Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20jafnr%C3%A9ttism%C3%A1la

Mál nr. 1/2021 - Úrskurður

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Reykjavíkurborg

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði ráðningu konu í starf verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar hjá kærða. Að mati kærunefndar var ekki sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að R hefði gerst brotlegur við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 2. nóvember 2021 er tekið fyrir mál nr. 1/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 29. janúar 2021, kærði A ákvörðun Reykjavíkurborgar um að ráða konu í starf verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 16. febrúar 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 15. apríl 2021, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 16. apríl 2021.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dags. 31. maí 2021, með athugasemdum við greinargerð kærða og kynnti það kærða með bréfi, dags. 1. júní 2021. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 25. júní 2021, og voru kynntar kæranda 30. júní 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 15. júlí 2021 og voru sendar kærða til kynningar þann 26. júlí 2021. Kærði sendi viðbótarathugasemdir sem bárust nefndinni 16. ágúst 2021 og voru þær sendar kæranda til kynningar sama dag.
  5. Þess ber að geta að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru felld úr gildi með nýjum lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem tóku gildi 6. janúar 2021 ásamt lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 151/2020 féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021. Þar sem atvik í máli þessu áttu sér stað í tíð eldri laga gilda lög nr. 10/2008 um efnislegan ágreining fyrir nefndinni en um málsmeðferðina fer samkvæmt lögum nr. 151/2020.

    MÁLAVEXTIR

  6. Hinn 20. ágúst 2020 auglýsti Reykjavíkurborg tvö störf verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar, sem er eitt þriggja undirsviða hjá Innri endurskoðun, laus til umsóknar á heimasíðu sinni, reykjavik.is. Í auglýsingunni voru annars vegar helstu verkefni og ábyrgð talin upp og hins vegar hæfniskröfur. Helstu verkefni og ábyrgð voru úttektir og mat á virkni innra eftirlits og áhættustýringar hjá borgarsjóði og dótturfélögum Reykjavíkurborgar, úttektir sem tengjast fjárhagsuppgjörum á samstæðugrundvelli og þátttaka í öðrum úttektum og verkefnum. Hæfniskröfur voru háskólagráða sem nýttist í starfi, góð reynsla af ársreikningum, bókhaldi og reynsla í notkun bókhaldshugbúnaðar, rík greiningarhæfni og færni í tölulegri gagnavinnslu, góð íslensku- og enskukunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti, góðir samskiptahæfileikar og frumkvæði og sjálfstæði í starfi. Þá var reynsla á sviði innri endurskoðunar og próf í innri endurskoðun „Certified Internal Auditor, CIA“ tilgreint sem kostur.
  7. Alls bárust 22 umsóknir um bæði störfin en ákveðið var að bjóða fimm umsækjendum í viðtal, þremur konum og tveimur körlum. Var kærandi þar á meðal. Í kjölfarið var hinum karlinum boðið annað starfið, sem hann þáði. Kærði bauð í framhaldinu öllum þremur konunum sem eftir stóðu í annað viðtal en að þeim loknum var einni þeirra boðið hitt starfið, sem hún þáði.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  8. Kærandi heldur því fram að kærði hafi við ráðningu konu í starf verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar mismunað kæranda á grundvelli kyns og brotið þannig gegn 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telur kærandi að hann hafi ekki notið sannmælis þegar lagt var mat á hæfni hans og að hann hafi án faglegs rökstuðnings fengið mun lakara hæfnismat en efni stóðu til.
  9. Bendir kærandi á að af rökstuðningi og þeim gögnum sem vörðuðu ráðninguna sé ekki að sjá að vandað hafi verið til verka og virðist honum sem þær reglur sem gilda um ráðningar í opinber störf hafi verið sniðgengnar. Það eina sem hafi verið lagt til grundvallar ákvörðuninni hafi verið ferilskrár og stutt viðtal í húsakynnum ráðningaþjónustu við ráðgjafa hennar og innri endurskoðanda við umsækjendur þar sem þeim voru gefin stig fyrir ákveðin efnisatriði og í framhaldinu raðað á matsblað. Þrátt fyrir að hafa verið boðaður í viðtal hafi hann aldrei verið beðinn um nein viðbótargögn til að sanna þekkingu sína umfram það sem kom fram í ferilskrá. Hafi honum ekki verið gefinn kostur á að koma á framfæri frekari upplýsingum eða skila inn viðbótargögnum eins og einkunnum eða öðrum staðfestingum sem kærða ber að gera, sérstaklega ef hann hyggst byggja á öðrum skilyrðum en tilgreind eru í auglýsingu. Hafi andmælaréttur hans því ekki verið virtur, auk þess sem kærði hafi ekki sinnt rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinni.
  10. Kærandi tekur fram að með hliðsjón af ferilskrá konunnar sem var ráðin sé ekki hægt að sjá að hún hafi verið hæfari til að gegna umræddu starfi en kærandi, enda hafi ekki verið lagt sanngjarnt mat á þekkingu hans. Auk þess hafi innri endurskoðandi ekki tekið til greina þá reynslu sem hann hafði aflað sér í starfi sínu hjá Innri endurskoðun kærða.
  11. Kærandi bendir á að umrætt matsblað hafi haft úrslitaáhrif á niðurstöðuna en að engin gögn séu til staðar sem sýni hvernig það mat hafi verið unnið og því erfitt að draga aðrar ályktanir en þær að um handahófskennt mat hafi verið að ræða og jafnvel að önnur sjónarmið en faglegt mat hafi haft áhrif á niðurstöðuna. Kærandi telur því að raunverulegar ástæður þess að gengið var fram hjá honum við ráðninguna byggi á persónulegum atriðum en ekki faglegum. Telur kærandi svör kærða bera þess merki að m.a. hafi verið reynt að laga ráðningarferlið að ákveðinni niðurstöðu, þ.e. að fastráða karlinn sem var ráðinn og að ráða einhvern annan en kæranda.
  12. Kærandi gerir athugasemdir við stigagjöf kærða á matsblaði, bæði varðandi hann sjálfan og konuna sem var ráðin í starfið. Telur hann miðað við menntun sína og starfsreynslu að hann hafi verið vanmetinn en hún ofmetin. Bendir kærandi á að í einum matsþættinum, þar sem lagt sé mat á þekkingu á bókhaldi og ársreikningum, gefi ráðgjafi ráðningaþjónustunnar og innri endurskoðandi honum einkunnina 1 sem í rauninni jafngildi engri þekkingu á þeim kvarða sem stuðst er við (Likert) en aðrir fái nánast fullt hús stiga. Standist slíkt enga skoðun í ljósi starfsreynslu hans hjá Innri endurskoðun kærða auk þess sem hann sé viðskiptafræðingur eins og hinir umsækjendurnir. Þetta atriði hafi gilt 15% og því haft afgerandi áhrif og dregið stigagjöfina niður og þar með komið í veg fyrir að hann stæði jafnfætis eða betur en aðrir umsækjendur. Þá bendir kærandi á að undir matsþættinum próf í innri endurskoðun hafi allir umsækjendurnir fengið einkunnina 1 á matsblaðinu þrátt fyrir að hann sé með próf sem Lead Auditor til að leiða úttektarvinnu samkvæmt ISO 27001 upplýsingaöryggisstöðlunum. Telur kærandi ekki hægt að fullyrða með hliðsjón af niðurstöðum matsins að sú sem var ráðin hafi verið hæfari en hann til að gegna umræddu starfi.
  13. Kærandi telur stigagjöf kærða ekki standast skoðun, hvorki út frá Likert kvarðanum né nýrri viðmiðunartöflu sem lýst sé í greinargerð kærða. Kærandi segir ólíkar skýringar á stigagjöf leiða til þess að matið sé það ómarktækt að það standist ekki skoðun, enda sé sáralítill munur á stigagjöf umsækjenda, aðeins 0,7 á hæstu og lægstu stigagjöf. Á grundvelli matsins hafi ekki verið hægt að gera upp á milli þeirra tveggja umsækjenda sem eftir stóðu, en tveir umsækjenda sem boðaðir voru í seinna starfsviðtal drógu umsóknir sínar til baka.
  14. Telur kærandi að hann hafi uppfyllt skilyrði auglýsingarinnar ágætlega og almennt þær kröfur sem gerðar séu til þeirra starfa sem unnin séu hjá Innri endurskoðun. Telur kærandi að menntun hans hefði átt að vega þyngra en menntun þeirrar sem var ráðin. Þá telur hann að fullyrðingar um störf hennar séu ekki trúverðugar en að auki hafi hann sambærilega starfsreynslu og hún. Jafnframt bendir hann á að innri endurskoðandi ætti að búa yfir þekkingu á þessum atriðum en hann fái ekki séð að horft hafi verið til starfsreynslu hans hjá Innri endurskoðun kærða í þeim samanburði sem gerður var á umsækjendum.
  15. Telur kærandi að af rökstuðningnum sem hann hafi fengið og matsblaðinu sé ljóst að ráðningaþjónustan hafi verið höfð með í ráðum við mat á umsækjendum og mögulega hafi mat hennar verið látið vega þungt en slíkt leysi ekki innri endurskoðanda undan lagalegri ábyrgð sinni. Vekur hann athygli á því að innri endurskoðandi og ráðgjafi ráðningaþjónustunnar séu samhljóma í mati sínu sem ætti varla að geta staðist.
  16. Telur kærandi með vísan til jafnréttislaga og forgangsreglu í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sbr. kafla 2.2.1., að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns en hjá Innri endurskoðun kærða starfi ellefu konur og tveir karlar, auk þess sem konur séu meirihluti félagsmanna Félags um innri endurskoðun (FIE). Bendir hann jafnframt á að í starfsauglýsingum frá Innri endurskoðun sé vakin athygli á stefnu Reykjavíkurborgar um að jafna hlut kynja í störfum.

     

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  17. Kærði telur að einungis hafa verið byggt á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum við ráðningu í störf verkefnastjóra og að kæranda hafi hvorki verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, né annarra þátta heldur hafi hæfustu umsækjendurnir verið ráðnir í störf verkefnastjóra. Telur kærði með vísan til gagna málsins að konan sem var ráðin hafi verið hæfari en kærandi. Þegar af þeirri ástæðu eigi forgangsregla jafnréttislaga eða grein 2.2.1 í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar ekki við í málinu og aldrei hafi komið til álita að beita henni. Hafnar kærði málatilbúnaði kæranda.
  18. Kærði tekur fram að hinn 20. ágúst 2020 hafi á heimasíðu kærða verið auglýst tvö störf verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar. Í auglýsingunni hafi ábyrgð og helstu verkefnum verið lýst með svohljóðandi hætti: Úttektir og mat á virkni innra eftirlits og áhættustýringar hjá borgarsjóði og dótturfélögum Reykjavíkurborgar, úttektir sem tengjast fjárhagsuppgjörum á samstæðugrundvelli og þátttaka í öðrum úttektum og verkefnum. Þá voru eftirfarandi hæfniskröfur gerðar: Háskólagráða sem nýtist í starfi, góð reynsla af ársreikningum, bókhaldi og reynsla í notkun bókhaldshugbúnaðar, rík greiningarhæfni og færni í tölulegri gagnavinnslu, góð íslensku- og enskukunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti, góðir samskiptahæfileikar, reynsla á sviði innri endurskoðunar væri kostur, próf í innri endurskoðun „Certified Internal Auditor, CIA“ væri kostur og frumkvæði og sjálfstæði í starfi. Umsækjendur um störfin hafi verið 22 og hafi fimm þeirra, tveir karlar og þrjár konur, sem þóttu samkvæmt starfsumsókn standa öðrum framar með tilliti til þeirra hæfniskrafna sem komu fram í auglýsingu og þeirrar ábyrgðar og verkefna sem svið innri endurskoðunar hefur hjá Innri endurskoðun kærða, verið boðuð í viðtal við innri endurskoðanda og ráðgjafa hjá ráðningaþjónustu sem aðstoðaði við ráðningarferlið.
  19. Viðtöl við þessa fimm umsækjendur fóru fram 15. september 2020 í húsnæði ráðningaþjónustunnar. Viðtölin voru formföst þar sem sömu spurningar voru lagðar fyrir alla umsækjendurna í ákveðinni röð, en þær hafi tengst þeim hæfniskröfum sem settar voru fram í auglýsingu. Svörin voru skráð niður og að viðtali loknu voru þau metin til stiga (1-5) á grundvelli matsviðmiða. Hafi þetta fyrirkomulag verið viðhaft í því skyni að gæta jafnræðis, tryggja að sömu upplýsinganna væri aflað frá umsækjendunum og auðvelda samanburð stigagjafar á grundvelli matsviðmiða. Því næst hafi verið haft samband við umsagnaraðila, þ.e. þá sem voru eða höfðu verið yfirmenn umsækjenda og haft stjórnunarheimildir gagnvart þeim, og m.a. óskað álits þeirra á því hvernig viðkomandi umsækjandi hafi uppfyllt þær kröfur sem fram komu í auglýsingunni. Hverjum umsækjanda hafi verið gefið stig fyrir hverja hæfniskröfu fyrir sig samkvæmt matsviðmiðum á grundvelli umsóknar umsækjanda, frammistöðu í viðtali og umsagna umsagnaraðila. Niðurstaða stigagjafar að loknum fyrri viðtölum var að annar karlinn væri hæfastur umsækjenda og var honum því boðið annað starfið, sem hann þáði. Þar sem afar lítið bar á milli þriggja næstu umsækjendanna var ákveðið að bjóða þeim til annars viðtals. Þar sem stigagjöf kæranda var nokkru lægri en þeirra var hann ekki boðaður í annað viðtal enda fyrirséð að það viðtal gæti ekki leitt til hækkunar á stigagjöf svo að nokkru næmi. Í því viðtali hafi einungis verið farið nánar ofan í atriði sem lúta að innri endurskoðun, s.s. undirbúning og ferli innri endurskoðunar. Að loknu öðru viðtali var niðurstaðan óbreytt, þ.e. þeim umsækjanda sem var metinn næsthæfastur var boðið starfið, sem hún þáði. Einn þessara þriggja umsækjenda hafði að seinna viðtali loknu dregið umsókn sína til baka.
  20. Kærði bendir á að í auglýsingu um störfin hafi komið fram að helstu verkefni verkefnastjóra væru úttektir og mat á virkni innra eftirlits og áhættustýringar hjá borgarsjóði og dótturfélögum kærða og úttektir sem tengjast fjárhagsuppgjörum á samstæðugrundvelli. Þannig hafi legið fyrir að Innri endurskoðun hafi lagt áherslu á að ráða verkefnastjóra sem hefði til að bera reynslu og þekkingu af áhættustýringu og fjármálum og góða reynslu í ársreikningum, bókhaldi og reynslu í notkun bókhaldsbúnaðar auk kröfu um ríka greiningarhæfni og færni í tölulegri gagnavinnslu. Af starfsumsóknum, viðtölum og umsögnum annars vegar konunnar sem var ráðin og hins vegar kæranda hafi verið ljóst að konan hafði mun meiri reynslu og þekkingu til að sinna þeim verkefnum en kærandi, auk þess að uppfylla betur þær hæfniskröfur sem gerðar voru til verkefnastjóra, sbr. að hún hafði starfað um áratugaskeið á sviði fjármála, bæði við endurskoðun og áhættustýringu. Á hinn bóginn hafi kærandi fyrst og fremst haft þekkingu á sviði upplýsingatækni og tölvu- og netöryggismála og innri endurskoðun á þeim sviðum. Þá hafi komið fram munur á frammistöðu í viðtölum.
  21. Kærði tekur fram að auglýsingin hafi uppfyllt þann áskilnað sem gerður er til auglýsinga um laus störf hjá sveitarfélögum. Þá hafi framkvæmd og fyrirkomulag viðtala við umsækjendur verið í samræmi við þann áskilnað sem rannsóknarreglan, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og óskráð krafa um heildstæðan samanburð á umsækjendum gera til sveitarfélaga við ráðningar í störf. Þá var gætt að skráningarskyldu kærða við undirbúning og töku ákvörðunar um ráðningu í störfin, sbr. 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og IV. kafla laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Tekur kærði fram að engar nýjar upplýsingar hafi borist um kæranda sem gætu talist vera honum í óhag og sem með réttu hefðu átt að leiða til þess að þær yrðu bornar undir hann í því skyni að hann fengi tækifæri til að tjá sig um þær. Þá sé í kæru í engu getið um hvaða gögn kærandi telji að hafi skort á við mat á hæfni hans við ráðningu í starfið og hverju það þá sæti að hann hafi ekki lagt fram umrædd gögn með umsókn sinni eða eftir atvikum hlutast til um að þeirra yrði aflað. Bendir kærði á að umsækjanda um starf sé að jafnaði í sjálfsvald sett hvaða gögn hann láti fylgja með umsókn sinni.
  22. Kærði tekur fram að fagleg sjónarmið hafi legið til grundvallar mati á hæfni umsækjenda og þannig hafi kærði gætt að verðleikareglunni við matið. Tekið var mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og hæfni sem kemur að gagni í starfi verkefnastjóra við mat á umsækjendum um starfið, sbr. 6. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telur kærði því ekkert vera hæft í fullyrðingum kæranda um að engin gögn sýni fram á hvernig hæfni hans eða annarra umsækjenda hafi verið metin og matið hafi eftir atvikum verið handahófskennt. Þvert á móti beri gögn málsins það skýrt með sér hvernig staðið var að matinu, hvaða matsviðmið hafi verið lögð til grundvallar og hvaða stigagjöf kærandi hlaut á grundvelli þeirra með hliðsjón af umsókn hans, frammistöðu í viðtali og umsögnum umsagnaraðila.
  23. Kærði tekur fram að bæði kærandi og sú sem var ráðin hafi fengið 5 stig fyrir háskólamenntun sem nýtist í starfi en þessi matsþáttur hafi gefið mest 5 stig og hafi vegið 20% í heildarmati á umsækjendum. Varðandi matsþáttinn um góða reynslu af ársreikningum, bókhaldi og reynslu í notkun bókhaldshugbúnaðar sem vó 15% í heildarmatinu fékk sú sem var ráðin 3,5 stig en kærandi 1 stig. Af umsókn, viðtali og umsögnum liggi fyrir að hún hafi uppfyllt mjög vel þau viðmið sem liggja að baki stigagjöfinni en kærandi hafi fallið undir neðri mörk þess þar sem hann er reynslulítill auk þess að uppfylla ekki skilyrði um árafjölda. Varðandi matsþáttinn um ríka greiningarhæfni og færni í tölulegri gagnavinnslu fékk sú sem var ráðin 4 stig fyrir þennan matsþátt sem vó 15% í heildarmati á umsækjendum með vísan til reynslu og þekkingar hennar í störfum fyrir Íbúðalánasjóð, Askar Capital og Íslandsbanka. Kærandi fékk 3,5 stig fyrir þennan matsþátt þar sem hann var talinn falla undir efri mörk viðmiðs, einkum með vísan til lítillar reynslu og færni í tölulegri gagnavinnslu, en innri endurskoðandi lagði sérstakt mat á þetta atriði vegna reynslu hans af störfum kæranda. Varðandi matsþáttinn um góða íslensku- og enskukunnáttu og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti voru kærandi og sú sem var ráðin bæði metin til 4 stiga en þessi þáttur vó 5% í heildarmati á umsækjendum. Við matið var litið til umsókna, upplýsinga úr viðtölum og frá umsagnaraðilum auk þess sem innri endurskoðandi lagði sérstakt mat á þetta atriði vegna reynslu hans af störfum kæranda. Varðandi matsþáttinn um góða samskiptahæfileika og frumkvæði og sjálfstæði í starfi voru kærandi og sú sem var ráðin bæði metin til 4 stiga en hann vó 25% af heildarmati á umsækjendum. Var einnig litið til reynslu innri endurskoðanda af þessum þáttum í fari kæranda í starfi hans hjá kærða. Varðandi matsþættina um reynslu á sviði innri endurskoðunar sem vó 15% af heildarmatinu og próf í innri endurskoðun „Certified Internal Auditor, CIA“ sem vó 5% af heildarmati, en báðir þessir þættir voru taldir kostir í fari umsækjenda, fengu kærandi og sú sem var ráðin sama fjölda stiga fyrir báða þætti. Fengu þau 4 stig fyrir fyrri þáttinn en einungis 1 stig fyrir þann seinni þar sem þau uppfylltu ekki það skilyrði. Bendir kærði á að Lead auditor próf kæranda sé ekki sambærilegt við Certified Internal Auditor, CIA próf. Telur kærði að stigagjöf fyrir þennan þátt hafi verið í samræmi við matsviðmiðin og þar af leiðandi réttmæt.
  24. Kærði bendir á að kærandi víxli atriðum sem varði stigagjöf við mat á annars vegar reynslu hans og hins vegar menntun. Kærandi haldi því þannig fram að háskólagráða hans hafi átt að leiða til hærri stigagjafar undir matsþáttunum Góð reynsla af ársreikningum, bókhaldi og reynsla af notkun bókhaldshugbúnaðar og Rík greiningarhæfni og færni í tölulegri gagnavinnslu. Þá matsþætti segir kærði taka fyrst og fremst til reynslu en ekki menntunar. Því hafi ekki hallað á kæranda varðandi stigagjöf í ráðningarferlinu, þar sem menntun hans hafi verið metin að verðleikum undir matsþættinum Háskólagráða sem nýtist í starfi.
  25. Af þeim fimm umsækjendum sem boðaðir voru í starfsviðtöl hlaut kærandi fæst stig í matinu. Karlinn sem var ráðinn var með flest stig en þar á eftir komu þrjár konur. Fengu konurnar 7,7-7,95 stig og voru boðaðar í annað viðtal en kærandi 7,05 stig. Kærði taldi fyrirséð að annað viðtal við kæranda gæti ekki leitt til hækkunar á stigagjöf svo nokkru næmi og boðaði kæranda því ekki í annað viðtal. Seinna viðtalinu hafi verið ætlað að dýpka samtal við hæfustu umsækjendurna og skera úr um hver þeirra væri næsthæfastur. Að loknu seinna starfsviðtali var niðurstaðan óbreytt, sú sem hlaut næstflest stig eftir fyrra viðtal, 7,95 stig, var talin næsthæfust og henni í kjölfarið boðið starfið, sem hún þáði.
  26. Kærði hafnar þeim fullyrðingum kæranda að matsviðmiðin hafi verið samin eftir á eða eftir atvikum eftir að mál þetta hófst hjá kærunefnd jafnréttismála. Matsviðmiðin hafi verið útbúin í september 2020 til undirbúnings ráðningarferlinu og sé því vísað á bug að um „nýjan matskvarða“ sé að ræða. Bendir kærði á að skýrt verði ráðið af stigagjöfinni að samræmi sé á milli hennar og matsviðmiðanna og sömuleiðis í stigagjöf innri endurskoðanda og ráðgjafa ráðningaþjónustunnar.
  27. Bendir kærði á að það að kærandi hafi starfað tímabundið hjá Innri endurskoðun, án sérstakra athugasemda við störf hans, leiði ekki sjálfkrafa til þess að hann teljist vera hæfari en aðrir umsækjendur. Það sé ekki málefnalegt sjónarmið auk þess sem það skáki ekki þeirri staðreynd að sú sem var ráðin hafi verið hæfari en kærandi í starf verkefnastjóra.
  28. Tekur kærði fram að með vísan til alls framangreinds hafi sú sem var ráðin verið hæfari en kærandi til að gegna starfi verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar hjá Innri endurskoðun kærða. Hafnar kærði því alfarið að kæranda hafi við umrædda ráðningu verið mismunað á grundvelli kyns. Telur kærði sig hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn kæranda hafi legið til grundvallar ákvörðuninni með ráðningu konunnar í starfið, sbr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Í ljósi þess beri að hafna kröfum kæranda í málinu.

     

    NIÐURSTAÐA

  29. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. núgildandi 19. gr. laga nr. 150/2020, með ráðningu konu í starf verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar hjá kærða.
  30. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  31. Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 26. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  32. Í matsreglu 5. mgr. 26. gr. laganna er tekið fram að við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. til hliðsjónar athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  33. Eins og áður segir snýst mál þetta um það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 26. gr. laga nr. 10/2008 við ráðningu konu í starf verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar hjá kærða. Fyrir liggur að um tvö laus störf verkefnastjóra var að ræða en karl var ráðinn í annað starfið og kona í hitt starfið. Karlinn var talinn hæfastur umsækjenda og konan var talin koma honum næst en mál þetta beinist eingöngu að ráðningu konunnar.
  34. Í auglýsingu um starfið kom fram að helstu verkefni verkefnastjóra væru úttektir og mat á virkni innra eftirlits og áhættustýringar hjá borgarsjóði og dótturfélögum kærða, úttektir sem tengjast fjárhagsuppgjörum á samstæðugrundvelli og þátttaka í öðrum úttektum og verkefnum. Gerð var krafa um háskólagráðu sem nýttist í starfi, góða reynslu af ársreikningum, bókhaldi og reynslu í notkun bókhaldshugbúnaðar, ríka greiningarhæfni og færni í tölulegri gagnavinnslu, góða íslensku- og enskukunnáttu og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti auk góðra samskiptahæfileika og frumkvæðis og sjálfstæðis í starfi. Reynsla á sviði innri endurskoðunar og tiltekið próf í innri endurskoðun var að auki tilgreint sem kostur.
  35. Að mati kærða stóðu þeir fimm umsækjendur sem boðaðir voru í fyrra viðtal framar öðrum umsækjendum miðað við þær hæfniskröfur sem komu fram í auglýsingu og miðað við ábyrgð og þau verkefni sem svið innri endurskoðunar hefur hjá kærða. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki sé mælt fyrir um þessa þætti í lögum sé það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni Innri endurskoðunar að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki séð að niðurstaða kærða að þessu leyti hafi verið ómálefnaleg.
  36. Í málinu liggur fyrir að spurningar sem lagðar voru fyrir þessa fimm umsækjendur í viðtölum hafi verið staðlaðar og að svör umsækjendanna hafi verið skráð niður. Að loknum viðtölum voru hverjum umsækjanda gefin stig. Þá voru á grundvelli umsóknar umsækjanda, frammistöðu í viðtali og umsagna umsagnaraðila hverjum umsækjanda gefin stig fyrir hverja hæfniskröfu fyrir sig á matsblaðinu samkvæmt þeim viðmiðum sem lágu fyrir. Gáfu innri endurskoðandi og ráðgjafi ráðningaþjónustunnar hverjum umsækjanda fyrir sig stig sem voru lögð saman. Að þessu loknu lá fyrir stigagjöf og röðun umsækjendanna fimm. Af framangreindu má ráða að fram hafi farið mat á hverjum matsþætti fyrir sig varðandi hvern umsækjanda áður en niðurstaðan um hvern og einn var færð í stigatöfluna og áður en endanleg niðurstaða lá fyrir. Þá liggja fyrir nánari skýringar kærða á þeim forsendum sem lágu að baki einstökum matsþáttum.
  37. Sá umsækjandi sem fékk flest stig á matsblaðinu var talinn hæfastur umsækjenda og var honum í kjölfarið boðið annað starfið, sem hann þáði. Af gögnum málsins má ráða að það sem réð vali á þeim þremur sem boðaðir voru í síðara viðtal hafi verið fleiri stig á matsblaði en lítið bar á milli í stigagjöf þessara þriggja umsækjenda. Þannig skildu 0,1 stig að umsækjendur í 2. og 3. sætinu á matsblaðinu og 0,15 stig umsækjendur í 3. og 4. sætinu. Á milli umsækjanda í 4. sæti og kæranda sem var í 5. sæti skildu 0,65 stig að.
  38. Kærði hefur vísað til þess að lögð hafi verið áhersla á að ráða verkefnastjóra sem hefði til að bera reynslu og þekkingu af áhættustýringu og fjármálum og góða reynslu af ársreikningum, bókhaldi og reynslu í notkun bókhaldsbúnaðar auk kröfu um ríka greiningarhæfni og færni í tölulegri gagnavinnslu. Þessi sjónarmið sem lágu til grundvallar stigamatinu eru þau sömu og komu fram í auglýsingu og verður ekki betur séð en að þau séu málefnaleg og að mat kærða á því hvernig kærandi féll að einstökum matsþáttum hafi verið forsvaranlegt og innan svigrúms kærða. Þá verður ekki annað séð en að val kærða á þeim þremur umsækjendum sem valdir voru í síðara viðtal hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafi lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  39. Með vísan til alls framangreinds verður að mati kærunefndar ekki annað séð en að val kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á umsækjendum í síðari viðtöl og mat hans við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 10/2008.
  40. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í stöðu verkefnastjóra. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 10/2008.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Reykjavíkurborg, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf verkefnastjóra á sviði innri endurskoðunar hjá Reykjavíkurborg.

 

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum