Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 434/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. október 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 434/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100003

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 382/2022, dags. 22. september 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. júlí 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...]og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 22. september 2022. Hinn 29. september 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún sé byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að hann geti ekki unað við úrskurð kærunefndar. Kærandi hafi verið mjög veikur andlega að miklu leyti vegna aðstæðna sem hann hafi upplifað í Grikklandi og hafi því ekki heilsu til að fara aftur til Grikklands. Kæranda hafi verið vísað til sálfræðings þegar hann kom í fyrstu læknisskoðun hér á landi en hann hafi ekki fengið tíma fyrr en í ágúst. Kærandi hafi síðan átt að koma aftur 27. september 2022 en sá tími hafi fallið niður og hann því fengið tíma 4. október 2022. Kærandi óskar eftir endurupptöku og að hann fái að leggja fram gögn frá sálfræðingi.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 22. september 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hann telji að kærunefnd beri að endurskoða fyrri ákvörðun þar sem kærandi hafi nú fengið tíma hjá sálfræðingi. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 17. október 2022, var kæranda gefinn frestur til að skila inn frekari gögnum, t.a.m. um heilsufar. Engin frekari gögn bárust frá kæranda. Í tölvubréfi kæranda, dags. 18. október 2022, kemur fram að hann hafi hitt sálfræðing 4. október 2022 auk þess sem hann eigi tíma hjá sálfræðingi 22. og 29. nóvember 2022.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lá fyrir að kærandi hefði greint frá því að vera uppgefinn andlega og að hann hafi óskað eftir tíma hjá sálfræðingi. Þá hafði kærandi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hafa fengið sauma í andlit og að hann hafi brotnað á vinstri hönd í stríðsátökum í heimaríki. Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um heilsufar kæranda taldi kærunefnd að heilsufar hans væri ekki með þeim hætti að hann teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá kom fram að af þeim gögnum sem kærunefnd hafði kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefði kærandi aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu þar í landi og ættu einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi að lögum sambærilegan rétt á heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum, og ríkisborgarar Grikklands.

Kærunefnd telur að þó kærandi hafi sótt tíma hjá sálfræðingi og eigi bókaða tíma hjá sálfræðingi hér á landi á næstunni sé ekki um að ræða nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Líkt og að framan greinir er það mat kærunefndar að kæranda standi til boða nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þ. á m. geðheilbrigðisþjónusta í viðtökuríki. Þá tekur kærunefnd fram að kærandi hefur ekki lagt fram efnisleg gögn til stuðnings endurupptökubeiðni sinni þrátt fyrir leiðbeiningar kærunefndar þar um.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 22. september 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the cases is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                  Sindri M. Stephensen


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum