Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 20. maí 2005

Ár 2005, föstudaginn 20. maí, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matmálið nr. 9/2004.

                                   Hafnarfjarðarbær

                                    gegn

                                    Ernu Kristinsdóttur

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Magnúsi Leopoldssyni löggiltum fasteignasala og Vífli Oddssyni verkfræðingi, en formaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Með bréfi dagsettur 3. september 2004 beiddist Hafnarfjarðarbær þess að matsnefnd eignarnámsbóta meti hæfilegar eignarnámsbætur fyrir lóðarréttindi að Arnarhrauni 2 í Hafnarfirði.

Með bréfi dagsettu 31. janúar sl. sendi formaður varaformanni mál þetta til meðferðar þar sem formaður vék sæti vena starfstengsla við lögmann eignarnámsþola.

 

Eignarnámið beinist að spildu úr lóðinni við Arnarhraun 2 í Hafnarfirði sem er hornlóð sem liggur að Arnarhrauni og Reykjavíkurvegi. Lóðin er 883,9 fermetrar að stærð og var leigð Sólveigu Baldursdóttur og eignarnámsþola Ernu Kristinsdóttur á erfðafestu frá 1. apríl 1956 samkvæmt leigusamningi dagsettum 9. apríl 1958. Á lóðinni er sambýlishús að heildarstærð 393,7 fermetrar og bílskúr að stærð 30,7 fermetrar.

Í upphafi árs 2003 var hafist handa við gerð nýs deiliskipulags við gatnamót Reykjavíkurvegar og Arnarhrauns. Tillaga að deiliskipulagi var samþykkt í skipulags- og umferðarnefnd Hafnarfjarðar þann 17. febrúar 2004 og í bæjarstjórn 24. febrúar sama árs. Tillagan var auglýst og frestur til að skila athugasemdum rann út 23. apríl 2004. Engar athugasemdir bárust frá eignarnámsþola. Þann 15. júní 2004 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar deiliskipulag fyrir „Gatnamót Reykjavíkurvegar – Arnarhrauns” og var deiliskipulagið birt í Stjórnartíðindum þann 10. ágúst 2004.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 31. ágúst sl. samþykkti bæjarstjórnin að taka eignanámi 27 fermetra spildu af lóðinni nr. 2 við Arnarhraun og vísaði til deiliskipulagsteikninga vegna skipulagsbreytinga og með vísan til 32. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum.

Skipulagsstofnun heimilaði eignarnám á grundvelli gildandi deiliskipulags með vísan til 32. gr. byggingar- og skipulagslaga nr. 93/1997 í bréfi dagsettu 23. ágúst sl.

Aðilar hafa leitast við að ná samningum um bætur en án árangurs.

 

Sjónarmið eignarnema

Í lóðarleigusamningi frá 1958 komi fram að lóðin við Arnarhraun 2 sé leigð á erfðafestu til þess að byggja á henni íbúðarhús og að stærð hennar sé 883,9 fermetrar. Samkvæmt útprentun úr landskrám Fasteignamats ríkisins er heildarmat fyrir lóðina 7.024.000 krónur. Eignarnámið taki einvörðungu til lítils hluta lóðarinnar, 27 fermetra við endamörk hennar. Eignarnemi telur eðlilegt, við mat á hæfilegri bótafjárhæð, að líta til lóðarmatsins en skv. því sé lóðarmat á hvern fermetra 7.946 krónur eða 214.558 krónur fyrir 27 fermetra. Að mati eignarnema sé um sanngjarna fjárhæð að ræða enda verði ekki séð að eignarnámsþoli bíði nokkurn fjárhagslegan skaða vegna eignarnámsins nema síður sé.

Framkvæmd sú sem sé ástæða eignarnámsins muni að öllum líkindum auka verðmæti hússins sem sé á lóð nr. 2 við Arnarhraun vegna minnkandi hávaðamengunar, bætts aðgengis og öruggara umhverfis. Eins og fram komi í minnisblaði verkfræðistofunnar Fjölhönnunar ehf. sé mikill hraði um gatnamót Reykjavíkurvegar og Arnarhrauns í dag og töluvert um óhöpp og árekstra. Þegar ákveðið hafi verið að grípa til aðgerða til að tryggja aukið umferðaröryggi um gatnamótin hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að heppilegast væri að setja hringtorg við gatnamótin. Sú leið muni tryggja að hraði um gatnamótin minnki sem skili sér í minni hávaða, aðgengi íbúa sem eigi leið um Arnarhraunið batni, öryggi aukist bæði fyrir akandi og gangandi vegfarendur þar sem gönguleiðir verði bættar.

Í þessu sambandi skuli tekið fram að gengið verði frá svæðinu að loknum framkvæmdum og steinsteypt grindverk sem liggi meðfram lóðinni, og sé í slæmu ásigkomulagi í dag, verði lagfært og muni það bæta ásýnd og umhverfi lóðarinnar stórum.

Lóðarmatið, sem eignarnemi telji rétt að miða við, hafi hækkað margfalt á árinu 2001 eða úr 1.659.000 krónum árið 2000 og í 6.385.000 krónur árið 2001. Upphaflegt endurmat árið 2001 hafi verið 4.812.000 en vegna athugasemda sem borist hafi frá eignarnámsþola hafi það verið hækkað upp í 6.385.000 krónur. Í 27. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 sé kveðið á um að skráð matsverð fasteignar skuli vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum í nóvembermánuði næst á undan matsgerð, miðað við heimila og mögulega nýtingu fasteignarinnar á hverjum tíma. Í 2. mgr. segi síðan að ef gangverð sambærilegra eigna sé ekki þekkt þá skuli skráð matsverð ákveðið eftir bestu fáanlegri vitneskju um sambærilegt gangverð. Með hliðsjón af þessu ákvæði og þeim miklu hækkunum sem orðið hafi á matsverði lóðarinnar við Arnarhraun 2 á árinu 2001 megi telja fullvíst að núgildandi lóðarmat endurspegli markaðsvirði lóðarinnar.

Að lokum sé rétt að taka fram að á sáttafundi þann 21. júní 2004 hafi eignarnemi freistað þess að ljúka málinu með sátt og boðið því eignarnámsþola töluvert yfir áætluðu mati eða 800.000 kr. Eignarnemi telur sig á engan hátt bundin af þessari fjárhæð og vísar í því sambandi í fundargerðina frá fundinum en þar sé sérstaklega tekið fram að Hafnarfjarðarbær sé ekki bundinn af framkomnu sáttatilboði sínu ef samkomulag náist ekki. Eignarnemi hafi talið á þeim tíma líkt og nú að réttast væri að miða við lóðarmatið en verið tilbúinn til að ganga þetta langt til að freista þess að ná sáttum og forða því að málið endaði fyrir matsnefnd eignarnámsbóta með tilheyrandi kostnaði.

 

Sjónarmið eignarnámsþola

Af hálfu eignarnámsþola, Ernu Kristinsdóttur, er gerð sú krafa aðallega að bætur til handa eignarnámsþola vegna þeirra eignaskerðingar og verðmætarýrnunar sem hljótast muni af framkvæmdum eignarnámsbeiðanda á lóðinni nr. 2 við Arnarhraun í Hafnarfirði verði metnar að minnsta kosti að fjárhæð 6.960.000 krónur.  Til vara þess krafist að bætur verði metnar að minnsta kosti að fjárhæð 5.306.000 krónur. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda í báðum tilvikum.

Í máli þessu sé ágreiningur með aðilum um það hve hátt meta eigi eignarhlut matsþola. Samningaviðræður milli eignarnema og eignarnámsþola um endurgjald fyrir eignarhlutann hafi ekki  borið árangur þar sem verðhugmyndir eignarnema séu í engu samræmi við raunverulegt verðmæti eignarhlutans.

Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar i.f., segi að fullt verði skuli koma fyrir hlut sem eignarnám er gert í. Samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna sé rétt, við mat á því hvað teljist fullt verði í skilningi stjórnarskrárákvæðisins, að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi eignarinnar eða hver kostnaður sé fyrir eignarþola að útvega sér sambærilega eign. Beita beri því sjónarmiði sem teljist hagstæðast fyrir matsþola. Við mat á verðmæti eignarhluta matsþola komi því öll framangreind sjónarmið til álita.

Eignarnámsþoli eigi tvær hæðir í fasteigninni nr. 2 við Arnarhraun í Hafnarfirði, aðra og þriðju hæð hússins. Jafnframt sé eignarhlutur hennar í lóðinni samtals 94,1% en lóðin er að heildarstærð 883,9 fermetrar. Skerðing á lóð eignarnámsþola vegna framkvæmda eignarnema er samtals 27 fermetrar og beri eignarnema að bæta rýrnun á gildi lóðar eignarnámsþola vegna skerðingar sem og verðmæti fasteignar hennar. Ljóst sé að eignarnámsþoli hafi frá því hún eignaðist lóðina nýtt hana alla ásamt sameigendum sínum. Sú lóð, sem til umráða sé, muni minnka töluvert og þar með gildi hennar. Þetta séu gildi sem séu mjög mikils virði fyrir eignarnámsþola.

Eignarnámsþoli hafnar því sjónarmiði eignarnema að miða beri endurgjald við núgildandi lóðarmat sem endurspegli markaðsvirði lóðarinnar. Lóðin hafi hækkað umtalsvert í verði undanfarin ár, sbr. hækkun á lóðarmati Fasteignarmats ríkisins á árunum 1990 til 2003, sbr. skjal nr. 11. Ljóst sé að lóðin hafi haldið áfram að hækka í verði frá því á síðasta ári vegna stöðugra verðhækkana á fasteignamarkaði. Af því leiði að núgildandi lóðarmat Fasteignamats ríkisins endurspegli engan veginn raunverulegt verðmæti lóðarinnar.

Framkvæmdir eignanema muni á engan hátt auka verðmæti hinnar eignarnumdu lóðar enda hafi engin rök verið færð fram þessu til stuðnings. Eignarnámsþoli hafi leitað til ÁS Fasteignasölu til að láta meta eign sína í heild og í mati fasteignasölunnar, dags. 20. desember 2004, komi fram að ásett verð eignarinnar sé í dag 34.800.000 krónur, sem sé tæpum 12 milljónum hærra verð en samkvæmt mati Fasteignamats ríkisins. Í mati fasteignasölunnar sé jafnframt fullyrt að söluverð eignanna muni lækka við fyrirhugaðar framkvæmdir eignarnema og séu nokkrar ástæður þess taldar upp í matinu. Umferð bíla muni færast nær húsinu, tilkoma hringtorgsins muni fækka bílastæðum við húsið, hringtorgið mun leiða til aukinnar mengunar við eignina og lóðin muni minnka um 27 fermetra. Allt séu þetta atriði sem hafi veruleg áhrif á verðmæti eignar eignarnámsþola og blasi því veruleg verðlækkun hennar við.

Ekki sé hægt að fallast á það sjónarmið að ásýnd eignarinnar muni lagast við að færa hringtorg eða annars konar umferðarmannvirki nær stofugluggum hennar, þvert á móti á muni slík framkvæmd undantekningalaust leiða til rýrnunar fasteignarinnar, hvort sem um sé að ræða verð- eða útlitsrýrnun.

Aðalkröfu sinni til stuðnings bendir eignarnámsþoli á að eðlilegt sé að meta verðrýrnun eignarinnar ekki minni en 20% af heildarverðmæti hennar samkvæmt mati ÁS fasteignasölu. Eignarnámsþoli hafnar því að leggja eigi til grundvallar fermetraverð lóðarskikans samkvæmt fasteignarmatsverði, líkt og eignarnemi vilji gera. Telur eignarnámsþoli að mikilvægt sé að miða bætur við verðrýrnun eignarinnar í heild, svo hægt sé að ákvarða þær með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Eignin sé á mjög eftirsóknarverðum stað í Hafnarfirði og ljóst að fyrirhugaðar gatnaframkvæmdir muni draga úr eftirspurn eftir eigninni, sbr. framangreind sjónarmið ÁS Fasteignarsölu.

Til stuðnings varakröfu vísar eignarnámsþoli til úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta frá 27. október 1986 í máli Hafnarfjarðarbæjar gegn Eyjólfi Guðmundssyni, en í því máli var ca. 25 fermetra lóðarhluti úr eigninni að Tunguvegi 2, Hafnarfirði, tekinn eignarnámi. Í úrskurðinum hafi Hafnarfjarðarbæ verið gert að greiða eignarnámsþola 250.000 krónur vegna lóðarskerðingar. Umrædd lóð sé beint á móti fasteigninni Arnarhrauni 2 og eignirnar því sambærilegar að mörgu leyti, þótt íbúðarhúsið Tunguvegi 2 sé lítið og gamalt timburhús en Arnarhraun 2 sé reist á árunum 1959-1967 á þremur hæðum. Séu bæturnar reiknaðar sem hlutfall af heildarverðmæti lóðarinnar samkvæmt lóðarmati Fasteignamats ríkisins fyrir Tunguveg 2 eins og það var árið 2003 séu þær 1.626.779 krónur. Af þessu sé ljóst að bætur til eignarnámsþola vegna Arnarhrauns 2 geti ekki verið lægri en 5.306.650 krónur sem séu bætur miðaðar við sömu hlutföll og í framangreindum úrskurði. Eignarnámsþoli fullyrðir að verðmæti lóðarinnar samkvæmt Fasteignamati ríkisins sé verulega vanmetið og því sé um lágmarksbætur að ræða.

Ljóst sé að eignarnámsþoli mun verða fyrir tímabundnu tjóni og óhagræði vegna þeirra framkvæmda sem eignarnemi muni standa fyrir. Í þessu óhagræði felist að vinna við stórvirkar vinnuvélar muni standa yfir á lóð þeirra í töluverðan tíma á meðan framkvæmdir eiga sér stað. Eignarnámsþoli hafi stillt kröfugerð sinni í hóf og séu því bætur vegna tímabundins tjóns og óhagræðis meðtaldar í framangreindri kröfufjárhæð.

Vísað er til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn. Þá er vísað til laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Málskostnaðarkrafan er reist á 11. gr. þeirra laga.

 

Andsvör eignarnema

Eignarnemi telur kröfur eignarnámsþola allt of háar og í engu samræmi við þau verðmæti sem eignarnumin séu. Aðalkröfu sína styðji eignarnámsþoli með mati frá Fasteignasölunni Ási en eignarnemi hafnar því algjörlega að stuðst verði við framangreint mat. Það sé vissulega rétt að vegurinn færist örlítið nær húseigninni en það sem skipti mestu máli í því sambandi sé að eðli vegarins og ytri ásýnd breytist verulega til batnaðar. Eins og staðan sé í dag liggi gatan beint inn í miðbæ Hafnarfjarðar og sé í reynd ein af aðal umferðaræðunum í gegnum Hafnarfjörð. Hraði sé því nokkuð mikill á götunni og gatnamót Reykjavíkurvegar og Arnarhrauns hættuleg og töluvert um óhöpp og árekstra á þeim stað. Það hafi verið af þessum ástæðum sem ákveðið hafi verið að ráðast í breytingar á götunni þ.e. til að draga úr hraða sem leiði til aukins öryggis og minnkandi mengunar. Fullyrðingar þær sem komi fram í mati fasteignasölunnar Áss geti því einfaldlega ekki staðist að því er varði færri kaupendur og hugsanlega aukningu í mengun. Þvert á móti ætti húseignin að verða eftirsóknarverðari ef umferðaröryggi aukist og mengun minnki.

Að því er varðar fjölda bílastæða við húsið komi það fram í skýrslu verkfræðistofunnar Fjölhönnunar ehf., að bílastæðum fækki um tvö sitt hvorum megin við innkeyrslu að Arnarhrauni 3 sem sé skáhallt á móti Arnarhrauni 2. Ekki verði séð að sú fækkun á bílastæðum leiði til verðmætarýrnunar á húseigninni nr. 2 við Arnarhraun.

Samkvæmt framansögðu sé því alfarið hafnað að breytingar þær sem um ræðir muni rýra verðmæti eignarinnar við sölu. Þvert á móti telur eignarnemi að líkur séu til þess, eignin verði eftirsóknarverðari og verðmeiri vegna aukins öryggis, minni mengunar og fallegri ásýndar. Eðlilegt sé því, við mat á hæfilegri bótafjárhæð, að líta til lóðarmatsins en núgildandi lóðarmat, sbr. matsskjal nr. 19, er á hvern fermetra kr. 9133 eða kr. 246.591 fyrir 27 fermetra. Að mati bæjarins er um sanngjarna fjárhæð að ræða enda verður ekki séð að eignarnámsþoli bíði nokkurn fjárhagslega skaða vegna eignarnámsins. Eignarnámsþoli vísar í hækkanir á sl. mánuðum á fasteignamarkaði og ekki vefengir eignarnemi að miklar hækkanir hafa átt sér stað sl. mánuði. Ef lóðarmat frá 10. október sl., sbr. matsskjal nr. 9, og lóðarmat frá 25. febrúar, sbr. matsskjal nr. 19, er skoðað þá kemur í ljós að matið hefur hækkað á þessum ríflega fjórum mánuðum um tæplega 15% og því ljóst að matið endurspeglar nokkurn veginn markaðsvirði lóðarinnar.

Varakröfu sína styður eignarnámsþoli með vísan til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta frá 27. október 1986, sbr. matsskjal nr. 14. Eins og fram kemur í niðurstöðu matsnefndarinnar í því máli var ekki talið að breytingar á Reykjavíkurvegi myndu leiða til verðrýrnunar á eigninni og því var einvörðungu verið að bæta fyrir lóðarskerðinguna sem slíka. Varakrafan að fjárhæð kr. 5.306.000 vegna 27 fm lóðarspildu hlýtur að teljast fjarstæðukennd en ef sú tala yrði útfærð á lóðina í heild sinni sem er 883,9 fm, eða á stærð við góða einbýlishúsalóð, þá yrði niðurstaðan um 173 milljónir fyrir lóðina í heild sinni. í því sambandi er rétt að benda á að í byrjun desember 2004 voru opnuð tilboð, sbr. matsskjal nr. 20, í lóð nr. 1 við Hrauntungu í Hafnarfirði, einbýlishúsalóð að stærð 981,3 fm, sbr. matsskjal nr. 21, í grónu og góðu hverfi í Hafnarfirði. Hæsta boð í lóðina var að fjárhæð kr. 8.600.000 en í þeirri fjárhæð var gatnagerðargjaldið u.þ.b. 5.000.000 skv. gildandi gjaldskrá. Fyrir lóðarverðmætin sem slík var því viðkomandi tilboðsaðili tilbúinn að greiða kr. 3.600.000.

Að öðru leyti vísast til greinargerðar eignarnema og annarra gagna málsins til stuðnings kröfum eignarnema.

 

Andsvör eignarnámsþola

Um yfirlýsingu Fasteignasölunnar Áss og mótmæli eignarnemi við þeim sjónarmiðum sem fram komi í yfirlýsingunni bendir eignarnámsþoli á að jafnvel þó svo að ásýnd vegarins myndi batna þá breyti það ekki því að hringtorg verði lagt þar sem garður hennar sé nú. Þar af leiðandi muni umferð færast nær húsi hennar sem geti ekki valdið öðru en óhagræði, skerðingu á eign hennar og frekari mengun.

Það sé eignarnámsþola ómögulegt að sjá að eign hennar verði eftirsóknarverðari eftir framkvæmdirnar. Það liggi fyrir að eign hennar muni minnka, umferð muni færast nær húsinu, mengun muni aukast og bílastæðum við fasteignina fækka. Það sé því fráleitt að halda öðru fram en að framkvæmdir eignarnema á lóð eignarnámsþola muni valda henni umtalsverðu tjóni. Sjónarmið eignarnema um hugsanlega verðmætaaukningu eignarinnar vegna framkvæmdanna séu því engan veginn reist á málefnalegum grundvelli eða þaðan af síður studdar nokkrum gögnum í þá veru.

Verðmat Fasteignamats ríkisins gefi ekki rétta mynd af raunverulegu verðmæti lóðarinnar. Ljóst sé að fasteignir hafi hækkað umtalsvert í verði og endurspegli fasteignamat ríkisins ekki þessa hækkun markaðsverðs.

Loks bendir eignarnámsþoli á það að eignarnema beri að greiða henni fullar bætur fyrir tjón sitt. Í því felist að óheimilt sé að greiða eingöngu bætur með hliðsjón af skerðingu lóðar eignarnámsþola, heldur verði að meta tjón hennar með hliðsjón af þeirri umtalsverðu verðmætarýrnun sem framkvæmdir eignarnema hafa í för með sér á fasteignaverð eignarinnar í heild. Því sé nefndinni ekki heimilt að meta eingöngu verðmætarýrnun lóðarinnar, heldur beri henni að taka tillit til allrar eignarinnar, bæði lóðar og hússins, enda verði þessir hlutir ekki aðskildir.

 

Niðurstaða

Eignarnámsþoli ber fyrir sig það mat starfsmanna fasteignasölunnar Áss í Hafnarfirði frá 20. desember sl. að fyrirhugaðar framkvæmdir eignarnema muni lækka söluverð íbúða hennar í húsinu Arnarhrauni 2. Vegur færist nær húsi sem muni fæla kaupendur, einkum barnafólk, frá, þær hafi áhrif á fjölda bílastæða við húsið og mengun muni aukast. Segir síðan að ásett verð á íbúðir eignarnámsþola að Arnarhrauni 2 sé 34.800.000 krónur. Fullyrðingar þessar leggja engan veginn fullnægjandi grundvöll undir þá staðhæfingu að eign eignarnámsþola muni rýrna um sem svarar 20% vegna framkvæmda eignarnema. Hins vegar leiða framkvæmdir til þess að umferð um Reykjavíkurveg færist nær húsinu Arnarhrauni 2 og bílastæði á svæðinu skerðist. Verður til þessa litið við matið.

Lóðarskiki sá sem tekinn er eignarnámi er í útjaðri lóðarinnar við Arnarhraun 2 í Hafnarfirði. Hann er 27 fermetrar að stærð eða um 3% lóðarinnar allrar. Með mati  matsnefndar eignarnámsbóta frá 27. október 1986, þar sem 25 fermetra skiki var tekinn af lóð Tunguvegar 2 sem er handan Reykjavíkurvegar örskammt frá Arnarhrauni 2,  var skikinn metinn á 250.000 krónur. Eðlilegt er að hafa hliðsjón af þessu mati nefndarinnar við úrlausn þessa máls og framreikna verðmæti bótanna sem þar voru ákvarðaðar miðað við byggingavísitölu. Einnig er rétt að taka tillit til örra hækkanna á lóðaverði almennt á svæðinu.

Nefndin telur þannig að líta beri til áhrifa framkvæmda eignarnema og fyrrgreinds mats lóðarskika að Tunguvegi 2 auk verðlagsbreytinga.

Að öllu þessu virtu telur matsnefnd eignarnámsbóta að bætur til eignarnámsþola séu hæfilega ákveðnar 1.800.000 krónur.

Þá skal eignarnemi enn fremur greiða matsþola 280.000 krónur í málskostnað og er virðisaukaskattur þar með talinn og 350.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi Hafnarfjarðarbær greiði matsþola Ernu S. Kristinsdóttur 1.800.000 krónur og 280.000 krónur í málskostnað. Þá greiði eignarnemi 350.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

                                                                        Allan V. Magnússon

                                                                        Magnús Leopoldsson

                                                                        Vífill Oddsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum