Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 17/2018. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Með kæru 24. september 2018 kærði Þjótandi ehf. útboð Flóahrepps „Flóaljós, nýlögn ljósleiðara 2018-2019“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Flóahrepps (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að ganga til samninga við SH leiðarann ehf. Þá gerir kærandi þá kröfu að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og bárust þær með greinargerðum 1. og 19. október 2018 þar sem þess var krafist að öllum kröfum kæranda yrði hafnað eða vísað frá. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila en tilkynnti nefndinni 18. desember 2018 að hann gerði ekki frekari athugasemdir.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 13. mars 2019
í máli nr. 17/2018:
Þjótandi ehf.
gegn
Flóahreppi
og SH leiðaranum ehf.

Með kæru 24. september 2018 kærði Þjótandi ehf. útboð Flóahrepps „Flóaljós, nýlögn ljósleiðara 2018-2019“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Flóahrepps (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að ganga til samninga við SH leiðarann ehf. Þá gerir kærandi þá kröfu að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og bárust þær með greinargerðum 1. og 19. október 2018 þar sem þess var krafist að öllum kröfum kæranda yrði hafnað eða vísað frá. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila en tilkynnti nefndinni 18. desember 2018 að hann gerði ekki frekari athugasemdir.

Með ákvörðun 10. október 2018 hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu varnaraðila um að stöðva samningsgerð milli varnaraðila og SH leiðarans ehf. vegna útboðsins.

I

Í ágúst 2018 auglýsti varnaraðili útboðið „Flóaljós, nýlögn ljósleiðara 2018-2019“ þar sem óskað var eftir tilboðum í lagningu ljósleiðara, með plægingu eða greftri, í Flóahreppi. Í grein 0.1.3 í útboðsgögnum voru tilgreind þau gögn og þær upplýsingar sem bjóðendum var skylt að láta varnaraðila í té. Í sömu grein voru einnig sett ýmis óundanþæg skilyrði sem bjóðandi eða undirverktaki yrði að uppfylla til þess að geta komið til álita sem viðsemjandi. Var meðal annars gerð krafa um að skilað yrði ársreikningi síðustu tveggja ára. Þá var gert að skilyrði að bjóðandi eða undirverktaki hefði reynslu af sambærilegum jarðvinnu- og jarðlagnaverkefnum á undanförnum fimm árum. Tekið var fram að sambærilegt verk teldist lagning á strengjum með plægingu að lágmarki 25 km í samfelldu verki, blástur a.m.k. 100 km af ljósleiðara í blástursrör síðastliðin fimm ár og a.m.k. 500 ljósleiðaratengingar síðastliðin fimm ár. Fjögur tilboð bárust og var tilboð SH leiðarans ehf. lægst en tilboð kæranda næst lægst. Hinn 7. september 2018 ákvað varnaraðili að velja tilboð SH leiðarans ehf.

II

Kærandi byggir á því að lægstbjóðandi hafi skilað ársreikningi fyrir árið 2017 eftir opnun tilboða. Samkvæmt útboðsgögnum hafi bjóðandi einnig þurft að geta sýnt fram á að hann hefði lokið lagningu á strengjum með plægingu að lágmarki 25 km í samfelldu verki. Kærandi telur að fyrirtækið sem var valið hafi enga reynslu af lagningu á strengjum með plægingu og það sama eigi við um undirverktaka þess. Þau verk sem varnaraðili vísi til að lægstbjóðandi hafi unnið telur kærandi að hafi hvorki verið unnin af lægstbjóðanda né tilgreindum undirverktaka hans. Sé ekki útilokað að starfsmenn undirverktakans hafi á síðustu fimm árum komið að þeim verkum sem vísað hafi verið til en ekkert þeirra verka nái þó 25 km í samfelldu verki eins og útboðsgögn hafi áskilið. Þá verði útboðsgögn ekki skilin með þeim hætti að átt sé við reynslu einstakra starfsmanna.

Varnaraðili vísar fyrst og fremst til þess að málið falli utan valdmarka kærunefndar útboðsmála enda hafi útboðinu verið ætlað að koma á verksamningi að fjárhæð sem sé undir viðmiðunarfjárhæð sveitarfélaga fyrir útboð innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og reglugerð nr. 178/2018.

III

Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að öll innkaup opinberra aðila yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum skuli bjóða út og gera í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í IV. kafla laganna. Samkvæmt 4. mgr. 123. gr. laganna öðlast ákvæði 1. mgr. 23. gr. þó ekki gildi fyrr en 31. maí 2019 að því er varðar innkaup sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila á þeirra vegum. Fram til þess tíma eru innkaup á vegum sveitarfélaga því ekki útboðsskyld nema þau nái viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 120/2016 kemur skýrt fram að ætlunin sé að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi hvað varðar innkaup sveitarfélaga til 31. maí 2019 og gefa sveitarfélögum þannig svigrúm til þess að laga innkaupareglur sínar og ferli að hinum nýju lögum. Samkvæmt þessu fjallar kærunefnd útboðsmála, að svo stöddu, aðeins um lögmæti innkaupa sveitarfélaga að því marki sem þau eru útboðsskyld á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í máli þessu stefndi varnaraðili að gerð verksamnings í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga um opinber innkaup, eins og greinin verður skýrð með hliðsjón af II. viðauka við tilskipun nr. 2014/24/ESB um opinber innkaup. Samkvæmt reglugerð nr. 178/2018 um auglýsingu innkaupa á útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup er viðmiðunarfjárhæð vegna innkaupa sveitarfélaga á verkum 721.794.800 krónur. Samkvæmt gögnum málsins voru öll tilboð sem bárust í hinu kærða útboði undir þeirri viðmiðunarfjárhæð en hæsta tilboðið nam 322.543.000 krónum. Þá mun kostnaðaráætlun varnaraðila vegna verksins hafa numið 276.390.050 krónum. Verður því að leggja til grundvallar að hin kærðu innkaup hafi ekki náð viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsskyldu sveitarfélaga samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga um opinber innkaup og reglugerð nr. 178/2018. Þar sem kærunefnd útboðsmála fjallar einungis um lögmæti innkaupa sem falla undir gildissvið laga um opinber innkaup fellur kæruefnið utan valdmarka nefndarinnar. Verður af þessari ástæðu að vísa málinu frá nefndinni. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Þjótanda ehf., vegna útboðs varnaraðila, Flóahrepps, „Flóaljós, nýlögn ljósleiðara 2018-2019“, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

Málskostnaður fellur niður.


Reykjavík, 13. mars 2019.

Skúli Magnússon

Auður Finnbogadóttir

Ásgerður RagnarsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira