi hafi einnig lokið 30 eininga prófi í stjórnun og áætlanagerð/verkefnastjórnun og BA prófi í sögu og heimspeki. Fjögurra ára sérfræðingsnám í klínískri sálfræði og sálgreiningu sé sem slíkt ekki skipulagt í háskólum, en engu að síður sé kennsla veitt af háskólamenntuðu fólki og námið viðurkennt af opinberum aðilum.
  12. Ekki hafi verið auglýst eftir lögfræðingi. Það hefði átt að vera ljóst að sál- og samfélagsfræði séu undirstöðugreinar allra fræða um mannleg samskipti, stofnanir og stjórnun af öllu tagi. Það eigi einnig við um jafnréttismál. Í því sambandi séu heimspeki og saga óumræðilega gagnleg. Í námi kæranda sé einnig að finna greinar eins og sálerfðafræði, sállífeðlisfræði, þroskasálfræði, vinnusálfræði og stofnanasál- og félagsfræði. Mannfræði og saga fjalli öðrum þræði um kyn og samfélag. Í náminu hafi einnig falist vísindasaga, vísindaheimspeki og vísindaleg aðferð.
  13. Engin tilraun hafi verið gerð til að leggja mat á gæði menntastofnana. Kæranda blandist ekki hugur um að háskólinn í Árósum, Ósló og Viðskiptaháskólinn í Björgvin raðist hærra en Háskólinn á Akureyri á alþjóðlegum gæðalista æðri menntastofnana.
  14. Kærandi telji því mat á þessum þætti óskiljanlegt.
  15. Hæfnisþátturinn þekking á sviði kynja- og jafnréttismála, sbr. lög nr. 10/2008, 85/2018 og 86/2018, hafi gilt 27%. Umsækjandi sem hafi ekki uppfyllt skilyrðið hafi engin stig fengið. Væri þekking takmörkuð eða lítill hluti af námi hafi hann fengið 2 stig. Hefði umsækjandinn lokið kynjafræðinámi á grunnstigi eða hagnýtum jafnréttisfræðum, sem hluta af MA námi eða hefði starfsreynslu á sviðinu í 1-3 ár hafi hann fengið 3 stig. Hefði hann lokið MA gráðu í kynjafræði eða haft langa starfsreynslu á sviði kynja- og jafnréttismála, með vísan til tilgreindra laga (meira en 3 ár), hefði hann fengið 4 stig. Kærandi hafi fengið 2 stig en sá sem ráðinn hafi verið 3 stig.
  16. Kærandi hafi starfað sem kynfræðingur (d. sexolog, sexologist) við rótgróna kynfræðastofnun í Kaupmannahöfn, Sexologisk Institut við Ríkissjúkrahúsið og sé hann viðurkenndur sem slíkur. Í þá daga hafi ekki verið boðið upp á afmarkað nám í kynfræði, sem sé eldforn undirgrein sál- og samfélagfræða. Auk þess hafi hann lokið fjölmörgum sérfræðingsnámskeiðum í kynfræði og tekið þátt í fjölda ráðstefna um efnið. Í störfum sínum í heilbrigðis- og skólakerfi hafi hann unnið þráðbeint með mikinn fjölda fólks, fjölskyldur þeirra og viðeigandi stofnanir samfélagsins, sem hafi haft með kynröskun af ýmsu tagi að gera, þó markvissast við Sexologisk Institut.
  17. Kærandi hafi árum saman beitt hagnýtri jafnréttisfræði, sem sé hugtak sem kærði hafi notað, við að leysa ágreining á vinnustöðum, í hópum, fjölskyldum og ágreining tengdan stofnunum og öðrum opinberum kerfum. Í starfi með flóttamönnum, sérstaklega fórnarlömbum pyndinga, hafi hann kynnst mannréttindabrotum af öllu tagi. Þá kunni hann skil á lögum og samningum um mannréttindi og jafnrétti.
  18. Í ferilskrá kæranda hafi verið greint frá ofangreindu. Því liggi beint við að álykta að framkvæmdastjóri kærða eigi við „gender studies/women studies“. Það sé tiltölulega nýtt nám við háskóla í vestrænum ríkjum og snúist um kvenfrelsunarfræði eða femínisma og baráttu gegn svokölluðu feðraveldi. Þá veltir kærandi því upp hvað felist nánar í slíku námi og rekur ýmsar kenningar og rit fræðimanna sem lagt hafi stund á rannsóknir á því sviði.
  19. Kærandi dregur þær ályktanir að rannsóknir og fræði í þess háttar námi snúist að mestu leyti um karlfólsku, stöðu kvenna og kvenfrelsun frá ýmsum sjónarhólum.
  20. Kæranda sé fyrirmunað að skilja að slíkt nám hafi verið metið til sérstakra verðleika umsækjanda um stöðu sérfræðings við kærða. Markmið þess og inntak sé beinlínis í blóra við þá jafnréttishugsun sem flestir aðhyllist. Mat kærða á þessum hæfnisþætti kæranda hafi verið óskiljanlegt.
  21. Hæfnisþátturinn þekking eða reynsla af verkefnastjórnun hafi gilt 23%. Hefði umsækjandi þekkingu á aðferðafræði verkefnastjórnunar hafi hann fengið 2 stig, hefði hann stýrt verkefnum hafi hann fengið 3 stig og hefði umsækjandinn lokið námi í verkefnastjórnun hafi hann fengið 4 stig. Kærandi hafi fengið 2 stig en sá sem ráðinn hafi verið fengið 4 stig.
  22. Eins og áður hafi verið drepið á sé þekking á verkefnastjórnun, er varði stofnanir, samskipti og samvinnu, sótt að miklu leyti til samfélags- og sálfræða. Undirgreinar sem snúi þráðbeint að þessu sviði séu til dæmis vinnusálfræði, stofnanafélagsfræði, menntunarfræði og félagssálfræði. Auk þess hafi kærandi lokið 30 eininga námi á þessu undirsviði gagngert. Þróunar- og samstarfsverkefni af ýmsu tagi innan stofnana, milli stofnana á þjóðlegum og alþjóðlegum grunni, hafi verið hluti af hlutverki kæranda sem stjórnandi í öllum þeim stofnunum sem hann hafi stýrt. Í þeirri fjölmennustu hafi hann borið ábyrgð á tæplega tvö hundruð manns í um það bil 180 stöðugildum. Umtalsverð kennslureynsla kæranda hafi hvergi verið nefnd. Hann hafi hlotið hæfnisviðurkenningar sem lektor við Háskólann í Ósló, Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn og Kaupmannahafnarháskóla og kennt meðal annars kynfræði og haldið námskeið um mannréttindi í ljósi pyndinga. Mat á hæfni hans hvað þennan þátt hafi varðað hafi að öllu leyti verið út í hött.
  23. Hæfnisþátturinn mjög góð færni í íslensku í ræðu sem riti hafi gilt 20%. Væru margar villur í umsóknargögnum hafi umsækjandi fengið 1 stig, hefði umsækjandi skilað hluta umsagnargagna á ensku hafi hann fengið 2 stig og hefði ferilskrá og gögn sýnt góða kunnáttu í íslensku hafi umsækjandi fengið 4 stig. Kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi báðir fengið 4 stig.
  24. Kærandi velti því upp hvernig það megi vera að kunnátta í íslensku hafi verið metin á grundvelli fylgigagna á ensku. Hafi það verið svo hvers vegna hafi þá ekki verið á það bent í auglýsingu um starfið. Hver hafi aðferðin verið að öðru leyti við slíkt mat að umfram það að margar villur væru í umsóknargögnum og hefði ferilskrá og gögn sýnt góða íslensku. Hvers konar villur hafi verið átt við. Hvernig hafi kærði yfirleitt getað metið íslenskukunnáttu kæranda í ræðu þegar fulltrúar kærða hafi aldrei heyrt hann tala. Búi hann yfir sérstakri og viðurkenndri þekkingu á íslensku.
  25. Kærandi hafi skrifað umtalsvert á íslensku í rúma tvo áratugi; sjúkraskýrslur, umsagnir ýmis konar, umsóknir, álitsgerðir, prófritgerðir, tímaritsgreinar og blaðagreinar. Venjulega hafi hann verið talinn vel máli farinn og ritfær. Honum hafi komið verulega á óvart að umsækjandi með nokkurra ára starfsreynslu hafi verið metinn til jafns að þessu leyti og röksemdalaust.
  26. Hæfnisþátturinn góð kunnátta í ensku hafi gilt 10%. Hefði umsækjandi ekki notað ensku í námi eða starfi hafi hann fengið 1 stig. Hefði umsækjandi í umsókn sinni lýst góðri almennri kunnáttu hafi hann fengið 2 stig. Hefðu umsóknargögn sýnt: stutta búsetu í enskumælandi landi eða nám á ensku eða enska notuð í starfi hafi umsækjandi fengið 3 stig. Hefðu umsóknargögn sýnt: búsetu í enskumælandi landi eða mikið reynt á enskukunnáttu í starfi hafi umsækjandi fengið 4 stig. Kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi báðir fengið 2 stig.
  27. Kærandi hafi öðlast grundvallarkunnáttu í ensku við nýmáladeild Menntaskólans í Reykjavík. Auk þess hafi hann numið ensku við Kings College í London, aðallega til að slípa framburð. Fleirþjóðasamskipti utan Norðurlandanna hafi iðulega farið fram á ensku, framhaldsnám, þing og ráðstefnur sömuleiðis. Kærandi hafi dvalið um nokkurra vikna skeið í London við enskunám, ferðast mánuðum saman um Stóra-Bretland, Írland, Bandaríki Norður-Ameríku, Kanada, Nýja-Sjáland og Ástralíu. Hann hafi lesið ógrynni bóka og tímaritsgreina á ensku og auk þess skrifað bæði umsóknir og faglegar samantektir á þeirri tungu.
  28. Kærandi hafi notað ensku að töluverðu leyti í klínísku starfi með skjólstæðinga og í samstarfi við starfsfólk. Hann undrist hvernig umsækjandi með nokkurra ára reynslu hafi í þessu efni verið lagður að jöfnu. Sé kærandi rétt upplýstur fari lögfræðinám á Íslandi að mestu leyti fram á íslensku. Málakunnátta umfram ensku hafi ekki verið metin af kærða. Það sé afar sérkennilegt.
  29. Niðurstaðan hafi verið sú að kærandi hafi fengið 14 stig (vegið meðaltal 2,80) og sá sem ráðinn hafi verið hafi fengið 17 stig (vegið meðaltal 3,53). Þessi talnaleikur hafi verið byggður á hæfnismati sem sé óvandað og hlutdrægt. Því sé það bæði ómaklegt og ómarktækt. Auk þess sé það hæpin stærðfræði að hafa metið í heilum tölum og reiknað meðaltal í brotum. Vegið meðaltal kæranda samkvæmt þessu mati hafi því átt að hafa verið 3 og þess sem ráðinn hafi verið 4, enda þótt aðeins hafi munað 0,73. Í röksemdafærslubréfum kærða hafi hvergi verið gerð grein fyrir hlutfallslegu mikilvægi hinna fimm þátta.
  30. Enginn vafi leiki á að kæranda hafi verið mismunað, sbr. 1. gr. laga nr. 86/2018. Með tilvísan til 15. gr. laganna um sönnunarbyrði telji kærandi sig hafa leitt líkur að því að mismunun hafi átt sér stað. Kæranda sé ekki ljóst hvað hafi valdið en hann vísi til 2., 3. og 7. tölul. 3. gr. laga nr. 86/2018.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  31. Kærði segir að hvergi í athugasemdum kæranda sé vikið að því hvernig hann telji sér mismunað vegna aldurs og því erfitt að bregðast við því að öðru leyti en að gera grein fyrir ráðningarferlinu.
  32. Starfið hafi verið auglýst laust til umsóknar 14. ágúst 2020. Auglýsingar hafi verið birtar á Starfatorgi og í Fréttablaðinu, auk heimasíðu kærða. Umsóknarfrestur hafi runnið út 31. ágúst. Alls hafi borist 39 umsóknir um starfið, sex frá körlum og 33 frá konum.
  33. Í upphafi máls hafi verið farið yfir þær menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar hafi verið samkvæmt starfsauglýsingu og sett upp matsviðmið. Ákvörðun kærða um ráðningu sérfræðings sé matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verði almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2020.
  34. Þegar umsóknir höfðu borist hafi verið nauðsynlegt að vinna frummat og afmörkun á umsækjendum áður en lengra yrði haldið. Framkvæmdastjóri kærða hafi því farið yfir allar umsóknir og framkvæmt greiningu út frá hinum fyrir fram skilgreindu matsviðmiðum. Matsviðmiðin hafi því verið notuð til að meta framlögð gögn umsækjenda, ferilskrár og kynningarbréf og þar með vinna forsendur fyrir því hvaða umsækjendur skyldu fá boð um viðtal. Niðurstaðan hafi orðið sú að þeir 13 umsækjendur sem hafi raðast efst í matinu hafi verið boðaðir í viðtal. Horft hafi verið til þeirra mælikvarða sem teljist mega hlutlægir. Þeir þættir sem hæst vægi hafi haft hafi annars vegar verið þekking á sviði kynja- og jafnréttismála (27%) og hins vegar þekking eða reynsla af verkefnastjórnun (23%). Samanburður umsækjenda hafi verið byggður á umsóknargögnum og stigafjöldi ákvarðað hvaða umsækjendum yrði boðið í viðtal.
  35. Kærandi hafi ekki verið á meðal þeirra 13 umsækjenda sem hafi raðast hæst og hafi því ekki verið boðaður í viðtal. Umsókn hans hafi því ekki komið til frekara mats.
  36. Hér á eftir verði farið yfir þá þætti sem kærandi hafi gert athugasemdir við en enginn þeirra varði þó meinta mismunun vegna aldurs. Leitast verði við að svara málefnalega þeim atriðum sem við eigi.
  37. Vegna hæfnisþáttarins háskólamenntun sem nýtist í starfi hafi ekki verið óskað eftir tiltekinni háskólamenntun umfram það að hún nýtist í starfi. Ekki hafi verið óskað sérstaklega eftir menntun umfram grunngráðu. Kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi báðir hlotið fullt hús stiga við mat á þessum þætti. Ekki hafi þótt ástæða til að leggja mat á gæði menntastofnana.
  38. Í hæfnisþættinum þekking á sviði kynja- og jafnréttismála, sbr. gildissvið laga nr. 10/2008, 85/2018 og 86/2018, hafi kærandi fengið 2 stig þar sem umsókn hans hafi sýnt takmarkaða þekkingu og sá sem ráðinn hafi verið 3 stig þar sem umsókn hans hafi sýnt fram á starfsreynslu á þessu sviði í 1-3 ár.
  39. Samkvæmt skilgreiningu Háskóla Íslands, sem bjóði upp á nám í kynfræði, sé markmið náms í kynfræði að efla þekkingu og skilning á manneskjunni sem kynveru í heildrænum skilningi. Verkefni kærða lúti ekki að manneskjunni sem kynveru. Kærði sé stofnun sem annist stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög þar um.
  40. Hagnýt jafnréttisfræði sem vísað hafi verið til í matsviðmiðum sé einnig kennd við Háskóla Íslands. Sú námslína gangi út frá því að kyn sé grundvallarstærð í tilverunni og eitt af því sem skapi margbreytileika mannlífsins rétt eins og kynhneigð, þjóðernisuppruni, aldur, stétt, fötlun og fleiri félagslegir áhrifaþættir. Allt þetta sé viðfangsefni kynjafræðinnar sem sé þverfagleg grein.
  41. Vegna hæfnisþáttarins þekking eða reynsla af verkefnastjórnun vísi kærandi væntanlega til náms síns í stjórnun. Í umsóknarbréfi hafi hann sagt um verkefnastjórnunarreynslu sína: „Verkefnastjórnun var liður í stjórnunarnámi mínu, svo og vitaskuld í fleiri greinum náms og að öðru leyti út frá mismunandi sjónarhólum.“ Niðurstaðan hafi því verið sú að kæranda hafi verið gefin 2 stig fyrir þekkingu á aðferðafræði verkefnastjórnunar. Hann hafi að öðru leyti ekki gert grein fyrir reynslu sinni, til dæmis við stjórnun verkefna. Sá sem ráðinn hafi verið hafi fengið 4 stig vegna reynslu og fyrir að vera með D-vottun IPMA í verkefnastjórnun.
  42. Í hæfnisþættinum mjög góð færni í íslensku í ræðu sem riti hafi kærandi og sá sem ráðinn hafi verið fengið jafn mörg stig þar sem ferilskrár þeirra beggja hafi sýnt góða kunnáttu í íslensku. Eins og áður hafi komið fram hafi matsramminn verið settur fram til þess að leggja mat á framlögð gögn umsækjenda, ferilskrár og kynningarbréf í því skyni að velja úr þá umsækjendur sem hafi fengið boð í viðtöl. Í þessum þætti hafi því þurft að byggja á fyrirliggjandi gögnum.
  43. Vegna hæfnisþáttarins góð kunnátta í ensku sé aftur vísað til þess að þegar mat hafi verið lagt á umsóknargögn hafi að sjálfsögðu verið miðað við þær upplýsingar sem þar hafi komið fram. Kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi fengið jafn mörg stig þar sem þeir hafi lýst góðri almennri enskukunnáttu í umsóknum sínum.
  44. Kærði hafni þeirri fullyrðingu kæranda að hæfnismatið hafi verið óvandað og hlutdrægt. Hvað varði athugasemd um að hvergi hafi verið gerð grein fyrir hlutfallslegu mikilvægi matsþátta sé bent á að það hafi komið skýrt fram í matstöflu sem hafi verið í rökstuðningi til kæranda, dagsettum 30. september 2020, og einnig í bréfi til hans, dagsettu 6. október 2020, þar sem öðrum aðferðum hafi verið beitt til að útskýra matsniðurstöðuna að beiðni kæranda.
  45. Í kærunni sé hvergi vikið að atriðum sem gefi til kynna að kæranda hafi verið mismunað vegna aldurs. Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 8/2020 komi eftirfarandi fram: „Séu vísbendingar um að umsækjanda hafi sérstaklega verið mismunað á grundvelli aldurs við ráðningu í starf kemur til greina að beita 8. gr. laga nr. 86/2018 við úrlausn máls…“ Nefndin hafi síðan vísað til þess máls sem þar um ræði og sagt: „Í máli þessu hefur kærandi aftur á móti ekki dregið fram í málatilbúnaði sínum einstök atriði sem gefa til kynna að hún hafi orðið fyrir mismunun á grundvelli aldurs hennar og bera gögn málsins slíka mismunun ekki með sér. Að þessu virtu hefur kærandi ekki leitt líkur að því að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 86/2018, sbr. 15. gr. laganna.“
  46. Kærði telji þessi rök einnig eiga við í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Ekkert í kærunni hafi vikið að því hvernig kærði eigi að hafa brotið á kæranda út frá 8. gr. laga nr. 86/2018 og því ómögulegt að bregðast við þeirri fullyrðingu á annan hátt en hér hafi verið gert, þ.e. að sýna fram á að faglega hafi verið staðið að ráðningunni.
  47. Ákvörðun um veitingu starfs feli jafnan í sér val á milli tveggja eða fleiri umsækjenda þar sem leitast sé við að velja hæfasta umsækjandann í tiltekið starf.
  48. Ráðningarferlið hafi miðað að því að ráða hæfasta umsækjandann í umrætt starf og hafi verið unnið á grundvelli faglegra og málefnalegra sjónarmiða. Gerður hafi verið heildstæður samanburður á umsækjendum út frá matsramma sem hafi tekið mið af þeim hæfniskröfum sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið, matsramma sem settur hafi verið upp vegna úrvinnslu úr viðtölum og matsramma sem settur hafi verið upp vegna umsagna um þá umsækjendur sem best hafi komið til greina í starfið.

     

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  49. Kærandi segir að hugtakanotkun sé óvenjuleg í sambandi við kröfur um menntun. Leitað hafi verið eftir sérfræðingi með grunnmenntun. Það hafi ekki verið frekar útskýrt hvað fælist í grunnmenntun. Venjulega sé átt við BA próf eftir að hin evrópska samræming háskólamenntunar hafi átt sér stað. Það hafi heldur ekki verið útskýrt hvernig grunnmenntun væri fullnægjandi undirbúningur til sérfræðingsstarfa.
  50. Hvernig sem því líði hafi kærandi að minnsta kosti tvenns konar grunnmenntun og sé BA í sögu og heimspeki þá ekki meðtalin, þ.e. danskt kandidatspróf í sálfræði, metið 277 stig í námsmati menntamálaráðuneytis fyrir fyrrgreinda samræmingu og jafngildi algengustu doktorsprófa, og svo norskt kandidatspróf í samfélagsvísindum, 9 annir (mannfræði, uppeldisfræði, félagsfræði) einni önn meira en tilskilið hafi verið, til 202 stiga eftir því sem kæranda minni. Hvorugt hafi þótt vera fullnægjandi menntun sem nýtist í starfi og því ekki ástæða til að boða kæranda í viðtal. Kæranda hafi því ekki verið skipað á bekk hinna 13 útvöldu.
  51. Tæpra 40 ára fagreynsla af opinberum stofnunum við alls konar úrlausnarefni fólks, hópa, þar með taldar fjölskyldur, og stofnana, þar með talin stofnanaþróun, viðurkennd sérmenntun á sviði klínískrar sálfræði og sálgreiningar, 30 eininga nám í stjórnun og skipulagningu við viðurkenndan háskóla, svo og áralöng háskólakennsla sem lektor á sviði félagssálfræði og fleiri undirgreina sálfræðinnar hafi ekki dugað til að kærandi yrði boðaður í viðtal. Fyrir honum sem yfirmanni stórra opinberra stofnana sé slíkt viðhorf einskær opinberun. Það hafi einnig komið á óvart að menntun hafi ekki verið metin með hliðsjón af þeirri stofnun sem menntunina hafi veitt. Það sé venja við ráðningar og auðvelt að nálgast slíkt mat. Sjálfur hafi kærandi ráðið einhverja tugi starfsmanna.
  52. Þekking á sviði kynja- og jafnréttismála hafi verið tilgreind sem menntunar- og hæfniskrafa. Þarna hafi kæranda verið gefin falleinkunn í fyrsta sinn á löngum ferli. Hann hafi verið sagður hafa takmarkaða þekkingu á sviði kynja- og jafnréttismála. Tilgreindur hafi verið skilningur Háskóla Íslands á kynfræði (líklega sexologi/sexology), sem samkvæmt framkvæmdastjóra kærða felist í að efla þekkingu og skilning á manneskjunni sem kynveru í heildrænum skilningi. Á þessum grundvelli hafi kærði útskýrt að verkefni hans lúti ekki að manneskjunni sem kynveru. Kærandi velti því upp að varla sé kynveruhluti mannverunnar þó undanskilinn í verkefnum kærða og hvernig það megi vera að þekking og hæfni í kynjafræði hafi þá verið tilgreind sem hæfniskrafa. Enda hafi kynfræði samt sem áður virst skipta máli, en aðeins hefði hún verið numin á námslínu við Háskóla Íslands sem sé kölluð hagnýting jafnréttisfræði. Þar sé gengið út frá því að kyn sé grundvallarstærð í tilverunni og eitt af því sem skapi margbreytileika mannlífsins rétt eins og kynhneigð, þjóðernisuppruni, aldur, stétt, fötlun og fleiri félagslegir áhrifaþættir. Framkvæmdastjóri kærða hljóti að gera sér grein fyrir því að kunnátta hagnýtingarkynfræðinga af fyrrgreindri námslínu sé um þessi efni sótt í sögu, heimspeki, sál- og samfélagsfræði.
  53. Kærandi velti því upp hvernig það megi vera að þátttaka þess sem ráðinn hafi verið um tveggja og hálfs árs skeið í áhugamannasamtökum um ofbeldi karla gegn konum, þótt gagnleg geti verið, hafi verið metin 50% gildari en fagleg reynsla kæranda af uppeldislegri og klínískri kynfræði í áratugi, þar með talið tveggja ára starf á fremstu sérfræðistofnun Danmerkur með sérstaka ábyrgð á sálfræðilegum prófunum þeirra sem þar hafi sótt um kynskipti. Nám kæranda til kynfræðings, þ.e. námskeið, handleiðsla og starfsreynsla, hafi greinilega ekki verið metið og ekki heldur eigin kennsla í kynfræði á sérfræðistigi. Þetta hafi ekki þótt hlutlægur mælikvarði. Ekki hafi legið fyrir neinar skýringar á því hvers vegna menntun og reynsla hafi vegið rúman fjórðung við mat á umsækjendum.
  54. Ekki hafi heldur verið gefin skýring á því hvers vegna þekking eða reynsla af verkefnastjórnun hafi hér um bil haft sama vægi. Sá sem starfið hafi fengið hafi verið talinn 100% hæfari á þessu sviði en kærandi, þrátt fyrir verulega takmarkaðri stjórnunarreynslu sem eðli málsins samkvæmt feli í sér verkefnastjórnun, gæðastjórnun, stofnanaþróun og yfirumsjón með verkefnum.
  55. Verkefnanám þess sem starfið hafi fengið hafi hvergi verið metið í viðurkenndum einingum háskólanáms. Það sé á vegum fyrirtækis í eigu einstaklinga og það sé ekki að sjá að Háskólinn á Akureyri hafi í sjálfu sér komið nálægt inntaki, kennslu og námsmati. Á námskeiðinu sé fjallað um leiðtogafærni, samskiptaþjálfun, stefnumótunarfærni og skipulagsfærni. Kennslan sé fólgin í úrlausn raunhæfra verkefna á grundvelli hagnýtra aðferða. Samkvæmt áherslunni, sem kærði hafi lagt á þennan þátt í menntun þess sem starfið hafi hlotið, hafi komið á óvart að ekki væri krafist menntunar á háskólastigi. Þar að auki hafi greinilega enginn áhugi verið sýndur á því hvað felist í alþjóðlegri vottun eða D-vottun hjá einhverju sem sé kallað „Certified Project Management Associate“.
  56. Hvernig sem því líði virðist framkvæmdastjóri kærða þrátt fyrir allt hafa lagt verulegar áherslur á þær greinar þar sem kærandi hafi til að bera viðurkennda háskólamenntun og langa fagreynslu en aðeins hafi þær verið numdar við háskólalínu Háskóla Íslands í jafnréttisfræði og í námi á vegum Nordica í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun.
  57. Námi Nordica, sem hafi yfirskyggt menntun kæranda og fagreynslu á þessu sviði, sé þannig lýst: „Námið er ætlað áhugasömu og dugmiklu fólki sem hefur vilja til að efla færni sína í starfi og leik“. Þegar kærandi hafi enn eina ferðina sest á skólabekk til að nema við Viðskiptaháskólann í Björgvin hafi hann haft áratuga fagreynslu og fræðilega þekkingu á því sem námið hafi snúist um sem óbreyttur sálfræðingur, sérfræðingur í klínískri sálfræði og yfirmaður.
  58. Að þessu sögðu virðist kæranda ljóst að fram hjá honum hafi verið gengið. Umsvifamikil menntun og áratuga haldgóð fagreynsla, sem venjulega hafi verið talin til hæfni og gagns í sambærilegum störfum, hafi nánast kerfisbundið virst hafa verið virt að vettugi. Það liggi við borð að aldur hafi þurft til, og jafnvel mikið af honum, til að öðlast hvoru tveggja. Það sé vandséð hvaða þáttur annar gæti útskýrt málið en aldur, sérstaklega í ljósi tiltölulega stuttrar grunnmenntunar, takmarkaðrar reynslu og ungs aldurs þess sem starfið hafi fengið. En ekki sé útilokað að eitthvað annað hafi ráðið för við meinta mismunun. Það verði vonandi leitt í ljós.
  59. Að síðustu veki það athygli að enn hafi sá sem starfið hafi fengið ekki hafið störf, enda þótt lögð hafi verið sérstök áhersla á að ráðið yrði í stöðuna sem allra fyrst. Kærandi hafi verið tilbúinn 1. september 2020.
  60. Háskólinn í Kaupmannahöfn sé samkvæmt matskerfi „Center for World University Rankings“ númer 38 í hópi þeirra bestu, háskólinn í Ósló númer 56, háskólinn í Árósum númer 107 og Viðskiptaháskólinn í Björgvin númer 39 meðal viðskiptaháskóla samkvæmt Financial Times. Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands hafi kærandi hvergi séð komast á blað.

     

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  61. Kærði áréttar og ítrekar að í auglýsingu fyrir starfið hafi verið gerð krafa um þekkingu á sviði kynja- og jafnréttismála, sbr. gildissvið laga nr. 10/2008, laga nr. 85/2018 og laga nr. 86/2018.
  62. Kærandi sé augljóslega með reynslu og þekkingu á kynfræði, þar á meðal sálfræðilegum prófunum vegna kynskipta eins og fram hafi komið í umsóknargögnum og áréttað hafi verið í athugasemdum hans við greinargerð kærða. Kynfræði sé aftur á móti ekki sú þekking sem óskað hafi verið eftir, enda séu málefni sem snerti kynfræði ekki til úrlausnar í störfum kærða, sbr. ofangreind lög. Kærði hafi hvorki hlutverk gagnvart þeim sem óski eftir kynleiðréttingu né heldur vinni kærði með kynraskanir sem kærandi vísi til reynslu af vinnu við.
  63. Enn sé erfitt að ráða af kæru og athugasemdum kæranda hvernig kærði eigi að hafa brotið á honum út frá 8. gr. laga nr. 86/2018.

     

    FREKARI ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  64. Kærandi vísar til þess að honum hafi borist umsögn um þann sem ráðinn hafi verið og úrvinnsla umsóknarviðtals. Í umfjöllun um þessi gögn vék kærandi meðal annars að því að viðkomandi hafi verið spurður að hvers vegna kærði ætti að ráða hann og hvenær hann gæti hafið störf. Í svörum hans, sem kærði hafi ritað niður, hafi komið fram að kærði viti að hverju hann gengi yrði hann ráðinn. Einnig að áhugasvið og styrkleikar lægju þarna, kynjamál, verkefnastjórn. Hann væri traustur, mæti í vinnu, vinni vel og hefði gaman af vinnunni.
  65. Svo sé að sjá að kærða hafa verið mikilvægt að vita að hverju hann gengi við ráðningu starfsmanns. Nýtt blóð eða þekking virðist ekki hafa verið æskileg. Til dæmis hafi verið lögð áhersla kynjamál. Bent hafi verið á tengslanet umsækjenda hérlendis og erlendis að því er virðist í tengslum við Aflið, áhugamannasamtök um ofbeldi karla gegn konum. Það sé býsna þröngt sjónarhorn, og reyndar rangt á ýmsan mælikvarða, á gagnkvæmt ofbeldi karla og kvenna og ofbeldi kynjanna að öðru leyti.

     

    NIÐURSTAÐA

  66. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði kemur fram að markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr., kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, meðal annars hvað varðar aðgengi að störfum og þar á meðal við ráðningar. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó tilvitnaðar undantekningar. Ef leiddar eru líkur að mismunun samkvæmt ákvæðum laganna skal sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar hafi ekki tengst einhverjum þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 6. gr. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að jafnri meðferð á vinnumarkaði í samræmi við markmið laganna.
  67. Kærði auglýsti laust til umsóknar starf sérfræðings 14. ágúst 2020 með umsóknarfresti til 31. ágúst. Þess var getið að starfshlutfall væri 80% og að um væri að ræða krefjandi starf í frjóu umhverfi sérfræðinga á sviði jafnréttis- og mannréttindamála þar sem reyndi á öguð vinnubrögð, ábyrgð og sjálfstæði. Rakið var að kærði annaðist stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Helstu verkefni sérfræðings voru talin sem umsjón með fræðslu og upplýsingastarfsemi um jafnréttismál á gildissviði laga nr. 10/2008, nr. 85/2018 og nr. 86/2018, verkefnastýring og þátttaka í innlendum og erlendum samstarfsverkefnum og þátttaka í öðrum verkefnum sem falla undir starfsemi stofnunarinnar. Hæfniskröfur voru skilgreindar sem háskólamenntun sem nýtist í starfi, þekking á sviði kynja- og jafnréttismála, sbr. gildissvið hinna tilgreindu laga; þekking eða reynsla af verkefnastjórnun; mjög góð færni í íslensku í ræðu sem riti; góð kunnátta í ensku; metnaður og vilji til að ná árangri; frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum og greiningar- og skipulagshæfni; hæfni til að miðla upplýsingum með skipulögðum og skýrum hætti.
  68. Í fyrirliggjandi starfslýsingu sérfræðings hjá kærða var meðal helstu viðfangsefna skilgreint að slíkir starfsmenn væru sérfræðingar í þeim málefnum sem lytu að lögum nr. 10/2008, nr. 85/2018 og nr. 86/2018. Kveðið er á um hlutverk kærða í II. kafla laga nr. 10/2008, sbr. 3. gr. laganna, þar sem þess er getið að kærði sé sérstök stofnun sem annist stjórnsýslu á því sviði sem lögin taka til. Verkefni kærða eru tiltekin í 3. mgr. 4. gr. laganna og þess getið að þau felist meðal annars í þeim atriðum sem talin eru í stafliðum a til m: að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi, veita ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna, koma á framfæri við stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, koma með tillögur að sértækum aðgerðum, auka virkni í jafnréttismálum, fylgjast með þróun jafnréttismála í þjóðfélaginu, veita jafnréttisnefndum og fleiri stofnunum sveitarfélaga aðstoð, vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði, leita sátta í ágreiningsmálum sem kærða berast, breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla og vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Tekið er fram í 5. gr. laga nr. 85/2018 og 5. gr. laga nr. 86/2018 að kærði annist framkvæmd laganna og að 4. gr. laga nr. 10/2008 gildi eftir því sem við getur átt.
  69. Kærði hefur greint frá því að með það að markmiði að ráða hæfasta umsækjandann hafi verið unnið að heildstæðum samanburði á umsækjendum út frá mati sem unnið var í þremur þrepum og á grundvelli matsramma sem hafi hver tekið við af öðrum eftir því sem vinnu við ráðningarferlið vatt fram. Fyrsti matsramminn hafi tekið mið af þeim hæfniskröfum sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið en í kjölfar þess að það mat lá fyrir var fækkað í hópi umsækjenda og þrettán umsækjendum sem best höfðu komið út í því mati boðið til viðtals þar sem næsti matsrammi var hagnýttur til úrvinnslu úr viðtölum við umsækjendur og loks matsrammi sem nýttur var vegna umsagna um þá umsækjendur sem best hafi komið til greina í starfið.
  70. Ákvörðun kærða um ráðningu sérfræðings var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2020.
  71. Í ljósi þessa svigrúms kærða eru hvorki forsendur til að gera athugasemd við að útbúinn hafi verið sérstakur matskvarði til að leggja mat á hæfni umsækjenda né að horft hafi verið til auglýsingar um starf sérfræðings þegar afmarkað var hvaða hæfnisþættir voru metnir. Uppbygging ráðningarferils kærða, eins og ferlinu hefur verið lýst af hálfu kærða, styðst við málefnanleg rök, enda eðlilegt að framkvæma fyrst frummat á grundvelli þeirra matskvarða sem hagnýttir voru til að fara yfir umsóknargögn umsækjenda; umsóknir, ferilskrár og kynningarbréf. Verður enda hér sem endranær að horfa til þess að auglýsing opinberra starfa, ásamt þeirri starfslýsingu sem ætla má að liggi þeirri framsetningu til grundvallar, veiti ákveðna forsögn um þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda og þann matsgrundvöll sem veitingarvaldshafi kemur til með að byggja á til samræmis við þá óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að velja skuli hæfasta umsækjandann.
  72. Fyrir liggur að kærandi var ekki á meðal þeirra 13 umsækjenda sem best komu út úr því frummati sem kærði framkvæmdi og var honum því ekki boðið til frekari þátttöku í ráðningarferlinu. Reynir því fyrst og fremst á í máli þessu að greina hvernig sú hæfni kæranda sem metin var féll að þeim kröfum sem á reyndi í því mati í samanburði við þann sem starfið hlaut, en kærandi byggir á því að hann hafi sætt mismunun vegna aldurs. Kærandi var 69 ára þegar umrædd ráðning sérfræðings hjá kærða fór fram en sá sem starfið hlaut var tæplega 52 ára gamall og byggir kærandi mál sitt á því að sá karlmaður hafi notið þess að vera yngri að árum.
  73. Þær hæfniskröfur sem komu til skoðunar í fyrsta matsþætti, metið á grundvelli umsóknargagna, voru háskólamenntun sem nýtist í starfi, þekking á sviði kynja- og jafnréttismála með vísan til laga nr. 10/2008, nr. 85/2018 og nr. 86/2018, þekking eða reynsla af verkefnastjórnun, góð færni í íslensku í ræðu sem riti og góð kunnátta í ensku. Samanlagt vægi þessara matsþátta var 30 stig en vægi þeirra var mismikið. Þyngst vó þekking á sviði kynja- og jafnréttismála með vísan til tilgreindra laga, 27% - 8 stig af 30. Þá þekking eða reynsla af verkefnastjórnun 23% - 7 stig af 30. Háskólamenntun sem nýttist í starfi og góð færni í íslensku í ræðu sem riti vógu hvoru tveggja 20% eða 6 stig af 30 hvort. Góð kunnátta í ensku var metin til 10% eða 3 stiga af 30. Gefin voru eitt til fjögur stig vegna hvers matsþáttar eftir því sem metið var að umsækjendur fullnægðu hæfniskröfunum.
  74. Kærandi hlaut 14 stig af 30 mögulegum en sá sem starfið hlaut 17 stig en þegar tekið hefur verið tillit til mismunandi vægis einstakra hæfnisþátta kemur fram að sá sem starfið hlaut fullnægði þessum hæfniskröfum að 93,25% leyti, fékk sem nemur 28 stigum af 30 (menntun 6 stig, þekking á sviði kynja- og jafnréttismála 6 stig, verkefnastjórnun 7 stig, íslenska 6 stig og enska 3 stig). Kærði taldist fullnægja þessum hæfniskröfum að 75% leyti, fékk sem nemur 22,5 stigum af 30 (menntun 6 stig, þekking á sviði kynja- og jafnréttismála 4 stig, verkefnastjórnun 3,5 stig, íslenska 6 stig og enska 3 stig). Mismunur á milli þeirra varð svo mikill sem raun ber vitni þar sem kærði mat muninn mestan í þeim tveimur hæfnisþáttum sem vógu þyngst, þ.e. þekkingu á sviði kynja- og jafnréttismála og verkefnastjórnun. Kærandi gerir athugasemdir við niðurstöðu kærða um alla þá hæfnisþætti sem metnir voru.
  75. Í auglýsingu kærða var skilgreind hæfniskrafa er laut að háskólamenntun sem nýtist í starfi. Tekin var afstaða til menntunar kæranda og þess sem starfið hlaut og þeim báðum gefið fullt hús stiga, 4 stig. Fyrir liggur að kærandi bjó að umtalsvert meiri menntun en sá sem starfið hlaut en sá síðarnefndi er meðal annars með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri en kærandi með embættispróf í sálfræði, auk gráðu í samfélagsvísindum, 30 ECTS einingar í stjórnun og BA í sagnfræði og heimspeki. Meiri menntun kæranda haggar því þó ekki að háskólanám þess sem starfið hlaut fellur að skilgreiningu kærða hvað menntun snertir í starfsauglýsingu, að vera menntun sem nýtist í starfi. Kærði er stjórnsýslustofnun sem annast um lögbundin verkefni sem lögfræðimenntun nýtist vel til að leysa. Í því ljósi standa ekki rök til að gera athugasemd við það mat kærða að hafa gefið þeim sem starfið hlaut fullt hús stiga fyrir menntun með sama hætti og kæranda. Að auki er það mat kærunefndar að ekki séu forsendur til þess að taka þurfi sérstaka afstöðu til gæða einstakra menntastofnana, enda er nám kæranda og þess sem starfið hlaut ólíkt.
  76. Fyrir hæfnisþáttinn þekkingu á sviði kynja- og jafnréttismála með beinni vísun til gildissviðs laga nr. 10/2008, nr. 85/2018 og nr. 86/2018 voru kæranda gefin tvö stig en sá sem starfð hlaut fékk þrjú stig. Til að hljóta þrjú stig samkvæmt matskvarða kærða þurfti umsækjandi að búa að námi í kynjafræðum á grunnstigi eða jafnréttisfræðum sem hluta af MA námi eða hafa starfsreynlsu á sviðinu í eitt til þrjú ár. Ef umsækjandi hefði takmarkaða þekkingu eða þekking sem þessi verið lítill hluti af námi voru gefin tvö stig. Fyrir liggur að sá sem starfið hlaut greindi frá því í kynningarbréfi að hann hefði tekið kynjafræðiáfanga í BA námi í lögfræði, auk þess sem rakið er í ferilskrá að hann hafi sinnt tímabundnu starfi hjá kærða sem starfar á gildissviði tilgreindra laga. Af þeim upplýsingum má ráða að málefnanlegt hafi verið af hálfu kærða að veita honum þrjú stig fyrir þennan hæfnisþátt. Í umsókn kæranda er þess getið hvað þennan hæfnisþátt snertir að hann hafi starfað um tveggja ára skeið sem kynfræðingur en að öðru leyti vísað almennt til menntunarskrár, starfaskrár og blaðagreina á vefsíðu kæranda. Í þeim gögnum er hvergi vikið að námi eða starfi sem séð verður að eigi sér skírskotun til þeirra verkefna sem falla undir gildissvið tilvitnaðra laga. Í því ljósi eru ekki rök til að gera athugasemd við mat kæranda í þessum efnum, enda ber sá sem sækir um starf almennt ábyrgð á því sjálfur hvaða upplýsingum hann komi á framfæri, þar á meðal hvað varðar einstakar hæfniskröfur sem getið er í auglýsingu, en skírskotun kærða til laganna var afdráttarlaus og því hefði vart þurft að velkjast í vafa um inntak hæfniskröfunnar.
  77. Þriðji hæfnisþátturinn laut að þekkingu eða reynslu af verkefnastjórnun. Í matskvarða kærða voru gefin tvö stig fyrir þekkingu á aðferðafærði verkefnastjórnunar, þrjú stig fyrir að hafa stýrt verkefnum og fjögur stig fyrir nám í verkefnastjórnun. Sá sem starfið hlaut fékk fjögur stig, enda getið náms í verkefnastjórnun í umsóknargögnum og ýmissa verkefna sem hann hafði leitt. Kærandi fékk tvö stig fyrir verkefnastjórnun en í umsókn hans er þess getið að nám af þessu tagi hafi verið liður í stjórnunarnámi hans, auk fleiri námsgreina sem ekki er þó gerð nánari grein fyrir. Þegar horft er til þeirra upplýsinga sem kærandi og sá sem starfið hlaut veittu hvað þennan hæfnisþátt snertir eru ekki forsendur til að gera athugasemd við að þeim sem starfið hlaut hafi verið veitt fjögur stig. Þegar hins vegar horft er á ítarlegt yfirlit kæranda er lýtur að starfsferli hans, þar sem meðal annars er getið að hann hafi verið yfirmaður göngudeildar fyrir börn og unglinga, má álykta að hann búi að betri hæfni í þessum hæfnisþætti en að hafa einungis þekkingu á aðferðafræði verkefnastjórnunar. Ekkert bendir til þess að skilgreina hafi átt þessa hæfniskröfu svo þröngt að hún taki einvörðungu til verkefnastjórnunar er falli að fræðilegu inntaki háskólanáms á þessu sviði. Slík ályktun verður ekki dregin af orðalagi auglýsingar. Því verður að álykta að kæranda hafi borið fleiri stig í þessum hæfnisþætti en þau tvö sem hann bar úr býtum í mati kærða. Þetta breytir þó ekki heildarmati kærða sem gerð er grein fyrir í málsgrein 74 hér að ofan.
  78. Fjórði hæfnisþátturinn laut að góðri færni í íslensku í ræðu sem riti en í þeim efnum fékk bæði sá sem starfið hlaut og kærandi fullt hús stiga á þeim grundvelli að umsóknargögn þeirra fælu í sér góða kunnáttu í íslensku. Þótt athugasemd kæranda um að góð færni í ræðu verði ekki metin af skriflegum gögnum eigi við rök að styðjast eru engar forsendur til að álykta að hann hafi liðið fyrir það gagnvart þeim sem starfið hlaut, enda fékk hann jafn háa einkunn. Í þessum efnum verður að halda til haga að stigagjöf einstakra umsækjenda byggir á mati kærða á því hvernig þeir fullnægja þeim kvörðum sem settir eru fram í hæfnismati. Sú niðurstaða er ekki háð frammistöðu eða hæfni annarra umsækjenda. Samanburður á umsækjendum fer fram að mati framkvæmdu, ekki sem hluti af matinu, að því gættu að ekki séu uppi vísbendingar um að matskvarðarnir sem slíkir leiði til ólögmætrar mismununar. Slíkum vísbendingum er ekki til að dreifa í máli þessu. Af þeim sökum eru ekki rök til að gera athugasemd við mat kærða í þessum efnum.
  79. Að sama brunni ber með þá niðurstöðu að gera umsækjendum jafnhátt undir höfði hvað góða hæfni í ensku snertir en báðir fengu tvö stig. Báðir hafa búið á Norðurlöndunum, kærandi í Noregi og Danmörku og sá sem starfið hlaut í Danmörku. Eins og mat á öðrum hæfnisþáttum á þessu stigi ráðningarferilsins fór matið fram á grundvelli skriflegra gagna. Í þessu sambandi skal áréttað að í skriflegum gögnum kæranda er getið að hann hafi starfsréttindi í Bretlandi og sótt námskeið en hvorki er getið búsetu né starfs þar í landi. Sá sem starfið hlaut getur þess að hann hafi ritað BA ritgerð sína á ensku. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem skrifleg umsóknargögn höfðu að geyma eru engar forsendur til að gera athugasemdir við mat kærða fyrir þennan hæfnisþátt.
  80. Ofantaldir fimm hæfnisþættir eru allir þess eðlis að unnt er að leggja mat á þá á grundvelli skriflegra gagna, með þeirri undantekningu að kunnátta í ræðu á íslensku verður ekki metin á þeim grunni. Mat á þessum þáttum er unnt að framkvæma að verulegu leyti á hlutrænum forsendum, ólíkt þeim matsþáttum sem metnir voru í síðari hlutum ráðningarferilsins. Sú skipting er eðlileg, enda rökrétt af kærða að einbeita sér að frekara mati á þeim umsækjendum sem best féllu að þeim hlutrænu kröfum sem hann gerði, byggt á skilgreindum matskvörðum.
  81. Þegar horft er til þessara matskvarða og aðferðar sem kærði beitti eru engar vísbendingar um að þessir kvarðar hafi falið í sér mismunun gagnvart umsækjendum á grundvelli aldurs. Þá verður með vísan til ofanritaðs ekki ályktað að niðurstaða kærða hvað matið í heild eða einstaka þætti varðar hafi verið reist á ómálefnanlegum forsendum þannig að leiddar hafi verið líkur að því að mismunun vegna aldurs í andstöðu við 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði hafi átt sér stað er sérfræðingur var ráðinn í starf hjá kærða. Það er mat kærunefndar jafnréttismála að niðurstaða kærða um að sá sem starfið hlaut hafi staðið kæranda framar hafi byggt á málefnanlegum forsendum.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Jafnréttisstofa braut ekki gegn 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, er ráðið var í stöðu sérfræðings 23. september 2020 hjá kærða.

 

Björn L. Bergsson

 

Guðrún Björg Birgisdóttir

 

Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum