Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 299/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 299/2021

Fimmtudaginn 26. ágúst 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. júní 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. júní 2021, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. maí 2021. Í kjölfarið barst Vinnumálastofnun vottorð vinnuveitanda þar sem ástæða starfsloka kæranda er skráð sem uppsögn. Með bréfi, dags 2. júní 2021, sendi Vinnumálastofnun bréf til vinnuveitanda kæranda vegna starfsloka hans. Í svari vinnuveitanda, dags. 4. júní 2021, kemur fram að ástæða uppsagnar hafi verið fjarvera frá vinnu án tilkynninga eða skýringa á meðan á fjarveru stóð. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 7. júní 2021, var kæranda veittur frestur til að koma að frekari athugasemdum um starfslokin áður en ákvörðun yrði tekin í máli hans. Skýringar bárust stofnuninni þann 8. júní 2021. Með erindi, dags. 10. júní 2021, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda væri bótaréttur hans hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. júní 2021. Með bréfi, dags. 22. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 7. júlí 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júlí 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust 12. júlí 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. júlí 2021, voru þær sendar til Vinnumálastofnunar til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að honum hafi verið sagt upp eftir rúmlega sjö ár í starfi, hann hafi unnið þriggja mánaða uppsagnarfrestinn til síðasta dags og skilað sinni smíði 100%. Kærandi hafi verið mikið frá vinnu vegna veikinda á árunum 2020 til 2021. Nokkrum starfsmönnum hafi verið sagt upp í Covid-19 faraldrinum, meðal annars félögum kæranda innan fyrirtækisins. Verkstjórinn hafi svo sett kæranda á 75% hlutabótaleið í apríl og maí 2020 vegna verkefnaskorts hjá fyrirtækinu.

Um mitt árið 2020, eftir uppsagnir innan fyrirtækisins, hafi þau sem enn hafi starfað hjá verkstæðinu rætt saman á kaffistofunni. Verkstjóri kæranda hafi þá sagt fyrir framan alla að ætlunin væri að segja kæranda upp. Þetta hafi átt að vera grín hjá honum en kærandi hafi ekki sagt orð. Ekkert sé eðlilegt við það að verkstjóri komi með svona innskot fyrir framan alla á kaffistofunni. Þetta hafi verið mjög óþægilegt. Nokkrum mánuðum seinna hafi kæranda svo verið sagt upp. Meðal annars vegna þessa hafi verið mikil veikindi hjá kæranda. Þegar kærandi hafi svo mætt til vinnu hafi hann verið með svo mikið samviskubit vegna fjarverunnar að hann hafi látið taka daga af orlofinu sínu eða skráð fjarveruna sem launalaust frí. Þá hafi kærandi tekið einhverja veikindadaga líka. Þetta hafi verið besta starf sem kærandi hafi verið í en það hafi líka verið margir slæmir dagar/mánuðir inn á milli því að það hafi verið mjög slæmur mórall á vinnustaðnum.

Eftir að kæranda hafi verið sagt upp hafi hann komist að því að fyrrum vinnuveitandi hans hafi ekki borgað honum rétt. Kona sem sjái um kjaramál hafi sagt kæranda að fyrrum vinnuveitandi hans hafi verið að svindla á honum. Kærandi hafi svo látið konuna hringja í launafulltrúann og leiðrétta launin sín. Launafulltrúinn hafi sent staðfestingu á starfstímabili kæranda rúmlega mánuði eftir að kærandi hafi beðið um hana. Launafulltrúinn hafi svo seinna sent upplýsingar um ástæður starfsloka kæranda. Það sem komi þar fram sé alls ekki allt rétt eins og sjá megi af skjáskotum í fylgiskjali. Launafulltrúinn hafi sagt að kærandi hafi ekki látið vita um öll skiptin þegar hann hafi verið veikur. Það hafi kannski komið fyrir einhvern tímann, en kærandi hafi þá verið þungur og allt í svartnætti í huganum og hann verið rúmliggjandi. Fyrrum verkstjóri kæranda viti að kærandi glími við þunglyndi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 1. maí 2021. Þann 25. maí 2021 hafi stofnunin óskað eftir vinnuveitandavottorði frá B ehf. Þann 28. maí 2021 hafi stofnuninni borist vottorðið en samkvæmt því hafi ástæða starfsloka kæranda verið uppsögn. Þann 2. júní 2021 hafi stofnunin sent bréf til vinnuveitanda kæranda vegna starfslokanna. Í svari launafulltrúa vinnuveitanda komi fram að ástæða uppsagnar kæranda hafi verið mikil fjarvera frá vinnu, sérstaklega á síðasta ári, án tilkynningar eða nokkurra skýringa á meðan á fjarveru hafi staðið. Auk þess komi fram að stundum hafi kærandi komið með skýringar á fjarveru þegar hann hafi mætt aftur til vinnu, oft veikindi, en oft hafi ekki verið nein skýring þar á önnur en frítaka og fjarvera þá skráð eftir á sem orlof.

Með bréfi, dags. 7. júní 2020, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum uppsagnar hans. Þann 8. júní 2021 hafi borist skýringar frá kæranda þar sem meðal annars komi fram að kærandi trúi ekki að Vinnumálastofnun ætli að taka því sem gildu sem launafulltrúi fyrrum vinnuveitanda hafi sent þeim. Launafulltrúanum sé í nöp við sig því að kærandi hafi komist að því að svindlað hafi verið á honum og launafulltrúinn hafi þurft að leiðrétta launin hans eftir að hafa fengið símtal frá manneskju sem sjái um kjaramál.

Þann 21. júní 2021 hafi mál kæranda verið tekið til endurumfjöllunar eftir að nýtt skýringarbréf hafi borist frá kæranda. Kærandi hafi einnig sent skjáskot af samtölum sínum við yfirmann sinn þegar kærandi hafi tilkynnt um veikindi eða hann hafi þurft að gera eitthvað þegar eitthvað hafi komið upp á. Það hafi verið mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á ástæðum starfsloka hafi ekki talist gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og með bréfi, dags. 21. júní 2021, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hans um atvinnuleysisbætur en með vísan til starfsloka hjá B ehf. hafi réttur kæranda til atvinnuleysisbóta verið felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðunin um niðurfellingu bótaréttar hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar til þess að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur eigi sök á. 

Í 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum en hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur eigi sök á. Hinn tryggði skuli uppfylla skilyrði laganna á biðtímanum samkvæmt 1. mgr.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ágreiningur snúist um það hvort skýringar kæranda vegna starfsloka hans teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir.  

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggi til grundvallar frá atvinnurekanda hafi kærandi verið mikið fjarverandi frá vinnu, sérstaklega á síðasta ári, án tilkynningar eða nokkurra skýringa á meðan á fjarveru stóð. Auk þess komi fram að stundum hafi kærandi komið með skýringar á fjarveru þegar hann hafi mætt aftur til vinnu, oft veikindi, en vinnuveitandi segi að oft hafi ekki verið nein skýring þar á önnur en frítaka og fjarvera þá skráð eftir á sem orlof. Ekki liggi fyrir önnur gögn af hálfu kæranda en skýringarbréf hans vegna uppsagnar og skjáskot af samskiptum hans við yfirmann sinn. Bendi Vinnumálastofnun á að stofnuninni hafi ekki borist umsögn frá stéttarfélagi kæranda vegna málsins eða önnur gögn til stuðnings framburði kæranda. 

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og í ljósi framangreindra sjónarmiða sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda vegna starfsloka hans hjá B ehf. geti ekki talist gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 54. gr. laganna. Verði að telja að starfsmaður eigi að geta gert sér grein fyrir því að honum verði sagt upp störfum ef hann mæti illa til vinnu.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum hjá B ehf. en ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann átti sjálfur sök á.

Í skýringum fyrrum vinnuveitanda kæranda til Vinnumálastofnunar kemur fram að ástæða uppsagnar hafi verið mikil fjarvera frá vinnu, sérstaklega árið 2020, án tilkynninga eða nokkurra skýringa á meðan á fjarveru stóð. Alls hafi fjarverustundir kæranda frá janúar 2020 til mars 2021 verið 683 tímar eða tæpir fjórir mánuðir. Kærandi hafi stundum komið með skýringu á fjarveru þegar hann hafi mætt aftur til vinnu og oft hafi það verið veikindi. Oft hafi ekki fengist nein skýring önnur en frítaka og fjarvera hafi þá verið skráð eftir á sem orlof. Að mati Vinnumálastofnunar verði að telja að starfsmaður eigi að geta gert sér grein fyrir því að honum verði sagt upp störfum ef hann mæti illa til vinnu.

Kærandi hefur mótmælt framangreindum skýringum og sagt þær ekki standast en þessir fjórir mánuðir innihaldi einnig orlofsdaga og launalaus frí. Kærandi hefur lagt fram fjölda skjáskota af samskiptum sínum við yfirmann þar sem hann láti vita að hann sé veikur eða þurfi að taka sér frí. Þá hefur kærandi vísað til þess að yfirmaður hans hafi vitað að kærandi glími við þunglyndi.

Að framangreindu virtu og gögnum málsins má sjá að kæranda og fyrrum vinnuveitanda hans ber ekki saman um hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur átti sök á. Líkt og áður hefur komið fram var kærandi fjarverandi frá vinnu í 683 tíma á tímabilinu janúar 2020 til mars 2021, oft vegna veikinda. Þá tók kærandi bæði orlofsdaga og launalaust leyfi á framangreindu tímabili. Ýmsar ástæður geta skýrt fjarveru fólks frá vinnu en samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í þeim tilvikum þegar um er að ræða veikindi starfsmanns verður ekki séð hvernig starfsmaður geti sjálfur átt sök á fjarveru sinni. Ljóst er að Vinnumálastofnun leggur til grundvallar skýringar fyrrum vinnuveitanda kæranda án þess að fá nánari upplýsingar um fjarveru kæranda frá vinnu, svo sem hve marga tíma megi rekja til veikinda, hve margir tímar teljast til orlofs og svo framvegis. Að mati úrskurðarnefndar verður ekki séð að fullnægjandi upplýsingar um ástæður fjarveru kæranda frá vinnu hafi legið fyrir þegar stofnunin tók ákvörðun í máli hans.

Í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Með því að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði án þess að fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar og gögn var þeirri skyldu ekki fullnægt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. júní 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum