Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 14/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 11. maí 2021
í máli nr. 14/2021:
Metatron ehf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Exton ehf.

Lykilorð
Afturköllun ákvörðunar um val tilboðs. Kröfu um stöðvun samningsgerðar hafnað.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu kæranda um að samningsgerð vegna útboðs á uppfestibúnaði fyrir lýsingu og viðburðarbúnað yrði stöðvað um stundarsakir á meðan endanlega væri skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Ákvörðunin var reist á því að varnaraðili hefði fallið frá ákvörðun um val á tilboði lægstbjóðanda sem var tilefni kæru. Lá því fyrir að varnaraðili hygðist taka nýja ákvörðun um val tilboðs sem bjóðendum gæfist eftir atvikum færi á að bera undir kærunefnd útboðsmála.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 19. apríl 2021 kærir Metatron ehf. útboð Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 15063 auðkennt „Uppfestibúnaður fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila 8. apríl 2021 um að ganga að tilboði Exton ehf. í hinu kærða útboði.. Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda vegna framangreindrar ákvörðunar. Þess er jafnframt krafist að hið kærða útboð verði stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, verði ekki talið að kæra hafi haft í för með sér sjálfkrafa stöðvun. Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sem hann telur hafa komist á með kæru, verði aflétt. Exton ehf. krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til kröfu kæranda um að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir á meðan leyst er úr kæru.

Í janúar 2021 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í uppfestibúnað fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll. Í grein 0.1 í útboðsgögnum kom fram að varnaraðili myndi setja búnaðinn upp en bjóðandi sjá um prófanir og gagnsetningu. Þá kom fram að um almennt útboð væri að ræða sem auglýst væri á EES-svæðinu. Í grein 0.8 kom fram að samið yrði við þann aðila sem ætti hagkvæmasta gilda tilboðið á grundvelli lægsta verðs.

Tilboð voru opnuð 26. febrúar 2021. Samkvæmt skýrslu opnunarfundar bárust tilboð frá sex fyrirtækjum. Tilboð Metatron ehf. var lægst að fjárhæð en tilboð Exton ehf. næstlægst. Með tölvubréfi varnaraðila 8. apríl 2021 var kæranda tilkynnt að varnaraðili hefði ákveðið að taka tilboði Exton ehf. þar sem það hefði verið lægsta gilda tilboðið sem barst. Fram kom að kærandi fullnægði ekki kröfum útboðsgagna þar sem í tilboði fyrirtækisins hefðu ekki verið neinar upplýsingar um hvaða tegund voga væri boðin. Forsvarsmaður kæranda lýsti því í tölvubréfi 13. apríl 2021 að þessi afstaða varnaraðila kæmi sér á óvart þar sem lögð hefðu verið fram þau gögn sem óskað hefði verið eftir og honum hefðu ekki borist neinar óskir um frekari skýringar. Því var óskað frekari skýringa fyrir afstöðu varnaraðila.

Á fundi innkaupa- og framkvæmdaráðs varnaraðila 6. maí 2021 var samþykkt erindi umhverfis- og skipulagssviðs um að falla frá fyrri ákvörðun um val á tilboði lægstbjóðanda í hinu kærða útboði. Fundargerð þar sem þetta kemur fram er meðal gagna málsins.

Kærandi byggir að meginstefnu á því að hann hafi boðið búnað af gerðinni Divo Hoist í tilboði sínu, en sá búnaður sé með innbyggðum vogum. Ekki verði ráðið af útboðsgögnum að óheimilt hafi verið að bjóða slíkan búnað. Þessar upplýsingar hafi komið fram í tilboði kæranda sem og þeim gögnum sem fylgdu tilboði hans. Þá hafi varnaraðila borið að leita skýringa hjá kæranda á grundvelli 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup hafi hann talið óljóst hvaða tegund voga kærandi bauð áður en tekin var ákvörðun um að hafna tilboði kæranda. Varnaraðili hafi því ekki staðið rétt að vali tilboða í útboðinu og hafi honum borið að velja tilboð kæranda.

Varnaraðili byggir á því að við nánari athugun hafi komið í ljós að tilboð Exton ehf. hafi ekki fullnægt kröfum útboðsins og sé það ógilt. Því hafi ákvörðun um val á tilboði fyrirtækisins verið felld niður og hyggist varnaraðili meta tilboð að nýju. Við þessar aðstæður sé heimilt að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar enda séu ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Exton ehf. byggir að meginstefnu á því að kærandi hafi ekki skilað áskildum gögnum með tilboði sínu um þann búnað sem fyrirtækið bauð. Kærandi geti ekki eftir opnun tilboða komið að frekari gögnum til fyllingar eða skýringa á samkeppnislegum þáttum tilboðs síns.

Niðurstaða

Ákvörðun varnaraðila um val á tilboði Exton ehf. í hinu kærða útboði var kynnt kæranda 8. apríl 2021 og því hófst 10 daga biðtími daginn eftir, sbr. 1. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Kæra var móttekin hjá kærunefnd útboðsmála 19. apríl 2021. Verður því að miða við að kæra hafi borist að liðnum biðtíma. Í ákvörðun þessari er því til úrlausnar krafa kæranda um stöðvun hins kærða útboðs samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup, en skilja verður málatilbúnað varnaraðila svo að hann krefjist þess að þeirri kröfu verði hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Tilgangur þessa ákvæðis er fyrst og fremst að koma í veg fyrir gerð samnings þegar ákvörðun kaupanda um val tilboðs er ólögmæt. Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili hefur fallið frá ákvörðun sinni um val á tilboði Exton ehf. í útboðinu og hyggst í kjölfarið taka nýja ákvörðun um val tilboðs sem bjóðendum gefst eftir atvikum færi á að bera undir kærunefnd útboðsmála. Við þessar aðstæður eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að verða við kröfu kæranda um að stöðva hið kærða útboð um stundarsakir.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Metatron ehf., um að útboð varnaraðila, Reykjavíkurborgar, nr. 15063 auðkennt „Uppfestibúnaður fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll“ verði stöðvað um stundarsakir er hafnað.


Reykjavík, 11. maí 2021

Ásgerður Ragnarsdóttir (sign)

Eiríkur Jónsson (sign)

Auður Finnbogadóttir (sign)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum