Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 1. ágúst 2006

Þriðjudaginn 1. ágúst 2006 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 8/2006

Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar

gegn

Hjörleifi Jónssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, löggiltur fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 30. mars 2006 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þan 4. maí 2006 fór Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, kt. 650779-0299, Bæjarhálsi 1, Reykjavík (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur fyrir 3.055 ferm. spildu úr landi Innsta-Vogslandi 3 við Akranes. Umrædd spilda heitir nú “Þjóðvegur / Einhamar 3”  Eignarnámsþoli er Hjörleifur Jónsson, kt. 040754-7419, Einhamri 2, Akranesi. 

 

III.  Málsmeðferð:

 

Fimmtudaginn 4. maí 2006 var málið fyrst tekið fyrir.  Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt öðrum gögnum.  Málinu var að því búnu frestað til vettgangsgöngu til 22. maí 2006.

 

Mánudaginn 22. maí 2006 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 19. júní 2006.

 

Mánudaginn 19. júní 2006 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum.  Málið var að því búnu tekið til úrskurðar, enda taldi matsnefndin ekki þörf á munnlegum flutningi þess.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Af hálfu eignarnema er þess krafist að bætur verði metnar hæfilegar.  Bendir eignarnemi á að ítrekað hafi verið reynt að ná samkomulagi við eignarnámsþola um verð fyrir spilduna.  Bendir eignarnemi á að í febrúar 2004 hafi Ingi Tryggvason hdl. löggiltur fasteignasali í Borgarnesi metið spilduna á 400-500.000.  Í framhaldi af því hafi verið reynt að semja um kaup á spildunni fyrir kr. 600.000- sem ekki hafi tekist.

 

Eignarnemi kveðst í október 2005 hafa boðið kr. 800.000- fyrir skikann, en því hafi verið hafnað af hálfu eignarnema án þess að gagntilboð hafi borist.

 

Eignarnemi bendir á að Akraneskaupstaður hafi tekið landi Innsta Vogslands eignarnámi á sínum tíma.  Skv. framreiknuðum úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta vegna þess eignarnáms frá 8. desember 1986 ætti hver ha. lands að vera metinn á kr. 218- sem þýðir að öll spildan ætti að teljast kr. 662.935- virði miðað við þann úrskurð.  Bent er á að sú fjárhæð hefur sætt skerðingu um þriðjung vegna þágildandi lögum um skipulag.  Þá ber að geta þess að tekið var tillits til 21 ha. ræktaðs lands í úrskurðinum og ósasvæði var metið sérstaklega.  Að þessu virtu þykir eignarnema einsýnt að boð upp á kr. 800.000- sé fyllilega sambærilegt eða hærra en úrskurðurinn gefur til kynna.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Eignarnámsþoli bendir á að fasteignaverð á Akranesi hafi hækkað mjög upp á síðkastið.  Þá sé einnig ljóst að byggðin á Akranesi muni þróast í áttina að hinni eignarnumdu spildu sem geri hana enn verðmætari fyrir vikið en annað land í sömu fjarlægð frá kaupstaðnum.  Telur eignarnámsþoli spilduna vera hentugt byggingarland með frábæru útsýni.

 

Eignarnámsþoli bendir á að hægt væri að koma allt að 5 raðhúsum fyrir á spildunni með 180 til 220 ferm. íbúðum í hverju.

 

Eignarnámsþoli telur að taka beri tillit til þess að hitaveitutankur sem eignarnemi á og stendur á spildunni spilli umhverfinu og geti haft neikvæð áhrif á sölumöguleika eigna í næsta nágrenni sem standa munu á landi eignarnámsþola.

 

Eignarnámsþoli mótmælir sjónarmiðum eignarnema í málinu og telur hæfilegar bætur fyrir hina eignarnumdu spildu vera kr. 50.000.000-.

 

VI.  Álit matsnefndar:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður.  Stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu er ágreiningslaus með aðilum.  Fallist er á það með eignarnema að spildan sé hentug til að byggja á henni íbúðarhús, enda slétt með góðu útsýni.

 

Fallist er á það með eignarnámsþola að spildan sé á svæði sem sé líklegt framtíðar byggingarland Akraneskaupstaðar.  Ekki þykir raunhæft að framreikna fermetraverð í úrskurði Matsnefndarinnar frá 1986 til að finna úr verðmæti landsins nú, enda eru allt aðrar aðstæður uppi í dag, bæði hvað varðar landverð almennt auk þess sem vegalengdin frá Reykjavík hefur styst verulega með tilkomu Hvalfjarðarganga, en það hafði mikil áhrif til hækkunar á lönd á þessu svæði.

 

Matsnefndin telur að fjarlægð Akraness frá Reykavík sé nú slík að það sé í raun hægt að líta svo á að fasteignir á Akranesi séu á sama markaðssvæði og fasteignir í úthverfum Reykjavíkur.  Með hliðsjón af framangreindu er það álit matsnefndarinnar að hæfilegar bætur fyrir hina eignarnumdu spildu séu kr. 7.650.000-.

 

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir matsnefndinni og kr. 607.100- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

  

ÚRSKURÐARORÐ

 

Eignarnemi, Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, kt. 650779-0299, Bæjarhálsi 1, Reykjavík, greiði eignarnámsþola Hjörleifi Jónssyni, kt. 040754-7419, Einhamri 2, Akranesi kr. 7.650.000- í eignarnámsbætur og kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs matsmálsins fyrir matsnefndinni.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 607.100- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

 

Helgi Jóhannesson (sign)

Vífill Oddsson (sign)

Magnús Leópoldsson (sign)

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum