Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 98/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 12. febrúar 2020

í máli nr. 98/2019

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða leigu vegna ágúst, september og október 2019. Jafnframt að viðurkennt verði að varnaraðila beri að skila lyklum að hinu leigða og tæma það fyrir 31. október 2019.

Með kæru, dags. 8. október 2019, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 9. október 2019, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Kærunefnd ítrekaði beiðni um greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 23. október 2019. Með því bréfi fékk varnaraðili frest til 4. nóvember 2019 til þess að skila greinargerð og var hann upplýstur um að kærunefnd tæki málið til úrlausnar að þeim tíma liðnum á grundvelli þeirra gagna sem lægju fyrir. Greinargerð varnaraðila barst ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. ágúst 2018 til 1. ágúst 2019, um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að C. Ágreiningur er um lok leigutíma og leigu vegna ágúst til október 2019.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að 9. maí 2019 hafi varnaraðili óskað eftir endurnýjun á leigusamningi aðila. Sóknaraðili hafi svarað með tölvupósti 20. maí 2019 með tilboði um að endurnýja samninginn frá 1. ágúst 2019 til 1. ágúst 2020 með sömu kjörum og fyrri samningur. Hún hafi beðið varnaraðila um að prenta út samninginn, undirrita og skila til hennar tveimur frumritum. Þrátt fyrir áminningar sóknaraðila hafi varnaraðili ekki skilað til hennar frumriti. Þann 27. ágúst 2019 hafi sóknaraðili sent varnaraðila tölvupóst um endurnýjun samningsins og bent á að leiga væri ógreidd vegna ágúst 2019. Sama dag hafi varnaraðili sagt að hún hefði yfirgefið Ísland vegna persónulegra ástæðna um óákveðinn tíma og að hún væri ekki lengur fær um að halda áfram að leigja íbúðina.

Þann 9. september 2019 hafi varnaraðili óskað eftir að leigja íbúðina og sóknaraðili samþykkt það 10. september 2019 að því tilskildu að leiga vegna ágúst og september yrði greidd. Vegna vanefnda varnaraðila hafi sóknaraðili með tölvupósti 20. september 2019 upplýst að hún hygðist segja samningnum upp og innheimta ógreidda leigu. Þar sem varnaraðili hafi ekki svarað þeim tölvupósti hafi sóknaraðili sent formlega tilkynningu með bréfi, dags. 25. september 2019, en varnaraðili hafi ekki nálgast bréfið hjá pósthúsinu.

III. Niðurstaða

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því úrlausn málsins byggð á þeim gögnum og sjónarmiðum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.

Sóknaraðili sendi varnaraðila bréf, dags. 25. september 2019, þar sem rakið er að varnaraðili hefði hvorki endurnýjað leigusamning aðila né greitt leigu frá 1. ágúst 2019. Sóknaraðili krafðist þess því að varnaraðili myndi tæma íbúðina, greiða vangreidda leigu og skila lyklum.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, lýkur tímabundnum leigusamningi á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Leigusamningur aðila rann út 1. ágúst 2019. Samkvæmt rafrænum samskiptum aðila óskaði varnaraðili eftir að fá að endurnýja samning þeirra. Sóknaraðili féllst á það á þeirri forsendu að leiguvanskil yrðu gerð upp og að gerður yrði skriflegur samningur. Þar sem varnaraðili gerði hvorugt telur kærunefnd að samningur aðila hafi ekki verið framlengdur. Allt að einu ber varnaraðila að greiða leigu þar til hún afhendi sóknaraðila aftur umráð eignarinnar. Kærunefnd fékk upplýsingar frá sóknaraðila um að hann hafi fengið umráð eignarinnar 1. nóvember 2019. Ákvæði 62. gr. húsaleigulaga kveður á um að leigjandi skuli bæta leigusala það tjón sem leiðir beint af vanefndum hans, sem leiða til riftunar, og honum beri að greiða bætur sem jafngilda leigu til loka leigutímans, en ella til þess tíma er honum hefði verið rétt að rýma húsnæðið samkvæmt uppsögn. Bar varnaraðila því að greiða sóknaraðila leigubætur fyrir október 2019. Kærunefnd fellst því á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að greiða leigu vegna tímabilsins 1. ágúst 2019 til 31. október 2019.

Þar sem sóknraðili hefur þegar fengið umráð eignarinnar er kröfu hans um viðurkenningu á því að varnaraðila beri að afhenda honum lykla að eigninni vísað frá.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. sömu greinar eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að greiða sóknaraðila leigu vegna tímabilsins 1. ágúst 2019 til 31. október 2019.

Öðrum kröfum er vísað frá.

 

Reykjavík, 12. febrúar 2020

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum