Mál nr. 19/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. maí 2023
í máli nr. 19/2023:
Origo hf.
gegn
Ríkiskaupum,
Advania Íslandi ehf.
og Atenda
Lykilorð
Krafa um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar.
Útdráttur
Í ákvörðun kærunefndar útboðsmála var miðað við að kæra málsins hefði ekki leitt til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar í öðrum hlutum útboðsins en C-hluta þess. Var kröfu varnaraðila, um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar yrði aflétt í þeim hlutum, því vísað frá.
Með kæru móttekinni af kærunefnd útboðsmála 13. maí 2023 kærði Origo hf. (hér eftir „kærandi“) útboð Ríkiskaupa (hér eftir „varnaraðili“) nr. V21833 auðkennt „FA Electronics“.
Kærandi krefst þess meðal annars að ákvörðun varnaraðila um að taka tilboði Advania Ísland ehf. og Atenda ehf. í hinu kærða útboði verði felld úr gildi.
Samkvæmt grein 1.2.3 í útboðsgögnum skiptist hið kærða útboð í hluta og valdi varnaraðili tilboð Advania Ísland ehf. og Atenda ehf. í C-hluta útboðsins. Með fyrirspurn kærunefndar útboðsmála 19. maí 2023 til aðila málsins var óskað eftir að aðilar létu í té afstöðu sína um hvort að kæra málsins hefði leitt til sjálfkrafa stöðvunar útboðsins í heild sinni eða aðeins C-hluta þess. Svar barst frá kæranda samdægurs en svör frá varnaraðila og Atenda ehf. bárust 22. maí 2023 og létu þeir aðilar í ljós afstöðu sína að kæra málsins hefði aðeins haft í för með sér stöðvun á C-hluta útboðsins. Með svari varnaraðila var þess krafist að kærunefnd útboðsmála skyldi tafarlaust aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar í öðrum hlutum útboðsins. Ekki bárust svör frá Advania Íslandi ehf. við fyrirspurn nefndarinnar.
Í þessum hluta málsins verður einungis tekin afstaða til kröfu varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt í öðrum hlutum útboðsins en C-hluta þess.
Krafa varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar í öðrum hlutum útboðsins en C-hluta hvílir á þeirri forsendu að kæra málsins hafi leitt til slíkrar stöðvunar. Kærandi hefur hins vegar komið á framfæri þeirri afstöðu sinni að kæra hans hafi einungis haft í för með sér sjálfkrafa stöðvun á samningsgerð í C-hluta útboðsins. Atendi ehf. og varnaraðili hafa lýst þessu sama viðhorfi til réttaráhrifa kærunnar.
Samkvæmt þessu verður að miða við að kæra málsins hafi ekki haft þau réttaráhrif að stöðva samningsgerð í öðrum hlutum útboðsins en C-hluta þess. Kröfu varnaraðila um afléttingu stöðvunar að þessu leyti er því vísað frá kærunefnd útboðsmála, enda engri slíkri stöðvun til að dreifa sem unnt væri að aflétta.
Ákvörðunarorð:
Vísað er frá kærunefnd útboðsmála kröfu varnaraðila, Ríkiskaupa, um afléttingu samningsgerðar í öllum hlutum útboðs nr. V21833, auðkennt „FA Electronics“, að undanskildum C-hluta þess.
Reykjavík, 25. maí 2023
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir