Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 20/2017

Hinn 23. október 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 20/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 478/2014:

Ákæruvaldið

gegn

Magnúsi Arnari Arngrímssyni,

Birki Kristinssyni

Elmari Svavarssyni og

Jóhannesi Baldurssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

  1. Með erindi, dags. 19. júní 2017, fór Magnús Arnar Arngrímsson þess á leit að hæstaréttarmál nr. 478/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 3. desember 2015, yrði endurupptekið.
  2. Að beiðni endurupptökubeiðanda var Páll Rúnar M. Kristjánsson hrl. skipaður talsmaður hans, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
  3. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn Jóhannesson, Haukur Örn Birgisson og Valgerður Sólnes.

    II. Málsatvik

  4. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 478/2014 var endurupptökubeiðandi sakfelldur ásamt tveimur öðrum dómfelldu fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 12. nóvember 2007 farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga en þeir í sameiningu létu Glitni banka hf. veita BK-44 ehf. 3.791.240.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 150.000.000 hlutum í bankanum án samþykkis lána- eða áhættunefndar bankans og án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Endurupptökubeiðandi var dæmdur til fangelsisvistar í tvö ár og greiðslu sakarkostnaðar.

    III. Grundvöllur beiðni

  5. Beiðni um endurupptöku málsins er í fyrsta lagi á því byggð að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Í öðru lagi byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegur galli hafi verið á málsmeðferðinni þar sem verjanda hans hafi verið meinaður aðgangur að rannsóknargögnum málsins af héraðssaksóknara. Í þriðja og síðasta lagi byggir hann á því að hlutabréfaeign eins eða fleiri dómara sem málið dæmdu í Hæstarétti hafi leitt til vanhæfis þeirra til að dæma í málinu. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að upplýsingar um hlutabréfaeign dómaranna séu ný gögn, sem ekki lágu fyrir þegar dómur í málinu var kveðinn upp. Beiðni sinni til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi til a-, c- og d-liða þágildandi 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en samsvarandi ákvæði eru nú í a-, c- og d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig).
  6. Hvað varðar fyrstu málsástæðu endurupptökubeiðanda, þá vísar endurupptökubeiðandi til c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Endurupptökubeiðandi bendir á að í málinu hafi legið fyrir eitt gagn sem tengdi hann við hina ákærðu háttsemi. Það hafi verið tölvupóstur sem hann hafi sent en í honum hafi staðið: „Ég er kominn með samþykki fyrir PM mörkum á BK-44 ehf., kt. 620200-2120, upp á 4ma. kr. í 6 mánuði“. Um þetta hafi Hæstiréttur sagt: „Þá hefur ákærði M á engan hátt upplýst frá hverjum hann átti að hafa fengið fyrirmæli um að senda tilkynningu um samþykki á PM mörkum fyrir BK-44 ehf. sama dag og viðskiptin komust á. Fyrir utan að hvorki voru efnislegar né formlegar forsendur til að veita lánið, þá kom fram hjá ákærða M að ekki hafi fallið innan starfssviðs hans að koma samþykktum lána- eða áhættunefndar til viðtakanda innan bankans. Sem háttsettur yfirmaður í bankanum var ákærði M þó í aðstöðu til að gefa þessa tilkynningu 7. nóvember 2007 og var hún óhjákvæmilega þáttur í að lánveitingin kæmist á, enda framsendi ákærði Elmar hana til SES 12. sama mánaðar og sendi sá síðastnefndi í beinu framhaldi af því fyrrgreint tölvubréf til ákærðu Elmars, Jóhannesar og Magnúsar þar sem sagði: „FYI Dönn (…) Samkvæmt þessu er sannað að ákærði M fór út fyrir umboð sitt með framangreindri tilkynningu 7. nóvember 2007“.
  7. Endurupptökubeiðandi bendir á að af lestri þessa tölvupósts megi sjá að hann hafi ekki gefið leyfi fyrir umræddri lánveitingu heldur hafi hann borið á milli þau skilaboð að aðrir hafi veitt það leyfi. Telur endurupptökubeiðandi að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að þar sem endurupptökubeiðandi hafi ekki getað sannað hver hefði samþykkt lánveitinguna yrði að ganga út frá því að hann hefði gert það sjálfur. Í þessu hafi falist að sönnunarbyrði hafi verið velt af ákæruvaldinu og yfir á sakborning. Þá bendir endurupptökubeiðandi á að hafi það verið afstaða ákæruvaldsins og dómstóla að hér hafi ekki verið til staðar samþykki þar til bærra aðila innan bankans, þá hefði slíkt brot varðað við fjársvik en ekki umboðssvik enda að svo komnu verið að beita blekkingum en ekki að misfara með umboð.Endurupptökubeiðandi telur að bæði héraðsdómur og Hæstaréttur hafi varpað fyrir róða þeirri grunnreglu sakamálaréttarfars, sem nú megi finna í 1. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála, að vafa um hvert það atriði sem varði sekt sakbornings skuli skýra honum í hag. Telur hann að enginn haldi fram þeirri útgáfu af málavöxtum sem ákæra byggir á og að flestir haldi fram hinu gagnstæða, það er að hann hafi hvorki samþykkt umrædda lánveitingu né veitt heimild til hennar. Þeirra á meðal séu yfirmaður hans og forstjóri brotaþola.
  8. Þá telur endurupptökubeiðandi að svo virðist sem Hæstiréttur meti það gegn honum að hann geti ekki sannað hver gaf heimild fyrir umræddri lánveitingu. Líti rétturinn svo á að þetta sé með einhverjum hætti tortyggilegt. Þetta séu augljós mistök af hálfu Hæstaréttar. Endurupptökubeiðandi hafi tekið þátt í 300 lánamálum á tímabilinu júlí 2007 til október 2008. Atvik umrædds máls taki til einnar slíkrar lánveitingar sem aukinheldur hafi farið fram fjórum árum áður en að hann hafi verið fyrst kallaður til skýrslutöku vegna hennar. Öll fræði um minni og endurheimt minninga telji að einstaklingar geti ekki endurheimt minningar við þessar aðstæður. Endurupptökunefnd hafi í málum 5, 6 og 8/2014 og 7 og 15/2015 litið til slíkra fræða við mat á því hvort framburður hafi verið trúverðugur eða líklega falskur.
  9. Að lokum telur endurupptökubeiðandi að ummæli sérstaks saksóknara, Ólafs Haukssonar, í Financial Times haustið 2016 styðji að brotið hafi verið gegn 2. mgr. 53. gr. og 3. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála við rannsókn málsins. Ummælin hafi verið eftirfarandi:

    It was also, he [Ólafur Hauksson] tells me, about keeping going to the logical conclusion rather than stopping. „It´s finding out who is responsible. That´s a totally different thing. In some ways, it was clear where this all came from. It was important to make the employees aware that if they cannot point to someone else, they will be the one to blame,“ he [Ólafur Hauksson] says.

  10. Með þessum ummælum lýsi sérstakur saksóknari því yfir að hann muni ákæra undirmenn fyrir frumbrot ef þeir láti ekki undan og felli sök á yfirmenn sína. Slíkt fái ekki staðist, sbr. 3. mgr. 64. gr. laga um meðferð sakamála og 3. mgr. 63. gr. sömu laga. Hæstiréttur virðist óupplýstur um þetta verklag sérstaks saksóknara og sakfellir endurupptökubeiðanda á þeim grundvelli að hann gat ekki bent á annan aðila sem bar ábyrgð á samþykkt lánsins. Á þeim tíma sem málið var til meðferðar fyrir dómi var endurupptökubeiðanda ókunnugt um þetta verklag sérstaks saksóknara og telst þetta því til nýrra gagna og upplýsinga. Af þessari ástæðu beri að fallast á endurupptöku málsins.
  11. Hvað varðar aðra málsástæðu endurupptökubeiðanda þá byggir hann á því að á málsmeðferðinni hafi verið verulegur galli í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála sem sé líklegt að hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins þar sem verjanda hans hafi af hálfu héraðssaksóknara verið neitað um aðgang að rannsóknargögnum málsins er varði endurupptökubeiðanda. Þetta sé í raun staðfest í synjun héraðssaksóknara, dags. 4. apríl 2017. Þessi háttur sé í andstöðu við 37. gr. laga um meðferð sakamála þar sem skýrt sé kveðið á um fortakslausan rétt til afhendingar slíkra gagna. Reglunni sé ætlað að tryggja að sakborningur geti tekið afstöðu til þess hvort öll gögn sem kunni að vera honum hagfelld hafi verið lögð fram í máli gegn honum. Eðli málsins samkvæmt kunni þessi gögn að hafa mikla þýðingu við úrlausn þessa máls. Á grundvelli 5. gr. reglugerðar nr. 777/2013 fer endurupptökubeiðandi fram á að endurupptökunefnd afli þessara gagna og upplýsinga.
  12. Þá byggir endurupptökubeiðandi loks á því að hlutabréfaeign eins eða fleiri dómara, sem málið dæmdu í Hæstarétti, hafi leitt til vanhæfis þeirra til að dæma í málinu. Eru upplýsingarnar um þá hlutabréfaeign ný gögn sem ekki lágu fyrir þegar dómur var kveðinn upp. Er vísað til a- og d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála hvað þetta varðar.
  13. Endurupptökubeiðandi tilgreinir að ein grundvallarregla réttarríkis hér á landi sé að dómstólar dæmi eftir settum lögum, sbr. 61. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og megi leiða af þeirri reglu að dómarar skuli vera þannig úr garði gerðir að hægt sé, undir öllum kringumstæðum, að treysta á sjálfstæði þeirra við úrlausn máls og að þeir gæti með þeim hætti hlutleysis. Regluna um sjálfstæða og óvilhalla dómstóla sé að finna í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 1. mgr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Í íslenskum rétti gildi strangar hæfisreglur um störf dómara, sbr. 6. gr. laga um meðferð sakamála. Tilgangur hæfisreglna sé meðal annars sá að stuðla að efnislega réttri niðurstöðu og sé það sjónarmið nefnt öryggissjónarmið. Í því felist að dómari víki sæti sé hann hlutdrægur eða ef líkur eru á því að hann sé hlutdrægur. Annað sjónarmið sé traustsjónarmið, sem lúti að því að dómari geti verið algjörlega hlutlaus en upp geti komið sú staða, út á við, að almenningur haldi annað. Slíkt komi niður á trausti til dómstóla. Leiði öryggissjónarmið ekki til skýrrar niðurstöðu um hæfi megi segja að traustsjónarmið taki við og séu eins konar varnagli við vanhæfi.
  14. Endurupptökubeiðandi telur að við mat á því, hvort dómari teljist til þeirra aðila sem taldir eru upp í a-lið 6. gr. laga um meðferð sakamála, verði að líta til markmiðs ákvæðisins og verndarandlags þess. Þá geti það skipt máli hverjir séu tilgreindir sem sakborningar eða brotaþolar í málatilbúnaði ákæruvaldsins eða kæranda í sakamálum. Í því samhengi bendir endurupptökubeiðandi á að í kæru Fjármálaeftirlitsins í BK-44 málinu, málinu sem lauk með Hrd. 478/2014, voru brotaþolar tilgreindir sem hluthafar í Glitni banka hf. Segir þar orðrétt:

     

    Fjármálaeftirlitið telur, að eins og rakið hefur verið hér að framan virðist sem framangreindir starfsmenn Glitnis hafi misnotað aðstöðu sína hjá bankanum, stefnt fé bankans í hættu og valdið hluthöfum hans tjóni, er þeir veittu BK-44 ehf. samtals 3.791.340.000 kr. lán …

     

  15. Endurupptökubeiðandi telur að svarið við því hvort dómari sé vanhæfur samkvæmt g-lið 6. gr. laga um meðferð sakamála ráðist af því hvort önnur atvik eða aðstæður en tilgreindar eru í a-f lið séu til staðar sem gefi réttmætt tilefni til að draga óhlutdrægni dómarans í efa. Svarið ráðist þannig ekki af því hvort dómari telji sig hlutdrægan eða ekki, heldur af því hvort hann telji málsaðila hafa réttmæta eða sanngjarna ástæðu til að tortryggja óhlutdrægni manns í hans stöðu, sbr. Hrd. 1990, bls. 2. Vanhæfi dómara ráðist ekki af huglægri afstöðu dómarans sjálfs skv. g-lið, heldur snúi athugun á hæfi að jafnaði fyrst of fremst að aðstæðum eða atvikum sem varða dómarann sjálfan, sbr. Hrd. 479/2012.
  16. Um uppruna og túlkun reglna um hæfi dómara í lögum um meðferð sakamála og hliðstæðra reglna vísar endurupptökubeiðandi til fjölda dóma Hæstaréttar, sbr. Hrd. 541/2016, Hrd. 90/2016, sem og skrifa fræðimanna og dómara. Við skýringu og beitingu g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála verði auk þess að horfa til 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
  17. Endurupptökubeiðandi telur að undir g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála falli ýmis fjárhagsleg tengsl. Þetta megi sjá á dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu sem hafi verið afdráttarlaus hvað þetta varðar, sbr. t.d. dóm dómstólsins í máli Péturs Þórs Sigurðssonar gegn Íslandi, frá 10. apríl 2033 (mál nr. 39731/98). Telur endurupptökubeiðandi að þegar upp kemur sú staða að dómari eigi hlutabréf í félagi sem sé aðili máls eða brotaþoli þá verði að ganga út frá því að umræddur g-liður taki til slíkra atvika. Úrslit slíkra mála geti verið með ýmsum hætti og snert dómara á mismunandi vegu. Mál geti horft þannig við gagnaðila eða sakborningi að við þær aðstæður megi hann með réttu draga hlutleysi dómara í efa enda uppi aðstæður sem rýri það traust sem umræddri reglu sé ætlað að standa vörð um. Vísar endurupptökubeiðandi til sjónarmiða sem gangi sem rauður þráður í gegnum dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum sem varði réttláta málsmeðferð: „Justice must not only by done, it must also be seen to be done.“
  18. Þá telur endurupptökubeiðandi að í ljósi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði að skýra hið almenna ákvæði í g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála til samræmis við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Í dómaframkvæmd þess dómstóls sé gerður skýr greinarmunur á hlutlægu hlutleysi, það er hvort dómari sé raunverulega óvilhallur öðrum málsaðilanum, og huglægu hlutleysi dómara, það er hvort dómari geti fyllilega útilokað að lögmætur vafi hafi áhrif á störf hans, sbr. t.d. dóm í máli Piersack gegn Belgíu (mál nr. 8692/79). Þá telur endurupptökubeiðandi fjölda dóma hjá mannréttindadómstólnum styðja beiðni hans og í raun leiða til þess að ómögulegt sé annað en að endurupptaka mál hans. Vísar hann í því sambandi til máls Valero gegn Spáni (mál nr. 62435/00) og Hans Peter Wettstein gegn Sviss (mál nr. 33958/96), en í hvorugu þessara mála hafi verið um að ræða fjárhagsleg tengsl sem voru stórvægileg og í hvorugu málanna hafi verið uppi sú staða að dómari hafi haft fjárhagslegan ábata af niðurstöðu málsins. Hins vegar hafi afstaða mannréttindadómstólsins verið skýr í þá veru að fjárhagsleg tengsl væru næg til að vekja upp lögmætan vafa um hlutleysi dómara og af þeirri ástæðu væri hann vanhæfur. Við slíkar aðstæður leiddi þátttaka dómarans í málsmeðferðinni til þess að brotið hefði verið á rétti gegn viðkomandi til réttlátrar málsmeðferðar.
  19. Endurupptökubeiðandi telur dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Péturs Þórs Sigurðssonar gegn Íslandi skýrt dæmi um þetta en þar hafi þáttur dómarans í skuldaskilasamningi, það hagræði sem maki dómarans naut og tengsl þess við Landsbankann, verið þannig að eðli og umfangi og það nálægt meðferð málsins fyrir Hæstarétti í tíma að kærandi hefði með réttu getað óttast að Hæstarétt skorti þá óhlutdrægni sem krafist væri. Var því talið að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í Hrd. 604/2008, sem var bótamál Pétur Þórs Sigurðssonar gegn íslenska ríkinu, segi meðal annars:

    Við úrlausn þess álitaefnis hvort áfrýjandi geti að íslenskum lögum átt rétt til bóta vegna fjártjóns sem hann sannanlega kann að hafa beðið og rekja má til þess, að vanhæfur dómari tók þátt í meðferð máls hans fyrir Hæstarétti, er fyrst til þess að líta, að rétturinn til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli er meðal þeirra hornsteina sem lýðfrjáls ríki byggja réttarskipan sína á, sbr. 70. gr. stjórnarskrár, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995,  og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þátttaka vanhæfs dómara í meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996 fól því í sér gagnvart áfrýjanda brot á mikilvægum grundvallarréttindum.

            Þá segi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 511/2014:

    Þegar lagt er mat á hæfi dómara eftir g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum þess og efni, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki, þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.

     

  20. Endurupptökubeiðandi rekur að eftir að Hrd. 478/2014 féll hafi komið fram ný gögn um hlutabréfaeign þeirra dómara sem dæmdu málið. Hafi þessar upplýsingar komið fyrst fram í fréttaskýringaþættinum Kastljósi. Dómarar í umræddu máli hafi aldrei vakið athygli endurupptökubeiðanda á hlutabréfaeign sinni eða þeirri staðreynd að þeir hefðu tapað fjármunum á falli Glitnis banka hf. í október 2008 en sakarefni málsins var talið hafa átt þátt í því falli auk þess að vera hluthöfum bankans til verulegs tjóns. Endurupptökubeiðandi hafi farið fram á það við Hæstarétt að dómarar í umræddu máli upplýstu meðal annars um eign sína í hvers kyns félögum. Sambærilegu erindi hafi einnig verið beint til nefndar um dómarastörf. Þar hafi verið farið fram á upplýsingar um hvort dómarar í umræddu máli hefðu leitað heimildar nefndarinnar til að eiga hluti, meðal annars í Glitni banka hf. eða heimildar til að eiga hlutdeildarskírteini í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðum. Með endurupptökubeiðni fylgdi afrit af svari frá nefnd um dómarastörf, dags. 23. janúar 2017, og svari frá Hæstarétti, dags. 31. janúar 2017.
  21. Endurupptökubeiðandi tilgreinir að samkvæmt svörum frá nefnd um dómarastörf hafi Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari ekki tilkynnt um eignarhlut í félögum eða atvinnuvegafyrirtækjum né leitað heimildar til að eiga slíka hluti árið 2004 eða síðar. Þá komi einnig fram að með bréfi, dags. 28. febrúar 2007, hafi hann tilkynnt um sölu hlutabréfa í Glitni banka hf., áður Íslandsbanka hf., og að hann ætti ekki lengur hlut í félaginu. Samkvæmt svörum frá Markúsi sjálfum, sem send voru af Hæstarétti, hafi dómarinn í lok árs 2003 átt 1.739.518 hluti í Glitni banka hf. Þá hluti hafi hann einnig átt í árslok 2004-2006. Í árslok 2007 hafi hann átt 13.832 hluti, en því fé hafi hann tapað þegar bankinn féll í október 2008. Segi hann sjálfur í svari sínu: „Með því að ég átti þessa hluti 7. október 2008, þegar þeir urðu verðlausir, nam tap mitt þessari fjárhæð“. Samkvæmt svörum Markúsar hafi hann einnig verið með samning við Glitni banka hf. um eignastýringu og hafi hann verið gerður 5. janúar 2007 og hafi staðið þar til félagið lét af starfsemi sinni. Hafi Markús látið af hendi til eignastýringar samtals 61.450.000 kr. Ráðstafanir á því hafi farið fram án hans afskipta. Samkvæmt svörum Markúsar hafi hann tapað 7.607.000 kr. af því fé eða 14,78 prósent af upphaflegum höfuðstól að teknu tilliti til tveggja úttekta af honum að fjárhæð 6.150.000 kr. og 3.800.000 kr.
  22. Samkvæmt svörum frá nefnd um dómarastörf hafi Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari ekki tilkynnt um eignarhlut í félögum eða atvinnufyrirtækjum eða leitað heimildar til að eiga slíka hluti fyrr en 19. janúar 2017. Á þeim degi hafi hann gert nefndinni grein fyrir því að hann hefði eignast töluverðan fjölda af hlutabréfum, m.a. í Glitni banka hf., við arftöku á árunum 2006-2007. Samkvæmt svörum frá Ólafi Berki sjálfum, sem send voru af Hæstarétti, komi fram að hann hafi fengið úthlutað í arf hlutafé í nokkrum tilgreindum félögum, þar með töldum Glitni banka hf., þann 17. nóvember 2006. Á þeim degi hafi markaðsverðmæti bréfanna verið 5.253.818 kr. en bréfin hafi síðan verið seld þann 7. desember 2006 á söluverðinu 5.362.797 kr. Þá komi einnig fram í svörum nefndar um dómarastörf að Ólafur Börkur hafi tilkynnt í sama bréfi að hann hefði fengið úthlutað arfi í nokkrum félögum, þar með töldum Glitni banka hf., þann 24. júlí 2007 og að bréfin hafi verið seld 7. desember sama ár. Markaðsverðmæti bréfanna hafi verið 14.679.947 kr. þegar hann eignaðist bréfin og söluverð þeirra hafi verið 11.532.528 kr.
  23. Endurupptökubeiðandi telur að fjárhagslegir hagsmunir þessara dómara tengist brotaþola málsins á mismunandi tímapunktum. Blasi þar með við að dómarar málsins hafi haft mikla fjárhagslega tengingu og auk þess tapað verulegum fjármunum á fjárfestingu sinni.
  24. Til stuðnings beiðni sinni vísar endurupptökubeiðandi til d-liðar 1 mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, þar sem endurupptaka sé heimil ef verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Það sama eigi við ef fram komi ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk og vísar hann þar til a-liðar sömu lagagreinar. Vísar endurupptökubeiðandi til athugasemda með frumvarpi sem varð að lögum um meðferð sakamála máli sínu til stuðnings.
  25. Samkvæmt framangreindri tilvitnun sé vanhæfi dómara verulegur galli á málsmeðferð. Með d-lið 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála sé verið að tryggja rétta meðferð sakamála og ítreka rétt sakaðra manna til að fá leyst úr um sakleysi og sekt fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstólum. Tilvist óháðra og óhlutdrægra dómstóla sé einn þeirra hornsteina sem lýðfrjáls ríki byggi réttarskipan sína á, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og Hrd. 604/2008.
  26. Endurupptökubeiðandi telur engu máli skipta hverjar fjárhæðirnar eru. Það sem máli skipti sé að sakarefni málsins hafi snúið að því hvort hann hefði með háttsemi sinni valdið dómurum málsins tjóni, hvort sem er með beinum eða óbeinum hætti. Hafi endurupptökubeiðandi við þessar aðstæður réttmæta ástæðu, byggða á hlutlægum grunni, til að draga í efa að dómarar málsins hafi verið óvilhallir.
  27. Telji endurupptökunefnd að fjárhæðir málsins skipti máli, bendir endurupptökubeiðandi á að þegar meta eigi hvað sé há eða lág fjárhæð, lítið eða mikið tap eða tjón, sem dómari kann að hafa orðið fyrir svo draga megi hæfi hans í efa til að dæma þann til refsingar sem talinn er hafa valdið tjóninu, skipti eigið mat dómarans engu máli. Það sem skipti máli sé að meta það annars vegar út frá þeim reglum sem dómurum hafi verið gert að fylgja um hagsmunaskráningu og hins vegar með hliðsjón af launakjörum dómara. Samkvæmt þágildandi lögum um dómstóla nr. 15/1998 og 2. mgr. 7. gr. reglna nr. 463/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum hafi sú skylda verið lögð á dómara að tilkynna nefnd um dómarastörf um eignarhlut í félagi, sem hafi skráð gengi í verðbréfaviðskiptum, hafi hluturinn verið að verðmæti allt að 3.000.000 kr. Löggjafinn hafi því sjálfur sett þau mörk sem miða beri við. Til að eiga hlut að verðmæti 3.000.000 kr. eða meira þurfi einnig sérstakt samþykki nefndarinnar. Eignarhlutur dómara í skráðu félagi, sem sé að markaðsvirði yfir þrjár milljónir króna, teljist því há fjárhæð. Í annan stað verði að horfa til þess hver hafi verið launakjör dómara við Hæstarétt á þeim tíma, sem tjónið varð. Heildartjón Markúsar Sigurbjörnssonar, hæstaréttardómara, kunni að hafa svarað til um margfaldra mánaðarlauna hæstaréttardómara á þessum tíma. Það blasi við að dómari sem tapi margföldum mánaðarlaunum sínum sé ekki óvilhallur þegar hann dæmir í máli þar sem sóttur er til saka sá sem sakaður er um að hafa valdið því tjóni.
  28. Það leiði svo af viðurkenndri túlkun og beitingu á g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála að viðhorf dómarans til hæfis skipti ekki öllu máli heldur það hvernig atvik og aðstæður horfi við þeim sem utan standi. Í öllum tilvikum sé um að ræða fjárhagslega hagmuni sem séu langtum meiri en í öllum þeim dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem endurupptökubeiðandi vísar til, þar sem fallist var á að dómari hafi verið vanhæfur til að dæma í máli.
  29. Þá telur endurupptökubeiðandi að meinbugir á tilkynningum dómara til nefndar um dómarastörf hafi verið til þess fallnir að auka enn á þann lögmæta vafa um hæfi dómara sem sé fyrir hendi. Gefi þessar skjalfestu staðreyndir málsins því auknar ástæður fyrir endurupptökubeiðanda til að draga í efa hæfi umræddra aðila. Bendir endurupptökubeiðandi á að g-liður 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála geymi almenna vanhæfisreglu og í henni felist að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallin að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

    IV. Viðhorf gagnaðila

  30. Í umsögn ríkissaksóknara, dags. 28. júlí 2017, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á.
  31. Um kröfu endurupptökubeiðanda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, telur ríkissaksóknari að dómar Hæstaréttar eigi að vera endir deilna og að þeim verði ekki skotið til endurupptökunefndar til að fá endurskoðun á sönnunarmati Hæstaréttar. Verði að skýra c-lið 1. mgr. 228. gr. þröngt þannig að meira þurfi að koma til en einhvern hugsanlegan vafa um sönnun. Endurupptökubeiðandi hafi að áliti ríkissaksóknara ekki fært fram nein rök sem geti réttlætt endurupptöku dómsins í máli hans og er þess krafist að kröfu endurupptökubeiðanda verði hafnað.
  32. Þá hafnar ríkissaksóknari því alfarið að ummæli héraðssaksóknara beri vott um brot á hlutlægnisskyldu og er því enn frekar hafnað að þau gefi tilefni til að heimila endurupptöku dómsins.
  33. Hvað varði sjónarmið endurupptökubeiðanda um vanhæfi dómara, þá telur ríkissaksóknarihagsmuni tilgreindra dómara af niðurstöðu málsins enga vera og það breyti engu um hæfi þeirra þótt þeir kunni að hafa tapað einhverjum fjármunum á hruni íslenska bankakerfisins í október 2008. Þá verði ekki séð að hagmunir umræddra dómara hafi á nokkurn hátt verið fyrir borð bornir af sakborningum í málinu. Verði ekki séð að hrun íslenska bankakerfisins eða gjaldþrot Glitnis banka hf. hafi á neinn hátt verið afleiðing af brotum endurupptökubeiðanda eða þeim verði um það kennt. Verði því að hafna kröfu um endurupptöku af þessari ástæðu.
  34. Ríkissaksóknari telur að líta beri til þess að jafnvel þótt endurupptökunefnd telji að umrædd aðstaða sé til þess fallin að hafa áhrif á hæfi dómara, þá sé það ekki á færi endurupptökunefndar að meta hæfi dómara. Dómarar Hæstaréttar hafi án efa metið hæfi sitt að þessu leyti og það mat sæti ekki endurskoðun endurupptökunefndar.
  35. Að mati ríkissaksóknara verði endurupptaka vegna meints vanhæfis einungis byggð á d-lið 1. mgr. 228. gr. um meðferð sakamála, ef hún á annað borð kæmi til greina. Hvað varði tilvísun endurupptökubeiðanda til athugasemda í greinargerð með 228. gr., þá telur ríkissaksóknari að skýring á gildissviði d-liðar verði ekki skilin á annan veg en svo að endurupptaka komi eingöngu til greina, „þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi“ dómara, eins og segi í athugasemdum „og ekki hafi áður verið um þá kunnugt“, sem vísi þá til þess að dómarinn hafi ekki um þetta vitað, eða að þetta atriði hafi ekki fengið umfjöllun fyrir héraðsdómi vegna þess að sakflytjanda hafi þá ekki gefist kostur á að hafa uppi kröfu um vanhæfið fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti vegna vanhæfis héraðsdómara. Verði að hafa í huga hvernig álitamál um hæfi dómara Hæstaréttar séu meðhöndluð af dóminum. Það liggi fyrir að sakflytjendur geta ekki krafist úrskurðar Hæstaréttar um hæfi einstaka dómara, þeir geti bent á álitaefni sem þeir telji að geti hafi áhrif á hæfið, það sé svo dómarinn sem meti hæfi sitt sjálfur og slíkum ákvörðunum verði ekki skotið til æðra dóms. Þar af leiðandi verði þetta álitaefni ekki endurskoðað af endurupptökunefnd.

    V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda

  36. Í athugasemdum endurupptökubeiðanda, dags. 29. september 2017, bendir hann á að engar réttarheimildir réttlæti þá nálgun ríkissaksóknara að um vanhæfi sé ekki að ræða þar sem að þeir fjárhagslegu hagsmunir sem fóru forgörðum hafi ekki leitt af athöfnum endurupptökubeiðanda. Rétt sé það sem komi fram í umsögn ríkissaksóknara, að þær athafnir sem endurupptökubeiðandi var sakfelldur fyrir hafi ekki einar og sér orsakað fall bankans. Þrátt fyrir að efnahagshrunið megi rekja til margra og flókinna ástæðna, þá breyti það ekki þeirri staðreynd að dómfelldi var lykilstjórnandi bankans á þeim tíma þegar bankinn féll og þegar fjárhagslegir hagsmunir tiltekinna dómara fóru forgörðum. Megi því segja að brotaþoli málsins sé félag sem að hluta hafi verið í eigu þeirra dómara sem í málinu dæmdu. Af þessu leiði að þessir dómarar voru vanhæfir til að dæma í máli endurupptökubeiðanda.
  37. Endurupptökubeiðandi gerir athugasemd við þá röksemd ríkissaksóknara að dómararnir hafi ekki haft neina hagsmuni af niðurstöðu málsins eða að þeir væru í öllu falli óverulegir.Endurupptökubeiðandi bendir á að samanlagðir hagsmunir allra þeirra dómara sem um geti í öllum þeim málum sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafi dæmt vegna vanhæfis og raktir hafi verið í endurupptökubeiðni, séu ekki jafn miklir og þeir hagsmunir sem um ræðir í máli endurupptökubeiðanda. Um sé að ræða eign í sumum tilfellum sem gefi af sér tekjur sem jafngildi margföldum mánaðarlaunum umræddra dómara.
  38. Þá gerir endurupptökubeiðandi athugasemd við þá röksemd ríkissaksóknara að endurskoðun á matskenndri ákvörðun dómara um eigið hæfi sé ekki á færi endurupptökunefndar. Vanhæfi byggist ekki alltaf á mati og það geti ráðist af hlutlægum viðmiðum. Ef farið væri eftir rökfræði ríkissaksóknara væri það aldrei á færi nefndarinnar að endurskoða hæfi dómara, jafnvel þótt hægt yrði að sýna fram á það með óyggjandi hætti að viðkomandi dómari hafi verið vanhæfur á grundvelli hlutlægra viðmiða. Slík niðurstaða fái ekki staðist. Skýring ríkissaksóknara á d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna sé að sama skapi röng. Embættið haldi því fram að endurupptaka komi aðeins til greina ef dómari hafi sjálfur ekki vitað af vanhæfistilviki. Slíkri þröngri túlkun ákvæðisins sé hafnað.
  39. Endurupptökubeiðandi telur þekkt fordæmi fyrir hinu gagnstæða. Í því samhengi bendir endurupptökubeiðandi á að engin þörf sé að fara fyrst með mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu til að fá dóm um brot gegn 6. gr. vegna vanhæfis áður en fengin er endurupptaka máls fyrir endurupptökunefnd vegna sömu forsendu.
  40. Að öðru leyti þá er afstöðu ríkissaksóknara í heild sinni mótmælt og efni endurupptökubeiðni ítrekað.

    VI. Upplýsingar um hlutabréfaeign dómara

  41. Með bréfi endurupptökunefndar þann 17. apríl 2018 var óskað eftir því við ríkissaksóknara með bréfi að hann hlutaðist til um að rannsaka, með vísan til 4. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála, hvort dómarar við Hæstarétt, sem dæmdu í Hrd. 478/2014, og makar þeirra hafi átt:
    1. eignarhluti í Glitni banka hf. á árunum 2007-2008,
    2. hvort þau hafi átt hlutdeildarskírteini í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem áttu eignarhluti í Glitni banka hf. á árunum 2007-2008;
    3. hvort þau hafi átt eignarhluti í félögum sem áttu eignarhluti í Glitni banka hf. á árunum 2007-2008.

    Þá var óskað eftir upplýsingum um fjölda hluta, nafnverð þeirra og sölu á tímabilinu.

  42. Ríkissaksóknari ritaði endurupptökunefnd bréf, dags. 15. maí 2018, þar sem fram kom að embættið teldi að beiðni endurupptökunefndar, sem beindist að fjárhagsmálefnum dómara málsins og mökum þeirra, yrði ekki gerð á grundvelli laga um meðferð sakamála heldur yrði nefndin sjálf að hlutast til um að upplýsa málið að þessu leyti. Var því beiðni nefndarinnar um frekari gagnaöflun hafnað.
  43. Í ljósi afstöðu ríkissaksóknara sendi endurupptökunefnd bréf til Hæstaréttar, dags. 5. júní 2018, þar sem farið var fram á að nefndinni yrðu veittar áður nefndar upplýsingar, auk upplýsinga um það hvort tjón hefði hlotist af viðskiptunum.
  44. Hæstiréttur svaraði endurupptökunefnd með bréfi, dags. 27. júní 2018. Í bréfinu vísaði rétturinn til skriflegra svara sem rétturinn hefði veitt verjendum endurupptökubeiðenda í Hrd. 456/2014, 478/2014 og 842/2014, og vísaði rétturinn til þess að endurupptökunefnd hefði þær upplýsingar undir höndum. Þá kom fram í upplýsingum frá réttinum að dómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson hefðu ekki átt eignarhluti í Glitni banka hf. Það sama ætti við um maka þessara dómara. Hæstiréttur tók fram í bréfi sínu að ekki yrðu veittar upplýsingar um eignarhald dómara í félögunum sem kynnu að hafa átt hluti í Glitni banka hf., svo og hlutdeildarskírteinum í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem kynnu að hafa átt eignarhlut í bankanum. Byggðist synjunin í fyrsta lagi á því að endurupptökubeiðandi hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá slíkar upplýsingar, í öðru á því að eign í hlutabréfasjóðum eða hliðstæðum sjóðum væri eðlisólík hlutabréfaeign að því leyti að hlutabréfum fylgdi ákvörðunarvald í málefnum félags en það gerði hlutdeild í slíkum sjóðum ekki. Þá hefðu hlutdeildarsjóðshafar ekki ákvörðunarvald um í hvaða verðbréfum væri fjárfest hverju sinni. Þá var þess getið að ákvæði 26. gr. laga nr. 15/1998 og reglna nr. 463/2000 tækju ekki til eigna í verðbréfasjóðum, sem nefnd um dómarastörf tók af skarið um á fundi sínum 15. desember 2016. Þá vísaði Hæstiréttur til Hrd. 705/2017, sem hann taldi vera beint fordæmi um þau atriði í fyrirspurn endurupptökunefndar sem að framan greini. Loks vísaði Hæstiréttur til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði nýlega borið upp spurningar til íslenska ríkisins í tengslum við kvörtun sem einn endurupptökubeiðandi hefði beint þangað vegna máls síns en spurningar dómstólsins lytu meðal annars að því hvort tilteknir dómarar sem sátu í dómi í málinu hefðu átt eignarhlut í Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf. eða Landsbanka Íslands hf. Spurningar mannréttindadómstólsins vörðuðu úrlausn um sama álitaefni og endurupptökunefnd hefði til meðferðar og lytu þær hvorki að eignarhlutum í öðrum félögum en þessum fjármálafyrirtækjum né hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum. Af því yrði að draga þá ályktun að mannréttindadómstóllinn teldi atriði sem þessi ekki skipta máli. Að þessu virtu teldi Hæstiréttur ekki efni til að veita frekari svör um þessi atriði.
  45. Bréfi réttarins fylgdu meðal annars svör hæstaréttardómaranna Markúsar Sigurbjörnssonar og Ólafs Barkar Þorvaldssonar varðandi eignarhluti þeirra í Glitni banka hf.
  46. Í bréfi Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara til skrifstofustjóra Hæstaréttar, dags. 27. júní 2018, er hvað varðar fyrirspurn endurupptökunefndar vísað til svars Hæstaréttar sama dag. Jafnframt er tiltekið að þann 17. nóvember 2006 hafi dómarinn fengið í arf 22,5 hluti í Glitni banka hf., samtals að fjárhæð kr. 5.253.818 kr. sem hann hafi selt þann 7. desember sama ár á genginu 23,2, eða fyrir samtals 5.362.797 kr., að frádreginni þóknun.Til viðbótar þessu hafi hann fengið í arf þann 24. júlí 2007 hluti í sama banka á nafnverði 480.522 kr. á genginu 4,81480, eða að fjárhæð 2.313.617 kr. Þeir hlutir hafi síðan verið seldir þann 7. desember sama ár á genginu 24,0 eða fyrir 11.532.528. kr.Þá kemur fram að maki dómara minnist þessi ekki að hafa átt einhverja hluti í félögum á markaði á umræddu tímabili, en hafi svo verið þá hafi verið um afar smávægilega hluti að ræða og ekki í umræddum banka. Til fyllri upplýsinga lét hæstaréttardómarinn fylgja afrit af svarbréfi nefndar um dómarastörf, dags. 21. febrúar 2017, til lögmanna vegna samskonar fyrirspurnar.
  47. Í svari Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara er ítrekað að í byrjun árs 2007 hafi hann átt 1.739.518 hluti í Glitni banka hf., sem hann hafi selt að fullu í janúar og febrúar á því ári. Ekki hafi orðið nokkurt tjón af þeirri sölu, endi hafi hann fengið hlutabréfin að arfi. Í mars 2007 virðist hann hafa fengið greiddan hluta af arði af þessum hlutabréfum, sem hann hafi þó þegar selt, með 13.832 hlutum í Glitni banka hf. og munu þeir hafa talist í því sambandi að andvirði 343.034 kr. Þessa síðastnefndu hluti hafi hann átt enn þegar þeir urðu verðlausir 7. október 2008. Að frátöldu þessu hafi hann ekki átt neina hluti í Glitni banka hf. á árunum 2007 eða 2008 og heldur ekki eiginkona hans, sem hafi fyrir sitt leyti veitt honum heimild til að veita upplýsingar um persónuleg málefni sín.
  48. Með bréfi, dags. 2. janúar 2017, fóru verjendur ákærðu í Hrd. 478/2014 þess á leit við nefnd um dómarastöf að hún veitti upplýsingar um hagsmunatengsl dómara sem komu að meðferð málsins fyrir héraðdómi og Hæstarétti. Ólafur Börkur Þorvaldsson, hæstaréttardómari upplýsti nefnd um dómarastörf um eignarhluti sem hann fékk í arf árið 2006 og seldi 2007 með bréfi, dags. 19. janúar 2017. Nefndin staðfesti móttöku bréfsins með viðbótarupplýsingum og skýringum, dags. 26. janúar 2017. Nefndin sendi í kjölfarið lögmönnum stefndu í hæstaréttarmálinu leiðréttingar á fyrri svörum nefndarinnar við fyrirspurnum þeirra samkvæmt 9. gr. reglna nr. 463/2000.
  49. Í staðfestingarbréfi Hjördísar Hákonardóttur, f.h. nefndar um dómarastörf, til Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara, dags. 21. febrúar 2017,komu fram eftirfarandi upplýsingar um hann.

    Ólafur Börkur Þorvaldsson.

    Með bréfi 19. janúar 2017 tilkynnti hann nefnd um dómarastörf að 17. nóvember 2006 hefði hann fengið úthlutað í arf hlutafé í Íslenskri Erfðagreiningu ehf. (DeCode Genetics), Icelandic Group hf., Hf. Eimskip/Avion, í Glitni banka hf., Landsbanka Íslands hf., FL Group hf. (eða Stoðum hf.) og í Straumi-Burðarási Fjárfestingarfélagi hf., að markaðsvirði samtals 6.462.102, stærstu hlutirnir hafi verið í Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Allir þessir hlutir hafi verið seldir 7. og 11. desember sama ár. Þá hafi hann einnig 24. júlí 2007 fengið í arf hluti í eftirtöldum félögum: Alfresca hf., Glitni banka hf., Hf. Eimskipafélagi Íslands, Icelandic Group hf., Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarás Fjárfestingarfélagi hf., samtals að markaðsvirði 2.442.338 kr. Þessir hlutir hafi allir verið seldir í desember sama ár. Með bréfi 5. febrúar 2017 tilkynnti hann ennfremur að 1. júní 2004 hafi hann fengið hlutabréf að nafnverði 140 kr. í Kaupþingi hf., hluturinn hafi verið seldur sama dag.

  50. Endurupptökunefnd sendi framangreindar upplýsingar frá Hæstarétti á lögmann endurupptökubeiðanda með bréfi, dags. 29. ágúst 2018, og ekki bárust frekari athugasemdir og var málið því næst tekið til úrskurðar.

    VII. Niðurstaða

  51. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 232. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 228. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 228. gr. er fullnægt.

    Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

    a.     fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

    b.    ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

    c.     verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

    d.    verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

  52. Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
  53. Fyrir liggur í máli þessu að endurupptökubeiðandi var með Hrd. 478/2014 sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga. Var hann dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.
  54. Í Hrd. 478/2014 dæmdu hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
  55. Endurupptökubeiðandi byggir á því að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála séu fyrir hendi svo endurupptaka eigi málið. Reisir hann kröfu sína í fyrsta lagi á því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, með vísan til c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að í málinu hafi legið fyrir einungis eitt gagn sem tengdi hann við hina refsiverðu háttsemi. Mun það hafa verið tölvupóstur endurupptökubeiðanda, dags. 7. nóvember 2007, til annars dómfellda þar sem endurupptökubeiðandi tilkynnti að hann væri kominn með samþykki fyrir þeirri lánveitingu sem ákært var fyrir í málinu. Telur endurupptökubeiðandi að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að þar sem endurupptökubeiðandi hafi ekki getað sannað hver hefði samþykkt lánveitinguna yrði að ganga út frá því að hann hefði gert það sjálfur. Í þessu hafi falist að sönnunarbyrðinni hafi verið velt af ákæruvaldinu og yfir á hann.
  56. Hæstiréttur tók afstöðu til þessarar málsvarnar endurupptökubeiðanda og komst að þeirri rökstuddu niðurstöðu, byggðri á heildarmati á fyrirliggjandi gögnum, að ekki væru forsendur til að fallast á málsvörnina. Þvert á móti var komist að niðurstöðu um að verknaðir endurupptökubeiðanda féllu að verknaðarlýsingu ákæru og hann því sakfelldur í samræmi við þá niðurstöðu. Af málatilbúnaði endurupptökubeiðanda verður ráðið að hann er ósammála forsendum Hæstaréttar. Það að endurupptökubeiðandi sé ósammála niðurstöðu Hæstaréttar leiðir ekki til þess að skilyrði c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála teljist vera uppfyllt. Verður af þessu ráðið og fyrirliggjandi gögnum málsins að ekki séu verulegar líkur leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. skilyrði c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  57. Af hálfu endurupptökubeiðanda er í öðru lagi byggt að á málsmeðferðinni hafi verið verulegur galli í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála þar sem verjanda endurupptökubeiðanda hafi ekki verið afhent afrit af öllum rannsóknargögnum málsins undir rekstri þess, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála. Þá hafi lögmanni endurupptökubeiðanda heldur ekki verið afhent þessi gögn við undirbúning beiðni hans um endurupptöku málsins.
  58. Ekki verður séð af gögnum málsins að verjanda endurupptökubeiðanda hafi verið meinaður aðgangur að rannsóknargögnum undir rekstri málsins fyrir dómstólum. Þá bera málsgögnin það ekki með sér að verjandinn hafi óskað sérstaklega eftir tilteknum gögnum og ekki fengið. Að mati endurupptökunefndar eru því ekki forsendur til að fallast á það með endurupptökubeiðanda að verulegur galli hafi verið á málsmeðferðinni hvað þetta varðar. Hvað varðar sjónarmið endurupptökubeiðanda þess efnis að embætti héraðssaksóknara hafi neitað að afhenda lögmanni hans öll rannsóknargögn málsins eftir að dómur í málinu féll, þá fellst endurupptökunefnd ekki á það með endurupptökubeiðanda að slíkt geti falið í sér verulegan galla á meðferð málsins, enda var henni lokið þegar þá var komið við sögu. Eru því skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála ekki uppfyllt hvað þetta varðar.
  59. Í þriðja lagi byggir endurupptökubeiðandi á því að tveir af þeim dómurum sem dæmdu í máli hans hafi verið vanhæfir til þess að dæma í málinu. Byggir endurupptökubeiðandi á því að ný gögn hafi komið í ljós eftir að dómur féll í Hæstarétti sem sýni fram á að dómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Markús Sigurbjörnsson hafi átt hlutabréf í Glitni banka hf. sem hafi leitt til vanhæfis þeirra til þess að dæma í umræddu máli. Vísar endurupptökubeiðandi í þessu samhengi til a- og d- liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  60. Rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óvilhöllum dómstóli telst til grundvallarréttinda sakaðra manna. Er rétturinn varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 45. gr. laga um dómstóla þá skulu dómarar vera sjálfstæðir í störfum sínum, sbr. einnig samhljóða ákvæði eldri laga um dómstóla nr. 15/1998. Sérstaklega er fjallað um hæfi dómara til setu í dómsmáli í 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála. Í g-lið ákvæðisins segir að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður, heldur en taldar eru upp í fyrri stafliðum ákvæðisins, sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að dómari gæti að hæfi sínu til að fara með mál af sjálfsdáðum, en aðili getur einnig krafist að hann víki sæti. Umrædd ákvæði varða rétt manna til að vera dæmdir af óháðum og óhlutdrægum dómstólum.
  61. Lög um meðferð sakamála heimila endurupptöku vegna verulegra galla á málsmeðferð, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna. Vanhæfi dómara getur talist til slíkra galla enda telst málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli til grundvallarréttinda sakaðra manna. Má í því sambandi vísa til þess að í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum um meðferð sakamála segir: „Að einu leyti eru þó ráðgerð nýmæli með því að í d-lið 1. mgr. er ákvæði um heimild dómfellds manns til að leita endurupptöku ef sýnt er fram á að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls og þeir haft áhrif á niðurstöðu þess. Um þessa aðstöðu eru engin fyrirmæli í gildandi lögum, en undir þetta gæti meðal annars átt tilvik, þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómarans, sem með málið fór, og ekki hafi áður verið um þá kunnugt. Þykir eðlilegt að taka upp reglu af þessum toga til að tryggja rétta meðferð máls.“
  62. Með stofnun endurupptökunefndar tók nefndin við því hlutverki af Hæstarétti að úrskurða um endurupptökubeiðnir dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði eða Hæstarétti og síðar Landsrétti. Í fyrra réttarástandi endurskoðaði Hæstiréttur efnislegt mat dómara á eigin hæfi þegar álitaefnið kom á borð réttarins. Með lögum nr. 15/2013 var gerð sú breyting að ákvörðunarvald um endurupptöku dómsmála var fengið sérstakri stjórnsýslunefnd, endurupptökunefnd, sbr. 34. gr. þágildandi laga um dómstóla. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að þeim lögum er áréttað að ekki sé „hróflað við skilyrðum endurupptöku frá því sem verið hafði.“ Þessi framkvæmd er áréttuð enn frekar í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 47/2020 um breytingu á lögum um dómstóla, meðferð einkamála og meðferð sakamála, vegna stofnunar Endurupptökudóms, sem nú hafa verið samþykkt á Alþingi. Þá liggur einnig fyrir að endurupptökunefnd hefur áður lagt mat á hæfi dómara, sbr. t.d. úrskurðir endurupptökunefndar nr. 8, 9, 10 og 14/2015. Með vísan til framangreinds og ákvörðunar Hæstaréttar í málinu nr. 34/2019 frá 27. maí 2020, er því ekki fallist á þá röksemd gagnaðila að það sé ekki á færi nefndarinnar að endurmeta efnislegt mat dómara á eigin hæfi.
  63. Við túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmálans hefur verið litið til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum um mannréttindasáttmála Evrópu er þetta áréttað og löggjafinn, handhafar framkvæmdarvalds og dómstólar hér á landi hafa gert þetta í réttarframkvæmd.
  64. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í dómaframkvæmd sinni fjallað um hæfi dómara með tilliti til skilyrða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um að málsaðili fái réttláta málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól. Hefur mannréttindadómstóllinn talið að dómstóll þurfi hverju sinni að vera í senn óháður og óhlutdrægur á huglægan og hlutlægan hátt svo að framangreindum skilyrðum sé fullnægt, sbr. t.d. Piersack gegn Belgíu, Hauschildt gegn Danmörku og Sigríður Elín Sigfúsdóttir gegn íslenska ríkinu.
  65. Spurningunni um hvort óhlutdrægni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sáttamálans sé fyrir hendi ber bæði að svara á huglægum grundvelli, það er með tilliti til persónulegrar sannfæringar dómara í tilteknu máli, og á hlutlægum grundvelli, þ.e. með athugun á hvort aðstæður hafi verið þannig að útiloka megi að óhlutdrægni dómarans verði með réttu dregin í efa. Hið hlutlæga mat byggir á ásýnd dómstóls og þeirri kennisetningu að ekki sé nægilegt að dómari hafi í raun verið óvilhallur þegar hann leysti úr máli, heldur verður hann jafnframt að líta út fyrir að vera það í augum hins almenna borgara. Leiðir það af því trausti sem dómstólar í lýðræðisþjóðfélagi verða að njóta. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið tiltekið að réttur manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól sé meðal þeirra hornsteina sem lýðfrjáls ríki byggja réttarskipan sína á, sbr. Hrd. 604/2008.
  66. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað lýst hlutlæga matinu sem eftirfarandi, sbr. t.d. dóm í máli Péturs Sigurðssonar gegn íslenska ríkinu og til hliðsjónar mál Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn íslenska ríkinu:

    Samkvæmt hinu hlutlæga viðmiði verður að ákvarða, án nokkurs tillits til gerða dómarans, hvort fyrir hendi séu atvik sem kunna að vekja vafa um óhlutdrægni hans. Í þessu efni kann ásýndin ein jafnvel að öðlast nokkuð mikilvægi. Það sem hér er í húfi er það traust, sem dómstólar í lýðræðisþjóðfélagi verða að vekja meðal almennings. Þess vegna verður hver sá dómari, sem með réttu er unnt að óttast að ekki sé óhlutdrægur, að víkja sæti. Þetta felur í sér að afstaða viðkomandi málsaðila er mikilvæg við ákvörðun á því hvort með réttu megi óttast um óhlutdrægni ákveðins dómara í ákveðnu máli, þótt ekki sé hún afgerandi. Hið afgerandi atriði er hvort telja megi þann ótta hlutlægt séð réttmætan.

  67. Þetta felur meðal annars í sér að hinn hlutlægi mælikvarði er ólíkur hinum huglæga að því leyti að þegar honum er beitt þarf aðili máls ekki að færa sérstaklega sönnur á að dómstóll hafi verið óvilhallur.
  68. Við túlkun 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans hefur mannréttindadómstóllinn fjallað um fjárhagslega hagsmuni dómara í tengslum við aðila máls. Í máli Péturs Sigurðssonar gegn íslenska ríkinu taldi dómstóllinn ekkert benda til þess að persónulegir hagsmunir dómara við Hæstarétt eða eiginmanns hennar hefðu verið í húfi í málaferlunum milli kæranda og tiltekinnar fjármálastofnunar. Hins vegar var talið að þáttur dómarans í skuldaskilum eiginmanns hennar við viðkomandi fjármálastofnun, það hagræði sem eiginmaður hennar naut og tengsl þess við fjármálastofnunina hefðu verið þannig að eðli og umfangi, og það nálægt athugun Hæstaréttar á máli kæranda í tíma, að kærandi hefði með réttu getað óttast að Hæstarétt skorti þá óhlutdrægni sem krafist er.
  69. Í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu reyndi á lagareglur um hæfi hæstaréttardómara til að dæma í sakamáli gegn fyrrum starfsmanni Landsbanka Íslands hf. Eftir að sakamálið hafði verið dæmt í Hæstarétti komu fram upplýsingar í fjölmiðlum um hlutabréfaeign dómaranna sem dæmdu málið í Hæstarétti og fyrir lá að þeir höfðu tapað við fall bankans. Í dómi mannréttindadómstólsins komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að fjárhagstjón eins dómarans hefði leitt til þess að ekki voru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um málsmeðferð fyrir óvilhöllum dómstól og gilti þá einu þótt ekkert væri komið fram um að annarleg sjónarmið hefðu í reynd ráðið meðferð eða efnislegri niðurstöðu dómsins. Undir þessar forsendur mannréttindadómstólsins var tekið í ákvörðun Hæstaréttar í máli nr. 34/2019 frá 27. maí 2020, en málið varðaði Sigríði Elínu Sigfúsdóttur sem hafði fengið samþykkta beiðni sína um endurupptöku sakamálsins með úrskurði endurupptökunefndar í máli nr. 11/2016. Tók Hæstiréttur undir forsendur endurupptökunefndar og féllst á að skilyrði endurupptöku sakamálsins væru fyrir hendi.
  70. Við mat á beitingu g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála er einnig rétt að líta til Hrd. 511/2014, en þar segir:

    Þegar lagt er mat á hæfi dómara eftir g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum þess og efni, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki, þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Þá er hæfisreglum ekki ætlað það eitt að vernda rétt sakaðs manns samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir óhlutdrægum dómstóli, heldur einnig að girða fyrir að hlutdrægni gæti gagnvart ákæruvaldinu við rækslu á því lögbundna hlutverki þess að halda uppi refsivörslu ríkisins í þágu almannahagsmuna. Sé með réttu vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli eða ómerkt verði eftir atvikum fyrir æðra dómi úrlausn, sem hann hefur staðið að, þótt af því geti hlotist röskun á rétti aðila til að fá leyst úr máli sínu innan hæfilegs tíma.

  71. Þegar skoðað er hvort hægt sé að draga með réttu í efa óhlutdrægni dómstóls er óhjákvæmilegt að líta til atvika sem og aðstæðna sem liggja til grundvallar í því máli sem er til skoðunar. Við úrlausn um þetta geta hagsmunir dómara af fjárhagslegum toga, sem og aðila nátengdum dómurum, haft þýðingu.
  72. Samkvæmt 26. gr. þágildandi laga um dómstóla nr. 15/1998 var dómara óheimilt að eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki ef slíkt fékkst ekki samrýmst stöðu hans eða leiddi af sér hættu á að hann gæti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi. Samkvæmt 3. mgr. 26. gr. skyldi nefnd um dómarastörf setja almennar reglur um að hvaða marki samrýmanlegt væri embætti dómara að hann ætti hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. skyldi dómari tilkynna nefndinni um hlut sem hann eignaðist í félagi eða fyrirtæki. Væri ekki getið um heimild til að eiga slíkan hlut í almennum reglum nefndarinnar skyldi dómari þó fyrir fram leita leyfis hennar til þess. Með rökstuddri ákvörðun gat nefnd um dómarastörf meinað dómara að eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Dómara bar að hlíta slíku banni, en heimilt var að leita úrlausnar dómstóla um lögmæti þess.
  73. Samkvæmt þágildandi reglum nr. 643/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum, sem settar voru með stoð í framangreindum lögum, bar dómara að leita heimildar nefndar um dómarastörf til að eiga áfram eða eignast hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki sem rekið var í hagnaðarskyni, hafi eignarhluturinn verið að verðmæti 3.000.000 kr. eða meira þegar heimildarinnar var leitað.
  74. Í málinu liggur fyrir að hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson áttu hlutabréf í Glitni banka hf. þegar hin refsiverða háttsemi endurupptökubeiðanda átti sér stað. Af gögnum málsins verður ráðið að þeir hafi ekki tilkynnt nefnd um dómarastörf um eignarhald sitt á hlutabréfunum þegar þeir eignuðust bréfin árin 2006 og 2007 líkt og áskilið er í 2. málslið 3. mgr. 26. gr. þágildandi laga um dómstóla nr. 15/1998 og reglna nr. 643/2000. Voru tilkynningar dómaranna um eignarhlutina sendar nefndinni 19. janúar 2017 í tilviki Ólafs Barkar og 6. febrúar 2017 í tilviki Markúsar.
  75. Endurupptökubeiðandi starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans á árunum fyrir efnahagshrun og var hann því meðal æðstu yfirmanna bankans. Í refsimáli því sem beðist er endurupptöku á, var hann sakfelldur fyrir hafa með háttsemi sinni 12. nóvember 2007, sem varðaði gríðarlegar fjárhæðir, valdið bankanum stórfelldu tjóni. Við mat á hæfi umræddra dómara til setu í dóminum kemur meðal annars til skoðunar hvort það fjárhagslega tjón sem þeir urðu fyrir sé til þess fallið að draga hafi mátt óhlutdrægni þeirra með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, og með því valdið því að verulegur galli var á meðferð málsins, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga.
  76. Eins og fyrr segir þá áttu umræddir dómarar hlutabréf í Glitni banka hf. þegar hin refsiverða háttsemi átti sér stað og í tilviki annars þeirra átti hann enn hluti í bankanum þegar bankinn var tekinn yfir af íslenska ríkinu.
  77. Hæstaréttardómarinn Ólafur Börkur Þorvaldsson eignaðist hlutabréf í Glitni banka hf. þann 17. nóvember 2006. Á þeim degi var markaðsverðmæti bréfanna 5.253.818 kr. en bréfin voru síðan seld þann 7. desember 2006 á söluverðinu 5.362.797 kr. Í ljósi þess að hæstaréttardómarinn hafði selt framangreinda hluti fyrir þann tíma sem hin refsiverða háttsemi endurupptökubeiðanda átti sér stað, telur endurupptökunefnd framangreinda hlutabréfaeign ekki vera þess valdandi að draga hafi mátt óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, þannig að verulegur galli hafi verið á meðferð sakamálsins, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga.
  78. Þá eignaðist sami dómari þann 24. júlí 2007 480.522 hluti í Glitni banka hf., að verðmæti 14.679.947 kr., sem hann seldi þann 7. desember sama ár fyrir 11.532.528 kr., en mismunurinn nemur 3.147.419 kr. Endurupptökubeiðandi var ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa 12. nóvember 2007 farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga er hann ásamt öðrum dómfelldu lét Glitni banka hf. veita BK-44 ehf. lán til að fjármagna að fullu kaup þess félags á hlutum í bankanum sem fram fóru 7. þess mánaðar. Síðastnefndan dag nam verðmæti hlutabréfa dómarans 12.109.154 kr. Fyrir liggur í málinu að dómarinn hafði selt þessa hluti í bankanum þegar starfsemi hans var tekin yfir af Fjármálaeftirlitinu þann 7. október 2008 og hlutabréf í bankanum urðu verðlaus.
  79. Við mat á því hvort hlutabréfaeign dómarans Ólafs Barkar Þorvaldssonar hafi verið þess eðlis að draga hefði mátt með réttu óhlutdrægni hans í efa, þannig að verulegur galli hafi verið á málsmeðferð, er til þess að líta að í 2. mgr. 7. gr. þágildandi reglna nr. 463/2000 var þannig meðal annars kveðið á um skyldu dómara til þess að leita sérstakrar heimildar nefndar um dómarastörf til þess að mega eiga hlut í félagi sem hefði skráð gengi í verðbréfaviðskiptum ef verðmæti hlutarins var umfram 3.000.000 kr. Endurupptökunefnd telur þennan mælikvarða ekki óraunhæfan og undir það hefur Mannréttindadómstóll Evrópu tekið, sbr. mál Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn íslenska ríkinu. Í því máli taldi mannréttindadómstóllinn að tjón dómara vegna glataðrar hlutabréfaeignar að fjárhæð 1.738.922 kr. hefði ekki verið slíkt að það hefði valdið vanhæfi dómarans.
  80. Dómarinn eignaðist eins og áður greinir hluti í Glitni banka hf. 24. júlí 2007 og seldi þá aftur 7. desember sama ár. Þegar hin refsiverða háttsemi átti sér stað, á tímabilinu 7.-12. nóvember 2007, nam verðmæti þeirra 12.109.154 kr. Frá þeim degi og til þess dags sem dómarinn seldi bréfin féllu þau í verði um 576.626 kr. Gat tjón hans að hámarki hafa numið þeirri fjárhæð sem er lægri en sú fjárhæð sem lögð var til grundvallar í þágildandi reglum nr. 463/2000. Getur fjárhagslegt tap dómarans samkvæmt þessu ekki leitt til þess að draga megi hlutleysi hans í efa í skilningi g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála óháð því hvort tjón dómarans hafi mátt rekja til hinnar refsiverðu háttsemi að einhverju leyti þannig að verulegur galli hafi verið á málsmeðferð, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga.
  81. Samkvæmt upplýsingum frá dómaranum Markúsi Sigurbjörnssyni átti hann 13.832 hluti í Glitni banka hf. í árslok 2007 eða um það leyti sem hin refsiverða háttsemi endurupptökubeiðanda átti sér stað. Telur dómarinn að hlutirnir hafi talist í því sambandi að andvirði 343.034 kr. Þá hluti átti hann enn þegar þeir urðu verðlausir 7. október 2008. Í ljósi gengisþróunar hlutabréfa í Glitni banka hf. má ætla að verðmæti hlutabréfanna hafi rýrnað töluvert á árinu 2008 og hafi fjárhagslegt tjón dómarans því numið lægri fjárhæð þegar bréfin urðu loks verðlaus.
  82. Með vísan til framangreinds telur endurupptökunefnd að umfang hlutabréfaeignar dómarans Markúsar Sigurbjörnssonar hafi ekki verið slíkt að áhrif hafi haft á hæfi hans til að taka sæti í máli endurupptökubeiðanda. Að sama skapi hafi umfang tjóns dómarans, vegna þess að hlutabréfin fóru forgörðum, ekki verið slíkt að verulegur galli hafi verið á málsmeðferð, sbr. skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  83. Þá liggur fyrir í málinu að sami dómari gerði samning við Glitni banka hf. þann 5. janúar 2007 um eignastýringu sem stóð yfir þar til bankinn lét af slíkri starfsemi í október 2008.
  84. Eins og að framan greinir þá tóku þágildandi reglur nr. 463/2000 ekki til eigna í hlutabréfasjóðum eða hliðstæðum sjóðum en nefnd um dómarastörf tók af skarið um þetta á fundi sínum þann 15. desember 2016. Niðurstaða nefndarinnar var sú að slíkar eignir væru ekki tilkynningaskyldar. Þær væru eðlisólíkar hlutabréfaeign að því leyti að hlutabréfum fylgir ákvörðunarvald í málefnum félags sem hlutdeild í slíkum sjóðum gerir ekki. Væri eign í slíkum sjóðum hliðstætt því að fé væri lagt inn á innlánsreikninga, eins og fram kemur í bréfi nefndarinnar, dags. 23. janúar 2017.
  85. Það eitt að nefnd um dómarastörf hafi ekki talið þörf á því að dómarar upplýstu um eignir sínar í hlutabréfasjóðum eða hliðstæðum sjóðum breytir því ekki að fjárhagslegt tap dómara getur leitt til þess að draga megi hlutleysi hans í efa í skilningi g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, vegna hlutdeildar hans í slíkum sjóðum eins og endranær.
  86. Samkvæmt upplýsingum frá dómaranum lét hann af hendi í janúar og febrúar 2008 um 61.450.000 kr. til eignastýringar samkvæmt samningnum. Samkvæmt dómaranum virðist því fé á fyrrgreindu tímabili hafa verið varið til viðskipta með hlutdeild í innlendum og erlendum verðbréfasjóðum en einnig verið haft að hluta til á innlendum innlánsreikningum. Samkvæmt upplýsingum frá dómaranum voru þær ráðstafanir gerðar án hans afskipta. Telur dómarinn að fjárhagslegt tap hans hafi numið 7.607.000 kr. eða 14,78 prósentum af upphaflegum höfuðstól að teknu tilliti til tveggja úttekta af honum að fjárhæð 6.150.000 kr. og 3.800.000 kr. Að meðtöldu tjóni dómarans vegna áðurnefndrar hlutabréfaeignar hans í Glitni banka hf. liggur því fyrir að fjárhagslegt tjón hans við fall bankans nam samtals tæpum átta milljónum króna. Fjárhæð tjóns dómarans nemur margföldum mánaðarlaunum hans og nánast þrefaldri þeirri fjárhæð sem lögð var til grundvallar í þágildandi reglum nr. 463/2000.
  87. Eins og áður segir þá snýr sakamál endurupptökubeiðanda að umboðssvikum hans gagnvart Glitni banka hf. og því tjóni sem háttsemin olli bankanum. Ekki hafa komið fram gögn í málinu um að tjón dómarans vegna eignastýringarinnar megi rekja til þeirrar háttsemi. Hvorki liggja fyrir frekari upplýsingar í málinu, en að framan greinir, um það með hvaða hætti fjármunum dómarans, sem voru í eignastýringu hjá Glitni banka hf., var ráðstafað, svo sem hvort þeim hafi verið ráðstafað til kaupa á hlutafé í félögum eða sjóðum sem áttu hlut í bankanum, né að þessir fjármunir í eignastýringu hafi legið í verðmætum sem tengdust hlutabréfum í Glitni banka hf. Fjártjónið gat því hafa komið til vegna annarra ástæðna en tjóns bankans.
  88. Að mati endurupptökunefndar getur það ekki ráðið úrslitum við mat á hlutleysi dómarans hvort fjárhagstjónið hafi verið vegna hlutabréfaeignar hans í bankanum eða eignar hans í hlutabréfasjóðum sem voru í stýringu hjá bankanum. Hinir fjárhagslegu hagsmunir eru þeir sömu og það varðar dómarann sama áfallinu að tapa fénu, á hvorn veginn sem er. Er þá til þess að líta að tilgangur hæfisreglna, þar á meðal samkvæmt g. lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum þess og efni, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki, þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.
  89. Dómarinn var viðskiptavinur Glitnis banka hf. á þeim tíma sem hin refsiverða háttsemi átti sér stað og tapaði verulegum fjármunum í þeim viðskiptum. Endurupptökubeiðandi og aðrir dómfelldu voru ákærðir fyrir háttsemi sem varðaði gríðarlegar fjárhæðir og var til þess fallin að valda Glitni banka hf. stórfelldu tjóni. Endurupptökubeiðandi var einn af stjórnendum bankans og í ljósi þeirra fjármuna sem fóru forgörðum hjá dómaranum voru atvik og aðstæður með þeim hætti að endurupptökubeiðandi mátti hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni dómstólsins með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála. Breytir þá engu þótt nokkur tími hafi liðið frá því tjón dómarans varð og þar til hann dæmdi í málinu.
  90. Samkvæmt framangreindu eru því fram komnir gallar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti í skilningi d. liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Með hliðsjón af framansögðu og þeirrar grundvallarreglu sem fram kemur í 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól verður að telja uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  91. Samkvæmt því er beiðni endurupptökubeiðanda samþykkt.
  92. Lögmaður endurupptökubeiðanda, Páll Rúnar M. Kristjánsson hrl., var skipaður til að gæta réttar hans, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála. Kostnaður endurupptökubeiðanda samtals 1.240.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti verður felldur á ríkissjóð með vísan til 4. mgr. 231. gr. sömu laga.
  93. Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist. Ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til þess að endanleg skipun nefndarmanna í endurupptökunefnd í máli þessu lá ekki fyrir fyrr en þann 23. janúar 2020.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni Magnúsar Arnar Arngrímssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 478/2014, sem dæmt var í Hæstarétti þann 3. desember 2015, er samþykkt að því er hann varðar.

Kostnaður endurupptökubeiðanda 1.240.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

Haukur Örn Birgisson formaður

Björn Jóhannesson

Valgerður Sólnes


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum