Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsmál nr. 8/2008, úrskurður 30. apríl 2009

Fimmtudaginn 30. apríl 2009 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 8/2008

 

Vegagerðin

gegn

Eiganda Hólagerðis, Fjarðabyggð

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

úrskurður:

 

I.  Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, dr. Ragnar Ingimarsson, verkfr. og Magnús Leópoldsson og lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

 

Með matsbeiðni dags. 29. ágúst 2008 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 24. september 2008, fór Vegagerðin, kt. 680269-2900, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á malarefni úr jörðinni Hólagerði, Fjarðabyggð. Eignarnámsþoli er eigandi jarðarinnar, Örn Isebarn, kt. 240640-7599, Hólagerði, Fjarðabyggð, en skráður eigandi jarðarinnar er Hrauntún ehf., kt. 620500-3210.

 

Tilefni eignarnámsins eru framkvæmdir eignarnema við gerð jarðgangna milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar ásamt tilheyrandi vegtengingum beggja vegna ganganna.

 

Andlag eignarnámsins er jarðefni svo sem hér kemur fram:

 

Burðarlagsefn                                                                        7.500 m³

Efni í bundið slitlag                                                                  400 m³

Samtals                                                                                  7.900 m³

 

Eignarnámsheimildina er að finna í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 24. september 2008. Eignarnemi lagði þá fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Þriðjudaginn 7. október 2008 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema.

 

Þriðjudaginn 2. desember 2008 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum. Var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerða og annarra gagna af hálfu eignarnámsþola.

 

Mánudaginn 2. febrúar 2009 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess fyrir matsnefndinni.

 

Þriðjudaginn 24. mars 2009 var málið tekið fyrir. Aðilar óskuðu eftir að bókað yrði að samkomulag væru um að matið tæki eingöngu til eignarnumins malarefnis en ekki lands.  Málið var að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu.

 

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi gerir þær kröfur að bætur til eignarnámsþola í máli þessu verði að hámarki ákvarðaðar kr. 516.000 sem sundurliðist þannig:

 

Malarefni 7.900 m³ @ 60                                                  kr.           474.000

Bætur fyrir jarðrask og átroðning                                     kr.             42.000

Samtals                                                                             kr.           516.000

 

 

Hvað varðar hið eignarnumda burðarlagsefni telur eignarnemi hæfilegar bætur fyrir það vera kr. 60 pr./m³. Þá tekur eignarnemi fram að hann bjóði kr. 42.000 í bætur fyrir rask og átroðning.  Eignarnemi gerir kröfu til þess að litið verði til orðsendingar hans nr. 2/2007 sem liggur frammi í málinu við mat á verðmæti hins eignarnumda malarefnis.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnema verði gert að greiða honum kr. 1.537.280 í eignarnámsbætur auk kostnaðar vegna reksturs matsmálsins fyrir matsnefndinni.

 

Eignarnámsþoli bendir á að malartakan hafi hafist í árslok 2004. Af þessum sökum telur eignarnámsþoli að hægt sé að reikna bætur út frá tveimur mismunandi sjónarmiðum.

 

Bætur miðaðar við verðlag 2009:

 

Fyllingarefni 7.500 m³ @ kr. 120                                           kr.      900.000

Bundið slitlag 400 m³ @ kr. 120 x 1,6                                   kr.        76.800

Samtals                                                                                   kr.      976.800

 

Að auki krefst eignarnámsþoli kr. 300.000 í bætur fyrir jarðrask og óþægindi. Samtals er bótakrafan skv. þessari leið kr. 1.276.800.

 

 

 

Bætur miðað við framreiknað verðlag 2005:

 

Eignarnemi kveður malarverð úr námum á þessu svæði hafa verið kr. 65 @ m³ á árinu 2005. Dráttarvextir á þá fjárhæð frá 1. janúar 2005 til 12. janúar 2009 séu kr. 87. Af þessum sökum ætti rúmmetraverð malarefnis að vera kr. 152 @ m³. Eignarnámsþoli telur því að bætur ættu að vera sem hér segir:

 

Fyllingarefni 7.500 m³ @ 152                                                kr.        1.140.000

Bundið slitlag 400 m³ @ 120 x 1,6                                        kr.             97.280

Samtals                                                                                   kr.        1.237.280      

 

Að auki krefst eignarnámsþoli kr. 300.000 í bætur fyrir jarðrask og óþægindi eins og í fyrri aðferð. Samtals er bótakrafan skv. þessari leið því kr. 1.537.280.

 

 

VI.  Álit matsnefndar:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Ákvörðun eignarnámsbóta miðast við verðlag á matsdegi.

 

Við mat á hinu eignarnumda malarefni er við það miðað að efnið sé gott efni og hafi m.a. nýst í steypugerð. Náman sé á markaðssvæði og efnið sé aðgengilegt. Kostnaður eignarnema við að nýta það var óverulegur þar sem ekki þurfti að aka því um langan veg heldur var hægt að ýta því upp að mestum hluta. Með vísan til þessa og fram lagðra gagna um efnissölur af svæðinu þykja hæfilegar bætur fyrir 7.900 m³ malarefnis í máli þessu vera kr. 711.000.

 

Ekki þykja efni til að ákvarða sérstakar bætur fyrir rask og óþægindi í máli þessu.

 

Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþola kr. 763.404,  þ.m.t. virðisaukaskattur, í kostnað vegna rekstur máls þessa fyrir matsnefndinni.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 500.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, 680269-2900, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, eiganda Hólagerðis, Fjarðabyggð, samtals kr. 711.000 í eignarnámsbætur og kr. 563.404 í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 500.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.

 

 

________________________________

Helgi Jóhannesson

 

______________________________                      ___________________________

Magnús Leópoldsson                                                Ragnar Ingimarsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum