Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Nr. 211/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 211/2019

Þriðjudaginn 24. september 2019

A

gegn

Akureyrarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 27. maí 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 8. maí 2019, um að synja umsókn hennar um akstursþjónustu yfir sumartímann.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um akstursþjónustu yfir sumartímann hjá Akureyrarbæ með umsókn, dags. 14. mars 2019. Umsókn kæranda var synjað með bréfi búsetusviðs Akureyrarbæjar, dags. 26. mars 2019, með vísan til 2. gr. reglna um akstursþjónustu á Akureyri. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 8. maí 2019 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 27. maí 2019. Með bréfi, dags. 28. maí 2019, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Akureyrarbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. júní 2019, var beiðni um greinargerð ítrekuð. Greinargerð búsetusviðs Akureyrarbæjar barst með bréfi, dags. 26. júní 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um akstursþjónustu á ferðaþjónustubílum í sumar hjá Akureyrarbæ en hún hafi ferðaþjónustu á veturna. Kærandi telji sig þurfa akstursþjónustu allan ársins hring og því kæri hún synjun Akureyrarbæjar og öll vinnubrögð er að henni lúti. Kærandi sé ósátt við að geta ekki fengið ferðaþjónustu allan ársins hring því að líkamlegt ástand hennar sé misjafnt og hún treysti sér ekki til að fara í strætó þegar heilsan sé léleg. Þetta auki á einangrun hennar því að hún búi ein og hafi ekki fjölskyldu til að aðstoða sig og sé því háð ferðaþjónustu þegar heilsan sé slæm. Það sé mikilvægt fyrir kæranda að hafa aðgang að ferðaþjónustunni sem hún muni nýta þegar heilsan sé slæm, en hún muni nota strætó þegar heilsan leyfi.

Kærandi vísar til 25. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga um markmið stuðningsþjónustu. Umsókn kæranda hafi fylgt læknisvottorð, dags. 6. mars 2019, sem undirstriki samþættan vanda hennar en það séu mörg atriði sem varði heilsu hennar og hvernig líkami hennar hafi brugðist við hinum ýmsu aðstæðum. Kærandi hafi óskað eftir því við heimilislækni að orða vottorðið skýrar með umsókn svo að ekki færi á milli mála hvernig heilsa hennar sé og hvaða afleiðingar hún hafi. Hann hafi gert það og fylgi vottorðið með endurorðað.

Kærandi telji sig vera færa um að segja til um hvaða aðstoð hún þurfi og hvenær hún þurfi hana. Kærandi telji að þessi synjun grundvallist á sýn starfsfólks á geðfötlun hennar og efasemdum þeirra um að hún sé fær um að meta eigin aðstæður. Synjun á slíkum grundvelli sé ekki í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna.

Það hafi ekki verið haft samráð við kæranda þegar kom að ákvörðunartöku um ferðaþjónustu eða til að fá frekari upplýsingar um hennar sjónarmið og ástæður, hvorki af hálfu þeirra sem höfðu tekið við umsókn kæranda eða af hálfu velferðarráðs, líkt og 8. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga geri ráð fyrir. Í umsókn kæranda séu læknisvottorð og bréf kæranda til velferðarráðs sem séu fullnægjandi gögn til að sýna fram á að hún búi við „langvarandi skerðingar sem hafa leitt til kostnaðar sem hefur áhrif á minn fjárhag“ sem falli undir 2. gr. reglna um akstursþjónustu á Akureyri. Kærandi efist um að það sé réttmætt hjá Akureyrarbæ að tengja þjónustu, sem sótt hafi verið um út frá fötlun, við fjárhag og nota hann sem mælikvarða. Ekkert sé í leiðbeinandi reglum fyrir sveitarfélagið né öðrum lögum sem styðji það.

III. Sjónarmið Akureyrarbæjar

Í greinargerð Akureyrarbæjar er vísað til þess að forstöðumenn heimaþjónustu búsetusviðs hafi ritað greinargerð til velferðarráðs Akureyrarbæjar vegna synjunar matshópsins á umsókn kæranda um akstursþjónustu yfir sumartímann. Í henni komi fram að kærandi sé með akstursþjónustu yfir vetrartímann vegna óöryggis við göngu í hálku. Kæranda hafi verið synjað um aksturþjónustu yfir sumartímann á þeirri forsendu að hún noti engin gönguhjálpartæki og sé með góða færni. Vitræn geta sé góð þannig að kærandi sé áttuð í tíma og rúmi og kunni þar af leiðandi á leiðarkerfi almenningsvagna. Við mat á þörf fyrir akstursþjónustu sé horft á notkun hjálpartækja, hreyfifærni og vitræna getu. Það hafi því verið mat matshóps búsetusviðs að kærandi uppfylli ekki þau skilyrði sem þurfi að vera fyrir hendi til þess að akstursþjónusta sé samþykkt allan ársins hring. Þjónustunni yfir sumartímann hafi því verið synjað. Matið sé framkvæmt af matsfulltrúa búsetusviðs sem sé iðjuþjálfi að mennt og styðjist við viðurkennd matstæki.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Akureyrarbæjar um synjun á umsókn kæranda um akstursþjónustu yfir sumartímann á grundvelli 2. gr. reglna um akstursþjónustu á Akureyri.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er fjallað um rétt fatlaðs fólks til akstursþjónustu en þar segir í 1. mgr. að fatlað fólk skuli eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kjósi og á þeim tíma sem það velji gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur fram í 2. mgr. 29. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það njóti samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Í 3. mgr. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að ráðherra setji nánari leiðbeiningar um akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem meðal annars skuli kveðið á um tilhögun á akstri utan sveitarfélags og kostnaðarskiptingu vegna akstursþjónustu í dreifbýli. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá sé sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skuli setja og gjaldið skuli vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

Akureyrarbær hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum um akstursþjónustu á Akureyri sem tóku gildi 1. júní 2010. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að megintilgangur akstursþjónustu Akureyrarbæjar sé sá að notendur hennar geti stundað vinnu, nám, þjálfun, notið heilbrigðisþjónustu, hæfingar hvers konar og tómstunda. Ferðir vegna vinnu, þjálfunar, heilsugæslu og hæfingar gangi fyrir öðrum ferðum. Fjöldi ferða til annarra nota sé háður takmörkunum og miði við að þær séu ekki fleiri en 20 á mánuði. Miða skuli við að ferðir fyrir einstakling verði ekki fleiri í heild en 70 á mánuði. Í 1. mgr. 2. gr. reglnanna er vísað til þess að akstursþjónusta Akureyrarbæjar sé ætluð til afnota fyrir þá einstaklinga sem eigi lögheimili í Akureyrarkaupstað og geti ekki vegna langvarandi skerðingar á færni notað almenningsvagnaþjónustu og hafi ekki aðgang að eigin farartæki eða geti vegna aðstæðna sinna ekki nýtt sér það. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að með langvarandi skerðingu á færni sé átt við skerðingu sem vari í þrjá mánuði eða lengur þar sem talið sé að þá sé liðinn það langur tími að ætla megi að kostnaður vegna ferða hafi áhrif á fjárhag viðkomandi.

Samkvæmt 9. gr. reglna um akstursþjónustu metur matshópur, sem skipaður er af deildarstjóra búsetudeildar, umsóknir til skemmri eða lengri tíma, til dæmis árstíðabundið. Matshópurinn hefur heimild til að taka tillit til tímabundinna eða sérstæðra aðstæðna, sem metnar eru sérstaklega hverju sinni, sbr. 2. gr. Leiki vafi á rétti til þjónustunnar er matshópnum heimilt að óska viðeigandi vottorða, til dæmis frá lækni, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa eða þroskaþjálfa. Á grundvelli þjónustumatsins tekur matshópurinn ákvörðun um umfang og eðli þeirrar þjónustu sem veitt er.

Í umsókn kæranda kemur fram að hún geti ekki nýtt almenningssamgöngur vegna slits í mjöðmum og höfuðverkja. Með umsókn kæranda fylgdi læknabréf, dags. 6. mars 2019, þar sem greint er frá aðstæðum hennar og heilsufari. Í læknabréfinu er þó ekki rökstutt sérstaklega að kærandi geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur. Samkvæmt greinargerð matshópsins var kæranda synjað um aksturþjónustu yfir sumartímann á þeirri forsendu að hún notaði engin gönguhjálpartæki og væri með góða færni. Við mat á þörf fyrir akstursþjónustu væri horft á notkun hjálpartækja, hreyfifærni og vitræna getu. Af hálfu sveitarfélagsins hefur komið fram að iðjuþjálfi hafi metið umsókn kæranda og stuðst hafi verið við viðurkennd matstæki. Ekki hefur verið rökstutt nánar hvernig matið fór fram eða á hvaða gögnum það byggði.

Meðfylgjandi kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála var læknabréf, dags. 21. maí 2019, sem er efnislega samhljóða fyrra læknabréfi en með þeirri viðbót að vísað er til þess að kærandi geti ómögulega nýtt sér almenningssamgöngur. Það sé mat læknisins að það sé veruleg skerðing á hennar lífsgæðum að hafa ekki ferliþjónustuna. Ljóst er að sveitarfélagið hefur ekki tekið afstöðu til læknabréfsins. Að mati úrskurðarnefndarinnar er um nýjar upplýsingar að ræða sem sveitarfélaginu ber að fjalla um. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 26. mars 2019, um að synja umsókn A, um akstursþjónustu yfir sumartímann er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum