Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 116/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 116/2022

Fimmtudaginn 19. maí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. febrúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 21. júlí 2020. Með ákvörðun, dags. 18. ágúst 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 89%. Þann 19. janúar 2022 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. febrúar 2022, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá B. Skýringar bárust frá kæranda þann 10. febrúar 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hefðu verið stöðvaðar frá og með 19. febrúar 2022 á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 13. apríl 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. apríl 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún telji ákvörðun Vinnumálastofnunar ekki sanngjarna þar sem hún hafi verið á samningi hjá Vinnumálastofnun um þátttöku í „Frumkvæði“ og hafi þeim samningi lokið í desember 2021. Kærandi hafi sent inn markaðsáætlun fyrir fyrirtæki sitt til Vinnumálastofnunar og í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar hafi hún skráð sig í 25% vinnu hjá eigin fyrirtæki og hafi því aðeins þegið 75% atvinnuleysisbætur frá því í byrjun janúar 2022. Þann 18. janúar 2022 hafi kærandi talað við annan ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun þar sem henni hafi verið tilkynnt að hún ætti aðeins um fimm mánuði eftir á atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi þá séð fram á að geta bætt við sig meiri vinnu í eigin fyrirtæki og hafi vonast til að vera komin í 60-70% vinnu innan nokkurra mánaða. Hún hafi verið hvött áfram og henni sagt að hún væri að gera góða hluti og ætti að halda áfram á þessari braut. Henni hafi aldrei verið sagt að leita að 100% starfi heldur hafi hún staðið í þeirri trú að hún væri í 75% virkri atvinnuleit. Þetta þurfi að koma fram á stöðufundum þar sem hún sé hvött til að halda áfram með eigið fyrirtæki. Ekkert annað hafi verið sagt en að hún væri að gera frábæra hluti og að það væri fullur skilningur á að hún vildi bæta við sig vinnu hjá eigin fyrirtæki.

B hafi haft samband við kæranda og viljað bjóða henni að koma í atvinnuviðtal. Hún hafi þá sagst vilja mæta í viðtal en hafi viljað vera hreinskilin og því tjáð viðkomandi að hún hafi nýverið skráð sig í 25% starf og væri því að leita að 75% starfi. Kærandi hafi staðið í þeirri trú að hún mætti það þar sem hún hafi einungis verið skráð í 75% atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun. Viðkomandi hafi hins vegar ekki verið lengi að segja að slíkt myndi ekki ganga þar sem verið væri að leita að starfsmanni í 100% starf. Kærandi hafi því engu hafnað. Hún hafi verið til í að mæta í atvinnuviðtal þar sem hún sé opin fyrir allskonar starfstækifærum sem geti nýst henni við að halda áfram með eigið fyrirtæki. Hún sé því ekki sammála því að hún hafi hafnað einu eða neinu, hvorki atvinnuviðtali né vinnu.

Í febrúar hafi verið hringt í kæranda vegna átaks Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar. Þar hafi hún kynnt sig og sagst vera í 25% starfi í eigin fyrirtæki og að hún hafi vonast til að geta hætt á atvinnuleysisbótum innan fjögurra mánaða. Sá sem hafi haft samband hafi hvatt hana áfram og enn og aftur hafi henni ekki verið sagt að hún ætti að leita að meira en 75% starfi. Kærandi velti því fyrir sér hvar sé að finna ráðgjöf um framhald þess að skrá sig í hlutastarf ef þetta endi með því að hún fái ekki atvinnuleysisbætur þegar hún sé full af vilja gerð til að finna vinnu samhliða starfi í eigin fyrirtæki.

Kærandi telji þetta mjög ósanngjarnt þar sem hún hafi tekið þátt í „Frumkvæði“, hafi verið hvött til að halda áfram á sinni braut og hafi tekist að skrá sig í vinnu hjá sjálfri sér og aðeins átt fimm mánuði eftir af rétti til atvinnuleysisbóta. Hún hafi séð fram á að geta alfarið farið að vinna hjá sjálfri sér en nú sé það erfiðara. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar þurfi að veita fólki sem skráir sig í hlutastarf úskýringar. Þetta þurfi að vera sanngjarnt, enda hafi kærandi engu hafnað. Hún hafi verið hreinskilin og haldið að það væri leyfilegt að segja þeim sem hafi haft samband frá B að hún væri skráð í hlutastarf. Hún sé aðeins í 75% atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun og fái því atvinnuleysisbætur í samræmi við það.

Vinnumálastofnun sé að kasta henni út þegar hún eigi aðeins fimm mánuði eftir af bótarétti og þeir mánuðir skipti sköpum fyrir hana til að halda áfram að byggja upp fyrirtæki sitt sem hún hafi verið með í „Frumkvæði“, verkefni sem ráðgjafar Vinnumálastofnunar hafi verið að hvetja hana áfram með.

Kærandi vonist til að fá tækifæri til að halda áfram á atvinnuleysisbótum þar sem hún eigi stutt eftir og bæturnar geti sannarlega gert mikið. Það sé ekkert mál að fara í atvinnuviðtal og taka vinnu en það hefði verið gott að vita hvað fælist í því að vera komin í 25% starf annars staðar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 21. júlí 2020. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur hennar væri 89%. Þann 22. desember hafi kærandi skráð sig í 25% hlutastarf hjá eigin fyrirtæki og hafi skráningin tekið gildi þann 3. janúar 2022. Þann 19. janúar 2022 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Ferilskrá kæranda hafi verið send atvinnurekanda í byrjun desember 2021.

Með erindi, dags. 9. febrúar 2022, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á höfnun á starfi hjá B. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að hafi atvinnuleitandi hafnað atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða missi bótaréttar með vísan til 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skýringar hafi borist frá kæranda þann 10. febrúar 2022. Þar hafi kærandi sagt að hún hafi ekki hafnað starfinu heldur hafi hún í símtali við atvinnurekanda upplýst hann um að hún væri nú þegar skráð í 25% starf og því væri hún að leita eftir lægra starfshlutfalli en 100%. Atvinnurekandi hafi þá dregið tilboð um atvinnuviðtal til baka þar sem óskað væri eftir starfskrafti í fullt starf. Þá hafi kærandi greint frá því að hún ætti aðeins um fimm mánuði eftir af bótarétti sínum og væri að vinna í því að hækka starfshlutfall sitt hjá eigin fyrirtæki. Kærandi hafi ítrekað það að hún hafi ekki hafnað starfinu heldur hafi hún upplýst atvinnurekanda um hlutastarf sitt en það hafi ekki hentað honum.

Með erindi, dags. 19. febrúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hennar vegna höfnunar á starfi hefðu ekki verið metnar gildar. Af þeirri ástæðu væru greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar stöðvaðar. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda vegna höfnunar á starfi.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum komi ekki í veg fyrir að hinn tryggði taki starfi sem bjóðist á þeim tíma, sbr. 3. mgr. 14. gr. laganna.

Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram í athugasemdum við 14. gr. að mikilvægt sé að einstaklingurinn sé reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um sé að ræða fullt starf eða hlutastarf. Því sé ekki gert ráð fyrir að hinn tryggði geti takmarkað atvinnuleit sína við það tryggingahlutfall sem hann hafi áunnið sér innan kerfisins, nema undanþágur 4. mgr. eigi við.

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi. Ákvæðið sé svohljóðandi:

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Ágreiningur í máli þessu snúi meðal annars að því hvort kærandi hafi hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg, en í 4. mgr. segi orðrétt:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram í athugasemdum við 57. gr. laganna að þrátt fyrir að vera í hlutastarfi og hafa hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti sé áfram gert ráð fyrir að atvinnuleitandi verði að uppfylla skilyrði laganna til að teljast tryggður, þar á meðal að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laganna.

Þá segi í 5. mgr. 57. gr.:

„Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu.

Fyrir liggi að kæranda hafi verið boðið í atvinnuviðtal hjá B. Kærandi hafi gefið skýringar á höfnun á atvinnuviðtali til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt upplýsingum frá B hafi kærandi hafnað starfi þar sem hún væri einungis að leita að hlutastarfi. Kærandi kveðist ekki hafa hafnað starfinu en hafi þó upplýst atvinnurekanda um að hún væri nú þegar skráð í 25% starf og væri því ekki að leita að fullu starfi. Atvinnurekandi hafi í kjölfarið dregið tilboð um atvinnuviðtal til baka þar sem eingöngu hafi verið óskað eftir starfskrafti í 100% starf. Í skýringum kæranda með kæru til úrskurðarnefndarinnar segi jafnframt að hún hafi tekið þátt í „Frumkvæði“, starfstengdu vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar, og hafi í kjölfarið skráð sig í 25% starf hjá eigin fyrirtæki. Kærandi hafi þó aldrei verið upplýst um að hún ætti að leita að 100% vinnu heldur hafi hún staðið í þeirri trú að hún væri í 75% atvinnuleit. Kærandi hafi gert athugasemd við að ráðgjöf um áhrif þess að skrá sig í hlutastarf væri ábótavant. Kærandi hafi ítrekað að hún hefði ekki hafnað atvinnuviðtali þar sem henni hafi ekki verið boðin vinna. Hún hafi verið tilbúin að fara í atvinnuviðtal og taka vinnu en það hefði verið gott að vita hvað fælist í því að vera komin í 25% vinnu annars staðar.

Eins og fyrr segi hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá þurfi atvinnuleitendur jafnframt að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Einnig sé sérstaklega fjallað um tilvik sem þessi í athugasemdum með 17. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar. Þar komi fram að hinn tryggði þurfi að uppfylla það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit þó að viðkomandi sé í hlutastarfi á móti greiðslum atvinnuleysisbóta. Svo segi: „í því felst meðal annars að hann sé reiðubúinn að taka störfum sem bjóðast og fela í sér hærra starfshlutfall en starf það sem hann gegnir eða hlutastörf á móti starfi hans.“ Atvinnuleitendur geti því ekki hafnað störfum á þeim forsendum að þeir séu þegar í hlutastarfi.

Fyrir liggi að kæranda hafi verið boðið að koma í atvinnuviðtal vegna 100% starfs en hafi tilgreint í símaviðtali við atvinnurekanda að hún væri ekki að leita að fullu starfi. Samkvæmt skýringum kæranda hafi hún ekki hafnað atvinnuviðtali heldur hafi hún upplýst  atvinnurekanda um að hún væri þegar í 25% starfi og væri því að leita að hlutastarfi á móti. Að mati Vinnumálastofnunar megi leggja afstöðu kæranda í símaviðtali að jöfnu við það að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali.

Í ljósi framangreinds séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði en atvinnuleitendur geti almennt ekki hafnað störfum á þeim forsendum að þeir séu þegar í hlutastarfi. Slíkar skýringar samræmist ekki skilyrðum 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit atvinnuleitanda. Við móttöku umsóknar um atvinnuleysistryggingar veiti Vinnumálastofnun öllum atvinnuleitendum leiðbeiningar um hvar megi finna upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda. Öllum atvinnuleitendum sé vísað á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem meðal annars sé að finna skýrar upplýsingar um afleiðingar þess að hafna starfi án gildra ástæðna. Ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar séu skýr hvað varði skyldu atvinnuleitanda til að taka störfum sem í boði séu og um höfnun á atvinnutilboðum. Út frá fyrirliggjandi gögnum sé ekki fallist á að kærandi hafi verið reiðubúin að taka því starfi sem hafi boðist, án sérstaks fyrirvara.

Með vísan til framangreinds sé ljóst að kærandi hafi hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Að mati Vinnumálastofnunar séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði, sbr. 4. mgr. ákvæðisins. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli laganna. Þar sem kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur lengur en 24 mánuði á sama tímabili missi hún rétt sinn til bóta, sbr. 5. mgr. 57. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í 5. mgr. 57. gr. segir að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili samkvæmt 29. gr. þegar atvik sem lýst sé í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. Í því ákvæði kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins var ferilskrá kæranda send til B þann 7. desember 2021. Þann 19. febrúar 2022 barst Vinnumálastofnun tilkynning frá atvinnurekanda um að kærandi hefði hafnað starfi vegna þess að hún væri að leita eftir hlutastarfi. Kærandi hefur vísað til þess að hafa ekki hafnað atvinnutilboði þar sem henni hafi ekki boðist starfið. Enn fremur hefur kærandi greint frá því að hafa í símtali við atvinnurekanda upplýst hann um að hún væri þegar í 25% starfi hjá eigin fyrirtæki og væri því aðeins að leita að hlutastarfi. Atvinnurekandinn hafi verið að leita að einstaklingi í fullt starf og hafi af þeim sökum ekki boðið henni starfið. Þá hefur kærandi gefið þær skýringar að hún hafi verið tilbúin til að ráða sig í 75% starf á móti vinnu í eigin fyrirtæki. Að mati úrskurðarnefndarinnar voru viðbrögð kæranda í framangreindu símtali ígildi þess að hafna starfi, enda urðu þau til þess að ekki kom til greina að ráða hana í starfið. Þá er að mati úrskurðarnefndarinnar ekki réttlætanlegt að hafna tilboði um 100% starf á þeirri forsendu að unnið sé í hlutastarfi. Úrskurðarnefndin bendir á að í 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. en í því felst meðal annars að hafa vilja og getu til að taka starfi, án sérstaks fyrirvara, sbr. d. lið 1. mgr. ákvæðisins og að vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu, sbr. f. lið 1. mgr. ákvæðisins. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður og skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á starfinu, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. febrúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum