Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Nr. 229/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 229/2019

Þriðjudaginn 3. september 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 4. júní 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2019, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 3. maí 2019. Meðfylgjandi umsókn kæranda var vottorð fyrrverandi vinnuveitanda frá B þar sem fram kemur að kærandi hafi sjálf sagt starfi sínu lausu. Með umsókn kæranda barst einnig yfirlýsing hennar vegna starfsloka. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2019, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hennar hjá síðasta vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. júní 2019. Með bréfi, dags. 6. júní 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 18. júní 2019, og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti, dags. 1. júlí 2019, og voru þær sendar stofnuninni til kynningar með bréfi, dags. 2. júlí 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að úrskurði Vinnumálastofnunar verði hnekkt svo að hún eigi rétt á atvinnuleysisbótum frá umsóknardegi. Vinnumálastofnun hafi talið rök kæranda ekki réttmæt sem kærandi telji ekki vera rétt.

Kærandi hafi unnið á B sem geri miklar kröfur til starfsmanna. Ekki sé hægt að bíða með að gera það sem gera þurfi þangað til daginn eftir. Það hafi átt að vera X starfsmenn [...] en oftar en ekki hafi [...] verið X vegna fjarvista og veikinda með auknu álagi fyrir þá starfsmenn sem voru. [...]

Kærandi hafi þurft að búa við þetta starfsumhverfi sem hafi verið iðulega undirmannað. Kærandi hafi farið að finna fyrir andlegum og líkamlegum veikindum og stressi þrátt fyrir að vera við góða heilsu almennt. Að þurfa að vinna á vinnustað sem gangi á heilsu fólks sé vart bjóðandi og kærandi hljóti að hafa fullan rétt til að segja upp og finna vinnu sem bjóði upp á betra starfsumhverfi. Ekki megi ætlast til að kærandi búi til þau skilyrði að henni sé sagt upp þannig hún eigi rétt á atvinnuleysisbótum frá fyrsta degi.

Þess vegna fari kærandi fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála leggi réttmætt og sanngjarnt mat á þessar aðstæður sem kærandi hafi búið við og jafnframt meti þær réttmætar og fullgildar ástæður fyrir því að kærandi hafi sagt upp. Það verði hver og einn að vera ábyrgur fyrir og passa upp á eigin heilsu án þess að þurfa að sæta refsingu og viðurlögum.

Það sem vekji athygli kæranda varðandi greinargerð Vinnumálastofnunar sé að þar sé fullyrt að matskennt sé hvaða ástæður skuli teljast gildar þegar starfsmaður segi sjálfur upp störfum og Vinnumálastofnun sé falið að meta atvik og ástæður hverju sinni. Jafnframt segi í úrskurði Vinnumálastofnunar að þeir túlki „gildar ástæður“ afar þröngt og umsóknir því nánast sjálfkrafa afgreiddar sem ógildar. Því megi segja að þetta sé fremur vinnuregla hjá þeim varðandi úrlausn mála en að leggja faglegt mat á rök og ástæður hverju sinni. Jafnframt megi segja að sú röksemd sem Vinnumálastofnun beri fyrir sig í því að óánægja starfsmanns með vinnuálag eða vinnuaðstöðu geri þá kröfu til hans að hann skuli leita allra úrræða til að leiðrétta það í gegnum yfirmann eða verkalýðsfélag sé með ólíkindum.

Nú haldi kærandi að það tíðkist ekki á vinnustöðum almennt að starfsfólk geti rætt við yfirmenn og gert þá kröfu að fleira starfsfólk verði ráðið vegna manneklu eða fjarvista hjá öðrum. Hvað þá að hægt væri að fara með eitthvað slíkt áfram til verkalýðsfélags. Svona kröfur séu fyllilega óréttmætar, ósanngjarnar og óraunhæfar af hálfu Vinnumálastofnunar og eðlilegast að úrskurðarnefnd velferðarmála dæmi þau rök ómerk og ógild í máli þessu.

Jafnframt sé óraunhæft af Vinnumálastofnun að ætlast til þess að kærandi leggi fram læknisvottorð sem sýni fram á að hún hafi þurft að hætta af heilsufarsástæðum. Fólk sé alla jafnan sjálft best til þess fallið að leggja mat á það hvernig heilsu þess hrakar undir vissum kringumstæðum og við vissar starfsaðstæður. Læknir geti tæpast lagt eitthvað raunhæft mat á það hvernig heilsu einhvers hafi hrakað yfir eitthvert visst tímabil. Þeir geti skrifað læknisvottorð en þau segi tæpast alla söguna.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 segi:

,,Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf sé ekki í boði. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður, sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum, séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysistryggingar skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Ljóst sé að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu. Ágreiningur snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis.

Ástæður kæranda fyrir uppsögn sinni séu útlistaðar í skýringum hennar á starfslokum og í kæru til úrskurðarnefndar. Að sögn kæranda hafa hún sagt starfi sínu lausu vegna álags sökum manneklu og veikinda [...]. Þá hafi starfið verið líkamlega erfitt og kærandi hafi fundið fyrir bakverkjum. Þá hafi hún einnig verið farin að finna fyrir einkennum af stressi og astma.

Vinnumálastofnun telji að í þeim tilvikum þar sem óánægja starfsmanns með vinnuálag eða vinnuaðstöðu sé ástæða starfsloka þurfi sá er hlut á að máli að minnsta kosti að hafa gert tilraunir til úrbóta með aðkomu yfirmanns á vinnustað eða stéttarfélags síns áður en hann taki ákvörðun um að segja starfi sínu lausu. Verði að gera þá kröfu að launamenn sem telji sig ekki geta gegnt starfi sínu áfram fullreyni úrræði til úrbóta áður en þeir segi starfi sínu lausu og sæki um atvinnuleysisbætur. Í máli kæranda liggi ekki fyrir neinar upplýsingar um að tilraunir til úrbóta hafi verið fullreyndar áður en hún hafi sagt starfi sínu lausu. Þó að það kunni að vera líkamlega erfitt að sinna störfum [...] verði ekki fallist á að starfsaðstæður á [...] séu almennt með þeim hætti að atvinnuleitendur geti án frekari skýringa hætt störfum sínum án þess að sæta biðtíma fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi ekki fært fram læknisvottorð eða önnur gögn sem sýni fram á að hún hafi þurft að segja starfi sínu lausu af heilsufarsástæðum. Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir á því hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi sagt starfi sínu lausu vegna álags sökum manneklu og veikinda. Starfið hafi verið líkamlega erfitt og kærandi fundið fyrir bakverkjum. Þá hafi hún verið farin að finna fyrir einkennum af stressi og astma. Í framkvæmd hefur verið gerð sú krafa til launamanna að þeir nýti sér öll tiltæk úrræði til úrbóta áður en þeir ákveða að segja starfi sínu lausu. Kærandi leitaði ekki slíkra úrræða áður en hún sagði starfi sínu lausu og hafði ekki annað starf í hendi. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilgreindar ástæður kæranda fyrir starfslokum hennar séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á bið í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2019, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum