Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 4. maí 2005

Ár 2005, miðvikudaginn 4. maí, kom matsnefnd eignarnámsbóta saman á skrifstofu varaformanns í Dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík.

                                                                       Fyrir er tekið

                                                                        málið nr. 5/2005

                                                                        Vegagerð ríkisins

                                                                        gegn

                                                                        eigendum Hrauns

                                                                        í Grindavík o.fl.

 

            Er nú í málinu kveðinn upp svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dagsettu 14. mars sl. beiddist Vegagerðin þess að matsnefnd eignarnámsbóta mæti bætur í samræmi við X. kafla vegalaga nr. 45/1994 og lög um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 til eigenda jarðarinnar Hrauns í Grindavík og rétthafa samkvæmt samningi frá 21. maí 1985 um efnistöku í landi Hrauns. Auk þess var þess beiðst að matsnefndin heimilaði eignarnema að taka í umráð sín verðmæti sem taka ætti eignarnámi og hefja framkvæmdir. Tilefni eignarnámsins er lagning svonefnds Suðurstrandarvegar og er andlag eignarnámsins land undir veg og efnistaka til vegagerðar.

Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar 23. apríl sl. og varð þá með aðilum svofelld sátt:

1.                  Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði landeigendum og rétthafa samkvæmt samningi frá 21. maí 1985, sbr. matsskjal nr. 14, í bætur fyrir land undir veg, efnistöku, áhrifa fyrirhugaðra framkvæmda á efnisvinnslu og skerðingu á aðstöðu samtals 24.225.000 krónur.

 

2.                  Landeigendur og rétthafi samkvæmt fyrrnefndum samningi heimila Vegagerðinni efnistöku úr námu í landi Hrauns vegna fyrsta áfanga lagningar Suðurstrandarvegar. Áætlað efnismagn er 220.500 m3 í fyrsta áfanga verksins. Um tilhögun verksins á framkvæmdatíma vísast til matsskjala 8 og 12.

 

3.                  Landeigendur og fyrrnefndur rétthafi heimila Vegagerðinni að leggja veg um land Hrauns eins og fram kemur á teikningu sem fylgir útboðsgögnum á matsskjali nr. 3. Um er að ræða u.þ.b. 4.500 metra langa og 40 metra breiða spildu undir og í landi Hrauns. Land undir veg er 18,3 ha að flatarmáli. Landeigendur munu gefa út afsal vegna lands undir vegsvæði.

 

4.                  Landeigendur og fyrrnefndur rétthafi heimila Vegagerðinni að hefja framkvæmdir við lagningu Suðurstrandarvegar í landi Hrauns þegar í stað.

 

Enda þótt sátt hafi orðið um bætur og umráðatöku er ágreiningur með aðilum um málskostnað og eftir að lögmenn aðila höfðu tjáð sig um þennan ágreining var hann lagður í úrskurð nefndarinnar.

 

Af hálfu eigenda Hrauns er gerð krafa um samtals 834.399 krónur auk kostnaðar sem enn eigi eftir að falla til vegna frekari vinnu lögmanns þeirra við uppgjör og skjalafrágang því tengdu. Lögmaður eigenda Hrauns hefur lagt fram vinnuskýrslu fyrir tímabilið 2. nóvember 2004 til 23. apríl sl. þar sem skráðar eru vinnustundir hans og skýringar á verkum þeim sem hann hefur unnið í þágu þessara eignarnámsþola.

 

Lögmaður Gísla Sigurðssonar hefur lagt fram kröfugerð fyrir umbjóðanda sinn þar sem fram kemur að vinna hans nemi 939.729 krónum, kaup á verkfræðiþjónustu 646.566 krónum akstur aðilans sjálfs 137.088 krónum og áætlað tekjutap aðilans 1.500.000 krónum. Samtals er því krafist 3.223.383 króna fyrir hönd þessa aðila.

 

            Af hálfu eignarnema er því haldið fram að kröfur þessar séu úr hófi fram. Venjulega sé kostnaður til aðila vegna eignarnáms á bilinu 300.000 til 700.000 krónur. Þá mótmælir eignarnemi sérstaklega öðrum kostnaðarliðum en lögmannskostnaði.

           

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms skal eignarnemi greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn.

            Ákvæði þetta verður að skýra með það í huga að stjórnarskrárverndaður réttur eignarnámsþola til fullra bóta verði raunhæfur og virkur. Hér verður því ekki einungis litið til þess tímabils sem matsmálið er til meðferðar hjá nefndinni. Verður til viðbótar að bæta honum eðlilegan kostnað sem leiðir af ákvörðun um eignarnám og þeirri framkvæmd sem liggur til grundvallar eignarnámi. Telur nefndin að eignarnámsþoli fái að öðrum kosti ekki fullar bætur vegna eignaskerðingar.

            Um kröfugerð Gísla Sigurðssonar er það að segja að nefndin telur kostnað lögmanns hans vegna matsferlisins hæfilegan. Einnig er það álit nefndarinnar að það hafi verið eðlilegt af eignarnámsþola að leita álits verkfræðings til þess að geta metið hver yrðu áhrif framkvæmda eignarnema. Þykir þessi kostnaðarliður hæfilegur eins og hér háttar til. Varðandi kostnað vegna ferða eignarnámsþola liggja ófullnægjandi gögn fyrir nefndinni. Ljóst er þó að eignarnámsþoli hefur orðið fyrir einhverjum kostnaði af þessu tilefni og verður hann ákveðinn að álitum 70.000 krónur. Um tap eignarnámsþola á atvinnutekjum er þess að gæta að nefndin telur að hér sé um að ræða venjubundna hagsmunagæslu eigenda við rekstur sinn. Eru því ekki efni til að fallast á þennan kröfulið.

Samkvæmt þessu verður eignarnema Vegagerðinni gert að greiða Gísla Sigurðssyni 1.656.295 krónur í kostnað vegna matsmáls þessa.

            Af hálfu eigenda Hrauns er einungis krafist greiðslu vegna lögmannskostnaðar. Þegar litið er til þess að enn er ógreitt fyrir hluta af verki lögmanns verður eignarnema gert að greiða eignarnámsþola 950.000 krónur í kostnað vegna matsmáls þessa.

            Loks verður eignarnema gert að greiða 275.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnemi, Vegagerðin greiði eignarnámsþolum eigendum Hrauns 950.000 krónur og Gísla Sigurðssyni 1.656.295 krónur í kostnað vegna matsmáls þessa.

Þá greiði eignarnemi 275.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

                                                                                    Allan V. Magnússon

                                                                                    Benedikt Bogason

                                                                                    Sverrir Kristinsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum